Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2021 Efsti Dalur

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 4. febrúar 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Efsta-Dals 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. mars 2021, er barst nefndinni 5. s.m., kærir A, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 4. febrúar s.á. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi jarðarinnar Efsta-Dals 2 í Laugardal, sem fól í sér stofnun lóðar þar sem vélaskemma stendur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 14. apríl 2021.

Málavextir: Með kaupsamningi, dags. 19. apríl 1991, seldi þáverandi eigandi jarðarinnar Efsta-Dals 2 hluta jarðarinnar til sonar síns.­ Ber hinn seldi jarðarpartur heitið Efsti-Dalur 2, land­númer 167631, fnr. 2205918. Að fyrri eiganda látnum var bú hans tekið til opinberra skipta og samkvæmt fyrirliggjandi skiptayfirlýsingu lauk skiptum í dánarbúinu 17. janúar 2019. Þar kemur fram að í hlut sonarins sem áður hafði keypt fyrrnefndan jarðarpart hafi m.a. komið véla- og verkfæra­geymsla.­

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 11. desember 2020 var samþykkt að grenndarkynna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi Efsta-Dals umsókn um stofnun lóðar samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var um að ræða lóð undir fyrrnefnda véla- og verkfæra­geymslu sem fyrir var á svæðinu. Tillagan var grenndarkynnt fyrir eigendum aðliggjandi jarða, þ. á m. kæranda með bréfi, dags. 17. desember 2020. Athugasemd barst frá kæranda á kynningartíma tillögunnar um að umrædd véla- og verkærageymsla tilheyrði jörðinni Efsta-Dal 3, sem væri í eigu dánarbús föður kæranda. Sveitarfélagið svaraði þeirri athugasemd kæranda með tölvupósti 25. janúar 2021, þar sem skírskotað var til þess að samkvæmt skipta­yfirlýsingu hefði eignarhald þriggja fasteigna, þ. á m. véla- og verkfærageymslunnar, færst á hendur eiganda Efsta-Dals 2 við skipti dánarbúsins. ­­Á fundi sveitarstjórnar 4. febrúar 2021 var hin kærða deili­skipulagsbreyting samþykkt og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. mars s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að véla- og verkfærageymslan sem um ræði sé án sérstakra lóðaréttinda og kveðið hafi verið á um það í kaupsamningi frá 1991 um hluta jarðarinnar Efsta-Dals 2 að seljandi, faðir kæranda, hefði umferðarrétt um hlaðið í kringum skemmuna enda hún í hans eigu. Samkvæmt skiptayfirlýsingu sé kaupandi fyrrnefnds jarðar­parts Efsta-Dals 2 á árinu 1991 nú eigandi véla­skemmunnar, en hann, kærandi og tvö systkini þeirra séu hins vegar sameigendur jarðarinnar Efsta-Dals 3. Jörðin Efsti-Dalur 3 og véla­skemman séu skráð með landnúmerið 199008 og séu hluti af einni og sömu fasteign. Kærandi sé á meðal eigenda fasteignarinnar og telji ekki unnt að gera breytingar á deiliskipulagi gegn vilja hans.

Málsrök Bláskógarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð athugasemd við lýsingu kæranda á málavöxtum og telur sveitarfélagið málatilbúnað hans á misskilningi byggðan. Skemman standi í reynd innan Efsta-Dals 2 en hafi tilheyrt Efsta-Dal 3 þar til eigandi Efsta-Dals 2 hafi keypt hana við dánarbússkipti foreldra þeirra í samræmi við kaupréttarákvæði áður­nefnds kaupsamnings. Vegna kaupanna hafi þurft að stofna lóð vegna skemmunnar og því orðið að breyta deiliskipulagi. Skipulagsskilmálar fyrir svæðið hafi haldist óbreyttir og breytingin hafi ekki áhrif á núgildandi skipulag að öðru leyti en því að stofnuð sé lóð fyrir vélaskemmu sem standi á landi Efsta-Dals 2, landnúmer 167631, en fyrir deiliskipulagsbreytinguna hafi skemman verið skráð á Efsta-Dal 3, landnúmer 199008, fnr. 2274314.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar sem fól í sér stofnun lóðar þar sem fyrrgreind véla- og verkfæraskemma stendur, en af fyrirliggjandi uppdráttum og landeignaskrá Þjóðskrár af svæðinu má ráða að skemman standi innan marka jarðarinnar Efsta-Dals 2. Byggir kærandi málatilbúnað sinn á því að nefnd skemma tilheyri jörðinni Efsta-Dal 3 og sé skráð sem slík í fasteignaskrá, en sú jörð sé eign dánarbús sem kærandi eigi aðild að sem eitt barna arfláta. Ekki hafi verið aflað samþykkis kæranda sem eins erfingja dánar­búsins fyrir stofnun umræddrar lóðar við samþykkt hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklings­bundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kæru­málinu. Verður því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kæranda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta.

Eins og fram er komið fól hin kærða deiliskipulagsbreyting einungis í sér stofnun lóðar innan marka jarðarinnar Efsta-Dals 2. Mun lóðin hafa verið stofnuð að beiðni eiganda jarðarinnar. Hefur sú breyting engin grenndaráhrif gagnvart mögulegum eignum kæranda sem til hans féllu við skipti dánarbús þess sem fyrr var getið. Þá getur skipulag eða breyting á skipulagi ekki falið í sér ráðstöfun á eða afstöðu til beinna eða óbeinna eignarréttinda.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki séð að hin kærða ákvörðun geti raskað lög­­vörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

17/2021 Fáskrúðsfjörður

Með

Árið 2021, mánudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. janúar 2021 um að breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Fáskrúðsfirði skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtök Íslands, Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF) og Veiðifélag Breiðdæla þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. janúar 2021 að breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Fáskrúðsfirði skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 24. febrúar 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 19. mars 2021.

Málavextir: Hinn 19. mars 2018 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram matsskýrslu vegna eldis á allt að 20.800 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í matsskýrslunni var gert ráð fyrir að ala 11.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Fáskrúðsfirði. Kom fram í skýrslunni að útsetningaráætlun myndi taka mið af nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar og að samkvæmt matinu myndu 6.000 tonn sem áætlað væri að ala í Fáskrúðsfirði verða frjór lax og 5.000 tonn geldlax. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 14. júní s.á. Umhverfisstofnun veitti framkvæmdaraðila starfsleyfi 19. mars 2019 fyrir 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi, og 21. s.m. veitti Matvælastofnun framkvæmdaraðila rekstrarleyfi vegna sama eldis.

Hinn 4. nóvember 2020 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að í breytingunni fælist að leggja af eldissvæðið við Æðasker en í staðinn yrði afmarkað nýtt eldissvæði austan við Eyri sem myndi heita Einstigi. Svæðin við Höfðahúsabót og Eyri myndu flytjast austar. Einnig yrði gerð breyting á útsetningaráætlun, þ.e. að seiði yrðu sett út á hverju ári þannig að almennt yrðu tvö svæði í notkun á meðan það þriðja væri í hvíld. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Fjarðabyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar. Taldi enginn umsagnaraðili að breytingin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 13. janúar 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að umhverfisverndarsamtök þau sem að kærunni standi fullnægi skilyrðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og uppfylli af þeim sökum það skilyrði að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn fyrirliggjandi kæru, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr., enda samrýmist kæran tilgangi starfsemi þeirra. Þá eigi Veiðifélag Breiðdæla lögvarða hagsmuni vegna nálægðar Breiðdalsár í Breiðdalsvík við fyrirhugað laxeldi og þeirra áhrifa á náttúrulega laxastofna og veiði í ánni sem því fylgi, en með þeirri breytingu sem hin kærða ákvörðun lúti að sé fyrirhugað að næstum tvöfalda eldi frjórra laxa.

Hin kærða ákvörðun lúti að breytingum á framkvæmd sem falli í flokk B í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. gr. 11.1 og 13.2 í viðaukanum. Í samræmi við það og 1. mgr. 6. gr. laganna skuli breytingin háð mati á umhverfisáhrifum, ef hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar hennar og sé jafnframt tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar. Skipulagsstofnun beri skv. 3. mgr. 6. gr. laganna að byggja ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hafi lagt fram, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eftir því sem við eigi, þ.m.t. upplýsingum sem fram komi í þeim umsögnum sem stofnunin hafi aflað í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðarinnar. Við ákvörðun sína á þessum grundvelli beri Skipulagsstofnun að fara eftir þeim viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna og rökstyðja niðurstöðuna með hliðsjón af þeim. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og við undirbúning slíkrar ákvörðunar beri stofnuninni m.a. að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá beri stofnuninni að haga efni rökstuðnings í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar þannig að uppfylltar séu þær lágmarkskröfur um efni rökstuðnings sem lögfestar séu í 22. gr. stjórnsýslulaga.

Í samræmi við framanrakinn lagagrundvöll hinnar kærðu ákvörðunar hafi Skipulagsstofnun borið, á grundvelli fullnægjandi upplýsinga um breytinguna og líkleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í heild að gerðum þeim breytingum, þ.m.t. fyrirliggjandi niðurstöðu um umhverfisáhrif hennar, upplýsinga um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir og umsagna leyfisveitenda og annarra umsagnaraðila, sem hafi fullnægt kröfum reglugerðar nr. 660/2015, að taka rökstudda afstöðu til þess hvort breytt framkvæmd gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs síns, eðlis eða staðsetningar að virtum þeim viðmiðum sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og færa fullnægjandi rök fyrir þeirri afstöðu með vísan til þessara viðmiða. Hin kærða ákvörðun uppfylli ekki þær kröfur.

Tilkynning framkvæmdaraðila geri ráð fyrir þrenns konar breytingum á hlutaðeigandi framkvæmd, þ.e. breytingu á staðsetningu eldissvæða í firðinum, breytingu á útsetningaráætlun eldisins og að ala einungis frjóan lax í firðinum. Í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar segi um síðastgreindu breytinguna að í fyrra mati á umhverfisáhrifum hafi verið gert ráð fyrir eldi á 11.000 tonna framleiðslu á frjóum laxi og sé gert ráð fyrir að hámarkslífmassi hverju sinni verði óbreyttur með breytingunni. Þessi forsenda sé röng því skýrlega segi í samantekt endanlegrar matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 19. mars 2018 að í Fáskrúðsfirði muni 6.000 tonn verða frjór lax og 5.000 tonn geldlax. Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrsluna 14. júní 2018 segi í kafla 3.4.4. að framkvæmdaraðili áformi eldi á 6.000 tonnum af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði. Samkvæmt framanröktu hafi fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verið reist á þeirri forsendu að eldi framkvæmdaraðila á frjóum laxi í Fáskrúðsfirði yrði ekki umfram 6.000 tonn á ári. Eldi á allt að 11.000 tonnum af frjóum laxi, eins og gert sé ráð fyrir í tilkynningu framkvæmdaraðila, feli því í sér mjög veruleg frávik frá gildandi mati á umhverfisáhrifum og rúmist ekki innan þess. Hin kærða ákvörðun sé haldin þeim verulega annmarka að þar sé ekki fjallað um einn þriggja meginþátta sem breytingin lúti að, þ.e. aukningu á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn. Þegar af þeirri ástæðu sé óhjákvæmilegt að fella hana úr gildi.

Framangreindan annmarka megi rekja til þess að í tilkynningu framkvæmdaraðila sé nánast ekkert fjallað um þá verulegu breytingu á framkvæmdinni sem þar sé gert ráð fyrir og felist í því að skipta yfir í eldi á frjóum laxi og hætta að ala ófrjóan lax. Þótt vikið sé að þessum áformum í tilkynningunni hafi hún hvergi nærri að geyma þær upplýsingar sem áskildar séu skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Tilkynningin sé að þessu leyti alls ófullnægjandi og ekki viðhlítandi grundvöllur undir hina kærðu ákvörðun. Beri að skilja tilkynningu framkvæmdaraðila svo að hún lúti ekki að fyrirhugaðri breytingu á umfangi á eldi frjós lax í Fáskrúðsfirði heldur einvörðungu að breyttri staðsetningu eldissvæða og breyttu fyrirkomulagi við útsetningu seiða, án tillits til frjósemi þeirra, skorti upplýsingar um það í hvaða farveg framkvæmdaraðili hafi lagt eða hyggist leggja þessa verulegu breytingu á framkvæmd sinni, sem í tilkynningunni sé sögð forsenda annarra breytinga sem þar sé lýst. Um sé að ræða tilkynningarskylda breytingu sem leggja þurfi fyrir Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu. Sérstök skilyrði séu sett um hámark ársframleiðslu á frjóum laxi í leyfum framkvæmdaraðila og áður en unnt sé að breyta framkvæmdinni þurfi sú breyting að koma til umfjöllunar Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000. Þá hafi tilkynning framkvæmdaraðila ekki að geyma þær upplýsingar sem áskildar séu skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um þá þætti hennar sem lúti að breyttri staðsetningu eldissvæða og breyttu fyrirkomulagi útsetningar og hvíldartíma sem af því leiði. Í tilkynningunni sé t.a.m. ekki fjallað um möguleg áhrif af aukinni nálægð eldissvæða við hverfisverndað svæði við Sandfell, áhrif minni fjarlægðar milli kvía og tíðari útsetningu seiða með tilliti til laxalúsar og sjúkdóma eða um áhrif breyttrar staðsetningar á samgöngur og áhættu samfara því að staðsetja kvíar í markaðri siglingaleið, svo dæmi séu nefnd.

Skipulagsstofnun sé skylt við meðferð mála á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 að afla umsagna, m.a. leyfisveitenda, í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Uppfylli umsagnirnar ekki þær kröfur sem þar komi fram beri stofnuninni í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins um skyldubundna álitsumleitan að leggja fyrir álitsgjafafa að bæta þar úr með nýrri umsögn. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar skuli í umsögn koma m.a. fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun og hvort og þá á hvaða forsendum umsagnaraðili telji að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum út frá þeim atriðum sem falli undir starfssvið umsagnaraðila og að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka. Ef frá sé talin umsögn Umhverfisstofnunar sé ekki vikið í umsögnum umsagnaraðila að stóraukinni framleiðslu framkvæmdaraðila á frjóum laxi. Þessar umsagnir séu að þessu leyti haldnar mjög verulegum annmarka. Þá eigi umsagnir í málinu það sammerkt að þær uppfylli ekki áskilnað 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um að þar sé tekin rökstudd afstaða til þess hvort tilkynning framkvæmdaraðila sé fullnægjandi og þá hvort hinar tilkynntu breytingar skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Að því marki sem tekin sé afstaða til þessara atriða í umsögnunum fylgi henni takmarkaður, ef nokkur, rökstuðningur umsagnaraðila.

Þótt enga umfjöllun sé um það að finna í hinni kærðu ákvörðun verði ráðið af tilkynningu framkvæmdaraðila að hún sé m.a. sett fram með vísan til mats Hafrannsóknastofnunar 11. maí 2020 á áhættu erfðablöndunar á grundvelli 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi sem staðfest hafi verið af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 3. júní, sbr. auglýsingu nr. 562/2020 í B-deild Stjórnartíðinda. Eftir þær breytingar sem gerðar hafi verið á lögum nr. 71/2008 með breytingalögum nr. 101/2019 sé ótvírætt að áhættumat erfðablöndunar skv. 6. gr. a í lögunum og burðarþolsmat skv. 6. gr. b feli í sér framkvæmdaáætlanir í skilningi laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sem háðar séu umhverfismati samkvæmt fyrirmælum þeirra laga. Þar sem ekki liggi fyrir að framangreint áhættumat Hafrannsóknastofnunar hafi sætt meðferð samkvæmt fyrirmælum laga nr. 105/2006 geti niðurstöður þess ekki orðið grundvöllur fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis í skilningi laga nr. 106/2000 án frekara mats á umhverfisáhrifum hlutaðeigandi áætlunar og framkvæmdar. Þar við bætist að mat samkvæmt lögum nr. 106/2000 geti ekki komið í stað mats samkvæmt lögum nr. 105/2006, þótt í vissum tilvikum sé heimilt að sameina skýrslugerð á grundvelli þessara laga.

Að því er varði rannsókn Skipulagsstofnunar á því hvort hinar tilkynntu breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningu seiða geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif skuli tekið fram að forsendur varðandi staðsetningu eldis og kynslóðaskiptingu, þ. á m. hvíldartíma fjarðarins í heild hans í 9-12 mánuði milli kynslóða, hafi verið lagðar til grundvallar mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, án þess að gerð hafi verið grein fyrir öðrum valkostum í þessu efni og þeir bornir saman. Þær upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, sem fyrir liggi í mati á umhverfisáhrifum, miði því við aðrar forsendur en þær sem lagðar hafi verið til grundvallar hinum tilkynntu breytingum. Staðsetning eldissvæða og fyrirkomulag varðandi útsetningu seiða og hvíld eldissvæða milli kynslóða séu atriði varðandi framkvæmd þauleldis á fiski í sjókvíum sem hafi verulega þýðingu þegar umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu metin. Af því leiði að unnt sé að draga takmarkaðar ályktanir um umhverfisáhrif þess að víkja frá forsendum mats á umhverfisáhrifum um þessi atriði. Fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar komi því að takmörkuðu gagni við rannsókn á því hvort hinar tilkynntu breytingar á henni kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Hér verði að hafa hugfast að spurningin um umtalsverð umhverfisáhrif lúti ekki að breytingunum sem slíkum heldur að umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í heild sinni að teknu tilliti til tilkynntra breytinga. Í hinni kærðu ákvörðun felist því sú afstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér að gerðum þessum breytingum, önnur en eða umfram þau umhverfisáhrif sem þegar hafi verið lagt mat á og tekin afstaða til við útgáfu fyrri framkvæmdarleyfa. Að þessari afstöðu stofnunarinnar sé ekki lagður fullnægjandi grundvöllur með þeim gögnum sem hin kærða ákvörðun sé reist á, en þau gögn hafi aðeins að geyma mjög takmarkaðar upplýsingar um möguleg áhrif breyttrar staðsetningar eldissvæða og breytts fyrirkomulags útsetningar.

Hér þurfi að hafa í huga að með breytingum á staðsetningu eldissvæða sé verið að færa eldissvæðin þrjú í firðinum nær hvert öðru, auk þess sem um ræði alveg nýtt eldissvæði. Því til viðbótar sé verið að leggja til útsetningaráætlun sem felist í að svæðin verði öll þrjú í notkun í senn á köflum. Um áhrif framkvæmdarinnar með þessum breytingum á meðal annars lífríki í firðinum liggi ekki fyrir nægilegar upplýsingar í gögnum málsins. Af gögnunum sé því ekki unnt að álykta að hin breytta framkvæmd geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau sem þegar hafi verið lagt mat á. Til viðbótar skorti á að Skipulagsstofnun hafi aflað gagna um ýmis atriði sem umsagnaraðilar bendi á í umsögnum sínum. Þannig séu takmarkaðar upplýsingar í gögnum málsins um áhrif breytinganna á samgöngur þrátt fyrir að fram komi í umsögn Vegagerðarinnar að fyrirhuguð eldissvæði séu í markaðri siglingaleið. Staðsetning kvía í siglingaleiðum eða í mikilli nálægð við þær kunni eðli málsins samkvæmt að hafa í för með sér aukna hættu á stórslysi sem gæti haft í för með sér veruleg og óafturkræf umhverfisáhrif ef mikill fjöldi eldisfiska slyppi úr sjókví sem laskaðist við árekstur við skip. Þá skorti upplýsingar um áhrif breytinganna á nærliggjandi friðlýst æðarvörp sem að sé vikið í umsögn Fjarðabyggðar. Loks verði ekki séð að aflað hafi verið upplýsinga um áhrif breytinganna m.t.t. laxalúsar og fiskilúsar þrátt fyrir það mat Fiskistofu að þeim kunni að fylgja aukin smithætta.

