Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

100/2024 Njarðargata 61

Með

Árið 2024, föstudaginn 20. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 100/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí 2024 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðar­götu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 19. september 2024, kærir A, Lokastíg 25, ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí s.á. um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðargötu. Af hálfu kæranda er þess krafist að grenndarkynnt verði í samræmi við lög og reglur. Þá er óskað eftir staðfestingu á framkvæmd grenndarkynningar skipulagsins og að kannað verði hvort unnt sé að endurskoða deiliskipulagsbreytinguna. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að jafnframt sé krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsatvik og rök: Auglýsing um hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu var birt í B-deild Stjórnar­­­tíðinda 6. júní 2024. Í henni felst breyting á byggingarreit Njarðargötu 61 svo unnt verði að byggja þrjár hæðir og ris á lóðinni með allt að átta íbúðum, byggingarmagn aukist og nýtingar­­hlutfall hækki. Kæru vegna sömu deiliskipulagsbreytingar var vísað frá úrskurðar­nefnd­inni með úrskurði í máli nr. 99/2024 hinn 18. september 2024 þar sem kærufrestur sam­kvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var talinn liðinn.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að honum hafi ekki verið tilkynnt um þá deili­skipulags­breytingu sem um er deilt í málinu, eins og lög geri þó kröfu um. Hvorki kærandi né aðrir íbúar í nærliggjandi húsum hafi fengið tilkynningu eða boð um að taka þátt í grenndarkynningu sem þó hafi verið fullyrt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma til­teknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til erindis kæranda að því er varðar beiðni um framkvæmd grenndarkynningar, staðfestingu á fyrirkomulagi hennar eða að kannað verði hvort unnt sé að endurskoða hinna umdeildu deiliskipulagsbreytingu. Verður sá hluti málsins framsendur Reykja­víkur­borg til afgreiðslu í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2024 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. september s.á. og var kærufrestur þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kæru­máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið eins og atvikum er háttað að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undan­tekningar­ákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

99/2024 Skólavörðustígur

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 18. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 99/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí 2024 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðar­götu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 13. september 2024 kærir A, afsalshafi íbúðar, F2006107, í tvíbýlishúsi því er stendur á lóð nr. 44A við Skólavörðustíg, ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí s.á. um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðargötu. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Auglýsing um hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu var birt í B-deild Stjórnar­tíðinda 6. júní 2024. Í henni felst breyting á byggingarreit Njarðargötu 61 svo unnt verði að byggja þrjár hæðir og ris á lóðinni með allt að átta íbúðum, byggingarmagn aukist og nýtingar­hlutfall hækki. Var tillaga að breytingunni grenndarkynnt fyrir kæranda skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með bréfi, dags. 12. apríl s.á., sem sent var á lögheimili hans og frestur til að koma framfæri athugasemdum veittur til 22. maí s.á.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann sé með skráð tímabundið aðsetur erlendis en haldi þó lögheimili á Íslandi skv. reglugerð nr. 648/1995 um réttindi og skyldur manna sem dveljast erlendis við nám. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi hafi verið „kynnt“ fyrir honum með einu bréfi sem ekki liggi fyrir að hafi borist á lögheimili hans. Önnur tilkynning hafi ekki borist, hvorki rafrænt né með öðrum leiðum. Kærandi hafi nú selt íbúð sína og séu kaupendur ósáttir við að hafa ekki verið upplýstir um þær framkvæmdir sem áformaðar séu.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2024 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. september s.á. og var kærufrestur þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda ekki talið unnt, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undan­tekningar­ákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

96/2024 Laugavegur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 10. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 96/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 4. júlí 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðarinnar nr. 1 við Laugaveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. september 2024, er barst nefndinni 6. s.m., kærir húsfélag Laugavegs 3 þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 4. júlí 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðarinnar nr. 1 við Laugaveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 4. maí 2023 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðarinnar nr. 1 við Laugaveg. Fólst breytingin í því að fella úr gildi heimild til að rífa steinhús á bakhluta lóðar, Laugavegur 1A, ásamt því að færa leyfilegt byggingarmagn til. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. apríl 2024 var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu á fundi 11. apríl 2024. Tillagan var auglýst 25. s.m. með athugasemdafresti til 11. júní s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá félagsmeðlimum kæranda. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júlí 2024 var breytingartillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa sem og með vísan til a-liðar 2. gr. viðauka 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkur.

Kærandi tekur fram að ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra athugasemda sem gerðar hafi verið á kynningartíma þrátt fyrir að þær hafi verið rökstuddar ítarlega. Deiliskipulagsbreytingin muni hafa í för með sér gífurlegt rask og trufla alla starfsemi í nálægu umhverfi. Sé þess krafist að við framkvæmdir verði tryggt að öll umgengni og umferð vegna framkvæmdanna verði um lóð Laugavegar 1 en verði hvorki beint um sund í húsinu að Laugavegi 3 né um baklóð lóðarinnar. Brot á klöpp, steypuvinna og aðfangaflutningar verði einungis heimilað á milli kl. 07:00 og 11:00. Jafnframt verði framkvæmdaáætlun kynnt fyrir eigendum Laugavegar 3 sem skuli fela í sér verulega háar dagsektir til að tryggja að framkvæmdum verði hraðað. Einnig að byggingarleyfishafa verði gert að leggja fram tryggingu til eigenda Laugavegs 3 fyrir öllu hugsanlegu tjóni sem framkvæmdin kunni að valda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Jafnframt skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum hefur hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

55/2024 Sandeyri

Með

Árið 2024, föstudaginn 16. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2024, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 um að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar og tengd mannvirki í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Sandeyri, þá ákvörðun  Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 29. maí 2024.

Málavextir: Hinn 1. apríl 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir framleiðslu á 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi, með 5.300 tonna hámarkslífmassa, í sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Matvælastofnun gaf svo út rekstrarleyfi (FE-1127) fyrir sama hámarkslífmassa 4. september 2020. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en með úrskurði, uppkveðnum 26. febrúar 2021 í máli nr. 89/2020, var kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Í september 2020 lagði Arctic Sea Farm fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um 8.000 tonna laxeldi og/eða silungseldi í Ísafjarðardjúpi. Álit Skipulagstofnunar um matsskýrsluna lá fyrir 28. janúar 2021. Taldi stofnunin að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt.

Hinn 3. nóvember 2023 sótti Arctic Sea Farm um byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf síðan út byggingarleyfi 11. apríl 2024. Í leyfinu kemur fram að byggingarfulltrúi stofnunarinnar hafi yfirfarið og staðfest aðaluppdrætti í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hafi það verið mat hans að önnur skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis skv. 13. gr. sömu laga væru jafnframt uppfyllt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi ítrekað andmælt sjókvíaeldi við jörð hans, sem sé einstök og ósnortin náttúruperla með viðkvæmu vistkerfi sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið heimiluð stóriðja innan netlaga jarðar hans, en skipulagsyfirvöld hafi lagt rangt mat á umfang þeirra og legu. Þá muni framkvæmdin hafa veruleg áhrif á nýtingu jarðarinnar, m.a. vegna mengunar í hafi og við strönd, hávaða, ljós- og sjónmengunar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi vanrækt þá skyldu sína skv. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að leggja mat á óafturkræf áhrif framkvæmdarinnar á þau vistkerfi sem séu innan jarðareignar kæranda með tilheyrandi sérfræðiálitum.

Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin bendir á að það hafi verið mat hennar að kærðar byggingarleyfisframkvæmdir hafi verið utan netlaga jarðar kæranda og því væri hann ekki aðili að stjórnsýslumáli um byggingarleyfið. Við greiningu á því hvort umrædd mannvirki væru innan netlaga hafi stofnunin stuðst við eigin athuganir á gögnum um svæðið og samsetningu upplýsinga úr byggingarleyfisumsókn, þ.e. hnit, fjölgeislamælingu frá Landhelgisgæslu Íslands og kortagrunn frá Landmælingum Íslands. Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun jafnframt óskað eftir afstöðu Skipulagsstofnunar um hvort byggingaráformin væru í samræmi við Strandsvæðisskipulag Vestfjarða 2022. Tekið var tillit til umhverfismats framkvæmdarinnar sem og áhættumats um siglingaöryggi. Leyfishafa hafi verið gert að afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar sem við eigi í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Það hafi leyfishafi gert og hafi verið tekið tillit til álitsins við mat á því hvort binda þyrfti byggingarleyfið frekari skilyrðum, en ekki hafi verið talin þörf á því.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærandi fullnægi ekki áskilnaði um kæruaðild, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og af þeim sökum beri að vísa málinu frá. Skýrlega verði ráðið af kæru að aðild hans að málinu felist eingöngu í því að umrædd framkvæmd hafi átt sér stað á eignarlandi hans, þ.e. innan netlaga jarðarinnar Sandeyri. Samkvæmt lögum nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða miðist netlög við sjávarbelti 115 m út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Ótvírætt sé að eldissvæði leyfishafa liggi mun lengra frá stórstraumsfjöruborði en 115 m. Stysta fjarlægð frá því svæði sem byggingarleyfið taki til að fasteign kæranda sé um 600 m og möguleg grenndaráhrif því óveruleg. Því til viðbótar hafi þýðingu að kærandi hafi ekki fasta búsetu á fasteigninni, en hún sé ætluð til notkunar yfir sumartímann. Að lokum liggi fyrir að leyfishafi hafi haft rekstrarleyfi á svæðinu frá árinu 2012 eða rúmum þremur árum áður en kærandi hafi eignast sína fasteign.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi kærumálsins.

Landareignum sem liggja að sjó fylgja netlög en í lögum er jafnan miðað við að þau nái 60 faðma eða 115 metra frá stórstraumsfjörumáli, sbr. t.d. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Í kæru er um hagsmuni kæranda vísað til þess að eldissvæði það sem kennt er við Sandeyri sé í netlögum þeirrar jarðar. Á þetta verður ekki fallist, að virtum gögnum þessa máls, þar sem fjarlægðin er meiri en sem nemur 115 metrum. Kærandi hefur um afmörkun netlaga einnig vísað til svonefndrar dýptarreglu Jónsbókar, þ.e. fyrirmæla í 2. kap. rekabálks um einkarétt til veiði miðað við dýpt selneta. Er ekki ástæða til að fjalla nánar um þá reglu eða gildi hennar, enda er ljóst af málsgögnum að meira dýpi er við umræddar eldiskvíar en miðað er við samkvæmt reglunni. Verður því aðild kæranda ekki reist á því að sjókvíar leyfishafa séu í netlögum landareignar hans.

Kemur þá til álita hvort kærandi hafi að öðru leyti lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa kærumáls, en svo sem fyrr er rakið verður að gera þá kröfu í þeim efnum að hið kærða rekstrarleyfi raski einstaklingsbundnum hagsmunum hans og að sú skerðing sé veruleg. Af aðaluppdráttum er fylgdu byggingarleyfisumsókn leyfishafa verður ráðið að fjarlægð frá fiskeldiskvíum og tengdum mannvirkjum að húsi kæranda sé um 2 km og að fjarlægð frá kvíunum að strandlengju sé um 1 km. Þrátt fyrir að kærandi megi vænta einhverrar truflunar vegna starfseminnar verður að teknu tilliti til framangreindra fjarlægðarmarka ekki álitið að grenndarréttur kæranda sé skertur svo verulega að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

78/2024 Hauganes

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 31. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 78/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 16. apríl 2024 um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 og afgreiðslu varðandi breytingu á deiliskipulagi Hauganess vegna Sjávarstígs 2.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 24. júlí 2024, kærir eigandi íbúðar að Aðalgötu 8, Hauganesi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 16. apríl s.á. að samþykkja tillögu um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 vegna Sjávarstígs 2, Hauganesi. Skilja verður málskot þetta svo að jafnframt sé kærð afgreiðsla sveitarstjórnar um breytingu á deiliskipulagi Hauganess vegna Sjávarstígs 2.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar hinn 16. apríl 2024 var samþykkt að gerð yrði óveruleg breyting á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 vegna áforma um nýtt 0,05 ha iðnaðarsvæði á Hauganesi. Á sama fundi frestaði sveitarstjórn afgreiðslu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Hauganess vegna Sjávarstígs 2. Tillagan gerði ráð fyrir nýrri 438 m2 lóð fyrir „hafnsækna“ starfsemi með 50 m2 byggingarheimild. Kærandi færir fram rök um að undirbúningur þessa hafi verið haldinn annmörkum og krefst ógildingar.

Niðurstaða: Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem ber undir Skipulagsstofnun og ráðherra til staðfestingar ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur síðan fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Skipulagsstofnun hefur upplýst að tillaga að breyttu aðalskipulagi hafi ekki verið staðfest af stofnuninni. Þá liggur fyrir að málsmeðferð breytingar á deiliskipulagi hefur verið frestað þar til málsmeðferð breytingar á aðalskipulagi lýkur.

Með þessu liggur ekki fyrir kæranleg stjórnvaldsákvörðun í máli þess, sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. laga nr. 37/1993. Verður því kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

77/2024 Njálsgata 38

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 24. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 77/2024, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 4. október 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits, reits 1.190.2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. júlí 2024, kærir einn eigandi lóðar nr. 38 við Njálsgötu, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 4. október 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits, reits 1.190.2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málatvik og rök: Kærandi er eigandi eins af þremur eignarhlutum í  lóðinni Njálsgötu 38 sem er innan deiliskipulags Njálsgötureits, reits 1.190.2. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 4. október 2023 var samþykkt breyting á deiliskipulaginu að undangenginni grenndarkynningu með vísan til A- liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs. Með deiliskipulagsbreytingunni sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2023 er heimilað að núverandi bílageymslu á baklóð Njálsgötu 38 verði rifin og í hennar stað byggt íbúðarhús með íbúð á einni og hálfri hæð með þakverönd sem snýr að öskustíg.

Kærandi vísar til þess að breytingartillagan hafi aldrei verið grenndarkynnt fyrir honum auk þess sem honum hafi aldrei borist tilkynning um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs að samþykkja deiliskipulagsbreytinguna. Kærandi hafi fengið vitneskju um ákvörðunina í júní 2024 fyrir tilviljun. Í aðdraganda deiliskipulagsbreytingarinnar hafi eigendur bílageymslunnar sem deiliskipulagsbreytingin taki til verið í samskiptum við kæranda um ákjósanlega útfærslu á breytingu hennar í íbúðarhús. Samkvæmt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember 2022, hefði þurft samþykki meðlóðarhafa fyrir breytingu á deiliskipulaginu en þess hafi ekki verið aflað. Umrædd breyting leiði til þess að eign kæranda komi til með að rýrna, svo sem vegna skerðingar á eignarhluta hans í lóð, aukins skuggavarps og ónæðis.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en um útreikning frests fer skv. 8. gr. laganna. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var birt í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2023 og mátti kæranda vera kunnugt um hana frá þeim tíma. Kærufresti vegna umræddrar ákvörðunar lauk 22. janúar 2024 en kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni ekki fyrr en 18. júlí s.á. eða tæpum sex mánuðum eftir lok kærufrests.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, eins og raunin er í máli þessu. Sé svo, sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Ekki verður talið að forsendur séu fyrir því að telja framangreindan drátt á kæru til úrskurðarnefndarinnar afsakanlegan eða að fyrir liggi veigamiklar ástæður í skilningi 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sem mæli með því að málið verði tekið til efnismeðferðar að kærufresti liðnum. Ber því samkvæmt nefndu ákvæða að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að deiliskipulag eða breytingar á því hafa ekki í för með sér ráðstöfun á beinum eða óbeinum eignaréttindum og almennt þarf að liggja fyrir samþykki lóðarhafa lóðar í óskiptri sameign svo byggingarleyfi fyrir mannvirkjum á henni fáist samþykkt, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

68/2024 Ægisnes 3

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 3. júlí 2024, tók Arnór Snæbjörnsson formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 68/2024, kæra á útgáfu heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á starfsleyfi til eins árs, dags. 30. maí 2024, fyrir starfsemi móttökustöðvar fyrir úrgang og flutning úrgangs að Ægisnesi 3, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2024, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Terra umhverfisþjónusta hf., útgáfu heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á starfsleyfi til eins árs, dags. 30. maí 2024, til handa Íslenska gámafélaginu ehf. fyrir starfsemi móttökustöðvar fyrir úrgang og flutning úrgangs að Ægisnesi 3, Akureyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Kærandi var keppinautur leyfishafa í útboði sem varðaði starfrækslu grenndarstöðva og gámastöðva á Akureyri og álítur að annmarkar hafi verið á framkvæmd útboðsins þar sem leyfishafi hafi ekki fullnægt skilyrðum sem þar hafi verið sett um aðstöðu og mengunarvarnir og er mál vegna þessa til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála. Hafi leyfisveitandi síðan farið út fyrir valdheimildir sínar með því að gefa út hið kærða starfsleyfi, þar sem skilyrðum til þess hafi ekki verið fullnægt, en með leyfinu komist leyfishafi nær því að öðlast samning samkvæmt hinu umdeilda útboði. Ekki sé viðunandi „að þeir aðilar, sem ekki hafa yfir að ráða aðstöðu sem uppfyllir kröfur til mengunarvarna og annars konar umhverfisverndar, geti tekið að sér verkefni fyrir hið opinbera, á grundvelli lægri verða, sem hljóta a.m.k. að hluta til að ráðast af hinni óviðunandi aðstöðu, sem sé kostnaðarsparandi.“ Þá hafi útgáfa leyfisins önnur afleidd áhrif og skekki allan samkeppnisrekstur á svæðinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður að túlka þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum og verður þá litið til þess hvort kærandi eigi slíkra beinna, einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta. Kærandi hefur fært fram sjónarmið fyrir úrskurðarnefndinni um að hann eigi samkeppnislegra eða fjárhagslegra hagsmuna að gæta af útgáfu hins kærða starfsleyfis. Almennt leiða slíkir óbeinir hagsmunir ekki til kæruaðildar samkvæmt stjórnsýslurétti. Þá verður ekki ráðið að í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sé gert ráð fyrir að samkeppnisaðilar í rekstri njóti aðildar að stjórnsýslumáli vegna umsóknar ótengds aðila um starfsleyfi, án þess að annað og meira komi til, t.d. grenndarhagsmunir eða hagsmunir sem kunna að leiða af skipulagsskilmálum. Þar sem ekkert liggur fyrir um að útgáfa hins umdeilda starfsleyfis snerti einstaklega lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann geti átt aðild að kæru vegna hennar verður kæru hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

59/2024 Tjarnarbíó

Með

Árið 2024, föstudaginn 21. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 59/2024, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 26. mars 2014 um að aflétta banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói og ákvörðun eftirlitsins frá 27. febrúar 2018 um að gefa út starfsleyfi til að starfrækja leikhús, samkomusali og kaffihús að Tjarnargötu 12.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. maí 2024, kærir íbúi að Suðurgötu 15, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 26. mars 2014 að aflétta banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að jafnframt sé kærð sú ákvörðun eftirlitsins frá 27. febrúar 2018 að veita Menningarfélaginu Tjarnarbíói starfsleyfi til að starfrækja leikhús, samkomusali og kaffihús að Tjarnargötu 12. Krefst kærandi „varanlegrar lausnar á vandamálinu með hávaðamengun“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 14. júní 2024.

