Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2015 Stöðuleyfisgjöld

Árið 2016, föstudaginn 28. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011. fyrir:

Mál nr. 10/2015, kæra á ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar um að leggja á stöðuleyfisgjöld vegna gáma að Þórsmörk og Fjarðargötu 1, Seyðisfirði, fyrir árið 2014
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. febrúar 2015, sem barst nefndinni 7. s.m., kæra S, Þórsmörk, Seyðisfirði, og Stálstjörnur ehf., Garðarsvegi 21, Seyðisfirði, þá ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar að krefja nefnda aðila um greiðslu stöðuleyfisgjalda fyrir árið 2014 vegna gáma að Þórsmörk og Fjarðargötu 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 2. mars 2015.

Málsatvik og rök:
Á fundi umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar 20. nóvember 2014 kom fram að nefndin hefði farið um kaupstaðinn og skráð lausafjármuni, m.a. gáma, sem stæðu utan gámasvæðis. Var samþykkt að senda öllum lóðarhöfum reikning fyrir stöðuleyfi lausafjármuna vegna ársins 2014 samkvæmt gjaldskrá með 50% álagi vegna kostnaðar nefndarinnar við eftirlit og skráningu. Sendi Seyðisfjarðarkaupstaður kærendum reikninga fyrir álögðum gjöldum. Einn kærenda var krafinn um stöðuleyfisgjald ásamt 50% álagi vegna gáma að Fjarðargötu 1, samtals að upphæð kr. 382.500 samkvæmt reikningi með gjalddaga 31. desember 2014 og eindaga 25. janúar 2015. Þá var annar kærandi krafinn um greiðslu gjalds vegna stöðuleyfis auk álags, samtals kr. 112.500, vegna gáma að Þórsmörk. Mun sá reikningur hafa verið móttekinn 9. janúar 2015 en bakfærður 27. s.m. og annar kærandi krafinn í þess stað um greiðslu nefnds gjalds og álags með reikningi að sömu upphæð með eindaga 6. febrúar 2015.

Kærendur telja m.a. að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til að sveitarfélagið geti lagt á gjald fyrir stöðuleyfi að eigin frumkvæði en kærendur hafi ekki sótt um nefnd leyfi. Álagt álag eigi sér enga stoð, hvorki í gjaldskrá né í lögum um mannvirki nr. 160/2010 eða byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá hafi kröfu verið beint að röngum aðila.

Sveitarfélagið bendir á að gámaeigendum hafi á liðnum árum ítrekað verið bent á skyldur sínar samkvæmt lögum um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012 með auglýsingum og dreifibréfum sveitarfélagsins. Ekki hafi verið brugðist við þessum ábendingum á nokkurn hátt. Á fundi umhverfisnefndar 2. febrúar 2015 hafi verið samþykkt að afturkalla útsenda reikninga vegna stöðuleyfa fyrir árið 2014 og endurgreiða þá sem þegar voru greiddir. Hafi skrifstofa kaupstaðarins þegar fylgt eftir niðurstöðu nefndarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á.
 
Svo sem að framan er rakið var reikningur með umdeildri kröfu á hendur eins kærenda bakfærður og ákvörðun af hálfu umhverfisnefndar bæjarins um greinda gjaldtöku á hendur öðrum kærendum hefur verið afturkölluð. Hefur hin umdeilda álagning stöðuleyfisgjalda  af þeim sökum ekki lengur réttarverkan að lögum og hafa kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

               

_________________________________________
Ómar Stefánsson