Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

115/2022 Neðstaberg

Árið 2023, föstudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2022, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2022 vegna viðbyggingar á lóðinni nr. 7 við Neðstaberg í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Lágabergi 4, Reykjavík, afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí s.á. vegna viðbyggingar á lóðinni nr. 7 við Neðstaberg í Reykjavík. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að fram fari grenndarkynning áður en byggingarfulltrúi taki afstöðu til málsins að nýju.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. október 2022 svo og 17. janúar og 28. febrúar 2023.

Málavextir: Samkvæmt gögnum sem kærandi hefur lagt fram í máli þessu vakti hann í október 2020 athygli Reykjavíkurborgar á framkvæmdum við húsið að Neðstabergi 7, en lóð hans liggur að þeirri lóð. Mun starfsmaður byggingarfulltrúa hafa haft samband við eigendur hússins þar sem fram hafi komið að verið væri að reisa pall og skjólvegg, mögulega tímabundið, en til stæði að sækja um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu.

Í framhaldi átti kærandi í tölvupóstsamskiptum við Reykjavíkurborg vegna málsins og var honum tjáð að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar og að eiganda yrði gert að sækja um byggingarleyfi. Í mars 2021 benti kærandi borginni á að framkvæmdir væru í gangi við viðbygginguna og að búið væri að loka henni. Óskaði kærandi upplýsinga um hvort búið væri að samþykkja byggingarleyfi og kom fram í svari borgarinnar 30. apríl s.á. að svo væri ekki. Þá hefði fyrirspurn eigenda hússins um 45 m² byggingu milli húss og bílskúrs fengið neikvæða umsögn þar sem áformin samræmdust ekki deiliskipulagi og yrði eigendum gert að fjarlægja bygginguna. Frekari tölvupóstsamskipti áttu sér stað milli kæranda og Reykjavíkurborgar í framhaldinu vegna málsins.

Hinn 14. september 2021 móttók byggingarfulltrúinn í Reykjavík tilkynningu um framkvæmd er fælist í byggingu 36,3 m² viðbyggingar að Neðstabergi 7, í samræmi við þágildandi h-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Tók byggingarfulltrúi erindið fyrir á afgreiðslufundi sínum 5. október s.á. og frestaði afgreiðslu þess. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. maí 2022 var erindið lagt fram að nýju og það samþykkt. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkur-borg mun ekki hafa verið gefið út byggingarleyfi, en leyfið staðfest með bréfi.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi verið í samskiptum við starfsmenn Reykjavíkurborgar í tvö ár vegna viðbyggingar að Neðstabergi 7. Hafi framkvæmdir ekki verið grenndarkynntar og því hafi ekki verið hægt að koma að formlegum athugasemdum. Ekki hafi verið hægt að samþykkja framkvæmdina án nokkurs fyrirvara. Kærandi hafi fyrst frétt af samþykkt byggingarfulltrúa 5. október 2022, en hafi staðið í þeirri trú fram að þeim tíma að málið væri í biðstöðu. Viðbyggingin sé of há og of nálægt lóð kæranda. Njóti sólar aldrei við mörk umræddra lóða, ekki einu sinni þegar hún sé hæst á lofti. Hafi þetta áhrif á nýtingu svæðisins, en það hafi verið nýtt til grænmetisræktunar allt frá árinu 1983. Einnig sé friðhelgi einkalífs kæranda raskað, en tveir gluggar séu á þeirri hlið byggingarinnar er snúi að lóð hans. Ekki sé í lagi að viðbyggingin hafi að mestu verið reist áður en leyfi hafi fengist fyrir henni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er gerð krafa um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem staðfesting byggingarfulltrúa á að framkvæmdir séu í samræmi við þágildandi h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til nefndarinnar. Einnig hafi kærufrestir skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið liðnir þegar kæran hafi borist nefndinni. Tilkynntar framkvæmdir séu því marki brenndar að eingöngu sé verið að kanna hvort þær uppfylli ákvæði laga og reglugerða. Ekki sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða þar sem tekin sé ákvörðun um réttindi og skyldur borgarans heldur sé byggingarfulltrúi að fara yfir gögn og staðfesta að þau séu í samræmi við þau skilyrði sem sett séu fram.

Verði ekki fallist á frávísun málsins sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Meðferð málsins hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, laga nr. 160/2010 um mannvirki og stjórnsýslulaga. Hinn 4. maí 2022 hafi tekið gildi Hverfisskipulag Breiðholts og séu hinar umþrættu framkvæmdir í samræmi við heimildir þess, en Neðstaberg sé innan skilmálaeiningar 6.3.21. Ekki þurfi að grenndarkynna framkvæmdir þegar svo sé.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hann hefði sótt um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina ef vinna við gerð hverfisskipulags hefði ekki verið í gangi. Samkvæmt byggingar-reglugerð nr. 112/2012 þurfi ekki leyfi nágranna fyrir glugga á húsvegg sem snúi að lóð hans. Þá þurfi ekki að grenndarkynna erindi sem séu í samræmi við gildandi deiliskipulag. Við hönnun viðbyggingarinnar hafi verið miðað við hún myndi ekki varpa meiri skugga í garð kæranda en þegar sé af bílskúr á lóðinni. Skuggavarp á lóð kæranda sé frá bílskúr og húsi á lóð leyfishafa.

 Niðurstaða: Hinn 14. september 2021 móttók byggingarfulltrúinn í Reykjavík tilkynningu um framkvæmd að Neðstabergi 7 í samræmi við þágildandi h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt ákvæðinu var heimilt að reisa allt að 40 m² einnar hæðar viðbyggingu við mannvirki án byggingarleyfis væri hún innan byggingarreits. Þá var það skilyrði skv. gr. 2.3.5. að framkvæmdir og breytingar sem undanþegnar væru byggingarleyfi væru í samræmi við deiliskipulag.

Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. október 2021 og afgreiðslu þess frestað, en fyrir lágu athugasemdir um m.a. framlagða aðaluppdrætti og að framkvæmdin væri ekki í samræmi við gildandi skipulag. Þegar byggingarfulltrúi samþykkti erindið 17. maí 2022 höfðu verið gerðar breytingar á byggingarreglugerðinni og fyrrgreind heimild h-liðar verið felld brott. Jafnframt hafði Hverfisskipulag Breiðholts tekið gildi. Í bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 23. s.m., er ber yfirskriftina „Tilkynning um samþykkt á byggingaráformum“ er greint frá afgreiðslu á hinni tilkynntu framkvæmd. Óskaði úrskurðarnefndin nánari skýringa á þessu og kom fram í svari Reykjavíkurborgar að á afgreiðslufundum væru samþykkt áform, hvort sem um væri að ræða leyfi, heimild eða tilkynningu. Að þessu virtu verður að líta svo á að í þessari samþykkt byggingarfulltrúa hafi í raun falist ákvörðun hans um samþykkt byggingaráforma, sbr. 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. sömu laga.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 9. október 2022, en 5. s.m. barst kæranda svar Reykjavíkurborgar við fyrirspurnum sínum um að samþykkt hefði verið leyfi fyrir framkvæmdinni. Telst kæran því móttekin innan lögbundins kærufrests.

Í 11. gr. mannvirkjalaga er mælt fyrir um samþykkt byggingaráforma og samkvæmt 13. gr. sömu laga er meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.

Lóðin Neðstaberg 7 er á svæði þar sem í gildi er Hverfisskipulag Breiðholts, skilmálaeining 6.3.21, en skipulagið tók gildi 4. maí 2022, með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda þar um. Samkvæmt skipulaginu er heimilt að byggja viðbyggingar við öll einbýlishús í skilmálaeiningunni, svo sem raunin er hér. Má hver viðbygging ekki vera stærri en 40 m² á einni hæð, nema annað sé tekið fram. Í skilmálum fyrir umrædda lóð er einnig sett það skilyrði að viðbyggingin sé innan takmarkaðs byggingarreits. Samkvæmt skipulaginu er þar um að ræða byggingarreiti fyrir minni viðbyggingar við m.a. sérbýlishús. Séu þeir rúmir og ekki sé gert ráð fyrir að þeir séu fullnýttir heldur sýni mögulegt svæði fyrir minni viðbyggingar og stakstæðar byggingar. Þá er tekið fram í skilmálum að útfærsla á staðsetningu smærri viðbygginga eigi sér stað á hönnunarstigi og fylgja skuli viðeigandi leiðbeiningum hverfisskipulags þegar heimildir séu nýttar. Í leiðbeiningum fyrir einbýlishús og viðbyggingar er m.a. tekið fram að huga þurfi að skuggavarpi við hönnun viðbygginga og lágmarka útsýnisskerðingu. Jafnframt að skila skuli skuggavarpsútreikningum á sumarsólstöðum og við jafndægur þegar sótt sé um leyfi. Þá eigi í hönnunargögnum m.a. að gera grein fyrir því hvaða áhrif viðbyggingin hafi á útsýni og birtu hjá nágrönnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var hvorki skilað inn útreikningum á skugga-varpi né gerð grein fyrir áhrifum byggingarinnar á útsýni og birtu hjá nágrönnum við meðferð málsins, eins og ofangreindar leiðbeiningar kveða á um. Þá hafi ekki heldur verið óskað eftir þessum gögnum af hálfu borgarinnar þar sem viðbyggingin „snýr í norður og hefur ekki áhrif á birtu í garði“. Telja verður það annmarka á meðferð málsins að þessara gagna hafi ekki verið aflað.

Fram kemur á samþykktum aðaluppdráttum fyrir Neðstaberg 7 að viðbyggingin er norðan við bílskúr á lóðinni og nær mörkum lóðar kæranda en bílskúrinn. Af því má ráða að áhrif viðbyggingarinnar á útsýn og birtu hjá kæranda geti orðið nokkur, m.a. með auknu skuggavarpi á lóð hans. Í ljósi þess að annað verður ekki séð en að samþykkt framkvæmd sé í samræmi við heimildir gildandi skipulags um stærð og staðsetningu innan byggingarreits lóðarinnar þykir nefndur annmarki á meðferð málsins þó ekki svo verulegur að leiða skuli til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Þá þykir rétt að vekja athygli á að leiði skipulag til þess að verðmæti fasteignar skerðist verulega, umfram það sem við á um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, á sá er getur sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi afgreiðsla byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2022 vegna viðbyggingar á lóðinni nr. 7 við Neðstaberg í Reykjavík.