Ár 2009, miðvikudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 110/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 29. október 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu veitingahúss á 1. hæð fasteignarinnar að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. desember 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra M, Dimmuhvarfi 27 og S, Dimmuhvarfi 23, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 29. október 2008 að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu veitingahúss á 1. hæð fasteignarinnar að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda en þar sem engar framkvæmdir hafa verið á grundvelli hins kærða leyfis hefur ekki verið tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar.
Málsatvik og rök: Að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi er nýbygging og er lóð hússins á svæði sem skilgreint er sem athafnasvæði í Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012. Liggur það að íbúðarsvæði þar sem kærendur búa.
Hinn 29. október 2008 samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi umsókn um leyfi til að innrétta veitingastað á 1. hæð hússins að Ögurhvarfi 6. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 11. nóvember sama ár. Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Benda kærendur á að veitingarekstur falli ekki að skilgreiningu athafnasvæðis og fari leyfið því í bága við gildandi skipulag svæðisins. Óeðlilegt sé að staðsetja veitinga- og skemmtistað nánast í bakgarði íbúðarhúsa við Dimmuhvarf, í hverfi sem hafi verið kynnt sem friðsæl „sveit í bæ“. Búast megi við slíkum hávaða frá umferð fólks og farartækja vegna umdeilds veitingarekstrar að telja verði leyfisveitinguna atlögu að friðhelgi heimila kærenda sem standi aðeins í um 30 metra fjarlægð frá fyrirhuguðum veitingastað. Þá sé ljóst að íbúðareignir í nágrenninu muni falla verulega í verði.
Niðurstaða: Samkvæmt 6. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fellur staðfesting sveitarstjórnar fyrir veitingu byggingarleyfis úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út samkvæmt nefndri 44. gr. innan 12 mánaða frá staðfestingunni.
Bæjarstjórn Kópavogs staðfesti veitingu hins kærða byggingarleyfis hinn 11. nóvember 2008 en samkvæmt upplýsingum frá byggingaryfirvöldum bæjarins hefur byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki verið gefið út fyrir hinum heimiluðu framkvæmdum og engar framkvæmdir átt sér stað. Liggur því fyrir að staðfesting bæjarstjórnar er fallin úr gildi þar sem meira en ár er liðið frá henni án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út.
Eins og málum er komið hafa kærendur ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
___________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson