Ár 2010, miðvikudaginn 26. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 11/2010, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. desember 2009, er borgarráð staðfesti hinn 14. sama mánaðar, um að krefja lóðarhafa Lofnarbrunns 6-8 í Reykjavík um tilteknar úrbætur á byggingarstað innan 30 daga frests en að öðrum kosti að verkið verði unnið á vegum borgaryfirvalda á kostnað lóðarhafa.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. febrúar 2010, er barst nefndinni 4. mars sama ár, kæra A og B, lóðarhafar Lofnarbrunns 6-8 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. desember 2009, er borgarráð staðfesti hinn 14. sama mánaðar, að krefja kærendur um tilteknar úrbætur á byggingarstað á lóðinni að Lofnarbrunni 6-8 innan 30 daga frests, en að öðrum kosti að verkið verði unnið á vegum borgaryfirvalda á kostnað lóðarhafa. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málsatvik og rök: Með bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 18. ágúst 2009, voru gerðar kröfur um hreinsun og frágang á lóðinni að Lofnarbrunni 6-8 í Reykjavík, nánar tiltekið að hreinsa og flytja brott til förgunar innan 14 daga allt ónýtanlegt byggingarefni, flytja brott uppgrafið efni meðfram Úlfarsbraut eða jafna það út, koma fyrir grjóthleðslu við lóðarmörk Lofnarbrunns 2-4 þannig að unnt væri að ganga frá þeirri lóð og koma fyrir aksturshindrunum á lóðarmörkum við Lofnarbrunn. Þá var í bréfinu farið fram á að gerð yrði grein fyrir gámi á staðnum. Tók byggingarfulltrúi fram að ef ekki yrði brugðist við áskorun um úrbætur myndi hann leita atbeina skipulagsráðs til að knýja þær fram. Var kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum vegna krafna byggingarfulltrúa. Kærendur svöruðu með bréfi, dags. 12. september 2009, og komu á framfæri rökum sínum og sjónarmiðum fyrir því að þeim bæri ekki að verða við kröfum byggingarfulltrúa að öðru leyti en því að koma fyrir umkrafinni aksturshindrun. Var jafnframt upplýst að 20 feta gámur sem stæði ofan við lóð kærenda væri á þeirra vegum.
Skipulagsráð samþykkti á fundi sínum 9. desember 2009 að veita kærendum 30 daga frest til að verða við kröfu byggingarfulltrúa um áðurgreindar úrbætur og staðfesti borgarráð þá ákvörðun hinn 14. desember 2009. Kærendum var síðan tilkynnt um málalyktir með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. janúar 2010.
Kærendur benda á að á þeirra vegum sé ekkert ónýtanlegt byggingarefni á umræddri lóð. Á því hafi hins vegar borið að húsgrunnar á svæðinu hafi verið nýttir sem urðunarstaðir fyrir rusl af þeim sem leið hafi átt um. Það efni sem grafið hafi verið upp á lóð kærenda muni nýtast til uppfyllingar að sökklum eftir að þeir hafi verið steyptir upp. Mikill kostnaður myndi fylgja því að fjarlægja uppgröftinn og kaupa síðar í hans stað fyllingarefni þegar sökklar væru tilbúnir. Ekki sé fallist á að ganga nú frá grjóthleðslu við lóðarmörk Lofnarbrunns 2-4, þar sem það myndi hamla framkvæmdum svo sem við mótauppslátt og uppsteypu sökkla á lóð kærenda vegna plássleysis. Borgaryfirvöld hafi lengt alla framkvæmdafresti og því hafi öllum mátt vera ljóst að framkvæmdir í hverfinu stæðu lengur en ella.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfu kærenda í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæran sé of seint fram komin. Kærendum hafi verið tilkynnt skriflega um ákvörðun skipulagsráðs með bréfi, dags. 19. janúar 2010, sem birt hafi verið kærendum hinn 25. sama mánaðar skv. birtingarvottorði dagsettu sama dag. Kæra í máli þessu sé stimpluð móttekin hjá úrskurðarnefndinni 4. mars 2010, eða réttum 5 vikum eftir birtingu ákvörðunarinnar fyrir kærendum. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra eigi. Frestur til að kæra umdeilda ákvörðun í máli þessu hafi því runnið út 25. febrúar 2010.
Niðurstaða: Fyrir liggur í málinu birtingarvottorð er ber með sér að hin kærða ákvörðun hafi verið birt á heimili kærenda fyrir öðrum þeirra hinn 25. janúar 2010, kl. 20:20. Komu fram í tilkynningunni upplýsingar um kæruheimild, kærustjórnvald og kærufrest. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar en engar athugasemdir hafa borist úrskurðarnefndinni af því tilefni. Verður því í máli þessu lagt til grundvallar að birting hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið með þeim hætti sem birtingarvottorðið ber með sér.
Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að aðila var eða mátti vera kunnugt um hana, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Miðað við nefnt birtingarvottorð og skv. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rann kærufrestur út í máli þessu hinn 26. febrúar 2010. Úrskurðarnefndinni barst málskot kærenda hinn 4. mars sama ár, eða sex dögum eftir lok kærufrests.
Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til efnismeðferðar.
Þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um atvik sem geta réttlætt að vikið sé frá kærufresti samkvæmt greindum undantekningarákvæðum, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________
Hjalti Steinþórsson
_______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson