Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/1998 Grundarhverfi

Ár 1998, þriðjudaginn 16. júní  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/1998
 
Krafa frá húseigendum við Esjugrund á Kjalarnesi um að ógilt verði nýtt deiliskipulag fyrir Grundarhverfi og að auglýsing um það í B-deild stjórnartíðinda frá 11. maí 1998 verði úrskurðuð ógild.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 16. apríl 1998 kæra  H, Esjugrund 32, BEsjugrund 55 og G, Esjugrund 45 Kjalarneshreppi, breytingar á „Aðal- og deiliskipulagi Kjalarneshrepps“ og krefjast þess að breytingar á skipulagi verði stöðvaðar. Í bréfi kærenda ds. 21. apríl 1998 til úrskurðarnefndarinnar eru aðalkröfur þeirra sagðar vera þær „að gatnakerfi hverfisins verði óbreytt og að miðja hverfisins verði opið vistvænt svæði án umferðar.“  Með bréfi dags. 17. maí 1998 koma sömu kærendur á framfæri nýjum sjónarmiðum „og eða nýrri kæru“ þar sem fram kemur að fallið hafi verið frá fyrirhuguðum breytingum á aðalskipulagi en að nýtt deiliskipulag hafi verið auglýst fyrir Grundarhverfi með auglýsingu í „Stjórnartíðindum B“ hinn 11. maí 1998.  Kæra bréfritarar ákvörðun sveitarstjórnar um breytt skipulag og krefjast þess að auglýsing um það verði úrskurðuð ógild þegar í stað.  Ennfremur að engar framkvæmdir verði leyfðar á grundvelli þeirrar auglýsingar.  Til vara krefjast kærendur þess að gildistakan frestist þar til úrskurðir liggi fyrir í kærumálum vegna Grundarhverfis, sem séu til meðferðar hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. 

Málsatvik:  Á undanförnum misserum hafa skipulagsmál verið til endurskoðunar í Kjalarneshreppi. Er ljóst af gögnum málsins að þessi endurskoðun hefur verið til umfjöllunar þegar á árinu 1996 en borgarafundur var haldinn um þessi málefni í hreppnum hinn 25. júní það ár.  Var m.a. áformað að breyta deiliskipulagi Grundarhverfis en jafnframt var talið nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á aðalskipulagi hreppsins. Á haustmánuðum 1997 var gerð skipulagstillagna  komin á lokastig.  Var kynning á hinum nýju skipulagstillögum, dags. 14. október 1997, send íbúum í hreppnum og borgarafundur haldinn um þessi málefni hinn 27. sama mánaðar.  Í framhaldi af þessari kynningu komu fram ýmsar athugasemdir einkum varðandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Grundarhverfi.  Var safnað undirskriftum á skjal þar sem mótmælt var tilteknum atriðum í hinni nýju tillögu en síðar kom fram undirskriftalisti þar sem lýst var stuðningi við hið nýja skipulag.  Allmargir af þeim sem áður höfði staðið að mótmælunum drógu þau til baka.  Tillögur hreppsnefndar að skipulagsbreytingunum voru auglýstar 18. desember 1997 og hlutu lögboðna meðferð. Við meðferð málsins var fallið frá að svo stöddu að gera fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi enda höfðu mál skipast svo að þeirra var ekki  lengur talin þörf vegna fyrirhugaðra breytinga á deiliskipulagi Grundarhverfis. Vinnu var hins vegar haldið áfram við gerð þess. Var í ýmsum efnum komið til móts við athugasemdir sem fram komu við kynningu tillagnanna og var nýtt deiliskipulag fyrir Grundarhverfi samþykkt á hreppsnefndarfundi hinn  26. febrúar 1998 og sent Skipulagsstofnun til meðferðar hinn 26. mars 1998. Athugasemdir Skipulagsstofnunar voru sendar sveitarstjóra Kjalarneshrepps hinn 29. apríl  1998 og var auglýsing um hið nýja deiliskipulag fyrir Grundarhverfi birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. maí 1998.  Tveir kærenda, H og B, höfðu ásamt O, Esjugrund 34 áður kært til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 15. apríl 1998 framkvæmdir við jarðvegsskipti, er hafnar höfðu verið á svæði því, sem hið umdeilda deiliskipulag nær til.  Kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð um þá kröfu hinn 19. maí 1998 og var kröfum kærenda í því máli hafnað.

Umsagnir:  Leitað hefur verið umsagnar Skipulagsstofnunar um úrlausnarefni máls þessa.  Vísar stofnunin til umsagna, sem sendar voru sveitarstjórn Kjalarneshrepps um skipulagstillögurnar og þeirra leiðbeininga og ábendinga, sem þar koma fram, en umsagnir þessar eru meðal gagna málsins.  Þá hefur úrskurðarnefndin gefið sveitarstjórn Kjalarneshrepps kost á að tjá sig um kæruefnið og hefur nefndinni borist greinargerð sveitarstjórnar um málið.

Málsrök kærenda og hreppsnefndar Kjalarneshrepps:   Kærendur styðja kröfur sínar í þessu máli þeim rökum, að með umræddum skipulagsbreytingum hafi réttur einstaklinga og hagur heildarinnar verið fyrir borð borinn, sem sé andstætt 1. gr. laga nr. 73/1997. Vísa þeir til framkominna skriflegra mótmæla. Þá hafi sveitarstjórn verið að fara frá og vegna sameiningar hreppsins við Reykjavík hafi hún ekki átt hlut að sveitarstjórnarkoningumun 1998.  Hafi  lýðræðið því verið óvirkt er fjallað var um skipulagsmálin á lokastigi og hafi þær aðstæður ekki verið í samræmi við markmið laganna um áhrif íbúa á umhverfi sitt.  Þá hafi ekki verið tekið eðlilegt tillit til ábendinga sem fram hafi komið.  Í bréfi sínu frá 17. maí 1998 tefla kærendur fram þeim sjónarmiðum, að svo róttæk breyting hafi verið gerð á gatnakerfi Grundarhverfis, að gera hefði þurft breytingar á aðalskipulagi til að slík breyting mætti verða enda sé um að ræða breytingu, sem varði  samgöngu- og þjónustukerfi svæðisins í heild því breytingin tengist næstu hverfum.  Þá hafi auglýsing, sem hangið hafi uppi á skrifstofu hreppsins þegar skipulagstillögurnar voru kynntar, verið mjög villandi.

