Fyrir var tekið mál nr. 100/2011, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grundarstígsreit.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. desember 2011, er barst nefndinni 20. s.m., kæra eigendur Grundarstígs 9, og eigandi 1. hæðar á Grundarstíg 12, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir Grundarstígsreit. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 9. desember 2011. Gera kærendur þá kröfu að sérskilmálar fyrir lóðina Grundarstíg 10, er heimila byggingu samkomusalar sem taki allt að 50 manns í sæti, kaffihús sem taki allt að 45 manns í sæti, rekstur veitingasalar og samkomu- og tónleikahald í húsinu, verði felldir úr gildi.
Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.
Málavextir: Forsaga málsins er sú að með úrskurði í máli nr. 58/2009, uppkveðnum 8. febrúar 2010, felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi byggingarleyfi, þar sem m.a. var heimilað að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 og heimila þar blandaða atvinnustarfsemi í stað íbúðar. Taldi úrskurðarnefndin að um svo verulega breytingu hefði verið að tefla að ekki hefðu verið skilyrði til þess að fara með umsókn um byggingarleyfi eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, auk þess sem hinni kærðu ákvörðun og rökstuðningi fyrir henni hefði verið áfátt. Í kjölfarið var forsögn að deiliskipulagi Grundarstígsreits kynnt fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu, Íbúasamtökum miðborgar Reykjavíkur og hverfisráði miðborgar. Athugasemdir bárust á kynningartíma.
Tillaga að deiliskipulagi umrædds skipulagsreits var lögð fram á fundi skipulagsráðs 9. mars 2011 ásamt m.a. húsakönnun, og var á fundinum bókað að í tillögunni fælist stefnumörkun um þróun byggðar á reitnum. Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaðilum á svæðinu og bárust athugasemdir við hana. Tók skipulagsstjóri afstöðu til fram kominna athugasemda og hinn 22. júní 2011 samþykkti skipulagsráð að auglýsa fyrrgreinda tillögu í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 30. s.m. Tillagan var auglýst frá 6. júlí til 17. ágúst 2011 og á fundi skipulagsfulltrúa 19. s.m. var tekin ákvörðun um að framlengja athugasemdafrestinn til 30. s.m. Athugasemdabréf bárust á kynningartíma tillögunnar frá Íbúasamtökum miðborgar og 25 íbúum, þ. á m. þremur kærenda. Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 14. september 2011 og samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra um fram komnar athugasemdir, dags. 12. s.m. Var málinu vísað til borgarráðs, er staðfesti greinda samþykkt á fundi hinn 22. september 2011.
Deiliskipulagið var síðan sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu með bréfi, dags. 28. september 2011. Með bréfi, dags. 14. október s.á., gerði stofnunin athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins, m.a. „… þar sem ósamræmi er á milli áforma deiliskipulagsins og gildandi aðalskipulagi 2001-2024 gr. 3.1.2 og þróunaráætlun miðborgar um íbúðarsvæði á miðborgarsvæði“. Í kjölfarið var gerð breyting á skipulagstillögunni og svofelld áritun gerð á uppdrátt hennar: „Breytt 21.11.2011 til samræmis við bréf skipulagsstofnunar dags. 14.10.2011. Texti varðandi landnotkun og aðalskipulag í kafla 4 í almennum skilmálum er yfirfarinn og lagfærður og tilvísun í skilmála úr þróunaráætlun miðborgar greinargerð I er tekin út af uppdrættinum, þar sem þeir skilmálar eru ekki bindandi hluti aðalskipulags.“ Leiðréttur uppdráttur var sendur Skipulagsstofnun ásamt bréfi, dags. 24. nóvember 2011, þar sem athugasemdum stofnunarinnar er svarað og rökstutt að ekki væri nokkurt ósamræmi að finna við gildandi aðalskipulag en rétt þætti að leiðrétta uppdráttinn aðallega til að auka skýrleika skipulagsgagna. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. desember 2011.
Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 15. desember 2011, kom fram að erindi Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember s.á., yrði ekki tekið til afgreiðslu fyrr en m.a. breytingar þær sem gerðar voru á deiliskipulaginu eftir kynningu yrðu teknar til umfjöllunar og samþykktar í borgarráði, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Hinn 11. janúar 2012 var á fundi skipulagsráðs samþykktur skipulagsuppdráttur, lagt fram fyrrgreint bréf skipulagsstjóra, dags. 24. nóvember 2011, og lögð fram ný umsögn umhverfis- og samgöngusviðs varðandi umferð, dags. 10. janúar 2012, og svarbréf skipulagsstjóra til Skipulagsstofnunar, dags. 11. s.m. Á fundi borgarráðs 12. janúar 2012 var eftirfarandi bókað: „Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um tillögu að deiliskipulagi Grundarstígsreits … Samþykkt.“ Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 26. janúar 2012, segir að komið hafi í ljós að umrætt deiliskipulag hafi tekið gildi og því muni stofnunin birta hinn upphaflega deiliskipulagsuppdrátt sem samþykktur hafi verið í borgarráði 22. september 2011. Stofnunin geri athugasemdir við málsmeðferð á deiliskipulaginu auk þess sem vanti upplýsingar um það hvort niðurstaða sveitarstjórnar hafi verðið auglýst.
Hið kærða deiliskipulag er af Grundarstígsreit en hann afmarkast af Grundarstíg, Spítalastíg, Þingholtsstræti og Skálholtsstíg. Þær byggingar sem eru innan svæðisins eru Grundarstígur 2-10 (sléttar tölur) og Þingholtsstræti 25 og 27. Í sérskilmálum fyrir lóðina að Grundarstíg 10 segir: „Í húsinu er heimilt að reka menningartengda starfsemi. Í því er heimilt að innrétta samkomusal sem tekur allt að 50 manns í sæti og kaffihús sem tekur allt að 45 manns í sæti. Auk þess er heimilt að innrétta nauðsynlega aðstöðu fyrir starfsemina og vinnuaðstöðu fyrir fræðimenn. Gerður er nýr byggingarreitur á norðvesturhluta lóðarinnar. Innan hans er heimilt að reisa nýbyggingu, heimil mænishæð er allt að 5 m. Tenging nýbyggingar við eldra hús skal vera á forsendum hins síðarnefnda. Ný uppbygging er háð niðurrifi bílskúrs á lóðinni. Halda skal í steyptan garðvegg umhverfis lóðina og heimilt er að setja hlið í hann út að Skálholtsstíg. Ef valið er að nýta húsið sem íbúðarhús er heimilt að innrétta tvær íbúðir í því. Um mannfagnaði og veitingarekstur í húsinu fer eftir „Málsmeðferðarreglum Borgarráðs um veitingastaði og gististaði“ og Aðalskipulagi Reykjavíkur hverju sinni. Reksturinn skal vera tengdur starfsemi hússins.“
Með úrskurði í máli nr. 84/2012, uppkveðnum 24. janúar 2013, vísaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frá kæru á byggingarleyfi vegna Grundarstígs 10 þar sem hún barst utan kærufrests.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að skilmálar deiliskipulagsins sem heimili að húsinu að Grundarstíg 10 verði breytt úr íbúð í aðstöðu til skemmtanahalds séu í andstöðu við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024, þar sem Grundarstígur sé á íbúðarsvæði.
Þá stangist hin kærða ákvörðun á við ákvæði gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sem segi m.a. að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Svonefnd menningartengd starfsemi í nefndu húsi muni að langmestu leyti nýtast öðrum en íbúum hverfisins og geti því ekki talist starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis samkvæmt greindu ákvæði skipulagsreglugerðar. Þá sé ekki hægt að skilgreina fyrirhugað margmiðlunarsafn sem þjónustu við íbúana og geti það varla talist þjónusta að gera ýmsum menningarverðmætum úr nánasta umhverfi skil. Í næsta nágrenni Grundarstígs sé fjöldi veitinga- og kaffihúsa auk tónleika- og fundarsala, þar sem hægt sé að stunda starfsemi á borð við þá sem fyrirhuguð sé, og sé umrædd starfsemi á þessum stað því ekki nauðsynleg. Ætla megi að samkomusalur sem nefndur sé í skilmálunum verði oft notaður til tónleikahalds og auk þess sé gert ráð fyrir útleigu á sal til einkaaðila. Starfsemi sem beinlínis sé ætlað að framleiða hljóð muni valda ónæði vegna hávaða sem stangist á við fyrrnefnt ákvæði skipulagsreglugerðar. Þá sé ótalinn hávaði sem ávallt myndist við það að fólk safnist saman utandyra til að reykja og vegna umferðar í kringum húsið, m.a. þegar leigubílar bíði eftir fólki o.þ.h. Ef staðurinn fái leyfi sem veitingastaður án vínveitingaleyfis sé verið að leyfa starfsemi sem megi hafa opna allan sólarhringinn hvort sem eigendur hússins ætli að nýta sér það eða ekki, sbr. 3. gr. málsmeðferðarreglna borgarráðs um veitingastaði og gististaði. Loks snúist starfsemin um að draga að sér umferð sem fari gegn umræddu ákvæði skipulagsreglugerðar. Ef enginn mæti á kaffihúsið eða fundi, veislur, tónleika og aðrar uppákomur, sé engin starfsemi. Ólíklegt sé að gestir staðarins fari að leggja bílum sínum í 200-300 m fjarlægð frá honum heldur muni þeir leggja bílum í öll stæði við Grundarstíg, nálægar götur og upp á gangstéttir. Íbúar í kringum Grundarstíg 10 búi á svæði þar sem talsverður bílastæðaskortur sé nú þegar og muni þeir sjá fram á aukinn bílastæðaskort, einkum á kvöldin. Þá sé ótalið að engin áætlun sé sýnileg um sérstök bifreiðastæði fyrir fatlaða.
Ef menningarstarfsemi sú sem fyrirhuguð sé í húsinu leggist af sé eins víst að húsið verði nýtt til skemmtanahalds. Í svari skipulags- og byggingarsviðs við athugasemdum Íbúasamtaka miðborgar segi að áfengisveitingar séu óheimilar á íbúðarsvæðum en þess sé ekki getið að samkvæmt 5. gr. fyrrgreindra málsmeðferðarreglna geti borgarráð veitt undantekningu frá þessu í jaðri miðborgar. Í deiliskipulaginu sé svæðið kallað jaðarsvæði og falli því undir framangreint undanþáguákvæði.
Í þróunaráætlun miðborgar sé kveðið á um að núverandi íbúðarhúsnæði og íbúðarlóðum beri að halda sem slíkum nema í þeim tilvikum þar sem aðstæður mæli gegn því, svo sem: a) verulegur kostnaður, b) sýnt sé fram á að breyting á notkun sé nauðsynleg til að tryggja byggingarlistar- og sögulegt gildi, c) breytingar á notkun styðji við íbúðareinkenni svæðisins, t.d. kaupmaðurinn á horninu, eða d) fella eigi húsnæði eða lóð að umfangsmikilli endurbyggingu í samræmi við gildandi skipulag. Umrætt sérákvæði deiliskipulagsins um Grundarstíg 10 gangi gegn nefndu ákvæði þar sem verið sé að breyta notkun íbúðarhúsnæðis án þess að nokkrar aðstæður mæli gegn því að hafa húsið áfram sem íbúðarhús.
Þá standist hin kærða ákvörðun ekki aðalskipulag þar sem ekki hafi farið fram úttekt á framboði á nærþjónustunni í viðkomandi hverfi og áhrif starfseminnar á umhverfið, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða eða annars ónæðis af starfseminni, eins og áskilið sé í aðalskipulaginu. Í deiliskipulagi Grundarstígsreits standi í lið 4, um megin markmið og áherslur, að deiliskipulag Grundarstígsreits skuli vera í samræmi við stefnumörkun borgaryfirvalda eins og hún birtist í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, en hafa skuli til hliðsjónar að í vinnslu sé nýtt aðalskipulag þar sem áhersla sé m.a. lögð á sjálfbærari hverfi, ekki síst í jaðri miðborgar. Samkvæmt þessu ætli skipulagsyfirvöld að hafa hliðsjón af reglum sem séu í vinnslu og ekki sé búið að samþykkja.
Íbúar hverfisins eigi að njóta vafans um lögmæti skilmálanna en ekki rekstraraðilar, enda sé Grundarstígur í rótgrónu og rólegu íbúðarhverfi sem íbúar hafi valið vegna nálægðar við miðbæinn í góðri trú um að farið verði eftir skipulagsreglugerð, aðalskipulagi og þróunaráætlun miðborgar.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að hið kærða deiliskipulag muni ekki skapa hættu á óþægindum fyrir íbúa hverfisins og muni starfsemin að Grundarstíg 10 þjóna þeim íbúum sem og öðrum íbúum borgarinnar. Ákvörðunin standist skipulagsreglugerð sem kveði sérstaklega á um að leyfa megi aðra starfsemi en þá sem eðlileg sé til þjónustu fyrir íbúa, enda muni hún ekki valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar eða draga að sér óeðlilega mikla umferð. Starfsemin muni jafnvel verða hverfinu til framdráttar og gefa því aukið gildi, en vilji eigenda Grundarstígs 10 standi til þess að hagsmunir þeirra og hverfisins fari saman.
Í fyrrgreindu húsi verði ekki heimilaður rekstur skemmtistaðar með ótakmörkuðum opnunartíma heldur verði í því menningartengd starfsemi, kaffihús án áfengis, tónleikahald í sal sem rúmi um 70 (sic) manns og útleiga á sal fyrir veislur og fundahöld. Um mannfagnaði og veitingarekstur í húsinu fari eftir málsmeðferðarreglum borgarráðs um veitingastaði og gististaði og aðalskipulagi Reykjavíkur. Árið 2009 hafi verið þinglýst kvöð á fasteignina Grundarstíg 10 um að „Mannfagnaðir í nýbyggingu skuli ekki standa lengur en til kl. 23:00 á kvöldin, þetta gildi um alla daga vikunnar.“ Við yfirferð byggingarleyfisumsóknar sé farið yfir tæknileg atriði, s.s. hljóðvistarkröfur, og því sé ekki talin nein hætta á að íbúar verði fyrir óþægindum vegna óeðlilegs hávaða. Óheimilt sé að veita rekstrarleyfi til áfengisveitingastaða á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt nefndum málsmeðferðarreglum og eingöngu heimilt að veita undanþágu frá því ef um sé að ræða staðsetningu í jaðri miðborgar/miðsvæðis og rekstur í flokki II. Húsið að Grundarstíg 10 sé ekki staðsett í jaðri miðborgar/miðsvæðis og verði því að óbreyttum reglum ekki um neinar áfengisveitingar að ræða í því. Í skilmálum deiliskipulagsins sé einnig tekið fram að reksturinn skuli vera tengdur starfsemi í húsinu.
Engin bílastæði séu á lóðinni og umferð muni ekki aukast merkjanlega í samhengi við stærð hússins. Gera megi ráð fyrir að umferð aukist um u.þ.b. 30 ferðir á sólahring, þ.e. úr 5-10 ferðum í 35-40, við það að breyta húsinu úr íbúðarhúsnæði í hús undir menningarstarfsemi. Til samanburðar sé umferð á Skálholtsstíg um 1.500 bílar á sólarhring og hafi fyrirhuguð starfsemi á Grundarstíg 10 því óveruleg áhrif á umhverfið. Óþægindi nágranna gætu þó falist í auknu álagi á bílastæði í grenndinni. Umtalsverður fjöldi bílastæða sé í um 200-300 m fjarlægð frá húsinu og muni fyrirsvarsmenn stofnunarinnar vinna gagngert að því að fá viðskiptavini hússins til að nýta sér þau. Mögulegt umferðarálag og/eða bílastæðavandamál geti eitt og sér ekki valdið ógildi deiliskipulagsins. Fjölmörg dæmi séu um atvinnustarfsemi á íbúðarsvæðum og í miðborginni, bæði veitingahús og verslanir, þar sem íbúar geti orðið fyrir tímabundnum óþægindum vegna umferðar. Almenningsstæði í miðborginni séu ætluð almenningi öllum en ekki eingöngu til að þjóna íbúum viðkomandi hverfa. Bílaeign á landinu hafi aukist mjög á undanförnum árum, en hverfið hafi ekki verið skipulagt fyrir slíkan fjölda bíla. Borgaryfirvöld vilji hvetja borgarbúa til að nýta sér betur almenningssamgöngur, ganga meira og hjóla. Þá megi eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt eiga von á því að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér t.d. skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.
Hið kærða deiliskipulag sé ekki í andstöðu við þróunaráætlun miðborgar og fyrirhuguð starfsemi að Grundarstíg 10 feli hvorki í sér léttiðnað né skrifstofustörf. Í þróunaráætlun miðborgar, íbúðarsvæði, komi m.a. fram að halda beri núverandi húsnæði sem slíku nema í tilvikum þar sem aðstæður mæli gegn því. Tekin séu nokkur dæmi um slíkar aðstæður, þar á meðal að breytingar á notkun séu nauðsynlegar til að tryggja byggingarlistar- og sögulegt gildi. Sú stefnumörkun sem vísað sé til hafi verið lögð fram til samþykktar í skipulags- og umferðarnefnd og borgarráði til nánari útfærslu í aðal- og deiliskipulagi á miðborgarsvæði. Stefnumörkunin sé ekki bindandi hluti af aðalskipulagi Reykjavíkur og komi ekki í stað samþykktra landnotkunarákvæða í aðalskipulagi. Stefnumörkun í þróunaráætlun miðborgar, m.a. um íbúðarsvæði, sé góðra gjalda verð og nytsamleg við vinnslu deiliskipulags í miðborg, en geti einungis verið gott skýringargagn við vinnslu bindandi áætlana. Hún geti þó aldrei haft svo víðtæk áhrif að koma í veg fyrir að heimila landnotkun á einstaka lóðum á miðborgarsvæði.
Deiliskipulagið sé í samræmi við ákvæði aðalskipulags Reykjavíkur enda komi fram í grein 3.1.2 í gildandi aðalskipulagi að á íbúðarsvæðum sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu. Nærþjónusta innan íbúðarsvæða er t.d. verslun, þjónusta, stofnanir, leikvellir og opin svæði sem einkum þjóni íbúum viðkomandi hverfis. Ekki hafi þurft að vinna úttekt vegna þeirrar starfsemi sem gert sé ráð fyrir á Grundarstígsreit. Í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að heimilt verði að reka verslanir á þeim lóðum þar sem hefð sé fyrir slíkum rekstri. Nýjar umsóknir um slíkan rekstur séu alltaf háðar ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og öðrum lögum og reglugerðum sem um slíkar umsóknir gildi. Þá sé það mat skipulagsyfirvalda að fyrirhuguð menningarstarfsemi falli vel að umhverfinu og sé líkleg til að bæta það. Þá sé málsmeðferðin öll og þeir sérskilmálar sem settir hafi verið án vafa í samræmi við lög og reglur.
Athugasemdir eigenda Grundarstígs 10: Af hálfu eigenda Grundarstígs 10 er bent á að starfsemin í Hannesarholti uppfylli skilyrði gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um að sinna þjónustu við íbúa hverfisins á margvíslegan máta. Dæmi um slíka þjónustu sé að safnað verði upplýsingum um sögu hverfisins, bæði menningarsögu og byggingarsögu. Fjallað verði um nafntogaða fyrrum íbúa hverfisins en einnig sé fyrirhugað að skrifa, í samstarfi við íbúa hverfisins, sögu venjulegs fólks sem búið hafi í hverfinu. Sama eigi við um kaffihús þar sem áhersla verði lögð á heimilislegar veitingar gegn sanngjörnu verði. Þá verði boðið upp á hverfiskvöld eða nágrannasamkomur sem yrðu lokaðar öðrum en íbúum hverfisins. Þjónusta á hverjum tíma taki mið af þörfum neytenda og það sé því eðli hennar að taka breytingum í takt við ný viðhorf, þarfir og áhugamál neytendanna. Þjónusta við íbúa felist ekki eingöngu í að selja þeim vörur eða gera við bilaða hluti og nái til andlegra ekki síður en til líkamlegra þarfa einstaklingsins. Starfræksla stofnunar í íbúðarhverfi, sem hafi m.a. það markmið að sinna sérstaklega menningartengdum þáttum hverfisins og að verða vettvangur fyrir jákvæð og uppbyggjandi samskipti við nágranna, sinni einnig mikilsverðri hverfisþjónustu. Færa megi gild rök fyrir því að þjónusta sem veitt verði í Hannesarholti falli í dag betur að skilgreiningu á hugtakinu þjónusta samkvæmt fyrrgreindu ákvæði í skipulagsreglugerð heldur en t.d. fiskbúð eða skósmiður. Vitaskuld muni aðrir Reykvíkingar notfæra sér þjónustu Hannesarholts en slíkt hið sama gildi um aðra þjónustu, eins og jólabúð, sem hafi verið starfrækt á Grundarstíg fyrir nokkrum árum.
Í greinargerð frá verkfræðistofu komi fram að hljóðmyndun í viðbyggingu sem samsvari 80 dB(A) verði við útvegg um 39 dB(A), en gera verði ráð fyrir að tónlist og talað mál verði að jafnaði lægra en 80 dB(A) í viðbyggingunni. Hljóð sem hugsanlega bærist út fyrir veggi verði því augljóslega undir þeim viðmiðum sem sett séu um íbúðarsvæði í reglugerð nr. 724/1998 um hávaða. Stærð salarins sé um 70 m², sem sé svipuð stærð og meðalstór skólastofa eða stofa ásamt borðstofu í heimahúsi, enda séu áform um að nýta salinn einkum til sýninga á vegum stofnunarinnar, stofutónleika, fyrirlestra og fræðakvölda. Önnur notkun, s.s. fyrir samkomur, verði undirskipuð og hávær raftónlist verði vitaskuld ekki leyfð. Vissulega fylgi hljóð tónlist en þau séu ekki bönnuð í íbúðarhverfum. Gerðar hafi verið ýmsar ráðastafarnir til að fyrirbyggja að hljóðmyndun verði að óþægilegum hávaða fyrir nágrennið. Vandað verði mjög til viðbyggingar með góðri hljóðeinangrun og góðri loftræsingu, þannig að ekki gerist þörf á að hreinsa loftið með því að opna glugga eða hurðir. Þá hafi forsvarsmenn Hannesarholts að eigin frumkvæði þinglýst þeirri kvöð á starfsemi í viðbyggingunni að henni skuli ljúka eigi síðar en kl. 23 alla daga vikunnar. Það sé álíka langsótt að banna fyrrgreinda viðbyggingu vegna hugsanlegs hávaða eins og það væri að banna byggingu bílskúrs vegna þess möguleika að hávær unglingahljómsveit hreiðraði um sig í skúrnum og truflaði nágrennið með leik sínum.
Stofnun Hannesarholts sé menningar- og fræðasetur þar sem ætlunin sé að meginþungi starfseminnar snúist um samræður og skoðanaskipti, halda menningar- og sögutengdar sýningar og halda lágstillta tónleika í viðbyggingu sem muni ljúka ekki síðar en kl. 23. Sú mynd sem kærendur setji fram sé í talsverðri mótsögn við framangreinda lýsingu. Þar sem fyrrgreindur salur sé lítill muni umferð ekki vera í líkingu við umferð við stærri samkomuhús, sem taki við hundruðum manna. Verði hvatt til þess, og jafnvel sett sem skilyrði fyrir samkomum, að gestir leggi bílum sínum í bílastæðahús eða á öðrum opinberum bílastæðum í nágrenninu. Fjölmörg bílastæði í hverfinu séu nýtt á daginn af ýmsum fyrirtækjum og stofnunum en standi síðan auð á kvöldin en meginþungi bílaumferðar vegna Hannesarholts verði einmitt á kvöldin.
Ótækt sé að byggja kæru á því sem geti skeð í framtíðinni ef fyrirhuguð starfsemi myndi leggjast af og á þeirri forsendu að borgaryfirvöld eða lögregluyfirvöld framfylgi ekki lögum og reglum. Húsið að Grundarstíg 10 sé eitt af merkari húsum í Reykjavík út frá byggingarlistarlegu og sögulegu tilliti eins og áskilið sé í þróunaráætlun miðborgar þegar breyta eigi notkun íbúðarhúsnæðis. Aðalmarkmið með stofnun Hannesarholts sé að opna hið merka hús fyrir nágrönnum þess og almenningi til að kynna það og sögu þess fyrir sem flestum. Saga þess sé samofin sögu Hannesar Hafstein og þeirri umbótahugsun og bjartsýnisanda sem hafi fylgt tilkomu fyrsta ráðherra Íslands.
Niðurstaða: Hið kærða deiliskipulag var staðfest í borgarráði hinn 22. september 2011. Breytingar þær sem gerðar voru á greinargerð þess eftir þann tíma voru hvorki til umfjöllunar né voru þær staðfestar í borgarráði áður en skipulagið tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. desember 2011. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og í 3. mgr. 41. gr. laganna er kveðið á um að sveitarstjórn skuli taka deiliskipulagstillögu til umræðu að lokinni kynningu og að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar um hana ef athugasemdir hafa borist á kynningartíma. Í umfjöllun sveitarstjórnar skal m.a. taka afstöðu til þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Með hliðsjón af nefndum ákvæðum skipulagslaga verða þær breytingar sem gerðar voru á skipulagstillögunni eftir afgreiðslu borgarráðs ekki taldar hluti gildandi deiliskipulags svæðisins.
Með bréfi, dags. 14. október 2011, gerði Skipulagsstofnun athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt umdeilds deiliskipulags fyrir Grundarstígsreit. Með bréfinu er tekið fram: „… ósamræmi er á milli áforma deiliskipulagsins gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, gr. 3.1.2 og þróunaráætlun miðborgar um íbúðarsvæði á miðborgarsvæði. Auk þess sem ekki er skýrt hvernig komið verði í veg fyrir ónæði og aukna umferð vegna fyrirhugaðra breytinga að Grundarstíg 10. Ennfremur er ósamræmi á milli settra skilmála og þeirra hugmynda eigenda fyrir starfsemina notaðar eru sem grundvöllur fyrir umsögn Reykjavíkurborgar við athugasemdum. Jafnframt vantar að heimild til verslunarreksturs, á jarðhæðum þeirra húsa sem hafa áður hýst verslanir, sé skilyrt með úttekt, sbr. ákvæðum gr. 3.1.2. í gildandi aðalskipulagi.“
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir Skipulagsstofnunar um efni deiliskipulags skal hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess. Í greinargerð með frumvarpi til skipulagslaga segir í athugasemdum með 42. gr. að lagt sé til það nýmæli að sveitarstjórn sé skylt að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar vegna deiliskipulagsins og gera nauðsynlegar breytingar á því varðandi form þess ef þörf sé á. Slíkar athugasemdir varði t.d. hvort deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag og að athugasemdum á auglýsingatíma hafi ekki verið svarað.
Fyrrgreindar athugasemdir Skipulagsstofnunar voru ekki afgreiddar af borgarstjórn í samræmi við fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga áður en auglýsing um deiliskipulagið var birt í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt framangreindu er málsmeðferð hins kærða deiliskipulags haldin slíkum annmörkum að fella ber það úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grundarstígsreit.
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson