Árið 2021, fimmtudaginn 11. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 102/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 16. september 2020 að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Krókshlíð ehf., lóðarhafi Rjúpnabrautar 10, Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 16. september 2020 að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut. Gerð er sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að taka ákvörðun um fjarlægingu eða lækkun á sumarhúsinu á nefndri lóð.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 9. nóvember 2020.
Málavextir: Mál þetta hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Hinn 4. mars 2020 lagði lóðarhafi Rjúpnabrautar 9 fram umsókn um byggingarleyfi sem tekin var fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa sama dag. Á aðaluppdráttum sem fylgdu byggingarleyfis-umsókninni kom fram að um væri að ræða sumarhús á lóð umsækjanda með rishæð, 131,8 m² að flatarmáli og með 5,8 m mænishæð. Í fundargerð var bókað að sótt hefði verið um að setja hús niður á steinsteyptan grunn sem tæki mið af landi í kringum húsið. Fyrir lægju gögn vegna hæðarmælinga á lóð og sökkli. Eigandi hefði áður verið búinn að fá byggingarleyfi fyrir sumarhúsi með risi sem yrði samtals 131,8 m² á umræddri lóð. Að endingu var bókað að umsóknin samræmdist gildandi deiliskipulagi og var hún samþykkt. Þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa var skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu lóðarhafa Rjúpnabrautar 10 með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 29/2020, uppkveðnum 4. júní 2020, hafnaði nefndin kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Vísaði nefndin til þess að í mars 2007 hefði verið samþykkt breyting á skilmálum deiliskipulags frístundabyggðar í landi Úthlíðar sem tók m.a. til stærða húsa á skipulagssvæðinu. Með breytingunni væri heimilað að reisa allt að 280 m² frístundahús og 30 m² aukahús á hverri lóð, en nýtingarhlutfall mætti þó ekki fara yfir 0,03. Þá var og tiltekið að „mænishæð húsanna, þar sem jörð stendur hæst, megi vera 6,5 m“. Þá tiltók nefndin í niðurstöðu sinni að í hinu kærða byggingarleyfi væri heimiluð bygging að flatarmáli 131,8 m² með 5,8 m mænishæð. Nýtingarhlutfall umræddrar lóðar yrði samkvæmt því 0,027. Samkvæmt því væri ljóst að stærð hússins og mænishæð hefðu ekki farið í bága við skilmála gildandi deiliskipulags.
Í kjölfar uppkvaðningar úrskurðarins sendi kærandi bréf til sveitarstjóra Bláskógabyggðar, dags. 24. ágúst 2020. Í bréfinu voru gerðar athugasemdar við samþykkt þess deiliskipulags sem hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans væri byggð á. Taldi kærandi að samþykkt þess hefði ekki farið fram með lögmætum hætti, nánar tiltekið samþykki á þeim skilmála deiliskipulagsins um að „mænishæð húsanna, þar sem jörð stendur hæst, má vera 6,5 m“. Vísað var til þess að deiliskipulagsbreytingin hefði verið auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu, Blaðinu og Glugganum 26. apríl til 24. maí 2007. Í auglýsingunum hefðu allar upplýsingar komið fram, nema þær sem hefðu varðað breytingu á skilmálum um mænishæð húsanna. Kærandi telji ljóst vera að umrædd breyting hefði ekki verið samþykkt í sveitarstjórn í aðdraganda auglýsingarinnar. Hvernig slíkur skilmáli hefði komist inn í deiliskipulagið eftir birtingu auglýsingarinnar væri kæranda hulin ráðgáta. Með hliðsjón af þessu krafðist kærandi þess að sveitarfélagið kæmi því til leiðar að sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut yrði fjarlægt án tafar eða lækkað svo það uppfyllti skilmála deiliskipulagsins um mænishæð eins og það hefði verið áður en breytingin var gerð.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar beindi erindi kæranda til byggingarfulltrúa sem tók það fyrir á afgreiðslufundi 16. september 2020. Í fundargerð var bókað að kröfu um að fjarlægja sumarbústað á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut í Úthlíð eða að húsið yrði lækkað væri hafnað. Ítarlegur rökstuðningur yrði sendur kröfuaðila. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 16. september 2020, eru færð fram frekari rök fyrir hinni kærðu ákvörðun. Í bréfinu eru m.a. raktar þær breytingar sem gerðar voru á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupsstungum árið 2007 og gerð grein fyrir málavöxtum í kærumáli nr. 29/2020 fyrir úrskurðarnefndinni. Ályktaði byggingarfulltrúi að endingu að hin umrædda bygging væri í samræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála svæðisins og málsmeðferð við afgreiðslu byggingarleyfisins væri lögmæt. Því væri ekki um óleyfisframkvæmd að ræða. Hvorki væri því lagaskilyrði né tilefni til að beita 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að þvinga það fram að húsið yrði fjarlægt eða lækkað.
Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að í hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa sé ekki tekin afstaða til málsástæðna í erindi kæranda. Óskað hafi verið eftir nánari skýringum frá byggingarfulltrúa og sveitarstjóra Bláskógabyggðar. Í tölvupóstsamskiptum kæranda og sveitarfélagsins hafi sveitarstjóri gert tilraunir til þess að útskýra fyrir kæranda að afgreiðsla deiliskipulagsins hafi staðist lög en án árangurs. Frekari upplýsingar hefðu aftur á móti borist sem hafi verið til þess fallnar að styrkja grunsemdir kæranda um að samþykkt deiliskipulagsins hefði verið ólögmæt. Þannig hafi sveitarstjóri sent kæranda auglýsta skilmálabreytingu sem hefði birst í B-deild Stjórnartíðinda 16. ágúst 2007. Í auglýsingunni segi að í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 hafi sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkt eftirfarandi deiliskipulag og deiliskipulagsbreytingu: „2. Breyting á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupstungum, skilmálabreyting.“ Í auglýsingunni hafi þó hvergi verið minnst á skilmálabreytinguna um leyfilega mænishæð húsa á hinu deiliskipulagða svæði sem renni frekari stoðum undir að skilmálinn hafi ekki verið samþykktur með lögmætum hætti.
Það veki athygli að kærandi hafi fengið í hendur tvær mismunandi útgáfur af greinargerð með deiliskipulaginu sem báðar eigi að heita samþykktar af sveitarstjórn. Fyrri útgáfan hafi að geyma greinargerðina á einni blaðsíðu, en þar sé hvergi að finna ummerki þess að hún hafi verið samþykkt. Við greinargerðina hafi svo verið hengt blað með staðfestingarstimpli skipulagsfulltrúa. Ómögulegt sé að vita um tengingu þess blaðs eða stimpilsins við sjálfa greinargerðina. Seinni útgáfan hafi verið lögð fram við meðferð úrskurðarnefndarinnar á málinu sem hafi verið kært til nefndarinnar 4. mars 2020. Þá hafi stimplinum í fyrri útgáfu greinargerðarinnar verið bætt neðst við greinargerðina sjálfa svo allt hafi verið á einu blaði. Leturstærðinni hafi einnig verið breytt til samræmis við letrið í greinargerðinni. Virðist vera að sveitarfélagið hafi afritað stimpil og undirskrift skipulagsfulltrúans á aukablaði fyrri útgáfunnar og límt það við sjálfa greinargerðina. Engar skýringar hafi verið veittar um ofangreint föndur starfsfólks sveitarfélagsins við greinargerð deiliskipulagsins. Telji kærandi þessa framreiðslu sveitarfélagsins á gögnum málsins með miklum ólíkindum, en ljóst megi vera að alvarlegt sé ef átt hafi verið við gögnin til einhvers konar matreiðslu á málsástæðum sveitarfélagsins fyrir stjórnsýslunefnd sem hafi mál þess til skoðunar. Sé þess óskað að úrskurðarnefndin taki þetta til sérstakrar athugunar. Það athugast einnig að byggingarfulltrúi hafi vísað til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 29/2020 um gildi deiliskipulagsins. Það hafi enga þýðingu fyrir þetta mál enda hafi þau álitaefni sem nú séu borin undir nefndina ekki verið til umfjöllunar í því máli sem hafi varðað ákvörðun byggingarfulltrúa til veitingar byggingarleyfis.
Kærandi hafi mikla hagsmuni af málinu. Sumarhúsið sem nú sé verið að reisa á lóðinni nr. 9 standi örstutt frá sumarhúsi hans. Skilmálar eldra deiliskipulags hafi gert ráð fyrir að mænishæð húsa, þar sem hús standi hæst, mætti vera 6,5 m. Sumarhúsið sem standi andspænis lóð kæranda fari hins vegar langt yfir slíkar takmarkanir og rýri gríðarlega lífsgæði þeirra sem noti sumarhús og lóð hans.
Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kæranda í málinu. Er bent á að mál þetta hafi áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar, en með úrskurði sínum 4. júlí 2020 í máli nr. 29/2020 hafi nefndin staðfest að umdeilt byggingarleyfi hefði verið í samræmi við skipulag og hafi því kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa verið hafnað. Þá hafi úrskurðarnefndin staðfest með umfjöllun í niðurstöðu sinni að ákvæði um 6,5 m mænishæð þaðan sem jörð standi hæst væri í gildandi deiliskipulagi. Verði ekki annað séð en að úrskurðarnefndin hafi með fyrri úrskurði sínum tekið afstöðu til þess að umrætt deiliskipulag hafi verið lögmætt og að byggingarleyfið hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag. Verði því ekki séð að þörf sé fyrir nefndina að leysa úr þessum ágreiningi aftur í ljósi þess að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi, sbr. 6. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina. Hefði því verið eðlilegra að kærandi hefði krafist endurupptöku ef hann teldi skilyrði endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vera fyrir hendi.
Af hálfu Bláskógabyggðar sé sem fyrr byggt á því að málsmeðferð þeirrar breytingar sem hafi verið gerð á deiliskipulagi árið 2007 hafi verið lögum samkvæmt og skýrt hafi komið fram í gögnum sem hafi fylgt þeirri breytingu að mænishæð húsa á svæðinu mætti vera 6,5 m þar sem jörð standi hæst. Beiðni um breytingu á skilmálum deiliskipulagsins hafi fyrst verið tekin fyrir á 34. fundi skipulagsnefndar sveitarfélagsins 8. febrúar 2007. Þar hafi komið fram að í þágildandi deiliskipulagi hafi verið heimilt að byggja allt að 100 m² frístundahús og 10 m² aukahús, með 6,5 m mænishæð frá jörðu þar sem jörð standi hæst. Samkvæmt þessu sé ljóst að í eldra deiliskipulagi hafi verið gert ráð fyrir að mænishæð húsa væri 6,5 m frá jörðu þar sem það standi hæst. Með umræddri breytingu hafi því ekki staðið til að breyta reglum um mænishæð heldur fyrst og fremst leyfilegum fermetrafjölda húsa á svæðinu. Þá sé einnig ljóst að töluvert misræmi hafi verið milli skipulaga á svæðinu og margar smáar deiliskipulagsbreytingar hafi verið gerðar á götum og lóðum innan svæðisins. Með breytingu á heildarsvæðinu sem hafi verið gerð 6. mars 2007 hafi þessu verið breytt og deiliskipulag svæðisins samræmt. Með þeirri breytingu sem samþykkt hafi verið 6. mars 2007 hafi því ákvæði deiliskipulags um mænishæð húsa verið samræmd fyrir heildarsvæði þannig að miðað væri við 6,5 m þar sem jörð standi hæst. Verði því að telja að um hafi verið að ræða þarfa samræmingu sem hafi stuðlað að auknu réttaröryggi í skipulagsmálum á svæðinu.
Tekið hafi verið fram í greinargerð með breytingu á deiliskipulagi, dags. 25. apríl 2007, að hámarks mænishæð yrði 6,5 m. Ljóst sé að greinargerð með deiliskipulagi teljist almennt til skipulagsgagna. Samkvæmt 4. mgr. 23. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé ljóst að greinargerð tilheyri deiliskipulaginu og sé sá þáttur þess þar sem einstök atriði séu skýrð ítarlegar. Eðli máls samkvæmt komi því ekki allt fram í auglýsingu sem sé birt vegna þeirra breytinga sem séu gerðar. Í auglýsingu sem birt sé í B-deild Stjórnartíðinda komi almennt aðeins fram helstu atriði sem felist í breytingunni. Með auglýsingu um breytingu á deiliskipulaginu sem hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. ágúst 2007, hafi þannig aðeins verið tilteknar þær helstu breytingar sem gerðar hefðu verið á deiliskipulaginu, þ.e. að hámarksstærð frístundahúsa yrði 280 m² og hámarksstærð aukahúss yrði 30 m² og að nýtingarhlutfall mætti ekki vera hærra en 0,03. Hvað varði hæð húsa sé ljóst að ekki hafi deiliskipulaginu verið beinlínis breytt hvað þetta varðaði þar sem heimiluð mænishæð í eldra deiliskipulagi hafi verið 6,5 m. Hins vegar hafi ákvæði deiliskipulags um hæð húsa verið samræmt samhliða breytingu á deiliskipulaginu og telja verði eðlilegt að slíkt hafi verið tiltekið í greinargerð með breytingu á deiliskipulaginu. Þá sé einnig ljóst að málsmeðferð breytingarinnar hafi að öðru leyti verið í samræmi við