Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2009 Hörðukór

Ár 2010, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 1/2009, kæra á breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. janúar 2009, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kæra S og S, eigendur íbúðar í fjölbýlishúsinu að Hörðukór 1 í Kópavogi breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. janúar 2009, er barst nefndinni 30. sama mánaðar, kæra eigendur átta íbúða í fjölbýlishúsinu að Hörðukór 1 sömu deiliskipulagsbreytingu og áður greinir.  Ákvað úrskurðarnefndin að sameina síðara kærumálið máli þessu. 

Skilja verður málskot kærenda á þann veg að krafist sé ógildingar á deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór og að efsta hæð hússins verði fjarlægð án tafar ásamt svalahandriði sem sé ofan á húsinu. 

Málsatvik og rök:  Árið 2003 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs deiliskipulag Vatnsendasvæðis er m.a. tók til lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór.  Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. október 2005 tók gildi breyting á deiliskipulagi þessu er laut að fyrrgreindri lóð.  Fól breytingin m.a. í sér að heimilað var að stækka byggingarreit,  lyfta þaki um 4,8 m, nýta þakrými sem hluta íbúða á 12. hæð, fjölga íbúðum úr 48 í 52 og auka hámarksflatarmál hússins um 700 m2.  Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir húsinu 10. október 2005. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að í desember 2008 hafi þau fengið vitneskju um að íbúðarblokkin að Hörðukór 3 hafi verið hækkuð um eina hæð og ca. 1,65 m að auki og að líkindum einnig verið færð til á lóðinni, í átt að Hörðukór 1.  Þá virðist ljóst að reglugerðarkrafa um að minnst helmingur hæðar húss sé að lóðarmörkum hafi verið gróflega brotin.  Þetta hafi verið gert án undangenginnar grenndarkynningar. 

Kærendur, sem séu eigendur íbúða í fjölbýlishúsinu að Hörðukór 1, hafi gert samning um kaup á íbúðum í húsinu áður en bygging Hörðukórs 3 hafi hafist og áður en breyting hafi verið samþykkt á deiliskipulagi.  Hefðu þau haft grun um breytingarnar hefði þeim verið í lófa lagið að kaupa íbúðir annars staðar í húsinu þar sem þau hefðu ekki orðið fyrir skaða vegna breytinganna sem ýmist ræni kærendur umhverfis-, fjalla- eða sólarsýn. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að afgreiðsla bæjarins á breyttu deiliskipulagi lóðarinnar að Hörðukór 3 frá árinu 2005 hafi verið rétt, bæði að formi og efni, og krefst staðfestingar hennar. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í kærumáli þessu tilgreina kærendur ekki sérstaklega hina kærðu ákvörðun en af málsgögnum verður helst ráðið að um sé að ræða ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 22. september 2005 um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór er tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 31. október 2005.  Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir húsinu 10. sama mánaðar. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. 

Eins og að framan er rakið bárust kærur í máli þessu úrskurðarnefndinni 8. og 30. janúar 2009 eða rúmum þremur árum eftir lok kærufrests og ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________
Hjalti Steinþórsson

______________________    ________________________
Þorsteinn Þorsteinsson            Aðalheiður Jóhannsdóttir