Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

101/2005 Ólafsvík

Ár 2007, fimmtudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2005, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 8. september 2005 um deiliskipulag fyrir miðbæ Ólafsvíkur, Snæfellsbæ.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2005, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. S og S, eigenda hússins að Grundarbraut 1, Ólafsvík, samþykkt bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 8. september 2005 um deiliskipulag fyrir miðbæ Ólafsvíkur, Snæfellsbæ. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir:  Hinn 12. maí 2005 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Snæfellsbæjar að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir miðbæ Ólafsvíkur og var fundargerðin staðfest á fundi bæjarstjórnar sama dag.  Áður, eða hinn 2. mars 2005, hafði verið samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu aðalskipulagi Ólafsvíkur er m.a. tók til sama svæðis og áðurnefnd tillaga að deiliskipulagi miðbæjarins.  Tók deiliskipulagstillagan m.a. til lóðarinnar að Ólafsbraut 20-22 þar sem heimiluð var viðbygging við hótel það er á lóðinni stendur.  Er hús kærenda næsta hús við umrætt hótel.  Var tillagan auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu hinn 18. maí 2005 með athugasemdafresti til 15. júní s.á.  Að frestinum loknum var tillagan tekin fyrir á ný í skipulags- og byggingarnefnd hinn 18. ágúst 2006 en afgreiðslu málsins frestað.  Hinn 8. september s.á. var tillagan enn tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd og þá samþykkt með svohljóðandi bókun:  „Fyrsta umræða:  Breyting á Aðalskipulagi fyrir miðbæ Ólafsvíkur og nágrennis hefur nú verið samþykkt af ráðherra og birt í Stjórnartíðindum.  Því leggur byggingarfulltrúi til að nefndin samþykki að ganga frá deiliskipulagi fyrir svæðið sem auglýst var frá 18. maí til 29. júní 2005, tvær athugasemdir bárust við deiliskipulaginu.  Fyrri athugasemdin er frá Ívari Pálssyni hdl., fyrir hönd Sigurðar Jónssonar og Sigrúnar Sævarsdóttur.  Seinni athugasemdin er frá Jenný Guðmundsdóttur, Aðalsteinu Sumarliðadóttur og Ragnheiði Víglundsdóttur.  Voru athugasemdirnar kynntar. Önnur umræða.  Þessu erindi var frestað á síðast fundi skipulags- og byggingarnefndar BN. 152.  Erindið er breyting á Aðalskipulagi fyrir miðbæ Ólafsvíkur og nágrennis.  Skipulags- og byggingarnefnd hefur nú yfirfarið öll gögn í málinu betur í samvinnu við hönnuð og lögfræðing bæjarins með tilliti til þeirra athugasemda sem bárust við skipulaginu og tekið þá ákvörðun að minnka byggingarreit til samræmis við innlagðar byggingarnefndarteikningar af Ólafsbraut 20, og einnig voru  lóðarmörk á Grundarbraut 1 færð inn í samræmi við lóðarleigusamning.  Því leggur byggingarfulltrúi til að nefndin samþykki nýtt deiliskipulag fyrir Ólafsvík og nágrenni og að athugasemdunum verði svarað.  Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir að klára skipulagið og svara þeim er gerðu athugasemdir eins um hefur verið rætt.“  Var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar sama dag. 

Í bréfi Skipulagsstofnunar til Snæfellsbæjar, dags. 29. september 2005, gerði stofnunin athugasemdir við afmörkun umrædds deiliskipulagssvæðis og benti á að æskilegast hefði verið að heildarstefna væri mörkuð í deiliskipulagi fyrir miðbæ Ólafsvíkur eða svæðin tekin í heild hvert fyrir sig.  Óskaði stofnunin eftir lagfærðum gögnum þar sem m.a. væri gerð fullnægjandi grein fyrir lóðum og reitum innan skipulagsins.  Með bréfi, dags. 21. október 2005, sendi Snæfellsbær Skipulagsstofnun lagfæringar og með bréfi, dags. 2. nóvember 2005, tilkynnti Skipulagsstofnun Snæfellsbæ að stofnunin gerði ekki athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Var auglýsingin birt hinn 21. nóvember 2005.

Framangreindri samþykkt skipulags- og  byggingarnefndar hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að málsmeðferð hins kærða  deiliskipulags hafi verið andstæð 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ástæðan sé sú að hinn 2. mars 2005 hafi verið samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á aðalskipulagi fyrir Ólafsvík, sem m.a. hafi varðað það svæði sem hið kærða deiliskipulag hafi tekið til.  Hinn 20. apríl 2005 hafi auglýsing um tillögu að breyttu aðalskipulagi birst í Lögbirtingablaðinu og hafi athugasemdafrestur verið til 1. júní s.á.  Hinn 8. júní 2005 hafi aðalskipulagsbreytingin verið samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd og samdægurs í bæjarstjórn.  Umhverfisráðherra hafi hinn 27. júlí 2005 staðfest breytinguna og auglýsing um gildistöku hennar hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. ágúst 2005.  Ferill hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi aftur á móti verið með þeim hætti að hinn 12. maí 2005, eða áður en fyrrgreind aðalskipulagsbreyting hafi verið staðfest af ráðherra, hafi skipulags- og byggingarnefnd samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna og hafi bæjarstjórn samdægurs samþykkt fundargerð nefndarinnar.  Að loknum athugasemdafresti eða hinn 8. september 2005 hafi skipulags- og byggingarnefnd samþykkt að ljúka deiliskipulaginu og svara athugasemdum er borist höfðu og hafi bæjarstjórn samdægurs samþykkt fundargerð nefndarinnar.  Auglýsing um gildistöku í B-deild Stjórnartíðinda hafi birst hinn 21. nóvember 2005.  Úrskurðarnefndin hafi í sambærilegum tilvikum talið að framangreind málsmeðferð bryti gegn ákvæði 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga og því beri að fella hina kærðu deiliskipulagsbreytingu úr gildi.

Kærendur telji að afgreiðsla deiliskipulagsins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Eina umsögnin sem liggi fyrir um athugasemdir kærenda um tillögu deiliskipulagsins sé umsögn sem unnin hafi verið af lögmanni Snæfellsbæjar.  Hún sé dagsett hinn 9. september 2005, þ.e. degi síðar en tillagan hafi verið afgreidd í skipulags- og byggingarnefnd og í bæjarstjórn Snæfellsbæjar.  Augljóst sé því að umsögnin hafi hvorki verið lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd né fyrir bæjarstjórn við afgreiðslu málsins eins og gert sé ráð fyrir í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og grein 6.3.3 í skipulagsreglugerð enda ekki fært til bókar að svo hafi verið.  Því sé haldið fram að ekki liggi fyrir svör sveitarstjórnar við athugasemdum kærenda eins og lögskylt sé samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.  Þá hljóti slík málsmeðferð einnig að brjóta gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Auk framangreinds telji kærendur, þrátt fyrir að umsögn lögmanns Snæfellsbæjar sé allítarleg, að nokkrum athugasemdum þeirra hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti.

Með vísan til 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, 49. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. og d-lið 21. gr. sömu laga, telji kærendur að afgreiðsla bæjarstjórnar á skipulagstillögunni hafi ekki verið í samræmi við lög.  Bæjarstjórnin hafi ekki fjallað sérstaklega um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar varðandi deiliskipulagið heldur hafi hún aðeins staðfest fundargerðir nefndarinnar þegar skipulagstillagan hafi verið afgreidd.  Slíka umfjöllun telji kærendur ekki í samræmi við framangreind lagaákvæði.  Í því sambandi verði að hafa í huga að afgreiðslur skipulags- og byggingarnefndar séu bara tillögur til sveitarstjórnar um afgreiðslu mála.

Kærendur telji að byggingarreitur viðbyggingar að Ólafsbraut 20-22 samkvæmt deiliskipulaginu sé ólögmætur.  Ákvæðum um fjarlægð frá lóðarmörkum og fjarlægð milli húsa, sem fram komi í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sé ekki fullnægt í deiliskipulaginu.  Samkvæmt 4. mgr. greinar 3.1.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 beri við gerð deiliskipulags að taka tillit til 75. gr. byggingarreglugerðar. Deiliskipulagssamþykktin sé því hvað þetta varði ólögmæt.  Rökin fyrir fjarlægðarkröfum byggingarreglugerðar séu ekki eingöngu eldvarnar- og öryggissjónarmið heldur einnig sjónarmið af eignarréttarlegum og grenndarréttarlegum toga.  Þannig megi ljóst vera að þriggja hæða bygging við lóðarmörk kærenda rýri notagildi lóðar þeirra og breyti umhverfi hússins og lóðar verulega.  Slík uppbygging á lóðinni nr. 20-22 við Ólafsbraut muni líklega koma í veg fyrir frekari uppbyggingu kærenda á lóð þeirra og/eða takmarka not hennar verulega.  Þetta sé auðvitað sérstaklega slæmt m.t.t. þess að skipulagið taki ekki til lóðar kærenda í eiginlegum skilningi þar sem ekkert sé fjallað um hana í skipulaginu.  Kærendur séu því í algjörri óvissu um hver sé skipulagsleg staða lóðar þeirra. 

Kærendur telji deiliskipulagið ekki samræmast ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar hvað varði framsetningu og innihald.  Vísað sé í þessu sambandi t.d. til 2. og 9. gr. skipulags- og byggingarlaga og greina 3.1.1 og 3.1.4 í skipulagsreglugerð.

Samkvæmt skilgreiningu 2. gr. skipulags- og byggingarlaga sé skipulagsáætlun áætlun þar sem gerð sé grein fyrir markmiðum viðkomandi stjórnvalda og ákvörðunum um framtíðarnotkun lands, fyrirkomulagi byggðar og forsendum þeirra ákvarðana.  Ekkert slíkt sé sett fram í deiliskipulaginu.  Þá virðist tillagan ekki byggð á neinni stefnumörkun eða heildarsýn.  Í 9. gr. skipulags- og byggingarlaga sé fjallað nánar um skipulagsáætlanir og í gr. 3.1.1 skipulagsreglugerðar sé gerð grein fyrir forsendum og stefnumörkun skipulagsáætlana.  Í grein 3.1.4 skipulagsreglugerð sé ítarlegar fjallað um innihald deiliskipulagsáætlana og í 5. kafla reglugerðar sé fjallað frekar um framsetningu skipulagsáætlana.  Augljóst sé af tilvitnuðum laga- og reglugerðarákvæðum að framsetning deiliskipulagsins uppfylli engan veginn þær kröfur sem gerðar séu til slíkra áætlana.  Kærendur bendi á að afmörkun skipulagssvæðisins sé ekki í samræmi við 1. mgr. greinar 3.1.4 í skipulagsreglugerð.  Samkvæmt henni skuli deiliskipulag að jafnaði ná til reita eða svæða sem myndi heildstæða einingu.  Tilviljanakennd afmörkun hins kærða deiliskipulags samræmist framangreindu ákvæði ekki.  Með skipulaginu sé því ekki tekið heildstætt á skipulagi svæðisins eða einstökum þáttum þess.  Týndar séu út einstaka lóðir þar sem þrýst hafi verið á um uppbyggingu og byggingarskilmálar settir um þær.  Engin heildarstefnumörkun sé sett fram hvað varði umferð, verndun, nýtingarhlutfall eða nokkuð annað eins og skylt sé og eðlilegt að gera í deiliskipulagi.  Kærendur telji að með skipulagi sem þessu sé verið að fara á svig við skipulagsskyldu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og leiði það til réttaróvissu.  Bent sé á að á svæðinu séu lóðir sem ekki séu settir neinir skilmálar.  Deiliskipulaginu svipi því frekar til byggingarleyfisumsókna fyrir einstakar lóðir en skipulagsáætlunar.  Telji kærendur því að sömu sjónarmið og fram komi í dómi Hæstaréttar frá 20. september 2001 í málinu nr. 114/2001, áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2556/1998 og úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 2. desember 2003 í máli nr. 17/2003, varðandi byggingarleyfi í þegar byggðum en ódeiliskipulögðum hverfum, eigi að leiða til ógildingar skipulagsins.  Einnig sé bent á sjónarmið og rök úrskurðarnefndarinnar um afmörkun skipulagssvæða sem fram komi í úrskurði nefndarinnar frá 21. desember 2000. 

Engin húsakönnun hafi verið unnin af svæðinu eins og skylt sé samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.  Kærendur telji það hafa verulega þýðingu enda hús þeirra næstelsta hús bæjarins og eitt af mjög fáum gömlum húsum sem eftir séu í bænum.  Í samræmi við að engin húsakönnun liggi fyrir sé engin stefnumörkun sett fram í skipulaginu um verndun húss þeirra eða annarra húsa.

Að lokum óski kærendur eftir því að úrskurðarnefndin skoði sérstaklega hvort framsetning deiliskipulagsins varðandi hús þeirra hafi verið skýr og í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Jafnframt hvort Snæfellsbæ hafi verið heimilt að gera þær breytingar á deiliskipulagstillögunni sem gerðar hafi verið eftir samþykkt hennar í sveitarstjórn, m.a. vegna athugasemda Skipulagsstofnunar, og hafi varðað m.a. lóð þeirra.  

Málsrök Snæfellsbæjar:  Af hálfu Snæfellsbæjar er mótmælt sem rangri þeirri fullyrðingu kærenda að bréf lögmanns sveitarfélagsins til lögmanns kærenda, dags. 9. september 2005, hafi hvorki verið lagt fyrir skipulags- og byggingarnefnd né bæjarstjórn við afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar.  Hið rétta sé að drög að bréfi lögmanns sveitarfélagins hafi legið fyrir báðum þessum aðilum þegar deiliskipulagstillagan hafi verið afgreidd hinn 8. september 2005.  Vísist til bréfs skipulags- og byggingarfulltrúa til lögmanns kærenda, dags. 21. október 2005, en þar segi í lok fyrri málsgreinar:  „… var þá búið að útbúa drög að svörum við innsendum athugasemdum.“

Hvað varði fjarlægð frá lóðarmörkum sé bent að í 2. mgr. gr. 3.1.4 skipulagsreglugerðar segi að heimilt sé að skilgreina landnotkun þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi. Fjarlægðarkröfum byggingareglugerðarinnar sé fyrst og fremst ætlað að mæta kröfum um eldvarnir og annan öryggisbúnað bygginga, sbr. 7. kafla reglugerðarinnar.  Svo sem 75. gr. og 138. gr. reglugerðarinnar beri með sér sé hér ekki um að ræða fastbundin hönnunarfyrirmæli eða forsendur, sem ekki megi hnika, gefi aðstæður tilefni til slíks, enda sé tryggt að gerðar séu um leið ráðstafanir til að minnka eða eyða að fullu þeirri sambrunahættu sem minni fjarlægð milli húsa en að framan greini myndi ella leiða til.  Vísist í þessum efnum til greina 75.5 og 75.6.  Vakin sé athygli á því að brunatæknileg hönnun hafi farið fram á fyrirhugaðri viðbyggingu hótelsins miðað við að minnsta fjarlægð milli húsanna verði fjórir metrar.  Brunamálastofnun hafi fallist á þessa brunatæknilegu hönnun. 

Varðandi afmörkun skipulagssvæðisins sé bent á að hið kærða deiliskipulag nái yfir allstórt svæði í miðbæ Ólafsvíkur, nánar tiltekið frá Hjarðartúni suður um hluta Mýrarholts og Grundarbrautar og suðaustur um stóran hluta Ólafsbrautar.  Áður hafi verið deiliskipulagt hafnarsvæði við Ólafsbraut.  Fullyrðing kærenda þess efnis að deiliskipulagið myndi ekki heildstæða einingu í skilningi 1. mgr. gr. 3.1.4 skipulagsreglugerðar sé því röng.  Svo sem fram komi í sjálfu deiliskipulaginu sé lögð áhersla á deiliskipulag áður óbyggðra lóða á svæðinu og lóða sem fyrirhugaðar séu framkvæmdir á.

Harðlega sé mótmælt fullyrðingu kærenda þess efnis að með deiliskipulaginu sé farið á svig við skipulagsskyldu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sem skapi réttaróvissu hjá þeim er fasteignir eigi á svæðinu.  Hið kærða skipulag hafi að sjálfsögðu verið sett fram í því skyni að gera réttarstöðu fasteignaeigenda á svæðinu skýrari og aðgengilegri.

Fullyrðingu kærenda, þess efnis að við gerð og mótun skipulagstillögunar hafi hvorki verið farið að ákvæðum skipulags- og byggingarlaga né reglugerðar um samráð og samvinnu við íbúa, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna og gr. 3.2 í skipulagsreglugerð, sé mótmælt.  Boðað hafi verið til sérstaks samráðsfundar um deiliskipulagstillögurnar sem hafi verið auglýstur og þeim sem ekki hafi átt heima á staðnum en hafi átt fasteignir á svæðinu hafi verið sent bréf og þeim boðið að koma til skrafs og ráðagerða um þau skipulagsdrög sem legið hafi fyrir.  Þetta hafi að flestra mati verið góður fundur þar sem margt hafi borið á góma.

Hvað varði sérstaka húsakönnun þá sé bent á að í deiliskipulagsskilmálum komi fram að haft hafi verið samráð við Húsfriðunarnefnd og sé húsið að Grundarbraut 1 eina húsið sem talið sé að hafi varðveislugildi innan svæðisins.  Ekki sé gert ráð fyrir neinum breytingum á lóðinni að Grundarbraut 1 samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi. 

Mótmælt sé þeim viðhorfum kærenda að ekki hafi verið tekið á öllum athugasemdum þeirra ásamt því að annmarkar hafi verið á samþykki bæjarstjórnar þegar hún hafi samþykkti tillögur skipulags- og byggingarnefndar um deiliskipulagið.  Á því sé byggt að afgreiðsla bæjarstjórnarinnar hafi verið fullnægjandi og hafi verið stuðst við hefð þegar gengið hafi verið til atkvæðagreiðslu um fundargerðir nefnda. 

Þá sé því mótmælt að úrskurður úrskurðarnefndarinnar frá 13. mars 2003, sbr. mál nr. 13/2002, hafi fordæmisgildi í kærumáli þessu.  Hér sé ekki verið að fjalla um breytingar á landnotkun frá því sem áður hafi verið ákveðið.  Sama gildi um fordæmi tilvitnaðs hæstaréttardóms og úrskurðum úrskurðarnefndarinnar sem kærandi tefli fram kröfu sinni til stuðning. 

Lóðarhafa lóðarinnar að Ólafsbraut 20-22 var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. janúar 2007, veitt færi á að tjá sig um ógildingarkröfu kærenda og var frestur til þess veittur til 25. s.m.  Hefur lóðarhafi ekki komið á framfæri til nefndarinnar sjónarmiðum sínum í þessum efnum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags fyrir miðbæ Ólafsvíkur sem samþykkt var bæjarstjórn Snæfellsbæjar hinn 8. september 2005 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. nóvember s.á. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að gerð og undirbúningur hins kærða deiliskipulags hafi ekki verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Auglýsing um tillögu að breyttu aðalskipulagi Ólafsvíkur birtist í Lögbirtingarblaðinu hinn 20. apríl 2005 og fól hún m.a. í sér breytingu á því svæði er hið kærða deiliskipulag tekur til.  Var tillaga að breyttu aðalskipulagi samþykkt í bæjarstjórn hinn 8. júní 2005 og birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. ágúst s.á.  Tillaga að deiliskipulagi fyrir miðbæ Ólafsvíkur, sem var í samræmi við áðurnefnda tillögu að breyttu aðalskipulagi, var auglýst í Lögbirtingarblaðinu hinn 18. maí 2005 og samþykkt í bæjarstjórn hinn 8. september s.á.  Auglýsing um gildistöku hins kærða deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. nóvember 2005.  Á uppdrætti þess er yfirlitsuppdráttur að tillögu að auglýstri breytingu á aðalskipulagi Snæfellsbæjar, Ólafsvík en ekki er þar greint frá því að um ósamþykkta tillögu sé að ræða.  

Í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að deiliskipulag skuli gert á grundvelli aðalskipulags en þó geti sveitarstjórn auglýst tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu á tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.  Eins og að framan er lýst var tillaga að hinu kærða deiliskipulagi auglýst eftir að tillaga að breyttu aðalskipulagi hafði verið auglýst og voru tillögurnar að hluta til auglýstar á sama tíma.  Þá var hin kærða ákvörðun tekin eftir að nauðsynleg aðalskipulagsbreyting hafði tekið gildi og voru samþykktirnar því í réttri tímaröð.  Verður ekki fallist á, eins og atvikum er hér háttað, að við meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi verið vikið svo verulega frá tilvitnuðu lagaákvæði að ógildingu varði þótt nokkurrar ónákvæmni hafi gætt við kynningu hennar.

Í málinu liggur fyrir bréf lögmanns Snæfellsbæjar til lögmanns kærenda, dags. 9. september 2005.  Í bréfinu er athugasemdum kærenda vegna auglýsingar á deiliskipulagi miðbæjar Ólafsvíkur svarað.  Hvorki er þess getið í bókun skipulags- og byggingarnefndar né í bókun bæjarstjórnar, varðandi hina kærðu ákvörðun, að fjallað hafi verið sérstaklega um svör bæjaryfirvalda vegna framkominna athugasemda kærenda.  Í 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga segir að sveitarstjórn skuli senda þeim er athugasemdir hafi gert við tillögu deiliskipulags umsögn sína um þær.  Ótvírætt er að fyrrnefnt bréf lögmanns Snæfellsbæjar var ritað í tilefni af athugasemdum kærenda og fól í sér svör við þeim.  Þykir sá annmarki, að ekki hafi verið fært til bókar á fundum að fjallað hafi verið sérstaklega um svör við athugasemdum kærenda, ekki eiga að leiða til þess að ógilda beri deiliskipulagið.  Ekki verður heldur fallist á ógildingu deiliskipulagsins sökum þess að afgreiðslu þess í bæjarstjórn hafi verið áfátt enda var á fundi bæjastjórnar bókað að fundargerð skipulags- og byggingarnefndar væri samþykkt samhljóða og verður ekki fallist á að samþykktin hafi verið í andstöðu við ákvæði 49. gr. og d-lið 21. gr. sveitarstjórnarlaga líkt og kærendur halda fram.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að hið kærða deiliskipulag sé að minnsta kosti ólögmætt hvað varði staðsetningu byggingarreits viðbyggingar hússins að Ólafsbraut 20-22 innan lóðarinnar þar sem bil milli hans og húss kærenda að Grundarbraut 1 sé andstætt þágildandi ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi er byggingarreitur hússins nr. 20-22 við Ólafsbraut stækkaður í áttina að húsi kærenda og er stysta fjarlægð þar á milli um fjórir metrar, horn í horn, en hús kærenda og byggingarreiturinn standast ekki á.  Þótt þessi byggingarreitur fyrir viðbyggingu á lóðinni nr. 20-22 við Ólafsbraut sé sýndur í hinu umdeilda skipulagi verður við hagnýtingu hans að gæta ákvæða byggingarreglugerðar um brunahönnun og annað er máli skiptir.  Að þessu athuguðu þykir afmörkun umrædds byggingarreits ekki eiga að leiða til ógildar hinnar kærðu ákvörðunar.

Hið kærða deiliskipulag er sett fram á uppdrætti í mælikvarðanum 1:1000 ásamt greinargerð og skilmálum og nær deiliskipulagið yfir fjóra reiti sem ekki eru samliggjandi.  Á uppdrættinum er einnig loftmynd af Ólafsvík í mælikvarðanum 1:2000 og er þar nánari grein gerð fyrir mörkum deiliskipulagssvæðisins.  Þá er og á uppdrættinum sýnd tillaga að breyttu aðalskipulagi Snæfellsbæjar, Ólafsvík.  Í greinargerð deiliskipulagsuppdráttarins segir að haft hafi verið samráð við Húsafriðunarnefnd og sé talið að eina húsið á skipulagsreitnum er hafi varðveislugildi sé hús kærenda að Grundarbraut 1.  Verður ekki fallist á það með kærendum að framangreind framsetning sé í andstöðu við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. 

Eins og að framan er rakið óskaði Skipulagsstofnun eftir því að nánar tilgreindar lagfæringar yrðu gerðar á deiliskipulagstillögunni.  Verður ekki séð að tilefni hafi verið til þess af hálfu bæjaryfirvalda að auglýsa hana að nýju svo breytta, enda verður ekki talið að um grundvallarbreytingu hafi verið að ræða, sbr. 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.    

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða deiliskipulags.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu samþykktar bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 8. september 2005 um deiliskipulag miðbæjar í Ólafsvík.       

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _______________________________
                       Ásgeir Magnússon                                                      Þorsteinn Þorsteinsson