Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

101/2017 Faxabraut

Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2017, kæra á ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss um að heimila nýtingu lóðarinnar að Faxabraut 8, Ölfusi, undir heyrúllur. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Faxabrautar 6, Ölfusi, þá ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss að heimila nýtingu lóðarinnar að Faxabraut 8 undir heyrúllur. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðun um þá ráðstöfun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 4. október 2017.

Málavextir: Lóðin að Faxabraut 8 er staðsett á hesthúsasvæði í Þorlákshöfn og er í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss. Bæjaryfirvöld heimiluðu Hestamannafélaginu Háfeta að nýta lóðina undir heyrúllur og geymslu á kerrum. Hinn 15. ágúst 2017 sendi kærandi Skipulagsstofnun bréf með ábendingu um að ráðstöfun sveitarfélagsins á lóðinni væri í ósamræmi við byggingarsamþykktir og skipulag sveitarfélagsins.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst telja að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss þverbrjóti reglur um byggingarsamþykktir með því að heimila að settar séu heyrúllur á lóðina Faxabraut 8, sem sé hesthúsalóð í hesthúsahverfinu samkvæmt byggingarsamþykktum. Fer kærandi fram á að þetta verði leiðrétt og að bæjarstjórninni verði gert að fara eftir samþykktu skipulagi og úthluta annarri lóð undir heyrúllurnar í samræmi við byggingarsamþykktir og skipulag sveitarfélagsins.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: 
Af hálfu sveitarfélagsins er bent á unnið hafi verið deiliskipulag fyrir hesthúsahverfið í samvinnu við Hestmannafélagið Háfeta. Ekki sé á döfinni að gera nýtt rúllustæði, líkt og deiliskipulag geri ráð fyrir, á meðan hægt sé að nota önnur svæði. Þess sé gætt að heyrúllur séu ekki nær næstu húsum heldur en Brunavarnir Árnessýslu heimili, eða í 10 m fjarlægð. Þeir aðilar sem hafi fengið úthlutað lóðunum nr. 8 og 10 við Faxabraut hafi skilað þeim aftur til sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hafi heimilað hestamannafélaginu að nýta lóðirnar undir heyrúllur og geymslu á kerrum, enda verði það gert snyrtilega og fylgt reglum hestamannafélagsins um umgengni.

Niðurstaða: Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir verða jafnframt að binda endi á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Lóðin að Faxabraut 8 er í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss og fyrir liggur að sveitarfélagið hefur heimilað Hestamannafélaginu Háfeta að geyma þar heyrúllur og kerrur. Samkvæmt upplýsingum frá skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins hafði kærandi átt í samskiptum annars vegar við Brunavarnir Árnessýslu, vegna nálægðar heyrúlla við hesthús hans, og hins vegar við fyrrverandi bæjarstjóra sveitarfélagsins, um að ráðstöfunin væri ekki í samræmi við deiliskipulag, en ekki liggur fyrir hvenær þau samskipti áttu sér stað. Verður ekki litið svo á að í nefndum samskiptum hafi falist beiðni um beitingu þvingunarúrræða á grundvelli 56. laga um mannvirki, þegar haft er í huga að slík úrræði geta verið íþyngjandi gagnvart þriðja aðila og haft lögfylgjur í för með sér. Verður af þeim sökum að liggja ótvírætt fyrir að skýr krafa hafi verið gerð um beitingu úrræðanna. Gögn málsins bera hvorki með sér að slík krafa hafi legið fyrir né að tekin hafi verið stjórnvaldsákvörðun af þar til bæru stjórnvaldi, sem feli í sér afstöðu til beitingar þvingunarúrræða á grundvelli laga um mannvirki. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.