Málsatvik og rök: Hinn 8. mars 2011 veitti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur Menningarfélaginu Tjarnarbíói starfsleyfi til reksturs leikhúss að Tjarnargötu 12. Með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 20. desember s.á., var lagt bann við tónleikahaldi og öðrum hávaðasömum viðburðum í Tjarnarbíói eftir að hljóðmælingar í nærliggjandi íbúðum sýndu að hávaði frá staðnum reyndist yfir viðmiðunarmörkum. Umræddu banni var síðar aflétt með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 26. mars 2014, eftir að gerðar voru úrbætur á hljóðeinangrun staðarins og hljóðstig í íbúðum mældist undir viðmiðunarmörkum. Í bréfinu var jafnframt kveðið á um að leyfishafi skyldi fylgja ákvæðum reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Starfsleyfi Tjarnarbíós sem nú er í gildi var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 27. febrúar 2018 og heimilar það rekstur leikhúss, samkomusals og  kaffihúss.

Kærandi telur að skilyrðum starfsleyfisins er varði hávaðamengun hafi ekki verið fullnægt og að sú mengun hafi valdið íbúum að Suðurgötu 15 verulegum óþægindum og skerðingu á lífsgæðum auk þess sem hún brjóti gegn friðhelgi einkalífs þeirra. Lausn leyfishafa með notkun hljóðdeyfis hafi reynst ófullnægjandi, en hún sé auðveldlega sniðgengin og krefjist persónulegrar íhlutunar stjórnenda í hvert sinn. Fjöldi kvartana hafi borist vegna hávaða frá Tjarnarbíói. Leyfishafi hafi ekki farið eftir skilyrðum útgefins starfsleyfis, en samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 beri að gæta sérstaklega að því að koma í veg fyrir að lágtíðnihljóð berist frá samkomustöðum.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur fram að niðurstöður mælinga, sem gerðar hafi verið árið 2014 við reglubundið eftirlit, hafi sýnt fram á að hljóðstig væri undir mörkum reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða og hafi því ákvörðun eftirlitsins frá 20. desember 2011 um bann við tónleikahaldi og öðrum hávaðasömum viðburðum í Tjarnarbíói verið aflétt. Þá sé bent á að talsverður tími sé liðinn frá þeim ákvörðunum sem kæran lúti að og kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé liðinn.

Leyfishafi bendir á að sá búnaður sem settur hafi verið upp árið 2014 og ætlaður sé til takmörkunar á hljóðkerfi Tjarnarbíós sé enn til staðar og sé virkur. Bent sé á að hljóðstyrkur sé reglulega mældur með búnaði í formi smáforrits en leyfishafi telji þörf á að kaupa áreiðanlegri mæli svo mælingar standist kröfur um áreiðanleika. Hömlur séu á hljóðkerfi og eigi búnaðurinn að framfylgja hömlum á tilteknu lágtíðnisviði þó ekki sé hægt að útiloka að lágtíðni slæðist inn á hamlað tíðnisvið á viðburðum sem notist við stöðuga lágtíðni. Þegar litið sé til þeirra viðburða sem kvartað hafi verið yfir sé erfitt að festa fingur á það hvað það sé sem trufli kæranda annað en búseta í nálægð við lifandi miðstöð sviðslista. Því sé mótmælt að notkun umrædds hömlunarbúnaðar sé háður aðkomu tæknifólks eða annara og að nokkuð sé gert til þess að komast hjá notkun hans.

Niðurstaða: Hið umdeilda starfsleyfi var gefið út í febrúar 2018 og var ákvörðunin kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá mars 2014 um að aflétta banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói var þá sömuleiðis kæranleg til nefndarinnar samkvæmt lögunum.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kæran barst rúmlega sex árum eftir að núgildandi starfsleyfi var gefið út og rúmlega 10 árum frá því að ákvörðun þess efnis að banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói yrði aflétt. Kæran er því of seint fram komin og verður vísað frá nefndinni í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að kæru skuli vísa frá berist hún að liðnum kærufresti og að henni skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Rétt þykir að benda á að telji kærandi að hávaði frá umræddri starfsemi sé yfir heimiluðum mörkum við fasteign hans samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 um hávaða er eftir atvikum unnt að leita atbeina Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til að fá úr því skorið.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

24/2024 Túngata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 6. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á íbúðarhúsi á lóð nr. 36a  við Túngötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 28. febrúar 2024, kærir eigandi að Marargötu 7, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á íbúðarhúsi á lóð nr. 36a við Túngötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. mars 2024.

Málavextir: Á Túngötu 36 og 36a er parhús. Hinn 26. ágúst 2022 kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð í máli nr. 22/2022 þar sem felld var úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars s.á. um að samþykkja leyfi fyrir áður gerðum breytingum á húsinu að Túngötu 36a. Fólust þær breytingar í því að í stað glugga á norðurhlið hússins voru settar dyr sem stækkaði opið auk þess sem gerðar voru svalir eða pallur með tröppum niður á lóðina. Í niðurstöðu nefndarinnar kom fram að ekki væri loku fyrir það skotið að umdeildar framkvæmdir gætu haft grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda, s.s. vegna auk­innar innsýnar og breyttrar umferðar um lóð leyfishafa. Ætti undantekningarregla 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 því ekki við og hefði borgaryfirvöldum borið að grenndar­kynna hina umdeildu umsókn fyrir kæranda og öðrum er gætu átt hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 30. janúar 2024 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á húsinu að Túngötu 36a. Fólst hún í það sinn aðeins í síkkun glugga á norðurhlið hússins. Var umsóknin talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010. Jafnframt var tekið fram að um væri að ræða samþykkt á framkvæmd sem gerð hefði verið án byggingarleyfis. Fékk framkvæmdar­aðili sent bréf, dags. 5. febrúar 2024, þar sem fram kom að umsókn hans um byggingarleyfi hefði verið samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með hinni kærðu ákvörðun sé hunsaður úrskurður úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022. Við undirbúning ákvörðunar­innar hafi ekki farið fram grenndarkynning en innsýn í íbúð sé óbreytt frá fyrra máli. Þá fáist ekki séð að Minjastofnun Íslands hafi fjallað um breytinguna, en hús á lóðum Túngötu 36 og 36a hafi verið reist fyrir árið 1940 og falli því undir áskilnað 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Jafnframt verði hvorki séð hvort sameigandi parhússins hafi samþykkt umrædda framkvæmd né hvers vegna vísað hafi verið til þess við afgreiðslu málsins að fyrir lægi samþykki lóðarhafa Túngötu 23. Sé um rökstuðning fyrir kæru vísað til rökstuðnings úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 22/2022.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Engir þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Sérstaklega hafi verið horft til þess að fyrirliggjandi umsókn væri talsvert frábrugðin fyrri umsókn frá árinu 2022. Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022 hafi umsækjandi lagt fram nýja umsókn um byggingarleyfi, dags. 18. október 2023, þar sem einungis hafi verið sótt um leyfi fyrir áðurgerðum breytingum er fólust í síkkun glugga á norðurhlið hússins. Litið hafi verið til þess að á húsinu hafi verið minni gluggi frá byggingu þess og staðfestu upphaflegar teikningar það. Eftir vettvangsskoðun byggingarfulltrúa og mat á umfangi og grenndaráhrifum breytingarinnar gagnvart fasteign kæranda hafi umsóknin verið samþykkt. Byggingar­­fulltrúi hafi talið breytinguna í engu skerða hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn og því hafi ekki verið tilefni til að grenndarkynna umsóknina, sbr. loka­málslið 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsókninni hafi fylgt samþykki sameiganda að Túngötu 36 og þar með hafi skilyrði um samþykki meðeiganda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús verið uppfyllt, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en tilvísun til samþykkis lóðar­hafa Túngötu 23 í fundargerð byggingarfulltrúa frá 30. janúar 2024 hafi verið ritvilla sem búið sé að lagfæra.

Breytingin muni ekki hafa aukin grenndaráhrif í för með sér gagnvart fasteign kæranda, hvorki hvað varði innsýn né önnur grenndaráhrif. Snúi umræddur gluggi að bakgarði og girðingu milli Túngötu 36a og fasteignar kæranda. Framkvæmdir á Túngötu 36a hafi verið gerðar á árinu 2021 en þá hafi verið við það miðað í 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar að leita skyldi umsagnar Minjastofnunar Íslands væru hús byggð árið 1925 eða fyrir þann tíma. Það hafi ekki verið fyrr en með breytingarlögum nr. 126/2022 sem tekið hafi gildi 1. janúar 2023 sem miðað hafi verið við að leita skyldi umsagnar vegna húsa sem byggð væru fyrir árið 1940. Þar sem samþykki byggingarfulltrúa hafi tekið til áðurgerðra breytinga hafi hann ekki talið sig skyldan til að fylgja því eftir hvort umsækjandi hefði leitað álits Minjastofnunar Íslands. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 80/2012 skyldu eigendur leita álits stofnunarinnar áður en ráðist væri í verulegar breytingar, flutning eða niðurrif. Um hafi verið að ræða minniháttar breytingu á einum glugga sem falli þar af leiðandi ekki undir 30. gr. laganna.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila, fyrri eiganda Túngötu 36a, er tekið fram að eftir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022 hafi eigendur hætt við þau áform sín að byggja stigapall og tröppur niður á plan norðan megin við húsið en eftir hafi staðið síkkun glugga í stofu. Slík framkvæmd sé ekki byggingar­leyfisskyld en skuli tilkynnt byggingarfulltrúa. Þar sem síkkunin hafi verið framkvæmd áður en byggingarfulltrúa hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða síkkun hafi embættið ákveðið að sækja skyldi um byggingarleyfi. Ekki hafi verið gefið út byggingarleyfi enda framkvæmdin eingöngu tilkynningaskyld.

Marargata 7 standi töluvert hærra en Túngata 36a og hafi því innsýn frá Marargötunni verið mikil áður en glugginn hafi verið síkkaður. Snúi sex stórir stofugluggar að Túngötu 36a þar sem á móti hafi verið fimm misstórir gluggar. Standist húsin ekki alveg á og að auki séu 30 m frá glugganum á Túngötu 36a að húsi kæranda og nokkur gróður á milli húsanna. Vegna fjarlægðar og afstöðu verði ekki séð hvernig innsýn kæranda inn um einn síkkaðan glugga í stofu Túngötu 36a geti haft nokkur slík grenndaráhrif að tilefni sé til kærunnar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að meðal þeirra gagna sem fylgt hafi umsögn Reykjavíkurborgar sé teikning arkitekts sem dagsett sé 18. október 2023. Geri kærandi ráð fyrir að umrædd teikning sé flokkuð sem byggingarleyfisumsókn sem tekin hafi verið afstaða til á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. janúar 2024. Ný umsókn um byggingarleyfi hafi því borist frá tilgreindum arkitekt rúmi ári eftir að úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn í máli nr. 22/2022. Þegar umsóknin hafi verið lögð inn hjá Reykjavíkurborg hafi lög nr. 126/2022 sem breytt hafi lögum nr. 80/2012 um menningarminjar tekið gildi. Sú lagaskylda að leita skuli umsagnar Minjastofnunar Íslands hafi ekki verið uppfyllt. Það sé útilokað að það sé hlutverk Reykjavíkurborgar að leggja mat á það hvaða breytingar á húsum sem falli undir 30. gr. laganna teljist minniháttar eða meiriháttar, verulegar eða óverulegar. Slíkt mat sé í höndum Minjastofnunar, ef það eigi yfirleitt að fara fram. Hafi starfsmaður Reykjavíkurborgar óskað eftir afstöðu stofnunarinnar til umsóknarinnar og í svari 21. mars 2024 hafi m.a. komið fram að stofnunin teldi umræddar breytingar umsagnarskyldar skv. 30. gr. laga nr. 80/2012. Reykjavíkurborg hafi hunsað þessa niðurstöðu og upplýst nefndina um að byggingarfulltrúi teldi að ekki væri þörf á því að leita álits Minjastofnunar.

Fyrir óleyfisframkvæmd fyrri eigenda Túngötu 36a hafi gluggi á norðurvegg hússins við Túngötu 36a verið þannig staðsettur að eigendur íbúða gegn nefndri íbúð hafi ekki séð inn í hana. Hafi framkvæmdirnar falist í því að téður gluggi hafi í það minnsta verið tvöfaldaður að stærð. Eftir breytinguna hafi innsýn aukist verulega inn í íbúðina frá íbúðum við Marargötu 7.

Eigendaskipti hafa orðið að Túngötu 36a og hafa nýir eigendur tekið undir málatilbúnað borgaryfirvalda.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 6. júní 2024.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu sem fólst í því að gluggi á 1. hæð norðurhliðar íbúðarhúss á lóð nr. 36a við Túngötu var síkkaður.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Með hinu umdeilda leyfi var fallist á stækkun glugga á norðurhlið hússins að Túngötu 36a. Á þremur hæðum hússins á þeirri hlið hafa frá byggingu þess árið 1937 verið níu gluggar. Sá gluggi sem um er deilt í málinu nær nú niður á gólf. Glugginn er í stofu hússins og við hlið hans er stærri stofugluggi og er sambærilegur gluggi í hinum hluta parhússins, þ.e. í þeim hluta sem er á lóð nr. 36 við Túngötu. Hvorki verður séð að innsýn yfir á lóð kæranda aukist að neinu marki né að aukin innsýn hans vegna síkkunar gluggans snerti lögvarða hagsmuni hans með þeim hætti að játa verði honum kæruaðild vegna hinnar umdeildu ákvörðunar. Þá teljast sjónarmið um verndun mannvirkja samkvæmt lögum nr. 80/2012 um menningarminjar til almanna­hagsmuna en slík sjónarmið teljast að jafnaði ekki til einstaklingsbundinna hagsmuna. Verður kærumáli þessu af framangreindum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

46/2024 Hestagerði við Markarveg

Með

Árið 2024, föstudaginn 31. maí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 46/2024, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Kópavogsbæjar vegna erindis kæranda um hestagerði austan við lóð Markavegar 9.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. apríl 2024, kærir eigandi lóðarinnar Markavegar 9 í Kópavogi, aðgerðarleysi Kópavogsbæjar vegna hestagerðis austan við lóð kæranda. Er þess krafist að úrskurðarnefndin geri sveitarfélaginu að bregðast við erindi kæranda og taka ákvörðun í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 16. maí 2024.

Málsatvik og rök: Í ágúst 2019 sendi kærandi bréf til umhverfissviðs Kópavogsbæjar þar sem gerðar voru athugasemdir við hestagerði Hestmannafélagsins Spretts sem staðsett er austan við lóð kæranda að Markavegi 9. Lutu athugasemdirnar aðallega að hæð gerðisins og skorti á dreni og niðurfalli, en það taldi kærandi að myndi leiða til snjó- og vatnssöfnunar á lóð hans. Óskaði hann eftir svörum við tilteknum spurningum og krafðist aðgerða af hálfu sveitarfélagsins, m.a. um að bærinn myndi byggja nýtt hringgerði í eðlilegri hæð. Svaraði sveitarfélagið fyrirspurnum kæranda 2. september s.á. en ekki var tekin afstaða til krafna hans. Hinn 12. júlí 2022 sendi kærandi bréf til umhverfissviðs og byggingarfulltrúa Kópavogs þar sem ítrekaðar voru athugasemdir um hestagerðið, m.a. að það væri í ósamræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012. Fór kærandi fram á að sveitarfélagið myndi bregðast við „þessari óleyfisframkvæmd og tryggja að gengið verði frá málum í samræmi við lög“. Einnig krafðist hann þess að sveitarfélagið myndi klára að leggja gangstéttir og steypa veggi á tilgreindum stöðum á svæðinu. Kærandi og sveitarfélagið voru svo í frekari samskiptum vegna málsins á árinu 2023 en í október það ár tilkynnti lögmaður sveitarfélagsins kæranda að málið væri í skoðun. Hinn 6. desember 2023 var af hálfu kæranda óskaði eftir svari við því hvort byggingarfulltrúi hygðist bregðast við erindi hans. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 14. apríl 2024. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí s.á., var kröfum kæranda um aðgerðir af hálfu sveitarfélagsins hafnað.

Í kæru sinni bendir kærandi á að umdeilt hestagerði sé ekki í samræmi við byggingarreglugerð en hæðarmunur valdi snjó-, aur- og steinfoki á lóð hans auk þess sem vatn renni inn á hana með tilheyrandi tjóni og óþægindum. Ítrekað hafi hann reynt að fá byggingarfulltrúa eða Kópavogsbæ til að bregðast við í samræmi við lög en aldrei hafi verið brugðist við eða gefnar viðunandi skýringar á því af hverju ekki sé þörf á því. Slíkt sé í andstöðu við lög nr. 160/2010 um mannvirki, byggingarreglugerð, málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og góða stjórnsýsluhætti.

Kópavogsbær krefst þess að úrskurðarnefndin vísi kærumálinu frá þar sem brugðist hafi verið við erindum kæranda og hafi hann því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki frekar sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Verði ekki fallist á frávísun málsins sé þess krafist að kröfum kæranda um aðgerðir af hálfu Kópavogsbæjar verði hafnað með vísan til þeirra raka sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí 2024.

Niðurstaða: Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæra í máli þessu lýtur að drætti á afgreiðslu Kópavogsbæjar á erindi kæranda um að sveitarfélagið bregðist við í tilefni af hestagerði Hestamannafélagsins Spretts sem staðsett er austan við lóð kæranda að Markavegi 9. Líta verður svo á að í erindinu felist beiðni um beitingu þvingunarúrræða á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki, en skv. 59. gr. laganna sæta stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er málinu því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.

Fyrir liggur að eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni brást sveitarfélagið við og afgreiddi umrætt erindi kæranda. Var það gert með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí 2024, þar sem fram kom það mat byggingarfulltrúa að umrætt hestagerði væri hvorki í ósamræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012 né byggingarleyfisskyld framkvæmd. Kröfum kæranda um gerð gangstétta og veggja var svarað á þann veg að slíkar framkvæmdir væru ekki í samræmi við deiliskipulag. Væri það mat embættisins að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða og að ekki væri tilefni til að grípa til þvingunarúrræða af þeim sökum, enda yrði ekki séð að öryggis- eða almannahagsmunir knýi á um slíkar aðgerðir. Það væri ekki á ábyrgð Kópavogsbæjar að kosta úrbætur, s.s. með gerð stoðveggjar. Að lokum var kæranda leiðbeint um kæruheimild og kærufrest vegna ákvörðunarinnar.

Samkvæmt framansögðu hefur byggingarfulltrúi brugðist við erindi kæranda með fullnægjandi hætti. Hefur það því ekki þýðingu að úrskurða um drátt á afgreiðslu erindis hans, eftir atvikum til að knýja á um afgreiðslu málsins,  og verður kröfu kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.