Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

107/2008 Baldursgata

Ár 2010, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 107/2008, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. október 2008 á beiðni um afturköllun á leyfi hans til færslu sorptunnuskýlis úr húsinu að Baldursgötu 33 að norðurhlið þess.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. nóvember 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir hdl., f.h. húsfélagsins að Þórsgötu 12 í Reykjavík, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. október 2008 á beiðni hennar um afturköllun á leyfi hans til færslu sorptunnuskýlis úr húsinu að Baldursgötu 33 að norðurhlið þess.

Er þess krafist að hin kærða synjun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. janúar 2008 var samþykkt umsókn um leyfi til færslu sorptunnuskýlis úr húsinu að Baldursgötu 33 að norðurhlið þess.

Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 8. október 2008, til byggingarfulltrúa var ítrekuð krafa kæranda frá 17. apríl s.á. um að embætti byggingarfulltrúa afturkallaði fyrrgreint byggingarleyfi enda hefði hvorki verið aflað samþykkis kæranda né gætt að kvöð er hvíli á fasteigninni að Baldursgötu 33.  Um sé að ræða umferðarrétt um ca. tveggja metra breiðan stíg við norðurenda hússins að Baldursgötu 33, frá Baldursgötu inn á baklóð hússins Þórsgötu 12. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar málsins þar sem ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun sem borin verði undir úrskurðarnefndina, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

—————–

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kært svar embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík í bréfi, dags. 28. október 2008, við erindi lögmanns kæranda, dags. 8. sama mánaðar, þar sem gerð er krafa um afturköllun leyfis fyrir færslu sorptunnuskýlis úr húsinu að Baldursgötu 33 að norðurhlið þess.

Umrætt svar í bréfi byggingarfulltrúa felur ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls enda hefur það hvorki verið afgreitt í skipulagsráði né komið til staðfestingar borgarráðs.  Verður því ekki litið á umrætt svar embættis byggingarfulltrúa sem kæranlega stjórnvaldsákvörðun og ber því, samkvæmt sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________   ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                          Aðalheiður Jóhannsdóttir