Árið 2019, fimmtudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 105/2018, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. maí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts vegna lóðanna nr. 21-27 við Frakkastíg og nr. 2-20 við Bergþórugötu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Bergþórugötu 8, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. maí 2018 um breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts vegna lóðanna nr. 21-27 við Frakkastíg og nr. 2-20 við Bergþórugötu. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. september 2018.
Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Skólavörðuholts sem samþykkt var 13. nóvember 2001 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 17. maí 2002. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 24. janúar 2018 og borgarráðs Reykjavíkur 1. febrúar 2018 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á umræddu deiliskipulagi vegna lóðanna nr. 21-27 við Frakkastíg og nr. 2-20 við Bergþórugötu. Fól tillagan m.a. í sér heimild til að reisa nýjar byggingar og breyta núverandi byggingum við Bergþórugötu. Á lóð nr. 6 við Bergþórugötu yrði heimilt að bæta við rishæð og hækka þak. Heimilt yrði að sameina lóðirnar nr. 10 og 12 og reisa tveggja hæða hús með risi með allt að 18 íbúðum. Á lóð nr. 18 mætti reisa tveggja hæða byggingu með þremur íbúðum og í húsi á lóð nr. 20 yrði heimilað að hafa fjórar íbúðir en þar hafði áður verið starfræktur leikskóli.
Tillagan var auglýst til kynningar frá 12. febrúar til 26. mars 2018 og bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. maí s.á., voru lagðar til breytingar til að koma til móts við framkomnar athugasemdir. Lagt var m.a. til að breytt yrði staðsetningu nýbyggingu við Bergþórugötu 18 og hún lækkuð til að draga úr skuggavarpi á Bergþórugötu 16 og 16a. Deiliskipulagstillagan var samþykkt 16. maí 2018 í umhverfis- og skipulagsráði með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 24. s.m. Skipulagið var sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar umfjöllunar, sem tilkynnti með bréfi, dags. 20. júní 2018, að hún gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt skipulagsins. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 6. júlí s.á.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi á kynningartíma deiliskipulagstillögunnar sent athugasemdarbréf, dags. 19. mars 2018, f.h. eigenda Bergþórugötu 8. Kærandi hefði fengið vitneskju um það 29. júlí s.á. að svör við athugasemdunum hefðu verið póstlögð 29. maí 2018 en það bréf hefði aldrei borist. Gerðar séu athugasemdir við að Reykjavíkurborg hafi ekki sent bréfið í ábyrgðarsendingu.
Athugasemdir kæranda við umrædda skipulagsbreytingu lúti í fyrsta lagi að umfangi og stærð fyrirhugaðrar byggingar á lóðinni nr. 10-12 við Bergþórugötu. Ljóst sé að byggingin verði hvorki í samræmi við núverandi götumynd né nýtingarhlutfall aðliggjandi lóðar kæranda að Bergþórugötu 8, þar sem engar breytingar séu fyrirhugaðar.
Í öðru lagi muni umtalsverð aukning verða á umferð bíla og gangandi vegfarenda sunnan megin við Bergþórugötu 8 og fækkun verði á bílastæðum samhliða auknum íbúafjölda. Eini gangstígur að bílastæðum við suðurmörk lóðar kæranda liggi við vesturmörk lóðar hennar í samræmi við kvöð um 2 m gangstíg en Reykjavíkurborg hafi ítrekað neitað að sjá um stíginn. Með breytingunni sé áætlað að meginþorri bílastæða verði sunnan við Bergþórugötu 8 með tilheyrandi ónæði á öllum tímum sólarhrings.
Í þriðja lagi áskilji eigendur sér rétt, ef af framkvæmdum verði, til að óháður matsmaður verði fenginn til að taka út ástand eignar þeirra áður en að framkvæmdir hefjist með tilliti til mögulegra skemmda sem geti orðið á framkvæmdartíma. Öllum sé kunnugt um að á Skólavörðuholti séu miklar líkur á að í jarðvegi séu klappir sem erfitt sé að eiga við og því sanngjarnt og eðlilegt að ástand eigna fyrir og eftir framkvæmd sé metið m.t.t. mögulegrar bótaskyldu Reykjavíkurborgar eða lóðarhafa.
Í fjórða lagi séu gerðar athugasemdir við gögn sem sýni áætlað skuggavarp og áhrif þess. Í gögnunum komi hvergi fram sú breyting sem eigi að verða á núverandi skuggavarpi samanborið við það sem verði komi til byggingar á reitnum, en augljóst sé að íbúar geti ekki sætt sig við aukið skuggavarp.