Samandregið liggi ekki fyrir í gögnum málsins fullnægjandi upplýsingar um gerð og eiginleika mögulegra umhverfisáhrifa breyttrar framkvæmdar. Skipulagsstofnun hafi því ekki getað fullyrt, svo forsvaranlegt væri, á grundvelli þessara gagna að hin breytta framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau sem stofnunin hafi áður lagt mat á og tekið afstöðu til í áliti sínu um matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2018. Samkvæmt framansögðu sé hin kærða ákvörðun ekki reist á fullnægjandi upplýsingum um möguleg umhverfisáhrif tilkynntra breytinga, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í hinni kærðu ákvörðun séu heldur ekki færð fullnægjandi rök fyrir þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að hin tilkynnta breyting geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Í ákvörðuninni sé þannig ekki rökstutt, með vísan til eðlis, umfangs og staðsetningar fyrirhugaðrar framkvæmdar, að hún sé ekki líkleg, að gerðum hinum tilkynntu breytingum, til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau, sem þegar hafi verið metin og tekin afstaða til. Rökstuðningurinn uppfylli hvergi nærri þær ströngu kröfur sem leiði af lögum nr. 106/2000. Hafa beri í huga að hér sé um verulega breytingu að ræða á umfangsmikilli framkvæmd sem fyrir liggi að haft geti í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna eðlis síns og staðsetningar í sjó. Í samræmi við flókið samspil slíkrar framkvæmdar við það lífríki sem fyrir sé í sjó og nærliggjandi ám og strandsvæðum krefjist ákvörðun Skipulagsstofnunar ítarlegs rökstuðnings. Í slíkum tilvikum kunni rök Skipulagsstofnunar að koma í stað frekara mats á umhverfisáhrifum hlutaðeigandi framkvæmdar. Ef lög nr. 106/2000 eigi að ná markmiði sínu verði því að vera tryggt að rökstuðningur stofnunarinnar sé réttur og fullnægjandi. Þá skorti mjög á að tekin sé rökstudd afstaða í hinni kærðu ákvörðun til þeirra atriða sem bent sé á í umsögnum umsagnaraðila. Sem dæmi megi nefna að engin rökstudd afstaða sé tekin til ábendinga Fiskistofu um aukna hættu á lúsasmiti. Samkvæmt framansögðu sé rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki í samræmi við fyrirmæli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. einnig 22. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að tilkynning framkvæmdaraðila beri með skýrum hætti þess merki að tilkynningin lúti aðeins að tveimur þáttum, þ.e. breytingu á eldissvæðum og útsetningaráætlun. Hvergi komi fram í tilkynningunni að hún lúti að aukningu á eldi úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn af frjóum laxi á ári. Ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi eingöngu snúið að tilfærslu eldissvæða og breytingu á útsetningaráætlun. Í matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2018 hafi áhrif þess að ala allt að 11.000 tonn af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði verið metin. Í matsskýrslunni hafi komið fram að áhættumati Hafrannsóknastofnunar yrði fylgt og því hafi verið áformað að sækja um leyfi til að ala 6.000 tonn af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði í samræmi við áhættumatið, eins og það hafi verið þegar matsskýrsla hafi verið unnin. Í matsskýrslu hafi jafnframt verið tekið fram að áhættumatið gæti tekið breytingum og að framleiðsluáætlanir framkvæmdaraðila myndu taka breytingum til samræmis við áhættumatið hverju sinni. Framleiðslumagn frjós fisks myndi þó ekki fara yfir 20.800 tonn í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé vikið að framangreindu, þ.e. að breytingar hafi orðið á áhættumatinu og í ljósi þess sem fjallað hafi verið um í matsskýrslu hafi framkvæmdaraðili óskað eftir uppfærslu gildandi leyfis í Fáskrúðsfirði með það í huga að magn frjós fisks verði aukið í samræmi við breytt áhættumat. Að öðru leyti sé ekki fjallað um frjóan lax í tilkynningunni. Að mati Skipulagsstofnunar beri að skilja umfjöllunina á þann hátt að samhliða tilkynningu um breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði þá hyggist framkvæmdaraðili auka magn á frjóum fiski til samræmis við breytt áhættumat, líkt og fjallað hafi verið um í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þá sé þess getið að í kjölfar álits Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum allt að 20.800 tonna eldis í Berufirði og Fáskrúðsfirði hafi framkvæmdaraðili óskað frekari skýringa á því hvort þörf væri á sérstakri málsmeðferð á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum kæmi til breytinga á áhættumati og aukningu á frjóum fiski í eldi fyrirtækisins til samræmis við breytt áhættumat.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé vikið að því að fjallið Sandfell sé að finna í Fáskrúðsfirði og sé það á náttúruminjaskrá, en ekki friðað. Það sé í samræmi við orðalag í síðari hluta d-liðar 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar segi að eldissvæði muni færast nær Sandfelli sem sé hverfisverndað útivistarsvæði og á náttúruminjaskrá. Það muni mögulega auka sýnileika kvíanna fyrir gesti svæðisins. Að mati stofnunarinnar verði áhrifin þó minniháttar umfram núverandi áhrif á ásýnd og landslag.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ekki beint fjallað um áhrif minni fjarlægðar milli kvía og tíðari útsetningar seiða m.t.t. laxalúsar og sjúkdóma, en samt sé fjallað um villta laxfiska í tilkynningunni. Þar sé lýst þeirri afstöðu framkvæmdaraðila að breytt staðsetning eldissvæða muni ekki hafa miklar breytingar í för með sér varðandi þá áhættuþætti sem snúi að hugsanlegum áhrifum á villta laxastofna. Ef breytingin leiði til bættrar velferðar eldisfisks þá muni breytt staðsetning hafa jákvæð áhrif m.t.t laxastofna. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að fyrirhuguð breyting á framkvæmdinni sé ekki líkleg til að auka hættu á slysasleppingum eða auka álag á villta laxfiska vegna laxalúsar eða sjúkdóma. Lesa verði tilkynninguna og framangreinda afstöðu stofnunarinnar með hliðsjón af því sem fram komi í áliti stofnunarinnar frá 14. júní 2018 um mat á umhverfisáhrifum vegna 20.800 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Þar sé að finna umfjöllun um fisksjúkdóma og laxalús. Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ekki fjallað um áhrif breyttrar staðsetningar á samgöngur og áhættu samfara því að staðsetja kvíar í markaðri siglingaleið. Hins vegar komi fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að Hafnarnesviti marki siglingaleiðir út fjörðinn. Með tilfærslu eldissvæða lendi þau í markaðri siglingaleið. Vitinn sé innan hafnsögu Fáskrúðsfjarðarhafnar og sé leiðsaga frá Fáskrúðsfjarðarhöfn á ábyrgð hafnaryfirvalda. Með hliðsjón af umsögn Fjarðabyggðarhafna telji stofnunin að færsla eldissvæða komi ekki til með að hafa áhrif á öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð.

Ítrekað sé að tilkynning framkvæmdaraðila hafi ekki lotið að stóraukinni framleiðslu fyrirtækisins á frjóum laxi. Af því leiði að hjá þeim umsagnaraðilum sem stofnunin hafi leitað til hafi ekki verið fyrir hendi forsendur til að gefa álit á umræddu atriði. Þá sé bent á að í 3. mgr. 12. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum sé ekki gerð krafa um að umsagnaraðilar rökstyðji hvort þeir telji að tilkynning sé fullnægjandi um þau atriði sem talin séu upp í málsgreininni. Þá segi í málsgreininni „eftir því sem við á“ varðandi atriðin. Hins vegar beri þeim að rökstyðja hvort tilkynntar breytingar á framkvæmd skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. orðalagið „hvort og þá á hvaða forsendum“ og þá „út frá þeim atriðum sem falla undir starfssvið umsagnaraðila.“ Í umsögn flestra umsagnaraðila sé að finna fullnægjandi rökstuðning að baki því hvort umrædd framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Hjá tveim eða þrem umsagnaraðilum kunni að vera að rökstuðningur sé ekki fullnægjandi með tilliti til framangreinds reglugerðarákvæðis. Ekki fáist þó séð að slíkt, eitt og sér, geti leitt til þess að verulegur annmarki sé á ákvörðun um matsskyldu.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar varði ekki leyfisveitingu heldur hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Því taki ákvörðunin ekki afstöðu til þess hvort áhættumat erfðablöndunar og burðarþols falli undir gildissvið laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og geti verið grundvöllur fyrir útgáfu framkvæmdaleyfi.

Ljóst sé af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 3/2020 að ekki sé ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, sé að nýju metin umhverfisáhrif hinnar upphaflegu framkvæmdar heldur einskorðist ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin geti kallað fram. Hin kærða ákvörðun sé reist á fullnægjandi gögnum og því séu þær kröfur sem leiði af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 uppfylltar. Fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum allt að 20.800 tonna eldis í Fáskrúðsfirði og Berufirði sem byggi m.a. á rannsóknum sem varði botndýr, hafstrauma, öldufar og súrefni í Fáskrúðsfirði. Þá hafi legið fyrir umsagnir þeirra sérfræðistofnana sem búi yfir þekkingu á þeim umhverfisþáttum sem fyrirhuguð breyting sé líkleg til að hafa áhrif á. Megi þar nefna að í umsögn Hafrannsóknastofnunar segi að stofnunin taki undir sjónarmið framkvæmdaraðila um að breytingin feli ekki í sér aukið álag á umhverfið frá því sem tilkynnt hafi verið um í mati á umhverfisáhrifum árið 2018. Þá komi fram í umsögn Umhverfisstofnunar að breytingin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér aukin umhverfisáhrif umfram þau sem lýst hafi verið í upphaflegu umhverfismati. Einnig komi fram í umsögn Matvælastofnunar að ekki sé ástæða til að meta umhverfisáhrif breytingarinnar. Þá sé því hafnað að fyrir liggi takmarkaðar upplýsingar um áhrif breytinganna á samgöngur. Í ákvörðun stofnunarinnar sé vísað til umsagnar Fjarðabyggðarhafnar vegna umsagnar Vegagerðarinnar um að fyrirhuguð eldissvæði séu í markaðri siglingaleið. Í umsögn Fjarðabyggðarhafnar komi fram að merkingar við jaðra eldissvæðanna og ljósamerki Hafnarnesvita muni sameiginlega tryggja öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð. Af þessu leiði að fyrirhuguð breyting ógni ekki öryggi siglinga.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé að finna umfjöllun um áhrif framkvæmdarinnar á fuglalíf. Þar lýsi stofnunin þeirri afstöðu sinni að það sé líklegt að fiskur komi til með að leita í krækling í æti við kvíar sem geti þá orðið bráð ýmissa sjófugla. Þá sé mögulegt að æðarfugl komi til með að leita í krækling á eldisbúnaði og þar af leiðandi geti aukið fæðuframboð í nágrenni kvía haft áhrif á dreifingu fugla innan fjarðanna og jafnframt leitt til staðbundinnar fjölgunar tiltekinna fuglategunda. Að mati stofnunarinnar hafi því verið uppi óvissa um heildaráhrif fiskeldisins á fugla í fjörðunum, sem og á einstakar fuglategundir. Meðal óvissuþátta sé möguleg fjölgun máva í nágrenni sjókvía og áhrif þeirrar fjölgunar á aðrar fuglategundir eins og æðarfugl. Að sama skapi sé óvissa til staðar um hvort fiskeldið muni hrekja fugla frá búsvæðum og hvaða þýðingu það hafi fyrir fuglalíf í fjörðunum. Hafi stofnunin talið það gefa tilefni til að í starfsleyfi verði sett skilyrði um vöktun á fuglalífi í nágrenni eldissvæða. Með hliðsjón af skilgreiningu umtalsverðra umhverfisáhrifa, sbr. p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000, telji stofnunin ólíklegt að fyrirhuguð færsla eldissvæða hafi umtalsverð umhverfisáhrif á æðarvarp. Bent sé á að hvorki í umsögn Umhverfisstofnunar né Náttúrufræðistofnunar hafi sérstaklega verið vikið að nærliggjandi friðlýstum æðarvörpum.

Í umsögn Fiskistofu komi fram að með fyrirhugaðri breytingu á staðsetningu eldissvæða styttist fjarlægð milli þeirra og útsetning seiða verði tíðari. Þessar breytingar geti aukið líkurnar á því að laxalús eða fiskilús verði vandamál í eldinu og geti borist milli eldissvæða, einkum með hafstraumi frá Eyri/Fögrueyri til Einstiga. Mikið sé í húfi til að verja þá góðu stöðu sem hafi verið á Austfjörðum en lús hafi ekki verið vandamál þar. Síðan segi í umsögninni að hin kynnta breyting muni þó ekki auka líkurnar svo mikið á neikvæðum áhrifum á villta stofna vegna mögulegs lúsasmits, frá því sem nú sé, að það kalli á að breytingin undirgangist mat á umhverfisáhrifum. Að því virtu, og í ljósi þess að í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé að finna umfjöllun um fisksjúkdóma og laxalús, hafi ekki verið tilefni fyrir stofnunina að afla upplýsinga um áhrif breytinganna m.t.t. laxalúsar og fiskilúsar.

Rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé að mati Skipulagsstofnunar fullnægjandi með tilliti til 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin hafi í stjórnsýsluframkvæmd sinni litið svo á að rökstyðja beri ákvörðun út frá þeim sjónarmiðum í 2. viðauka sem „við eiga í hverju máli.“ Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 53/2020 segi t.d.: „Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun varðar hvaða liðir vegi þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar geti talist umtalsverð.“ Í athugasemdum við frumvarp það er orðið hafi að breytingalögum nr. 96/2019 komi fram að Skipulagsstofnun beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem „skipti mestu máli“ hvað varði framkvæmdina. Samkvæmt því sem hér sé rakið þurfi ekki alltaf að víkja að öllum sjónarmiðum í viðaukanum. Hin tilkynnta framkvæmd hafi ekki kallað á frekari rökstuðning, en skoða verði rökstuðninginn með hliðsjón af áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018. Þá sé bent á að í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að stjórnsýslulögum komi fram að í flestum tilvikum ætti tiltölulega stuttur rökstuðningur fyrir ákvörðunum að nægja í málum á „fyrsta stjórnsýslustigi.“ Jafnvel þó svo að úrskurðarnefndin telji rökstuðninginn annmarka á hinni kærðu ákvörðun þá sé hann ekki svo verulegar að leiði til ógildingar ákvörðunarinnar.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er gerð krafa um að málinu verði vísað frá þar sem ekki liggi fyrir fullnægjandi umboð frá þeim kærendum sem séu náttúruverndarsamtök til þess lögmanns sem riti undir kæruna. Umboðin séu haldin ágalla þar sem þau séu óvottuð, auk þess sem hin kærða ákvörðun sé ranglega dagsett. Formenn félagasamtakanna geti ekki tekið ákvörðun um kæru fyrir hönd félaganna án þess að fyrir liggi viðeigandi heimild til þess. Of seint sé að bæta úr annmörkunum. Þá hafi samtökin ekki sýnt fram á að þau uppfylli skilyrði sem sett séu fyrir aðildarhæfi í 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn um hvaða hagsmuni þeir kunni að hafa af úrlausn málsins. Skorti þá því lögvarða hagsmuni í málinu og beri að vísa málinu frá, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1007/2020. Við mat á lögvörðum hagsmunum verði að miða við hvað breytingin feli í sér og hverju hún breyti frá skilgreindu ástandi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum, en umdeild breytingin hafi ekki áhrif á kærendur. Fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum fyrir eldi á 11.000 tonnum af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði og feli tillaga að breytingu ekki í sér breytingu á framleiðslumagni eða nokkru því sem geti haft áhrif á hagsmuni kærenda eða félagsmenn þeirra. Að auki liggi fyrir mat sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar á hættu á erfðablöndun af eldi í Fáskrúðsfirði og sé hún hverfandi eða engin. Í áhættumatinu viðurkenni stofnunin að Breiðdalsá sé hafbeitará og þar af leiðandi sé hún ekki með villtan fiskistofn, sbr. skilgreiningu 3. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi á villtum fiskistofni, sbr. einnig sömu skilgreiningu í lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og lögum nr. 58/2006 um fiskirækt. Með því að flokka Breiðdalsá sem hafbeitará sé stofnunin að segja að áin eigi ekki að njóta verndar sem aftur feli í sér að engir lögvarðir hagsmunir séu tengdir ánni. Því mati séu stjórnvöld bundin af við úrlausn ágreinings.

Við mat á ógildingu þurfi að hafa hugfast að lax sé nú önnur verðmætasta útflutningsfiskafurð Íslands og fiskeldi sé megin atvinnustoð tveggja landsfjórðunga. Því þurfi mikið að koma til svo hin kærða ákvörðun verði ógild. Ákvörðun Skipulagsstofnunar og tilkynningar framkvæmdaraðila um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningu uppfylli þau skilyrði sem sett séu í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og samnefndri reglugerð nr. 660/2015. Skipulagsstofnun hafi aflað umsagna leyfisveitanda og annarra hlutaðeigandi umsagnaraðila og sé engin þessara umsagna háð annmörkum, a.m.k. ekki annmörkum sem geti leitt til þess að kröfur kærenda verði teknar til greina. Beiting 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar sé háð mati Skipulagsstofnunar, enda sé gerður sá fyrirvari að meta skuli upplýsingaskyldu út frá eðli og umfangi hlutaðeigandi framkvæmdar, en jafnframt að leita skuli umsagnar annarra en leyfisveitenda eftir eðli máls, líkt og gert hafi verið.

Þegar rætt sé um eldi á frjóum laxfiski þá sé talað um lax, enda sé lax alltaf frjór nema það eigi sér stað inngrip í þroskaferil hans. Sé verið að ræða um eldi á ófrjóum laxi þá sé undantekningarlaust rætt um ófrjóan lax. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé eldi á 11.000 tonnum af frjóum fiski í Fáskrúðsfirði, en gerður sé fyrirvari um að framkvæmdin sé alltaf í samræmi við gildandi áhættumat á hverjum tíma. Matsskýrslan sé mjög skýr hvað þetta varði. Stefna framkvæmdaraðila hafi, allt frá því áhættumat erfðablöndunar hafi fyrst verið kynnt 14. júlí 2017, verið sú að fylgja matinu og sé það nú lagaskylda. Kærendur rugli saman annars vegar magni frjós fisks samkvæmt útsetningaráætlun, sem endurspegli ávallt áhættumat og taki breytingum, og svo tilgreindu magni fisks í eldi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum. Magn samkvæmt útsetningaráætlun geti því bæði hækkað og lækkað út frá gildandi áhættumati og leyfum, en alinn frjór fiskur fari þó aldrei yfir 20.800 tonn í báðum fjörðunum.

Í matsskýrslu framkvæmdaraðila, þar sem fjallað sé um hættuna á sleppingum eldisfisks og þar af leiðandi hættu á erfðablöndun, miðist útreikningar við heildarfjölda útsettra seiða í Fáskrúðsfirði eða 4.000.000, sem sé það magn sem þurfi til að búa til 11.000 tonn af frjóum fiski. Ef matsskýrslan hefði verið unnin út frá því að alin væru 6.000 tonn af frjóum fiski þá hefði verið miðað við 2.200.000 seiði í umfjöllun um umhverfisáhrif. Eldi á frjóum fiski og ófrjóum sé ekki frábrugðið hvort öðru nema að því er taki til hættu á erfðablöndun við villta stofna. Ef fjallað hefði verið um eldi og áhrif eldis á ófrjóum fiski á villta stofna í matsskýrslunni hefði þá umfjöllun verið að finna í kafla 6.5.3. um umhverfisáhrif. Sá kafli matsskýrslunnar geri það hins vegar ekki. Um eldi á ófrjóum fiski sé fjallað í valkostagreiningu og eðli málsins samkvæmt lúti því megniefni skýrslunnar að eldi á frjóum fiski.

