Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

102/2018 Lónsbraut Hf.

Árið 2018, föstudaginn 17. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 102/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 25. apríl 2018 um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir Suðurhöfn, bátaskýli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi bátaskýlis við Lónsbraut, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 25. apríl 2018 að breyta skilmálum deiliskipulags fyrir Suðurhöfn, bátaskýli. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 17. ágúst 2018.

Málsatvik og rök:
Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar ákvað á fundi sínum 20. febrúar 2018 að grenndarkynna tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Suðurhafnar vegna bátaskýla við Suðurhöfn. Laut tillagan að notkun bátaskýlanna ásamt umgengni og geymslu báta og fólksbíla á svæðinu. Tillagan var grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulaginu, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, frá 5. mars 2018 með fresti til athugasemda til 3. apríl s.á. Tillagan var samþykkt í bæjarstjórn Hafarfjarðar 25. apríl 2018 að lokinni grenndarkynningu og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí s.á.

Kærandi byggir á því að ekki hafi verið um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða. Hinir breyttu skilmálar raski verulega hagsmunum eigenda umræddra bátaskýla og skerði notagildi fasteignanna án viðhlítandi skýringa.

Af hálfu Hafnafjarðarbæjar er vísað til þess að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferða

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí 2018. Tók kærufrestur því að líða 24. maí s.m. samkvæmt 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mátti kæranda vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 19. júlí 2018 eða rúmum þremur vikum eftir að kærufresti lauk. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda ekki talið unnt, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undantekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson