Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2017 Laxabakki

Árið 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 7. júní 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóð nr. 4 við Laxabakka á Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. september 2017, er barst nefndinni 5. október s.á., kærir lóðarhafi lóðar nr. 4 við Laxabakka, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 7. júní 2017 að synja umsókn hans um leyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús á lóð nr. 4 við Laxabakka í Árborg. Verður að skilja erindi kæranda á þann veg að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að skaðabótaskylda byggingarfulltrúa verði viðurkennd.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Árborg 17. nóvember 2017.

Málavextir: Hinn 14. október 2016 keypti kærandi lóð nr. 4 við Laxabakka ásamt teikningum, að tveggja hæða einbýlishúsi. Árið 2017 sótti kærandi um leyfi til að byggja tveggja hæða hús samkvæmt nefndum teikningum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. apríl 2017 var samþykkt að grenndarkynna erindið fyrir eigendum og íbúum Laxabakka 1, 2, 3, 5 og 6 og Hellubakka 1, 3 og 5 og var sú ákvörðun samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 10. maí 2017. Umsóknin var grenndarkynnt frá 25. apríl til 23. maí 2017 og bárust fimm athugasemdir þar sem veitingu byggingarleyfis fyrir tveggja hæða húsi var mótmælt. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 7. júní 2017 þar sem umsókn kæranda var hafnað og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. s.m. Skipulags- og byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um synjun á erindi hans með bréfi, dags. 8. júní 2017, en í bréfinu var hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest í tilefni af ákvörðuninni.

Kærandi óskaði skriflega eftir rökstuðningi og öllum gögnum málsins 22. júní 2017 og kveðst hafa ítrekað þá beiðni 14. júlí s.á. Hann ítrekaði beiðni um rökstuðning og gögn máls með tölvupósti 18. júlí 2017 og fékk svar frá skipulags- og byggingarfulltrúa 24. s.m. um að verið væri að afla gagna og að svarið kæmi fljótlega. Kærandi ítrekaði beiðnina í annað sinn með tölvupósti 25. ágúst s.á. og 30. s.m. barst honum svar við erindinu með tölvupósti frá lögmanni bæjarins. Var í tölvupóstinum hvorki leiðbeint um kæruleið né kærufrest. Kærandi sendi lögmanni bæjarins tölvupóst 5. september 2017 þar sem hann óskaði þess m.a. að fá vefslóð á deiliskipulagið sem vísað var til í svari bæjaryfirvalda og var sú beiðni ítrekuð með tölvupósti 12. september 2017.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður upplýsingar frá byggingarfulltrúa hafa verið lykilþátt í ákvörðun hans um að festa kaup á umræddri lóð ásamt teikningum. Teikningarnar hafi verið grundvöllur byggingarleyfis sem fyrri eigandi hafi fengið samþykkt, en hann hafi aldrei hafið framkvæmdir. Hann hafi talið auðsótt að fá byggingarleyfi þar sem hæðarblöð á landupplýsingavef sveitarfélagsins hafi sýnt að skipulag gerði ráð fyrir húsinu, auk þess sem um endurútgáfu leyfis væri að ræða. Áður en gengið hafi verið frá kaupunum hafi kærandi farið ásamt væntanlegum byggingarstjóra á skrifstofu byggingarfulltrúa til að kanna skilyrði framkvæmdar og hvort allar teikningar væru til staðar. Þar hafi þeir fengið þær upplýsingar að skipulag gerði ráð fyrir tveggja hæða húsi á lóðinni.

Kærandi hafi ítrekað óskað eftir að fá afhent samþykkt deiliskipulag fyrir Laxabakka 4 og lóðir í kring án árangurs. Ekkert slíkt skipulag sé að finna á skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar. Byggingarfulltrúi hafi hins vegar tjáð honum að nýtt gildandi skipulag gerði ekki ráð fyrir tveggja hæða húsum en þær upplýsingar séu í þversögn við þau hæðarblöð sem séu á landupplýsingavef Árborgar og embættið hafi afhent honum. Enginn nefndarmanna í skipulags- og byggingarnefnd hafi setið hjá vegna vanhæfis við afgreiðslu málsins, en bróðir eins þeirra búi að Laxabakka 3.

Kærandi hafi engin svör fengið við fyrirspurnum um það hvers vegna umsókn hans hafi sætt grenndarkynningu. Í athugasemdum sem borist hafi vegna grenndarkynningar hafi verið vísað til þriggja ára reglu í skipulags- og byggingarskilmálum frá 26. ágúst 2004. Kærandi hafi fengið misvísandi gögn og svör og viti því ekki hvort til staðar sé skipulag eða ekki. Mikill dráttur hafi verið á að svara beiðni hans um rökstuðning. Þegar svarið hafi borist hafi honum ekki verið leiðbeint um kæruheimildir.

Málsrök Árborgar: Af hálfu sveitarstjórnar er því haldið fram að rétt hafi verið staðið að afgreiðslu málsins þar sem fylgt hafi verið kröfum um form- og efnisreglur við meðferð á umsókn kæranda.

