Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

109/2017 Bjarmaland Sandgerði

Árið 2017, föstudaginn 8 desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 109/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kæra Sigurgeir Jónsson og Elísabet Jensdóttir, Uppsalavegi 8, Sandgerði, staðsetningu fjarskiptamasturs að Bjarmalandi 16 Sandgerði. Er þess krafist að mastrið verði skráð lögum samkvæmt og það fari í grenndarkynningu. Til vara er þess krafist að mastrið verði fjarlægt.

Málsatvik og rök: Árið 1978 fékk Ríkisútvarpið heimild Miðneshrepps til þess að reisa mastur á lóð nr. 16 við Bjarmaland. Með bréfi dags. 2. apríl 2012 óskuðu kærendur eftir svörum yfirvalda Sandgerðis varðandi hið kærða fjarskiptamastur og bárust svör sveitarfélagsins við erindinu 29. ágúst s.á. Með bréfi dags. 5. nóvember 2012 óskaði annar kærenda eftir afriti af leyfi til uppsetningar útvarpssenda að Bjarmalandi 16 sem settir hefðu verið upp 6.-8. mars s.á. Þeirri beiðni var svarað af hálfu sveitarfélagsins með bréfi dags. 17. maí 2017 þar sem fram kom að það telji spurningum hans svarað með erindi skipulags- og byggingarfulltrúa dags. 29. ágúst 2012. Jafnframt var beðist velvirðingar á að ítrekunum á  erindi kærandans frá 5. nóvember 2012 í bréfum 1. og 27. apríl 2017 hafi ekki verið svarað. Með bréfi dags. 25. ágúst 2017 svaraði sviðstjóri umhverfis-, skipulags- og byggingarsviðs spurningum kærenda sem bárust embættinu 21. júní s.á. Þar var upplýst hver væri skráður eigandi lóðarinnar Bjarmalands 16 og hver landnotkun hennar væri samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Kærendur telja að skrá beri þennan búnað og atvinnustarfsemi lögum samkvæmt og að sú skráning fari í grenndarkynningu. Að öðrum kosti beri að fjarlæga umrædd mannvirki. Hvergi hafi komið fram að Miðneshreppur hafi komið að leyfisveitingu fjarskiptamasturs frá árinu 1978 enda lóðin ekki í eigu hreppsins heldur hafi verið um persónulegt leyfi sveitarstjóra að ræða, sem hann hafi ekki haft heimild til að veita.

Sveitarfélagið bendir á að almennt tíðkist ekki að sjónvarpssenda sé getið sérstaklega í aðal- eða deiliskipulagi.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðuni samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Þó verður kæra ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að hún var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Sú ákvörðun að heimila að reist yrði fjarskiptamastur að Bjarmalandi 16, mun hafa verið tekin árið 1978. Er kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar löngu liðinn. Þá liggja ekki fyrir aðrar ákvarðanir bæjaryfirvalda Sandgerðisbæjar vegna umdeilds fjarskiptabúnaðar sem bornar verða undir úrskurðarnefndina. Bent er á að úrskurðarnefndin hefur það hlutverk að endurskoða lögmæti ákvörðunar yfirvalda sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og skipulagslögum nr. 123/2010 en nefndin er ekki bær að lögum að taka stjórnvaldsákvarðanir svo sem um að mannvirki skuli fjarlægð. Taka slíkrar ákvörðunar er í verkahring byggingaryfirvalda í hverju sveitarfélagi, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki en þær ákvarðanir verða eftir atvikum bornar undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________________
Ómar Stefánsson