ákvæði þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Sveitarfélagið telji ásakanir um meint skjalafals vera verulega ámælisverðar og ómálefnalegar. Ásökunum kæranda sé alfarið vísað á bug. Ljóst sé að þessar „mismunandi“ útgáfur af greinargerðinni séu eitt og sama skjalið. Annað skjalið, sem hafi verið skilað til úrskurðarnefndarinnar í fyrra máli, hafi verið skalað niður svo bæði greinargerð og undirskrift kæmust fyrir á sömu blaðsíðu. Ljóst sé að slíkt hafi verið gert við ljósritun, einungis til þess að einfalda lestur skjalsins og minnka umfang þess. Getur slíkt ekki undir nokkrum kringumstæðum talist skjalafals enda ljóst að um sama skjal sé að ræða og hafi slíkt engin áhrif á gildi skjalsins eða í því sem þar komi fram. Sé rétt að úrskurðarnefndin skoði hvort tilefni og heimilt sé að ávíta kæranda vegna þessara röngu ásakana.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi mótmælir því að úrskurðarnefndin hafi slegið því föstu í fyrra máli að deiliskipulagið, sem sé til umfjöllunar í málinu, hafi verið gilt. Kærandi hafi lagt fram ný gögn um samþykkt hins umrædda deiliskipulags sem ekki hafi legið fyrir í hinu fyrra máli, þar sem sveitarfélagið hefði m.a. lagt fram gögn um samþykkt deiliskipulagsins sem hafi verið til þess fallin að gefa villandi mynd af deiliskipulagsferlinu. Vísist um það til umfjöllunar í kæru um tvær mismunandi útgáfur af greinargerð með deiliskipulaginu sem lagðar hafi verið fram til nefndarinnar. Þá verði ekki talið að svör sveitarfélagsins við athugasemdum kæranda um framreiðslu þessara gagna séu mjög frambærileg. Þær skýringar sem sveitarfélagið gefi á misræmi skjalanna séu frekar máttlausar, þar sem sagt sé að um eitt og sama skjalið sé að ræða, en seinna skjalið hafi verið „skalað niður“ svo bæði undirskrift og greinargerð kæmust fyrir á einni blaðsíðu.
Í greinargerð sveitarfélagsins sé því svo haldið fram að ekki hafi verið nauðsynlegt að taka fram mænishæð í auglýsingu þar sem helsta breytingin hafi snúið að stærð og fermetrafjölda húsa. Þessu sé mótmælt. Í fyrsta lagi telji kærandi að aldrei hafi staðið til hjá sveitarstjórn að breyta skilmála um mænishæð, sé litið til gagna málsins, en hvað sem því líði sé um að ræða gríðarlega breytingu frá fyrra skipulagi sem varði hagsmuni allra íbúa á svæðinu.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Kærandi byggir málflutning sinn einna helst á því að samþykkt breytingar á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupstungum 6. mars 2007 hafi ekki verið lögum samkvæmt. Umþrætt breyting var samþykkt í sveitarstjórn 6. mars 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst s.á. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Kærufrestur vegna deiliskipulagsbreytingarinnar er því löngu liðinn og kemur málsmeðferð eða efni hennar þegar af þeirri ástæðu ekki til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni.
Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut. Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti séu fjarlægð. Er ákvörðun um beitingu þessa þvingunarúrræðis háð mati stjórnvalds hverju sinni en tekið er fram í athugasemdum við 55. gr. laganna í frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þess sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Gefur umrætt ákvæði sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki ákvæðum laga um mannvirki.
Ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða var m.a. studd þeim rökum að hin umdeilda bygging væri í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og málsmeðferð við afgreiðslu byggingarleyfis mannvirkisins hefði verið lögmæt. Í því sambandi var vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 29/2020 þar sem því var slegið föstu að hið kærða byggingarleyfi hefði ekki farið í bága við skilmála gildandi deiliskipulags. Verður að telja að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna beitingu þvingunarúrræða hafi verið studd efnislegum rökum.
Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 16. september 2020 um að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut.