Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2022 Bergrúnargata

Árið 2023, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 20. september 2022 um að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna meintra ólöglegra skjól- og stoðveggja á lóð nr. 9 við Bergrúnargötu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Ástu-Sólliljugötu 19-21 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 20. september s.á. að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna meintra ólöglegra skjól- og stoðveggja á lóð nr. 9 við Bergrúnargötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 4. nóvember 2022.

Málavextir: Með tölvupósti til byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar 5. janúar 2021 vakti kærandi athygli á að frágangur á lóð Bergrúnargötu 9 væri ekki í samræmi við gildandi reglugerðir. Fór hann fram á að lóðarhafi yrði látinn fjarlægja ólöglega skjól- og stoðveggi á lóðinni og lagfæra hana til samræmis við gildandi reglur. Sendi kærandi byggingarfulltrúa frekari upplýsingar með tölvupósti 29. mars s.á. Þann sama dag var verktaki fenginn til að mæla lóðarmörk, girðingar og stoðveggi við Bergrúnargötu 7-9 og Ástu-Sólliljugötu 19-21. Með bréfi, dags. 12. október s.á, tilkynnti sveitarfélagið lóðarhafa Bergrúnargötu 9 niðurstöður mælinganna. Var honum gert að leita eftir samkomulagi við kæranda varðandi þætti lóðarfrágangs sem vikju frá gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Var hann jafnframt upplýstur um að ef samkomulag myndi ekki nást að öllu leyti yrði honum gert að leiðrétta framkvæmdir við lóðarmörk til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar.

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2022, óskaði kærandi eftir viðbrögðum bæjarráðs Mosfellsbæjar þar sem byggingarfulltrúi hefði ekki brugðist við erindi hans. Á fundi bæjarráðs 3. mars s.á. var samþykkt að vísa erindinu til umsagnar og afgreiðslu byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi svaraði með bréfi, dags. 7. s.m., þar sem fram kom að fyrir lægi að á tveimur stöðum væru veggir á lóðamörkum yfir skilgreindum leyfilegum hæðum tilgreindum á lóðarblaði. Ekki lægi fyrir samkomulag milli aðila um fráganginn og ekki hefðu verið lögð fram hönnunargögn til samþykktar sem sýndu frávik frá lóðarfrágangi beggja lóða miðað við þegar samþykkt hönnunargögn. Ítrekun þess efnis yrði send til lóðarhafa beggja lóða. Með bréfi, dags. 8. s.m., upplýsti kærandi byggingarfulltrúa um að steinhleðsla á lóðamörkum hefði verið unnin í samráði lóðarhafa og greidd til jafns af hvorum aðila. Engar athugasemdir væru gerðar við hana. Hins vegar væri ekkert samkomulag milli lóðarhafa varðandi þau fimm umkvörtunaratriði sem fram hefðu komið í tölvupósti sem sendur hafi verið byggingarfulltrúa 29. mars 2021.

Með kæru til úrskurðarnefndarinnar, er barst nefndinni 20. apríl 2022, kvartaði kærandi máls þessa yfir því að byggingarfulltrúi hefði ekki svarað þeim hluta erindis hans frá 5. janúar 2021 er varðaði beitingu þvingunarúrræða. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 34/2022 frá 30. júní 2022 var lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka fyrirliggjandi erindi kæranda um beitingu þvingunarúrræða til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 20. september s.á., var beiðni um beitingu þvingunarúrræða synjað á þeim grundvelli að hinir umdeildu veggir færu ekki gegn almannahagsmunum, drægju ekki úr umferðaröryggi og væru ekki hættulegir heilsu fólks. Þá hefðu þeir ekki veruleg áhrif á skipulag svæðisins. Það væri mat hans að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum. Þá var skorað á lóðarhafa beggja lóða að leggja fram uppfærð hönnunargögn ásamt skriflegu samþykki þeirra vegna frágangs á lóðamörkum Ástu-Sólliljugötu 19-21 og Bergrúnargötu 9.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að byggingarfulltrúi hafi ekki aðhafst í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 34/2022. Leyfisskyld mannvirki hafi verið byggð í leyfisleysi á lóðamörkum og innan lóðar Bergrúnargötu 9. Mannvirkin hafi veruleg hamlandi áhrif á lóð kæranda og íbúðir í húsinu. Engar samþykktir væru fyrirliggjandi varðandi þessi mannvirki líkt og ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2010 kvæðu á um. Byggingarfulltrúi hafi með bréfi sínu verið að draga athyglina frá því sem sé aðalatriði málsins. Hann hafi ekki tekið á málinu eins og honum bæri að gera með tilkynningarskyldar framkvæmdir sem hafi verið gerðar í óleyfi.

 Málsrök Mosfellsbæjar: Vísað er til þess að á tveimur stöðum á lóðamörkum lóðanna Bergrúnargötu 9 og Ástu-Sólliljugötu 19-21 séu veggir yfir skilgreindum hæðum lóðarblaða. Byggingarfulltrúi hafi vísað til ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um að lóðarmörk skuli vera frágengin í samræmi við útgefin lóðarblöð og samþykkt hönnunargögn eða, ef vikið sé frá þeim gögnum, skriflegri staðfestingu á samráði og samþykki lóðarhafa samliggjandi lóða um frágang á lóðarmörkum. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir milli aðila en fram hafi komið í samskiptum að grjóthleðsla milli húsa hafi verið unnin sameiginlega af lóðarhöfum. Ítrekun hafi verið send til lóðarhafa beggja lóða en þeir hafi ekki brugðist við.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um það hvort til greina komi að beita þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé háð mati hverju sinni. Einstaklingum sé ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingarfulltrúa og byggingaryfirvöld til að beita þvingunarúrræðum vegna einstaklingsbundinna hagsmuna enda sé þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja slíka hagsmuni sína. Í málinu reyni fyrst og fremst á einkaréttarlega hagsmuni kæranda og lóðarhafa við Bergrúnargötu 9 en ekki almannhagsmuni. Við ákvörðunina hafi verið horft til heildarmats á aðstæðum og sjónarmiðum um meðalhóf. Þótt veggir væru á tveimur stöðum á lóðamörkum yfir skilgreindum hæðum lóðarblaða, drægi það ekki úr umferðaröryggi, væri ekki hættulegt heilsu fólks og hefði ekki veruleg áhrif á skipulag svæðisins.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Verið sé að krefja lóðarhafa um uppáskrifaðar samþykktir vegna frávika á lóðarmörkum. Eðlilega sé hann ekki með neitt slíkt enda engin frávik á lóðarmörkum af hans hálfu að öðru leyti en því sem lóðarhafar séu sammála um og hafi gert sameiginlega. Hins vegar yrði lóðarhafi Bergrúnargötu 9 að leggja fram samþykktir sem ekki séu til þar sem hann væri með frávik á lóðarmörkum og lóð. Allt sem hann hafi gert innan lóðar væri án samþykkis byggingarfulltrúa og án samþykkis kæranda.

Niðurstaða: Eins og að framan greinir hefur kærandi átt í samskiptum við bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar frá árinu 2021 vegna frágangs á mörkum lóðar kæranda, Ástu-Sólliljugötu 19-21, og Bergrúnargötu 9 sem og frágangi innan þeirrar lóðar. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 34/2022 var lagt fyrir byggingarfulltrúa að svara beiðni kæranda um beitingu þvingunarúrræða.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því felst meðal annars að taka afstöðu til beitingar þvingunarúrræða þeirra sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 56. gr. laganna er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur. Er þar meðal annars tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. sama ákvæðis.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt mannvirkjalögum er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að þeim lögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum, svo sem skipulags-, öryggis- eða heilbrigðishagsmunum, sbr. 1. gr. laga nr. 160/2010. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingsbundinna hagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis, líkt og endranær, að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Í hinni kærðu ákvörðun var vísað til þess að hinir umdeildu veggir færu ekki gegn almannahagsmunum, drægju ekki úr umferðaröryggi og væru hvorki hættulegir heilsu fólks né hefðu þeir veruleg áhrif á skipulag svæðisins. Það væri mat byggingarfulltrúa að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum. Með hliðsjón af greindum atvikum verður að telja að efnisleg rök hafi búið að baki þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 20. september 2022 um að synja kröfu hans um beitingu þvingunarúrræða vegna skjól- og stoðveggja á lóð nr. 9 við Bergrúnargötu.