Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2011 Tjarnarmýri

Árið 2012, þriðjudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 1/2011, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á tveimur hæðum á lóðinni nr. 2 við Tjarnarmýri og ákvörðun nefndarinnar að samþykkja breytt byggingarleyfi fyrir greindu húsi hinn 2. desember s.á.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. desember 2010, er barst nefndinni 3. janúar 2011, kæra Á, B, H, M og S, Suðurmýri 16 og E, Suðurmýri 14, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí 2010 að veita byggingarleyfi fyrir tveggja hæða íbúðarhúsi á lóðinni nr. 2 við Tjarnarmýri og ákvörðun nefndarinnar að samþykkja breytt byggingarleyfi fyrir greindu húsi hinn 2. desember s.á.  Bæjarstjórn Seltjarnarness staðfesti nefndar ákvarðanir hinn 26. maí og 6. desember 2010.  Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Umsókn byggingarleyfishafa um leyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús barst skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarness 21. janúar 2010.  Umrætt svæði hefur byggst upp án þess að hafa verið deiliskipulagt.  Hinn 16. mars s.á. var samþykkt á fundi nefndarinnar að grenndarkynna umsóknina með ákveðnum breytingum.   Athugasemdir bárust og voru þær lagðar fram á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 14. maí 2010.  Var umsóknin samþykkt og sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn 26. maí s.á.  Byggingarleyfi var gefið út 30. júní 2010.  Sótt var um breytingar á veittu byggingarleyfi hússins og samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd að grenndarkynna umsóknina en síðar var sú grenndarkynning dregin til baka og framkvæmdir við byggingu hússins stöðvaðar. 

Hinn 12. október 2010 var tekin fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd ný umsókn um breytingar á byggingarleyfi hússins að Tjarnarmýri 2 sem samþykkt var að grenndarkynna.  Að grenndarkynningu lokinni var umsóknin samþykkt á fundi nefndarinnar hinn 2. desember 2010 og sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 6. s.m.  Nýtt byggingarleyfi var síðan gefið út 9. desember 2010 og hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að hin kærða leyfisveiting og framkvæmdir gangi gegn grenndarhagsmunum þeirra.  Um sé að ræða nýtt og mikið breytt byggingarleyfi fyrir Tjarnarmýri 2.  Á lóðinni hafi átt að rísa tveggja hæða einbýlishús en þegar liðið hafi á uppsteypu þess hafi komið í ljós að framkvæmdir hafi ekki verið í samræmi við hinar grenndarkynntu teikningar frá 22. mars 2010, sem sýni húsbygginguna samsíða lóðarlínu milli Tjarnarmýrar 2 og Suðurmýrar 14 og 16. 

Í ágúst 2010 hafi byggingarfulltrúa Seltjarnarness verið greint frá grunsemdum kærenda um að húsið sem verið væri að reisa að Tjarnarmýri 2 væri ekki í samræmi við grenndarkynningargögn og útgefið byggingarleyfi.  Standi húsið m.a. innan við þrjá metra frá lóðarmörkum, sem snúi að Suðurmýri 14 og 16, og væru þrjú gluggaop á lagnakjallara á þeirri hlið.  Fyllt hafi verið í gluggaopin með einangrunarplasti og dregið yfir með múrblöndu.  Stigahús sé milli fyrstu hæðar hússins og lagnakjallarans auk þess sem útitröppur hafi verið settar við kjallarainngang Tjarnarmýrarmegin.  Loks væri dyraop ásamt tröppum utan á einum útvegg lagnakjallarans. 

Í grenndarkynntum gögnum frá 13. október 2010 komi fram að húsið að Tjarnarmýri 2 standi ekki samsíða lóðarmörkin og sé 3 til 33 cm nær lóðarmörkum Suðurmýrar 14 og 16 en gert hafi verið ráð fyrir við fyrri grenndarkynningu.  Við seinni grenndarkynningu hafi kærendur gert athugasemdir við nýtingarhlutfall lóðarinnar, staðsetningu hússins á lóðinni og vegghæð þess, en hvoru tveggja varpi auknum skugga á lóðir Suðurmýrar 14 og 16. 

Allri málsmeðferð vegna byggingar hússins að Tjarnarmýri 2 hafi verið ábótavant af hálfu bæjaryfirvalda og hafi lögvörðum hagsmunum kærenda verið raskað.  Byggingarfulltrúi bæjarins hafi framselt eftirlitsskyldu sína á úttektum á húsinu til aðila sem sjálfur hafi gert teikningarnar að húsinu og hafi hann því haft eftirlit með sjálfum sér.  Ekki hafi verið grenndarkynnt að nýju og gefið út nýtt, breytt byggingarleyfi samkvæmt nýjum teikningum fyrr en að lokinni uppsteypu hússins.   Þá hafi einnig reynst erfitt að fá svör við erindum sem send hafi verið bæjaryfirvöldum vegna málsins.  Stærð og staðsetning umdeildrar byggingar valdi auknu skuggavarpi og takmarki möguleika kærenda til nýtingar fasteigna sinna. 

Málsrök Seltjarnarness:  Af hálfu Seltjarnarness er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað og að samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 2. desember 2010 verði staðfest. 

Í byrjun júní 2010 hafi lóðarhafi óskað eftir leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi húss ásamt afleiddum útlitsbreytingum samkvæmt uppdráttum.  Ekki hafi verið fjallað um málið á formlegan hátt vegna sumarleyfa og hafi því, að höfðu samráði við bæjarstjóra, verið veitt leyfi til að halda framkvæmdum áfram samkvæmt nýjum uppdráttum, með tölvubréfi 8. júlí 2010, með þeim fyrirvara að umsóknin yrði tekin fyrir á næsta fundi skipulags- og mannvirkjanefndar að loknum sumarleyfum.  Nefndin hafi ítrekað með tölvupósti 26. júní s.á. að kjallaratröppur á uppdrætti væru ekki innan þeirrar heimildar. 

Í ágúst s.á. hafi umsókn um framangreindar breytingar og uppdrættir verið lagðir fram.  Samþykkt hafi verið að vísa umsókninni til grenndarkynningar.  Áður en tímabili grenndarkynningar væri lokið hafi komið í ljós að settur hafði verið kjallaragluggi á austurhlið kjallararýmis.  Við nánari skoðun hafi einnig komið í ljós að kjallari væri mun dýpri en tilkynnt hefði verið um, auk þess sem vísbendingar hefðu verið um að nýta ætti hann til búsetu.  Þar sem umræddar framkvæmdir hafi ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi uppdrætti hafi þær verið stöðvaðar þegar í stað og það tilkynnt eiganda og byggingarstjóra í bréfi, dags. 18. ágúst 2010.  Auk þess hafi annar úttektaraðili verið fenginn til að taka framvegis að sér úttektir á framkvæmdum, því engar tilkynningar um misræmi hafi borist byggingarfulltrúa frá fyrri úttektaraðila.  Málið hafi verið tekið aftur upp á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 31. ágúst 2010 og eftirfarandi bókað:  „Grenndarkynning dags. 18.8. 2010 dregin til baka.  Framkvæmdastöðvun gildir enn.  Eiganda gert að framvísa nýjum uppdráttum – Formanni nefndarinnar gefið umboð til að afgreiða málið milli funda.“  Loks hafi umsókn um breytingu á áður útgefnu byggingarleyfi verið samþykkt á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 2. desember 2010 og staðfest af bæjarstjórn Seltjarnarness 6. s.m. 

Varðandi fjarlægð hússins frá lóðarmörkum til austurs sé byggingin staðsett samkvæmt aðaluppdrætti en þegar hún hafi verið komin vel á veg hafi nágrannar talið að skekkja væri á útsetningu hússins.  Í ljós hafi komið að lóðin væri örlítið minni en fram kæmi á mæliblaði.  Þar sem langhliðar lóðar til austurs og vesturs væru ekki samsíða hafi húsið verið stillt af miðað við legu götu vestan húss en þess gætt að suðausturhorn væri rétt, þ.e. í þriggja metra fjarlægð frá lóðamörkum.  Áhrifin af þessu séu þó hverfandi ef skuggavarpslíkan sé skoðað.  Ekkert athugavert sé við staðsetningu hússins að Tjarnarmýri 2 og hún sé í samræmi við gildandi afstöðumynd.  Því hafi í raun ekki verið ástæða til að upplýsa nágranna um endanlega útsetningu þess. 

—————-

Lóðarhöfum Tjarnarmýrar 2 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá þeim. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvarðana skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí og 2. desember 2010 um veitingu byggingarleyfa vegna hússins að Tjarnarmýri 2, sem bæjarstjórn staðfesti 26. maí og 6. desember s.á. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru þegar hinar kærðu ákvarðanir voru teknar, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 3. janúar 2011, eða rúmum sjö mánuðum eftir að bæjarstjórn staðfesti fyrri ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar um byggingarleyfi fyrir umræddu húsi og rúmum sex mánuðum eftir útgáfu byggingarleyfisins.  Þá mun uppsteypu hússins hafa verið lokið í ágústmánuði 2010.  Af þessum ástæðum verður að telja að kæra vegna hins fyrra byggingarleyfis hafi borist að liðnum kærufresti og ekki liggja fyrir þær ástæður sem réttlæti að málið verði tekið til efnismeðferðar að því er varðar greint byggingarleyfi.  Verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 2. desember 2010, um að veita heimild fyrir breyttu byggingarleyfi vegna Tjarnarmýrar 2, fól fyrst og fremst í sér þá breytingu frá fyrra byggingarleyfi að heimiluð lofthæð kjallararýmis hússins, sem er 97,2 m² að flatarmáli, fór úr 1,8 m í 2,65.  Ekki er í hinni kærðu ákvörðun heimilað að setja glugga eða dyraop á útveggi kjallararýmisins.

Í 74. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem í gilda var við töku hinnar kærðu ákvörðunar, er sett fram það viðmið að hver hæð í íbúðarhúsi skuli vera 2,7-2,8 m frá gólfi að yfirborði næstu gólfplötu, en þó þannig að lofthæð verði aldrei minni en 2,5 m.  Átti þessi regla við þegar ekki var til að dreifa ákvæðum í deiliskipulagi um vegghæðir húsa.  Samkvæmt 9. mgr. 2. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga skal miða við brúttóflatarmál húss við útreikning nýtingarhlutfalls.  Hugtakið brúttóflatarmál er skilgreint í ÍST 50, gr. 4.4, á þann veg að um sé að ræða samanlagt brúttóflatarmál allra hæða byggingar, sem m.a. geta verið að hluta eða að öllu leyti niðurgrafnar.  Samkvæmt þessu telst kjallari hússins hæð sem taka skal tillit til við útreikning nýtingarhlutfalls lóðar.  Samkvæmt aðaluppdrætti er lóðin að Tjarnarmýri 2  413,5 m2 og brúttóflatarmál húss að kjallara meðtöldum 318,3 m2.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar verður því 0,77 en ekki 0,53 eins fram kemur á samþykktum teikningum.  Miðað við upplýsingar úr fasteignaskrá er nýtingarhlutfall einbýlishúsalóða á þeim götureit sem Tjarnarmýri 2 tilheyrir um og innan við 0,5 að tveimur lóðum undanskildum, sem hafa nýtingarhlutföllin 0,57 og 0,75. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga sem og 9. og 43. gr. sömu laga, verður byggingarleyfi að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri meginreglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna, um heimild sveitarstjórnar til að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem heimilað er að gera óverulegar breytingar á deiliskipulagi með grenndarkynningu.  Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til byggðamynsturs og þéttleika byggðar og þess hversu umfangsmikil hún er í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddu svæði og hver grenndaráhrif hennar eru á nærliggjandi eignir. 

Telja verður að með umdeildu byggingarleyfi sé vikið svo frá nýtingarhlutfalli því sem almennt gildir um sambærilegar lóðir á svæðinu að óheimilt hafi verið að veita byggingarleyfið á grundvelli undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Hefði það jafnframt verið í betra samræmi við stefnu núgildandi aðalskipulags Seltjarnarness, um að unnið verði deiliskipulag fyrir einstök svæði þar sem mörkuð verði stefna um þéttingu byggðar í eldri hverfum, að unnið hefði verið deiliskipulag fyrir umræddan götureit áður en afstaða var tekin til umsóknar um umdeilt byggingarleyfi. 

Með hliðsjón af framansögðu verður hin kærða ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 2. desember 2010, um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Tjarnarmýri 2, felld úr gildi.  Aðrar kröfur kærenda er snúa að tilteknum aðgerðum vegna byggingar umdeilds húss heyra ekki undir úrskurðarnefndina og verður því engin afstaða tekin til þeirra í máli þessu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí 2010, um að veita byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á tveimur hæðum á lóðinni nr. 2 við Tjarnarmýri, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 2. desember 2010, sem bæjarstjórn staðfesti 6. s.m., um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi með sambyggðum bílskúr á lóð nr. 2 við Tjarnarmýri. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson