Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

118/2014 Seljadalur

Árið 2014, föstudaginn 12. desember, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 118/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku í grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60 þús. m³.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. nóvember 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. tilgreindra íbúa í nágrenni við Hafravatnsveg í Mosfellsbæ, þá ákvörðun  bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014, að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku í grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60.000 m3. Er þess krafist að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi og að auki er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 28. nóvember 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 14. október 2014 var á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar tekin fyrir og samþykkt umsókn Malbikunarstöðvarinnar Höfða um framkvæmdarleyfi fyrir áframhaldandi  efnistöku í Seljadal í Mosfellsbæ frá október 2014 til 15. nóvember s.á. og frá apríl 2015 til 9. október s.á. Var óskað eftir framkvæmdarleyfi fyrir efnistöku að hámarki 60.0000 m3. Var afgreiðslan staðfest af bæjarstjórn hinn 22. s.m. Hinn 5. nóvember s.á óskaði Malbikunarstöðin Höfði eftir heimild til efnistöku og aksturs úr Seljadalsnámu fram að jólum 2014 og frá 16. mars til 9. október 2015, að undanskildu tímabilinu 1. júlí til 7. ágúst 2015. Hinn 11. nóvember 2014 var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar og var samþykkt að vísa erindinu til bæjarráðs til afgreiðslu. Hinn 25. s.m. gaf skipulagsfulltrúi umsögn þar sem hann taldi að fallast ætti á ósk Malbikunarstöðvarinnar um breyttan vinnslutíma  og var hún samþykkt á fundi bæjarráðs 27. s.m.

Skírskota kærendur til þess framkvæmdaleyfið muni skerða einkaréttindi og friðhelgi heimila þeirra og frístundahúsa með svo stórkostlegum hætti að ekki sé hægt að við una. Einnig muni grjótnámið leiða til verulegrar verðrýrnunar á eignum kærenda. Hafi kærendur ríka hagsmuni af stöðvun framkvæmdanna þegar í stað. Umferð þungaflutningabifreiða eftir Hafravatnsvegi sé þegar hafin og gert sé ráð fyrir að námugreftri verði lokið innan árs, eða hinn 9. október 2015. Séu hagsmunir kærenda ríkari en hagsmunir framkvæmdaraðila af námugreftrinum enda hafi hann legið niðri um nokkurt skeið. Sé hætta á að framkvæmdunum verði lokið áður en úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð sinn ef ekki verði fallist á stöðvun framkvæmdanna þar sem almennt sé málsmeðferðartími fyrir nefndinni nokkuð langur.

Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að kærendur hafi ekki lögvarinna hagsmuni að gæta við úrlausn málsins. Feli sú framkvæmd sem heimiluð hafi verið með hinu kærða leyfi í sér áframhaldandi heimild til efnistöku sem hafi átt sér stað um langt skeið og verði því ekki séð að hin kærða ákvörðun hafi gengið gegn einstaklingsbundnum og lögvörðum hagsmunum kærenda þrátt fyrir að þeir búi í nálægð við framkvæmdarsvæðið. Verði ekki séð að knýjandi nauðsyn sé til þess að stöðva framkvæmdir. Beri að hafa í huga að stöðvun framkvæmda sé þrautaúrræði og feli ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011, sem kveði á um stöðvun framkvæmda, í sér að stöðvun megi aðeins beita ef yfirvofandi sé að framkvæmdir hefjist eða þær hafi nýverið byrjað. Hafi hinar umdeildu framkvæmdir hafist fyrir nærri 30 árum og því séu þær hvorki að hefjast né séu yfirvofandi. Beri af þeim sökum að hafna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Séu framkvæmdirnar heimilaðar til 23. desember 2014 og frá 16. mars 2015. Sé því fyrra framkvæmdartímabilinu að ljúka og framkvæmdir muni ekki hefjast að nýju fyrr en á vormánuðum 2015. Af þeim sökum sé ekki að sjá að knýjandi þörf sé á stöðvun framkvæmda þegar engar framkvæmdir standi yfir og muni ekki gera næstu mánuði.

Skírskotar leyfishafi til þess að fyrirvaralaus stöðvun framkvæmda muni leiða til verulegs fjárhagslegs tjóns. Liggi fyrir að ekkert fjárhagslegt tjón verði hjá kærendum þótt efnistakan fari fram á hinum stutta gildistíma leyfisins. Muni hið kærða leyfi renna út 9. október 2015 og ljóst að hverfandi líkur séu á því að það takist að ná því efni sem leyfi hafi verið veitt fyrir úr námunni ef fallist verði á stöðvun framkvæmda. Megi því gera ráð fyrir tvíþættu tjóni, annars vegar vegna röskunar á verktilhögun og skipulagningu vetrarstarfsins hjá fyrirtækinu en einnig vegna minni heildar efnisvinnslu sem sé fyrirtækinu afar mikilvægt. Séu hagsmunir leyfishafa miklir þar sem það hafi verið gert ráð fyrir efnistökunni í rekstraráætlunum fyrirtækisins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðun til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Bera framangreind lagaákvæði með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrif og stöðvun framkvæmda.

Í máli þessu er deilt um gildi framkvæmdaleyfis vegna efnistöku úr Seljadalsnámu í Mosfellsbæ. Er heimild til efnistöku gefin til 9. október 2015 með hléum frá tímabilinu 23. desember 2014 til 16. mars 2015 og 1. júlí s.á. til 7. ágúst s.á. Er um tímabundnar framkvæmdir að ræða á svæði þar sem efnistaka hefur áður átt sér stað og mun framkvæmdahlé hefjast 23. desember n.k. Fyrir liggur að leyfishafi mun verða fyrir tilfinnanlegu tjóni ef af stöðvun framkvæmda verður. Að sama skapi liggur fyrir að ef verki yrði fram haldið yrði tímabundin röskun á hagsmunum kærenda, einkum vegna umferðar þungaflutningabifreiða sem og vegna hljóð- og rykmengunar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki talið að hagsmunir kærenda knýi á um beitingu þeirrar undantekningarheimildar að stöðva framkvæmdir og verður kröfu þeirra þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

____________________________________
Nanna Magnadóttir