Deiliskipulag fyrir Fossland hafi í upphafi gert ráð fyrir því að byggja mætti tveggja hæða hús á þeirri lóð sem um ræðir, en í kafla 2.3 segi m.a. að verði raunin sú að lítil eftirspurn verði eftir tveggja hæða húsum sé heimilt að þremur árum liðnum frá samþykki deiliskipulags að byggja einnar hæðar hús á eftirstandandi lóðum. Að sama skapi falli þá niður réttur til að byggja tveggja hæða hús á svæðinu. Raunin hafi orðið sú að öll nálæg hús á svæðinu hafi verið byggð á einni hæð og í samræmi við framangreint ákvæði hafi réttur til að byggja tveggja hæða hús á svæðinu fallið niður. Því hafi ekki verið heimilt samkvæmt deiliskipulagi að byggja tveggja hæða hús á umræddri lóð þegar umsókn um byggingarleyfi barst og hefði því þurft að breyta deiliskipulagi fyrir svæðið til að unnt væri að veita byggingarleyfi. Sveitarfélagið hafi talið þá breytingu sem óskað var eftir óverulega og því hafi mátt fara með umsóknina í grenndarkynningu, sbr. heimild í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Stjórnvöld séu bundin af lögum og því þurfi ákvörðun um veitingu byggingarleyfis að byggja á fullnægjandi lagagrundvelli en svo hafi ekki verið í þessu tilfelli. Engu breyti að kærandi hafi, af mæli- og hæðarblöðum sem hann virðist þó ekki hafa fengið fyrr en eftir að ákvörðun hafi verið tekin, talið að leyfið yrði veitt. Samskipti kæranda við starfsmenn sveitarfélaginu hafi ekki falið í sér ákvörðun í málinu.

Deiliskipulagið, sem komið hafi verið á með stoð í lögum, sem aðrir fasteignareigendur á svæðinu hafi ríka hagsmuni bundna við og réttmætar væntingar til að standist, heimili ekki útgáfu byggingarleyfis á grundvelli umsóknar kæranda. Sveitarfélaginu hafi ekki þótt tækt að breyta deiliskipulaginu í ljósi þeirrar miklu andstöðu sem fram hafi komið í athugasemdum eigenda fasteigna í nágrenninu. Sjónarmiðin þeirra hafi helst verið þau að húsið passaði ekki inn í þennan hluta hverfisins, þar sem eingöngu væru einnar hæðar hús og húsið væri í ósamræmi við gildandi skipulag. Þá væri byggingin til þess fallin að valda skuggamyndun á nágrannalóðum, útsýni yrði af efri hæð hússins yfir verandir, sólpalla og sólskála nálægra húsa, sviptivindar væru líklegir til að myndast vegna hússins og snjóþyngra yrði við nálæg hús ásamt því að nýtingarmöguleikar nálægra húsa yrðu skertir og verðmæti þeirra sömuleiðis.

Málefnaleg sjónarmið hafi því legið til grundvallar við töku umræddrar ákvörðunar, sem leitt hafi til þess að ekki hafi verið unnt að veita umþrætt byggingarleyfi. Ekki hafi verið tilefni til þess að neinn nefndarmanna viki sæti við meðferð málsins. Fjölmargir hafi skilað inn athugasemdum og verið mótfallnir veitingu leyfisins með framangreindum rökum og athugasemdir eða hagsmunir eins þeirra hafi ekki ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins.

Því sé hafnað að synjun á veitingu byggingarleyfisins feli í sér bótaskyldar takmarkanir á eignarrétti kæranda. Það sé ekki á forræði úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þess álitaefnis.

Niðurstaða:
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og einskorðast valdheimildir hennar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar, en það er ekki á færi nefndarinnar að úrskurða um skaðabótaskyldu, líkt og krafa er gerð um. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um viðurkenningu á bótaskyldu sveitarfélagsins

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Kæranda var tilkynnt um synjun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar á umsókn hans með bréfi, dags. 8. júní 2017. Í bréfinu var honum hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest. Kærandi óskaði rökstuðnings og ítrekaði þá beiðni nokkrum sinnum. Svar frá lögmanni bæjarins barst með tölvupósti 30. ágúst 2017, en þar var kæranda hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest í tilefni af lyktum málsins. Verður því talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni og verður málið af þeim sökum tekið til efnismeðferðar.

Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda um leyfi til að byggja tveggja hæða hús synjað. Byggingarfulltrúi í viðkomandi umdæmi veitir byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Skal umsókn beint til byggingarfulltrúa, sbr. 10. gr. laganna, og skal byggingarfulltrúi tilkynna skriflega um samþykkt byggingaráforma, sbr. 11. gr. Samkvæmt framangreindu er það í höndum byggingarfulltrúa að samþykkja eða synja umsóknum um byggingarleyfi.

Samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga er sveitarstjórn heimilt að kveða á um að sérstök byggingarnefnd fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi hún eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Skal kveðið á um framangreint í sérstakri samþykkt sem birt er í B-deild Stjórnartíðinda, en hvorki er slíkri samþykkt til að dreifa fyrir sveitarfélagið Árborg samkvæmt heimasíðum Mannvirkjastofnunar og Sveitarfélagsins Árborgar né í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir að byggingarfulltrúi hafi fjallað um málið og tekið ákvörðun um synjun byggingarleyfis, líkt og honum ber samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki og liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Eins og málsatvikum er hér sérstaklega háttað þykir rétt að taka afstöðu til þess hvort óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu umsóknar kæranda, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem lokaákvörðun verður borin undir.

Með hliðsjón af því sem fyrir liggur í málinu er ekkert því til fyrirstöðu að byggingarfulltrúi taki ákvörðun um afgreiðslu umsóknar kæranda og er því lagt fyrir hann að taka erindið til efnislegrar afgreiðslu í samræmi við 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga án frekari tafa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Árborgar að taka umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóð nr. 4 við Laxabakka á Selfossi, til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.