Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

102 og 120/2019 Freyjubrunnur

Árið 2020, föstudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2019, er barst nefndinni 29. s.m., kæra eigendur lóðarinnar Freyjubrunns 25-27 þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fjölbýlishúsi með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunns 23. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að sömu aðilar standa að báðum kærumálunum, auk þess sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar, verður síðara kærumálið, sem er nr. 120/2019, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. október 2019 og 11. desember s.á.

Málavextir: Forsaga máls þessa er nokkur. Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. janúar 2007 var staðfest afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 16. s.m. um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja þriggja hæða fjölbýlishús ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Takmarkað byggingarleyfi var gefið út 31. júlí s.á. og hófust framkvæmdir í kjölfar þess. Byggingarleyfið var síðan gefið út 24. september s.á. en framkvæmdir stöðvuðust á árinu 2008. Hið útgefna byggingarleyfi frá 2007 var svo endurútgefið 17. ágúst 2017 og hófust framkvæmdir á lóðinni um haustið. Skipulagsfulltrúi veitti hinn 29. s.m. umsögn um fyrirspurn varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Freyjubrunn þar sem m.a. kom fram að samþykktar teikningar væru ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Töluverð tölvupóstsamskipti áttu sér stað á milli kærenda og Reykjavíkurborgar næstu mánuði þar sem kærendur voru ítrekað upplýstir um að verið væri að vinna í málinu. Hinn 2. ágúst 2018 var kærendum tilkynnt að ekki yrði aðhafst frekar í málinu og að eigendur Freyjubrunns 23 hefðu í höndunum útgefið byggingarleyfi og framkvæmdu í samræmi við það. Var byggingarleyfið kært til úrskurðarnefndarinnar sem felldi það úr gildi með úrskurði í máli nr. 112/2018, kveðnum upp 29. ágúst 2019, þar sem leyfið væri ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags um hámarkshæð húsa.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 20. febrúar 2019 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Freyjubrunns 23. Í breytingunni fólst m.a. að fjölga íbúðum úr fimm í átta og auka byggingarmagn, auk þess sem kveðið var á um að svalir á norðurhlið hússins mættu ná 150 cm út fyrir byggingarreit. Þá var eftirfarandi tekið fram: „Hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga er 9,5 metrar frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar, ef þök eru flöt. Ef þök eru hallandi er hámarkshæð þriggja hæða bygginga 11,0 metrar. Ef þök eru flöt má hæsti þakkóti aldrei vera hærri en 89,0 m.y.s. en ef þök eru hallandi má hæsti þakkóti aldrei vera hærri en 90,5 m.y.s. Hæðarkótar miðast við hæðarkerfi Reykjavíkur.“ Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst í Fréttablaðinu og Lögbirtingablaðinu 27. mars 2019 með athugasemdafresti til 8. maí s.á. Þá voru hagsmunaaðilar og nágrannar, þ. á m. kærendur, hvattir til að kynna sér breytingartillöguna með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 27. mars s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum. Deiliskipulagstillagan var lögð óbreytt fram að nýju á fundi skipulags- og samgönguráðs 3. júlí s.á. ásamt umsögn skipulagsfulltrúa 28. júní s.á. Með vísan til nefndrar umsagnar var tillagan samþykkt og vísað til borgarráðs. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs 18. júlí s.á. og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2019.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. september 2019 var tekin fyrir umsókn leyfishafa til þess að byggja steinsteypt fjölbýlishús með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunni 23. Erindinu fylgdi m.a. umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. september s.á. Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og 30. október s.á. var byggingarleyfið gefið út.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu hafa hlotið ranga málsmeðferð. Fara hefði átt með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda verði með breytingunni vikið frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Í þessu samhengi sé vísað til þess að byggingarreitur standi mun framar en aðrir byggingarreitir í sömu götu, hæð sé önnur og meiri og eignin sjálf öll á skjön við götumynd, auk þess sem nýting aukist hlutfallslega mikið. Áhrif deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið metin út frá gildandi deiliskipulagi og grenndarhagsmunum, auk þess sem hagsmunaaðilum hafi ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar um áhrif breytingarinnar. Því hafi Reykjavíkurborg brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið telji að um minni háttar breytingu sé að ræða frá áður samþykktu deiliskipulagi en að mati kæranda sé það ekki í samræmi við lög. Hafi það og verið staðfest með úrskurði úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Upplýsingar í kynningargögnum á tillögu að breyttu deiliskipulagi hafi ekki verið full­nægjandi. Ekki hafi verið dregin upp raunsönn mynd af áhrifum deiliskipulags­breytingunni. Notað hafi verið tæknimál til endurskilgreina hvernig vegghæð skuli reiknast án þess að nefna það berum orðum að um hækkun á húsinu væri að ræða. Upphaflegar takmarkanir á hæð húsa samkvæmt eldra skipulagi hafi tryggt betra jafnvægi á götumynd og stallaða byggð niður hlíðina, sem lágmarki skuggamyndun á húsin fyrir ofan. Í umsögn skipulagsfulltrúa, varðandi þá athugasemd að byggingarmagn sé of mikið og að húsið hafi verið hækkað, sé vísað til þess að húsið við Freyjubrunn 23 sé sambærilegt húsinu að Freyjubrunni 29, en það geti ekki verið rök í sjálfu sér.

Framsetning skipulagsgagna hafi ekki verið skýr og því ekki í samræmi við kröfur í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Ákvæðið geri þá kröfu að þegar deiliskipulagi sé breytt skuli gera skýra grein fyrir því í hverju breytingin felist, í greinargerð og á uppdrætti. Hin umdeilda breyting snúi aðeins að einni tiltekinni lóð og varði framkvæmd sem sé byrjuð. Þrátt fyrir það sé ákvæði um hámarksvegghæð, sem sé mismunandi eftir þakgerð, mjög óljós. Því sé ómögulegt að sjá hvað sé í reynd verið að heimila með deiliskipulagsbreytingunni.

Ekki hafi komið fram í kynningargögnum að gefin yrði eftir krafa skilmála um að hús skuli fylgja bindandi byggingarlínu neðri hæðar. Þær upplýsingar hafi komið fram í gögnum sem liggi á vef Reykjavíkurborgar, en hafi ekki verið hluti af gögnum sem fylgt hafi deiliskipulagstillögunni sem nágrönnum hafi verið kynnt. Þetta styðji að um meiri háttar breytingar á skipulagi sé að ræða því staða húss við götu hafi afgerandi áhrif á götumyndina og öryggi vegfarenda. Enn sé óljóst hversu umfangsmikil þessi breyting sé. Framsetningin hafi verið svo ruglingsleg að kærendum hafi í reynd ekki verið unnt að gæta andmælaréttar síns við málsmeðferðina.

Í svari kærenda við greinargerð Reykjavíkurborgar hafi þeir bent á að stjórnsýsla borgarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur, enda hafi úrskurðarnefndin fellt úr gildi byggingarleyfi í kærumáli nr. 112/2018. Breytingar á deiliskipulagi séu samráðsmál en ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda íbúa um skuggamyndun vegna hækkunar á húsi. Í tillögunni sé gengið út frá því að útgefið byggingarleyfi og samþykkt teikning séu lögleg, en svo sé ekki þar sem byggingarleyfið hafi verið fellt úr gildi með fyrrnefndum úrskurði úrskurðar­nefndarinnar. Ekki sé hægt að meta áhrif breytinganna út frá ólöglegri teikningu og byggingarleyfi. Upphaflegt mat umhverfis- og skipulagssviðs á umfangi og áhrifum sé rangt og byggt á röngum forsendum m.t.t. skuggamyndunar, umferðaröryggis, fjölda bílastæða, heildargötumyndar og nýtingarhlutfalls lóðar. Einnig sé ljóst varðandi fjölgun íbúða að ekki hefðu rúmast fimm íbúðir í húsi sem hefði verið löglega afgreitt frá upphafi. Því sé um mikla aukningu á fjölda íbúða að ræða. Fjölgun íbúða í húsinu hafi áður verið hafnað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

