Ár 2005, miðvikudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 1/2005, kæra á ákvörðunum svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps frá 4. janúar 2005 um að veita að nýju leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. janúar 2005, sem barst nefndinni 10. s.m., kæra B og S, eigendur Miðhrauns 2, Eyja og Miklaholtshreppi, ákvarðanir svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps frá 4. janúar 2005 um að veita að nýju leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.
Krefjast kærendur ógildingar hinna kærðu ákvarðana. Að auki kröfðust kærendur þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu með úrskurði, uppkveðnum 28. janúar 2005.
Loks krefjast kærendur þess, í framhaldi af því að mál hafi verið höfðað af hálfu eigenda Miðhrauns 1 um merki Miðhrauns 1 og 2, að framkvæmdir sem standi yfir að Miðhrauni 1 við byggingu hesthúss, sem deiliskipulagt hafi verið síðastliðið haust, verði stöðvaðar þar til dæmt verði í umræddu máli fyrir Héraðsdómi Vesturlands, eða síðar Hæstarétti ef þörf krefji. Hesthúsið sé að hluta til inn á umdeildu sameiginlegu landi þar sem sé hraun.
Úrskurðarnefndin hefur nú lokið gagnaöflun í máli þessu, m.a. með skoðun á vettvangi, og er málið nú tekið til efnisúrlausnar.
Málsatvik: Með kæru, dagsettri 30. nóvember 2004, kærðu eigendur Miðhrauns 2, Eyja og Miklaholtshreppi, byggingarleyfi sem veitt hafði verið hinn 23. nóvember 2004 til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1. Á umræddu svæði er hvorki í gildi aðalskipulag né deiliskipulag og leitaði sveitarstjórn því meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með því að umrætt byggingarleyfi yrði veitt.
Með bréfi Skipulagsstofnunar, dagsettu 16. júlí 2004, var byggingarfulltrúa tilkynnt að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir umræddri byggingu, enda yrði fyrirhuguð framkvæmd kynnt næstu nágrönnum.
Í greinargerð byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar um framvindu byggingar gestahússins segir að þann 16. ágúst 2004 hafi hreppsnefnd staðfest samþykkt byggingarnefndar um byggingarleyfi fyrir húsinu. Ekki hafi farið fram formleg mæling á staðsetningu hússins en við vettvangsferð byggingarfulltrúa þann 16. september 2004 hafi verið slegið gróflega á hvar húsið ætti að vera samkvæmt afstöðumynd en viðstaddir hafi verið hönnuður og byggingarmeistari. Í samræmi við þetta muni svo hafa verið grafið fyrir húsinu. Í nóvember hafi byggingarstjórinn haft samband við byggingarfulltrúa og óskað eftir úttekt á sökklum og hafi byggingarfulltrúi þá litið á framkvæmdir og tjáð byggingarstjóra að hann tæki ekki út framkvæmdina en gerði ekki athugasemd við handbragð verksins, en vegna þess að ekki hefði borist greiðsla á byggingarleyfisgjöldum væri ekki búið að gefa út byggingarleyfi fyrir húsinu. Við athugun hafi komið í ljós að reikningur vegna gjaldanna hefði glatast. Hafi því orðið að ráði að framkvæmdir gætu haldið áfram og yrðu ekki stöðvaðar að svo stöddu. Þann 23. nóvember 2004 hafi greiðsla borist og hafi þá leyfið verið gefið út. Þann 17. nóvember 2004 hafi nágrannar að Miðhrauni 2 bent byggingarfulltrúa á að þeim hefði ekki verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkvæmdina. Verður af málsgögnum ráðið að kærendur hafi gert athugasemdir við staðsetningu mannvirkisins og jafnframt að ekki hefði verið farið að skilyrði Skipulagsstofnunar um kynningu.
Af hálfu byggingaryfirvalda og sveitarstjórnar var brugðist við á þann hátt að kærendum var sent erindi um kynningu á nýbyggingunni. Jafnframt voru framkvæmdir stöðvaðar en þær voru þá komnar nokkuð á rekspöl. Var m.a. lokið gerð sökkuls og gólfplötu og framkvæmdir hafnar við grind hússins, sem er timburhús á steinsteyptum grunni með steyptri gólfplötu.
Kærendur gerðu ekki athugasemdir í tilefni af framangreindri grenndarkynningu. Hafa kærendur vísað til þess að málið hafi á þessum tíma verið í höndum úrskurðarnefndarinnar og að þangað hafi þau beint athugasemdum sínum og umkvörtunum. Hafi þau talið málið úr höndum sveitarstjórnar á þessum tíma.
Á fundi svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness hinn 4. janúar 2005 var málið tekið fyrir. Afturkallaði nefndin byggingarleyfið frá 23. nóvember 2004 með heimild í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt bókaði nefndin að þar sem ekki hefði borist svar við kynningarbréfi til nágranna liti nefndin svo á að ekki væru gerðar neinar athugasemdir við byggingarframkvæmdina og mælti því með því að leyfið yrði gefið út að nýju. Staðfesti hreppsnefnd Eyja og Miklaholtshrepps samþykkt nefndarinnar síðar sama dag. Ákvarðanir þessar kærðu eigendur Miðhrauns 2 til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 6. janúar 2005, en drógu jafnframt til baka fyrri kæru með hliðsjón af því að hin kærða ákvörðun í því máli hafði verið afturkölluð.
Eftir að byggingarleyfið hafði verið veitt að nýju var aftur tekið til við byggingu hússins og var að mestu lokið frágangi útveggja og þaks þegar úrskurðarnefndin stöðvaði framkvæmdir við bygginguna, með úrskurði uppkveðnum 28. janúar 2005, svo sem að framan greinir.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er því haldið fram að hinni umdeildu nýbyggingu hafi verið valinn staður án þess að þeim væri gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að í málinu, en það hafi þó verið skilyrði af hálfu Skipulagsstofnunar fyrir því að byggingarleyfi yrði veitt. Grenndarkynning, sem fram hafi farið eftir að framkvæmdir hafi verið komnar á rekspöl, verði ekki talin fullnægjandi, enda hafi málið þá verið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og ekki í höndum byggingarnefndar eða sveitarstjórnar. Málsmeðferð hafi því verið ólögmæt og að auki hafi hinni umdeildu byggingu verið valinn staður nær sameiginlegu landi málsaðila en heimilt hafi verið án þess að fyrir lægi samþykki kærenda, sem meðeigenda að hinu sameiginlega landi. Sé staðsetning nýbyggingar þar að auki til baga fyrir kærendur vegna atvinnustarfsemi þeirra, sem gestahúsið muni hafa truflandi áhrif á.
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. janúar 2005, árétta kærendur enn frekar sjónarmið sín í málinu. Gera kærendur athugasemdir við að byggingarleyfi sem hreppsnefnd hafi verið búin að afturkalla hafi verið veitt að nýju á þeirri forsendu að ekki hafi borist neinar athugasemdir innan tilskilins frests. Þetta sé alrangt þar sem kærendur hafi fundað með oddvita, byggingarfulltrúa og einum fulltrúa sem bæði sitji í hreppsnefnd og byggingarnefnd, þar sem farið hafi verið yfir athugasemdir kærenda. M.a. hafi komið fram að kærendur teldu umrætt hús innan svæðis sem deilt sé um í dómsmáli, sem byggingarleyfishafinn hafi höfðað um merki Miðhrauns 1 og 2, auk fleiri atriða sem kærendur setji út á.
Kærendum hafi áður verið tjáð að málið væri ekki í höndum sveitarstjórnar heldur úrskurðarnefndarinnar og hafi það leitt til þess að skriflegum athugasemdum hafi ekki verið komið á framfæri vegna kynningar þeirrar sem efnt hafi verið til.
Athugasemdir kærenda séu einkum eftirfarandi:
1. Staðsetning gestahússins sé ekki í samræmi við það sem framkvæmdaraðilar hafi áður talað um við kærendur.
2. Eigendur Miðhrauns 1, og skipulagsnefnd svæðisins hafi engra hagsmuna að gæta gagnvart staðsetningu þessa húss sem réttlæti byggingarleyfi á þeim stað sem bygging er nú hafin á.
3. Staðsetning gestahússins valdi röskun á hagsmunum kærenda og atvinnustarfsemi sem þarna sé fyrir.
4. Á teikningu hafi ekki verið gert ráð fyrir rotþró nema í samráði við byggingarfulltrúa og vilji kærendur koma því á framfæri að samráð verði einnig haft við þá um staðsetningu hennar.
5. Staðsetning hússins sé á umdeildu landi og hafi mál vegna þeirra deilna verið þingfest í Héraðsdómi Vesturlands þann 12. janúar 2005.
6. Ekki sé gert ráð fyrir bílastæði né vegi að húsinu og vilja kærendur að upplýst verði um hvort leyft verði að hann komi síðar.
7. Þar sem umferð að þessu svæði sé öll í gegnum hlaðið hjá kærendum og fyrirsjáanleg sé mikil breyting frá því sem áður hafi verið vilji kærendur að aðkoma nágranna að svæðinu verði endurskoðuð.
Kærendur telja loks að við ákvörðun um staðsetningu gestahússins og útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis hafi ekki verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga og beri því að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi.
Málsrök byggingaryfirvalda: Af hálfu byggingarfulltrúa hefur verið vísað til þess að grenndarkynning hafi farið fram eftir að kærendur hafi bent á áskilnað Skipulagsstofnunar þar að lútandi. Kærendur hafi hins vegar ekki gert neinar athugasemdir í tilefni kynningarinnar og hafi því verið litið svo á að ekki væru gerðar athugasemdir af þeirra hálfu. Því hafi hið umdeilda leyfi verið veitt eftir að fullnægt hafi verið skilyrði Skipulagsstofnunar um kynningu og verði að telja að við meðferð málsins hafi verið bætt úr annmörkum með fullnægjandi hætti.
Andmæli byggingarleyfishafa: Í greinargerð, dags. 31. janúar 2005, reifar Ólafur Sigurgeirsson hrl., sjónarmið byggingarleyfishafa í málinu og andmælir málatilbúnaði kærenda eins og hann er settur fram í bréfi þeirra, dags. 22. janúar 2005. Krefst lögmaðurinn þess að hinar kærðu ákvarðanir verði staðfestar og að bráðbirgðaúrskurður frá 28. janúar verði felldur úr gildi.
Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að í bréfi kærenda frá 22. janúar 2005 segi að umrætt hús sé innan þess svæðis, sem deilt sé um í landamerkjamáli milli aðila, en í fyrri kæru segi að húsið sé tvo metra frá sameiginlegu landi. Hið rétta sé að húsið standi langt frá landi Miðhrauns 2 samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi þeirrar jarðar.
Eftir samþykkt fyrra byggingarleyfis hafi komið í ljós að byggingarfulltrúa hafi láðst að grenndarkynna, en það hafi hann hins vegar gert á réttan hátt áður en til umfjöllunar um síðara byggingarleyfið hafi komið.
Athugasemdum kærenda í liðum 1 – 7 er andmælt af hálfu byggingarleyfishafa og einstökum liðum svarað með eftirfarandi hætti:
1. Rangt sé að rætt hafi verið um aðra staðsetningu umdeilds húss en þá sem valin hafi verið. Tveir kostir hafi veriði skoðaðir varðandi staðsetningu hússins og hafi kærendum verið kunnugt um þá báða. Hafi annar þessara kosta verið að staðsetja húsið þar sem það hafi nú verið reist.
2. Því sé mótmælt að byggingarleyfishafar eigi ekki hagsmuna að gæta varðandi staðsetningu hússins. Staðsetningin hafi verið ákveðin með tilliti til ýmissa þátta sem skipti máli fyrir eigendur mannvirkisins.
3. Byggingarleyfishafar telji að bygging gestahúss á þessum stað muni ekki hafa nein áhrif á sauðfjárbúskap kærenda hvorki um sauðburð né við rekstur fjár af fjalli á haustin, enda hafi þess verið gætt að húsið yrði staðsett í viðunandi fjarlægð frá því svæði í landi kærenda sem hér um ræði.
4. Engin ástæða sé til að ætla að rotþró verði staðsett á þann veg að neysluvatn kærenda geti spillst.
5. Rangt sé að gestahúsið hafi verið staðsett á umdeildu landi. Mál hafi að vísu verið höfðað til úrlausnar ágreiningi um merki en sá ágreiningur snerti ekki land það sem húsið standi á.
6. Hvað veg og bílastæði varði þá sé gert ráð fyrir að aðkomuvegur að íbúðarhúsi verði samnýttur með gestahúsi. Einnig sé gert ráð fyrir samnýtingu bílastæða sem liggi suðaustan við íbúðarhús en þau verði stækkuð sem nemi 2-3 bílastæðum. Ekki verði því lagður vegur að gestahúsinu síðar.
7. Fullyrðingum kærenda um umferð um hlað þeirra sé mótmælt. Akbraut sé sameiginleg frá þjóðvegi þar til 100 – 200m séu eftir að bæjunum, þar greinist vegurinn og sé sín heimreiðin að hvorum bæ.
