Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

109/2022 Gefjunarbrunnur

Árið 2023, miðvikudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2022 um að grípa ekki til aðgerða vegna fasteignarinnar Gefjunarbrunns 12 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Freyjubrunni 9, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2022 að grípa ekki til aðgerða vegna fasteignarinnar Gefjunarbrunns 12 í Reykjavík. Verður að skilja málsskot kæranda á þann veg að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. nóvember 2022.

Málavextir: Um haustið 2022 sendi kærandi ábendingu í gegnum ábendingavef á vefsíðu Reykjavíkurborgar vegna lóðanna Gefjunarbrunni 10 og 12. Kom þar fram að lóðarhafar nefndra lóða nýttu götuna Freyjubrunn til geymslu byggingarefnis og væri þess óskað að Reykjavíkurborg myndi beita sér fyrir því að umræddir lóðarhafar tækju „tillit til þarfa íbúa Freyjubrunns að nýta gesta og íbúa bílastæði íbúa Freyjubrunns í eigin þágu“. Einnig kom fram að áður hefði verið óskað eftir því að dyrum á húsi að Gefjunarbrunni 12 með umgengni út í Freyjubrunn yrði lokað.

Á afgreiðslufundi skilmálaeftirlits umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar hinn 26. september 2022 var ábendingin tekin fyrir og sat byggingarfulltrúi fundinn. Bókað var í fundargerð að dyrnar og veggur undir svölum væru í lagi og ekki stæði til að aðhafast í málinu. Kæranda var tilkynnt um afgreiðsluna í gegnum ábendingarvef á vefsíðu Reykjavíkurborgar 28. s.m. Kom þar fram að dyrnar, aðkoman og geymslupláss undir tröppum væri að mati byggingarfulltrúa í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Af hálfu eftirlitsdeildar og byggingarfulltrúa væri því ekki ástæða til aðhafast í málinu og teldist því lokið.

Málsrök kæranda: Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til tölvupóstsamskipta milli hans og borgaryfirvalda sem og ljósmynda sem fylgdu kæru.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að dyr, aðkoma og geymslupláss undir tröppum við Gefjunarbrunn 12 séu í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti, dags. 5. júní 2018. Gefjunarbrunnur 12 hafi lóðamörk að bæði Gefjunarbrunni og Freyjubrunni. Í grunninn sé kærandi ósáttur við að eigendur Gefjunarbrunns 12 nýti götuna Freyjubrunn sem aðkomu að húsi þeirra. Freyjubrunnur sé gata í borgarlandi og hvorki kærandi, íbúar við Freyjubrunn né gestir þeirra eigi tilkall til eða forgang við notkun hennar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að geymslan sem liggur að bílastæðum Freyjubrunns sé undir breyttum og stækkuðum svölum Gefjunarbrunns 12, en ekki undir tröppum eins og fram komi í greinargerð Reykjavíkurborgar.

Í áðurgildandi deiliskipulagi svæðisins hafi bílastæði Gefjunarbrunns verið skilgreind sem sérstök lóð sem tilheyrði öðrum lóðum við Gefjunarbrunn og væri sameign þeirra. Íbúar Freyjubrunns hafi ítrekað bent lóðarhafa Gefjunarbrunns 12 á að hann geti lagt bílum sínum í sinni götu. Þá þurfi íbúar Freyjubrunns á bílastæðum götunnar að halda og mismunun á gæðum til handa íbúanna hvað bílastæði varði sé sérkennileg.

Samkvæmt borgaryfirvöldum eigi sú staðreynd að lóðin við Gefjunarbrunn 12 eigi lóðamörk að báðum götum að réttlæta yfirgang lóðarhafa yfir í Freyjubrunn vegna eignarhalds borgarinnar á götu og bílastæðum. Allt um hverfið séu lóðir sem tugum skipti með lóðamörk að tveimur götum. Ekki hafi hvarflað að neinum húsráðendum þeirra húsa að nýta sér þá götu sem þeir séu ekki skráðir við. Þeir loki sig þess í stað af með háum og miklum veggjum og nýti sínar lóðir og götur. Sá galli sé hins vegar á lóð Gefjunarbrunns 12 að þar sé nánast engin lóð utan byggingarreits. Íbúar Freyjubrunns krefjist þess að reistur verði 3 m langur skjólveggur úr timbri í framhaldi af steypta svalaburðarveggnum til að loka af átroðning. Þess sé einnig krafist að skarði í steinvegg á Gefjunarbrunni 12 út í Freyjubrunn verði lokað. Þarna eigi að vera heill veggur. Eðlilegt sé að borgaryfirvöld stígi inn fyrir hönd borgara sinna og leiði ástandið til betri vegar með vegg sem hindri aðgengi út í Freyjubrunn. Í greinargerð borgaryfirvalda sé hins vegar skautað yfir þá kröfu.

Þá sé húsið úr timbri og í geymslunni séu m.a. geymd torfæruhjól og bensín. Mikil eldhætta stafi af umgengninni fyrir íbúa hússins og bílastæðin. Haft hafi verið samband við Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur en enginn af þeim telji málið heyra undir sig.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2022 að aðhafast ekki í máli kæranda vegna fasteignarinnar Gefjunarbrunns 12. Verður að líta svo á að erindum kæranda hafi verið beint í þann farveg að þvingunarúrræða væri krafist af hans hálfu vegna málsins.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Þá brestur úrskurðarnefndina heimild til þess að leggja tilteknar athafnir fyrir byggingaryfirvöld. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að Reykjavíkurborg hlutist til um að settur verði upp veggur á mörkum lóðarinnar.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun að vera studd efnislegum rökum.

Af málatilbúnaði kæranda má ráða að aðfinnslur hans snúist fyrst og fremst um aðgengi lóðarhafa Gefjunarbrunns 12 að húsi sínu frá Freyjubrunni, geymslu undir svölum hússins og slæma umgengni á lóðinni. Á aðaluppdráttum hússins að Gefjunarbrunni 12 eru dyr þeim megin hússins sem snýr að Freyjubrunni og er ekki gert ráð fyrir heilum vegg framan við dyrnar. Aðaluppdrættir Gefjunarbrunns 12 voru áritaðir af byggingarfulltrúa 5. júní 2018. Þá virðist samkvæmt deiliskipulagi Úlfarsárdals, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2018, ekki útilokuð aðkoma að umræddu húsi frá Freyjubrunni. Fyrrgreindum þvingunarúrræðum mannvirkjalaga verður ekki beitt gegn lögmætu ástandi. Þá verður hvorki ákvörðun um samþykkt byggingaráforma vegna hússins né deiliskipulag svæðisins endurskoðað í máli þessu þar sem kærufrestur vegna þeirra ákvarðana er löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt aðaluppdráttum virðist misræmis gæta milli teikninga er varða jarðvegsyfirborð undir svölum. Önnur teikningin, sem sýnir þverskurð hússins, skurður B, gerir ráð fyrir uppfyllingu undir svölum en hin, sem sýnir útlit suðausturhliðar þess, gerir ráð fyrir hallandi yfirborði frá húsi sem er nokkru lægra en gólf svalanna. Leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga hjá Reykjavíkurborg vegna þessa og óskaði eftir því að útskýrt yrði nánar að hvaða leyti borgaryfirvöld teldu umrædda geymslu undir tröppum í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Í svörum Reykjavíkurborgar kom fram að við nánari skoðun á aðaluppdráttum mætti sjá misræmi milli teikninga. Ákvörðun um að geymslan, þ.e. veggur, væri í samræmi við teikningar hafi verið tekin með hliðsjón af útlitsteikningu suðausturhliðar, sem sýnir stoðvegg undir svölum við lóðarmörk.

Í ljósi misræmis milli teikninga á aðaluppdráttum má telja að vafi leiki á því hvort ásigkomu-lagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar sé ábótavant, sbr. áðurgreinda 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga. Er því tilefni til þess fyrir byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar að rannsaka málið að nýju, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og taka í framhaldi rökstudda afstöðu til erindis kæranda. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi hvað þetta snertir.

Varðandi umgengni og önnur atriði sem fjallað er um af hálfu kæranda skal bent á að skv. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti kemur fram að lóð í kringum húsnæði skuli vera frágengin og henni haldið hreinni þannig að ekki berist að óþörfu óþrifnaður inn og valdi óþægindum fyrir þá sem þar dvelja eða leita þjónustu. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum reglugerðarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2022 um að grípa ekki til aðgerða vegna fasteignarinnar Gefjunarbrunns 12.