Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2025 Löggilding

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 7. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2025, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 15. janúar 2025 um að synja umsókn um löggildingu sem hönnuður.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 15. janúar 2025 að synja umsókn hennar um löggildingu sem hönnuður. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umsóknin samþykkt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 27. febrúar 2025.

Málavextir: Kærandi hlaut M.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík 20. júní 2020 og fékk tæplega ári síðar leyfi ráðherra iðnaðarmála til að nota starfsheitið verk­fræðingur. Í september 2024 sótti kærandi um og fékk leyfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til að sækja löggildingarnámskeið fyrir mannvirkjahönnuði sem stofnunin stóð fyrir, en meðal skilyrða fyrir löggildingu hönnuða er að umsækjandi hafi staðist slíkt próf. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 26. nóvember s.á., var honum tilkynnt um prófseinkunn sína og á meðfylgjandi prófskírteini kom fram að kærandi hefði lokið námskeiði og staðist próf fyrir löggilta mannvirkjahönnuði, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

 Hinn 2. desember 2024 sendi kærandi inn umsókn til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um löggildingu mannvirkjahönnuða skv. 25. gr. mannvirkjalaga. Stuttu síðar hafði starfsmaður stofnunarinnar samband við kæranda símleiðis vegna meintra annmarka á vottorði sem skilað hafði verið inn með umsókninni og kom kærandi að frekari gögnum. Með tölvubréfi stofnunarinnar til kæranda 8. janúar 2025 var honum bent á að það væri metið svo að rekstrarverkfræði fæli ekki í sér þá sérmenntun sem krafa væri gerð um í b-lið 1. mgr. 25. gr. laga nr. 160/2010, þar sem í því námi væri ekki lögð sérstök áhersla á neinn þeirra þátta sem taldir væru upp í stafliðnum. Því væri gerð krafa um að kærandi skilaði inn upplýsingum um þá viðbótarmenntun sem uppfyllti skilyrði ákvæðisins. Veittur var tíu daga frestur til að útvega umrædd gögn og jafnframt bent á að bærust þau ekki yrði umsókninni synjað. Mun kærandi í framhaldinu hafa lagt fram prófskírteini yfir þá áfanga sem hann hafði lokið í skiptinámi sínu við Chalmers tækniháskólann í Svíþjóð. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 15. janúar 2025, var honum tilkynnt að umsókn hans væri hafnað þar sem ekki þætti nægilega sannað að í námi hans sem rekstrar­verkfræðingur hefði falist sérmenntun sem uppfyllti kröfur b-liðar 1. mgr. 25. gr. laga nr. 160/2010. Fæli krafa um sérmenntun að lágmarki í sér að viðkomandi hefði í námi sínu sérhæft sig í þeim greinum sem aðili leitaði eftir löggildingu í. Þá var tekið fram að kærandi hefði hvorki átt að fá þátttökurétt á fyrrnefndu námskeiði né prófrétt og að í ljósi þess yrðu honum endurgreidd gjöld vegna námskeiðsins.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann sé með B.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Fyrra árið í meistaranámi sínu hafi hann numið verkefnastjórnun í hönnun og mannvirkjaiðnaði í Chalmers tækniháskólanum í Svíþjóð og hið síðara rekstrar­verkfræði við Háskólann í Reykjavík. Árið 2020 hafi hann útskrifast sem verkfræðingur frá síðarnefnda háskólanum og fengið alla áfanga metna sem hann hefði lokið á ári sínu í Chalmers.

Kærandi telur sig uppfylla skilyrði 26. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki enda hafi hann fengið að sækja námskeið og taka próf til löggildingar hönnuða hjá Húsnæðis- og  mannvirkja­stofnun. Engin málefnaleg rök hafi verið fyrir þeirri ákvörðun að veita honum þátttökurétt á slíku námskeiði ef menntun hans hafi ekki uppfyllt þær kröfur til að geta öðlast réttindi þau er námskeiðið veiti. Hefði stofnunin þá átt að synja kæranda um aðgang að námskeiðinu enda hafi gögnum um menntun hans verið skilað inn með beiðni um þátttökurétt á námskeiðinu. Það hafi ekki verið gert og eigi kærandi því fullan rétt á að fá umsókn sína samþykkta.

Í b-lið 1. mgr. 25. gr. mannvirkjalaga sé kveðið á um að verkfræðingar og tæknifræðingar með viðkomandi sérmenntun geti fengið löggildingu til að hanna og gera séruppdrætti að m.a. burðarvirkjum og boðveitum. Hvergi sé skilgreint nánar í lögum hvað felist í orðalaginu viðkomandi sérmenntun og hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í engu rökstutt að hvaða leyti kærandi uppfylli ekki framangreindar kröfur. Virðist sem um geðþóttaákvörðun sé að ræða og órökstudda skoðun án þess þó að það eigi sér einhverja stoð í lögum. Sé stjórnvöldum óheimilt að beita svo rýmkandi lögskýringu þegar um íþyngjandi ákvarðanir í garð borgaranna sé að ræða.

Synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé matskennd ákvörðun og því hafi stofnuninni borið að gæta meðalhófs og jafnræðis. Hafi kærandi haft réttmætar, málefnalegar og eðlilegar væntingar til að hljóta löggildingu skv. 25. gr. mannvirkjalaga enda hafi hann staðist öll skilyrði sem tiltekin séu í 26. gr. laganna. Reglan byggist á sjónarmiðum um réttaröryggi, fyrirsjáanleika og traust og beri stjórnvöldum að taka tillit til slíkra væntinga við úrlausn mála. Vegi réttmætar væntingar kæranda þyngra en órökstudd og matskennd ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar.

Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Kærandi uppfylli hvorki skilyrði b-liðar 1. mgr. 25. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki né c-liðar 26. gr. sömu laga. Í b-lið 1. mgr. 25. gr. komi fram að viðkomandi verkfræðingur eða tæknifræðingur þurfi að hafa viðkomandi sérmenntun til að geta hannað og gert nánar upptalda séruppdrætti. Listuð séu upp skilyrði fyrir löggildingu hönnuða skv. 25. gr. í 26. gr. mannvirkjalaga. Feli a- og b-liðir 26. gr. ekki í sér matskennd ákvæði. Það geri hins vegar c-liður greinarinnar, en þar sé skilyrði um sérhæfingu á viðkomandi löggildingarsviði og starfsreynslu eftir að námi í viðkomandi sérfræðigrein ljúki.

Við mat á því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 26. gr. mannvirkjalaga hafi farið fram sérhæft mat stofnunarinnar. Það sé mat hennar að próf í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík veiti ekki þá sérþekkingu sem gera verði kröfu um vegna hönnunar og gerðar séruppdrátta af burðarvirki, boðveitum, rafkerfum og raflögnum, vatns-, hita- og fráveitu­lögnum, loftræsikerfum og lýsingarkerfum. Enda megi við skoðun námsáfanga bæði fyrir B.Sc. próf og M.Sc. próf í rekstrarverkfræði frá háskólanum sjá að þeim námsáföngum sé ekki ætlað að undirbúa nemanda til að hanna og gera séruppdrætti af slíkum kerfum. Einnig megi sjá að námsáföngum sem kærandi hafi lokið í skiptinámi sínu við Chalmers tækniháskólann sé heldur ekki ætlað að vera til undirbúnings fyrir nemendur til að læra að hanna neitt af framantöldu. Kærandi hafi skilað inn staðfestingum frá löggiltum fagmönnum á öllum fyrrgreindum sviðum nema varðandi lýsingarkerfi. Þær hafi þó ekki uppfyllt kröfur sem fram komi í c-lið 1. mgr. 26. gr. mannvirkjalaga þar sem ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hafi unnið á starfsreynslutímanum.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að eftir að hann hafi skilað inn frekari gögnum til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi honum ekki borist frekari athugasemdir frá stofnuninni um þau vottorð sem hann hafi sent inn. Það sé fyrst núna sem honum sé gerð grein fyrir því að umræddar staðfestingar hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem fram komi í c-lið 26. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem ekki hafi verið gerð nægjanleg grein fyrir þeim verkefnum sem kærandi hafi unnið á starfsreynslutímanum. Hafi stofnunin því brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni og kæranda ekki verið gefinn kostur á að bæta úr meintum annmörkum. Uppfylli umrædd verkefni þau skilyrði sem kveðið sé á um í c-lið 1. mgr. 26. gr. mannvirkjalaga og feli nám kæranda í sér þá sérmenntun sem lögin kveði á um.

Viðbótarathugasemdir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin bendir á að fram komi á eyðublaði með umsókn um löggildingu sem hönnuður að meðal fylgigagna sem skila þurfi með umsókn sé staðfesting um að umsækjandi hafi sérhæft sig á viðkomandi löggildingarsviði og öðlast starfsreynslu hjá löggiltum fagmanni á því sviði. Starfsreynslutími skuli ekki vera skemmri en þrjú ár eftir að námi í viðkomandi sérfræðigrein ljúki, þar af minnst eitt ár við mannvirkjagerð á Íslandi. Í vottorði um starfsreynslu skuli gera grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hafi unnið að á starfsreynslutímanum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar frá 15. janúar 2025 að synja umsókn kæranda um löggildingu sem hönnuður séruppdrátta mannvirkja. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í V. kafla laga nr. 160/2010 er fjallað um hönnun mannvirkja. Þar kemur fram í 25. gr. að rétt til að leggja fram uppdrætti vegna byggingarleyfis hafi þeir sem til þess hafi hlotið löggildingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Löggilding skiptist í tiltekin svið, en þar á meðal geta verk­fræðingar og tæknifræðingar með viðkomandi sérmenntun fengið löggildingu til að hanna og gera séruppdrætti að burðarvirkjum, boðveitum, rafkerfum og raflögnum í mannvirkjum, vatns-, hita- og fráveitukerfum, loftræsikerfum og lýsingarkerfum, sbr. b-lið 1. mgr. 25. gr. laganna. Skilyrði fyrir löggildingu eru rakin í 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. þarf umsækjandi að hafa hlotið heimild ráðherra til starfsheitis samkvæmt lögum nr. 8/1996 um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum og hafa staðist próf sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stendur fyrir að undangengnu námskeiði um gildandi lög og reglur á sviði mannvirkjagerðar. Þarf umsækjandi að hafa sérhæft sig á við­komandi löggildingarsviði og öðlast starfsreynslu hjá löggiltum fagmanni á sviðinu, sbr. c-lið 1. mgr. 26. gr. laganna. Skal starfsreynslutími ekki vera skemmri en þrjú ár eftir að námi í viðkomandi sérfræðigrein lýkur, þar af minnst eitt ár við mannvirkjagerð á Íslandi. Í vottorði um starfsreynslu skal gerð grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hefur unnið að á starfs­reynslut­ímanum og honum skal lokið áður en námskeið og próf samkvæmt b-lið séu sótt.

Samkvæmt framangreindu þurfa öll skilyrði 1. mgr. 26. gr. laganna að vera uppfyllt til að unnt sé að hljóta löggildingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þrátt fyrir að kærandi hafi fengið heimild stofnunarinnar til að sækja námskeið vegna löggildingarinnar og kunni því að hafa haft væntingar til þess að hann gæti í framhaldinu fengið umsókn um löggildingu samþykkta geta þær væntingar ekki leitt til þess að vikið sé frá skýrum ákvæðum laganna um þau skilyrði sem uppfylla þarf til að öðlast löggildingu hönnuða.

Fyrir liggur að kærandi er með leyfi ráðherra til að nota starfsheitið verkfræðingur, en skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 8/1996 má engum veita slíkt leyfi nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í viðkomandi starfsgrein. Þá hefur kærandi sótt námskeið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og staðist próf fyrir löggilta mannvirkjahönnuði, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 160/2010. Jafnframt hefur kærandi sent inn til stofnunarinnar vottorð um starfsreynslu. Í september 2024 lagði hann inn vottorð frá Isavia, dags. 16. september 2024, um hönnunarverkefni sem hann hefði starfað við á Keflavíkurflugvelli frá 1. mars 2020. Gerði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kæranda viðvart um að vottorðið væri haldið annmörkum og í framhaldinu skilaði kærandi inn tveimur nýjum vottorðum frá Isavia. Í vottorði, dags. 10. desember 2024, er staðfest að kærandi hafi starfað við mannvirkjagerð, hönnun, hönnunarrýni, verkefnastjórnun og eftirlit fyrir Isavia ohf. á Keflavíkurflugvelli frá 1. mars 2020. Hafi hönnunarverkefnin samanstaðið af hönnun burðar­virkja, vatns-, hita- og fráveitukerfa. Í síðara vottorðinu, dags. 12. desember s.á., er staðfest að kærandi hafi starfað á Keflavíkurflugvelli frá 1. mars 2020 og m.a. tekið fram að hönnunar­verkefnin hafi samanstaðið af hönnun boðveitna og loftræsikerfa. Eru umrædd vottorð undir­rituð af aðilum sem báðir hafa hlotið löggildingu Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar sem hönnuðir.

Hin kærða synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var á því byggð að ekki hefði verið nægilega sannað að í námi kæranda sem rekstrarverkfræðingur hefði falist sérmenntun sem upp­fyllti kröfur b-liðar 1. mgr. 25. gr. laga nr. 160/2010. Fæli krafa um sérmenntun að lágmarki í sér að viðkomandi hefði í námi sínu sérhæft sig í þeim greinum sem aðili óskaði eftir löggildingu í. Uppfyllti meistaragráða í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík, sem að hluta til var í skiptinámi við Chalmers tækniháskólann í Svíþjóð, ekki þær kröfur að geta veitt réttindi til löggildingu til að hanna og gera séruppdrætti að burðarvirkjum, boðveitum, rafkerfum og raflögnum í mannvirkjum, vatns-, hita- og fráveitukerfum, loftræsikerfum og lýsingarkerfum. Ekki var færður fram frekari rökstuðningur í ákvörðuninni, en bent á að hægt væri að fara fram á rökstuðning fyrir henni innan 14 daga frá dagsetningu hennar. Í umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til úrskurðarnefndarinnar í tilefni af kærumáli þessu er einnig tekið fram að þau vottorð um staðfestingu á starfsreynslu sem kærandi hafi skilað inn frá löggiltum fagmönnum hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem fram komi í c-lið 1. mgr. 26. gr. mannvirkjalaga þar sem ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hafi unnið á starfsreynslutímanum.

Með vísan til framanritaðs geta verkfræðingar með viðkomandi sérmenntun fengið löggildingu til að hanna og gera nánar tilgreinda séruppdrætti sbr. b-lið 1. mgr. 25. gr. laganna. Nánari skil­greining á því hvað felst í orðalaginu „viðkomandi sérmenntun“ virðist hvorki að finna í téðum lögum né í lögskýringargögnum. Verður ekki talið að í orðalaginu felist svigrúm til annarrar túlkunar en þeirrar að viðkomandi þurfi að hafa lokið námi með viðurkenndri próf­gráðu eða lokaprófi í greininni og hafi jafnframt hlotið sérmenntun sérstaklega á því sviði sem sótt er um löggildingu á.

Líkt og áður greinir taldi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að prófgráða kæranda í rekstrarverkfræði uppfyllti ekki skilyrði um viðeigandi sérmenntun, sbr.  b-lið 1. mgr. 25. gr. laga nr. 160/2010. Af þeirri ástæðu veitti stofnunin kæranda færi á að skila inn upplýsingum um viðbótar­menntun sína er uppfyllti nefnt skilyrði og mun kærandi þá í framhaldinu hafa lagt fram prófskírteini yfir þá áfanga sem hann hafði lokið í námi sínu við Chalmers tækniháskólann í Svíþjóð.

Að framangreindu virtu verður hvorki talið að rannsókn né rökstuðningi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi verið áfátt í máli þessu. Verður sönnun um að skilyrði mannvirkjalaga fyrir löggildingu séu uppfyllt ekki lögð á stofnunina heldur er það kæranda að sýna fram á að svo sé.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar frá 15. janúar 2025 um að synja umsókn kæranda um löggildingu sem hönnuður.

23/2022 Aðgangur á námskeið til löggildingar hönnuðar

Með

Árið 2022, föstudaginn 26. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2022, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 1. mars 2022 um að synja kæranda um þátttöku á námskeiði til löggildingar hönnuða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 14. mars 2022, kærir A verkfræðingur þá ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 1. mars s.á. að synja honum um þátttöku í námskeiði sem haldið var á vegum stofnunarinnar til löggildingar hönnuða. Er þess krafist að kærandi fái rétt til þátttöku í námskeiði fyrir lög­gildingu hönnuða og fái að afla sér réttinda sem hönnunarstjóri. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar umræddrar ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 12. apríl 2022.

Málavextir: Kærandi öðlaðist árið 2013 heimild iðnaðar- og viðskiptaráðherra til að kalla sig verk­fræðing. Samkvæmt gögnum málsins hefur hann lengst af starfað við fag sitt í Svíþjóð, en á Íslandi frá árinu 2020.

Í byrjun árs 2022 sótti kærandi um að sitja löggildingarnámskeið fyrir mannvirkjahönnuði sem haldið var í marsmánuði s.á. Samkvæmt b-lið 26. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er eitt þeirra skilyrða sem sett hafa verið fyrir löggildingu hönnuða samkvæmt 25. gr. sömu laga að umsækjandi hafi staðist próf sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun standi fyrir að undan-gengnu námskeiði um gildandi lög og reglur á sviði mannvirkjagerðar. Þar sem stofnunin taldi kæranda hvorki uppfylla skilyrði um starfsreynslu hjá löggiltum fagmanni samkvæmt c-lið 25. gr. né c-lið 26. gr. laga um mannvirki var umsókn kæranda um að sitja greint námskeið synjað.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hægt sé að öðlast reynslu sem hönnunarstjóri á fleiri máta en þekkist hér á landi. Hann hafi sótt sér menntun og stóran hluta reynslu sinnar til Gauta­borgar í Svíþjóð, en þar eigi ekki við sömu reglur um starfsréttindi hönnunarstjóra og hér á landi. Í stað þess að kærandi hafi lært fagið undir handleiðslu löggiltra hönnuða hafi hann lært það undir handleiðslu annarra hönnunarstjóra ásamt því að hafa sótt sér menntun og setið námskeið til þess að verða vottaður hönnunarstjóri hjá þeim fyrirtækjum þar sem hann hafi starfað. Fyrir flutning sinn til Íslands hafi kærandi verið farinn að flytja fyrirlestra í Svíþjóð um hönnunarstjórn og fengið viðurkenningu frá öðrum hönnunarstjórum. Þá hafi hann verið ráðinn í starf hér á landi sem erlendur sérfræðingur í hönnunarstjórnun. Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærandi hafi fengið frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun geti hann ekki starfað við sérsvið sitt sem hönnunarstjóri án þess að vera ­löggiltur hönnuður.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun horfi of mikið í nákvæmni texta sem skrifaðir séu í lög og reglu­gerðir hér á landi og missi sjónar af tilgangi laganna. Í tilviki kæranda sé horft fram hjá þeirri staðreynd að mögulega sé hægt að sækja sér sambærilega reynslu erlendis frá án þess að uppfylla viðmið nákvæmlega með þeim hætti sem þeim sé lýst í íslensku regluverki. Með þeim rökum sem notuð séu af stofnuninni geti ungur hönnuður, sem í fimm ár hafi eingöngu teiknað stigadeili og gert orkuútreikninga á arkitektastofu, sótt löggildingarnámskeið þrátt fyrir að búa ekki yfir reynslu af gerð aðaluppdrátta eða samræmingu hönnunargagna. Á sama tíma sé þaul­reyndum hönnunarstjóra sem starfað hafi sem slíkur í fjölda ára meinaður aðgangur að nám­skeiði sem sé skilyrði fyrir löggildingu, þrátt fyrir að búa yfir mikilli reynslu við gerð aðal­upp­drátta, séruppdrátta og jafnvel deiliskipulags. Í dæminu uppfylli sá reynsluminni skilyrðin en sé þó með mun minni hæfni sem hönnuður sem ábyrgur sé fyrir teikningasetti séruppdrátta og/eða aðaluppdrátta.

Kæranda sé mismunað með því að litið sé fram hjá reynslu hans og þekkingu sem ekki sé unnt að afla sér með sama hætti hér á landi. Ekki hafi verið lagt mat á reynslu hans erlendis en kærandi hafi sýnt fram á að hann búi yfir margra ára reynslu sem hönnunarstjóri með ábyrgð á gæðum og samræmingu hönnunargagna löggiltra hönnuða sem nemi lengri tíma en gerð sé krafa um. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi þó ekki gefið honum kost á að sýna fram á kunn­áttu sína öðruvísi en að fara fram á að hann sýndi fram á það skriflega að hann hafi starfað undir handleiðslu hönnuðar við gerð uppdrátta.

Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin telur kæranda ekki uppfylla skil­yrði 26. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að geta sótt námskeið til löggildingar hönnuða. Hann hafi hvorki getað sýnt fram á a.mk. þriggja ára starfsreynslu við gerð uppdrátta á sínu lög­­gildingarsviði sem byggingarverkfræðingur hjá löggildum fagmanni á sviðinu, líkt og áskilið sé samkvæmt c-lið 26. gr. laganna, né fimm ára starfsreynslu við gerð aðaluppdrátta og til­­heyrandi deiliuppdrátta hjá löggildum fagmanni á því sviði samkvæmt c-lið 25. gr. sömu laga.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að kærandi hafi sótt um að sitja nám­skeið og taka próf til löggildingar hönnuða vegna þess að búið sé að þrengja lögin um of er varði starfsheiti hönnunarstjóra, en honum sé ekki gefinn kostur á að starfa sem löggiltur hönnunar­stjóri öðruvísi en að fá löggildingu sem hönnuður hér á landi. Húsnæðis- og mann­­virkja­stofnun hafi með túlkun sinni sett skilyrðum 25. og 26. gr. laga nr. 160/2010 um mann­­virki þrengri ramma en þörf sé á, en lagaramminn sé mjög þröngur samkvæmt orðanna hljóðan. Það sé röng túlkun að nauðsynlegt sé að hafa unnið hjá löggiltum fagaðila eða að löggiltur fag­aðili þurfi að skrifa undir starfsreynsluvottorð enda komi það hvergi fram í lagatextanum. Kærandi hafi sýnt fram á og útskýrt með hvaða hætti hann uppfylli skilyrði framangreindra ákvæða enda hafi hann sýnt fram á að hafa unnið með löggiltum fagaðilum í tilgreindum verk­efnum og sýnt fram á fagþekkingu á umræddu sviði, enda ótækt að vera hönnunarstjóri án þess að hafa fagþekkingu á séruppdráttum og aðaluppdráttum. Kærandi hafi sýnt fram á að hann búi yfir að minnsta kosti sambærilegri reynslu og einstaklingur sem hafi unnið í þrjú til fimm ár á ráðgjafa­stofu hjá löggiltum hönnuði við gerð séruppdrátta og aðaluppdrátta og sýnt fram á starfs­reynslu sem hönnunarstjóri í að minnsta kosti fimm og hálft ár, þar af fjögur ár hjá tilgreindu fyrirtæki í Svíþjóð og í tæplega tvö ár hjá tilgreindu fyrirtæki hér á landi. Sú krafa sé eins í Svíþjóð og hér á landi, sem í flestum öðrum löndum, að á teikningar til innlagna sé gerð krafa um undirskrift frá löggiltum hönnuðum á öllum fagsviðum og því sé augljóst að kærandi hafi í starfi sínu sem hönnunarstjóri unnið með löggiltum hönnuðum á öllum fag­sviðum. Ekki sé hægt að fá samþykktar teikningar, líkt og í þeim verkefnum sem kærandi vísi til í ferilskrá sinni, öðruvísi en með aðild löggiltra fagaðila á hverju sérsviði. Þá hafi einnig komið fram að kærandi hafi fengið handleiðslu reyndra hönnuða og þurft að standast próf og nám­skeið sem slíkur.

Niðurstaða: Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi hug á að hljóta löggildingu Hús­næðis- og mannvirkjastofnunar til þess að öðlast rétt til að leggja fram uppdrætti vegna bygg­ingar­leyfis skv. 25. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Kærandi hafi í því skyni sótt um að­gang að námskeiði sem haldið er á vegum stofnunarinnar skv. b-lið 26. gr. sömu laga og er eitt skilyrða þess að öðlast greinda löggildingu sem hönnuður. Með hinni kærðu ákvörðun synjaði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kæranda um aðgang að slíku nám­skeiði af þeirri ástæðu að hann uppfyllti hvorki skilyrði c-liðar 1. mgr. 25. gr. né c-liðar 1. mgr. 26. gr. laga um mannvirki um starfsreynslu. Hefur kærandi krafist þess að honum verði heimilað að sækja námskeiðið.

Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórn­valds­ákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auð­linda­mála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðar­nefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því einungis krafa kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar tekin til úrlausnar enda fellur það utan valdheimilda úrskurðar­nefndarinnar að taka ákvörðun um hvort veita beri kæranda aðgang að námskeiði fyrir löggildingu­ hönnuða eða um heimildir hans til að leggja fram uppdrætti vegna byggingarleyfa.­

Til stuðnings umsókn sinni til þess að sitja umrætt námskeið lagði kærandi fram gögn um menntun sína og starfsreynslu, þ. á m. voru undirritaðar yfirlýsingar frá yfirmönnum þar til­greindra byggingarfyrirtækja sem hann hefur starfað fyrir á Íslandi og í Svíþjóð. Í yfirlýsingu sænsks fyrirtækis, dags. 1. september 2020, kom m.a. fram að kærandi hefði starfað hjá fyrir­tækinu sem hönnunarstjóri (e. design manager) frá því í apríl 2016 til ágúst 2020 við stórar byggingar­framkvæmdir og að innan fyrirtækisins væri litið á hann sem sérfræðing á sínu sviði við hönnunarstjórn og stafræna umbreytingu (e. digitalization). Þá kom þar jafnframt fram að allir hönnunar­stjórar hjá fyrirtækinu væru þjálfaðir í hönnunarstjórn og hönnun og þróun (e. design and development) samkvæmt ISO 9001 staðlinum. Kærandi hefði lokið þeirri þjálfun í október árið 2016 með því að standast próf. Í yfirlýsingu innlends fyrirtækis, dags. 1. septem­­ber 2020, kom og fram að kærandi hefði hafið þar störf 15. ágúst s.á. Í yfirlýsingu frá því sama fyrirtæki, dags. 28. janúar 2022, kom fram að kærandi hefði starfað þar sem verkefna- og hönnunarstjóri frá því í ágúst 2020 og bæri ábyrgð á öllu hönnunarferli í eigin verkefnum fyrirtækisins, hvort sem það væri samningagerð, hönnun eða hönnunar­samræming í verk­efnum o.fl. Þá lagði kærandi fram yfirlýsingu annars sænsks fyrirtækis, dags. 4. febrúar 2022, þar sem fram kom að kærandi hefði verið þar starfandi sem verkefnastjóri frá 1. september 2013 til 26. apríl 2016.

Lög­gilding hönnuða skv. 1. mgr. 25. gr. laga um mannvirki skiptist í einstök sérsvið sem upp eru talin í a- til e-liðum sama ákvæðis. Í 1. mgr. 26. gr. laga um mannvirki eru í a- til c-liðum talin upp skilyrði fyrir löggildingu skv. 25. gr. laganna. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. þarf um­sækjandi að hafa hlotið heimild hlutaðeigandi ráðherra til starfsheitisins samkvæmt lögum um lög­­gildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996. Þá þarf um­sækjandi að standast próf sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun standi fyrir að undan­gengnu námskeiði um gildandi lög og reglur á sviði mannvirkjagerðar og skuli á námskeiðinu jafnframt fjallað um séríslenskar aðstæður sem taka þurfi tillit til við hönnun, sbr. b-lið sama ákvæðis. Sam­­kvæmt c-lið ákvæðisins þarf umsækjandi að hafa sérhæft sig á viðkomandi lög­gildingar­sviði og öðlast starfsreynslu hjá löggiltum fagmanni á sviðinu og skal starfsreynslu-tíminn ekki vera skemmri en þrjú ár eftir að námi í viðkomandi sérfræðigrein hafi lokið, þar af minnst eitt ár við mannvirkjagerð á Íslandi. Þá skal í vottorði um starfsreynslu gerð grein fyrir þeim verk­efn­um sem umsækjandi hafi unnið að á starfsreynslutímanum og skal starfsreynslu-tíma lokið áður en námskeið og próf skv. b-lið ákvæðisins eru sótt.

Líkt og að framan greinir er í c-lið 1. mgr. 26. gr. laga um mannvirki gerð lágmarkskrafa um eins árs starfsreynslutíma við mannvirkjagerð á Íslandi. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um mannvirki er sú krafa studd þeim rökum að hér á landi séu séríslenskar að­stæður sem hönnuðum þurfi að vera kunnugt um. Þá kemur þar jafnframt fram að megin­ástæða þess að talið sé nauðsynlegt að gera kröfu um títtnefnt námskeið vegna löggildingar sé vegna þeirrar staðreyndar að á Íslandi séu að mörgu leyti aðrar aðstæður en í öðrum löndum og að á vissum sviðum hér á landi séu gerðar strangari kröfur til hönnunar, t.a.m. vegna veður­álags og jarðskjálftahættu. Hönnuður búsettur erlendis gæti þannig uppfyllt starfsreynslu­skilyrðin ef hann gæti sýnt fram á að hann hefði unnið undir handleiðslu löggilts hönnuðar að hönnun mannvirkis hér á landi.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi átt í ítrekuðum samskiptum við Húsnæðis- og mann­­virkjastofnun vegna umsókna um aðgang að því námskeiði sem mál þetta varðar og fyrra nám­­skeiði sem fór áður fram. Í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var kæranda í þeim samskiptum leiðbeint um hvaða upplýsingar þyrftu að koma fram í vottorðum sem lögð væru fram til staðfestingar á starfsreynslu. Kom þar m.a. fram að slík vottorð þyrftu að vera undirrituð af þeim sem kærandi hefði unnið hjá eða með, sá aðili þyrfti að vera með lög­gildingu, krafa væri gerð um þriggja ára starfsreynslu og ekki skipti máli hvort hennar hefði verið aflað erlendis en að a.m.k. eitt ár þyrfti að hafa verið unnið hér á landi.

Í því vottorði sem kærandi lagði fram um starfsreynslu sína hér á landi, dags. 28. janúar 2022 kemur fram að hann hafi starfað sem hönnunarstjóri hjá þar tilgreindu fyrirtæki í meira en eitt ár og borið ábyrgð á marg­víslegum þáttum sem þar eru nánar nefndir. Þó kemur þar ekkert fram um það hvort kærandi hafi öðlast starfsreynslu hjá löggiltum fagmanni á ákveðnu sérsviði líkt og gerð er krafa um samkvæmt 1. málsl. c-lið 1. mgr. 26. gr. laga um mannvirki. Var umsókn kæranda áfátt að því leyti. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að hafna kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Á það skal bent að kærandi hefur við meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni lagt fram ítarlegri gögn um starfs­reynslu sína í Svíþjóð sem gætu haft áhrif á mat um það hvort hann uppfylli skilyrði til setu á nám­skeiði og próftöku til réttinda sem löggiltur hönnuður.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 1. mars 2022 að synja honum um þátttöku á námskeiði til löggildingar hönnuða.