Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

116/2022 Laufásvegur

Árið 2023, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2022 um að beita sér ekki fyrir því að skjólveggur á lóðamörkum Laufásvegar 43 og 45B verði fjarlægður.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur hússins að Laufásvegi 43, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2022 að beita sér ekki fyrir því að skjólveggur á lóðamörkum Laufásvegar 43 og 45B verði fjarlægður. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. nóvember 2022.

Málavextir: Hinn 27. ágúst 2021 sendi leigjandi Laufásvegar 43 erindi til byggingarfulltrúans í Reykjavík þar sem fram kom að á lóðamörkum Laufásvegar 43 og 45B væri steyptur veggur sem væri að hrynja og stafaði af honum slysahætta. Svaraði byggingarfulltrúi samdægurs og benti á að það væri á ábyrgð lóðarhafa við Laufásveg 45B að sinna viðhaldi veggjarins, væri hann allur í eigu þeirra lóðar, og að venjan væri að lóðarhafar hefðu samráð um frágang á lóðamörkum. Tækist ekki að finna lausn á málinu gæti byggingarfulltrúi skorað á eiganda að lagfæra vegginn. Samkvæmt gögnum málsins munu í kjölfarið hafa orðið nokkur tölvupóstsamskipti milli leigjanda Laufásvegar 43 og eigenda Laufásvegar 45B. Með tölvupósti til byggingarfulltrúa 5. október s.á. greindi leigjandinn frá því að veggurinn hefði verið fjarlægður en í stað hans reistur timburveggur og kvartaði hann yfir frágangi og útliti veggjarins. Þá sendi annar kæranda í máli þessu erindi til byggingarfulltrúa 6. s.m. og kvartaði einnig yfir veggnum og óskaði upplýsinga um hver réttur hans væri í málinu.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 13. apríl 2022, til lóðarhafa Laufásvegar 45B var skorað á þá að leggja fram skriflegt samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar fyrir skjólveggnum innan 14 daga frá móttöku bréfsins. Ekkert samþykki mun hafa borist byggingarfulltrúa og með bréfi, dags. 9. ágúst 2022, var skorað á lóðarhafa að færa skjólvegginn til fyrra horfs innan 30 daga og tilkynna verklok til byggingarfulltrúa. Var jafnframt tilkynnt að byggingarfulltrúi myndi taka ákvörðun um framhald máls með hliðsjón af ákvæðum mannvirkjalaga og gæti sú ákvörðun falið í sér beitingu dagsekta. Engin viðbrögð munu hafa orðið við bréfinu. Þá tilkynnti byggingarfulltrúi með bréfi til annars kærenda, dags. 28. september 2022, að hann myndi ekki krefjast þess að skjólveggurinn yrði fjarlægður með beitingu þvingunarúrræða.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að stjórnvöld eigi að hlutast til um að farið sé eftir byggingarreglugerð hvort sem mál séu smá eða stór og þau hafi viðeigandi úrræði til að leysa mál. Húseigandi að Laufásvegi 45B hafi frá upphafi ekki svarað efnislega fyrirspurnum um lausn í þessu máli.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Að mati borgaryfirvalda er málið ekki þannig vaxið að ógildingu varði. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið sé fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefi sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum svo sem skipulags-, öryggis og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verði ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þurfi ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búi að baki ákvæðum laga um mannvirki. Ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið rökstudd með því að ekki yrði séð að skjólveggurinn ógnaði öryggis- eða almannahagsmunum og því hafi ákvörðun byggingarfulltrúa verið studd fullnægjandi efnisrökum.

 Athugasemdir eigenda Laufásvegar 45B: Eigendur Laufásvegar 45B benda á að í umræddum framkvæmdum hafi falist lagfæring og endurbygging steintrappa og handriðs. Ákveðið hafi verið að notað timbur í stað steypu, en timbur geti verið sleipt og því sé handriðið upp tröppurnar mikilvægt fyrir þá sem búi í húsinu. Handriðið sé því öryggisatriði og endurgerð á steinhandriðinu sem hafi verið áður. Ekki sé um að ræða skjólvegg heldur handrið og framhald þess sem líklega megi flokka undir girðingu. Töluverður hæðarmunur sé á lóðunum en handriðið sé 100 cm mælt frá lóð Laufásvegar 45B.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að þeir hafi ekki haft neitt á móti því að samskonar veggur yrði reistur og áður hefði verið. Engin tillaga hafi komið frá eigendum Laufásvegar 45B og þeir hafi ekki leitað eftir samkomulagi við kærendur um þann vegg sem hafi verið byggður. Samkvæmt byggingarreglugerð hefðu eigendur Laufsásvegar 45B ekki haft heimild til þess að reisa umræddan vegg þar sem ekki hafði verið aflað samþykkis kærenda. Í hinni kærðu ákvörðun sé hafnað að beita þvingunarúrræðum þar sem skjólveggurinn ógni ekki öryggis- eða almannahagsmunum. Mikið skuggavarp myndist vegna veggjarins enda snúi hann á móti suðri. Því rýri veggurinn nýtingu garðsins að Laufásvegi 43. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé markmið laganna að vernda eignir og umhverfi. Í 2. gr. sömu laga komi fram að lögin gildi m.a. um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða og girðingar í þéttbýli. Því sé mótmælt að byggingarfulltrúi geti með einhliða ákvörðun vikið sér undan því að beita þvingunarúrræðum þó málið sé ekki stórt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að hafna því að beita þvingunarúrræðum í tilefni erinda kærenda vegna skjólveggjar á lóðamörkum Laufásvegar 43 og 45B.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Ekki verður talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni. Þótt beiting sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim almannahagsmunum sem áður greinir.

Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að ekki yrði séð að umræddur skjólveggur ógnaði almannahagsmunum. Af þeim sökum myndi embætti byggingarfulltrúa ekki beita sér fyrir því að skjólveggurinn yrði fjarlægður með beitingu þvingunarúrræða. Lágu samkvæmt þessu efnisleg rök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2022 um að beita sér ekki fyrir því að skjólveggur á lóðamörkum Laufásvegar 43 og 45B verði fjarlægður.