Af hálfu byggingarleyfishafa er áréttað að grenndarkynning vegna byggingarleyfisins, sem gefið hafi verið út á grundvelli afstöðumyndar, sé alfarið á herðum skipulagsnefndar hreppsins en ekki byggingarleyfishafa. Eins og komið hafi fram hafi mistök skipulagsfulltrúaembættisins verið ástæða þess að kynningin átti sér ekki stað. Úr því hafi verið bætt af hálfu hreppsins um leið og mistökin hafi orðið ljós. Byggingarleyfishöfum hafi ekki verið kunnugt um að kynningin hafi ekki verið framkvæmd og hafi þeim þar af leiðandi ekki verið unnt að leiðrétta það sem miður hafi farið. Að lokinni grenndarkynningu hafi hreppsyfirvöld fullnægt skipulags- og byggingarlögum og á grundvelli þess að engar athugasemdir hefðu borist hafi verið gefið út nýtt byggingarleyfi.
Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 2. mars 2005. Málsaðilar voru viðstaddir en byggingarfulltrúi hafði boðað að hann yrði fjarverandi. Gengið var um svæðið og gerðu málsaðilar grein fyrir helstu sjónarmiðum sínum í málinu.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvarðana byggingarnefndar og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps um að veita leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1. Til grundvallar leyfisveitingunni liggur skilyrt afgreiðsla Skipulagsstofnunar á beiðni sveitarstjórnar um meðmæli samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997. Þessa skilyrðis var ekki gætt af hálfu sveitarstjórnar þegar leyfið var fyrst veitt en eftir að kærendur höfðu bent á þann annmarka sem verið hafði á meðferð málsins voru framkvæmdir stöðvaðar og kærendum gefinn kostur á að tjá sig um byggingaráform byggingarleyfishafa. Kærendur höfðu þá þegar kært útgáfu hins fyrra byggingarleyfis, sem ekki var fellt úr gildi fyrr en að lokinni kynningu byggingarleyfisumsóknarinnar. Töldu kærendur að kynning umsóknarinnar væri markleysa þar sem málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og sendu því ekki inn athugasemdir. Veitti byggingarnefnd síðan hið umdeilda byggingarleyfi með þeim rökum að engar athugasemdir hefðu borist.
Úrskurðarnefndin telur að málsmeðferð byggingarnefndar og sveitarstjórnar við afgreiðslu hins umdeilda leyfis hafi verið verulega áfátt. Var þessum stjórnvöldum ekki heimilt að líta framhjá andmælum kærenda og bar þeim að taka afstöðu til þeirra, enda mátti þeim vera ljóst að kynning málsins samræmdist ekki þeirri staðreynd að í gildi var byggingarleyfi fyrir umræddri framkvæmd sem borið hafði verið undir úrskurðarnefndina. Bar sveitarstjórn að afturkalla fyrra byggingarleyfið áður en efnt var til kynningar málsins ef ætlan hennar var að bæta úr þeim ágöllum á afgreiðslu byggingarleyfisins sem komið höfðu í ljós. Verður að átelja þessi vinnubrögð en ekki þykir þó næg ástæða til að láta ágalla á málsmeðferð varða ógildingu hinna kærðu ákvarðana þegar litið er til þess að sjónarmið kærenda höfðu komið fram og að ekki var um að ræða grenndarkynningu í skilningi 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Af gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdir við bygginu hins umdeilda gestahúss hafi að miklu leyti verið unnar án þess að fyrir lægi formlega gilt byggingarleyfi, sbr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Verður einnig að átelja þessa framvindu málsins en atvik þessi varða þó ekki gildi hinna kærðu ákvarana og þykja ekki geta leitt til ógildingar þeirra.
Þá kemur til skoðunar hvort einhverjir þeir efnisannmarkar séu á hinnum kærðu ákvörðunum er ógildingu varði, svo sem hvort við staðsetning hússins hafi verið gengið gegn settum réttarreglum eða lögvörðum grenndarhagsmunum kærenda.
Skilja verður málatilbúnað kærenda á þann veg að þau telji mörk milli séreignarlanda málsaðila vera um girðingu sem liggur fá norðri til suðurs skammt austan hins umdeilda húss og virðist ekki ágreiningur með aðilum um þau mörk. Hins vegar virðast kærendur telja að hraunjaðar, sem norðurgafl hússins nær nánast alveg að, skilji milli séreignarlands byggingarleyfishafa og sameiginlegs lands málsaðila, en ágreiningur mun vera um þá afmörkun.
Þegar virt er hvort fullnægt sé lagaskilyrðum um fjarlægð hússins frá landamerkjum til norðurs og austurs verður helst litið til 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og 4. mgr. greinar 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.