Hvað varði athugasemdir leyfishafa bendi kærendur á að deiliskipulagsbreytingar hafi verið gerðar til að laga deiliskipulag að þegar útgefnu byggingarleyfi og túlkun lóðarhafa. Ekki hafi verið gefin ástæða fyrir breytingu á deiliskipulagi en lögum samkvæmt beri að rökstyðja ákvarðanir sem þessar. Hér sé verið að sníða deiliskipulag að einni lóð en jafnframt draga með því verulega úr gæðum annarra íbúða og öryggi. Önnur hús í götunni takmarkist við þrjár hæðir eins og upphaflegt skipulag geri ráð fyrir. Það samræmist ekki heildarmynd hverfisins að hafa húsið við Freyjubrunn 23 á fjórum hæðum, en þar sé enginn kjallari. Ekkert hús sem séu fyrir neðan annað hús í hallandi landi sé hærra en húsið fyrir ofan nema þarna. Málið snúist ekki einungis um breytingu á orðalagi skilmála deiliskipulagsins til nánari skýringar. Mistök hafi verið gerð við útgáfu eldra byggingarleyfisins og allt ferlið eftir það hafi verið yfirklór og útúrsnúningur.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að hin umþrætta deiliskipulagstillaga hafi fengið málsmeðferð skv. 1. mgr. 43. gr., sbr. 31. gr.. skipulagslaga nr. 123/2010, en sú málsmeðferð hafi verið samþykkt á fundi skipulags- og samgönguráðs 20. febrúar 2019. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði sé að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt sé þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Deiliskipulagstillaga sú sem hér um ræði hafi verið auglýst í samræmi við ákvæði 41. gr. skipulagslaga. Talið hafi verið að ekki væru skilyrði til að grenndarkynna skipulagstillöguna sem óverulega deiliskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 43. gr. laganna. Það sem hugsanlega rugli kærendur sé að hagsmunaaðilar og nágrannar hafi verið upplýstir með bréfi, dags. 27. mars 2019, um að auglýsing hefði birst í Fréttablaðinu og Lögbirtingarblaðinu 27. mars 2019 og hafi þeir sem teldu sig eiga hagsmuna að gæta verið hvattir til að kynna sér tillögurnar. Séu þessar bréfasendingar umfram lagalega tilkynningar­skyldu eins og hún sé skilgreind í skipulagslögum. Málsmeðferðin hafi uppfyllt gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá hafi kynningargögn verið fullnægjandi. Bæði uppdráttur og greinargerð uppfylli skilyrði skipulagsreglugerðar um framsetningu á deiliskipulagi, sbr. gr. 5.5. í reglugerðinni. Um minni háttar breytingu sé að ræða á byggingarmagni en A-rýmin aukist um rúma 10 m2. Aukning á nýtingarhlutfalli sé vegna B-rýma, sem ekki hafi verið reiknuð inn í deiliskipulagið árið 2017. Að lokum sé hið umþrætta byggingarleyfi í fullu samræmi við breytt deiliskipulag.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að breytingar á deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar séu mjög óverulegar, en hvorki hafi verið aukið við hæð hússins né byggingarmagn svo nokkru nemi frá því sem áður hafi verið fyrirhugað. Deiliskipulag svæðisins geri ráð fyrir að á lóðinni megi reisa fjölbýlishús með þremur íbúðarhæðum auk bílageymslu á jarðhæð, sbr. bls. 30 og nánari skýringar á bls. 35 í greinargerð deiliskipulagsins. Því heimili það að á lóðinni verði reistar þrjár íbúðarhæðir, með þeirri efstu inndreginni, ofan á bílageymslu sem sé að hluta til niðurgrafin. Sé fyrirhuguð hæð hússins í fullu samræmi við hæð nærliggjandi fjöleignarhúsa, sem reist séu á grundvelli sömu deiliskipulagsskilmála, að Friggjarbrunni 18, Freyjubrunni 25-27, 29, 31 og 33.

Byggingaráform rúmist áfram innan skilgreinds byggingarreits. Fjölgun íbúða í húsinu sam­ræmist yfirlýstu markmiði aðalskipulags Reykjavíkur um þéttingu byggðar, aukna fjölbreytni í valkostum húsnæðis til búsetu og kröfu um aukið framboð á minni íbúðum. Á fjölmörgum lóðum innan hverfisins hafi íbúðir verið minnkaðar og þeim fjölgað.

Frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir að hámarksvegghæð bygginga yrði mæld frá fyrstu hæð íbúðarhúsnæðis, sem jafnframt sé aðkomuhæð hússins, en ekki frá bílageymslu í kjallara. Húshæðir fjölbýlishúsa séu skilgreindar sem „2-5 hæðir íbúðarhúsnæðis auk bílageymslu­hæðar“ á bls. 26 í greinargerð deiliskipulagsins, en í fjölbýlishúsum séu „bílageymslur á neðstu hæðum, niðurgrafnar þar sem landhalli gefur tilefni til.“ Í deiliskipulagsbreytingunni felist því ekki raunveruleg breyting á hæð hússins á lóðinni, heldur aðeins breyting á orðalagi skilmála deiliskipulagsins til nánari skýringar. Jafnvel þótt talið yrði að í breytingunni fælist breyting á leyfðum hæðum þá rúmist breytingin vel innan ramma aðalskipulags Reykjavíkur um hæðir húsa.

Ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að málsmeðferð Reykjavíkurborgar við kynningu og ákvörðun um samþykkt á breytingu deiliskipulagsins sé haldin einhverjum annmörkum sem varðað geti ógildingu ákvörðunarinnar. Í deiliskipulagstillögunni sé ítarlega gerð grein fyrir í hverju breytingin felist og ekkert í framsetningu tillögunnar geti gefið tilefni til misskilnings eða rangtúlkunar. Sérstaklega sé bent á að umfjöllun kærenda um þá beiðni leyfishafa að gefin yrði eftir svokölluð bindandi byggingarlína virðist byggja á þeim misskilningi að Reykjavíkurborg hafi orðið við þeirri beiðni með samþykki á breytingu deiliskipulagsins.

Byggingarleyfi sé gefið út á grundvelli aðaluppdrátta hönnuðar, sem hafi verið áritaðir um samþykki byggingarfulltrúa 24. september 2019. Með samþykktinni hafi verið staðfest að mannvirkið og notkun þess samræmist gildandi skipulagsáætlunum á svæðinu. Með því hafi verið fullnægt tveimur af lagaskilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fyrirhugað mannvirki samræmist fyllilega skilmálum núgildandi deiliskipulags lóðarinnar. Leyfishafi leggi áherslu á að öll málsmeðferð við útgáfu byggingarleyfi samræmist ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 160/2010 og því beri að hafna kröfum kærenda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23, sem felur m.a. í sér heimild til að fjölga íbúðum úr fimm í átta, auka byggingarmagn og að ákvarða hámarksvegghæð húsa með flötu þaki frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar í stað aðkomuhæðar. Einnig er deilt um lögmæti samþykkts byggingar­leyfis fyrir átta íbúða steinsteyptu fjölbýlishúsi með flötu þaki á umræddri lóð.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldinu felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Skipulagsyfirvöld eru ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu, enda felur breyting á deiliskipulagi eðli máls samkvæmt í sér breytingu á því deiliskipulagi sem fyrir er. Almennt ber að haga málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Skipulagsvaldið er jafnframt bundið af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Deiliskipulagstillagan var ekki grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga heldur auglýst til kynningar í samræmi við reglur laganna um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna. Var því ekki farið með breytinguna eins og um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða, líkt og kærendur halda fram. Hins vegar var með bréfi skipulagsfulltrúa vakin athygli hagsmunaaðila og nágranna á því að auglýst hefði verið tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Freyjubrunns 23, bent á hvar kynningar­gögn væri að finna og hvernig hægt væri að koma að ábendingum og athugasemdum, en því verður ekki jafnað saman við grenndarkynningu. Að loknum kynningartíma var deili­skipulagstillagan afgreidd í skipulags- og samgönguráði, þar sem framkomnum athuga­semdum kærenda var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga, og var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði lögum samkvæmt. Tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi að formi til verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 kemur fram að þegar deiliskipulagi sé breytt skuli gera skýra grein fyrir í hverju breytingin felist, í greinargerð og á uppdrætti. Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu kemur fram að hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga sé 9,5 m frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar ef þök eru flöt. Ef þök eru hallandi er hámarkshæð þriggja hæða bygginga 11,0 m. Sama texta má finna í breytingartillögunni, sem sett er fram með þeim hætti að á samhliða uppdrætti er sýndur hluti gildandi deiliskipulagsuppdráttar og hluti breytts uppdráttar. Er tekið fram neðan við hann að uppdráttur breytist ekki. Einnig er gerð grein fyrir gildandi skipulagsskilmálum annars vegar og tillögu að breyttum skilmálum hins vegar hlið við hlið. Ekki er tekið skýrt fram í tillögu að texta breyttra skilmála að um sé að ræða breytingu á þeim skipulagsskilmálum gildandi deiliskipulags Úlfarsárdals að miða hámarksvegghæð eða hámarkshæð við kóta aðkomuhæðar. Sá skilningur fæst hins vegar af lestri gildandi skilmála sem eru til hliðar við texta breyttra skilmála. Þá kemur einnig skýrt fram í breytingartillögunni hvaða aðrar breytingar sé verið að gera á gildandi deiliskipulagi. Verður því ekki fallist á það með kærendum að framsetning breytingartillögunnar hafi ekki verið í samræmi við kröfur í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð.

Svo sem áður hefur komið fram komu kærendur að athugasemdum vegna deiliskipulags­tillögunnar. Bentu þeir m.a. á að fyrirhuguð hækkun myndi valda mikilli útsýnisskerðingu hjá íbúum ofar í hverfinu. Í umsögn skipulagsfulltrúa er þeirri athugasemd svarað á þann hátt að með deiliskipulagsbreytingunni væri „ekki verið að hækka vegghæð hússins frá því sem ákveðið var í fyrra deiliskipulagi heldur er verið að endurskilgreina hvaðan vegghæð skuli reiknast.“ Í því felst hins vegar að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er leyfilegt að byggja hærra hús en að óbreyttu deiliskipulagi, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 112/2018. Er því ljóst að framangreind breyting getur haft í för með sér grenndaráhrif gagnvart fasteignum í næsta nágrenni. Um þau áhrif er ekki fjallað í umsögn skipulagsfulltrúa og umsögninni að því leytinu til ábótavant. Að teknu tillit til skipulagsvalds sveitarstjórna þykir sá ágalli þó ekki eiga að leiða til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar, en öðrum athugasemdum var svarað efnislega. Þá raskar sú breyting auk annarra heimilaðra breytinga, þ.e. lítilleg aukning á byggingarmagni eða nýtingarhlutfalli, fjölgun íbúða og heimild til að láta svalir á norðurhlið ná 150 cm út fyrir byggingarreit hússins, ekki grenndar­hagsmunum kærenda að því marki að réttur þeirra hafi verið fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Rétt þykir þó að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi geta eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að byggt verði steinsteypt fjölbýlishús með átta íbúðum á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Samkvæmt samþykktum uppdráttum byggingarleyfisins er byggingin í samræmi við gildandi deiliskipulag Úlfarsárdals, eins og því var breytt með fyrrnefndri deiliskipulagsbreytingu. Var hið kærða byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Með vísan til þess, og þar sem ekki verður ráðið að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við töku ákvörðunar um hið umdeilda byggingarleyfi, verður gildi leyfisins ekki heldur raskað.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fjölbýlishúsi með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunni 23.