Að lokum vilji eigendur benda á forkaupsrétt sinn að lóð Bergþórugötu 8a samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu. Verði af fyrirhuguðum lóðabreytingum vilji eigendur lóðarinnar að Bergþórugötu 8 fá tækifæri til að nýta forkaupsrétt sinn og koma þannig í veg fyrir ónæði sem muni fylgja þeim níu bílastæðum sem áætluð séu á lóðinni.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ekki verði með góðu móti séð á hvaða atriðum kæran í málinu byggi en kærandi haldi því fram að sér hafi ekki borist svarbréf skipulagsfulltrúa vegna athugasemda hans og geri athugasemdir við að bréfið hafi ekki verið sent í ábyrgðarpósti.
Misskilnings gæti hjá kæranda um málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar. Umdeild skipulagsbreyting hafi ekki verið grenndarkynnt heldur auglýst til kynningar með almennum hætti. Kærandi hafi á auglýsingatímanum sent inn athugasemdir, f.h. eigenda Bergþórugötu 8, og þeim hafi verið svarað með umsögn skipulagsfulltrúa. Henni hafi síðan verið send tilkynning um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 29. maí 2018. Engin lagaskylda hvíli á sveitarfélögum að senda tilkynningar í ábyrgðarpósti og geti Reykjavíkurborg ekki borið ábyrgð á því ef bréf með svörum við athugasemdum kæranda, sem sent hafi verið á uppgefið heimilisfang hans, berist ekki.
Kæran uppfylli ekki skilyrði 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki komi fram hvaða ákvörðun sé kærð, hverjar kröfur kæranda séu og engin rök fyrir kæru séu sett fram eða í besta falli séu þau rök afar fátækleg.
Líti úrskurðarnefndin svo á að í kæru felist krafa um ógildingu umræddrar deiliskipulagsbreytingar krefjist Reykjavíkurborg þess að þeirri kröfu verði hafnað enda ekkert í málatilbúnaði kæranda sem gefi tilefni til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar og vísist af hálfu Reykjavíkurborgar um málsmeðferð til málavaxtalýsingar og meðfylgjandi gagna málsins. Ljóst sé að meðferð tillögunnar hafi verið að öllu leyti í samræmi við reglur skipulagslaga nr. 123/2010.
Niðurstaða: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kæru í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæran uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggur að ágreiningur máls þessa snýst um lögmæti umdeildrar deiliskipulagsbreytingar. Snúa framkomnar athugasemdir kæranda, sem komið var á framfæri við kynningu skipulagsbreytingarinnar, að efni hennar, auk þess sem í kæru er gerð athugasemd við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar. Liggja því nægilega skýrt fyrir ástæður kæranda fyrir kæru í máli þessu. Af þeim sökum og í ljósi leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sem á úrskurðarnefndinni hvílir, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður ekki fallist á kröfu um frávísun málsins.
Hin kærða deiliskipulagsbreyting gerir m.a. ráð fyrir að lóðirnar nr. 10 og 12 við Bergþórugötu verði sameinaðar og að heimilað verði að reisa þar tveggja hæða hús með risi með allt að 18 íbúðum, en áður voru lóðirnar nýttar undir bílastæði. Snýst ágreiningur máls þessa fyrst og fremst um uppbyggingu á hinni sameinuðu lóð.
Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem tók gildi 26. febrúar 2014, er skipulagssvæði hins kærða deiliskipulags skilgreint sem fastmótuð byggð, ÍB 12 Skólavörðuholt. Hverfið sem hafi byggst að stærstum hluta í samræmi við tillögu að heildarskipulagi Reykjavíkur innan Hringbrautar frá 1927 hafi að mestu verið fullbyggt kringum 1950 og hafi byggðin heilsteypt yfirbragð. Í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir breytingum í fastmótaðri byggð á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Verður ekki séð að hin kærða skipulagsbreyting fari gegn nefndum markmiðum og stefnu aðalskipulagsins, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana fullnægt.
Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar sem hann og gerði. Framkomnum athugasemdum var svarað og þeim sem gerðu athugasemdir send þau svör. Ekki hvílir lagaskylda á sveitarfélögum að senda svör við framkomnum athugasemdum við kynningu skipulagstillögu í ábyrgðarpósti og er alsiða að senda slík svör með almennum pósti. Samþykkt tillaga, ásamt samantekt um málsmeðferð, var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsbreytingarinnar og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 6. júlí 2018. Var málsmeðferð tillögunnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.
Heimiluð bygging á lóðinni Berþórugötu 10-12 er tvær hæðir og ris með allt að 18 íbúðum og nýtingarhlutfall lóðarinnar verður 1,6. Hæð hússins og nýtingarhlutfall lóðarinnar víkur ekki frá því sem finna má við þá hlið götunnar sem umrædd lóð er. Til samanburðar má nefna að nýtingarhlutfall lóðarinnar Bergþórugötu 14a er hið sama og nýtingarhlutfall lóðar kæranda er 1,2. Þá verður ráðið af gögnum um skuggavarp fyrirhugaðrar byggingar að það sé ekki umfram það sem gerist og gengur á svæðinu.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 24. maí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts vegna lóðanna nr. 21-27 við Frakkastíg og nr. 2-20 við Bergþórugötu.