Því sé andmælt að ekki sé nægjanlega fjallað um aukningu á eldi á frjóum fiski í tilkynningu framkvæmdaraðila, en það sé Skipulagsstofnunar að meta hverju sinni út frá aðstæðum hversu ítarleg tilkynning þurfi að vera varðandi einstaka þætti. Breyting á útsetningaráætlun taki bæði til breytinga á kynslóðaskiptingu og magni frjós fisks. Fram komi í tilkynningu að framkvæmdaraðili hafi óskað eftir uppfærslu gildandi leyfis með það i huga að magn frjós fisks verði aukið, enda miðist fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar við það að meta hvaða áhrif 11.000 tonna lífmassi af frjóum fiski hafi á fjörðinn og umhverfið. Hinn 9. júní 2020, fimm mánuðum áður en tilkynningin hafi verið send til Skipulagsstofnunar, hafi framkvæmdaraðili óskað eftir því við Matvælastofnun að rekstrarleyfi yrði uppfært miðað við nýtt áhættumat. Sé byggt á því að stofnuninni ber skylda til að uppfæra rekstrarleyfi miðað við breytt áhættumat og kalli slíkt ekki á aðkomu Skipulagsstofnunar, sbr. 4. mgr. 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ítarlega fjallað um tilfærslu svæða, uppdrættir sýndir og nákvæmar hnitsetningar. Einnig sé ítarleg eldisáætlun sett fram ásamt upplýsingum um hvíldartíma, en hann sé óbreyttur frá því sem segi í matsskýrslu. Þá sé ítarlega fjallað um svæðaskipulagið og þróun þess, en m.a. komi fram að rými til siglinga aukist mikið miðað við breytingar á eldissvæðum, sem minnki líkur á óhöppum við siglingar í firðinum. Jafnframt liggi fyrir umsögn Vegagerðarinnar um siglingaleiðir.

Umsagnir séu vel rökstuddar og einróma um að breytingin feli ekki í sér að framkvæmdin skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Telji Hafrannsóknastofnun m.a. að nægilega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar og mótvægisaðgerðum hvað varði áhættumat erfðablöndunar. Í umsögn Umhverfisstofnunar sé fjallað ítarlega um þá ætlan framkvæmdaraaðila að ala eingöngu frjóan lax og staðfest að í fyrra mati á umhverfisáhrifum hafi verið gert ráð fyrir 11.000 tonna framleiðslu á frjóum laxi. Þar sem tilkynningin lúti að breytingu á eldisáætlun sé bæði vísað til breytingar á fjölda seiða í útsetning, sem og breytingar í frjóan fisk.

Áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat feli ekki í sér áætlanir sem marki stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda á tilteknu svæði. Hvort tveggja séu í eðli sínu rannsóknir og séu einungis hluti af mörgum rannsóknum og forsendum sem þurfi að vera fyrir hendi til að leyfi sé veitt til fiskeldis. Þannig geti niðurstaðan orðið sú að fiskeldi verði ekki leyft þó áhættumat og burðarþolsmat heimili það. Síðan kunni að koma upp sú staða að annað hvort áhættumat eða burðarþolsmat heimili eldi en hitt matið geri það ekki og þá verði ekki af eldi á viðkomandi stað. Áhættumat og burðarþolsmat séu því ekki afgerandi um útgáfu leyfa og séu auk þess háð breytingum og skulu endurskoðast reglulega, sbr. 3. mgr. 6. gr. a og 2. mgr. 6. gr. b í lögum nr. 71/2008.

Þegar áhættumat og burðarþolsmat liggi fyrir vinni Hafrannsóknastofnun svæðaskipulag eldissvæða skv. 4. gr. a í lögum nr. 71/2008, en jafnframt þá sé gert strandsvæðaskipulag af svæðisráðum samkvæmt lögum nr. 22/2008 um skipulag haf- og standsvæða. Að því loknu þá sé eldissvæðum úthlutað og þeir aðilar sem fái úthlutun geti farið með fyrirhugaðar framkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum. Slíkt mat byggi fjölda rannsókna, þ. á m. áhættumati og burðarþolsmati, og sé það ekki fyrr en að því loknu, ef því ljúki með áliti, sem leyfi geti hugsanlega verið gefið út, en um það eigi Umhverfisstofnun og Matvælastofnun sjálfstætt mat. Þar með sé sjónarmiðum um aðkomu almennings og málskotsrétt fullnægt en það séu einmitt þau sjónarmið sem lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana byggi á. Sú ákvörðun sem hér sé til umfjöllunar byggi á mati á umhverfisáhrifum þar sem allir þeir þættir sem ákvörðunin byggi á hafi verið kynntir almenningi og þeim gefist kostur á að gera athugasemdir. Umfang og eðli framkvæmdarinnar hafi ekki breyst frá því að matið hafi verið gert og sé því um að ræða óverulegar breytingar sem séu undanþegnar lögum nr. 105/2006 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, sbr. 10. gr. Um það hafi Skipulagsstofnun úrskurðað með ákvörðun sinni. Það að kynna framkvæmd aftur og gera um hana umhverfisskýrslu væri tvíverknaður og ekki í samræmi við markmið laga nr. 105/2006. Í því tilviki sem hér um ræði eigi eftir að gefa út rekstrarleyfi og starfsleyfi, sem verði auglýst og almenningi veittur réttur til athugasemda og málskots.

Kærð sé ákvörðun Skipulagsstofnunar sem falli ekki undir lög nr. 105/2006, en að auki sé í þeim lögum ekki heimild til ógildingar ákvörðunar, hvað þá sjálfstæðrar ákvörðunar sem ekki sé fjallað um í lögunum, eins og ákvörðun um matsskyldu sé. Eftir gildistöku breytingalaga nr. 101/2019 hafi dómstólar og úrskurðarnefndin ítrekað fjallað um mál tengd leyfisveitingum til fiskeldis þar sem áhættumat og burðarþolsmat hafi komið til skoðunar og legið til grundvallar úrlausn máls, s.s. úrskurði í málum nr. 89/2020 og 3/2020 og úrskurð Landsréttar í máli nr. 10/2019. Í þeim málum hafi ekki verið vikið að því að áhættumat eða burðarþolsmat falli undir lög nr. 105/2006. Hafa beri hugfast að úrskurðarnefndinni beri að beita málsástæðum og lagarökum þótt málsaðilar hafi ekki haldið þeim fram í gögnum málsins.

Þá sé það Skipulagsstofnun sem skeri úr um ef vafi leiki á því hvort lög nr. 105/2006 eigi við. Af framkvæmd megi ráða að Hafrannsóknastofnun telji ekki að áhættumat og burðarþolsmat falli undir lögin og hafi það mat verið staðfest af ráðherra að því er taki til áhættumats. Skipulagsstofnun hafi gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar þar sem áhættumat og burðarþolsmat sé lagt til grundvallar og af því megi ráða að stofnunin meti það svo að lög nr. 105/2006 nái ekki yfir áhættumat og burðarþolsmat. Hin kærða ákvörðun byggi á áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar frá 14. júní 2018, en rekstrarleyfi hafi verið gefið út 21. mars 2019 og starfsleyfi 19. s.m. Allt hafi þetta farið fram fyrir gildistöku laga nr. 101/2019 þegar áhættumat og burðarþolsmat hafi verið lögfest. Ekki verði talið að lögum nr. 105/2006 verði beitt um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, eða ákvörðun byggða á því mati, sem framkvæmt hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 101/2019.

Fyrir liggi ítarlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar ásamt valkostagreiningu. Matið byggi á því að hvíld milli kynslóða sjókvíaeldissvæðis sé 9-12 mánuðir og sé það óbreytt samkvæmt tillögu framkvæmdaraðila. Með breytingunni sé lífrænu álagi dreift betur um fjörðinn, fóðrun minnkuð, seiðum í sjó fækkað og lífmassinn færður utar og sunnar í fjörðinn, en það auki upplausn efna og minnki álag á fjörðinn sjálfan. Þá sé ítarleg umfjöllun um möguleg áhrif á æðarvörp í mati á umhverfisáhrifum. Í vöktunaráætlun framkvæmdaraðila, sem samþykkt sé af Umhverfisstofnun, sé gert ráð fyrir vöktun áhrif eldis á fuglalíf og taki það einnig til æðarvarps. Ekki hafi fundist laxalús á eldisfiski á Austfjörðum, en fiskilús hafi fundist og sé hún talin meinlaus.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í athugasemdum framkvæmdaraðila komi fram að breyting á útsetningaráætlun feli í sér breytingu á framleiðslumagni á frjóum fiski úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn. Liggi því fyrir að með hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið tekin afstaða til matsskyldu vegna eins þeirra meginþátta sem hin tilkynnta breyting hafi lotið að. Óháð því hvort það eigi rætur að rekja til annmarka á tilkynningu framkvæmdaraðila eða ófullnægjandi mats og rannsóknar Skipulagsstofnunar sé hin kærða ákvörðun að þessu leyti haldin verulegum annmarka sem leiði óhjákvæmilega til þess að hún verði felld úr gildi.

Áréttað sé að hin kærða ákvörðun feli ekki í sér að breyting á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn sé ekki matsskyld af þeirri ástæðu að umhverfisáhrif breyttrar framkvæmdar hafi þegar verið metin með fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum. Eins og skýrlega komi fram í umsögn Skipulagsstofnunar hafi stofnunin ekki tekið efnislega afstöðu til þess hvort þessi breyting á framkvæmdinni sé matsskyld. Ekki reyni því á gildissvið fyrirliggjandi mats á umhverfisáhrifum að þessu leyti við úrlausn kærumálsins. Mat á umhverfisáhrifum skv. 4. gr. a í samnefndum lögum nr. 106/2000 samanstandi af sex þáttum sem þar séu nánar tilgreindir, þ.m.t. athugun Skipulagsstofnunar á matsskýrslu framkvæmdaraðila, áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og að álit stofnunarinnar sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda. Hvað sem líða kunni áformum framkvæmdaraðila um síðari breytingar hafi álit Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2018 á matsskýrslu framkvæmdaraðila skýrlega verið reist á þeirri forsendu, sem einnig komi fram í matsskýrslunni, að í hinni metnu framkvæmd fælist framleiðsla á að hámarki 6.000 tonnum á ári af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuni að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna tilgreindra ákvarðana enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 1. og 2. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Framkvæmdaraðili hefur farið fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að kærendur uppfylli ekki skilyrði kæruaðildar laga nr. 130/2011. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja gögn er sýna fram á að náttúruverndarsamtök þau er standa að kærumáli þessu uppfylla fyrrnefnd skilyrði kæruaðildar. Þá verða fyrirliggjandi umboð samtakanna til lögmanns ekki talin ófullnægjandi, svo sem framkvæmdaraðili heldur fram. Við mat á því hvort Veiðifélag Breiðdæla uppfylli skilyrði um lögvarða hagsmuni verður að meta hagsmuni og tengsl félagsins við úrlausn málsins, þ.e. hvort það eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Almennt verður þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Þannig ber að jafnaði ekki að vísa málum frá vegna þess að þá skorti, nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir þá hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu. Telur veiðifélagið sig eiga hagsmuni að gæta vegna nálægðar Breiðdalsár í Breiðdalsvík við fyrirhugað laxeldi og mögulegra áhrifa eldisins á náttúrulega laxastofna og veiði í ánni sem því fylgi.

Veiðifélagi Breiðdæla hefur áður verið játuð kæruaðild í málum fyrir úrskurðarnefndinni sem lúta að sjókvíaeldi á frjóum laxi. Var félagið þannig nýlega talið hafa lögvarða hagsmuni í kærumálum nr. 107 og 111/2020 en þar var kærð sú ákvörðun Matvælastofnunar að gefa út rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Reyðarfirði með 10.000 tonna hámarkslífmassa. Byggðist niðurstaðan m.a. á að í mati Hafrannsóknastofnunar á áhættu af erfðablöndun eldislaxa við íslenska laxastofna er Breiðdalsá talin vera við þröskuldsgildi ásættanlegs innstreymis eldislaxa í náttúrulega laxveiðiá. Jafnframt var litið til þess að innan við 40 km eru frá ósum Breiðdalsár að því eldissvæði sem þá var fyrirhugað yst í Reyðarfirði. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru sambærilegar aðstæður til staðar vegna sjókvíaeldis framkvæmdaraðila í Fáskrúðsfirði og með hliðsjón af því, sem og að virtum fyrrgreindum sjónarmiðum um aðild að stjórnsýslumáli, verður Veiðifélagi Breiðdæla játuð kæruaðild í máli þessu.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. nefndra laga. Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Niðurstöðu sína um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skal Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. nefndrar 6. gr., svo sem henni var breytt með lögum nr. 96/2019, rökstyðja með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en þau eru í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, en undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða. Skal Skipulagsstofnun taka matsskylduákvörðun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina og er stofnuninni heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun hennar sé hún ekki matsskyld að áliti stofnunarinnar. Í frumvarpi með breytingalögum nr. 96/2019 er tekið fram að með breytingunni sé gerð skýrari krafa um innihald ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Henni beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem skipti mestu máli hvað varðar framkvæmdina. Rökstuðningur eigi bæði við um ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum og ákvörðun um að framkvæmd skuli ekki háð slíku mati. Skipulagsstofnun skuli byggja ákvörðun sína um matsskyldu á upplýsingum frá framkvæmdaraðila, en sé einnig heimilt að byggja hana á öðrum gögnum. Þar undir gætu til dæmis fallið forprófanir eða mat á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið á grundvelli annarra laga og ábendingar sem henni berist frá öðrum, til dæmis stofnunum og almenningi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Fjarðabyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, eins og rakið er í málavaxtalýsingu. Telur Umhverfisstofnun í sinni umsögn að breytingin muni ekki koma til með að hafa neikvæð áhrif og að áhrif framkvæmdarinnar liggi ljós fyrir. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar er tekið undir sjónarmið framkvæmdaraðila um að breytingin feli ekki í sér aukið álag á umhverfið frá því sem tilkynnt hafi verið í mati á umhverfisáhrifum frá 2018. Fiskistofa bendir í sinni umsögn á að fyrirhuguð breyting á staðsetningu eldissvæða stytti fjarlægð milli þeirra og útsetning seiða verði tíðari. Þessar breytingar geti aukið líkurnar á því að laxalús eða fiskilús verði vandamál í eldinu og geti borist milli eldissvæða, einkum með hafstraumi frá Eyri/Fögrueyri til Einstiga. Breytingin muni þó ekki auka líkurnar svo mikið á neikvæðum áhrifum á villta stofna vegna mögulegs lúsasmits að það kalli á að breytingin undirgangist mat á umhverfisáhrifum. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að tillaga að breyttri staðsetningu sjókvía valdi því að þær lendi í markaðri siglingaleið um Fáskrúðsfjörð og vísar stjórnvaldið til ábyrgðar hafnaryfirvalda til að sjá til þess að öryggi siglinga sé tryggt. Í bókun hafnarstjórnar Fjarðabyggðar kemur fram að lögð sé áhersla á að ljósabúnaður við fyrirhugaðar eldiskvíar verði staðsettur með tilliti til núverandi vita. Merkingar við jaðra eldissvæðanna og ljósmerki vitans muni sameiginlega tryggja öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð. Að lokum telur Minjastofnun í umsögn sinni að áður en kvíarnar verði festar niður verði að skoða botninn nákvæmlega með tilliti til fornleifa.

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar skiptist í nokkra kafla. Fyrirhugaðri framkvæmd er lýst, þ.e. áformum framkvæmdaraðila um tilfærslu eldissvæða og breytta útsetningaráætlun, fjallað er um umhverfisáhrif breytingar framkvæmdarinnar, eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum umsagnaraðila, og vikið að leyfum sem framkvæmdin er háð. Í niðurstöðukafla sínum vísar stofnunin til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af eðli hennar, m.a. stærð og umfangi hennar og úrgangsmyndun. Einnig skuli taka mið af staðsetningu framkvæmdar, m.t.t. hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, s.s. með tilliti til þeirrar landnotkunar sem fyrir sé og álagsþols strandsvæða. Þá beri að skoða áhrif framkvæmdar í ljósi eiginleika hugsanlegra áhrifa, einkum með tilliti til svæðis sem ætla megi að verði fyrir áhrifum, stærðar og fjölbreytileika áhrifa og tímalengdar.

Í umfjöllun stofnunarinnar um staðsetningu og eðli framkvæmdar er vísað til þess að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 20.800 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði frá 14. júní 2018. Um sé að ræða breytingu á þeirri framkvæmd sem felist í því að breyta staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði. Gera megi ráð fyrir að dreifing úrgangs og uppsöfnun næringarefna verði að einhverju leyti frábrugðin því sem gert hafi verið ráð fyrir í matsskýrslu. Fyrir liggi að megin straumstefna liggi inn fjörðinn að norðan og út að sunnan, auk þess sem meiri landhalli og dýpi sé undir fyrirhuguðum eldissvæðum í sunnanverðum firðinum. Með breyttri staðsetningu eldiskvía verði minni uppsöfnun næringarefna innar í firðinum þar sem umræddar breytingar muni leiða til þess að lífmassinn færist utar. Með hliðsjón af umsögnum Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar telji Skipulagsstofnun að breytt fyrirkomulag á eldi í firðinum komi ekki til með að auka umhverfisáhrif á botndýralíf og ástand sjávar. Taki stofnunin undir með umsögn Minjastofnunar um að sjávarbotn þeirra svæða sem tilfærsla eldissvæðanna nái til verði athugaður m.t.t. hugsanlegra minja. Þá bendir Skipulagsstofnun á að tilfærsla eldissvæða sé líkleg til að breyta áhrifum vegna ásýndar. Til að mynda muni eldissvæði færast nær Sandfelli sem sé hverfisverndað útivistarsvæði og á náttúruminjaskrá. Það muni mögulega auka sýnileika kvíanna fyrir gesti svæðisins, en að mati stofnunarinnar verði áhrifin þó að teljast minniháttar umfram núverandi áhrif á ásýnd og landslag. Jafnframt bendir stofnunin á að með tilfærslu eldissvæða lendi þau í markaðri siglingaleið en að með hliðsjón af umsögn Fjarðabyggðarhafna muni færsla eldissvæða ekki koma til með að hafa áhrif á öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð. Loks tekur Skipulagsstofnun fram að fyrirhuguð færsla eldissvæða og breyting á útsetningaráætlun komi ekki til að breyta eiginleikum hugsanlegra umhverfisáhrifa af fiskeldi í Fáskrúðsfirði. Umhverfisáhrif komi að mestu til með að vera sambærileg og að með færslu eldissvæða í útstraum fjarðarins kunni að verða jákvæð áhrif af breytingu á dreifingu úrgangs og uppsöfnun næringarefna. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar, eins og fyrr greinir, sú að hin umdeilda framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B í 1. viðauka laganna. Ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar skal Skipulagsstofnun byggja á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hefur lagt fram, sbr. 2. mgr., og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, ef við á. Tilkynning framkvæmdaraðila einskorðaðist við breytingu á eldissvæðum og útsetningaráætlun. Í texta tilkynningarinnar kemur fram að sett verði út seiði á hverju ári þannig að almennt verði tvö svæði í notkun á meðan það þriðja verði í hvíld. Fjallað er um fjölda og stærð seiða og tekið fram að lífmassi muni aldrei fara yfir 11.000 tonn, en ekki hver skipting verði í frjóan lax og ófrjóan. Ný útsetningar- og eldisáætlun í viðauka 1 með tilkynningunni tilgreinir sömu atriði, sömuleiðis án þess að slík skipting komi fram. Þótt vikið sé að þeirri fyrirætlan framkvæmdaraðila að fá leyfum sínum breytt á þann veg að meira magn frjós lax verði alið er ljóst að tilkynning hans lýtur ekki að þeim breytingum. Var því Skipulagsstofnun ekki skylt að fjalla um aukningu á eldi á frjóum laxi, svo sem kærendur telja að stofnuninni hafi borið að gera. Að sama skapi er það ekki ágalli á þeim umsögnum sem Skipulagsstofnun aflaði sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að ekki hafi verið fjallað um aukna framleiðslu á frjóum laxi. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum skal í umsögn umsagnaraðila koma fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun, eftir því sem við á. Þegar litið er til eðlis og umfangs þeirrar breytingar á framkvæmd sem um ræðir verður ekki talið að frekari umfjöllun eða rökstuðningur umsagnaraðila hafi átt við í skilningi nefnds reglugerðarákvæðis.

