Fyrir var tekið mál nr. 104/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. ágúst 2013 um að veita byggingarleyfi til að innrétta veitingahús í flokki III að Hverfisgötu 20 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. október 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Laugavegi 5, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. ágúst 2013 að veita byggingarleyfi til að innrétta veitingahús í flokki III að Hverfisgötu 20. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. janúar 2014 og 27. október 2015.
Málavextir: Húsið að Hverfisgötu 20 er steinsteypt bílastæðahús, en á fyrstu hæð í norðvesturenda þess er rými þar sem rekin var verslun.
Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 12. apríl 2013 var lögð fram fyrirspurn um hvort leyfi fengist til að innrétta kaffihús í flokki III í fyrrgreindu verslunarrými og byggja timburverönd við vesturhlið hússins. Var fyrirspurninni vísað til umsagnar hjá verkefnisstjóra. Á fundi skipulagsfulltrúa 18. s.m. var lögð fram umsögn hans, dags. 17. s.m., þar sem ekki var gerð skipulagsleg athugasemd við að breyta notkun hússins úr verslun í veitingastað. Hinn 13. ágúst 2013 var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til áðurgreindra breytinga og framkvæmda en þar lá fyrir fyrrgreind umsögn skipulagsfulltrúa. Þar kom fram að opnunartími sé heimilaður til kl. 01 alla daga vikunnar. Hámarks gestafjöldi sé 110 manns í sal og 20 manns á útipalli. Þá lá jafnframt fyrir greinargerð um hljóðvist, dags. 15. júlí 2013, og samþykki eigenda, dags. 19. s.m. og 1. ágúst s.á.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi fengið afhent gögn í tölvupósti hinn 9. október 2013 varðandi hið kærða leyfi. Íbúð kæranda sé bak við húsið að Hverfisgötu 20 og aðgengi að íbúð hans sé um Traðarkotssund framhjá fyrrnefndu húsi. Nú þegar sé mikið ónæði af veitingastað í húsi nr. 18 við Hverfisgötu. Þar hafi upphaflega verið gefið leyfi fyrir lágstemmdu kaffihúsi en þar sé nú leyfi fyrir veitingahúsi í flokki III. Þá hefði þurft að grenndarkynna hina kærðu breytingu þar sem verslun hafi verið breytt í veitingahús.
Í greinargerð um hljóðvist frá 15. júlí 2013 sem gerð hafi verið af verkfræðistofu komi fram að skoða þurfi eða áætla kröfur um hæsta leyfilega hljóðstig við nálæg eða tengd íbúðarhús til að gera sér grein fyrir hljóðvist vegna starfsemi staðarins. Að Laugavegi 5 séu fimm íbúðir sem ekki séu nefndar í greinargerðinni, en hljóðstig sé mælt á gistiheimili handan Hverfisgötunnar, gegnt húsinu að Hverfisgötu 20.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er skírskotað til þess að húsið að Hverfisgötu 20 sé staðsett á miðborgarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Fyrrnefnd gata sé á skilgreindu hliðarverslunarsvæði A-I.II (sic) og sé samkvæmt skilgreiningu aðalskipulags hliðarverslunargata í miðborg þar sem fjölbreytileg notkun sé leyfð, þ.m.t. rekstur veitingastaða. Um landnotkun á miðborgarsvæðinu sé fjallað í sérstakri greinargerð með aðalskipulaginu, greinargerð III, þróunaráætlun miðborgar, landnotkun. Í þróunaráætlunni sé sérákvæði um að borgaryfirvöld vilji, sem lið í því að viðhalda og efla fjölbreytt mannlíf í borginni, stuðla að samspili verslunarreksturs og veitingareksturs og þyki rétt í því skyni að leyfa rýmri afgreiðslutíma áfengis á aðalverslunarsvæðum V-I.I og hliðarverslunarsvæðum V-II.I. Á svæði því sem hér um ræði, hliðarverslunarsvæði V-II.I, sé sérstaklega gert ráð fyrir rýmri opnunartíma veitingastaða.
Í deiliskipulagi reitsins sem beri heitið deiliskipulag Reykjavíkurborg, Laugavegs- og Skólavörðustígsreitir, staðgreinireitur 1.171.0, sé ekki frekari takmörkun á landnotkun svæðisins frá því sem aðalskipulag geri ráð fyrir. Í greinargerð um núverandi ástand á reitnum komi fram að fjölbreytt starfsemi sé á götuhæðum sem sé í samræmi við markmið þróunaráætlunar. Umsóknin um breytta notkun umrædds rýmis að Hverfisgötu 20 falli því bæði að ákvæðum aðal- og deiliskipulags. Þar sé heimiluð starfsemi af því tagi sem hér um ræði, ef uppfyllt séu skilyrði um frágang og notkun húsnæðisins sem miði að því að taka sérstaklega tillit til íbúa og jafnvel annarra hagsmunaaðila í nágrenninu. Tryggt hafi verið að allur tæknilegur frágangur húseignarinnar yrði með þeim hætti að ekki yrði hætta á röskun grenndarhagsmuna umfram það sem eðlilegt megi teljast á miðborgarsvæði, sérstaklega hvað varði atriði eins og hljóðvist vegna starfsemi innanhúss.
Í greinargerð um hljóðvist, dags. 15. júlí 2013, komi fram að í húsunum sem næst standi kaffihúsinu séu ýmist skrifstofur eða veitingahús með næturopnun. Handan götunnar sé Þjóðleikhúsið og við hlið þess skrifstofuhús, sem nú sé notað sem gistihús. Engar úrbætur þurfi að fara fram á húsnæðinu enda kröfum sem gerðar séu til hljóðeinangrunar uppfyllt, sbr. byggingarreglugerð og reglugerð um hávaða, bæði gagnvart umhverfinu og innan hússins sjálfs. Óþarfi hafi verið að grenndarkynna breytingu húsnæðisins úr verslun í kaffihús enda húsið skilgreint sem atvinnu- og þjónustuhúsnæði og breytingin í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir reitinn.
Aðalumkvörtunarefni kæranda lúti frekar að almennum reglum um hegðun borgaranna á almannafæri en að skipulagslegum forsendum miðborgarinnar. Um ábyrgð rekstraraðila sé fjallað í lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg nr. 1097/2008 en í 26. gr. hennar komi fram að hver sá sem reki veitingastað skuli sjá um að allt fari þar vel fram og að starfsemin valdi hvorki nágrönnum né vegfarendum ónæði. Brot á fyrrnefndri samþykkt geti varðað sviptingu nauðsynlegra leyfa vegna starfseminnar. Skipulags- og byggingaryfirvöld þurfi þrátt fyrir þetta að hafa til hliðsjónar þau áhrif sem starfseminni fylgi utandyra, en að sama skapi sé ómögulegt að meta hvort þau áhrif sem hin kærða samþykkt heimili leiði til þeirra skerðingar á hagsmunum nágranna sem fullyrt sé af hálfu kæranda. Í umræddu húsi auk nærliggjandi húsa, hafi verið reknir veitingastaðir og skemmtistaðir til fjölda ára. Ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að það hefði verið brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ef umsókn byggingarleyfishafa hefði sætt annarri meðferð og takmörkunum en umsóknir þeirra aðila sem nú þegar séu með rekstur á svæðinu. Ekki sé hægt að rökstyðja synjun þar sem fyrirhuguð nýting sé í samræmi skilmála svæðisins og hafi byggingarleyfishafi að öllu leyti uppfyllt þau skilyrði sem sett hafi verið fyrir veitingu leyfisins í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.
——-
Leyfishöfum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í tilefni af kærumáli þessu en engar athugasemdir hafa borist úrskurðarnefndinni af þeirra hálfu.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi þar sem heimilað var að breyta notkun verslunarrýmis að Hverfisgötu 20 í veitingastað í flokki III. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, falla eftirgreindir veitingastaðir í flokk III: „Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23 og kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu.“
Umrætt hús er innan deiliskipulagsreits sem afmarkast af Laugavegi, Bankastræti, Ingólfsstræti, Hverfisgötu og Traðarkotssundi. Svæðið er hluti miðborgar Reykjavíkur samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem var í gildi er leyfið var samþykkt. Í landnotkunarþætti þróunaráætlunar miðborgar, sem er hluti af fyrrgreindu aðalskipulagi, er miðborginni skipt í landnotkunarreiti, þ.e. miðborgarkjarna, atvinnusvæði, aðalverslunarsvæði og hliðarverslunarsvæði. Laugavegur og Bankastræti innan deiliskipulagsreitsins, þar með talin fasteign kæranda, eru á auðkenndu aðalverslunarsvæði V-I.I en suðurhlið Hverfisgötu, þar sem húsið nr. 20 stendur, er staðsett á hliðarverslunarsvæði V-II.I. Norðurhlið Hverfisgötu gegnt hinu umdeilda húsi er utan deiliskipulagsreitsins á skilgreindu atvinnusvæði A-I.II. Á hliðarverslunarsvæðum hafa verið skilgreind fjögur götusvæði þar sem nákvæmari stýringu verði beitt til að tryggja æskilega dreifingu notkunar og er eitt þeirra Hverfisgata, þ.e. suðurhlið hennar frá og með nr. 4 til og með nr. 62. Telst því Hverfisgata nr. 20 til þeirra skilgreindra götusvæða.
Í aðalskipulaginu var svo kveðið á um skilyrði fyrir breytingu á notkun húsnæðis úr verslun í aðra notkun á jarðhæð götuhliða á framangreindum skilgreindum götusvæðum hliðarverslunarsvæða. Breytingin var eingöngu heimil ef hlutfall annarrar notkunar en smásöluverslunar og matvöruverslunar færi ekki yfir 50% á hverju götusvæði fyrir sig, samfelld götuhlið jarðhæðar undir aðra notkun væri ekki meiri en 30 m og notkunin hefði ekki neikvæð áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna lyktar, hávaða, sorps eða af öðrum ástæðum. Sú skýring var gefin fyrir framangreindu að viðurkennt væri að önnur notkun en smásöluverslun gæti eflt miðborgir og þess vegna væri slík notkun heimiluð á hliðarverslunarsvæðum að því tilskyldu að hún skyggði ekki á verslun. Hinn 28. maí 2009 tók gildi breyting á aðalskipulaginu varðandi skilgreind götusvæði. Í breytingunni fólst að þegar sótt væri um breytingu á notkun húsnæðis á skilgreindu götusvæði sem leiða myndi til þess að viðkomandi notkun færi lítillega fram yfir skilgreind viðmið, væri heimilt að taka jákvætt í erindið en frávikið mætti þó ekki vera meira en 5% á viðkomandi götusvæðum á hliðarverslunarsvæðum og að hvert frávik yrði metið sérstaklega og tekið til umfjöllunar í skipulagsráði.
Úrskurðarnefndin leitaði upplýsinga hjá borgaryfirvöldum um hvert hafi verið hlutfall smásölu- og matvöruverslunar á jarðhæðum húsa er snéru að Hverfisgötu á umræddu götusvæði þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Var upplýst að samkvæmt skráningu embættis skipulagsfulltrúa á starfsemi við Hverfisgötu 4-62 fyrir árið 2013 hafi hlutfall smásöluverslunar einungis verið 38%, en á svæðinu var ekki að finna matvöruverslun. Með hinni kærðu ákvörðun var því farið gegn fyrrgreindum ákvæðum aðalskipulags um hlutfall smásölu- og matvöruverslunar á umræddu götusvæði við Hverfisgötu, enda nam hlutfall annarrar notkunar þá 62%.
Með vísan til þess sem að framan er rakið og kröfu 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki varðandi samræmi byggingarleyfis við gildandi skipulagsáætlanir verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. ágúst 2013 um að veita byggingarleyfi til að innrétta veitingahús í flokki III að Hverfisgötu 20 í Reykjavík.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ómar Stefánsson Þorsteinn Þorsteinsson