Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

92/2006 Gatnagerðargjöld

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 7. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 92/2006, kæra á ákvörðun Grundarfjarðarbæjar frá 9. ágúst 2006 um að hafna beiðni um endurgreiðslu hluta gatnagerðargjalda vegna lóðanna að Grundargötu 52, 82 og 92 í Grundarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2006, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir Sveinn Andri Sveinsson hrl., f.h. Nesbyggðar ehf., þá ákvörðun Grundarfjarðarbæjar frá 9. ágúst 2006 að hafna beiðni um endurgreiðslu hluta gatnagerðargjalda vegna lóðanna að Grundargötu 52, 82 og 92 í Grundarfirði.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2004 var umræddum lóðum úthlutað til byggingar einbýlishúsa í samræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins.  Síðan voru veitt byggingarleyfi fyrir „einbýlishúsum með aukaíbúð“ á lóðunum.  Kærandi mun síðar hafa orðið rétthafi samkvæmt umræddum lóðarleigusamningum og handhafi nefndra byggingarleyfa, en eftir það voru gerðar eignaskiptayfirlýsingar þar sem gert var ráð fyrir að húsin yrðu parhús.  Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti eignaskiptayfirlýsingarnar hinn 25. apríl 2006.  Í kjölfar þess fór kærandi fram á að hluti greiddra gatnagerðargjalda vegna umræddra lóða yrði endurgreiddur þar sem útreikningur gjaldanna væri miðaður við einbýlishús en ekki parhús.  Sveitarstjóri Grundarfjarðarbæjar ritaði kæranda bréf, dags. 9. ágúst 2006, þar sem beiðninni var hafnað og færð fram rök fyrir þeirri niðurstöðu.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Byggir kærandi málatilbúnað sinn á því að á umræddum lóðum hafi frá upphafi verið samþykkt bygging húsa með tveimur íbúðum og eignaskiptayfirlýsingar séu í samræmi við það.  Fasteignamatsskráning og veðbókarvottorð umræddra fasteigna geri og ráð fyrir parhúsum á fyrrgreindum lóðum.  Rangar forsendur að baki útreikningi gatnagerðargjalda vegna lóðanna að Grundargötu 52, 82 og 92 leiði til þess þau verði kr. 1.177.735 hærri en ef miðað væri við parhús á þeim lóðum.  Með gjaldtökunni sé brotið gegn jafnræðis- og meðalhófsreglu 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Bæjaryfirvöld Grundarfjarðarbæjar styðja hina kærðu afgreiðslu þeim rökum að umræddum lóðum hafi verið úthlutað undir einbýlishús og að á samþykktum byggingarnefndarteikningum komi fram að um sé að ræða hefðbundin steinsteypt einbýlishús.  Þáverandi lóðarhafi hafi jafnframt undirritað samning um greiðslu gatnagerðargjalda fyrir lóðirnar án athugasemda við skilgreiningu húsanna sem einbýlishúsa og útreikning gjaldanna.  Engu breyti um réttmæti útreikningsins þótt kærandi hafi síðar kosið að gera eignarskiptasamninga fyrir greindar fasteignir.  Hvorki  verði ráðið af ákvæðum laga um gatnagerðargjöld nr. 17/1996 né ákvæðum reglugerðar um sama efni nr. 543/1996 að sveitarstjórn beri að endurgreiða umrædd gjöld nema þegar lóð sé skilað, úthlutun afturkölluð eða byggingarleyfi sé fellt eða falli úr gildi.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt þeim lögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum.  Um álagningu gatnagerðargjalda er hins vegar fjallað í lögum um gatnagerðargjöld nr. 17/1996 en í þeim lögum er ekki að finna málskotsheimild til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála á samkvæmt framansögðu ekki úrskurðarvald un hina kærðu ákvörðun um synjun endurgreiðslu á hluta greiddra gatnagerðargjalda og verður máli þessu þegar af þeirri ástæðu vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________ 
                               Hjalti Steinþórsson                                 

 

 

_____________________________        ____________________________
      Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson  

27/2007 Leyfisskylda

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 1. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 27/2007, málaleitan sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um að skorið verði úr um leyfisskyldu gatnagerðarframkvæmda á vegum einkaaðila. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. apríl 2007, er barst nefndinni hinn 11. sama mánaðar, fer sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar þess á leit við úrskurðarnefndina að skorið verði úr því álitaefni hvort gatnagerðarframkvæmdir á vegum einkaaðila séu háðar byggingarleyfi samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. nefndra laga. 

Málsatvik og rök:  Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar vísar til þess að á undanförnum árum hafi færst í vöxt að einkaaðilar hafi sótt um leyfi til að skipuleggja íbúðarbyggð á landi sínu.  Í tillögu að Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025, sem sé til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun, sé gert ráð fyrir því að íbúðarbyggð geti risið á nokkrum jörðum þar sem búrekstur hafi verið aflagður.  Landeigendur muni þá sjálfir kosta deiliskipulagsgerð og annast gatnagerð og meginhluta lagna en skilmálar fyrrnefndrar aðalskipulagstillögu hafi að geyma verklagsreglur um slíka deiliskipulagsgerð. 

Sveitarstjórn telji nauðsynlegt að fenginni reynslu að hafa virkt eftirlit með umræddum framkvæmdum og hafi hún gert ráð fyrir að ákvæði þess efnis verði bundið í útgáfu framkvæmdaleyfis áður en vinna við gatnagerð og lagnir hefjist.  Hafi sú ákvörðun byggst á því að vafi geti leikið á um að eftirlit með gatnagerð einkaaðila tilheyrði eftirlitsskyldu byggingarfulltrúa. 

Leitað hafi verið álits lögfræðinga um leyfis- og eftirlitsskyldu greindra framkvæmda sem hafi talið að framkvæmdirnar væru leyfis- og eftirlitsskyldar samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 40. og 41. gr. laganna. 

Með vísan til 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga sé þess farið á leit við úrskurðarnefndina að hún taki afstöðu til þess hvort gatnagerðarframkvæmdir á vegum einkaaðila, og það sem þeim tilheyri, séu byggingarleyfisskyldar eða framkvæmdaleyfisskyldar og háðar eftirliti byggingarnefndar og byggingarfulltrúa.  Þá sé farið fram á að afstaða sé tekin til þess hvort heimilt sé að leggja á sérstakt leyfisgjald til að standa undir slíku eftirliti, hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að svo megi verða, og hvort byggja megi á fyrirfram ákveðinni gjaldskrá eða greiðslu samkvæmt tímamælingu þess eftirlitsaðila sem sveitarstjórn réði til verksins og loks hvort unnt sé að veita slíku gjaldi lögveðsrétt. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt þeim lögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum.  Í 5. mgr. nefndrar 8. gr. kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það ákvæði í samræmi við 26. gr. stjórnsýslulaga þar sem gert er ráð fyrir að einungis stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á mál séu kæranlegar til æðra stjórnvalds.  Er meginreglan því sú að einungis ágreiningur um lokaákvörðun á umræddu réttarsviði verður skotið til úrskurðarnefndarinnar. 

Undantekningar frá nefndri meginreglu er að finna í 8. mgr. 27. gr. og 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Í greindri 8. mgr. 27. gr. segir svo:  „Umsækjandi um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn er heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál leiki vafi á því hvort framkvæmdir eru háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi.“  Þá er lokamálsliður 3. mgr. 36. gr. svohljóðandi:  „Leiki vafi á því hvort mannvirki er háð byggingarleyfi skal leita niðurstöðu úrskurðarnefndar, sbr. 8. gr.“ 

Af orðalagi greindra undantekningarákvæða verður ráðið að einungis vafamálum um leyfisskyldu tiltekinna afmarkaðra framkvæmda eða mannvirkja verða borin undir úrskurðarnefndina en hún verði ekki krafin álits almenns eðlis í þessu efni.  Er þessi lögskýring jafnframt í samræmi við áðurgreint hlutverk nefndarinnar sem úrskurðaraðila á æðra stjórnsýslustigi og eðli máls. 

Það styður og þessa niðurstöðu að Skipulagsstofnun er m.a. falið að veita ráðgjöf um skipulags- og byggingarmál og að láta í té umsagnir um ágreiningsmál á sviði skipulags- og byggingarmála, sbr. b- og e-lið 1. mgr. 4. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður að telja að erindi málshefjanda falli fremur undir verksvið Skipulagsstofnunar  en úrskurðarvald úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Með vísan til framangreindra raka, og þar sem ekki er fyrir hendi lagastoð fyrir því að bera undir úrskurðarnefndina álitaefni varðandi gjaldtöku vegna framkvæmda- og byggingarleyfa, verður umræddu erindi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
                               Hjalti Steinþórsson                                 

 

_____________________________        ____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

47/2006 Grettisgata

Með

 Ár 2007, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2006, kæra eiganda eignarhluta í fjöleignarhúsinu að Grettisgötu 46, Reykjavík á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2006 um að stöðva framkvæmdir við þak fyrrgreinds húss. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júní 2006, kærir E, eigandi eignarhluta í fjölbýlishúsinu að Grettisgötu 46 í Reykjavík synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2006 um að stöðva framkvæmdir við þak fyrrgreinds húss. 

Krafist er ógildingar á hinni kærðu afstöðu byggingarfulltrúa og að honum verði gert að stöðva framkvæmdir og krefjast umsóknar um umdeildar breytingar.  Jafnframt fór kærandi fram á að úrskurðarnefndin hlutaðist til um stöðvun framkvæmda meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni.  Í þann mund er kæran barst úrskurðarnefndinni var umdeildum framkvæmdum lokið og voru því ekki efni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar. 

Málsatvik og rök:  Með tölvubréfi kæranda til byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 8. júní 2006, var þess krafist að hann stöðvaði framkvæmdir við að fjarlægja steinskífur af hluta þaks hússins að Grettisgötu 46.  Byggingarfulltrúi hafnaði samdægurs þeirri málaleitan í tölvubréfi til kæranda og gerði kærandi athugasemdir við þá afstöðu byggingarfulltrúa í tölvubréfi þann sama dag.  Byggingarfulltrúi ítrekaði fyrri afstöðu sína í tölvubréfi til kæranda hinn 12. júní 2006 og benti þar á kæruleið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Byggir kærandi málskot sitt á því að um sé að ræða óleyfisframkvæmdir af hálfu meðeigenda hans að umræddri fasteign þar sem að sækja beri um leyfi fyrir útlitsbreytingum frá samþykktri teikningu auk þess sem breytingarnar brjóti gegn höfundarrétti hönnuðar hússins og raski útliti þess.  Vísar kærandi til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 auk gr. 11.1, 12.2 og 12.6 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Með hinni kærðu afgreiðslu synji byggingarfulltrúi um stöðvun framkvæmda sem honum beri að lögum að framfylgja án þess að nokkur rök séu færð fyrir þeirri ákvörðun. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar málsins en ella að umdeild ákvörðun byggingarfulltrúa standi óröskuð.  Málið eigi ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála á þeim grundvelli sem það sé sett fram.  Svo virðist sem ágreiningur sé uppi meðal eigenda um þakefni hússins en þau lögskipti fari eftir ákvæðum laga um fjöleignarhús.  Byggingarfulltrúinn í Reykjavík skeri ekki úr deilum innan húsfélaga, heldur eigi slíkur ágreiningur undir dómstóla.  Húseigendur geti og beint álitaefnum á þessu sviði til kærunefndar fjöleignarhúsamála sem veiti leiðbeinandi álit í slíkum ágreiningsmálum.  Að sama skapi eigi höfundarréttarmál ekki undir embætti byggingarfulltrúa heldur dómstóla.  Að öðru leyti sé byggt á því að sú framkvæmd að fjarlægja þakefni af umræddu húsi geti ekki talist byggingarleyfisskyld framkvæmd eins og henni sé lýst í kæru og eigi því tilvísun kærenda til 43. gr. laganna og ákvæða byggingarreglugerðar ekki við. 