Svo sem henni bar lagði Skipulagsstofnun að lokum sjálfstætt mat á það hvort breytingin á framkvæmdinni skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, en taldi að svo væri ekki. Ljóst er að ekki er ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu metin að nýju umhverfisáhrif hinnar upprunalegu framkvæmdar heldur einskorðast ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin getur kallað fram. Verður að skoða röksemdir Skipulagsstofnunar fyrir niðurstöðu hennar í því ljósi. Þá fer það eðli máls samkvæmt eftir þeirri breytingu á framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvaða atriði sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif breytingarinnar teljist umtalsverð. Það að breyting framkvæmdar falli undir einhvern liðanna leiðir ekki sjálfkrafa til matsskyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka. Reynsla af upprunalegu framkvæmdinni, vöktun og mótvægisaðgerðum kann að gefa vísbendingu um hver áhrif breytingarinnar kunni að verða. Að þessu virtu var að áliti úrskurðarnefndarinnar lagt mat á þá þætti sem máli skiptu um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni, svo sem hún var kynnt af framkvæmdaraðila. Þá tók Skipulagsstofnun við það mat, sem áður er fjallað um, viðhlítandi tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga.

Kærendur byggja m.a. á því að áður en hin kærða matsskylduákvörðun var tekin hafi umhverfismat áætlana samkvæmt samnefndum lögum nr. 105/2006 ekki farið fram vegna mats Hafrannsóknastofnunar á áhættu af erfðablöndun frjórra eldislaxa við villta laxastofna, sbr. 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 gilda þau um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytingar á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar er undanfari leyfis til framkvæmda sem fellur undir lög nr. 106/2000, s.s. þegar um er að ræða leyfi fyrir fiskeldi, en ákvörðunin sjálf felur ekki í sér slíkt leyfi. Raskar því skortur á umhverfismati áætlana, óháð því hvort það hefði átt að fara fram eða ekki vegna hinnar upprunalegu framkvæmdar, ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hún tók hin kærðu matsskylduákvörðun, lagt tilhlýðilegt mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti. Þar sem enga þá annmarka er að finna á hinni kærðu ákvörðun sem leiða ættu til ógildingar verður kröfu kærenda þar um hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 13. janúar 2021 um að breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Fáskrúðsfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

68/2021 Arnarnesvegur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 8. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 um að breyting á útfærslu gatnamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Jóruseli 20, Reykjavík, og eigandi, Jóruseli 12, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 að breyting á útfærslu gatnamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að nýtt mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna 3. kafla Arnarnesvegar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 23. júní 2021.

Málavextir: Með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2003 féllst Skipulagsstofnun á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Taldi stofnunin að framkvæmdin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var ákvörðunin kærð til umhverfisráðherra, sem staðfesti hana með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2003. Lagning vegarins hefur farið fram í áföngum en framkvæmdir eru fyrirhugaðar við 1,3 km langan vegkafla á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík.

Með bréfi, dags. 26. október 2020, óskaði Vegagerðin eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort ný útfærsla á gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar væri háð mati á umhverfis­áhrifum. Fæli útfærslan í sér brú yfir Breiðholtsbraut og ljósastýrð gatnamót og kom fram í matsskyldufyrirspurn Vegagerðarinnar að um væri að ræða sameiginlega niðurstöðu Vega­gerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar. Við meðferð málsins óskaði Skipulags­stofnun eftir umsögnum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Fiskistofu, Hafrannsókna­stofnunar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogs­svæðis, Landverndar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vina Vatnsendahvarfs. Hinn 16. febrúar 2021 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun sinni vísaði stofnunin m.a. til þess að í framkvæmdinni fælist breyting á útfærslu gatnamóta frá fyrri áformum sem kæmi ekki til með að auka ónæði af umferð eða mengun í íbúðarbyggð eða á útivistarsvæðum. Fæli framkvæmdin jafnframt í sér minna inngrip í ásýnd svæðanna. Samtökin Vinir Vatnsendahvarfs kærðu ákvörðun Skipulagstofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði uppkveðnum 25. maí 2021, í máli nr. 32/2021, var kæru samtakanna vísað frá þar sem þau voru ekki talin uppfylla skilyrði kæruaðildar skv. 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir séu íbúar í grennd við framkvæmdina. Í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum komi fram að Skipulagsstofnun geti ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdaraðila ef forsendur hafi breyst verulega frá því álitið lá fyrir. Þar sem 18 ár séu liðin frá því mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi legið fyrir hafi forsendur breyst verulega. Landnotkun á áhrifasvæði, löggjöf um umhverfismál og alþjóðlegar skuldbindingar, allt hafi þetta tekið breytingum. Sé þess því krafist að nýtt umhverfismat verði gert fyrir þriðja áfanga Arnarnesvegar. Líklegt sé að umferðarlíkanið sem stuðst hafi verið við í upphaflegu mati á umhverfisáhrifum sé úrelt. Svifryksmengun verði í návígi við skóla og leiksvæði barna. Endurmeta þurfi áhrif stóraukinnar umferðar með tilliti til mengunar, hljóðvistar og fleiri þátta í návígi við fjölmenn íbúahverfi, skóla og vinsælt útivistarsvæði. Skipulagsstofnun telji sig ekki hafa heimild til að fara fram á nýtt umhverfismat þar sem stofnunin telji að byrjað hafi verið á framkvæmdinni innan 10 ára. Það hafi þó aldrei verið byrjað á þriðja áfanga Arnarnesvegar heldur hafi jarðvegur verið færður úr hlíðinni um síðustu aldamót.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er vísað til þess að skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir, sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta, kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Í kæru sé ekki vikið nánar að því í hverju grenndarhagsmunir kærenda séu fólgnir, t.d. hve langt þeir búi frá fyrirhugaðri framkvæmd Vegagerðarinnar. Að öðru leyti sé kærufrestur liðinn, en hann hafi verið til 22. mars 2021, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þá falli það ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til kröfu kærenda. Að mati stofnunarinnar verði að leggja þann skilning í kæruna að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærendur hafi ekki heimild til að krefjast þess að mat á umhverfisáhrifum Arnarnesvegar frá árinu 2003 verði endurskoðað. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé það viðkomandi leyfisveitandi sem beri að óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda sé veitt. Stofnunin hafi ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um endur­skoðun mats á umhverfisáhrifum, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 77/2017.

Skilyrði fyrir því að framkvæmd skuli undirgangast mat á umhverfisáhrifum sé að fram­kvæmdin hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Skilgreiningu á slíkum áhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000, en þar séu umtalsverð umhverfisáhrif skilgreind þannig að um sé að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Skipulagsstofnunin fái ekki séð að hin tilkynnta framkvæmd hafi þau áhrif sem lýst sé í framangreindri skilgreiningu.

Athugasemdir Vegagerðarinnar: Af hálfu Vegagerðarinnar er aðallega gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Kæran hafi borist að liðnum kærufresti skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Einn af kærendum hafi undirritað þá kæru sem vísað hafi verið frá í máli nr. 32/2021 og hafi sá kærandi því fulla vitneskju um hvenær hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Þá sé bent á að sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna varnaraðila liggi að baki kærufresti laga nr. 130/2011, en Vegagerðin hafi ríka hagsmuni af því að framkvæmdir geti haldið áfram sem fyrst. Ef fallist yrði á að afsakanlegt teldist að kæra þessi hefði borist utan frests, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, væri í reynd búið að lengja kærufresti í málum af þessu tagi nánast út í hið óendanlega. Þá sé bent á að kærendur fjalli ekki um aðildarhæfi eða leggi fram gögn til skýringar þar um. Telji úrskurðarnefndin að málið sé tækt til meðferðar sé bent á að hin kærða ákvörðun sé vel rökstudd og í samræmi við gildandi lög og framlögð gögn. Málsmeðferð hafi verið vönduð og engin ný gögn eða upplýsingar hafi verið lagðar fram af hálfu kærenda sem breytt geti efnislegri niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Um málsmeðferð og kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um kærufrest en einnig að þeir einir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda kæranlegri stjórnvaldsákvörðun geti kært til úrskurðarnefndarinnar þá ákvörðun eða ætlað brot á þátttöku­rétti almennings. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýslu­réttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Er gert ráð fyrir því að meta verði heildstætt hverju sinni hversu verulegir hagsmunirnir eru og hversu náið þeir tengjast úrlausn máls þess sem um ræðir.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu fór fram á árinu 2003 mat á umhverfisáhrifum á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjensbrautar og Breiðholtsbrautar. Hefur lagning vegarins farið fram í áföngum. Hin kærða ákvörðun lýtur að því hvort ný útfærsla á á gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar, sem er hluti af fyrirhuguðum framkvæmdum á 1,3 km vegkafla, skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. samnefndra laga nr. 106/2000. Í mati á umhverfisáhrifum var fjallað um tvær útfærslur mislægra gatnamóta og féllst Skipulagsstofnun á þær báðar í úrskurði sínum árið 2003. Ný útfærsla gerir ráð fyrir brú yfir Breiðholtsbraut og tengingu Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut með gatnamótum í plani með umferðarljósum og einskorðast hin kærða matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar við þá breytingu, auk breytinga á útfærslu Arnarnesvegar næst Breiðholtsbraut.

Málsrök kærenda lúta fyrst og fremst að því að fram fari að nýju mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar vegna vegkafla á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík, en það álitaefni var ekki til umfjöllunar í hinni kærðu matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Vísa þeir einkum til þess að umferð aukist til muna og að af því hljótist mengun, auk þess að benda á neikvæð áhrif á hljóðvist. Fasteignir kærenda eru í meira en hálfs kílómetra fjarlægð frá gatnamótunum og verða þau á sama stað og áður var gert ráð fyrir. Í því mati á umhverfisáhrifum sem lauk með úrskurði Skipulagsstofnunar árið 2003 var fjallað um aukna umferð og hljóðvist vegna heildarframkvæmdarinnar. Af gögnum má ráða að ný útfærsla hinna umdeildu gatnamóta verði umfangsminni og standi lægra í landi, auk þess að kalla hvorki á aukna umferð né lakari hljóðvist.

Að teknu tilliti til alls þessa þykja hagsmunir kærenda hvorki svo verulegir né svo tengdir ákvörðun Skipulagsstofnunar, um að ný útfærsla gatnamóta sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli ekki háð mati á umhverfis­áhrifum, að skapi þeim kæruaðild. Þar sem ekki verður talið að kærendur hafi þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem eru skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

26/2021 Minna-Hof

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. desember 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir spildu úr landi Minna-Hofs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 5. mars 2021, kæra eigendur jarðanna Árgilsstaða 2, Vallarhjáleigu og Bakkavallar þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. desember 2020 að samþykkja deiliskipulag fyrir spildu úr landi Minna-Hofs. Er þess krafist að ákvörðunin, ásamt samhliða breytingum á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028, verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að sá hluti deiliskipulagsins sem lýtur að öllum lóðum við Lækjarstíg, sem sé á svonefndu dúasvæði Eystri-Rangár og Stokkalækjar, verði felldur úr gildi. Jafnframt var þess krafist að framkvæmdir að Minna-Hofi yrðu stöðvaðar. Var af hálfu úrskurðarnefndarinnar litið svo á að í þeirri kröfu fælist krafa um frestun réttaráhrifa og með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 30. mars 2021 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 17. mars 2021.

Málavextir: Á árinu 2019 samþykkti sveitarstjórn Rangárþings ytra að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir spildu úr landi Minna-Hofs, en í tillögunni fólst m.a. að skipuleggja 41 lóð fyrir íbúðir. Að virtum athugasemdum og ábendingum ákvað skipulagsnefnd- og umferðarnefnd sveitarfélagisns á fundi sínum 10. febrúar 2020 að gera þyrfti breytingu á landnotkun svæðisins. Að undangenginni auglýsingu skv. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti sveitarstjórn sveitarfélagsins á fundi sínum 10. desember 2020 tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028, sem fólst í því að breyta landnotkun á hluta jarðarinnar Minna-Hofs úr landbúnaðarsvæði í svæði fyrir íbúðarbyggð, merkt ÍB-30. Tók breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. janúar 2021. Samhliða aðalskipulagsbreytingunni var unnið að gerð deiliskipulags fyrir svæðið en í deiliskipulagstillögunni fólst sem fyrr m.a. að skipuleggja 41 lóð fyrir íbúðir. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 24. ágúst 2020 var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 41. gr. skipulagslaga og var það gert 2. september 2020 með fresti til að skila inn athugasemdum til 15. október s.á. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 9. nóvember s.á. var bókað um framkomnar athugasemdir, en nefndin taldi ekki þörf á að bregðast við þeim. Staðfesti sveitarstjórn þá bókun á fundi sínum 12. s.m. Tillagan var svo endanlega samþykkt á fundi skipulags- og umferðarnefndar 7. desember s.á. og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 10. s.m. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 5. febrúar 2021.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi lögvarinna hagsmuni að gæta sem eigendur aðliggjandi jarða við Eystri-Rangá, en um sé að ræða jarðirnar Árgilsstaði 2, Vallar­hjáleigu og Bakkavöll. Landa- og sveitarfélagamörk séu um Eystri-Rangá miðja. Vallarhjáleiga og Bakkavöllur eigi land að hinu deiliskipulagða svæði úr landi Minna-Hofs. Í Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024 sé land Árgilsstaða og Vallarhjáleigu skilgreint sem vatns­verndarsvæði og Vallarnes í landi Vallarhjáleigu og Bakkavallar sé hverfisverndarsvæði (Hv-303), líkt og Eystri-Rangá frá upptökum að Hólsá (Hv-340). Landið hafi fram að þessu haft yfirbragð landbúnaðarsvæðis og mikilvægustu nytjar þess séu laxveiði, útivist, búfjárbeit, skógrækt og tún til heyskapar. Byggð hafi hingað til takmarkast við bóndabæi og stöku sumarbústaði. Ljóst sé að fyrirhuguð íbúðarbyggð muni spilla nærútsýni og náttúruupplifun við Eystri-Rangá frá Hofsbæjum og Vallarkrók upp að Tungufossi og brjóta í bága við hverfisvernd Eystri-Rangár og dúasvæði hennar. Kærendur telji bæði óvarlegt og gróft brot á grenndarrétti að skipuleggja íbúðahúsalóðir á bökkum Eystri-Rangár og út í miðja á að mörkum sveitar­félagsins og landa kærenda. Hafa verði í huga að um langt skeið hafi Eystri-Rangá verið ein besta laxveiðiá landsins. Auk þess séu lóðirnar næst ánni og kaldavermslum á þekktu flóða­svæði. Af framangreindu leiði að fyrirhugaðar framkvæmdir séu til þess fallnar að rýra upplifun og verðmæti eigna kærenda. Þá sé hætta á því að veiðimenn, sem sækist í að veiða í ósnortinni náttúru og friði, hætti komum sínum í ána. Sé því ljóst að kærendur eigi verulega hagsmuni í málinu.

Ekki verði séð að hið kærða deiliskipulag samræmist stefnumörkun í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 heldur þvert á móti stangist það á við markmið þess í flestum veigamiklum atriðum, s.s. um sjálfbærni, hagkvæma þróun byggðar og að íbúðarbyggð verði á samfelldum svæðum í grennd við núverandi veitur og vegi. Deiliskipulagið gangi í berhögg við áherslur aðalskipulagsins um að fyrirhuguð uppbygging miði að því að halda í dreifbýlis­yfirbragð í sveitarfélaginu, að hvorki sé lokað almennum gönguleiðum né aðgengi takmarkað að áhugaverðum stöðum eða svæðum og að tekið sé tillit til verndarsvæða. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu fallnar til þess að raska öryggi og vatnsvernd á svæðinu, sérstaklega m.t.t. þess að enginn einn beri ábyrgð á rotþró heldur sé hverjum og einum falið að sjá um hana, en það geti auðveldlega brugðist. Þá sé í þessu sambandi rétt að vekja sérstaka athygli á skilmálum fyrir lóð undir vatnsból sem þjóna eigi hverfinu. Þar segi m.a. að innan lóðarinnar sé öll starfsemi óheimil, þ.m.t. notkun og geymsla á hættulegum efnum, s.s. olíu, bensíni, eiturefni, salti o.fl. þess háttar. Af því verði ekki annað ráðið en að notkun og geymsla á hættulegum efnum sé heimil á lóðum á bökkum Eystri-Rangár og Stokkalækjar.

Ekki verði séð af umfjöllun í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi að frárennslismál séu leyst með ábyrgum hætti og byggingaraðilum gert að ganga frá rotþróm utan lóðar, hvort sem er sér eða sameiginlega með næstu nágrönnum. Þá sé heimild fyrir allt að 600 m2 byggingum og allt að sex húsum á hverri lóð, auk þess sem opnað sé á gisti- og veitingarekstur. Fyrirliggjandi framkvæmdir séu mun umfangsmeiri en gera megi ráð fyrir til sveita þar sem stundaður sé landbúnaður og útivist. Umrætt íbúðarhverfi sé algjörlega á skjön við nýtingu aðliggjandi svæða í dag. Ekki hafi verið haft samband við þá jarðareigendur sem hafi stórvægilegra grenndarhagsmuna að gæta og þeim kynnt fyrirhugað skipulag. Einnig sé athygli vakin á að framkvæmdir við vega- og lóðagerð hafi verið hafnar áður en skipulagið hafi fyrst verið lagt fram.

Í 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sé fjallað um heimild til mannvirkjagerðar í og við veiðivatn. Þar segi í 1. mgr. að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sem áhrif geti haft á fiskigengd þess, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatns að öðru leyti, sé háð leyfi Fiskistofu. Þá segi í 2. mgr. að umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns og álit viðkomandi veiðifélags skuli fylgja. Loks segi í 3. mgr. 33. gr. að ef sérstök ástæða þyki til geti Fiskistofa krafist þess að framkvæmdaraðili geri líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfið sé veitt. Í fyrirliggjandi máli liggi engar upplýsingar fyrir um að framangreindra umsagna hafi verið aflað. Þá komi skýrlega fram á teikningum fyrirhugaðra framkvæmda að lóðamörk nái út í miðja á, þ.e. alveg að landamörkum kærenda. Fyrirhuguð mannvirki séu ekki nema u.þ.b. 50 m frá bakka Eystri-Rangár. Málsmeðferðin hafi því ekki verið í samræmi við lög nr. 61/2006.

Málsrök Rangárþings ytra: Af hálfu sveitarfélaginu er bent á að sú breyting hafi verið gerð á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2018 að hinu umrædda svæði hafi verið breytt úr landbúnaðarsvæði í íbúðarbyggð með 41 lóð fyrir íbúðir. Lóðir kærenda séu staðsettar í öðru sveitarfélagi en á milli sveitarfélaganna renni Eystri-Rangá. Kærendur hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í þessu máli, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 124 og 128/2019, þar sem íbúar í Breiðholti voru ekki taldir hafa lögvarða grenndarhagsmuni vegna áforma um byggingu gróðurhvelfingar í Elliðaárdal.

Athugasemdir landeiganda Minna-Hofs: Af hálfu landeiganda er kröfu kærenda og sjónar­miðum alfarið hafnað. Ljóst sé að kröfugerð þeirra hafi ekki lagastoð.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að með hinu kærða deiliskipulagi hafi verið samþykkt fordæmalaus breyting á landnotkun á viðkvæmu náttúrusvæði. Verið sé að heimila gríðarlega atvinnustarfsemi á svæðinu en heimilt verði að reka gistiþjónustu í flokki II í tveimur húsum á hverri lóð. Samtals verði því heimilt að starfrækja atvinnustarfsemi í 82 húsum á svæðinu. Slíkt yrði aldrei heimilað í íbúðarbyggð og því samræmist skipulagið ekki lögum að þessu leyti. Tilvísun sveitarfélagsins til máls nr. 124 og 128/2019 eigi vitaskuld ekki við enda ólíku saman að jafna, þ.e. annars vegar þéttbýli og hins vegar dreifbýli. Flóðahætta sé á lóðum nálægt Eystri-Rangá, en áin hafi breytt farvegi sínum talsvert á undanförnum árum. Landamerki milli Minna-Hofs og Vallarhjáleigu/Bakkavallar séu um Eystri-Rangá og því óglögg þar sem áin breyti um farveg. Lóðum sé úthlutað út í miðja á samkvæmt uppdrætti og því hugsanlega yfir á eignarland kærenda. Fram komi í svari skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra að hvorki hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi né byggingarleyfi. Því sé farið fram á að úrskurðarnefndin endurskoði ákvörðun um að hafna stöðvun framkvæmda enda byggi hún á röngum eða misvísandi upplýsingum frá sveitarfélaginu. Þá sé bent á að ekkert samráð hafi verið milli skipulagsyfirvalda Rangárþings ytra og Rangárþings eystra varðandi breytingu á aðalskipulagi Rangárþings ytra og við gerð hins kærða deiliskipulags.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra að samþykkja deiliskipulag fyrir spildu úr landi Minna-Hofs. Nær deiliskipulagið til 42 lóða, þ.e. 41 lóð fyrir íbúðir og ein lóð fyrir vatnsbrunn. Liggur deiliskipulagssvæðið að mörkum sveitarfélagsins Rangárþings eystra, þar sem þau liggja um miðja Eystri-Rangá.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýslu­réttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Kærendur í máli þessu eru eigendur þriggja jarða sem liggja að Eystri-Rangá. Mörk jarðanna Vallarhjáleigu og Bakkavallar liggja að hinu deiliskipulagða svæði og verður af þeim sökum að játa eigendum þeirra kæruaðild í máli þessu. Jörðin Árgilsstaðir 2 liggur ekki að deili­skipulagssvæðinu en mörk hennar eru þó í Eystri-Rangá, í rúmlega 700 m fjarlægð frá hinu deiliskipulagða svæði. Telja verður með hliðsjón af því skipulagi sem um er deilt og staðháttum að hið kærða deiliskipulag geti einnig snert grenndarhagsmuni eigenda þeirrar jarðar með þeim hætti að játa verði þeim kæruaðild í máli þessu skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011­ er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kæru­málum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt skýrum fyrirmælum 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir, sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta, ekki bornar undir nefndina. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka afstöðu til kröfu kærenda um að fella úr gildi tilteknar breytingar á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028.

Skipulagsvald innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga, en með því getur sveitarstjórn haft áhrif á og þróað byggð og umhverfi með bindandi hætti. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélags, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr., en við gerð deiliskipulags ber að byggja á stefnu aðalskipulags auk þess sem deiliskipulag skal rúmast innan heimilda aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. nefndra laga. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 var umrætt deiliskipulagssvæði upphaflega skilgreint sem landbúnaðarland. Með breytingu á aðalskipulaginu, sem tók gildi 21. janúar 2021, var svæðið skilgreint sem íbúðarsvæði, en auk þess var skilgreint svæði fyrir vatnsból. Í a-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er íbúðarsvæði skilgreint sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulags. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er skipulögð 41 lóð fyrir íbúðir og ein fyrir vatnsból.

Hvorki verður séð að hið kærða deiliskipulag sé í ósamræmi við stefnumótun aðalskipulagsins um íbúðarbyggð í kafla 2.2.1, s.s. um að íbúðarbyggð í dreifbýli skuli taka mið af yfirbragði dreifbýlis og að nýjar byggingar verði í góðum tengslum við núverandi vega- og veitukerfi, né að skilmálar skipulagsins um heimild til gistiþjónusta fyrir 10 manns á hverri lóð fari í bága við landnotkun svæðisins, sbr. áðurgreinda skilgreiningu á íbúðarsvæði í skipulagsreglugerð. Byggir hið kærða deiliskipulag því á stefnu aðalskipulags í samræmi við 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og er því uppfyllt skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Hið kærða deiliskipulag var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð um auglýsingu og samþykkt deiliskipulags skv. 1. mgr. 41. gr. laganna og áttu kærendur þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Verður að því virtu ekki talið valda ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að ekki hafi verið haft sérstakt samráð við þá kærendur sem eru eigendur jarða sem liggja að deiliskipulagssvæðinu áður en tillagan var samþykkt til auglýsingar, sbr. gr. 5.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá var deili­skipulagstillagan ekki kynnt sveitarstjórn Rangárþings eystra, svo sem mælt er fyrir um að gera skuli í 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga, en mörk þess sveitarfélags liggja að mörkum umrædds deiliskipulagssvæðis. Hins vegar mun skipulagslýsing vegna breytinga á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2018, þar sem fram kom að til stæði að skipuleggja svæði með stórum íbúðarlóðum í landi Minna-Hofs, hafa verið kynnt fyrir skipulagsfulltrúa Rangárþings eystra og ekki voru gerðar athugasemdir af hálfu sveitarfélagsins af því tilefni. Í ljósi þessa verður nefndur annmarki ekki talinn raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Skipulagsnefnd sveitarfélagsins tók afstöðu til innsendra athugasemda og var sú afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð og athugasemdir var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og gerði stofnunin athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deili­skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Að gerðum breytingum var tillagan send að nýju til Skipulagsstofnunar, sem gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deili­skipulagsins. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 5. febrúar 2021. Þá verður ekki talið að samþykkt hins kærða deiliskipulags hafi verið háð leyfi Fiskistofu skv. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði vegna framkvæmda í eða við veiðivatn, enda felur skipulagsáætlun ekki í sér leyfi til framkvæmda.

Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að svæðið hafi ekki verið notað til landbúnaðar og ekki sé ástæða til að ætla að það sé mjög gott til akuryrkju. Með skipulaginu sé verið að mæta eftirspurn eftir fjölbreyttum búsetumöguleikum með dreifbýlisyfirbragði í nálægð við þéttbýli. Verður því að telja að efnis- og skipulagsrök hafi búið að baki hinu kærða deiliskipulagi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar.

Rétt þykir að benda á að skv. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga getur sá sem sýnir fram á tjón vegna skipulags eftir atvikum átt rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Slík bótaákvörðun á hins vegar ekki undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. desember 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir spildu úr landi Minna-Hofs.

32/2021 Arnarnesvegur

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 25. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 um að breyting á útfærslu gatnamóta við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. mars 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Vinir Vatnsendahvarfs þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 að breyting á útfærslu gatnamóta við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að nýtt mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna 3. kafla Arnarnesvegar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 26. apríl 2021.

Málavextir: Með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2003 féllst Skipulagsstofnun á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Taldi stofnunin að framkvæmdin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var ákvörðunin kærð til umhverfisráðherra, sem staðfesti hana með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2003. Lagning vegarins hefur farið fram í áföngum en þriðji áfangi, milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík, hefur ekki verið lagður. Með bréfi, dags. 26. október 2020, óskaði Vegagerðin eftir áliti Skipulagsstofnunar um hvort ný útfærsla á vegamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar væri háð mati á umhverfisáhrifum. Fæli útfærslan í sér brú yfir Breiðholtsbraut og ljósastýrð vegamót og kom fram í matsskyldufyrirspurn Vegagerðarinnar að um væri að ræða sameiginlega niðurstöðu Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar. Við meðferð málsins óskaði Skipulagsstofnun eftir umsögnum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Landverndar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vina Vatnsendahvarfs vegna matsskyldufyrirspurnarinnar. Hinn 16. febrúar 2021 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun sinni vísaði stofnunin m.a. til þess að framkvæmdin fælist í breytingu á útfærslu gatnamóta frá fyrri áformum, sem kæmi ekki til með að auka umferðarónæði eða mengun í íbúðarbyggð eða á útivistarsvæðum og sem jafnframt fæli í sér minna inngrip í ásýnd svæðanna.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að þar sem 18 ár séu liðin frá mati á umhverfisáhrifum hafi forsendur breyst verulega frá því Skipulagsstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Landnotkun, löggjöf um umhverfismál og alþjóðlegar skuldbindingar hafi tekið breytingum. Sé þess því krafist að nýtt mat verði gert fyrir þriðja áfanga Arnarnesvegar. Framkvæmdin muni hafa verulega neikvæð áhrif á umhverfi, útivist og hljóðvist. Þá muni framkvæmdin breyta ásýnd svæðisins og notagildi til frambúðar á neikvæðan hátt. Eins og vegurinn sé skipulagður í dag sé hann ekkert annað en stórfelld og óafturkræf skipulagsmistök. Mikil þörf sé á endurgerð matsins, sem sé nær tveggja áratuga gamalt, svo og á algjörri endurskoðun á veglagningunni með heildarmyndina í huga. Mikið hafi breyst varðandi áherslur í umhverfis- og samgöngumálum sem nauðsynlegt sé að líta til.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að það falli ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, eins og lög nr. 130/2011 um hana séu úr garði gerð, að taka afstöðu til kröfu kæranda. Að mati stofnunarinnar verði að leggja þann skilning í kæruna að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærandi hafi ekki heimild til að krefjast þess að mat á umhverfisáhrifum Arnarnesvegar frá árinu 2003 verði endurskoðað. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé það viðkomandi leyfisveitandi sem beri að óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda sé veitt. Stofnunin hafi ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um endurskoðun umhverfismats, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 77/2017.

Skilyrði fyrir því að framkvæmd skuli undirgangast mat á umhverfisáhrifum sé að framkvæmdin hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Skilgreiningu á slíkum áhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000, en þar séu umtalsverð umhverfisáhrif skilgreind þannig að um sé að ræða verulega óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Skipulagsstofnunin fái ekki séð að hin tilkynnta framkvæmd hafi þau áhrif sem lýst sé í framangreindri skilgreiningu.

Athugasemdir Vegagerðarinnar: Af hálfu Vegagerðarinnar er aðallega gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Byggist frávísunarkrafan á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt ákvæðinu geti umhverfisverndarsamtök með minnst 30 félaga talist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í tilteknum tilvikum sem talin séu upp í stafliðum a-d. Sjálfstætt viðbótarskilyrði sé að umhverfisverndarsamtökin hafi umhverfisvernd að meginmarkmiði, séu opin fyrir almennri aðild, gefi út ársskýrslur um starfsemi sína og hafi endurskoðað bókhald. Annars konar umhverfisverndarsamtök geti ekki átt aðild að kærumáli. Á heimasíðu kæranda komi fram að Vinir Vatnsendahvarfs séu óformleg samtök fólks sem þyki vænt um Vatnsendahvarfið og vilji stuðla að vernd svæðisins. Frekari upplýsingar sé ekki að finna, hvorki um stjórn, félagsaðild, samþykktir, ársskýrslur eða annað sem geti staðfest að skilyrði laganna séu uppfyllt. Samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins virðist samtökin ekki heldur hafa kennitölu. Því sé óhjákvæmilegt að vísa málinu frá enda sé engin heimild við þessar aðstæður til að taka málið til efnislegrar meðferðar. Breyti engu í því sambandi þótt Skipulagsstofnun hafi óskað eftir umsögn kæranda vegna matsskyldufyrirspurnarinnar, en sú staða veiti ekki sjálfstæða kæruaðild.

Hin kærða ákvörðun sé vel rökstudd og í samræmi við gildandi lög og framlögð gögn. Málsmeðferð hafi verið vönduð og engin ný gögn eða upplýsingar hafi verið lagðar fram af hálfu kæranda sem breytt geti efnislegri niðurstöðu málsins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar málsrök sín um að þörf sé á endurgerð mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Samtökin Vinir Vatnsendahvarfs telji nær 400 meðlimi á Facebook-síðu hópsins og séu flestir þeirra íbúar sem búi í návígi við fyrirhugaðan veg. Á síðu Skipulagsstofnunar komi fram að nágrannar sem búi í návígi við framkvæmdina eigi rétt á að kæra og gera athugasemdir við ákvarðanir stofnunarinnar.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu en þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér í ljósi niðurstöðu máls þessa.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuni að gæta tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geta kært nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 1. og 2. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Undir rekstri máls þessa óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um kæranda m.t.t. þeirra skilyrða sem umhverfisverndar- og útivistarsamtök þurfa að uppfylla skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 til að teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar ákvörðunar. Í svari frá kæranda kom fram að um væri að ræða óformleg samtök íbúa Breiðholts og Kópavogs. Yfir 340 meðlimir séu á Facebook-síðu hópsins, en þar sem samtökin séu ekki formlega stofnuð samtök séu ekki til staðar umbeðin gögn sem sýni fram á skilyrði kæruaðildar. Með hliðsjón af því verður ekki talið að kærandi uppfylli þau skilyrði sem sett eru fyrir aðild skv. 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011. Þá skapar það ekki kæruaðild þótt samtökin hafi komið að athugasemdum við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun. Þar sem kærandi telst ekki uppfylla skilyrði til aðildar í málinu verður kæru hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í ljósi viðbótarathugasemda kæranda telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að enginn tiltekinn íbúi hefur í eigin nafni komið að kæru í þessu máli og vísað til grenndarhagsmuna um aðild sína.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

10/2021 Hringtún

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2021, kæra vegna ákvarðana byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar frá 16. nóvember 2020 um að samþykkja graftrarleyfi fyrir lóðirnar Hringtún 17 og 19 í Dalvíkurbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra A og B, þær ákvarðanir byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar frá 16. nóvember 2020 að samþykkja graftrarleyfi fyrir lóðirnar Hringtún 17 og 19 í Dalvíkurbyggð. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu ákvarðana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalvíkurbyggð 15. febrúar 2021.

Málsatvik og rök: Hinn 16. nóvember 2020 gaf byggingarfulltrúi Dalvíkurbyggðar út graftrarleyfi til handa lóðarhafa Hringtúns 17 og 19, á grundvelli gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Kærendur urðu varir við framkvæmdir á nefndum lóðum í Dalvíkurbyggð 20. s.m. Höfðu þeir í kjölfarið samband við byggingarfulltrúa og spurðust fyrir um hvort búið væri að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdum, auk þess að óska eftir útgefnu leyfi. Því var synjað.

Kærendur taka fram að þeir telji að byggingarleyfi hafi ekki verið og sé hvorki tilbúið né löglegt. Sá sem sæki um byggingarleyfi þurfi að uppfylla skilyrði 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en það geri lóðarhafi umræddra lóða ekki. Þó sé erfitt að segja til um hvað vanti þar sem kærendur fái ekki að sjá leyfið og viti í raun ekki hvort búið sé að gefa út byggingarleyfi eða hvenær það hafi verið gert því það komi ekki fram í fundargerðum hjá umhverfisráði eða sveitarstjórn.

Bæjaryfirvöld vísa til þess að engin byggingarleyfi hafi verið gefin út vegna fyrirhugaðra framkvæmda á umræddum lóðum. Hins vegar hafi verið gefið út leyfi til könnunar á jarðvegi, svokallað graftrarleyfi. Það hafi verið gefið út 16. nóvember 2020 en þar komi skýrt fram að eingöngu sé um að ræða graftrarleyfi og að frekari framkvæmdir séu háðar útgáfu byggingarleyfis að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind séu í gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð. Framkvæmdaraðili hafi einungis lagt fram tillöguteikningar, skráningartöflu og staðfestingu byggingarstjóra áður en það leyfi hafi verið gefið út.

—-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum í máli þessu en hefur ekki nýtt sér það tækifæri.

Niðurstaða: Byggingarleyfi er veitt í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki, en samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hafa hvorki verið samþykkt byggingaráform samkvæmt 11. gr. laganna né verið gefið út byggingarleyfi samkvæmt 13. gr. þeirra. Lúta hinar kærðu ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 16. nóvember 2020 að heimild til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út, sbr. 4. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga, áður 2. mgr. sömu lagagreinar. Í nefndri 2. mgr. 13. gr. laganna var áður einnig að finna heimild leyfisveitanda til þess að veita skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkaðist leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.

Sambærilegar heimildir til að annars vegar veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og hins vegar að heimila könnun jarðvegs á lóð án þess að byggingarleyfi hefði verið gefið út var áður að finna í 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í nefndaráliti með breytingartillögu á frumvarpi því er varð að nefndum lögum kemur fram að lagt sé til að við 2. mgr. 44. gr. bætist við ákvæði þess efnis að veita megi leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda ef sérstaklega standi á og gert sé ráð fyrir að leyfið takmarkist hverju sinni við samþykkt hönnunargögn. Einnig geti byggingarfulltrúi veitt lóðarhafa heimild til að kanna jarðveg á byggingarlóð sinni áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út. Fyrir nefnda breytingartillögu sagði í frumvarpinu í athugasemdum við þá grein sem að efni til varð 2. mgr. 44. gr. að um nýmæli sé að ræða. Byggingarleyfi, sem veitt sé út á aðaluppdrætti, veiti ekki heimild til framkvæmda, heldur þurfi einnig að koma til sérstakt framkvæmdaleyfi en það tryggi að fullnægjandi burðarþols-, kerfis- og deiliuppdrættir hafi verið gerðir og að byggingarstjóri og iðnmeistari hafi verið ráðnir til verksins og þeir undirritað yfirlýsingu um ábyrgð sína á leyfðum framkvæmdum. Þá er tekið fram að í undantekningartilvikum sé þó heimilt að veita framkvæmdaleyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda, t.d. að grafa grunn, þótt mannvirki hafi ekki verið hannað í smáatriðum, enda kunni það að vera nauðsynlegt til að afla upplýsinga vegna hönnunar mannvirkisins. Er því ljóst að ætlun löggjafans var að t.d. til graftar grunns þyrfti takmarkað byggingarleyfi en heimild til að kanna jarðveg er viðurhlutaminni eins og orðalag ákvæðisins gefur jafnframt til kynna.

Með breytingalögum nr. 64/2018 var numin úr mannvirkjalögum heimild leyfisveitanda til að veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda, en á sama tíma var fallið frá þeirri kröfu að allir séruppdrættir þyrftu að liggja fyrir áður en byggingarleyfi er gefið út. Áfram er þó skilyrði að ljúka þurfi allri hönnun áður en framkvæmt verður og má því ekki hefja framkvæmdir við verkþátt fyrr en séruppdrættir sem að honum snúa hafa verið lagðir fram og þeir áritaðir af leyfisveitanda. Óröskuð er hins vegar heimild byggingarfulltrúa að veita umsækjanda um byggingarleyfi heimild til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði áður en byggingarleyfi er gefið út.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á. Hinar kærðu ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 16. nóvember 2020 fela einungis í sér heimild til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði, sbr. títtnefnda 4. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga. Slíkt leyfi heimilar lóðarhafa ekki að hefja neinar framkvæmdir, s.s. að grafa grunn fyrir mannvirki, heldur eingöngu könnun á jarðvegi, s.s. til að ganga úr skugga um undirstöður fyrirhugaðs mannvirkis. Slíkar framkvæmdir eru lítilvægar eins og áður er komið fram og almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. Verða kærendur af framangreindum ástæðum ekki taldir eiga kæruaðild vegna hinna umdeildu ákvarðana í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. Hins vegar er áréttað að samþykki byggingarfulltrúi byggingaráform skv. 11. gr. laga nr. 160/2010 sætir sú ákvörðun eftir atvikum kæru til úrskurðarnefndinnar.

Rétt er að benda á að telji kærendur leyfishafa hafi farið út fyrir útgefin leyfi til könnunar jarðvegs, geta þeir beint erindi til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins þess efnis, en í samræmi við 1. mgr. 8. gr. laga um mannvirki hefur byggingarfulltrúi eftirlit með mannvirkjagerð sem fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna.

Úrskurðarorð

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

96/2020 Esjumelar

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 4. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. júlí 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6 við Bronssléttu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Kvíslartungu 92, eigandi, Laxatungu 185, eigandi, Leirvogstungu 92, eigandi, Laxatungu 10, eigandi, Vogatungu 53 og sveitarfélagið Mosfellsbær þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. júlí 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6 við Bronssléttu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. nóvember 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur 15. janúar 2020 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6 við Bronssléttu. Í breytingunni fólst m.a. heimild til að sameina nokkrar lóðir í lóðina Bronssléttu 6 og heimila þar starfsemi malbikunarstöðvar. Var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 43. gr., og samþykkti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 16. janúar 2020. Tillagan var í kjölfarið auglýst 30. s.m. og frestur gefinn til athugasemda til 12. mars s.á. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 1. júlí s.á. var breytingartillagan tekin fyrir ásamt athugasemdum sem bárust á kynningartíma hennar auk þess sem umsögn skipulagsfulltrúa frá 11. júní 2020 var lögð fram. Með vísan til 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga var tillagan samþykkt með áorðnum breytingum í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa. Á fundi borgarráðs 2. júlí s.á. var samþykkt skipulags- og samgönguráðs staðfest. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 11. september 2020.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að umrætt svæði á Esjumelum sé mjög nálægt sveitarfélagsmörkum Mosfellsbæjar og í næsta nágrenni við stóra íbúðarbyggð bæjarins, Leirvogstunguhverfi. Aðeins sé um kílómetri milli nýrrar malbikunarstöðvar og þéttrar byggðar. Fyrirhuguð malbikunarstöð hafi í för með sér neikvæð sjón- og umhverfisáhrif fyrir íbúana og muni m.a. skerða gæði útivistar, auk þess sem mengandi iðnaður kunni að hafa neikvæð áhrif á fasteignaverð íbúða á nærliggjandi svæðum. Hafa verði í huga að Reykjavíkurborg vinni nú markvisst að því að færa mengandi iðnað frá íbúðarbyggð í Reykjavík. Liður í því sé að færa slíkan mengandi iðnað á Esjumela án þess að tekið sé tillit til íbúa sem þar búi.

Kærendur sem eru íbúar og eigendur fasteigna í Leirvogstungu eigi lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála af því að fá niðurstöðu nefndarinnar um lögmæti deiliskipulagsbreytingarinnar. Jafnvel þótt hin kærða ákvörðun beinist ekki sérstaklega að kærendum þá varði hún hagsmuni þeirra og réttindi umfram aðra. Í athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi m.a. að hugtakið aðili máls beri að skýra „rúmt þannig að ekki sé einungis átt við þá sem eiga beina aðild að máli, svo sem umsækjendur um byggingarleyfi […], heldur geti einnig fallið undir það þeir sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta, svo sem nágrannar […].“ Við mat á beinum og lögvörðum hagsmunum kærenda verði því líta til þess að Esjumelar séu í næsta nágrenni við heimili þeirra. Þá séu ótalin þau sjónrænu áhrif sem fylgi malbikunarstöðvum og annarri mengandi iðnaðarstarfsemi rétt við íbúðarbyggð. Reykjavíkurborg hafi ekki kynnt breytinguna sérstaklega fyrir íbúum í Leirvogstungu og því hafi kærendum ekki verið gefinn kostur á að tjá hug sinn áður en ákveðið hafi verið að heimila mengandi iðnað skammt frá heimilum þeirra og náttúruperlum.

Lagaleg skylda hvíli á Reykjavíkurborg að haga skipulagsáætlunum sínum til samræmis við skipulagsáætlanir Mosfellsbæjar. Að sama skapi sé borginni skylt að kynna aðalskipulagsbreytingar fyrir Mosfellsbæ og því megi ætla að Mosfellsbær hafi eitthvað að segja um deiliskipulagsbreytingar sem sveitarfélagið telji ekki samræmast aðalskipulagi. Skipulagslöggjöfin geri beinlínis ráð fyrir að hagsmunir aðliggjandi sveitarfélaga fari saman við uppbyggingu á svæðum á sveitarfélagamörkum og leiði lögvarðir hagsmunir Mosfellsbæjar því af lögum. Sveitarfélagið hafi augljósra hagsmuna að gæta af uppbyggingu á iðnaðarsvæðum á Esjumelum, enda sé fyrirséð að slík landnotkun muni hafa verulega takmarkandi áhrif á athafnir þess og skipulagsáætlanir til frambúðar. Til dæmis kunni mengun og aukin umferð vörubíla og stórvirkra vinnuvéla frá slíku iðnaðarsvæði að takmarka möguleika sveitarfélagsins á uppbyggingu þeirra svæða sem standi næst Esjumelum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi deiliskipulagsbreytingarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hafi þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Ekki sé með neinu móti hægt að sjá að kærendur eigi hagsmuni tengda málinu, hvað þá að þeir hagsmunir geti talist verulegir.

Fasteignir kærenda séu í um 1,5 km fjarlægð frá hinni fyrirhuguðu starfsemi og verði ekki séð að mannvirki verði í augsýn frá fasteignum kærenda þótt ekki sé loku fyrir það skotið að einstakir byggingarhlutar muni mögulega sjást frá einhverjum af lóðum kærenda. Lóð malbikunarstöðvarinnar sé staðsett á bak við þau mannvirki sem þegar hafi risið á Esjumelum. Þótt mögulega sjáist í topp einhverra mannvirkja malbikunarstöðvarinnar frá fasteignum kærenda geti það ekki haft áhrif á hagsmuni þeirra. Réttur til óbreytts útsýnis um aldur og ævi sé auk þess ekki bundinn í lögum. Kærendur hafi ekki einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Einnig beri að vísa kæru Mosfellsbæjar frá nefndinni þar sem sveitarfélagið geti hvorki talist aðili að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né átt þá einstaklega lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem séu skilyrði kæruaðildar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka að samkvæmt athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri að skýra hugtakið aðili máls rúmt þannig að þeir sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta falli einnig undir það. Í athugasemdunum segi einnig að ómögulegt sé að gefa ítarlegar leiðbeiningar um það hvenær maður teljist aðili máls og hvenær ekki, heldur ráðist það af málsatvikum hverju sinni. Það ráðist m.a. af því hvaða svið stjórnsýslunnar sé um að ræða. Ljóst sé að skoða verði eðli framkvæmdarinnar, starfsemina sem henni fylgi og hugsanleg áhrif hennar á kærendur við mat á því hvort þeir geti talist hafa lögvarinna hagsmuna að gæta. Við það mat verði að líta til þess að kærendur búi ásamt fjölskyldum sínum í Leirvogstunguhverfi. Um sé að ræða tiltölulega nýtt og fjölskylduvænt hverfi þaðan sem m.a. sé stutt að sækja í ýmis konar útivist. Hagsmunir þeirra einskorðist því ekki við nákvæma staðsetningu fasteigna þeirra heldur sé óhjákvæmilegt að líta til svæðisins í heild, bæði varðandi sjónræna þætti og með tilliti til annarrar mengunar og afleiddra áhrifa.

Hafið sé yfir allan vafa að umrædd malbikunarstöð teljist til mengandi iðnaðar en um það vísist til þeirra krafna sem gerðar séu til starfsemi malbikunarstöðva. Slíkar kröfur séu ekki gerðar nema þegar mengunarhætta sé til staðar og því augljóst að malbikunarstöðvar flokkist undir mengandi starfsemi. Hér megi einnig vísa til þeirra gagna sem legið hafi til grundvallar þegar aðalskipulagi borgarinnar á Esjumelum hafi verið breytt varðandi iðnað og aðra landfreka starfsemi. Í umhverfisskýrslu sem unnin hafi verið fyrir Reykjavíkurborg í febrúar 2019 séu malbikunarstöðvar t.a.m. skilgreindar sem „meira mengandi starfsemi“, og sé þar jafnframt tiltekið að slík starfsemi falli undir skilgreiningu „iðnaðarsvæða“. Fram hafi komið í auglýsingu hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar að markmiðið væri að „tryggja aukið framboð lóða fyrir mengandi iðnað […]“. Áhrif malbikunarstöðvarinnar takmarkist því ekki við sjónræna þætti líkt og borgin reyni að halda fram í greinargerð sinni. Mengun kunni auðveldlega að berast um svæðið og því megi ætla að starfsemin hafi áhrif á lífsgæði kærenda. Þá sé fyrirséð að þungaflutningar muni aukast á svæðinu með tilheyrandi mengun og áhrifum á almenna umferð. Í öllu falli séu áhrifin óljós og því eðlilegt að kærendur hafi eitthvað um málið að segja, enda verði að túlka óvissu um mengun og áhrif hennar á íbúa kærendum í hag. Að auki hafi mengandi iðnaðarstarfsemi bein áhrif á verðmæti fasteigna kærenda og ímynd hverfisins.

Bent sé að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi í máli nr. 133/2019 talið að kærendur hefðu lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um að samþykkja deiliskipulag sem heimilaði byggingu svínabús í ríflega kílómetra fjarlægð frá íbúðarhúsum kærenda. Sagði þar m.a. að í ljósi eðlis þeirrar starfsemi sem hið kærða deiliskipulag hafi gert ráð fyrir sé ekki unnt að útiloka að hún geti snert hagsmuni kærenda, t.a.m. vegna lyktarmengunar. Sömu sjónarmið eigi við í því máli sem hér sé til umfjöllunar. Sú mengun og önnur áhrif sem stafi frá malbikunarstöðinni sé vafalaust meira heilsuspillandi heldur en lyktarmengun sem stafi frá svínabúum.

Líta verði til þess að Mosfellsbær hafi óumdeilanlega aðildarstöðu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Tillaga að deiliskipulaginu hafi t.a.m. verið send bænum til umsagnar í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 um að aðliggjandi sveitarfélögum beri að samræma skipulagsáætlanir sínar. Að auki feli skipulagslög sveitarfélögum það hlutverk að fara með hagsmuni íbúanna eins og atvikum sé háttað í þessu máli. Af þeirri ástæðu hljóti sveitarfélagið einnig að hafa einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta. Þannig leiði hinir lögvörðu hagsmunir bæjarins í málinu beinlínis af lögum. Þá verði að horfa til þess að fulltrúar borgarinnar hafi fundað með fulltrúum Mosfellsbæjar og gefið bænum kost á að leggja inn frekari og ítarlegri athugasemdir síðar í ferlinu. Verði bærinn ekki talinn eiga lögvarða hagsmuni myndi það ganga gegn meginreglunni um að sá sem eigi aðild að máli á lægra stjórnsýslustigi eigi jafnframt aðild á æðra stjórnsýslustigi.

Mosfellsbær sé einnig eigandi að landsvæði á sveitarfélagamörkum og sé sveitarfélaginu því unnt að gæta hagsmuna sinna með sambærilegum hætti og einkaréttarlegur aðili. Allar íbúðarhúsalóðir í Leirvogstunguhverfi séu leigulóðir í eigu sveitarfélagsins. Þessar landareignir séu í um 6-700 m fjarlægð frá deiliskipulagssvæðinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi. Felur breytingin m.a. í sér að sameina nokkrar lóðir í lóðina Bronssléttu 6 og heimila þar starfsemi malbikunarstöðvar, en málsrök kærenda snúa einvörðungu að þeirri breytingu skipulagsins.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Við mat á því hvort kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Almennt ber því að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Verður því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta.

Sveitarfélagið Mosfellsbær vísar m.a. til þess að lögvarðir hagsmunir þess leiði af skipulagslögum nr. 123/2010 þar sem löggjöfin geri ráð fyrir að hagsmunir aðliggjandi sveitarfélaga fari saman við uppbyggingu á svæðum á sveitarfélagamörkum. Sú landnotkun sem heimiluð er með hinu kærða deiliskipulagi hafi verulega takmarkandi áhrif á athafnir sveitarfélagsins og skipulagsáætlanir til frambúðar. Þá verði að líta til þess að sveitarfélagið hafi óumdeilanlega haft aðildarstöðu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga annast sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulags og ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Taki deiliskipulagstillaga til svæðis sem liggur að mörkum aðliggjandi sveitarfélags skal tillagan kynnt sveitarstjórn þess sveitarfélags skv. 41. gr. skipulagslaga. Að öðru leyti gera lögin ekki ráð fyrir aðkomu nágrannasveitarfélaga við deiliskipulagsgerð annars sveitarfélags en samráð nágrannasveitarfélaga um sameiginleg hagsmunamál á vettvangi skipulagsmála fer fram við gerð svæðis- og aðalskipulags. Verður því ekki fallist á að sérstök kæruaðild Mosfellsbæjar sem sveitarfélags verði leidd af skipulagslögum.

Um lögvarða hagsmuni kærenda sem eigenda fasteigna í nágrenni umrædds deiliskipulagssvæðis er vísað til þess að aðeins sé um kílómetri milli nýrrar malbikunarstöðvar og íbúðarbyggðarinnar Leirvogstunguhverfis. Fyrirhuguð malbikunarstöð muni hafa í för með sér neikvæð sjónræn- og umhverfisáhrif fyrir íbúana og skerða gæði útivistar, auk þess sem mengandi iðnaður kunni að hafa neikvæð áhrif á fasteignaverð íbúða á nærliggjandi svæðum. Hefur sveitarfélagið Mosfellsbær jafnframt bent á það eigi landareignir í um 6-700 m fjarlægð frá deiliskipulagssvæðinu og sé sveitarfélaginu því unnt að gæta hagsmuna sinna með sambærilegum hætti og einkaréttarlegur aðili.

Við mat á því hvort kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður að líta til þess að fasteignir kærenda í Leirvogstunguhverfi eru í u.þ.b. 1,3-1,9 km fjarlægð frá fyrirhugaðri malbikunarstöð og landareignir Mosfellsbæjar eru í tæplega kílómetra fjarlægð þar sem þær eru næst stöðinni. Liggur Vesturlandsvegur á milli deiliskipulagssvæðisins annars vegar og Leirvogstunguhverfis og hluta landareigna sveitarfélagsins hins vegar. Aðrar þær landareignir sveitarfélagsins sem gætu skapað þeim einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni liggja í næsta nágrenni vegarins. Ekki verður séð að grenndarhagsmunir kærenda muni skerðast að nokkru marki hvað varðar landnotkun eða útsýni enda þótt þeir eygi t.d. reyk frá reykháfi fyrirhugaðrar stöðvar. Sama á við um mögulegan hávaða frá verksmiðjunni þegar tekið er tillit til staðhátta. Í umhverfismati skipulagsins er greint frá því að starfsemi malbikunarstöðvarinnar geti mögulega haft neikvæð áhrif á aðliggjandi svæði vegna loftmengunar en með síubúnaði frá útblæstri og með rykbindingu sé hægt að halda því í lágmarki. Áhrif breytingarinnar séu því metin óveruleg/neikvæð. Hvað hljóðmengun varði sé nokkur hvinur frá tækjum og einnig áhrif frá umferð stórra vinnuvéla og þungaflutningabifreiða en vegna staðsetningar og fjarlægðar frá byggð séu þau áhrif talin óveruleg.

Starfsemi sú sem fjallað er um í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er mengandi og háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar, en starfsemin fellur ekki undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Um varnir gegn loftmengun er fjallað í ýmsum reglugerðum. Markmið reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði er m.a. að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum loftmengunar á heilsu manna og umhverfið. Í því skyni mælir 5. gr. reglugerðarinnar fyrir um að í ákvæðum starfsleyfa fyrir mengandi atvinnurekstur skuli viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun og að beita skuli til þess bestu fáanlegu tækni. Í reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit er í 52. gr. fjallað um loftgæði. Samkvæmt henni skulu ábyrgðaraðilar starfsleyfisskylds atvinnurekstrar, sbr. m.a. IX. viðauka sem tilgreinir malbikunarstöðvar, sem hefur í för með sér losun mengandi efna í andrúmsloft, gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með umhverfisstjórnun og hreinsibúnaði, til að draga úr slíkri losun eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð um loftgæði og reglugerð nr. 920/2016 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu, styrk ósons við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings. Meðal markmiða síðargreindrar reglugerðar er að setja viðmiðunar- og viðvörunarmörk fyrir nefnd efni sem miða að því að fyrirbyggja eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og umhverfið í heild, sbr. b. lið 1. gr. Gildir reglugerðin m.a. um atvinnurekstur hér á landi, sbr. 2. mgr. 2. gr. Þá er jafnan í starfsleyfum vegna starfsemi malbikunarstöðva kveðið á um varnir gegn mengun ytra umhverfis, s.s. losunarmörk fyrir útblástur og þann hreinsibúnað sem skal vera til staðar, auk þess sem rekstraraðila ber að nota bestu aðgengilegu tækni við mengunarvarnir, sbr. reglugerð nr. 935/2018 um BAT (bestu aðgengilegu tækni) o.fl. á sviði atvinnurekstrar sem haft getur í för með sér mengun. Verður að gera ráð fyrir að hliðstæð skilyrði verði sett þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er og þannig verði dregið úr þeirri loftmengun sem óhjákvæmilega fylgir starfseminni. Þótt ekki sé hægt að útiloka að loftmengun aukist með fyrirhugaðri starfsemi og hafi e.t.v. einhver áhrif á hagsmuni kærenda verður að líta til þess að samkvæmt gögnum frá Veðurstofu Íslands er vindafar deiliskipulagssvæðisins hagstætt gagnvart Leirvogstunguhverfi. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af þeirri fjarlægð sem fyrrgreindar eignir eru í frá fyrirhugaðri starfsemi verður ekki talið að möguleg áhrif vegna loftmengunar séu með þeim hætti að varðað geti hagsmuni kærenda svo verulega að þeir eigi þá einstaklingsbundnu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra sem skapi þeim kæruaðild. Loks lúta málsrök kærenda um skert gæði útivistar og áhrif á náttúruperlur fyrst og fremst að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna en ekki einstaklega.

Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir hin umdeilda starfsemi sem heimiluð er með kærðri deiliskipulagsbreytingu ekki þess eðlis að það snerti grenndarhagsmuni kærenda eða aðra einstaklega lögvarða hagsmuni þeirra með þeim hætti að þeir geti talist eiga kæruaðild í máli þessu. Þar sem skilyrðum kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 telst ekki fullnægt verður kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

Sérálit Aðalheiðar Jóhannsdóttur prófessors: Ég er ósammála þeirri niðurstöðu meirihlutans að vísa málinu frá og tel að taka eigi málið til efnismeðferðar með eftirfarandi rökum.

Við mat á því hvort kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður að líta til þess að malbikunarstarfsemi er mengandi iðnaður og sem slíkur háður starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Fasteignir kærenda í Leirvogstunguhverfi eru í u.þ.b. 1,3-1,9 km fjarlægð frá fyrirhugaðri malbikunarstöð og landareignir Mosfellsbæjar eru í tæplega kílómetra fjarlægð þar sem þær eru næst stöðinni. Í starfsleyfum vegna starfsemi malbikunarstöðva er jafnan kveðið á um varnir gegn mengun ytra umhverfis, s.s. losunarmörk fyrir útblástur og þann hreinsibúnað sem skal vera til staðar, auk þess sem rekstraraðila ber að nota bestu aðgengilegu tækni (BAT) við mengunarvarnir. Þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir að hliðstæð skilyrði verði sett þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er á skipulagssvæðinu verður þó ekki hjá því litið að loftgæði munu að öllum líkindum minnka í nágrenni stöðvarinnar. Kemur enda fram í umhverfismati skipulagsins að starfsemin geti mögulega haft neikvæð áhrif á aðliggjandi svæði vegna loftmengunar. Að því virtu er ekki hægt að útiloka að kærendur verði fyrir áhrifum af loftmengun og öðru ónæði frá starfseminni umfram aðra og með vísan til þeirra sjónarmiða sem reifuð eru fremst í niðurstöðu meirihlutans um aðild að kærumálum er það mat mitt að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem krafist er skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

121/2019 Reynilundur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 29. október fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. október 2019 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs Reynilundar 11 ásamt því að gera dyr og glugga á suðurhlið hans.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Reynilundi 11, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. október 2019 að synja umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs Reynilundar 11 ásamt því að gera dyr og glugga á suðurhlið hans. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir: Með umsókn, dags. 27. september 2017, sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs þeirra að Reynilundi 11 um 1,5 m til suðurs auk þess sem settar yrðu dyr og gluggi á suðurhlið bílskúrsins. Með umsókn voru lögð fram samþykki íbúa Reynilundar 13 og 15, en ekki Reynilundar 17, en um er að ræða raðhúsalengjuna Reynilund 11-17. Skipulagsnefnd tók umsóknina fyrir 26. apríl 2019 og ákvað að grenndarkynna hana þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi á svæðinu. Tillögurnar voru grenndarkynntar íbúum Reynilundar 9, 13, 15 og 17. Athugasemdir bárust frá íbúa Reynilundar 17 sem lagðist gegn hinum umsóttu breytingum, en íbúinn er jafnframt arkitekt raðhúsalengjunnar. Með erindi skipulagsstjóra Garðabæjar, dags. 2. september 2019, var kærendum tilkynnt að lögð hefði verið fram niðurstaða húsakönnunar varðandi raðhúsalengjuna Reynilund 11-17, í tengslum við nýtt deiliskipulag Lundahverfis, þar sem varðveislugildi hússins væri metið hátt. Á fundi skipulagsnefndar 4. október 2019 var umsóknin tekin fyrir og með vísan til niðurstöðu húsakönnunar var mælt gegn því að byggingarleyfi yrði veitt og afgreiðslu málsins vísað til bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 17. s.m. var málið tekið fyrir og umsókn kærenda hafnað. Með bréfi, dags. 3. desember 2019, var sú ákvörðun kærð eins og að framan greinir.

Með tölvupósti, dags. 28. janúar 2020, óskaði Garðabær eftir fresti til þess að skila greinargerð og gögnum í málinu þar sem tillaga um nýtt deiliskipulag fyrir svæðið hefði verið tekin fyrir að lokinni auglýsingu á fundi skipulagsnefndar 16. janúar 2020. Samkvæmt upplýsingum skipulagsstjóra hafi verið gerð tillaga að breyttum uppdrætti er sýni stækkun byggingarreita raðhúsanna nr. 11-17 við Reynilund og yrðu þeir uppdrættir á dagskrá skipulagsnefndar 7. febrúar s.á. Kærendur voru upplýstir um beiðni Garðabæjar og gerðu ekki athugasemd við hana. Á fundi bæjarstjórnar 20. febrúar 2020 var nýtt deiliskipulag fyrir umrætt svæði, Lundahverfi, samþykkt og tók það gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 6. maí s.á. Sú ákvörðun bæjarstjórnar var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu um ógildingu þess með úrskurði í máli nr. 46/2020 uppkveðnum 16. október 2020.

Í kjölfar þess að nýtt deiliskipulag tók gildi tilkynntu kærendur byggingarfulltrúa Garðabæjar um fyrirhugaða framkvæmd sína við stækkun bílskúrs, sbr. gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar, 22. september 2020, var staðfest sú afgreiðsla byggingarfulltrúa að tilkynnt framkvæmd vegna stækkunar bílskúrs að Reynilundi 11 væri undanþegin byggingarleyfi, sbr. h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Sú ákvörðun hefur verið kærð af eiganda Reynilundar 17 til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að höfnun byggingarleyfisins sé ómálefnaleg og byggð á meðvirkni og hræðslu. Bæjaryfirvöld hafi í öllum samskiptum við kærendur gefið í skyn að þeim sé ekki stætt á að veita byggingarleyfið þar sem þeir óttist lögsókn eiganda Reynilundar 17 en ekki litið til mögulegrar málsóknar kærenda. Telji kærendur að með þessu sé jafnræðisregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 brotin, sbr. 11. gr. laganna, en þar segi að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þá segi í 2. mgr. ákvæðisins að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á m.a. þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Hér sé niðurstaða málsins grundvölluð á því hver gagnaðilinn í málinu sé, þ.e. eigandi Reynilundar 17, en skoðunum hans sé gert hátt undir höfði hjá bæjaryfirvöldum. Með því séu kærendur álitnir réttlægri í þessu máli og halli verulega á þá. Þá hafi leiðbeiningar bæjaryfirvalda gagnvart kærendum verið af skornum skammti, en skv. 7. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerti starfssvið þess. Að lokum hafi meðferð málsins tekið óhóflega langan tíma, eða rúm tvö ár, og málshraðaregla stjórnsýslulaga því ekki virt, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

———-

Bæjaryfirvöldum Garðabæjar var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í máli þessu en þau hafa ekki tjáð sig um málatilbúnað kærenda.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningar­tilvikum sem þar eru greind.

Hinn 27. september 2017 sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir breytingum á lóð sinni Reynilundi 11, Garðabæ. Þeirri umsókn var hafnað af bæjarstjórn Garðabæjar 17. október 2019. Á fundi bæjarstjórnar 20. febrúar 2020 var samþykkt nýtt deiliskipulag sem tekur til þessa svæðis og er byggingarreitur húss kærenda þar stækkaður um 10 m2 til suðurs. Sú deiliskipulagsákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði í máli nr. 46/2020 uppkveðnum 16. október 2020. Í kjölfar þess að nýtt deiliskipulag tók gildi tilkynntu kærendur byggingarfulltrúa Garðabæjar um fyrirhugaða framkvæmd sína við stækkun bílskúrs, sbr. gr. 2.3.6. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 22. september 2020 var staðfest sú afgreiðsla byggingarfulltrúa að heimila áformaðar framkvæmdir og jafnframt að tilkynntar framkvæmdir væru undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Með tölvupósti úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2020, var kærendum gefinn kostur á að koma að skýringum um það hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni þeir teldu sig enn hafa af úrlausn málsins. Svar barst sama dag og kom fram að ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 22. september s.á. væri enn innan kærufrests og hefðu kærendur þar af leiðandi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Með tölvupósti úrskurðarnefndarinnar, 16. október 2020, var kærendum tilkynnt um það að með úrskurði uppkveðnum sama dag hefði úrskurðarnefndin hafnað kröfu um ógildingu deiliskipulags svæðisins. Voru kærendur inntir eftir því hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni þeir teldu sig enn hafa af úrlausn málsins með tilliti til þess að sú ákvörðun sem kæra í máli þessu beinist að var tekin áður en deiliskipulag hafði tekið gildi. Þeim tölvupósti var ekki svarað.

Fyrir liggur að eftir hina kærðu synjun bæjaryfirvalda á umsókn kærenda um stækkun bílskúrs hafi verið sett deiliskipulag fyrir umrætt svæði þar sem byggingarreitur á lóð kærenda hefur verið stækkaður um 10 m2 en þar var stækkun bílskúrsins fyrirhuguð. Með fyrrgreindri afgreiðslu bæjarráðs 22. september 2020 hafa bæjaryfirvöld heimilað áformaðar framkvæmdir á lóðinni Reynilundi 11 og samkvæmt upplýsingum bæjarins er um að ræða sömu framkvæmdir og synjað var um með hinni kærðu ákvörðun í máli þessu. Með samþykki byggingaráforma kærenda hefur hin kærða ákvörðun um synjun fyrri umsóknar sama efnis fallið brott og hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Eiga kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti umdeildrar ákvörðunar. Breytir þar engu um hver örlög kærumáls vegna hinnar nýju ákvörðunar um samþykki byggingaráforma þeirra verða eins og atvikum er háttað. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Afgreiðsla máls þessa hjá úrskurðarnefndinni hefur dregist vegna beiðni aðila sem freistuðu þess að leita lausnar í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

56/2020 Esjumelar

Með

Árið 2020, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. apríl 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Mosfellsbær þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. apríl 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. júlí 2020.

Málavextir: Hinn 11. desember 2019 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu. Í breytingunni fólst að heimilt væri að starfrækja malbikunarstöð á lóðinni. Borgar-ráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 9. janúar 2020 og var hún auglýst til kynningar með fresti til athugasemda frá 20. s.m. til 2. mars s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma og var afstaða tekin til þeirra í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. mars 2020. Skipulags- og samgönguráð vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 1. apríl s.á. sem sam-þykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 2. s.m. Með erindi, dags. 24. apríl 2020, sendu borgaryfirvöld Skipulagsstofnun deiliskipulagsbreytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Með bréfi, dags. 22. maí s.á, tilkynnti stofnunin að hún gerði ekki athugasemd við birtingu aug-lýsingar um samþykkt deiliskipulagsins og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að deiliskipulagsbreytingin vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu feli í sér að verið sé að breyta stórum hluta „athafnasvæðisins“ á Esjumelum í „iðnaðarsvæði“ í skilningi skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Slík breyting samræmist ekki gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Óheimilt sé að breyta landnotkun sem ákveðið hafi verið í aðalskipulagi með deiliskipulagsbreytingu. Óumdeilt sé að umrætt svæði á Esju-melum sé skilgreint sem „athafnasvæði (AT)“ í aðalskipulagi. Deiliskipulagsbreytingin feli í sér að verið sé að heimila starfsemi sem geti haft mengun í för með sér. Í breytingunni felist þ.a.l. rýmkun á landnotkun sem samræmist ekki aðalskipulagi. Hafi breytingin vegna framan-greindra lóða ekki verið kynnt kæranda. Slíkt brjóti í bága við ákvæði 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annars vegar sé skýrt kveðið á um að athafnasvæðið á Esjumelum sé ekki ætlað undir iðnaðarstarfsemi en hins vegar sé að finna vissar heimildir fyrir slíkri starfsemi. Í ljósi framangreinds verði því að túlka aðalskipulagið á þann veg að iðnaðarstarfsemi verði eingöngu heimiluð í algjörum undantekningartilvikum.

Umrætt svæði á Esjumelum sé nálægt sveitarfélagamörkum kæranda og í næsta nágrenni við stóra íbúðabyggð bæjarins. Aðeins sé um einn km milli nýrrar malbikunarstöðvar og þéttrar byggðar. Starfsemin hafi einnig í för með sé neikvæð sjónræn áhrif auk neikvæðra umhverfis-áhrifa sem gætu skert gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði sem margir höfuðborgarbúar nýti sér. Kærandi telur sig eiga lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þótt hin kærða ákvörðun beinist ekki sérstaklega að kæranda varði hún hagsmuni hans og réttindi umfram aðra. Lagaleg skylda hvíli á borgaryfirvöldum að haga skipulagsáætlunum sínum til samræmis við skipulagsáætlanir kæranda. Skipulagslöggjöfin geri beinlínis ráð fyrir því að hagsmunir aðliggjandi sveitarfélaga fari saman við uppbyggingu á svæðum á sveitarfélagamörkum.

Esjumelar séu m.a. í nágrenni við íbúðarbyggð og svæði á náttúruminjaskrá sem séu innan sveitarfélagamarka kæranda. Kærandi hafi því augljósra hagsmuna af því að gæta að uppbyggingu á iðnaðarsvæðum á Esjumelum enda sé fyrirséð að slík landnotkun í næsta nágrenni muni hafa veruleg takmarkandi áhrif á athafnir kæranda og skipulagsáætlanir til frambúðar. Mengun og aukin umferð vörubíla og stórvirkra vinnuvéla frá slíku iðnaðarsvæði kunni að takmarka möguleika á uppbyggingu þeirra svæða sem standi næst Esjumelum. Þá séu ótalin þau sjónrænu áhrif sem fylgi malbikunarstöðvum og annarri mengandi iðnaðarstarfsemi rétt utan við bæjardyr.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg telur að ljóst sé að eftir breytingu á Aðal-skipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 20. júní 2019 og staðfest af Skipulagsstofnun 2. september s.á. og hafi m.a. tekið til atvinnusvæðisins á Esju-melum, sé heimilt að vera með iðnaðarstarfsemi á lóðinni nr. 6-8 við Koparsléttu enda sé starfsemin tilgreind sérstaklega í deiliskipulagi og háð sérstöku mati á umhverfisáhrifum viðkomandi starfsemi. Í þeirri ákvörðun hafi m.a. verið lagt mat á það hvort forsvaranlegt væri að viðkomandi svæði, sem áður hafi verið ætlað að taka við þrifalegri iðnaðarstarfsemi, taki við grófari starfsemi.

Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hvaða marki hann telji að aðalskipulagið samræmist ekki skipulagsáætlunum sveitarfélags kæranda. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu hafi verið auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi sérstakrar lýsingar ekki verið þörf enda hafi allar meginforsendur legið fyrir í aðalskipulaginu. Ekki sé heldur fallist á að verið sé að skilgreina landnotkun rýmra í deiliskipulaginu en aðalskipulagið geri ráð fyrir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulags og ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Taki deiliskipulagstillaga til svæðis sem liggur að mörkum aðliggjandi sveitarfélags skal tillagan kynnt sveitarstjórn þess sveitarfélags skv. 41. gr. skipulagslaga. Að öðru leyti gera lögin ekki ráð fyrir aðkomu nágrannasveitarfélaga við deili-skipulagsgerð annars sveitarfélags. Samráð nágrannasveitarfélaga um sameiginleg hagsmuna-mál á vettvangi skipulagsmála fer fram við gerð svæðisskipulags.

Í 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld og er í 7. gr. laganna fjallað um almennar skyldur þeirra. Um lögvarða hagsmuni af úrlausn kæru-máls þessa hefur kærandi vísað í kæru sinni m.a. til þess að umþrætt svæði sé nálægt sveitarfélagamörkum og í næsta nágrenni við stóra íbúðabyggð bæjarins en aðeins sé um einn km á milli fyrirhugaðrar malbikunarstöðvar og þéttrar byggðar. Þá hafi starfsemin í för með sér neikvæð sjónræn áhrif ásamt neikvæðum umhverfisáhrifum, sem geti m.a. skert gæði útivistar á nærliggjandi svæðum sem margir höfuðborgarbúar nýti sér. Verður að telja að framangreind málsrök lúti fyrst og fremst að gæslu hagsmuna sem ekki teljist til einstaklingsbundinna hagsmuna kæranda. Getur kærandi því hvorki talist aðili að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né átt þá einstaklega lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem eru skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með hljóðsjón af því sem að framan er rakið telst kærandi ekki eiga aðild að kærumáli þessu og verður því af þeirri ástæðu málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

111/2019 Svarfhólsskógur

Með

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2019, kæra vegna gjaldtöku fyrir hreinsun rotþróa í Svarfhólsskógi í Hvalfjarðarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi sumarbústaðar að Hátröð 9, Hvalfjarðarsveit, gjaldtöku fyrir hreinsun rotþróa í Svarfhólsskógi. Er þess krafist að sveitarfélagið felli niður næstu árlegu greiðslu fyrir hreinsun rotþróa hjá sumarbústaða­eigendum í Svarfhólsskógi eða endurgreiði þeim „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum. Til vara er þess krafist að næsta árlega greiðsla kæranda vegna hreinsun rotþróar verði felld niður eða að sveitarfélagið endurgreiði honum „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 10. febrúar 2020.

Málavextir: Hinn 15. mars 2017 sendi kærandi, fyrir hönd Svarfhólsskógar, félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi, sveitarstjóra Hvalfjarðarsveitar tölvupóst þar sem bent var á að rotþrær í Svarfhólsskógi, sem síðast hefðu verið hreinsaðar árið 2013, hefðu ekki verið hreinsaðar árið 2016. Því myndu líða fjögur ár á milli hreinsana þrátt fyrir að í 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit væri kveðið á um að rotþrær skuli eigi hreinsa sjaldnar en á þriggja ára fresti. Í bréfinu kom einnig fram að margir sumar­bústaðaeigendur hefðu látið í ljós óánægju sína með hækkun á hreinsunargjaldi fyrir rotþró, en með gjaldskrá nr. 1145/2016 fyrir hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit hækkaði hreinsunar­gjald á rotþró við hvert íbúðarhús og sumarhús úr kr. 8.440 í kr. 11.650. Kom kærandi þeim tilmælum á framfæri við sveitarstjórn að hún freistaði þess að ná hagstæðari samningi um hreinsun rotþróa. Svaraði sveitarstjóri samdægurs og þakkaði ábendingarnar, benti á að farið yrði yfir málin heildstætt og að þjónustugjöld skuli standa undir kostnaði við veitta þjónustu. Í kjölfarið áttu frekari samskipti sér stað milli kæranda og sveitarfélagsins.

Hinn 11. apríl 2018 barst félagi eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi bréf frá skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins þar sem útskýrt var skipulag sveitarfélagsins á hreinsun rotþróa og að árið 2013 hefðu verið gerðar breytingar á fyrirkomulaginu. Bent var á að sveitarfélagið hefði gert samning um hreinsun rotþróa árið 2014 sem gilti til ársins 2019 og væri hann ekki uppsegjanlegur á samningstímanum. Einnig kom fram að undanfarin ár hefði hreinsun rotþróa verið rekin með halla og nauðsynlegt hefði reynst að hækka gjöldin árið 2016 til að mæta raunkostnaði við hreinsun rotþróa.