Af hálfu hreppsnefndar Kjalarneshrepps er áréttað að við endurskoðun skipulags Grundarhverfis hafi verið horft til væntanlegrar þróunar íbúðarbyggðar og í því sambandi gerðar breytingar á gatnakerfi hverfisins. Meðal annars hafi verið hugað að því að koma til móts við þau sjónarmið að flokka götur í viðeigandi flokka en eldra skipulag hafi ekki samræmst nútímakröfum til skipulags hvað þetta varðar. Við þessar breytingar hafi safngata færst þannig að  hún fari nú framhjá fjórum húsum, sem hún ekki gerði áður, en á móti komi að verslunarlóð færist fjær þessum sömu húsum.  Íbúar umræddra húsa hafi mótmælt staðsetningu þessa vegar en eftir að þau mótmæli hafi komið fram hafi verið ákveðið að setja hljóðmön meðfram umræddum vegi og hafi hreppsnefnd talið sæmilega sátt um þá lausn.  Þá er á það bent, varðandi hag heildarinnar, að endurskoðun skipulagsins hafi verið unnin af ágætum fagmönnum og náið samráð haft við íbúa svæðisins, haldnir hafi verið borgarafundir um þessi mál og reynt að taka tillit til sjónarmiða íbúanna eins og hægt hafi verið. Ekki hafi þó verið unnt að samræma öll sjónarmið og sé þá helst átt við nýjan veg út úr hverfinu, sem H hafi alltaf mótmælt. Undirskriftasöfnun hafi farið fram til að mótmæla fyrirhuguðum breytingum. Mótmælin hafi verið almenn en óljós og hafi mótmælendum því verið sent bréf og þeim boðið að útskýra sjónarmið sín.  Fundir í framhaldi af þessu hafi verið illa sóttir og í ljós hafi komið að þeir sem mótmæltu hafi oft og tíðum ekki verið búnir að kynna sér skipulagið nægilega vel eða jafnvel fengið villandi upplýsingar.  Hafi nokkrir íbúar séð ástæðu til að safna nýjum undirskriftum til stuðnings við skipulagið og hafi margir, sem áður höfðu mótmælt, ritað nöfn sín á stuðningslistann en áður hafi allmargir verið búnir að draga mótmæli sín til baka. Er vitnað til gagna um þetta efni sem úrskurðarnefndinni hafi verið send. Hvað varðar virkni lýðræðis er ítrekað að skipulagið hafi verið unnið í nánu samráði við íbúa og kynningargögn verið send á hvert heimili í sveitarfélaginu. Vegna fyrirhugaðrar sameiningar hafi jafnframt verið unnið að þessum málum í samvinnu við skipulagsyfirvöld í Reykjavík.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var fallið frá fyrirhuguðum breytingum á aðalskipulagi fyrir Kjalarneshrepp og er því enn í gildi það aðalskipulag sem fyrir var. Verður að skilja málatilbúnað kærenda á þann veg að þeir krefjist þess nú að hið nýja deiliskipulag fyrir Grundarhverfi, sem samþykkt var af sveitarstjórn hinn 26. febrúar 1998 og auglýst var í B-deild stjórnartíðinda hinn 11. maí 1998, verði fellt úr gildi. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að vel hafi verið staðið að undirbúningi og kynningu deiliskipulagsins.  Á litprentuðu kynningarblaði dags. 14. október 1997, sem sent mun hafa verið á hvert heimili í hreppnum, er skilmerkilega gerð grein fyrir þágildandi og fyrirhuguðu deiliskipulagi Grundarhverfis. Umfjöllun um málið sýnist og hafa verið í alla staði lýðræðisleg og íbúum gefinn kostur á að tjá sig um málefnið, meðal annars á borgarafundum. Úrskurðarnefndin fær ekki annað ráðið af gögnum málsins en að málsmeðferðin öll hafi verið að lögum og hið nýja skipulag auglýst í stjórnartíðindum með lögformlega réttum hætti. Ekki verður fallist á að það skipti máli þótt kjörtímabil hreppsnefndar hafi verið að renna út og að sameining hreppsins við Reykjavík hafði verið ákveðin þegar skipulagsvinnan var komin á lokastig enda verður ekki séð að þær aðstæður hafi á neinn hátt haft áhrif á ákvarðanir þær, sem teknar voru um skipulagsmálin.  Þá er ekki á það fallist að hið nýja deiliskipulag Grundarhverfis feli í sér svo viðamiklar breytingar á samgöngu- og þjónustukerfi svæðisins í heild að koma hefði þuft til breytinga á aðalskipulagi.  Gata sú, sem helst er deilt um í málinu, er skilgreind sem safngata og þykir ekki skipta máli í þessu sambandi þótt á uppdrætti sé framhald hennar sýnt til vesturs út úr hverfinu. Er ekki á það fallist að með umræddum breytingum sé farið gegn staðfestu  aðalskipulagi  fyrir Kjalarneshrepp.  Úrskurðarnefndin telur með vísan til framanritaðs, svo og til fyrirliggjandi gagna, engin rök standa til þess að fallist verði á kröfur kærenda í máli þessu. Ber því að hafna öllum kröfum kærenda í málinu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um að nýtt  deiliskipulag fyrir Grundarhverfi á Kjalarnesi, samþykkt af sveitarstjórn hinn 26. febrúar 1998, verði fellt úr gildi og að auglýsing þess 11. maí 1998 í B deild stjórnartíðinda verði úrskurðuð ógild.