Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

113/2013 Hamragil

Árið 2015, þriðjudaginn 24. febrúar, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 113/2013, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar sveitarfélagsins Ölfuss frá 28. nóvember 2013 á umsókn Íþróttafélags Reykjavíkur um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni á Hengilsvæðinu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2013, er barst nefndinni 23. s.m., kæra formaður og varaformaður aðalstjórnar sem og framkvæmdastjóri Íþróttafélags Reykjavíkur, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Ölfuss frá 29. nóvember 2013 að synja umsókn félagsins um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu þess á Hengilsvæðinu. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Ölfusi 7. janúar 2015.

Málsatvik og rök: Hinn 19. nóvember 2013 var umsókn Íþróttafélags Reykjavíkur um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingar- og umhverfisnefndar Ölfuss. Í umsókninni var tekið fram að óskað væri eftir endurnýjun námuleyfis til efnistöku og var þess jafnframt óskað að mið væri tekið af umsókninni við gerð næsta aðalskipulags. Fundargerð nefndarinnar ber með sér að farið var með umsóknina sem fyrirspurn og var svohljóðandi bókað: „Afgreiðsla. Lagt fram. Kynna skal erindið fyrir Orkuveitur Reykjavíkur.“ Var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt í bæjarstjórn 28. s.m. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa fyrir hönd skipulags- og byggingarnefndar var kæranda tilkynnt um afgreiðslu málsins. Segir jafnframt í bréfinu að erindi um opnun námu sé hafnað og að sú ákvörðun sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Hefur kærandi kært greinda afgreiðslu til nefndarinnar svo sem áður er lýst.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að forsendur sveitarfélagsins fyrir synjun erindis kæranda standist ekki. Fullyrðing sveitarfélagsins um að náman sé nær fjarsvæði vatnsverndar sveitarfélagsins sé einfaldlega röng. Röksemdir um að umferð þungaflutningstækja sé ekki æskileg geti ekki staðist þar sem vegstæði að námunni sé á opnum vegi. Kærandi hafi verið eigandi að landsvæðinu frá árinu 1932 og hafi efnistaka farið fram þar frá því upp úr 1970. Ekki hafi verið leitað umsagnar kæranda sem landeiganda við þá ákvörðun að hafa ekki námu á aðalskipulaginu. Hafi sveitarfélagið þannig reynt að takmarka ráðstöfunarrétt kæranda en slíkt verði ekki gert án þess að bætur komi fyrir.

Skipulagsyfirvöld Ölfuss  skírskota til þess að erindi kæranda hafi verið hafnað þar sem ekki sé gert ráð fyrir námunni í Aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022. Sé það stefna sveitarfélagsins að vera með fáar en stórar námur. Samkvæmt náttúruverndarlögum þurfi allar námur leyfi og hafi lokafrestur þar um verið til 1. júlí 2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni. Samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er öll efnistaka á landi háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Í 52. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli þeirra laga sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Svo sem nánar er lýst í málavöxtum samþykkti bæjarstjórn Ölfuss þá afgreiðslu umsóknar kæranda að hún væri lögð fram og kynnt fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Í því felst ekki nein sú ákvörðun sem bundið getur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Breytir synjunarbréf skipulags- og byggingarfulltrúa fyrir hönd skipulags- og byggingarnefndar engu þar um, enda er ákvörðunarvaldið á hendi sveitarstjórnar, sbr. áðurnefnda 13. gr. skipulagslaga. Þar sem ekki er fyrir hendi kæranleg ákvörðun í máli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Nanna Magnadóttir