Niðurstaða:  Hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúans í Reykjavík á erindi kæranda fól í sér synjun embættisins á að beita heimildarákvæði 1. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um stöðvun framkvæmda.  Ákvörðun byggingarfulltrúa um slíka stöðvun samkvæmt nefndri 1. mgr. er bráðabirgðaákvörðun sem byggir á frjálsu mati embættisins en byggingarnefnd skal taka afstöðu til hennar svo fljótt sem verða má.  Í 1. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um að byggingarnefndir fari með byggingarmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og í 2. mgr. 39. gr. laganna segir að leggja skuli ákvarðanir nefndarinnar fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.  Samkvæmt 4. gr. samþykktar um afgreiðslur byggingarfulltrúans í Reykjavík nr. 161/2005 skulu afgreiðslur embættisins lagðar fram á næsta fundi skipulagsráðs og bókaðar í fundargerð og hljóta endanlega afgreiðslu borgarráðs. 

Erindi kæranda og svar byggingarfulltúa og önnur samskipti þeirra vegna álitaefnis þess sem hér er til umfjöllunar fóru einungis fram með tölvubréfum en ekki liggur fyrir að umrætt erindi og afgreiðsla þess hafi verið tekið fyrir og bókað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa eða lagt fyrir fund skipulagsráðs.  Þá hefur borgarráð ekki tekið afstöðu til málsins. 

Hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa hefur samkvæmt framansögðu hvorki fengið þá formlegu meðferð er fyrrgreind ákvæði áskilja né lögmælta staðfestingu.  Verður hin kærða afgreiðsla því ekki talin stjórnvaldsákvörðun sem feli í sér lokaafgreiðslu máls og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 _____________________________           _____________________________
     Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

7/2006 Öldutúnsskóli

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2006, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 6. janúar 2006 vegna framkvæmda við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði.    

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. febrúar 2006, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. eigenda íbúða að Víðihvammi 1 í Hafnarfirði, afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 6. janúar 2006 vegna framkvæmda við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði.   

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er þess óskað, telji úrskurðarnefndin að hin kærða ákvörðun sé ekki kæranleg, að nefndin láti í ljós álit sitt á því hvort umrædd framkvæmd sé byggingarleyfisskyld.   

Málavextir og rök:    Hinn 25. október 2005 ritaði lögmaður kærenda bréf til Hafnarfjarðarbæjar vegna framkvæmda við gerð sparkvallar á lóð Öldutúnsskóla en skólinn er í næsta nágrenni við hús kærenda.  Í bréfinu var því haldið fram að framkvæmdin væri ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins og að kærendum hafi hvorki verið kynnt breyting á deiliskipulagi né byggingarleyfisumsókn.  Þá var þess óskað að framkvæmdin yrði stöðvuð.  Í svarbréfi bæjaryfirvalda, dags. 7. nóvember s.á., var greint frá því að á árinu 1997 hafi íbúum á svæðinu verið kynnt áform um viðbyggingu við skólann og frágangi lóðar og að hin umdeilda framkvæmd væri í samræmi við skipulag svæðisins.  Í kjölfar þessa ritaði lögmaður kærenda bæjaryfirvöldum bréf á ný þar sem framangreindu var mótmælt og því haldið fram að bæði hafi átt að sækja um leyfi til stækkunar skólalóðarinnar og byggingarleyfi vegna framkvæmdarinnar.  Þá var þess krafist að byggingarfulltrúi stöðvaði framkvæmdina og að mannvirkin yrðu fjarlægð.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 6. janúar 2006 var samþykkt svarbréf til lögmanns kæranda þar sem ítrekað var að framkvæmdin væri í samræmi við skipulag.  Var lögmanni kærenda tilkynnt framangreint ásamt upplýsingum um kærustjórnvald.  Hafa kærendur kært þá afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að grenndaráhrif sparkvalla séu umtalsverð og af þeim stafi hávaði og ónæði. 

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er krafist frávísunar málsins þar sem ekki verði talið að kærendur eigi lögvarða hagsmuni því tengda að fá hinni kærðu ákvörðun hnekkt. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kært svar skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 6. janúar 2006 við bréfi lögmanns kærenda, dags. 12. desember 2005, í tilefni framkvæmda við gerð sparkvallar við Öldutúnsskóla.  Umrætt svar felur ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls.  Meint ákvörðun sem kærð er í máli þessu sætir því ekki kæru skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.  

Framkvæmd þeirri sem um er deilt í málinu er lokið og verður því ekki séð að kærendur eigi hagsmuni því tengda að fá álit úrskurðarnefndarinnar á því hvort byggingarleyfis hafi verið  þörf vegna framkvæmdarinnar og er beiðni um úrlausn um það álitaefni því einnig vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.  Beiðni um álit er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

     ____________________________________
             Hjalti Steinþórsson            

 

 _____________________________                   ______________________________
      Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

59/2007 Hólmsheiði

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 18. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir voru tekin mál nr. 59/2007 og 60/2007, kærur á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 um afmörkun lands á Hólmsheiði fyrir tímabundna aðstöðu Fisfélags Reykjavíkur. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júní 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Magnús Guðlaugsson hrl., f.h. Græðis, félags landeigenda í Óskoti og Reynisvatnslandi, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 um afmörkun lands á Hólmsheiði fyrir tímabundna aðstöðu Fisfélags Reykjavíkur.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júní 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Árni Ingason, formaður Fjáreigendafélags Reykjavíkur, f.h. félagsins, einnig fyrrgreinda afgreiðslu skipulagsráðs frá 16. maí 2007.  Hagsmunir kærenda fara saman og ákvað úrskurðarnefndin því að sameina síðara kærumálið hinu fyrra, sem er númer 59/2007. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.   Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Engar framkvæmdir eru hafnar á svæðinu og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda en málið er nú tekið til úrlausnar um framkomna frávísunarkröfu.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 6. september 2006 var lagt fram bréf Fisfélags Reykjavíkur varðandi aðstöðu fyrir félagið á Hólmsheiði og var eftirfarandi fært til bókar:  „Ráðið gerir ekki athugasemd við tillögu skipulagsfulltrúa um tímabundna aðstöðu fyrir Fisfélagið.  Tillögunni er vísað til umsagnar Flugmálastjórnar, umhverfisráðs, Hestamannafélagsins Fáks og hagsmunafélags sumarhúsaeigenda á svæðinu.“  Á fundi skipulagsráðs hinn 16. maí 2007 var erindið tekið fyrir að nýju ásamt athugasemdum og var eftirfarandi fært til bókar:  „Tillaga að tímabundinni afmörkun svæðis samþykkt.  Vísað til borgarráðs.“  Var framangreint staðfest á fundi borgarráðs hinn 31. maí 2007. 

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að svæði það er um ræði sé skilgreint samkvæmt aðalskipulagi sem opið svæði til sérstakra nota.  Það að úthluta því undir flugvöll og flugskýli án þess að breyta áður gildandi aðalskipulagi sé óheimilt samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Þá sé svæðið í aðeins 400 metra fjarlægð frá sumarbústöðum þeim er næstir séu og yrði hávaðinn af farartækjunum slíkur að á góðviðrisdögum yrðu bústaðirnir ónothæfir. 

Þá sé bent á að Fjáreigendafélag Reykjavíkur hafi haft hluta svæðisins til afnota allt frá árinu 1970 samkvæmt samkomulagi við þáverandi borgarstjóra um notkun á Hólmsheiði.  Ljóst sé að staðsetning fisflugvallar í næsta nágrenni muni valda verulegu ónæði ásamt því að geta valdið hestamönnum miska eða jafnvel lífsháska. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.  Hin kærða afgreiðsla feli í sér leyfi fyrir tímabundnum afnotum af landi.  Hvorki liggi fyrir kæranleg skipulagsákvörðun né kæranlegt byggingarleyfi vegna þessara tímabundnu afnota. 

Kærendur mótmæla framkominni frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar og halda því fram að búið sé að veita Fisfélaginu framkvæmdaleyfi þrátt fyrir að málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsráðs Reykjavíkur þar sem samþykkt var tillaga að afmörkun landspildu fyrir tímabundna starfsemi Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði.  Umrædd spilda er á svæði sem skilgreint er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem opið svæði til sérstakra nota, en helst verður ráðið af uppdrætti þess að áformað hafi verið að nýta svæðið til skógræktar. 

Í grein 4.12.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 eru opin svæði til sérstakra nota skilgreind sem svæði með útivistargildi þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar er stunduð og eru í ákvæðinu tilfærð dæmi um ýmis konar starfsemi sem talin er geta fallið undir umrædda landnotkun.  Í 2. mgr. gr. 4.12.2 sömu reglugerðar segir að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir mannvirkjagerð, efnisnotkun og litavali, gróðri og girðingum, bílastæðum og frárennsli o.fl. 

Samkvæmt framangreindu ákvæði þarf að gera deiliskipulag að þeim mannvirkjum sem áformuð eru á umræddri spildu áður en til mannvirkjagerðar getur komið á svæðinu.  Jafnframt þarf, á grundvelli þess skipulags, að veita framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir einstökum framkvæmdum og mannvirkjum eftir því sem við á.  Hin kærða ákvörðun felur einungis í sér ráðstöfun á landi í eigu Reykjavíkurborgar til tímabundinna afnota fyrir umsækjanda.  Er hún fyrst og fremst einkaréttarlegs eðlis en felur hvorki í sér lokaákvörðun um skipulag né heimild til framkvæmda sem sætt gætu kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
         Þorsteinn Þorsteinsson                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir

25/2006 Hagamelur

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 11. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2006, kæra eigenda íbúðar í fjöleignarhúsinu að Hagamel 52, Reykjavík á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. mars 2006 um úttekt á burðarvirki er kom í stað burðarveggjar í íbúð á fyrstu hæð fjöleignarhússins.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. mars 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir Dýrleif Kristjánsdóttir lögfræðingur, f. h. B og H, eigenda íbúðar í fjöleignarhúsinu að Hagamel 52, Reykjavík synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. mars 2006 um úttekt á burðarvirki er kom í stað burðarveggjar í íbúð á fyrstu hæð fjöleignarhússins.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að gera úttekt á greindu burðarvirki.

Málsatvik og rök:  Í maímánuði 2005 höfðu kærendur samband við embætti byggingarfulltrúa og bentu á að verið væri að rífa niður burðarvegg í íbúð á fyrstu hæð hússins að Hagamel 52 án samþykkis þeirra og án tilskilinna leyfa.  Í kjölfarið sendi embætti byggingarfulltrúa eigendum íbúðarinnar bréf, dags. 14. júní 2005, þar sem þeir voru krafðir skýringa. Svar barst frá verkfræðingi íbúðareigenda þar sem upplýst var að hann hefði umsjón með verkinu. Var honum bent á að sækja um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna.  Sótt var um leyfi fyrir umdeildum framkvæmdum og veitti byggingarfulltrúi leyfi til að fjarlægja burðarvegg milli eldhúss og borðstofu í umræddri íbúð á afgreiðslufundi hinn 1. nóvember 2005.  Með bréfi, dags. 14. nóvember 2005, fóru kærendur fram á að byggingarfulltrúi léti taka út greindar framkvæmdir svo hafið yrði yfir allan vafa að burðarþol umrædds húss væri fullnægjandi.  Kærendum var tilkynnt með bréfi, dags. 12. desember 2005, að embætti byggingarfulltrúa myndi ekki aðhafast frekar í málinu í ljósi þess að fyrir lægi að verkið hefði verið unnið samkvæmt uppdrætti burðarþolshönnuðar og starfsmaður embættisins staðfest að hönnunin væri í fullkomnu lagi.  Krafa um úttekt á verkinu af hálfu óháðs aðila var ítrekuð í bréfi lögfræðings kærenda, dags. 6. febrúar 2006 en í svari við því bréfi skírskotaði byggingarfulltrúi til bréfs síns til kærenda dags. 12. desember 2005.

Kærendur byggja á því að umdeildar framkvæmdir hafi verið ólögmætar og háðar samþykki meðeigenda fjöleignarhússins.  Hönnunarteikningar og yfirlýsingar um burðarþol hafi komið til löngu eftir að umdeildar framkvæmdir í íbúð á fyrstu hæð hússins hafi verið um garð gengnar.  Embætti byggingarfulltrúa hafi sjálft viðurkennt að umdeild breyting hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur.  Telji kærendur að byggingarfulltrúa beri, skv. 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 9. og 61. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, að framkvæma úttekt á burðarvirki því er komið hafi í stað burðarveggjar þess sem fjarlægður hafi verið.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar málsins.  Kærendum hafi verið tilkynnt skriflega um synjun á erindi þeirra með bréfi, dags. 12. desember 2005, en ákvörðunin hafi ekki verið kærð fyrr en með kæru dags. 30. mars 2006.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun er kæra skal.  Ekki sé reynt að færa rök að því í kæru hvers vegna víkja ætti frá nefndu ákvæði laganna og hljóti því kæran að teljast alltof seint fram komin.

Niðurstaða:  Byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum var veitt af hálfu byggingarfulltrúa hinn 1. nóvember 2005 og svar hans við málaleitan kærenda um úttekt vegna þeirra framkvæmda er dagsett 12. desember sama ár.  Lögmaður kærenda  áréttaði erindi þeirra með bréfum, dags. 6. febrúar og 7. mars 2006, en í svari byggingarfulltrúa við þeim bréfum frá 9. mars 2006 skírskotaði hann til bréfs frá 12. desember 2005 um afstöðu embættisins til málsins.

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa á frekari úttekt á heimiluðum framkvæmdum samkvæmt byggingarleyfinu frá 1. nóvember 2005 var tilkynnt kærendum með bréfi dags. 12. desember sama ár eins og fram er komið.  Liggur því fyrir að kærufrestur var liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 30. mars 2006 enda skapar svar byggingarfulltrúa frá 9. mars 2006 ekki nýjan kærufrest þar sem svarbréfið fól ekki í sér nýja ákvörðun heldur aðeins áréttingu á fyrri afstöðu embættisins til erindis kærenda.

Að þessu virtu og með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir þau atvik í málinu er gefa tilefni til að taka málið til efnismeðferðar samkvæmt undanþáguákvæðum 1. eða 2. tl. greinds lagaákvæðis.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

     ____________________________                   ______________________________
              Ásgeir Magnússon                                              Geirharður Þorsteinsson

64/2006 Þvervegur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 64/2006, kæra eiganda fasteignar að Vesturhúsum 2, Reykjavík, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. febrúar 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir þjónustubyggingu við Gufuneskirkjugarð með kirkju, kapellu, bænahúsi, bálstofu, líkhúsi og starfsmannaaðstöðu, að hluta til á tveimur hæðum, ásamt einnar hæðar erfidrykkjuhúsi á lóðinni nr. 1-7 við Þverveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. ágúst 2006, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir S, eigandi fasteignar að Vesturhúsum 2, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. febrúar 2006 að veita byggingarleyfi fyrir þjónustubyggingu við Gufuneskirkjugarð með kirkju, kapellu, bænahúsi, bálstofu, líkhúsi og starfsmannaaðstöðu, að hluta til á tveimur hæðum, ásamt einnar hæðar erfidrykkjuhúsi á lóðinni nr. 1-7 við Þverveg. 

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og var jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda.  Ekki þótti tilefni til að taka stöðvunarkröfu kæranda til úrskurðar þar sem ekki var fyrirhugað að hefja framkvæmdir við heimilaða bálstofu sem kærandi setur einkum fyrir sig.

Málsatvik og rök:  Byggingarfulltrúinn í Reykjavík veitti byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum hinn 28. febrúar 2006 að undangenginni umsókn Kirkjugarða Reykjavíkur.   Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 2. mars 2006.  Hinn 11. júlí 2006 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn byggingarleyfishafa um að skipta byggingu umræddrar þjónustubyggingar Gufuneskirkjugarðs í áfanga þannig að fyrsti áfangi yrði bygging starfsmannahúss með sorpgeymslu og rafmagnsbílageymslu.  Var byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 síðan gefið út hinn 20. júlí 2006 fyrir framkvæmdum skv. fyrsta áfanga verksins.

Kærandi bendir á að ekki hafi farið fram grenndarkynning eða umhverfismat á líkbrennslu þeirri sem fyrirhuguð sé inni í miðri íbúðarbyggð, innan við 800 metra frá grunnskóla, tveimur barnaheimilum, opinni sundlaug, keppnis- og æfingavöllum fyrir knattspyrnu, íþróttahúsi og elli- og hjúkrunarheimili.  Veruleg sjónmengun verði af fyrirhuguðum byggingum sem muni blasa við úr stofugluggum nágranna.  Þá muni fylgja starfseminni reyk- og lyktarmengun.  Furðu veki staðsetning duftgarðs á dýrustu byggingarlóð Reykjavíkur og að flytja eigi lík til brennslu í Grafarvog og síðan til baka, í stað þess að finna hvoru tveggja stað í útjaðri byggðar og spara útfararkostnað.  Jafnframt megi benda á tækniframfarir í nágrannalöndum þar sem lík séu frostþurrkuð og síðan duftuð.

Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að umdeildar framkvæmdir eigi stoð í deiliskipulagi Gufuneskirkjugarðs sem öðlast hafi gildi á árinu 2000.  Fullyrðingum um sjón-, lyktar- og reykmengun sé vísað á bug en bálstofur séu algengar í þéttbýli erlendis og mengun frá þeim sé hverfandi.  Raunar leiki vafi á um það hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu enda sé fasteign hans í nokkurri fjarlægð frá fyrirhuguðum mannvirkjum.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um frávísun málsins en ella að ákvarðanir Reykjavíkurborgar varðandi umdeild mannvirki standi óraskaðar.  Kæran sé of seint fram kominn en kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Breyting á deiliskipulagi Grafarvogskirkjugarðs hafi tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 26. janúar 2006 og byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum hafi verið samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 28. febrúar sama ár.  Að öðru leyti sé vísað til þess að kærandi hafi ekki fært fram efnisleg rök fyrir ógildingarkröfu sinni.

Niðurstaða:  Byggingarleyfi samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir starfsmannahúsi með sorpgeymslu og bílgeymslu var gefið út hinn 20. júlí 2006 og hafa framkvæmdir því ekki hafist fyrr en eftir þann tíma.  Eins mánaðar kærufrestur samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga reiknast frá þeim tíma sem aðila var eða mátti vera ljóst að hin kærða ákvörðun var tekin.  Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið tilkynnt um veitingu umdeilds byggingarleyfis á sínum tíma og gat honum því ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrr en framkvæmdir hófust eftir 20. júlí 2006.  Verður af þessum sökum ekki fallist á að kæra í máli þessu, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 10. ágúst 2006, hafi borist að liðnum kærufresti.

Með hinni kærðu ákvörðun frá 28. febrúar 2006 var veitt leyfi fyrir tilteknum mannvirkjum við Gufuneskirkjugarð.  Síðar var samþykkt umsókn byggingarleyfishafa um að skipta framkvæmdum upp í áfanga og með útgáfu byggingarleyfisins hinn 20. júlí 2006 mátti hefja byggingu fyrrgreinds starfsmannahúss.  Þessi bygging, sem mun vera á einni hæð, verður í töluverðri fjarlægð frá fasteign kæranda sem stendur mun hærra í landi en hún. Eins og aðstæður eru getur umrædd bygging ekki skert útsýni frá fasteign kæranda eða snert grenndarhagsmuni hans með öðrum hætti.  Verður kærandi því ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna byggingarleyfis nefndrar byggingar.

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins að öðrum skilyrðum uppfylltum.  Í 2. mgr. ákvæðisins er heimilað að veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda þegar sérstaklega stendur á en leyfið takmarkast þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.  Eins og áður er að vikið takmarkaðist hið útgefna byggingarleyfi við þann hluta heimilaðra mannvirkja sem þar eru tilgreind. 

Hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan árs frá staðfestingu sveitarstjórnar fellur staðfestingin úr gildi samkvæmt 5. mgr. 44. gr. laganna.  Staðfesting borgarráðs hinn 2. mars 2006 á afgreiðslu byggingarfulltrúa um veitingu byggingarleyfis fyrir mannvirkjum við Gufuneskirkjugarð er því brott fallin að öðru leyti en því sem útgefið byggingaleyfi frá 20. júlí 2006 tekur til.  Hefur kærandi af þeim sökum ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti þess hluta byggingarleyfisákvörðunarinnar.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður máli þessu í heild vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
            Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 
 

 

96/2006 Vatnsmýri

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 96/2006, kæra á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. september 2006 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 varðandi austursvæði Vatnsmýrar í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. desember 2006, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir A, f.h. stjórnar ByggáBIRK, Skýli 21, Fluggörðum, Reykjavíkurflugvelli, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. september 2006 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 varðandi austursvæði Vatnsmýrar í Reykjavík.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu afgreiðslu.

Málsatvik og rök:  Hin kærða aðalskipulagstillaga fólst meðal annars í því að landnotkun á hluta austursvæðis Vatnsmýrarinnar var breytt og byggingarsvæði milli flugvallar og Öskjuhlíðar stækkað til suðurs um 20 hektara.  Þá var gert ráð fyrir samgöngumiðstöð og lóð fyrir Háskólann í Reykjavík á svæðinu.  Skipulagsráð samþykkti tillöguna hinn 27. september 2006 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 5. október sama ár.  Umhverfisráðherra staðfesti aðalskipulagsbreytinguna hinn 18. maí 2007 og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 22. maí 2007.

Skírskotar kærandi til þess að fjöldi mótmæla við umdeilda skipulagstillögu, sem hafi byggst á framtíðarhorfum Reykjavíkurflugvallar og flugstarfsemi þar, hafi verið virtur að vettugi.  Telja verði að niðurstaða í málinu hafi verið fyrirfram gefin í samræmi við pólitíska stefnu um brotthvarf flugvallarins úr Vatnsmýrinni.     

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
                              Hjalti Steinþórsson                          

 

_____________________________          ___________________________          Þorsteinn Þorsteinsson                               Aðalheiður Jóhannsdóttir
                                      

 

43/2005 Kirkjustétt

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 43/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Kirkjustétt 36, Reykjavík, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. mars 2005, um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á gluggum, klæðningu útveggja og þaks raðhúsanna að Kirkjustétt 36-40 og breytingu á innra skipulagi húsanna að Kirkjustétt 38 og 40. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. maí 2005, kærir J, eigandi fasteignarinnar að Kirkjustétt 36 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. mars 2005, að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á gluggum, klæðningu útveggja og þaks raðhúsanna að Kirkjustétt 36-40 og breytingu á innra skipulagi húsanna að Kirkjustétt 38 og 40.  Borgarráð staðfesti ákvörðunina hinn 19. maí 2005.  Verður að skilja erindi kæranda svo að hann geri þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærandi, ásamt þáverandi eiginkonu sinni, hafi eignast raðhúsið að Kirkjustétt 36 með kaupsamningi, dags. 2. september 2002, en fyrr á því ári hafði farið fram fokheldisúttekt á húsnæðinu.  Húsnæðinu átti að skila fullfrágengnu að utan en rúmlega fokheldu að innan og átti afhendingardagur að vera hinn 15. september 2002 en frágangi átti að vera lokið vorið 2003.  Deilur komu upp milli kæranda og verktakans sem byggði og seldi umrædda fasteign vegna meintra galla á hinni seldu eign og frávika varðandi  frágang fasteignarinnar frá skilalýsingu og samþykktum teikningum húss og lóðar.  Eigandi byggingarfyrirtækisins og byggingarstjóri raðhúsanna er eigandi raðhússins að Kirkjustétt 40. 

Í júní 2003 var dómkvaddur matsmaður til þess að meta meinta galla á fasteigninni að Kirkjustétt 36.  Kærandi mun hafa kvartað við byggingarfulltrúa vegna galla og vanefnda byggingaraðila hússins og var framkvæmd stöðuúttekt á raðhúsunum að Kirkjustétt 36-40 í júnímánuði árið 2004.  Í kjölfar hennar var byggingaraðila gert að sækja um byggingarleyfi fyrir breytingum frá samþykktum teikningum sem gerðar höfðu verið á byggingartíma raðhúsanna.  Var sótt um þær breytingar ásamt færslu sorpgeymslna á lóð og gerð garðtækjaskúrs og skjólveggja milli raðhúsanna í ágústmánuði 2004 að undangenginni kynningu á umsókninni fyrir eigendum raðhússins að Kirkjustétt 36 sem lögðust gegn henni.  Veitti byggingarfulltrúi leyfi fyrir þegar gerðum breytingum hinn 1. mars 2005 og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir. 

Aflað hefur verið gagna í málinu sem leiða í ljós að kærandi gerði samkomulag við ábyrgðartryggjanda byggingarstjóra við byggingu raðhúss hans um bætur að fjárhæð kr. 3.613.146,- í desember 2005 vegna annmarka á hinni seldu eign.  Þá var með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-243/2006, uppkveðnum 29. desember 2006, fyrrum eiginkonu kæranda tildæmdar bætur að fjárhæð kr. 1.816.091,- vegna galla og vanefnda seljanda gagnvart kaupendum fasteignarinnar að Kirkjustétt 36. 

Kærandi hefur ekki rökstutt kæru sína en gögn málsins bera með sér að hann telji hið kærða byggingarleyfi ólögmætt, þar sem nauðsynlegt samþykki sameigenda samkvæmt fjöleignarhúsalögum hafi ekki legið fyrir þegar umdeildar breytingar hafi verið samþykktar.  Eigandi Kirkjustéttar 40 sem annast hafi byggingu raðhúsanna verði að teljast vanhæfur við ákvarðanatöku í því efni. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um frávísun málsins, enda sé kæran án kröfugerðar og alls rökstuðnings.  Til vara sé þess krafist að hið kærða byggingarleyfi standi óraskað.  Þær breytingar, er varði sameign umræddra raðhúsa, séu óverulegar og þurfi því aðeins samþykki 2/3 hluta sameigenda fyrir þeim.  Breytingarnar séu í samræmi við gildandi byggingarreglugerð og ósannað sé að kæranda hafi verið ókunnugt um þær við afhendingu hússins.  Breytingar á innra fyrirkomulagi húsanna að Kirkjustétt 38 og 40 séu ekki háðar samþykki kæranda. 

Niðurstaða:  Eins og frá hefur verið greint var gert samkomulag við ábyrgðartryggjanda byggingarstjóra fasteignarinnar að Kirkjustétt 36 um greiðslu bóta vegna galla á umræddri fasteign, sem fallist var á að væru á ábyrgð hans.  Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ber byggingarstjóri ábyrgð á að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.  Þá hefur fallið dómur þar sem meðal annars voru tildæmdar bætur vegna galla á umræddri eign er seljandi var talinn bera ábyrgð á. 

Með greindu samkomulagi og dómi, sem kærandi átti aðild að, verður ekki annað ráðið en að ágreiningsefni, er vörðuðu frávik við frágang fasteignarinnar frá upphaflega samþykktum teikningum, hafi endanlega verið til lykta leidd gagnvart kæranda.  Verður því ekki talið að kærandi eigi nú lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hins kærða byggingarleyfis, sem einungis fól í sér samþykki á fyrrgreindum frávikum er orðið höfðu á byggingartíma hússins. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður kærumáli þessu vísað frá sökum aðildarskorts. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
            Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

42/2006 Vesturgata

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2006, kæra á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. apríl 2006 vegna framkvæmda við húsið að Vesturgötu 3 í Reykjavík. 

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. maí 2006, er barst nefndinni hinn 1. júní sama ár, kærir S, Fischersundi 3, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. apríl 2006 vegna framkvæmda við húsið að Vesturgötu 3 í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 22. mars 2006 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 10. mars 2006, og bréf Steins Öfjörðs, dags. 15. mars 2006, vegna hæðarmælinga hússins að Vesturgötu 3.  Jafnframt var lagt fram minnisblað byggingarfulltrúa, dags. 22. mars 2006.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Frestað.  Skipulagsráð fer fram á að aðalhönnuður afhendi skriflegar útskýringar á rangri hæðarmælingu hússins innan 10 daga frá móttöku bréfs þar um.“  Á fundi skipulagsráðs hinn 12. apríl 2006 var málið tekið fyrir að nýju og var þá eftirfarfandi fært til bókar:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 10. mars s.l., og bréf Steins Öfjörðs dags. 15. mars s.l., vegna hæðarmælinga í húsinu.  Jafnframt lagt fram minnisblað byggingarfulltrúa dags. 22. mars 2006 og minnisblað skipulags- og byggingarsviðs dags. 7. apríl 2006.

Skipulagsráð samþykkti minnisblað skipulags- og byggingarsviðs og bókaði:  Fyrir liggur að þak hússins nr. 3 við Vesturgötu er um það bil 30 cm. hærra en deiliskipulagsáætlun gerði ráð fyrir. Fram kemur í minnisblaði skipulags- og byggingarsviðs frá 7. apríl s.l., að aukin skuggi vegna hækkunarinnar er óverulegur og nánast ómælanlegur. Sama á við um yfirbragð hússins á nágrennið. Í því ljósi og með vísan til meginreglna meðalhófsreglu stjórnsýslulaga gerir skipulagsráð Reykjavíkur ekki kröfu til þess á þessari stundu að þak hússins skuli lækkað. Jafnframt felur ráðið byggingarfulltrúa að leggja fram greinargerð um ábyrgð aðalhönnuðar og byggingarstjóra á þeim mistökum sem augljóslega eru á verkinu þannig að ráðið geti tekið ákvörðun um hvort beita eigi þá viðeigandi viðurlögum sbr. ákvæði í gr. 211 og 212 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.“  Var kæranda tilkynnt um bókun skipulagsráðs með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 2. maí 2006, ásamt uppplýsingum um kærustjórnvald og kærufrest.  Hefur kærandi kært framangreint til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Af hálfu kæranda er því haldið fram að hin raunverulega hækkun hússins að Vesturgötu 3 sé 60 cm en ekki 30 cm líkt og haldið sé fram af hálfu byggingarfulltrúa.  Þá skipti ekki máli hvort skuggavarp vegna hækkunarinnar sé verulegt eða óverulegt eins og haldið sé fram heldur það að um sé að ræða verulega hækkun á friðuðu húsi umfram heimildir.  Hið sama eigi við um fullyrðingar embættisins um að yfirbragð hússins.  Flokki byggingarfulltrúi það undir íþyngjandi aðgerðir að sjá til þess að byggt sé samkvæmt samþykktum teikningum og útgefnum leyfum sé vandséð að hann uppfylli þær skyldur sem á embætti hans hvíli.  Varðandi viðurlög vegna brota þeirra sem um sé að ræða sé vísað til ákvæða 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem og 60. gr. sömu laga. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð bókun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. apríl 2006 í tilefni framkvæmda við húsið að Vestugötu 3, m.a. ranga þakhæð þess.  Umrædd bókun felur ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls, þvert á móti var tekið fram að  skipulagsráð gerði ekki kröfu til þess þá að þak hússins að Vesturgötu 3 skyldi lækkað og var byggingarfulltrúa falin áframhaldandi vinna vegna málsins.  Meint ákvörðun sem kærð er í máli þessu sætir því ekki kæru samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 _____________________________                   ______________________________
 Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson