Ár 2006, fimmtudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
Fyrir var tekið mál nr. 1/2006, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss á tillögu að breyttu deiliskipulagi á sorpurðunarsvæði í landi Kirkjuferjuhjáleigu og á útgáfu sveitarfélagsins á framkvæmdaleyfi, hafi það verið gefið út vegna framkvæmda á svæðinu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. janúar 2006, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir Reynir Karlsson hrl., f.h. eigenda jarðanna Grænhóls, Strýtu og Auðsholtshjáleigu í Ölfusi, „…samþykkt skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss á tillögu að breyttu deiliskipulagi á sorpurðunarsvæði í landi Kirkjuferjuhjáleigu og á útgáfu sveitarfélagsins á framkvæmdaleyfi, hafi það verið gefið út vegna framkvæmda á svæðinu.“
Kærendur gera þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og hafa jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda við urðun sorps á svæðinu þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.
Málsatvik og rök: Í athugasemdum við kæruna, sem úrskurðarnefndinni bárust hinn 11. maí 2006 frá lögmanni Sveitarfélagsins Ölfuss, kemur fram að hin kærða skipulagsákvörðun hafi verið staðfest á fundi bæjarráðs hinn 6. október 2005, eftir að afstaða hafi verið tekin til framkominna athugasemda. Málið hafi síðan verið sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu en stofnunin hafi gert athugasemdir við skipulagið og hafi bréf gengið á milli stofnunarinnar og sveitarfélagsins af því tilefni. Sé nú unnið að því að verða við framkomnum athugasemdum Skipulagsstofnunar. Af þessum sökum hafi auglýsing um gildistöku skipulagsins enn ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.
Í athugasemdum sveitarfélagsins er jafnframt upplýst að ekkert framkvæmdaleyfi hafi verið veitt fyrir framkvæmdum á svæðinu. Framkvæmdirnar hafi hafist fyrir gildistöku laga nr. 73/1997 og hafi engin áskilnaður verið í eldri lögum um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdirnar eigi sér stoð í eldra skipulagi og séu ekki háðar framkvæmdaleyfi. Beri því að hafna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og ógildingu framkvæmdaleyfis.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið hefur auglýsing um gildistöku hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar enn ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er gildistökuskilyrði og markar jafnframt upphaf kærufrests, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum. Þykir ekki geta komið til álita að ógilda með úrskurði ákvörðun sem ekki hefur öðlast gildi að lögum og verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu skipulagsákvörðunar því vísað frá meðan svo er ástatt. Krafa um ógildingu framkvæmdaleyfis kemur ekki til álita þar sem fyrir liggur að ekkert slíkt leyfi hefur verið veitt. Ekki getur heldur komið til álita að úrskurða til bráðbirgða um stöðvun framkvæmda með stoð í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, enda verður þeirri heimild einungis beitt í tengslum við úrlausn ágreinings um lögmæti ákvörðunar sem skotið hefur verið til nefndarinnar.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður máli þessu vísað í heild frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ásgeir Magnússon