Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/2023 Laufásvegur

Árið 2023, föstudaginn 31. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 30/2023, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. febrúar 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsókn til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 26. febrúar 2023, kærir eigandi, Laufásvegi 19, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. febrúar 2023 að samþykkja byggingarleyfisumsókn til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 26. febrúar 2023, kæra eigendur, Laufásvegi 19, og eigandi, Laufásvegi 22, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu og stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Verður það mál, sem er nr. 31/2023, sameinað kærumáli þessu þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkrafna kærenda.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. desember 2022 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn um leyfi til að innrétta búsetuúrræði í matshluta 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg. Vísaði byggingarfulltrúi málinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúi samþykkt á fundi sínum 15. s.m. að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Laufásvegi 14, 17, 18, 18a, 19, 20, 22 og 25, Skálholtsstíg 6 Þingholtsstræti 30 og 34. Umsóknin var grenndarkynnt 29. desember 2022 með athugasemdafrest til 30. janúar 2023. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 22. febrúar s.á. var grenndarkynningin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 16. s.m. og a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1. við samþykkt Reykjavíkurborgar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars s.á. var byggingarleyfisumsóknin samþykkt.

Kærendur telja framkvæmdina ólögmæta með öllu. Eignarlóð baki Laufásvegar 19 sé í eigu íbúa að Laufásvegi 19 og hafi þeir hvorki samþykkt framkvæmdirnar né gefið leyfi fyrir búsetu. Kærendur hafi talsverðar áhyggjur af þeim mikla umgangi og ónæði sem hljótist af því að hafa 14–16 manns í bílskúrunum á baklóðinni, sem aldrei hafi verið hugsaðar sem búsetuúrræði. Ákvörðunin muni skerða verulega möguleika íbúanna á að selja íbúðir sínar nema á skertu verði.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að byggingarleyfið hafi verið grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leyfið sé í samræmi við aðalskipulag og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við reglur skipulaglaga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Hið kærða samþykki byggingarleyfisumsóknar felur í sér heimild til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur ekkert byggingarleyfi verið gefið út. Í ljósi framangreindra lagaákvæða og að um er að ræða afturkvæmar framkvæmdir verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni. Verður kröfu kærenda því hafnað.

Rétt er þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á lóð nr. 19 við Laufásveg.