Í 1. mgr. 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er fjallað um lágmarksfjarlægðir frá húsvegg að mörkum nærliggjandi lóðar eða miðju stígs eða götu. Síðar í 75. gr. eru reglur um lágmarksfjarlægðir milli húsa. Með hliðsjón af tilgangi ákvæðis þessa og eðlisrökum verður að skilja ákvæðið á þann veg að það eigi ekki við um fjarlægð húss frá mörkum þegar handan þeirra er land sem ekki getur verið byggingarland eða svæði þar sem vænta má einhverra mannvirkja. Verður því ekki talið að ákvæði greinarinnar hafi staðið í vegi fyrir því að húsið væri staðsett nær umræddum hraunjaðri en fjóra metra, svo sem gert var, en húsið er í u.þ.b. tveggja metra fjarlægð frá hraunjaðrinum, og skiptir þá ekki máli þótt umdeild mörk fylgi hraunjaðrinum eins og kærendur halda fram. Til austurs er fjarlægð hússins frá mörkum eignarlanda málsaðila um 18 metrar, sem er langt umfram það sem áskilið er samkvæmt byggingarreglugerð. Óþarft er að fjalla um staðsetningu hússins með tilliti til afmörkunar lóðar til suðurs og vesturs, þar sem þau mörk snúa að séreignarlandi byggingarleyfishafa.
Í 4. mgr. greinar 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er m.a kveðið á um að í deiliskipulagi svæða fyrir frístundabyggð skuli byggingarreitir ekki staðsettir nær lóðarmörkum en 10 metra. Í hinu umdeilda tilviki er ekki um deiliskipulag að ræða en þar sem það er augljós tilgangur umrædds ákvæðis að tryggja lágmarksfjarlægð milli sumarhúsa og deifingu sumarhúsabyggða þykir rétt að hafa hliðsjón af ákvæðinu hvað varðar fjarlægð hússins frá mörkum séreignarlanda málsaðila, enda kynnu framtíðarmöguleikar kærenda til nýtingar á eigin landi að öðrum kosti að vera fyrir borð bornir. Hins vegar þykir ekki ástæða til að líta til þessarar reglu varðandi fjarlægð hússins frá hraunjaðrinum, enda er ekki hægt að gera ráð fyrir því að byggt verði í hrauninu eða lóðir settar út þar. Með hliðsjón af því að um 18 metrar eru frá austurhlið hússins að mörkum séreignarlanda málsaðila er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að nægilega hafi verið tekið tillit til sjónarmiða skipulagsreglugerðar í þessu efni við staðsetningu hússins og verður því ekki fallist á að hún sé andstæð ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða reglugerða settum samkvæmt þeim.
Ekki verður heldur fallist á að með staðsetningu og byggingu umrædds húss hafi verið gengið gegn lögvörðum hagsmunum kærenda, hvort sem litið er til grenndarhagsmuna eða atvinnuhagsmuna. Hið umdeilda hús er í viðunandi fjarlægð frá mörkum séreignarlanda málsaðila og ekki verður séð að það hefði þjónað betur hagsmunum kærenda þótt húsið hefði verið staðsett einhverjum metrum fjær hraunbrúninni en raunin varð. Má þvert á móti ráða af aðstæðum að grenndaráhrif hússins hefðu orðið meiri hefði það verið staðsett fjær hrauninu en í óbreyttri fjarlægð frá merkjagirðingu séreignarlanda aðila.
Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss ber að vísa frá úrskurðarnefndinni, enda er sú krafa ekki gerð með vísun til neinnar stjórnvaldsákvörðunar sem skotið hefur verið til nefndarinnar. Önnur kæruefni eða athugasemdir kærenda, t.d. varðandi staðsetningu rotþróar, aðkomu að húsum málsaðila, vegagerð og bílastæði, vísa ekki heldur til neinna stjórnvaldsákvarðana sem bornar hafa verið undir úrskurðarnefnina og koma þessi atriði því ekki til umfjöllunar við úrlausn málsins.
Samkvæmt framansögðu verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað. Jafnframt falla niður réttaráhrif úrskurðar nefndarinnar frá 28. janúar 2005 um stöðvun framkvæmda við hina umdeildu byggingu.
Úrskurðarorð:
Kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss að Miðhrauni 1 er vísað frá úrskurðarnefndinni. Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu ákvarðana svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps frá 4. janúar 2005 um að veita að nýju leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.
_______________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir