Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/2013 Brekknaás

Árið 2015, þriðjudaginn 24. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 11/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2013 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi og bæta við aðstöðu fyrir verslun, hestaleigu, hestaferðir, hestakerruleigu og kaffihús/veitingastofu á lóð nr. 9 við Brekknaás í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Brekknaás 9 ehf., afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2013 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi og bæta við aðstöðu fyrir verslun, hestaleigu, hestaferðir, hestakerruleigu og kaffihús/veitingastofu á lóðinni að Brekknaási 9, Reykjavík.

Gögn bárust frá Reykjavíkurborg í september og desember 2014 sem og í október og nóvember 2015.

Málsatvik og málsrök. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 20. september 2012 var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar s.á. um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins á lóðinni nr. 9 við Brekknaás í Reykjavík. Byggðist niðurstaða nefndarinnar á því að við afgreiðslu málsins hefði ekki verið tekin afstaða til þess hvort téð umsókn samræmdist landnotkun í deiliskipulagi. Hinn 8. janúar 2013 tók byggingarfulltrúi fyrir nýja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi að Brekknaási 9 og bæta við aðstöðu fyrir verslun, hestaleigu, hestaferðir, hestakerruleigu og kaffihús/veitingastofu. Var umsókninni synjað með vísan til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 18. desember 2012, en í umsögn var talið að ekki væri gert ráð fyrir verslun eða veitingarhúsarekstri í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið.

Kærandi vísar m.a. til þess að sveitarfélagið hafi ekki sýnt fram á með neinum rökum að fyrirhuguð starfsemi gangi í berhögg við skipulag svæðisins. Þá hafi við meðferð málsins verið brotið á lögvörðum rétti kæranda sem t.a.m sé varin af ákvæðum stjórnarskrár og stjórnsýslulögum.

Reykjavíkurborg bendir á að rétt sé að vísa málinu frá. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 18. febrúar 2014 hafi verið tekin fyrir ný umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum innanhúss að Brekknaási 9 sem í sér fælu að útbúin væri aðstaða fyrir verslun, móttöku fyrir hestaleigu, hestakerruleigu, kaffistofu og dýralækningarráðgjöf. Umsókninni hafi verið vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs sem hafi í umsögn, dags. 24. febrúar 2014, ekki gert skipulagslegar athugasemdir við að nefndar breytingar yrðu leyfðar. Hafi umsóknin verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. september 2015. Eigi kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Vegna frávísunarkröfu sveitarfélagsins bendir kærandi á að umsókn sú sem samþykkt hafi verið sé ekki sú umsókn sem hafnað hafi verið 8. janúar 2013. Um sjálfstætt mál sé að ræða og eðlilegt að fá efnislegan úrskurð þar sem gróflega hafi verið brotið á kæranda með þeirri synjun og málsmeðferð í heild sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Upplýst hefur verið af hálfu borgaryfirvalda að eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni í máli þessu hafi kærandi lagt fram nýja umsókn til borgarinnar, dags. 11. febrúar 2014. Í nefndri umsókn er sótt um leyfi fyrir breytingum innanhúss að Brekknaási 9, m.a. fyrir kaffihúsi. Segir um umsóknina í umsögn skrifstofu sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 24. febrúar 2014 að sótt sé um sambærilegar breytingar og gert hafi verið árið 2012. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. september 2015 var umsóknin tekin fyrir og eftirfarandi bókað: „Sótt er um samþykki fyrir áður gerðum breytingum innanhúss, m.a. innrétting á verslun, móttöku fyrir hestaleigu, hestakerruleigu, kaffistofu í flokki II og dýralæknaráðgjöf….“. Var umsóknin samþykkt og talin samræmast ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja bæði sú umsókn sem kærumál þetta lýtur að og synjað var 8. janúar 2013 og umsókn sú sem samþykkt var 22. september 2015. Verður ekki annað af þeim ráðið en að þær séu sambærilegar að efni til.

Hvað sem líður gildi hinnar kærðu ákvörðunar verður að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið ekki séð að úrlausn þar um hafi lengur raunhæft gildi fyrir réttarstöðu kæranda. Þar sem á þykir skorta að kærandi hafi sýnt fram á að hann eigi lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun og mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Nanna Magnadóttir