Mál nr. 108/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 10. júlí 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyramölum vegna Herjólfsgötu 30-34.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2014, er barst nefndinni 10 s.m., kæra íbúar við Herjólfsgötu, Drangagötu og Klettagötu, Hafnarfirði þá ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum vegna Herjólfsgötu 30-34. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. september s.á. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er farið fram á „stöðvun allra framkvæmda þ. á m. stöðvun útgáfu byggingaleyfis…“ til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 11. mars. 2014 og hjá skipulagsnefnd Garðabæjar hinn 10. apríl s.á., var tekin fyrir umsókn um breytingu á sameiginlegu deiliskipulagi Garðabæjar og Hafnarfjarðar fyrir Hleina að Langeyrarmölum vegna lóðanna Herjólfsgötu 30-34. Fólst breytingin í að lóðirnar Herjólfsgata 30, 32 og 34 yrðu sameinaðar í eina lóð þar sem gert væri ráð fyrir tveimur fjögurra hæða byggingum með 32 íbúðum og bílakjallara. Samþykkt var að auglýsa tillöguna og var það gert 6. maí 2014 með athugasemdarfresti til 18. júní s.á. Var afgreiðsla skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar staðfest af bæjarstjórn 19. mars 2014. Bárust athugasemdir við tillöguna sem skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðarbæjar tók til skoðunar. Hinn 8. júlí s.á. var deiliskipulagsbreytingin samþykkt af skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðarbæjar með eftirfarandi bókun „…samþykkir deiliskipulagið með þeim breytingum að bílastæðakvöð verði 1,8 stæði á íbúð, bílastæðum verði fækkað að því marki ofan jarðar, og gerður verði kantur út að götunni…“ Var afgreiðslan staðfest af bæjarráði, í umboði bæjarstjórnar, 10. s.m. Var endanleg deiliskipulagsbreyting síðan samþykkt af skipulagsnefnd Garðabæjar hinn 28. s.m. og staðfest af bæjarráði Garðabæjar 29. s.m. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. september s.á.
Kærendur telja hina kærðu breytingu, að nýta tvær lóðir sem eina lóð með auknum nýtingarrétti undir fjölbýlishús, falla undir verulega breytingu á deiliskipulagi með tilheyrandi kröfum um aðra málsmeðferð en þetta mál hafi hlotið hjá sveitarfélaginu. Sé grenndarréttur nágranna verulega skertur með þessum aðgerðum og geti Hafnarfjarðarbær ekki vikið sér undan 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að auki séu svör Hafnarfjarðarbæjar við athugasemdum við deiliskipulagið ekki fullnægjandi. Séu svörin byggt á huglægu mati og án nokkurs rökstuðnings eða rannsókna af þeirra hálfu. Ekki hafi verið komið til móts við athugasemdir íbúanna.
Af hálfu sveitarfélagsins er því hafnað að farið hafi verið með breytinguna sem óverulega breytingu enda hafi breytingin verið auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga. Eitt af markmiðum í aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 hafi verið að þétta núverandi byggð m.a. með endurskipulagningu vannýttra svæða og að lögð yrði áhersla á svæði í göngufjarlægð frá miðbænum. Sé sama markmið að finna í nýsamþykktu aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Séu lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu vannýttar og því kjörið þéttingarsvæði í anda þágildandi og gildandi aðalskipulags.
Af hálfu leyfishafa er rík áhersla lögð á að með stöðvun framkvæmda felist alvarlegt inngrip í umráða- og hagnýtingarrétt hans. Hafi stöðvun framkvæmda í för með sér verulegt óhagræði og aukinn kostnað. Sé því mikilvægt að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar sveitarfélagsins um samþykkt hins breytta deiliskipulags. Séu engin efni sem standi til þess að hinni kærðu ákvörðun sé hnekkt enda sé deiliskipulagið í fullu samræmi við aðalskipulag Hafnarfjarðarbæjar og í samræmi við lög. Að auki hafi ekki verið sýnt fram á að grenndarréttur kærenda sé skertur með ólögmætum eða ómálefnalegum hætti.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.
Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar sameinaðrar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13. 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Greindar ákvarðanir verða ekki stöðvaðar af úrskurðarnefndinni áður en til þeirra kemur, enda takmarkast vald nefndarinnar við eftirfarandi athugun á lögmæti þeirra. Komi hins vegar til kærumáls vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.
Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun réttaráhrifa sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.
Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.
Nanna Magnadóttir