Hinn 21. apríl 2018 var á aðalfundi félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhóls­skógi skorað á sveitarstjóra að svara erindi formanns félagsins er varðaði forsendur gjaldtöku fyrir sorp- og rotþróarhreinsun og hvernig sveitarfélagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumar­bústaðaeigenda fyrir rotþróahreinsun. Á fundi sveitarstjórnar 8. maí s.á. var samþykkt að hafna kröfu um endurgreiðslu álagðs hreinsunargjalds rotþróa. Hinn 21. mars s.á. barst úrskurðarnefndinni kæra frá félaginu vegna gjaldtöku „fyrir sorp- og rotþróahreinsun í frístundabyggðinni Svarfhólsskógur […] í Hvalfjarðarsveit.“ Með úrskurði 22. október 2019, í kærumáli nr. 90/2018, var kæru félagsins vísað frá sökum aðildarskorts. Kæra í máli þessu barst 28. s.m., eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að í álagningarskrám Hvalfjarðarsveitar á fyrri árum hafi þess verið getið að gjald fyrir hreinsun rotþróar væru uppreiknuð milli ára miðað við vísitölur. Því hafi verið hætt fyrirvaralaust árið 2017 og án nokkurrar útskýringar. Það ár hafi gjald fyrir hreinsun rotþróar verið hækkað um 35%, haldist óbreytt 2018 en hækkað um 6,3% árið 2019. Meintur kostnaður sveitarfélagsins vegna hreinsun rotþróa hafi verið innheimtur með fasteignagjöldum en skipt niður á þrjú ár fyrir hverja hreinsun. Samkvæmt greiðslu­fyrirkomulagi og reglum sveitarfélagsins, sbr. 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit, þar sem kveðið sé á að rotþrær skuli eigi hreinsa sjaldnar en á þriggja ári fresti, hefði átt að hreinsa rotþrær í Svarfhólsskógi árið 2016, en það hafi ekki verið gert. Hvorki hafi verið haft samráð við sumarbústaðaeigendur né þeim verið tilkynnt um breytingu á tíðni hreinsunar, svo sem sveitarfélaginu hafi borið að gera samkvæmt sömu grein samþykktarinnar þar sem segi að sveitarstjórn ákveði að fengnum tillögum framkvæmdaaðila tíðni hreinsunar og skuli ákvörðun tilkynnt íbúum og fyrirtækjum sveitarfélagsins.

Kærandi hafi á árinu 2017 haft samband við fyrirtæki er sjái um hreinsun rotþróa og spurst fyrir um kostnað við hreinsun á rotþróm í eignarlóðum í Svarfhólsskógi ásamt öllum rotþróm á samliggjandi svæði leigulóða í skóginum. Niðurstaðan hafi verið rúmlega einni milljón króna lægri upphæð en það sem sveitarfélagið innheimti á sama svæði. Kærandi hafi kynnt þá niðurstöðu fyrir sveitarstjóra félagsins með bréfi, dags. 15. mars 2017, og hvatt hann til að reyna að ná betri samningi, en það hafi hann ekki gert. Þá hafi kærandi ítrekað óskað eftir rökstuddri og sundurliðaðri gjaldtöku vegna rotþróarhreinsunar. Skipulagsfulltrúi sveitar­félagsins hafi svarað þeirri beiðni 11. apríl 2018 með mjög ófullkominni sundurliðun og hafi því verið óskað eftir nákvæmari sundurliðun, en þeirri beiðni hafi verið vísað til sveitarstjóra. Á aðalfundi félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi 21. apríl 2018 hafi verið skorað á sveitarstjóra að svara erindi kæranda. Áskorunin hafi verið afgreidd með bókun á sveitarstjórnarfundi 8. maí s.á., en þar hafi ranglega verið sagt að gerð hafi verið krafa um endurgreiðslu álagðs hreinsunargjalds rotþróa. Aðeins hafi verið spurt um hvernig sveitar­félagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumarbústaðaeigenda á gjaldinu. Þá sé þeirri staðhæfingu í bókuninni mótmælt að aðilar í Svarfhólsskógi hafi ekki ofgreitt umrætt gjald.

Nýtt tæmingarskipulag hafi verið tekið upp árið 2013, en sumarbústaðaeigendum í Svarfhóls­skógi hafi ekki verið tilkynnt um það. Vegna misskilnings milli forsvarsmanna sveitar­félagsins og verktakans hafi rotþrær ekki verið hreinsaðar fyrr en árið 2017 eða fjórum árum síðar. Eigi að síður hafi sumarbústaðaeigendum verið gert að greiða eina ársgreiðslu í viðbót og hafi þeir því greitt 37,5% meira en allir aðrir í sveitarfélaginu, eða 31.625 kr. fyrir eina hreinsun með fjórum árgjöldum á meðan allir aðrir hafi greitt 22.995 kr. Í greinargerð sveitarfélagsins í kærumáli nr. 90/2018 komi fram að ný þriggja ára lota í Svarfhólsskógi hafi byrjar að líða árið 2014. Sú túlkun sé fráleit þar sem ný þriggja ára lota hafði byrjað um leið og rotþrær hafi verið tæmdar árið 2013.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í kæru komi ekki fram hvaða stjórnvaldsákvörðun sveitarfélagsins sé verið að kæra, sbr. áskilnað þar um í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki sé vísað til neinnar einnar ákvörðunar sveitarfélagsins sem kveði einhliða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli. Ekki liggi fyrir nein kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu. Athuga­semdir kæranda snúi ýmist að ákvörðunum sveitarfélagsins sem varði fleiri en einn aðila sem teljist vera stjórnvaldsfyrirmæli og heyri því ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar eða að tiltekinni ákvörðun stjórnvalds einkaréttarlegs eðlis, þ.e. samningi við verktaka um hreinsun rotþróa eða að framsetningu upplýsinga. Ákvörðun um breytingu á fyrirkomulagi á hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu, sem gengið hafi í gildi árið 2014, sé ekki stjórnvalds­ákvörðun. Fyrirkomulaginu hafi verið breytt með hliðsjón af rekstrarlegum forsendum en augljóst sé að slík ákvörðun varði ekki bara kæranda í afmörkuðu máli heldur alla eigendur fasteigna í sveitarfélaginu sem séu með rotþró.

Aðalkrafa kæranda sé sett fram af hálfu kæranda fyrir hönd allra sumarbústaðaeigenda í Svarfhólsskógi. Vísa verði þeirri kröfu frá þar sem kærandi sé eini eigandi sumarbústaðar í Svarfhólsskógi sem sé aðili að kærumálinu. Hvað varði varakröfu kæranda, þess efnis að næsta ársgreiðsla hans verði felld niður eða að sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða kæranda „fjórðu ársgreiðsluna“ með vöxtum, sé hvorugur liður kröfunnar þess eðlis að nefndin geti úrskurðað um þá. Nefndin geti ekki kveðið á um niðurfellingu álagningar rotþróargjalds sem ekki hafi enn verið lagt á. Þaðan af síður geti nefndin úrskurðað að sveitarfélaginu sé skylt að endurgreiða kæranda „fjórðu ársgreiðsluna“ þar sem hún geti ekki úrskurðað um kröfur sem séu af fjárhagslegu eðli. Því beri að vísa kærunni frá í heild sinni þar sem hún uppfylli hvorki þá kröfu sem lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geri til kröfugerðar né almennar reglur stjórnsýsluréttar um að stjórnsýslukæra skuli varða tiltekna stjórnvaldsákvörðun.

Sveitarfélaginu sé skylt skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs að ákveða fyrirkomulag tæmingar á rotþróm í sveitarfélaginu og beri ábyrgð á flutningi þeirrar seyru sem úr rotþróm komi. Til að standa undir þeim kostnaði sem hljótist af því að uppfylla þá skyldu innheimti sveitarfélagið rotþróargjald á grundvelli gjaldskrár nr. 1145/2016 fyrir hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit. Gjaldskráin sé sett á grundvelli samþykktar nr. 583/2008 um fráveitu í Hvalfjarðarsveit, en samþykktin hafi sjálf verið sett á grundvelli ákvæða 3. málsl. 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nú 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna, og 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, nú 59. gr. laganna. Í 23. gr. samþykktarinnar komi fram að sveitarstjórn skuli setja gjaldskrá til að standa undir kostnaði við söfnun og förgun seyru. Gjaldið skuli standa undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið falli en skuli aldrei vera hærra en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða fram­kvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Söfnun og meðhöndlun á heimilis- og rekstrarúrgangi og sé grunnþjónusta sveitarfélags sem þurfi að vera í föstum skorðum. Hún megi ekki falla niður þótt einhverjir fasteignaeigendur nýti sér hana eða ekki eða þótt þörf til að nýta sér hana sé mismikil. Almennt geti því sá sem greiði þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hljótist af því að veita honum viðkomandi þjónustu sé reiknaður sérstaklega út. Sveitarfélagi sé þannig ekki skylt að reikna út kostnað við hreinsun hverrar rotþróar í sveitarfélaginu, heldur sé því heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á fjölda þeirra, eins og skýrt sé tekið fram í 2. mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, en þar segi: „Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.“ Með vísan til þess sé heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja rotþró í sveitarfélaginu. Vísað sé til eldri úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumálum nr. 17/2013, 31/2013 og 43/2013.

Álögð gjöld fyrir hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit séu ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og teljist gjaldið því lögmætt þjónustugjald. Í gjaldskránni komi fram að hreinsunar­gjald á rotþró við hvert íbúðarhús og sumarhús skuli vera 11.650 kr., en gjaldið hækki þó árlega í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs, sbr. 4. mgr. 2. gr. gjaldskrárinnar og hafi því verið 12.381. kr. vegna ársins 2019. Innheimt hreinsunargjald samkvæmt gjaldskránni hafi hins vegar ekki staðið undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið falli vegna hreinsunar rotþróa. Í þeim skjölum sem skipulags- og umhverfisfulltrúi hafi sent kæranda megi sjá að kostnaður vegna hreinsun rotþróa á árunum 2012-2017 hafi verið 9.500.000 kr. lægri en tekjur af hreinsunargjaldi á sama tímabili, en 5.600.000 kr. tap hafi verið af sömu starfsemi árin 2015-2017 án þess að innri afnot hafi verið tekin með við framsetningu þeirra fjárhæða. Þá hafi tekjur sveitarfélagsins vegna rotþróargjalds á árinu 2018 verið 8.010.726 kr. en kostnaður, án bókfærðra innri afnota, verið kr. 7.282.371 kr. Á árinu hafi innri afnot numið 1.362.233 kr. og hafi því heildartap af starfseminni verið 633.878 kr. Ef ekki sé tekið tillit til innri afnota hafi heildartekjur af rotþróargjaldi vegna áranna 2016-2018 verið 21.929.189 kr. en heildar­kostnaður 22.616.121 kr. Við álagningu rotþróargjalds hafi verið farið eftir fyrirmælum 3. mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, sem og 23. gr. áðurnefndar samþykktar þess efnis að rotþróargjaldið skuli ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem falli til í sveitar­félaginu við meðhöndlun úrgangs og tengdri starfsemi.

Tæmingarfyrirkomulag sveitarfélagsins hafi verið breytt árið 2014. Rotþrær hafi verið tæmdar í sumarbústaðahverfinu í Svarfhólsskógi árið 2013 og af augljósum ástæðum hafi sveitar­félagið ekki talið þörf á hreinsun rotþróa á svæðinu með aðeins árs millibili. Hafi því verið miðað við að þriggja ára lota hæfist í Svarfhólsskógi árið 2014. Sveitarfélagið hafi þó verið meðvitað um það að þar sem fjögur ár myndu líða á milli tæminga kynni að koma upp sú staða að hreinsunarbíll þyrfti að fara sérstakar ferðir til að tæma þær rotþrær sem kynnu að fyllast. Hafi því verið komið til móts við allar slíkir beiðnir sem borist hafi árið 2016 án þess að sérstakt gjald væri tekið fyrir það, en minnihluti sumarhúsaeigenda á svæðinu hafi kallað eftir slíkri þjónustu. Sveitarfélagið þurfi að hafa svigrúm til að geta gert breytingar á atriðum sem tengjast rekstri sveitarfélagsins á meðan slíkar breytingar komi ekki niður á íbúum þess eða þeirri þjónustu sem lögboðið er að þeir skuli njóta. Þá sé bent á að í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru, þar sem kveðið sé á um að sveitarstjórnir skuli sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm, hljóti jafnframt að felast heimild sveitarstjórnar til að gera þær breytingar á kerfisbundinni tæmingu sem hún telji nauðsynlegar. Hafi breyting á tæmingarfyrirkomulagi sveitarfélagsins árið 2014 verið innan þeirrar heimildar. Hið nýja fyrirkomulag frá árinu 2014 hafi tekið við af gamla fyrirkomulaginu sem hafi gert ráð fyrir að ný þriggja ára lota hæfist árið 2013. Eldra fyrirkomulagið hafi þar með fallið niður samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann dragi ekki í efa að valdið sé hjá sveitarfélaginu að ákveða tíðni hreinsana, en sveitarfélaginu beri skylda til að tilkynna slíkar breytingar til íbúanna líkt og kveðið sé á um 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit. Krafa kæranda snúist um að vera ekki látinn greiða fyrir þjónustu sem ekki sé veitt. Með „fjórðu árgreiðslunni“ sé kærandi að vísa til rotþróargjaldsins ársins 2017 sem sveitarstjórn hafi lagt á sumarbústaði í Svarfhólsskógi með óréttmætum hætti. Breyting á fyrirkomulagi tæminga rotþróa í Svarfhólsskógi hafi haft þau áhrif á fasteignareigendur þar að þeir hafi verið krafðist um 37,5% hærra gjald en allir aðrir í Hvalfjarðarsveit. Sveitarfélaginu hafi borið að fella niður gjald fyrir tæmingu rotþróar árið 2017 til að laga það að breyttu skipulagi þegar það hafi einhliða og án nokkurrar tilkynningar þar um ákveðið að fresta þá fullgreiddri þjónustu um eitt ár. Sveitarfélagið vísi sjálft til þess að með nýju fyrirkomulagi á tæmingu rotþróa árið 2014 hafi eldra fyrirkomulag verið fellt úr gildi en hafi þrátt fyrir það hefði verið haldið áfram að innheimta gjaldið.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð gjaldtaka af hálfu Hvalfjarðarsveitar vegna hreinsunar rotþróa í Svarfhólsskógi. Gerir kærandi aðallega þá kröfu að sveitarfélagið felli niður næstu árlegu greiðslu fyrir rotþróahreinsun hjá sumarbústaðaeigendum í Svarfhólsskógi eða endurgreiði þeim „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum. Aðrir sumarbústaðaeigendur en kærandi eru ekki aðilar að kærumáli þessu og er hann ekki til þess bær að gera kröfu í málinu fyrir þeirra hönd.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að sveitarfélagið felli niður næstu árlegu greiðslu hans fyrir rotþróarhreinsun eða endurgreiði honum „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Hlutverk hennar er því að taka afstöðu til lögmætis kæranlegra ákvarðana tiltekinna stjórnvalda og fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að leggja fyrir sveitarfélagið að endurgreiða kæranda „fjórðu árgreiðsluna“.

Eins og atvikum í máli þessu er háttað verður að líta svo á að kærð sé álagning rotþróargjalds á fasteign kæranda að Hátröð 9 vegna ársins 2019 og að krafist sé ógildingar álagningarinnar. Álagningarseðill vegna fasteignagjalda kæranda fyrir árið 2019 er dagsettur 8. febrúar það ár. Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 28. október 2019. Í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega skuli m.a. veita leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti og kæruleið. Á álagningarseðlinum er ekki að finna slíkar leiðbeiningar en vísað er á tiltekna slóð á vefsíðu sveitarfélagsins til nánari upplýsinga án þess að tekið sé fram að þær upplýsingar taki jafnframt til kæruleiðbeininga. Sé slóðin sett inn í vafra opnast skjal með upplýsingum um álagningu gjalda árið 2019, m.a. kæruleiðbeiningum, en það fyrirkomulag þykir ekki fullnægja framangreindum áskilnaði stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af því, sem og vegna þess að á árinu 2019 var kærumál nr. 90/2018 til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi, fyrir hönd Svarfhólsskógar, félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi, kærði gjaldtöku sveitar­félagsins vegna hreinsun rotþróa á sömu forsendum og í þessu máli, verður talið afsakanlegt að kæran hafi borist að loknum kærufresti. Kom enda kærandi kæru að í máli þessu skömmu eftir uppkvaðningu úrskurðar í máli nr. 90/2018 þar sem því var vísað frá. Verður mál þetta er varðar álagningu rotþróargjalds á fasteign kæranda því tekið til efnismeðferðar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, skal sveitarfélag ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrar­úrgangi í sveitarfélaginu og ber ábyrgð á flutningi heimilsúrgangs, en seyra úr rotþróm sumarbústaða telst vera heimilisúrgangur í skilningi laganna. Á grundvelli sama ákvæðis er sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Á grundvelli nefndra lagaákvæða setti Hvalfjarðarsveit samþykkt nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðar­sveit og var hún í gildi þegar hið umdeilda gjald var lagt á fasteign kæranda.

Sveitarfélög skulu skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn og gerð úrgangs, losunartíðni og frágang úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. síðasta málslið ákvæðisins. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna og þágildandi 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, nú 5. mgr. 59. gr. Er gjaldskrá sú sem hin kærða álagning byggir á nr. 1145/2016 um hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit.

Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við hreinsun hverrar rotþróar heldur er því heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 mælir fyrir um. Í gögnum málsins er m.a. að finna sundurliðaðar tekjur og útgjöld sveitarfélagsins vegna hreinsunar rotþróa fyrir árin 2012-2018 og af þeim sést að útgjöld sveitarfélagsins á umræddu tímabili voru talsvert hærri en tekjur. Hin umdeilda álagning, sem fram fór á grundvelli gjaldskrár nr. 1145/2016, er því í samræmi við áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um að innheimt gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður sem fellur til við að veita þjónustuna.

Samkvæmt 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 ákveður sveitarstjórn að fengnum tillögum framkvæmdaaðila tíðni hreinsunar og skal hún tilkynnt íbúum og fyrirtækjum sveitarfélagsins, svo og ef um breytingar er að ræða, með hæfilegum fyrirvara. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að rotþró skuli hreinsa eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Fyrir liggur að árið 2013 voru rotþrær sumarbústaða í Svarfhólsskógi hreinsaðar. Svo sem segir í málavaxtalýsingu kemur fram í bréfi skipulags- og umhverfisfulltrúa til félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi að breytt fyrirkomulag við hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu hafi verið tekið upp árið 2013. Hafi verið gert ráð fyrir að rotþrær í Svarfhólsskógi yrðu hreinsaðar árið 2014, en það hafi þó ekki verið gert „hugsanlega vegna þess að hreinsað var árið 2013.“ Á árinu 2016 hafi verið komið til móts við fólk sem hafi haft samband við skrifstofu sveitarfélagsins vegna fullrar rotþróar og yrði hreinsunarbíll sendur. Mun hreinsun rotþróa hjá öðrum en þeim sem samband höfðu við sveitarfélagið því ekki hafa átt sér stað næst fyrr en árið 2017.

Af fyrrgreindri 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 verður ráðið að sveitarfélaginu hafi borið að tilkynna, m.a. kæranda, um breytt fyrirkomulag á hreinsun rotþróa, en fyrir liggur að það var ekki gert. Breytingin leiddi til þess að fjögur ár liði á milli þess að rotþró kæranda var hreinsuð og er það ekki í samræmi við nefnda 2. mgr. 15. gr. samþykktarinnar. Til þess er þó að líta að sveitarfélagið mun á árinu 2016 hafa sent hreinsunarbíl til þeirra sem óskuðu eftir hreinsun á rotþró. Þá verður að játa sveitarfélagi ákveðið svigrúm til að uppfylla lögbundnar skyldur sínar við að veita þá grunnþjónustu sem því er á herðar lagt, s.s. með breytingum á fyrirkomulagi söfnunar og meðhöndlunar úrgangs, svo fremi að skilyrði til töku þjónustugjalds sé uppfyllt, en eins og fyrr greinir voru álögð gjöld sveitarfélagsins vegna hreinsunar rotþróa talsvert lægri en kostnaður af veittri þjónustu. Að framangreindu virtu verður fyrrgreindur annmarki á breytingu fyrirkomulags við hreinsun rotþróa ekki talinn geta valdið ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu álagningar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu álagningar rotþróargjalds Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2019 vegna fasteignarinnar að Hátröð 9.