Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

75/2020 Egilsgata

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 29. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2020, er barst nefndinni 14. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 10. september 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur í fjórgang lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi hefur aðsetur að Egilsgötu 4. Með úrskurði í kærumáli nr. 24/2019, uppkveðnum 23. janúar 2020, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Taldi úrskurðarnefndin að hin kærða ákvörðun uppfyllti ekki áskilnaði 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 um að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við byggingarreglugerð. Hinn 27. febrúar 2020 sótti leyfishafi um endurnýjað byggingarleyfi. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 3. apríl s.á. var samþykkt að grenndarkynna teikningar framkvæmdarinnar ásamt afstöðumynd á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi sveitarstjórnar 8. s.m. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar, m.a. frá kæranda, og voru þær lagðar fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar 5. júní s.á. Var framkomnum athugasemdum svarað með bréfi byggingarfulltrúa 15. s.m. Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 18. s.m. var byggingarfulltrúa falið að gefa út hið umsótta byggingarleyfi sem hann og gerði 15. júlí 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með útgáfu hins kærða byggingarleyfis sé vegið verulega að réttindum hans og hagsmunum. Leyfið hafi hvorki fullnægjandi stoð í lögum nr. 160/2010 um mannvirki eða skipulagslögum nr. 123/2010 né reglugerðum sem leiði af þeim lögum. Svör byggingarfulltrúa við athugasemdum kæranda standist ekki skoðun.

Í gögnum vegna grenndarkynningar byggingarleyfisins sé ekkert að finna um bílastæði og fyrirkomulag þeirra líkt og mælt sé fyrir um í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sbr. einnig gr. 4.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð skuli í bréfi til hagsmunaaðila koma fram hvert sé meginefni grenndarkynningarinnar og rökstuðningur fyrir málsmeðferðina. Ekkert sé að finna um slíkt í gögnum sem fylgdu með grenndarkynningunni. Einnig vanti mörg þau gögn sem gr. 5.9.7. í reglugerðinni kveði á um að fylgja skuli við grenndarkynningu. Þá uppfylli hönnunargögn sem fylgt hafi grenndarkynningu ekki fjölmörg ákvæði byggingarreglugerðar, s.s. gr. 1.2.1., 2.4.1., 4.3.1., 4.3.3., 4.3.9., 4.4.4., 6.1.1., 6.1.3., 6.1.5., 6.7.1., 6.7.2., 6.7.4., 6.7.14. og 6.10.3.

Öllu máli skipti að með breytingunni fjölgi íbúðum Egilsgötu 6 úr einni í fjórar en það hafi veruleg áhrif á nágrennið. Það sé ekki einkamál sveitarfélagsins og leyfishafa hvar bílastæði íbúðanna eigi að vera því verulegur skortur sé á bílastæðum. Það sé hlutverk sveitarfélagsins að sjá til þess að umsækjandi um byggingarleyfi leggi fram gögn þar sem fram komi hvar bílastæði skuli vera, þ. á m. fyrir fatlaða, og hvað þau skuli vera mörg. Samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi fyrir Egilsgötu 11 séu bílastæði gegnt húsum nr. 8-10 við Egilsgötu innan marka lóðar Egilsgötu 11. Lóðarhafi þeirrar lóðar hafi ekki framselt bílastæðin til sveitarfélagsins eða nokkurs annars aðila. Í svari byggingarfulltrúa við athugasemdum kæranda við grenndarkynningu komi fram að vegna skipulagsákvörðunar sveitarstjórnar frá árinu 2004 hafi umrædd stæði verið á svæði sem sveitarfélagið hafi óskoraðan rétt yfir. Það sé fráleitt að halda því fram að skipulagsákvörðun sveitarfélagsins felli úr gildi lóðarleigusamning eða þinglýsta eignarheimild.

Hafnað sé rökum um undanþágu frá algildri hönnun. Það sé í andstöðu við lög og reglugerðir að veita afslátt á aðgengi, m.a. varðandi bílastæði fyrir fatlaða. Óheimilt sé að ganga frá fyrirkomulagi bílastæði fyrir nýjar íbúðir líkt og undanþágubeiðnin geri ráð fyrir. Sveitarfélagið bendi á bílastæði í eigu þess en öll bílastæðin séu hins vegar í eigu einkaaðila. Engin boðleg aðkoma sé að íbúð á efri hæð og sveitarfélagið geti ekki gefið út hið kærða byggingarleyfi öðruvísi en að þinglýst sé kvöð um aðkomu að íbúðinni yfir lóð Egilsgötu 8. Það hafi ekki verið gert og sé fyrirkomulagið í óþökk þeirra sem eigi umrædda lóð.

Mælt sé fyrir um það í 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald að falli útleiga íbúðar ekki undir heimagistingu teljist íbúðin vera atvinnu­húsnæði og skuli vera samþykkt af byggingarfulltrúa sem slík. Eldvarnir skuli taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði, en með „auknum ráðstöfunum skv. reglum Mannvirkjastofnunar þar að lútandi.“ Sveitarfélagið hafi ítrekað gefið sýslumanni jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu að Egilsgötu 6. Í því ljósi orki mjög tvímælis sú framsetning að aðeins sé verið að grenndarkynna fjölgun á íbúðum en ekki tekið fram að þær séu undir atvinnustarfsemi.

Kærandi hafi fundað með sérfræðingum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Skipulags-stofnunar vegna málsins. Hafi niðurstaða þeirra funda verið samhljóða því sem að framan sé rakið, m.a. að um verulega mikla breytingu sé að ræða sem hafi áhrif á stórt svæði, formgalli sé augljós þar sem ekki sé tilkynnt um rétta notkun, leyfi sýslumanns sé ekki í samræmi við notkun, rökstuðning vanti alfarið um hvernig leysa eigi bílastæðamál, aðkoma að íbúð á efri hæð sé ekki ígrunduð lagalega séð, það sé grófur yfirgangur að teikna tröppur inn á teikningu Egilsgötu 6, gögn þurfi að vera miklu ítarlegri og kynningin sé á röngum forsendum.

Skipulagsyfirvöld í sveitarfélaginu hafi ítrekað sett skilyrði um tiltekinn fjölda bílastæða vegna fjölgunar íbúða á svæðinu. Þau hafi heimild til að gera kröfur um bílastæði fyrir samþykki íbúða og þeirri heimild hafi byggingarfulltrúi beitt árið 2017 þegar hann setti það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að Brákarbraut 1 að upplýst yrði um stærð lóðar, lóðarmörk og staðsetningu bílastæða. Sú lóð sé á sama skipulagssvæði og Egilsgata 6. Það sýni hvernig sveitarfélagið mismuni aðilum í algjörlega sambærilegum málum. Brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 12. gr. sömu laga um meðalhóf.

Í 10. gr. lögreglusamþykktar Borgarbyggðar nr. 390/2010 komi fram að atvinnustarfsemi í íbúðarhverfum sé óheimil. Sveitarstjórn geti þó heimilað þar minni háttar starfsemi, svo fremi að tryggt sé að slíkt leiði ekki af sér ónæði eða truflun gagnvart íbúum og önnur opinber leyfi liggi fyrir. Einnig komi fram að atvinnurekstri í húsnæði, sem liggi að íbúðarbyggð, skuli haga þannig að ekki hljótist ónæði eða truflun fyrir þá sem næst búa. Gildi þetta jafnt um starfsemina sjálfa sem og umferð sem af henni hljótist. Kærandi hafi vægast sagt slæma reynslu af gistiþjónustu að Egilsgötu 6. Hafi sveitarfélagið heimilað þann rekstur árið 2013 án þess að sú starfsemi hafi verið grenndarkynnt. Síðan hafi sveitarfélagið þrisvar sinnum gefið jákvæða umsögn um útgáfu rekstrarleyfis til sýslumannsins á Vesturlandi. Gistiþjónusturekstrinum fylgi umferð allan sólarhringinn og hávaði kvölds og nætur.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eigi aðeins við þegar sótt sé um leyfi fyrir einstakri framkvæmd á svæði þar sem aðalskipulag sé ekki fyrir hendi, sbr. 1. tl. bráðabirgðaákvæða skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem aðalskipulagsáætlun sé í gildi fyrir Borgarbyggð telji sveitarfélagið að umrædd grein eigi ekki við í málinu. Hvað varði gr. 5.9.2. í reglugerðinni sé bent á að í hinni umræddu grenndarkynningu komi fram að hún sé sett fram vegna breytinga innanhúss, auk þess sem teikningar vegna framkvæmdanna hafi fylgt með henni. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019 hafi komið fram að þegar grenndarkynningu sé þannig háttað sé talið að meginefni kynningarinnar komi fram með fullnægjandi hætti. Þá sé óþarfi að útbúa hnitsetta afstöðumynd eða gögn um landmótun og/eða götumynd, sbr. gr. 5.9.7. í reglugerðinni, þegar um breytingar á innbyrðis skipulagi mannvirkis sé að ræða. Öll gögn sem skipulagslög og skipulagsreglugerð geri ráð fyrir hafi þegar verið send kæranda við grenndarkynningu og því sé ekki skylt að leggja fram nein frekari gögn.

Í núgildandi skipulagsreglugerð sé ekki gerð krafa um það að tilteknum fjölda íbúða skuli fylgja tiltekinn fjöldi bílastæða, en slíkt ákvæði hafi verið í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Samkvæmt núgildandi skipulagsreglugerð sé skipulagsyfirvöldum sett það í sjálfsvald með hvaða hætti þau vilja haga bílastæðamálum en eina krafan þar um sé sú að kveðið sé á um þau mál í deiliskipulagi. Í þessu máli sé ekki um gerð deiliskipulags að ræða og því hafi sveitarfélaginu ekki verið skylt að gera kröfu á hendur eigendum Egilsgötu 6 um tilteknar ráðstafanir vegna bílastæðamála við húsið þó sótt hafi verið um byggingarleyfi vegna fjölgunar íbúða í húsinu. Við afgreiðslu umsóknarinnar hafi verið litið til þess að beint á móti húsinu séu bílastæði í eigu sveitarfélagsins og sé fullkomlega eðlilegt að þau verði notuð af íbúum hússins. Í afgreiðslunni felist hvorki ákvörðun um að afsala umræddum stæðum til eigenda hússins né að þeir skuli njóta forgangs til stæðanna.

Því sé ekki mótmælt að samkvæmt uppdrætti lóðarleigusamnings Egilsgötu 11 séu hin um­deildu bílastæði innan lóðarmarka þeirrar lóðar. Hins vegar komi fram í lóðarleigusamningnum að hvenær sem bæjarstjórn telji þörf á að nýta lóðina undir opinber mannvirki, opin svæði og annað, sem skipulagsuppdráttur geri ráð fyrir, sé leigutaka skylt að láta leigurétt sinn og lóðina af hendi. Með gerð deiliskipulags fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi árið 2004 hafi lóðin við Egilsgötu 11 verið minnkuð og kveðið á um að bílastæði fyrir húsið skyldu vera á sérstakri lóð sunnan við það. Hin umdeildu bílastæði hafi verið svokölluð almenningsrými frá þeim tíma og hafi lóðarhafi Egilsgötu 11 verið upplýstur um framangreinda afstöðu sveitarfélagsins.

Kærandi haldi því fram með óútskýrðum og órökstuddum hætti að hönnunargögn uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Um sé að ræða breytingar innanhúss í gömlu og grónu hverfi og því ekki þörf á lóðaruppdrætti. Sveitarfélagið hafi nýtt sér heimild til þess að ákveða að við meðferð málsins þyrftu byggingarleyfishafar ekki að leggja fram slíka uppdrætti, sbr. a-lið gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð, þar sem segi að leyfishafi ákveði hvort og að hvaða leyti þurfi að leggja fram aðaluppdrætti vegna umsóknar um breytingar á þegar byggðu mannvirki. Þetta ákvæði telur sveitarfélagið raunar að eigi við um allt það sem fram komi í kærunni varðandi þá aðaluppdrætti sem lagðir hafi verið fram með umsókninni. Þá vísi sveitarfélagið jafnframt til gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð þar sem komi fram að ekki sé algilt að byggja þurfi á sjónarmiðum algildrar hönnunar þegar eldra mannvirki, sem byggt hafi verið í tíð eldri byggingarreglugerðar, sé breytt heldur sé heimilt að víkja frá þeim sjónarmiðum ef sérstökum erfiðleikum sé háð að uppfylla ákvæði 6. kafla reglugerðarinnar. Þegar þannig hátti til skuli hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða einstöku ákvæðum óskað sé eftir að víkja frá og geti leyfishafi veitt slíkt leyfi. Í þessu máli hafi hönnuður skilað sérstakri greinargerð um ástæður þess að sótt væri um undanþágur frá algildri hönnun. Einnig sé bent á að ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem kærandi vísi til, hafi verið fellt niður með reglugerð nr. 686/2018 og sé því ekki lengur í gildi.

Þær ákvarðanir sem kærandi vísi til vegna fasteigna við Egilsgötu hafi verið teknar í gildistíð skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, en í þeim hafi verið ákvæði um ákveðinn fjölda bílastæða vegna tiltekinna fermetra í byggðu húnæði. Slíkum ákvæðum sé ekki lengur fyrir að fara í núgildandi reglugerðum um sama efni. Því sé ekki verið að brjóta gegn lögum og sjónarmiðum um jafnræði með því að kveða ekki á um fyrirkomulag bílastæða í þessu máli. Þá sé ekki hægt að bera saman fyrirliggjandi mál við byggingarleyfisumsókn vegna Brákabrautar 1 frá árinu 2017, en fyrirkomulag þeirrar lóðar sé með allt öðrum hætti. Lóðin Brákarbraut 1 sé rúmum 220 m2 stærri en lóðin Egilsgata 6 auk þess sem lega hennar og staðsetning geri það kleift að leggja bílum innan lóðarmarka bæði norðan og austan megin, en þessu sé ekki þannig farið með lóðina Egilsgötu 6. Sá hluti þeirrar lóðar sem ekki sé undir húsinu sé í umtalsverðum halla en húsið standi svo á lóðarmörkum til suðurs, vestur og austurs. Þessar aðstæður geri það að verkum að sveitarfélagið hafi ekki talið sér skylt að krefjast þess að gerð yrði grein fyrir bílastæðum á hinum grenndarkynnta aðaluppdrætti. Jafnframt sé bent á að bílastæði í eigu lóðarinnar sunnan megin við húsið við Egilsgötu 2-10 hafi um langa hríð verið til ráðstöfunar fyrir umrædd hús, þ. á m. hús kæranda, þar sem að ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum á lóðum neins þeirra. Hafi sveitarfélagið talið að þau stæði uppfylltu bílastæðaþörf svæðisins þrátt fyrir breytingarnar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir aðallega kröfu um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn kæruefnis að hluta og vegna aðildarskorts hans um önnur atriði. Kæran sé ruglingsleg og ýmis atriði dregin fram sem séu byggingarleyfinu óviðkomandi.

Bent sé á að í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 falli Egilsgatan í heild undir hverfis­verndarsvæði og sé kveðið þar á um að mikilvægt sé að halda einkennum byggðar frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Að setja skábraut við húsið yrði mikið rask fyrir götumyndina og myndi taka yfir gangstéttina utan við húsið að mestum hluta. Eigendur hafi kappkostað að halda útliti hússins að Egilsgötu 6 að mestu óbreyttu.

Bent sé á að kærandi hafi árið 2012 fengið samþykktar teikningar þar sem neðri hæð hússins að Egilsgötu 4 hafi verið breytt úr atvinnuhúsnæði í stúdíóíbúð. Því sé misræmi í málflutningi kæranda gagnvart nágrönnum og öðrum íbúum. Þá sé stigi að efri hæð íbúðar Egilsgötu 6 í óskiptri sameign lóða nr. 4 og 6 við Egilsgötu. Kærandi geti engan veginn haldið því fram að stiginn sé alfarið eign hússins að Egilsgötu 4.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykki byggingarfulltrúans í Borgarbyggð fyrir byggingarleyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Kærandi er eigandi húss á aðliggjandi lóð og tengja steyptar tröppur húsin saman. Hefur kæranda verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli fyrir nefndinni áður vegna sömu breytinga svo sem rakið er í málavaxtalýsingu. Hafa engin atvik breyst frá fyrra máli sem gefi tilefni til að breyta niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um kæruaðild kæranda. Verður því ekki fallist á þá kröfu leyfishafa að vísa kærunni frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum kæranda í máli þessu.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem fram­kvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdarfresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og kom kærandi að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd og hún samþykkt, auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfisumsóknina í kjölfar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar og var sú ákvörðun staðfest af sveitarstjórn 11. júní 2020.

Samkvæmt þéttbýlisuppdrætti Aðalskipulags Borgarbyggðar 2010-2022 er lóðin Egilsgata 6 á skilgreindu svæði fyrir blandaða notkun (BL2). Í greinargerð aðalskipulagsins kemur fram að gamli miðbærinn (BL2) nái yfir íbúðasvæði, verslun og veitingarekstur og margvíslega opinbera þjónustu, sem og menningar- og safnastarfsemi. Hið kærða byggingarleyfi fól í sér heimild til breytinga innanhúss en ekki var sótt um breytingu á notkun eignarinnar sem er skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sem fjölbýlishús á neðri hæð en íbúðareign á efri hæð. Er framkvæmdin því í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar svo sem áskilið er í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Ekki verður fallist á með kæranda að sá annmarki hafi verið á grenndarkynningunni að ekki hafi komið fram hvert meginefni kynningar var, sbr. gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, enda kom þar fram að um leyfi til breytinga innanhúss væri að ræða og fylgdu með teikningar vegna framkvæmdanna. Þá verður ekki talið að afstöðumynd eða gögn sem geri grein fyrir landmótun eða götumynd hafi átt að koma fram í grenndarkynningunni, sbr. gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð, vegna eðli þeirra breytinga sem um ræðir.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð skal í deiliskipulagi setja skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóðar. Hvorki í skipulagslögum né skipulagsreglugerð er mælt fyrir um að við útgáfu byggingarleyfis skuli uppfylla skilyrði um fjölda bílastæða eða kveða á um fyrirkomulag bílastæða með öðrum hætti. Þó skal byggingarleyfi vera í samræmi við byggingarreglugerð, sbr. 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Í gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Ákveðin skilyrði gilda um bílastæði hreyfihamlaðra skv. gr. 6.2.4. í reglugerðinni en hins vegar segir í 3. mgr. gr. 6.1.5. að ef sérstökum erfiðleikum sé bundið að uppfylla ákvæði þess hluta reglugerðarinnar, án þess að breyta að verulegu leyti megingerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert sé að varðveita, geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum. Í slíkum tilvikum skuli hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað sé eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki sé unnt að uppfylla þau og hvort unnt sé með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þess hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Slík greinargerð var lögð fram með umsókn byggingarleyfisins og kom þar m.a. fram að um væri að ræða steinsteypt hús frá árinu 1936 og sé erfitt að uppfylla kafla reglugerðar um algilda hönnun sökum staðsetningar húss á lóð, eldri hönnunar og landslags. Með greinargerðinni fylgdi listi yfir þær greinar reglugerðarinnar sem óskað var undanþágu frá, þ. á m. gr. 6.2.4. um bílastæði hreyfihamlaðra. Þar segir jafnframt að vegna þeirra undanþága sem óskað sé eftir sé ljóst að umferð hreyfihamlaðra verði takmörkuð í húsinu. Með samþykki byggingarfulltrúa á hinni umþrættu umsókn heimilaði hann að vikið yrði frá skilyrðum byggingarreglugerðar um bílastæði hreyfihamlaðra auk annarra ákvæða reglugerðarinnar. Að framangreindu virtu verður ekki talið að skortur á upplýsingum um fyrirkomulag bílastæða valdi ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina. Þá verður ekki annað séð en að málsmeðferð hafi að öðru leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Kærandi telur að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin í málinu og í þeim efnum vísar hann til nokkurra afgreiðslna skipulagsyfirvalda þar sem íbúðum var fjölgað á lóð með kröfu um fjölda bílastæða. Ekki verður talið að um sambærileg tilvik sé að ræða enda höfðu nefnd leyfi verið afgreidd í tíð byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem sett voru með stoð í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, en í þeirri reglugerð voru ákvæði um fjölda bílastæða fyrir lóðir á svæðum þar sem ekki var deiliskipulag í gildi. Þá verður heldur ekki talið að afgreiðsla byggingarfulltrúans á byggingarleyfisumsókn vegna Brákarbrautar 1, þar sem afgreiðslu málsins var frestað m.a. vegna þess að ekki lágu fyrir upplýsingar um bílastæði, verði talið sambærilegt tilvik enda ekki um sambærilegar lóðir að ræða.

Með hinu kærða byggingarleyfi fjölgar íbúðum á lóð Egilsgötu 6. Ljóst er að slíkt getur haft áhrif á grenndarhagsmuni kæranda, t.a.m. vegna aukinnar umferðar og umgangs um sameiginlegar tröppur. Aftur á móti verður ekki talið að heimilaðar breytingar raski grenndarhagsmunum kæranda að því marki að ógildingu varði. Telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að lögmætis­athugun nefndarinnar einskorðast við hið útgefna byggingarleyfi, sem felur í sér heimild til breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6, en tekur ekki til skoðunar þann atvinnurekstur sem er eða kann að verða staðsettur í húsinu. Á það skal þó bent að telji kærandi málsmeðferð sveitarfélagsins ábótavant að öðru leyti eða að það hafi ekki sinnt skyldum sínum, s.s. vegna atvinnurekstrar í því húsi sem um ræðir, getur hann leitað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á grundvelli eftirlits- og yfirstjórnarhlutverks þess.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

34/2020 Hringhella

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 27. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2020, kæra á álagningu stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni að Hringhellu 4, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. maí 2020, er barst nefndinni s.d., kærir Vörubílastöð Hafnarfjarðar, Hringhellu 4, Hafnarfirði, álagningu stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni Hringhellu 4. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning og innheimta gjalds fyrir 22 gáma verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Hafnarfjarðarbæ að endurgreiða kæranda greiðslu sem innt var af hendi með fyrirvara 5. maí 2020, samtals að fjárhæð kr. 394.306.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 9. júní 2020.

Málsatvik: Hin kærða ákvörðun á sér nokkurn aðdraganda. Hafnarfjarðarbær sendi bréf til kæranda, dags. 17. ágúst 2017, þar sem fram kom að samkvæmt bókhaldi bæjarins ætti kærandi ógreiddan reikning vegna dagsekta. Var kærandi hvattur til að greiða skuldina eða sækja um stöðuleyfi fyrir gámana innan 15 daga svo komist yrði hjá frekari innheimtuaðgerðum. Höfuðstóll skuldar stæði í kr. 3.680.000. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 23. október s.á., þar sem fram kom að af efni bréfs bæjarins mætti ráða að sektin hefði verið lögð á af byggingarfulltrúa vegna meintrar vanrækslu kæranda við að sækja um stöðuleyfi vegna lausafjár á lóð hans. Mótmælti kærandi kröfugerðinni sem rangri og ólögmætri. Tók hann fram að á byggingarnefndarteikningum fyrir lóðina Hringhellu 4 kæmi fram að á henni væri gert ráð fyrir alls 23 sérgeymslusvæðum og einu sameiginlegu geymslusvæði. Því væri á þessum svæðum gert ráð fyrir að geymt væri lausafé, t.d. gámar, vagnar og annar búnaður sem e.t.v. væri þörf á að sækja um stöðuleyfi fyrir ef ekki væri gert ráð fyrir slíkri nýtingu lóðarinnar við skipulagningu hennar. Ekki væri þörf á að sækja um stöðuleyfi fyrir það lausafé sem væri á lóð kæranda svo lengi sem það væri innan þessa skipulagða geymslusvæðis. Skylda samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 til að sækja um stöðuleyfi fyrir gám hvíldi á eiganda gámsins en ekki eiganda lóðarinnar sem gámurinn stæði á. Kröfugerðinni væri því beint að röngum aðila en Hafnarfjarðarbær hefði beint fjárkröfum sínum og þvingunarúrræðum að eiganda fasteignarinnar Hringhellu 4. Loks benti kærandi á að byggingarreglugerðin heimilaði ekki álagningu dagsekta við því að eigandi gáms sækti ekki um stöðuleyfi. Skoraði kærandi á Hafnarfjarðarbæ að fella niður hina ólögmætu innheimtu.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar var svarað með bréfi, dags. 19. janúar 2018. Í því kom fram að fallið hefði verið frá beitingu dagsekta eins og lagt hefði verið upp með í innheimtuviðvörun, dags. 17. ágúst 2017. Hins vegar væri eiganda gáma á umræddri lóð gert að fjarlægja gáma sína innan tiltekins tíma í samræmi við reglur um stöðuleyfi. Í reglum Hafnarfjarðarbæjar um stöðuleyfi kæmi fram að með skipulögðum svæðum væri átt við að slíkt svæði hefði verið deiliskipulagt í þeim tilgangi að geyma slíka muni. Þannig nægði ekki að slíkt væri einungis tilgreint á aðaluppdrætti. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð væri gert ráð fyrir að eigandi sækti um stöðuleyfi, en þar væri einnig gert ráð fyrir að ábyrgðarmaður hlutar sækti um slíkt leyfi. Eigandi eða umráðamaður húss bæri ábyrgð á að halda lóð sinni hreinni og snyrtilegri, sbr. t.d. 1. gr. samþykktar um umgengni og þrifnað utan húss í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi. Þar sem eigandi þeirra muna sem um ræddi væri óþekktur kynni því að vera rétt að beina kröfum að eiganda eða umráðamanni umræddrar lóðar, enda teldist hann ábyrgðarmaður þeirra muna sem þar væru geymdir í skilningi reglna um stöðuleyfi. Í því tilviki sem hér um ræddi væru ekki til staðar upplýsingar um eigendur gámanna.

Hinn 22. janúar 2018 sendi Hafnarfjarðarbær umburðarbréf, m.a. til kæranda, þar sem fram kom að samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð væri skylt að sækja um stöðuleyfi ef láta ætti gám standa lengur en tvo mánuði innan lóðar. Þetta ætti við um alla lóðarhafa, bæði umráðamenn lóða fyrir atvinnu- og iðnaðarhúsnæði/íbúðarhúsnæði, að undanskildum þeim lóðarhöfum sem væru með skilgreint gámasvæði samkvæmt skipulagi. Haft hefði verið samband við þá eigendur sem sannarlega væru með gáma sína á lóðum og þeim bent á að þeim væri skylt að sækja um stöðuleyfi fyrir gámunum ef þeim væri ætlað að standa þar lengur en í tvo mánuði. Hefði ekki verið sótt um stöðuleyfi fyrir stöðuleyfisskyldum lausafjármunum gilti gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð um heimild byggingarfulltrúa til að fjarlægja viðkomandi lausafjármuni. Væri þess krafist að kærandi fjarlægði umrædda gáma af lóð sinni eigi síðar en 30 dögum frá dagsetningu bréfsins, að öðrum kosti yrðu þeir fjarlægðir á kostnað eiganda í samræmi við gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð.

Enn var með bréfi af hálfu Hafnarfjarðarbæjar, dags. 18. febrúar 2019, óskað eftir því að kærandi sækti um stöðuleyfi. Samkvæmt gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfirði væri gjaldið fyrir útgáfu stöðuleyfis kr. 33.838 fyrir einn gám á hvern eiganda. Ef eigandi sækti um stöðuleyfi fyrir fleiri en einn gám í hans eigu lækkaði gjaldið í kr. 16.576 umfram þennan eina. Ef ekki yrði brugðist við áskoruninni innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi Hafnarfjarðarbær fjarlægja gáminn/gámana af lóðinni á kostnað eiganda, sbr. gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð, og yrði miðað við 18. mars 2019. Með bréfi bæjarins, dags. 3. júní 2019, var skorað á kæranda að nýju að sækja um stöðuleyfi eða fjarlægja gáminn. Var tekið fram að yrði þessum tilmælum ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Gæti sú ákvörðun falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eiganda eða beitingu dagsektarákvæða. Kærandi brást ekki við þeirri áskorun og því sendi bærinn aftur bréf til hans, dags. 23. júlí 2019, þar sem m.a. kom fram að með vísan til gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð væri þess krafist að umræddir gámar yrðu fjarlægðir innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins. Yrði ekki orðið við þeirri kröfu innan tilgreinds frests væri áskilinn réttur til að beita úrræðum sem getið væri um í gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð, s.s. dagsektum.

Kærandi svaraði með bréfi, dags. 24. september 2019, þar sem fram kom að hann teldi að tilmæli þau sem kæmu fram í bréfi Hafnarfjarðarbæjar ættu sér hvorki stoð í lögum né reglugerð. Jafnframt hafnaði hann túlkun bæjarins á gr. 2.6.1. og 2.6.2. í byggingarreglugerð. Samkvæmt ákvæðunum væri nægilegt að tiltekin lóð væri skipulögð með staðsetningu lausafjármuna sem féllu undir ákvæðin í huga og að byggingar- og skipulagsyfirvöld hefðu samþykkt slíka notkun lóðarinnar. Mannvirkjastofnun hefði staðfest að það væri á valdi sveitarfélaga að taka slíkar ákvarðanir um einstakar lóðir og að það rúmaðist innan ramma laganna. Kærandi teldi að honum væri hvorki skylt né rétt að sækja um stöðuleyfi fyrir gáma og vagna sem hann ætti ekki en stæðu á lóð hans.

Hinn 19. desember 2019 var kæranda sent bréf með tilkynningu um afgreiðslu byggingar­fulltrúa vegna stöðuleyfa 2019. Í bréfinu kom fram að á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar hefði verið tekið fyrir að nýju erindi vegna stöðuleyfa. Eigendum gáma, sem ekki hefði verið sótt um stöðuleyfi fyrir, hefði verið sent bréf og þeim bent á að sækja þyrfti um stöðuleyfi eða fjarlægja þá gáma sem væru án stöðuleyfa og bent á að dagsektir yrðu lagðar á ef ekki yrði brugðist við. Dagsektir að upphæð kr. 20.000 yrðu lagðar á eigendur gáma sem ekki hefði verið sótt um stöðuleyfi fyrir frá og með 30. desember 2019. Hinn 31. desember s.á. var gefinn út reikningur á kæranda vegna tveggja gáma að upphæð kr. 40.000 með skýringunni dagsektir, ekki sótt um stöðuleyfi fyrir gáma. Kærandi svaraði bréfi Hafnarfjarðarbæjar 14. janúar 2020 þar sem hann tók aftur fram að hann væri ekki eigandi umræddra gáma, en ákvörðun byggingarfulltrúa um álagningu dagsekta næði eingöngu til eigenda gáma, ásamt því að ítreka fyrri rök um að ekki væri heimilt að leggja á dagsektir vegna þess að eigandi sækti ekki um stöðuleyfi. Kærandi fékk reikning með bókunardegi 31. janúar 2020 þar sem innheimtar voru dagsektir vegna 15 gáma sem ekki hefði verið sótt um stöðuleyfi fyrir að upphæð kr. 300.000. Var annar samhljóða reikningur og gefinn út 29. febrúar s.á. Kærandi greiddi 5. maí 2020 kr. 401.094, þ.e. kr. 394.306 auk áfallins kostnaðar að fjárhæð kr. 6.788.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að félagsmenn kæranda eigi og reki vörubifreiðar og standi lóð hans félagsmönnum til reiðu fyrir þann rekstur, sem óhjákvæmilega fylgi ýmiss búnaður. Að áeggjan bæjaryfirvalda hafi kærandi keypt fasteignina Hringhellu 4 og flutt rekstur sinn þangað. Byggingarnefndarteikningar hafi verið samþykktar árið 2001 og hafi þar verið skilgreind 23 geymslusvæði fyrir hvern leyfishafa auk eins sameiginlegs svæðis. Stærð og lögun svæðanna hafi miðast við að á hverju þeirra mætti standa 40 feta gámur. Hafi kærandi nýtt lóð sína eins og ráð hafi verið fyrir gert en á árinu 2016 hafi bréf frá Hafnarfjarðarbæ farið að berast þar sem stöðugjalda hafi verið krafist vegna gáma á lóðinni. Því hafi verið og sé enn mótmælt og byggi kærandi kröfur sínar á fjórum málsástæðum. Kröfum bæjarins sé beint að röngum aðila, lóð kæranda sé sérstaklega skipulögð og ætluð til geymslu gáma og því undanþegin þeirri skyldu að sækja þurfi um stöðuleyfi vegna þess, ákvörðun um fjárhæð þjónustugjalda vegna stöðuleyfa hafi ekki verið tekin í samræmi við fyrirmæli laga og loks skorti heimild að lögum til að innheimta sérstakt stöðuleyfi fyrir hvern og einn gám sem standi á tiltekinni lóð.

Hafnarfjarðarbær hafi frá upphafi beint öllum sínum kröfum að kæranda á grundvelli eignar­halds hans á umræddri lóð. Í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé kveðið á um útgáfu svokallaðra stöðuleyfa, sbr. ákvæði 9. tölul. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í b-lið gr. 2.6.1. í reglugerðinni komi m.a. fram að umsókn um stöðuleyfi skuli vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og fylgja skuli samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað sé að lausafjármunir standi á. Ljóst sé að skyldan til að sækja um stöðuleyfi hvíli á eiganda eða ábyrgðarmanni gáma, en ekki eiganda þeirrar lóðar sem þeir standi á. Hafnarfjarðarbær hafi hins vegar túlkað ákvæðið svo að þar sem vísað sé til ábyrgðarmanns hlutar sé átt við eiganda lóðarinnar sem hluturinn standi á, þ.e.a.s. þegar eigandi viðkomandi munar sé óþekktur. Þessi túlkun samræmist hvorki orðum reglugerðarákvæðisins né almennum sjónarmiðum. Algengt sé að iðnaðar- og atvinnuhúsnæði sé leigt út og oft sé málum svo háttað að leigutakar í tilteknu húsi séu margir og alveg óskyldir. Með leigu á húsnæðinu fylgi réttur til þess að nýta lóðina sem húsið standi á. Það verði ekki lagt á leigusalann að sækja um leyfi fyrir þeim lausafjármunum sem leigutaki geymi á lóðinni og því síður beri honum skylda til þess að greiða fyrir slíkt leyfi, vegna hlutar sem hann eigi ekkert í. Þá séu ekki rök til þess að leggja dagsektir á leigusalann ef leigutakinn vanræki að sækja um leyfi. Skyldan beinist eingöngu að þeim sem eigi viðkomandi hlut, hafi umráð hans eða beri af öðrum ástæðum ábyrgð á honum. Leigusali beri ekki ábyrgð á lausafjármunum sem leigutaki hans geymi á leigulóðinni. Leigusali hafi ekki heimild að lögum til að fjarlægja þá eða gera aðrar ráðstafanir. Þær heimildir hafi sveitarfélög hins vegar í þeim tilvikum þegar eigandi hlutar sé óþekktur. Ef ætlun löggjafans eða stjórnvalda hefði verið að skylda þessi hvíldi á eiganda lóðar, eingöngu á grundvelli eignarhalds hans yfir henni, þá hefði verið kveðið á um það í ákvæðinu. Það hafi ekki verið gert og sé hvergi vikið að neinum skyldum lóðarhafa í þessu sambandi. Eingöngu sé vikið að rétti hans, sem felist í því að leita verði samþykkis hans áður en sótt sé um stöðuleyfi.

Af gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð leiði að ekki sé þörf á að sækja um stöðuleyfi fyrir gáma sem standi innan svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til slíkra nota. Ein meginforsenda kæranda fyrir því að kaupa svo stóra lóð hafi verið sú að félagsmönnum væri gert kleift að hafa þar allan búnað sinn, innan girðingar, öruggan og fjarri íbúðarbyggð. Með þessu hafi kærandi orðið við kröfum og óskum bæjarins. Á lóðinni sé teiknað og skipulagt gámasvæði fyrir 23 gáma. Þeir 22 gámar sem séu á lóðinni séu því innan heimilda þessa skipulags. Ekki sé þörf á að sækja um stöðuleyfi fyrir þessa gáma, enda hafi slíkt leyfi verið veitt í eitt skipti fyrir öll þegar byggingaryfirvöld hafi samþykkt skipulag og fyrirhugaða nýtingu lóðarinnar. Hafnarfjarðarbær hafi byggt á því að orðalag ákvæðisins fæli í sér að kveða yrði á um það í deiliskipulagi hvers svæðis að þar mættu standa gámar til þess að ekki væri þörf á að sækja um stöðuleyfi. Slík túlkun feli í sér útvíkkun á gjaldtökuheimildum Hafnarfjarðarbæjar, sem sé óheimil samkvæmt ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Hefði það verið ætlun löggjafans að svæði yrði að vera sérstaklega skilgreint í deiliskipulagi til að heimilað væri að hafa þar gáma án stöðuleyfis hefði það þurft að koma fram í mannvirkjalögum. Túlkun Hafnarfjarðarbæjar fari að auki þvert gegn túlkun Mannvirkjastofnunar, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en stofnunin telji það ekki ráðast af deiliskipulagi svæðis hvort þar megi samþykkja gámasvæði. Það sé á valdi sveitarstjórna á hverjum stað að heimila slíkt eða banna. Tilgangur og markmið með setningu þessara ákvæða um stöðuleyfi sé að gera byggingar- og skipulagsyfirvöldum mögulegt að koma höndum yfir og hafa stjórn á staðsetningu gáma eða annars lausafjár, innan lóðar og innan hverfa, sem sé mikilvægt til að koma í veg fyrir hættu af slíkum munum. Því sé kveðið á um að umsókn skuli fylgja uppdráttur af lóð þar sem staðsetning gáms sé skilgreind og lýst. Þegar lóðarhafi hafi lagt inn umsókn um samþykki byggingarnefndarteikningar af lóð, þar sem gert sé ráð fyrir gámasvæði, og þegar byggingarfulltrúi hafi samþykkt teikninguna sé markmiðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar að þessu leyti náð. Megi í raun segja að lóðarhafinn og byggingaryfirvöld hafi í eitt skipti fyrir öll samið um það hvernig vörslu og staðsetningu slíkra muni skuli háttað á viðkomandi lóð.

Samkvæmt 51. gr. mannvirkjalaga sé sveitarstjórnum heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu byggingarfulltrúa. Samkvæmt ákvæðinu sé þeim heimilað að heimta gjald fyrir útgáfu stöðuleyfa fyrir gáma. Eigi upphæð gjaldsins að taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og vera byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd séu þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Í ákvæðinu sé tekið fram að gjaldið megi ekki vera hærra en sem nemi kostnaðinum við að veita umbeðna þjónustu. Gjaldskrána skuli birta í B-deild Stjórnartíðinda. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hafi Hafnarfjarðarbær ekki fengist til að afhenda rekstraráætlun þá sem gjaldskrá hans sé byggð á. Af því leiði að gjaldskráin sé ekki byggð á lögmætum grunni og beri að víkja henni til hliðar. Eina sundurliðunin eða skýringin á fjárhæð þóknunar hafi fengist með óformlegum hætti frá byggingarfulltrúa. Þar hafi komið fram að gjaldið samanstandi af þóknun samkvæmt gjaldskrá að fjárhæð kr. 11.377 og áætluðum tveimur tímum í tímavinnu á gjaldinu kr. 10.201 hver tími. Hér sé átt við gjald fyrir leyfi vegna gáms númer eitt. Engin sundurliðun eða skýring hafi fengist á ákvörðun gjalds fyrir gáma umfram þann fyrsta. Sá rökstuðningur sem hafi fengist fyrir ákvörðun fjárhæðar þóknunar Hafnarfjarðarbæjar standist enga skoðun. Í mannvirkjalögum sé hvergi fjallað um eftirlitsstarfsemi á vegum sveitarfélaga á þessu sviði og því síður sé þar að finna heimild til að innheimta gjald af lóðarhöfum til að standa straum af slíkri starfsemi. Engin skynsamleg rök styðji það heldur að starfsmenn bæjarins þurfi að inna svo mikla vinnu af hendi við útgáfu stöðuleyfis.

Af orðalagi gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð sé ljóst að eigandi eða ábyrgðarmaður gáma þurfi aðeins að sækja um eitt stöðuleyfi óháð fjölda gáma. Þannig sé talað um stöðuleyfi í eintölu en lausafjármuni í fleirtölu. Í 3. málsl. 3. gr. reglugerðarinnar segi til að mynda að handhafi stöðuleyfis sé ábyrgur fyrir því að ekki skapist hætta vegna lausafjármuna og sé leyfisveitanda heimilt að krefja eiganda um gögn og rökstuðning þar að lútandi. Engin rök styðji það að kostnaður Hafnarfjarðarbæjar við útgáfu stöðuleyfis aukist í takt við fjölda gáma á tiltekinni lóð. Aðeins hafi verið lögð inn ein beiðni um leyfi fyrir alla 22 gámana og aðeins eitt leyfi verið gefið út fyrir þá alla. Þetta styðji aftur þá niðurstöðu að Hafnarfjarðarbær líti fremur á gjaldtöku vegna útgáfu stöðuleyfa sem tekjulind heldur en þóknun vegna veittrar þjónustu. Þetta fari gegn skýrum fyrirmælum 51. gr. mannvirkjalaga, ákvæðum laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Hafi það verið ætlun löggjafans að sveitarfélög innheimti stöðugjöld vegna gáma á einstökum lóðum eftir fjölda gáma eða stærð hefði verið kveðið skýrt á um það í lögunum sjálfum. Það sé ekki á valdi sveitarstjórna að túlka ákvæði 51. gr. með þessum hætti til íþyngingar fyrir lóðarhafa og eigendur gáma í bænum. Álagning þessara gjalda á kæranda sé því meingölluð og andstæð lögum og ríkjandi sjónarmiðum í stjórnsýslurétti.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er bent á að samkvæmt 9. tölul. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skuli í reglugerð meðal annars kveðið á um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað sé að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði, atriði sem varði öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingar­fulltrúa til að krefjast þess að þeir verði fjarlægðir ef ekki séu uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar. Á þessum grundvelli segi í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að sækja skuli um stöðuleyfi til leyfisveitanda, þ.e. byggingarfulltrúa, til að láta eftirfarandi, m.a. gáma, standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna. Umsókn skuli vera skrifleg og henni m.a. fylgja uppdrættir, t.d. aðaluppdráttur, og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármuna. Þá sé í gr. 2.6.1. jafnframt ákvæði um staðsetningu þessara lausafjármuna og ábyrgð handhafa stöðuleyfa. Stöðuleyfi skuli ekki veitt til lengri tíma en 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað. Grein 2.6.2. í byggingarreglugerð fjalli síðan um heimild leyfisveitanda til að fjarlægja lausafjármuni.

Hafnarfjarðarbær hafi sett sérstakar reglur um stöðuleyfi, sem hafi síðast verið samþykktar í bæjarstjórn 12. desember 2018. Þar komi m.a. fram að sækja verði um stöðuleyfi til byggingar­fulltrúa ef lausafjármunir eigi að standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem þeim sé ætlað samkvæmt skipulagi, sbr. gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð og 9. tölul. 60. gr. mannvirkja­laga. Sérstaklega sé tekið fram í reglunum að með skipulögðu svæði sé átt við svæði sem hafi verið deiliskipulagt í þeim tilgangi að vera gámasvæði. Hvorki í mannvirkjalögum né byggingarreglugerð sé skilgreint hvað sé átt við með „skipulögðu svæði“. Í samræmi við almenna hugtakanotkun í mannvirkjalögum, byggingarreglugerð og skipulagslögum nr. 123/2010 verði þó að miða við að átt sé við svæði sem hafi verið sérstaklega skipulögð, skilgreind eða afmörkuð sem gámasvæði í deiliskipulagi, og eftir atvikum einnig í aðalskipulagi. Einnig verði að líta til þess að í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð sé gert ráð fyrir að með umsókn um stöðuleyfi fylgi uppdrættir þar sem gerð sé grein fyrir staðsetningu leyfisskylds gáms á lóðinni. Ákvæði byggingarreglugerðar geri því ekki ráð fyrir að staðsetning gáma á aðaluppdrætti einum saman uppfylli skilyrði um að teljast svæði sem sé sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu gáma. Verði því að ganga út frá því að meginreglan sé sú að ef tiltekið svæði sé ekki skipulagt, skilgreint eða afmarkað sem geymslusvæði, gámasvæði eða álíka í deiliskipulagi, og þar séu geymdir eða geyma eigi einhvern af þeim lausafjármunum sem taldir séu upp í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð, t.d. gám, lengur en tvo mánuði, þá sé fyrir hendi skylda til að sækja um stöðuleyfi. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé lóð kæranda ekki með sérstöku gámasvæði.

Skylda til að sækja um stöðuleyfi hvíli réttilega á eiganda eða umráðamanni viðkomandi lausafjármunar. Hins vegar sé skýrt samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð að með umsókn skuli fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað sé að lausafjármunir standi á. Í gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð sé svo að finna heimild byggingarfulltrúa til að fjarlægja gám sem staðsettur sé á lóð án stöðuleyfis eða krefja eiganda um að hann fjarlægi gáminn. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð sé byggingarfulltrúa einnig heimilt að beita dagsektum til þvingunar í slíkum málum. Skýrt sé samkvæmt 4. mgr. nefndrar 56. gr. að dagsektir og kostnað megi innheimta með fjárnámi og hafi sveitarfélag m.a. lögveð í þeirri lóð sem gámar standi á fyrir kröfu sinni. Það sé því ljóst að skyldur eiganda gáms og lóðarhafa liggi saman og sé ekki hægt að slíta í sundur með þeim hætti sem kærandi leggi upp með í kæru sinni. Þá sé samkvæmt 15. gr. mannvirkjalaga skýrt að eigandi húsnæðis beri ábyrgð á því að fylgt sé ákvæðum gildandi laga og reglugerða við rekstur mannvirkis. Út frá almennum skýringarreglum í lögfræði gildi það ákvæði framar reglugerðum. Auk framangreinds skuli áréttað að lóðarhafi beri að lögum ábyrgð á sinni fasteign og tilheyrandi lóð í samræmi við almennar skaðabótareglur og ákvæði í lóðarleigu­samningum. Sé byggingarfulltrúa heimilt að beita þvingunarúrræðum gagnvart eigendum gáma sem staðsettir séu innan lóðar án stöðuleyfis og felist sú þvingun í því að eigendum beri að fjarlægja gám ella eiga á hættu að fá lagðar á sig dagsektir.

Samkvæmt 2. gr. í reglum Hafnarfjarðarbæjar um stöðuleyfi skuli innheimt gjald á hvern gám, lausafjármun, samkvæmt gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfirði. Samkvæmt gildandi gjaldskrá nr. 1349/2019 sé gjald fyrir stöðuleyfi árið 2020 kr. 34.933 fyrir fyrsta gám eða lausafjármun og kr. 17.113 vegna stöðuleyfis fyrir gám eða lausafjármuni umfram þann fyrsta. Upphæð gjaldsins taki í fyrsta lagi mið af kostnaði vegna móttöku og umfjöllunar á innsendri umsókn um stöðuleyfi. Yfirfara þurfi umsóknir í samræmi við gr. 2.6.1. í gildandi byggingarreglugerð, s.s. yfirfara uppdrætti og staðsetningu gámsins sem um ræði. Gjald fyrir þennan hluta sé kr. 11.138. Þá sé gert ráð fyrir kostnaði vegna eftirlits við framfylgd útgefinna stöðuleyfa, m.a. eftirlit með að handhafi stöðuleyfis uppfylli þær kröfur sem fram komi í gr. 2.6.1., sbr. kröfu í 2. mgr. gr. 2.6.2. Það sé skylda byggingarfulltrúa að sinna slíku eftirliti, sbr. gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð. Í rekstraráætlun sé gert ráð fyrir að slíkt eftirlit feli þá í sér athugun á staðnum. Gjald fyrir þennan hluta sé því kr. 23.795. Framangreindur kostnaður sé eðli málsins samkvæmt lægri vegna stöðuleyfis fyrir gám umfram þann fyrsta. Þó sé ljóst að kostnaður við móttöku umsóknar og það sem því fylgi falli eðli málsins samkvæmt til vegna viðbótargáma. Hér skuli þó áréttað að endanlegur raunkostnaður sveitarfélagsins vegna stöðuleyfis fyrir gáma umfram þann fyrsta kunni þó að verða hærri í einhverjum tilvikum en sem nemi upphæð gjaldsins. Sé stöðuleyfi veitt fyrir viðbótargámi eða gámum, nokkru eftir að stöðuleyfi hafi verið veitt fyrir fyrsta gáminn, færi hagræðingin af því að sinna eftirliti með fleiri en einum gámi á viðkomandi lóð. Þrátt fyrir þessa staðreynd þá myndi sveitarfélagið innheimta lágmarksupphæð fyrir eftirlit vegna þeirra gáma og væri gjaldið því lægra en fyrir fyrsta gám.

Einn eða fleiri ótengdir aðilar geti sótt um stöðuleyfi fyrir gám/gámum á sömu lóðinni með samþykki lóðarhafa. Eins og fram komi í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð þurfi sérstaklega að taka tillit til öryggissjónarmiða og hollustuhátta við mat á umsóknum og útgáfu stöðuleyfa. Það eigi við um hvern og einn gám sem leyfi sé veitt fyrir. Yrði leyfi veitt með einu gjaldi óháð fjölda lausafjármuna á lóð sé augljóst að töluvert erfiðara, ef ekki vonlaust, yrði að uppfylla þær skyldur. Þeirri afstöðu sem m.a. komi fram í leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sé því mótmælt.

Niðurstaða: Byggingarreglugerð nr. 112/2012 er sett með stoð í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og er í reglugerðinni m.a. kveðið á um stöðuleyfi í kafla 2.6., sbr. 9. tl. 60. gr. nefndra laga. Í gr. 2.6.1. í reglugerðinni er tekið fram að sækja skuli um stöðuleyfi til að láta lausafjármuni, s.s. gáma, standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna. Greinir aðila á um hvort skilyrði þessu sé fullnægt og hefur því verði haldið fram af hálfu Hafnarfjarðarbæjar að svæði þurfi að vera skilgreint sem gámasvæði í deiliskipulagi til að fullnægja þeirri kröfu að teljast sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu gáma, svo sem fram komi í reglum bæjarins um stöðuleyfi samþykktum af bæjarstjórn 12. desember 2018.

Kærandi er lóðarhafi Hringhellu 4, sem skráð er iðnaðar- og athafnalóð hjá fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Deiliskipulag Hellnahrauns, 1. áfangi, tekur til umræddrar lóðar og í greinargerð skipulagsins kemur fram að „Á aðaluppdráttum (byggingarnefndarteikningum) skal sýna skipulag lóðar, hæðarlegu, staðsetningu bílastæða, aðkomur, athafnasvæði, gámasvæði í samræmi við gr. 22 í byggingarreglugerð og að vera að öðru leyti í samræmi við grein um lóðafrágang í lóðarleigusamningum […].” Í tilvitnuðu ákvæði þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 var fjallað um lóðauppdrætti en þar skyldi skv. 2. mgr. 22. gr. m.a. gera grein fyrir gámastæðum og skyldi fyrirkomulag lóðar vera í eðlilegu samhengi við þá starfsemi sem fram færi í viðkomandi byggingu og næsta nágrenni. Sambærileg ákvæði er að finna í gr. 4.4.4. í núgildandi byggingarreglugerð. Meðal teikninga af lóðinni og mannvirkjum á henni sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa árið 2001, þ.e. byggingarnefndarteikninga, er að finna lóðaruppdrátt og afstöðumyndir. Byggingarfulltrúi hefur einnig samþykkt afstöðumynd af lóðinni 13. maí 2004, lítillega breytta vegna starfsmannahúss, og er hún nýjust af samþykktum teikningum. Allar myndirnar sýna 23 afmörkuð „geymslusvæði fyrir hvern leyfishafa“ á lóðinni og er stærð þeirra ýmist 9,5×15 eða 10×15 m. Þá er þar gert ráð fyrir þvottaplani og olíuskilju og að hluti bílastæða rúmi bifreið með tengivagni.

Náið samspil er milli skipulagslaga nr. 123/2010 og mannvirkjalaga og er í þeim báðum að finna gagnkvæmar lagatilvísanir um ýmsa þætti. Í áðurgreindri gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð er þó ekki vísað til þess að deiliskipulag þurfi að vera fyrir hendi og verður af orðalagi ákvæðisins ekki fullyrt að það sé nauðsynlegt til að svæði geti í skilningi þess talist sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu þeirra lausafjármuna sem um er fjallað í ákvæðinu. Þá liggur fyrir deiliskipulag af umræddu svæði þar sem sérstaklega er mælt fyrir um hvað sýna skuli á aðaluppdráttum eða byggingarnefndarteikningum og hafa slíkar teikningar verið samþykktar fyrir lóð kæranda sem sýna geymslusvæði. Þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar að þau geymslusvæði séu ætluð fyrir þá lausafjármuni sem um er fjallað í nefndu ákvæði byggingarreglugerðar, enda eru þau hvorki bílastæði né ætluð fyrir mannvirki og standa í eðlilegu samhengi við starfsemi kæranda á lóðinni. Bar því ekki nauðsyn til að sækja um stöðuleyfi vegna geymslu umræddra gáma á lóðinni og var bæjaryfirvöldum hvorki rétt að fara fram á það að viðlögðum dagsektum né að innheimta gjöld af kæranda vegna samþykktrar umsóknar. Verður hin kærða álagning stöðuleyfisgjalds því felld úr gildi.

Svo sem úrskurðarnefndin hefur komist að niðurstöðu um var óheimilt að gera kröfu um að sótt yrði um stöðuleyfi vegna gáma sem stóðu á þar til ætluðu svæði á lóð kæranda. Að auki skal á það bent að fyrrgreindum kröfum bæjaryfirvalda var ítrekað beint að kæranda sem lóðarhafa umræddrar lóðar þrátt fyrir að fyrir lægi að hann væri ekki eigandi gámanna. Af orðalagi gr. 2.6.1. og 2.6.2. í byggingarreglugerð er ljóst að fyrst og fremst er gert ráð fyrir því að eigandi stöðuleyfisskyldra lausafjármuna sæki um slík leyfi og uppfylli kröfur og skilyrði vegna þess, en megi að öðrum kosti búast við að verða beittur þvingunarúrræðum. Verður ekki séð að eignarhald umræddra lausafjármuna hafi verið sérstaklega rannsakað í máli þessu, en í ljósi niðurstöðu málsins verður ekki um það fjallað.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi kærð álagning stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni Hringhellu 4.

15/2020 Naustabryggja

Með

Árið 2020, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. febrúar 2020, sem barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Naustabryggju 31-33, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. apríl 2020.

Málavextir: Fyrirliggjandi gögn bera það með sér að kærandi og borgaryfirvöld hafa átt í samskiptum frá árinu 2017 vegna aðgengis fyrir hreyfihamlaða að Naustabryggju 31-33 í Reykjavík. Byggingarfulltrúa barst tölvupóstur frá kæranda 10. janúar 2018, þar sem spurt var um hvort verk fengi lokaúttekt ef ákvæði um frágang, fjölda og stærð bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða væri ekki fullnægt. Einnig var spurt hvort verktaki fengi leyfi fyrir slíkri framkvæmd, þar sem fyrir lægi að lóð aðalinngangs byggingar væri á einkalóð annarra en þeirra sem byggju í umræddri byggingu og hvort eða hvernig hann gæti þá uppfyllt skilyrði lokaúttektar um stæði fyrir hreyfihamlaða. Erindinu var svarað að hluta til með tölvupósti starfsmanns skipulags­fulltrúa 15. s.m. á þann veg að kæranda hefði í tvígang verið sendir tölvupóstar með fylgi­gögnum er vörðuðu svæðið.

Hinn 22. febrúar 2019 barst Reykjavíkurborg annað erindi frá kæranda þar sem vakið var máls á því að bygging Naustabryggju 31-33 og annar frágangur stangaðist á við byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem engin aðkoma væri fyrir hreyfihamlaða. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með tölvupósti 7. mars 2019, þar sem meðal annars var vísað til teikningar af bílakjallaranum á lóð Naustabryggju 17-19 og 31-33 og Tangabryggju 6-8, 10 og 12-12A, en þar komi fram að í kjallaranum séu fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða og önnur átta bílastæði fyrir hreyfihamlaða séu á lóð fyrir utan bílageymslu sem tilheyri húsunum.

Með tölvupósti til skipulagsfulltrúa 20. júní 2019 fór kærandi fram á við borgaryfirvöld að gildandi deiliskipulagi yrði breytt þannig að Naustabryggja 31-33 fengi afnot af bílastæðum norðan við húsið og stæði fyrir fatlaða yrði merkt hið fyrsta ásamt því að tryggja aðkomu neyðarbíla. Erindinu var svarað af hálfu skipulagsfulltrúa 12. september s.á. þar sem skipulagslegar aðstæður voru skýrðar. Í svarpósti skipulagfulltrúa kom meðal annars fram að ef óskað væri eftir afstöðu skipulagsfulltrúa hvort mögulegt væri að breyta deiliskipulagi þyrfti að senda fyrirspurn þess efnis í gegnum rafræna Reykjavík.

Hinn 5. nóvember 2019 sendi kærandi Reykjavíkurborg erindi að nýju og var því svarað með tölvupósti yfirverkfræðings byggingarfulltrúa 20. nóvember 2019 og fylgdi í viðhengi öryggis- og lokaúttekt byggingarfulltrúa vegna umræddrar byggingar ásamt umsókn um byggingarleyfi og afgreiðslu hennar í fundargerð. Byggingarfulltrúi svaraði jafnframt erindinu með tölvupósti sama dag. Þar kom meðal annars fram að ekki yrði annað séð en að gerð væri góð grein fyrir algildri hönnun og aðkomu fyrir alla á samþykktum teikningum. Með tölvupósti 24. nóvember 2019 til Reykjavíkurborgar áréttaði kærandi kröfu íbúa Naustabryggju 31-33 að skilyrðum byggingarreglugerðar væri fylgt og a.m.k. þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða yrði komið fyrir innan 25 m fjarlægðar frá aðalinngangi þessara tveggja stigaganga. Erindinu var svarað af hálfu byggingarfulltrúa 25. nóvember s.á. Ítrekaði hann að embættið hafi ekki komið að gerð deiliskipulags. Kröfur um bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt byggingarreglugerð væru uppfylltar í bílastæðakjallara. Vissulega væri erfitt að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfi­hamlaða við götu, nálægt aðalinngöngum hússins vegna staðsetningar lóðarmarka til norðurs, en bæði væru merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða á lóðinni og við næstu götur. Þau væru þó vissulega ívið lengra frá aðalinngöngum en kveðið væri á um í byggingarreglugerð. Því yrði ekki breytt á meðan lóðarmörkin við norðurhlið húsanna nr. 31-33 við Naustabryggju væru eins og raun bæri vitni samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Með tölvupósti sem var sendur af hálfu skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til byggingar­fulltrúa 21. janúar 2020 var þess óskað að tekin yrðu saman þau svör sem veitt hafi verið vegna fyrirspurna kæranda og honum sent heildstætt lokasvar vegna ítrekunar hans á því að ófullnægjandi svör hafi borist við erindi hans. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. s.m., voru samskipti borgaryfirvalda og kæranda reifuð og í niðurstöðu bréfsins var eftirfarandi tekið fram: „Ítrekað er að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða er í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, en eins og áður hefur komið fram er kröfum um bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða þegar fullnægt í bílakjallara hússins, en auk þeirra eru stæði fyrir hreyfihamlaða á lóð. Kröfu þinni um að Reykjavíkurborg tryggi, án tafar, aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðal­inngangi Naustabryggju 31-33 er því hafnað.“ Var og tilkynnt að embættið muni ekki aðhafast frekar vegna málsins og kæranda bent á að afgreiðsla erindis hans væri kæranleg til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála. Var þessi afgreiðsla byggingarfulltrúa borin undir úrskurðarnefndina eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að aðgengi fyrir fatlaða sé ekki tryggt frá bílakjallara Naustabryggju 31-33. Bílastæðin séu án sérstakrar hönnunar sem sýni sig til dæmis í því að hurðir á milli kjallara og íbúðarhúss séu ekki með sjálfvirkum opnara. Þá séu hvorki uppfyllt skilyrði um fjarlægð né fjölda stæða. Byggingarfulltrúi hafi staðfest að stæðin séu lengra frá en byggingarreglugerð nr. 112/2012 geri ráð fyrir. Reykjavíkurborg sé ekki heimilt að víkja með samningum frá ákvæðum byggingarreglugerðar um aðgengi fatlaðra. Núverandi skipulag hafi þá þýðingu að íbúar hússins geti ekki keypt sér þjónustu að heimili sínu um það gatnakerfi sem liggi að húsinu heldur þurfi þeir að gefa upp annað heimilisfang. Þetta bjóði upp á að skipulag borgarinnar sé að óþörfu bæði óáreiðanlegt og handahófskennt. Kærandi telji að lagfæra megi stöðuna með því að gera bílastæði norðanmegin og næst húsinu að framanverðu sem liggi að borgarlandi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í samþykktri byggingarlýsingu á aðaluppdráttum fyrir Naustabryggju 31-33, dags. 10. október 2014, segi um bílastæði fyrir hreyfihamlaða: „Bílageymsla er aðgangsstýrð, og er eitt stæði fyrir hverja íbúð. Útisvæði fyrir húsin eru á lóðinni 12E og við götur. Sjá nánar bílastæða-bókhald hér að ofan. Gert er ráð fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða.“ Í samþykktri byggingarlýsingu sé einnig með ítarlegum hætti fjallað um algilda hönnun. Þar segi að íbúðir séu hannaðar með þeim hætti að auðvelt sé að taka þær í notkun fyrir einstaklinga í hjólastól. Á samþykktum aðaluppdráttum fyrir bílageymslu komi fram að gert sé ráð fyrir fjórum bílastæðum ætluðum hreyfihömluðum. Þar að auki komi fram í bréfi byggingarfulltrúa til forsvarsmanns kæranda að gert sé ráð fyrir átta bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð fyrir utan bílgeymslu. Bendi byggingarfulltrúi á að hafi þessi stæði ekki verið merkt hreyfihömluðum sérstaklega, þá skuli slíkt gert í samræmi við samþykkt byggingarleyfi.

Í gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé fjallað um bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í 5. mgr. greinarinnar sé að finna töflu 6.01 þar sem gerð sé grein fyrir lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús. Samkvæmt samþykktu byggingarleyfi fyrir fasteignina Naustabryggju 31-33 séu íbúðir í fasteigninni 30 talsins. Samkvæmt því skuli að lágmarki gera ráð fyrir þrem bílastæðum ætluðum þeirri fasteign. Fasteignin sé á lóð með fleiri matshlutum og deili bílakjallara þar að auki. Í heildina sé gert ráð fyrir 12 bílastæðum fyrir hreyfihamlaða. Miðað við heildarmagn íbúða á lóðinni verði ekki annað sé en að krafa byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða ætluðum hreyfihömluðum hafi verið uppfyllt.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem taki til fasteignarinnar Naustabryggju 31-33 liggi lóðar­mörk að bílastæðalóð sem tilheyri Naustabryggju 35-55 og 55-57. Eina aðkoman að Nausta­bryggju 31-33 sé um gönguleið sem liggi að lóðarmörkum og því sé ekki hægt að komast að inngangi nema um þá aðkomu. Naustabryggja 31-33 hafi hvorki þinglýsta kvöð né skipulags­kvöð um umferð um bílastæðalóðina. Fasteignin sé í samræmi við gildandi deiliskipulag. Lóðarmörk séu skýr sem og skipulagsskilmálar. Tekið sé undir það sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. nóvember 2019, um að byggingarfulltrúi hafi ekkert með gerð deiliskipulags að gera. Hlutverk byggingarfulltrúa sé meðal annars að veita byggingarleyfi í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Niðurstaða: Fyrirliggjandi gögn málsins bera með sér að kæranda og Reykjavíkurborg greini á um aðkomu að Naustabryggju 31-33 og fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða við fasteignina. Með hinni kærðu ákvörðun var kröfu íbúa Naustabryggju 31-33 um að borgaryfirvöld tryggðu án tafar aðgengi hreyfihamlaðra að aðalinngangi hússins hafnað með þeim rökum að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða væri í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

Í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Þar segir í 1. mgr. að bílastæði skulu vera sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti og að eitt af hverjum fimm bílastæðum, þó aldrei færri en eitt, skuli vera 4,5×5,0 m að stærð og við enda þeirra athafnasvæði, um 3 m að lengd. Þau skulu vera sem næst aðalinngangi bygginga, ekki fjær en u.þ.b. 25 m. Mælt er fyrir um það í 5. mgr. að fjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, skuli að lágmarki vera samkvæmt töflu 6.01. Í þeirri töflu kemur fram að þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 21-40 skuli vera þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í 9. mgr. ákvæðisins er síðan kveðið á um að ávallt skuli gera ráð fyrir bílastæðum sem henti fyrir hreyfihamlaða í bílgeymslum sem almenningur hafi aðgang að og að fækka megi bíla­stæðum á lóð mannvirkis samkvæmt töflu 6.01 sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfi­hamlaða í sameiginlegri bílgeymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna.

Fjölbýlishúsið að Naustabryggju 31-33 er með 30 íbúðum og skulu þar því vera þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. nefnda gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð. Á samþykktum uppdráttum byggingarleyfis hússins kemur fram að þar skuli vera fjögur sérmerkt bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða í sameiginlegri bílageymslu fyrir fjölbýlishúsin að Tangabryggju 6-8, 10, 12 og Naustabryggju 17-19, 31-33 og 15B. Þá er og gert ráð fyrir átta stæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð fyrir utan bílgeymslu, merkt 12E á skipulagsuppdrætti.

Í gildi er deiliskipulag Bryggjuhverfisins, síðast breytt með ákvörðun borgarráðs frá 18. desember 2017, vegna húsa 12A, B, C, D, E og 15C + spennistöð. Samkvæmt skipulaginu liggja lóðarmörk Naustabryggju 31-33 að bílastæðalóð sem tilheyrir Naustabryggju 35-55 og 55-57. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sem gert er ráð fyrir að séu staðsett á bílastæðalóð 12E, eru samkvæmt lóðarblaði um eða yfir 60 m frá bílastæðinu að þeim inngangi Naustabryggju 31-33, sé farið með austurhlið lóðarinnar að framhlið hússins. Samkvæmt framangreindri 2. mgr. gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar skulu bílastæði fyrir hreyfihamlaða ekki vera fjær aðalinngangi byggingar en u.þ.b. 25 m. Er ákvæði greinarinnar um hámarksfjarlægð umræddra stæða frá aðalinngangi umrædds húss því ekki uppfyllt.

Með hliðsjón af framangreindu eru annmarkar á rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar sem leiða til ógildingar. Breytir engu í því efni þótt nefnt fyrirkomulag sé í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda getur deiliskipulag ekki vikið til hliðar ákvæðum byggingar­reglugerðar og samkvæmt 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skulu samþykktir aðal­uppdrættir vera í samræmi við ákvæði framangreindrar reglugerðar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

54/2019 Tangabryggja

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 28. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðu­-maður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júní 2019 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2019, er barst nefndinni 8. s.m., kærir húsfélag Tangabryggju 13-15 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júní 2019 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingar­­­fulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, eftir að verktaki ljúki við bygginguna að fullu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. nóvember 2019 og 2. og 28. apríl 2020.

Málavextir: Á árinu 2016 var sótt um byggingarleyfi til þess að byggja fimm hæða fjölbýlis­­-hús með 63 íbúðum á lóðinni nr. 18-24 við Tangabryggju, sem síðar var breytt í Tangabryggju 13-15. Umsóknin var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 14. mars 2017. Leyfishafi sótti þrívegis um breytingar á samþykktu byggingarleyfi og voru þær umsóknir samþykktar á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa dagana 23. janúar og 14. ágúst 2018 og 2. apríl 2019. Hinn 23. apríl 2019 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúa og óskaði eftir því að fá að koma að athugasemdum áður en lokaúttekt færi fram, sem hann og gerði. Með tölvupóstum 27. s.m. og 31. maí s.á. kom kærandi að frekari athugasemdum vegna loka­-úttektar. Lutu athugasemdir hans m.a. að því hvernig aðgengi og loftræsingu væri háttað. Hinn 20. maí s.á. sendi byggingarfulltrúi tölvupóst til hlutaðeigandi aðila og upplýsti um að tekinn hefði verið frá tími fyrir lokaúttekt 5. júní 2019. Jafnframt tók byggingarfulltrúi fram að áður en boðað yrði til úttektar þyrftu tiltekin gögn að berast embættinu, þ. á m. staðfesting þess að bílastæði fyrir hreyfihamlaða stæðust kröfur gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Skoðun á mannvirkinu fór fram 5. júní 2019 en endanleg lokaúttekt átti sér stað 21. s.m. Sama dag gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt. Í vottorðinu kemur fram að gögn sem hafi borist staðfesti að úrbótum hafi verið lokið vegna athugasemda sem gerðar hefðu verið í skoðun á mannvirkinu 5. s.m., en þær lutu einkum að brunavörnum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í gr. 1.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að markmið hennar sé að tryggja aðgengi fyrir alla. Samkvæmt gr. 6.2.4. skuli fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða vera við íbúðarhús með 63 íbúðir. Fjögur slík stæði séu til staðar en þau séu öll staðsett í læstri bílageymslu hússins. Samkvæmt sama ákvæði sé heimilt að hafa bílastæði fyrir hreyfihamlaða í bílageymslu sé það tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna þar. Þessum ákvæðum sé ekki fylgt þar sem um læsta bílageymslu sé að ræða og bílastæðin fjögur séu þinglýst eign ákveðinna íbúða í eigu ófatlaðra einstaklinga. Einnig segi í ákvæðinu að eitt af hverjum fimm bílastæðum hreyfihamlaðra, þó aldrei færri en eitt, skuli vera 4,5 × 5,0 m að stærð og við enda þeirra athafnasvæði um 3 m að lengd. Stæði fyrir hreyfihamlaða í bílageymslunni séu öll jafnstór og öll af minni gerð, en ekkert athafnasvæði sé til staðar. Þá séu þau ekki merkt á yfirborði heldur aðeins með lóðréttu skilti, en báðar merkingar eigi að vera til staðar samkvæmt ákvæðinu.

Þar sem gerð sé krafa um algilda hönnun bygginga skuli skv. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð gera ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir inngangsdyr í aðalumferðarleiðum. Slíkan búnað sé ekki að finna á þeim fimm hurðum sem marki aðalumferðarleið frá bílageymslu að lyftum í Tangabryggju 15, en öll stæði hreyfihamlaðra í eigninni tilheyri íbúðum í Tangabryggju 15. Samkvæmt skilalýsingu byggingarinnar skuli stæði fyrir hreyfihamlaða vera ofanjarðar og malbikuð eða hellulögð. Hins vegar séu engin stæði fyrir hreyfihamlaða ofanjarðar. Því sé aðgengi hreyfihamlaðra íbúa og gesta skert, en það brjóti í bága við ákvæði reglugerðarinnar um aðgengi fyrir alla.

Ekki sé til staðar útsog úr eldhúsum íbúða, af gangi eða stigahúsum. Þar af leiðandi séu ekki eðlileg loftskipti á þessum stöðum í samræmi við gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Á uppdráttum komi fram að öll gluggalaus eða lokuð rými verði loftræst. Matarlykt leiði nú um íbúðir og fram á ganga. Gangar og stigahús séu gluggalaus, en á efstu hæð stigahúss sé þakgluggi til reykræsingar. Sorpgeymsla sé án læstrar hurðar og gólf þar ómeðhöndlað. Það leiði til þess að erfitt sé að þrífa gólfið, en skv. gr. 6.12.7. skuli sorpgeymslur þannig frágengnar að auðvelt sé að þrífa þær. Einnig segi í gr. 6.12.8. að gólf í sorpgerði/sorpskýli skuli vera úr efni sem auðvelt sé að þrífa. Þá vanti loftræsingu í sorpgeymslu svo hægt sé að læsa henni, sbr. gr. 6.12.7. Samkvæmt gr. 6.12.1. skuli ganga þannig frá tæknirýmum að þau „séu ávallt læst ef í þeim eru tæki, búnaður eða efni sem eru viðkvæm, geta valdið slysum eða verið hættuleg börnum eða fullorðnum.“ Rafmagnstöflur séu ólæstar í sameiginlegu rými, sem sé skilgreint sem hjóla- og vagnageymsla/tæknirými. Þar sé óhindrað aðgengi fyrir börn og fullorðna sem geti valdið slysum og tjóni fyrir íbúa hússins.

Svo virðist sem húsið hafi ekki verið tekið út samkvæmt ákvæðum skoðunarhandbókar og skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð. Hefði skoðunarhandbók og skoðunarlistum verið fylgt við áfanga- og lokaúttektir á byggingunni hefði komið fyrr til úrbóta. Ekki sé hægt að gefa út lokaúttektarvottorð þegar ekki séu uppfyllt skilyrði varðandi aðgengi, hollustuhætti og öryggismál, sbr. gr. 3.9.4. í reglugerðinni

Loks hafi leyfishafa verið sendar fleiri athugasemdir er varði öryggiskröfur, m.a. varðandi frágang á reykþéttum eldvarnarhurðum, frágang á einangrun á loftræsirörum í sameign og skort á lýsingu á gönguleið að bílastæðum, sbr. gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er vísað til þess að ekki verði séð að málsmeðferð byggingarfulltrúa hafi verið í ósamræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Verði ekki á öðru byggt en að við lokaúttekt 21. júní 2019 hafi byggingarfulltrúi haft til hliðsjónar athugasemdir kæranda frá 23. apríl s.á. Ekki verði önnur ályktun dregin af útgáfu vottorðs um lokaúttekt en að ekki hafi þótt ástæða til þess að gera athugasemdir við bygginguna, sbr. gr. 3.9.3. í byggingarreglugerðinni, og að hún hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um hana gildi. Ekki sé ástæða til að draga í efa yfirlýsingu byggingarfulltrúa þess efnis, þ.e.a.s. um útgáfu lokaúttektarvottorðs.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar komu fram í þessu máli.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsefna vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að byggingarfulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Framkvæmd lokaúttektar og útgáfa vottorðs þess efnis er hluti af lögbundnu eftirliti byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um það í 4. mgr. ákvæðisins að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu kom kærandi að athugasemdum við byggingarfulltrúa áður en lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 fór fram. Gerði kærandi aðallega athugasemdir er vörðuðu aðgengi hreyfihamlaðra að fjölbýlishúsinu og benti m.a. á að öll bílastæði fyrir hreyfihamlaða væru staðsett í bílageymslu hússins og tilheyrðu tilteknum íbúðum þess. Því væru ekki til staðar bílastæði hreyfihamlaðra fyrir gesti eða aðra íbúa en þá sem byggju í þeim íbúðum sem bílastæði hreyfihamlaðra tilheyrðu. Einnig benti kærandi á að aðgengi að íbúðum frá stæðum í bílageymslu væri um dyr með þungum hurðum, sem væri erfitt fyrir íbúa eða gesti í hjólastól. Í tölvupósti byggingarfulltrúa til leyfishafa um niðurstöðu lokaúttektar segir um þessar athugasemdir kæranda: „Í deiliskipulagi og á aðaluppdráttum er ekki gert ráð fyrir gestastæðum fyrir fatlaða. Opnunarþunga hurða má stilla á hurðapumpum. Engin ákvæði eru til sem banna að merkja bílastæði fatlaðra ákveðnum íbúðum.“

Í fyrrnefndri gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð er fjallað um bílastæði hreyfihamlaðra og segir þar í 4. mgr. að eitt af hverjum fímm bílastæðum fyrir hreyfihamlaða, þó aldrei færri en eitt, skuli vera 4,5 × 5,0 m að stærð og við enda þeirra athafnasvæði, um 3 m að lengd. Mælt er fyrir um það í 5. mgr. að fjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, skuli að lágmarki vera samkvæmt töflu 6.01. Í þeirri töflu kemur fram að þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 41-65 skuli vera fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í 9. mgr. ákvæðisins er síðan kveðið á um að fækka megi bílastæðum á lóð mannvirkis samkvæmt töflu 6.01 sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða í sameiginlegri bílageymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna.

Fjölbýlishúsið að Tangabryggju 13-15 er með 63 íbúðum og skulu því þar vera fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. nefnda gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð. Sá fjöldi slíkra stæða er til staðar, en á samþykktum uppdráttum má sjá að þau stæði eru öll í sameiginlegri bílageymslu og eru þau stæði merkt fjórum tilteknum íbúðum í húsinu. Þá verður ekki séð að neitt bílastæðanna sé 4,5 × 5,0 m að stærð með athafnasvæði, um 3 m að lengd, eins og mælt er fyrir um í sama ákvæði. Er því ekki uppfyllt skilyrði gr. 6.4.2. um aðgengi gestkomandi að bílastæðum hreyfihamlaðra. Breytir engu í því efni þótt nefnt fyrirkomulag sé í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda er skýrt kveðið á um það í lögum um mannvirki að samþykktir aðaluppdrættir skuli vera í samræmi við byggingarreglugerð, sbr. 11. gr. laganna. Sem fyrr greinir skal þáttum sem varða aðgengi ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 4. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga. Var byggingarfulltrúa ekki heimilt að víkja frá þeim kröfum og gefa út hið kærða vottorð um lokaúttekt. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Það athugist að fari lokaúttekt fram að nýju kann byggingarfulltrúa að vera rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem kærandi hefur gert við meðferð máls þessa, s.s. um að gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð sé ekki fullnægt þar sem útsog sé ekki til staðar í eldhúsum íbúða.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júní 2019 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15.

75/2019 Álakvísl

Með

Árið 2020, föstudaginn 27. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2019 um að aðhafast ekki vegna uppsetningar lofttúðu í húsinu nr. 7b við Álakvísl, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júlí 2019, er barst nefndinni 29. s.m., kærir eigandi, Álakvísl 7a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2019 að aðhafast ekki vegna uppsetningar lofttúðu í húsinu nr. 7b við Álakvísl. Er krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. ágúst 2019.

Málavextir: Upphaf máls þessa má rekja til ábendingar kæranda frá 22. febrúar 2017 vegna lofttúðu/útblástursviftu að Álakvísl 7b. Í ábendingu kæranda kom m.a. fram að íbúi Álakvíslar 7b hefði borað gat á vegg, sem snúi að sameiginlegum utanáliggjandi palli/svölum, og sett þar upp lofttúðu fyrir útblástur frá eldhúsháfi. Kæmi þaðan óbærilegur fnykur sem leitaði út í horn, beint fyrir framan íbúð kæranda. Með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til þinglýsts eiganda Ála­kvíslar 7b, dags. 30. janúar 2019, var eigandanum gert að sækja um byggingarleyfi vegna útblásturs­viftu við útidyr. Vísað var til gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem mælir fyrir um að óheimilt sé að reisa mannvirki, breyta því, burðakerfi þess, lagnakerfum, notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Yrði tilmælum byggingar­fulltrúa ekki sinnt myndi hann taka ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Gæti sú ákvörðun falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eiganda eða beitingu dagsekta.

Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. júní 2019, var vísað til þess að embættinu hefði borist afrit af skýrslu ráðgjafa vegna hljóðvistar þar „sem ráðlagt er að setja umrædda lofttúðu sem hluta að aðgerðum til að bæta hljóðvist í íbúðinni númer 7a við Álakvísl“. Eftir nánari skoðun á myndum og öðrum gögnum málsins og í ljósi þess að eigandi Álakvíslar 7b hefði aftengt eldhúsháf frá umræddri lofttúðu, og þar með komið í veg fyrir að matarlykt bærist út um hana, væri það niðurstaða byggingarfulltrúa að uppsetning lofttúðunnar væri óveruleg breyting á útliti hússins og félli því undir gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Byggingarfulltrúi myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Er þessi ákvörðun byggingarfulltrúa sú ákvörðun sem kærð er.

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærðu ákvörðun ólögmæta. Það tilvik sem hér um ræði geti ekki með nokkru móti fallið undir c-lið gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins eigi það við um hefðbundið viðhald á húsnæði að utan, þar sem ekki sé um neinar breytingar á útliti þess að ræða. Auk þess séu þar settar þær takmarkanir að nota beri eins eða sambærileg efni og fyrir hafi verið. Ekki verði séð að byggingarfulltrúa sé fengið sérstakt mat að þessu leyti, þ.e. varðandi þær framkvæmdir sem falli undir undanþágu­heimildina. Byggingarfulltrúa sé einungis fengið mat um það hvort viðhaldið sem slíkt feli í sér verulega breytingu á útliti hússins eða ekki, t.d. varðandi efnisval. Hins vegar taki ákvæðið til nýklæðningar og minniháttar breytingar á burða­virki. Ljóst megi vera að ekki sé um slíkt að ræða í þessu tilviki. Verði að mati kæranda að líta svo á að verulegur vafi leiki á því hvort uppsetning á lofttúðu/útblástursviftu, sem tengd sé eldhúsháfi og óumdeilanlega breyti útliti hússins, geti fallið undir undanþáguheimild c-liðar gr. 2.3.5. í reglu­gerðinni.

Í öðru lagi geri kærandi athugasemdir við málsmeðferð byggingarfulltrúa. Fyrir liggi að framkvæmdar­­­­aðili hafi aldrei tilkynnt byggingarfulltrúa um framkvæmdirnar, líkt og gert sé ráð fyrir í c-lið gr. 2.3.5. í reglugerðinni og sé í þessu samhengi vakin athygli á gr. 2.3.6. í reglu­gerðinni, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 360/2016 um breytingu á byggingarreglugerð, þar sem mælt sé fyrir um málsmeðferð vegna tilkynntra framkvæmda samkvæmt gr. 2.3.5.

Loks sé vakin athygli á annmörkum á málsmeðferð þegar komi að málshraða, svörun á erindum, leiðbeiningar­­skyldu og rökstuðningi eftir á. Kærandi hafi fyrst leitað til byggingarfulltrúa snemma árs 2017. Ljóst megi vera að óhóflegur dráttur hafi orðið á meðferð málsins, sem brjóti í bága við málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi hafi fengið takmarkaðar leið­beiningar frá byggingarfulltrúa. Loks fylgdu hinni kærðu ákvörðun engar leiðbeiningar um rétt kæranda til þess að óska eftir rökstuðningi, sbr. 21. gr., sbr. einnig 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld líta svo á að uppsetning á nefndri túðu sé óveruleg breyting á útliti hússins og því sé ekki um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða skv. c-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem fram komi að óverulegar breytingar utanhúss séu undanþegnar byggingarleyfi. Framkvæmdin kunni þó að vera háð samþykki sameiganda skv. 41. gr. laga um fjöleignarhúss nr. 26/1994 og verði eigendur að leysa ágreiningsefni sín á þeim vettvangi, en embætti byggingarfulltrúa hafi ekki afskipti af framkvæmdum sem ekki séu háðar byggingarleyfi. Þess sé því krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Niðurstaða: Í máli þessu er uppi ágreiningur um hvort uppsetning á lofttúðu sé háð byggingar­leyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Er þar og tekið fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningar­skyldar. Fram kemur í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að tiltekin mannvirki og framkvæmdir séu undanþegnar byggingarleyfi. Samkvæmt c-lið þeirrar greinar fellur viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga, undir þá undanþágu, sé notað eins eða sambærilegt efni og frágangur þannig að útliti byggingar sé ekki breytt. Þó þurfi að sækja um byggingarleyfi fyrir breytingu á útliti byggingar. Ber orðalag c-liðar gr. 2.3.5. með sér að óverulegar fram­kvæmdir utanhúss falla ekki einar og sér undir fyrrgreint ákvæði heldur sé það háð mati hverju sinni hvort viðhald bygginga að utan feli í sér verulega breytingu á útliti húss eður ei. Svo sem rakið er að framan boraði nágranni kæranda gat á útvegg umrædds fjöleignarhúss árið 2017 og setti þar upp útblástursviftu/lofttúðu, sem samkvæmt gögnum málsins er þar enn. Samkvæmt skýru orðalagi fyrrgreinds c-liðar gr. 2.3.5. gat uppsetning á umræddri lofttúðu ekki fallið undir viðhaldsframkvæmdir bygginga að utan, heldur var þar um að ræða nýframkvæmd. Þar sem ekki verður séð að umþrætt framkvæmd falli heldur undir aðra stafliði tilvitnaðrar gr. 2.3.5. varðandi undanþágu frá byggingarleyfi verður að líta svo á að uppsetning túðunnar hafi verið byggingarleyfisskyld. Samkvæmt því var hin kærða ákvörðun ekki studd haldbærum rökum og verður því ekki hjá því komist að fella hana úr gildi af þeim sökum.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2019 um að aðhafast ekki vegna uppsetningar lofttúðu í húsinu nr. 7b við Álakvísl í Reykjavík.

24/2019 Egilsgata

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 23. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 26. maí 2019.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur þrívegis lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi hefur aðsetur að Egilsgötu 4. Með úrskurði 24. september 2015 í kærumáli nr. 57/2013 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu, en leyfið fól í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Með úrskurði 9. nóvember 2016 í kærumáli nr. 89/2016 var kröfum kæranda, sem einnig er kærandi þessa máls, vísað frá en þær beindust að breyttri notkun á íbúðarhúsi í gistiheimili að Egilsgötu 6. Loks var með úrskurði 21. september 2018 í kærumáli nr. 93/2017 felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja endurnýjaða byggingarleyfisumsókn fyrir breytingum á húsnæði að Egilsgötu 6. Þá hefur kærandi jafnframt kært afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni hans um afhendingu gagna. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 158/2017, uppkveðnum 20. desember 2018, var lagt fyrir Borgarbyggð að taka til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar tiltekinn hluta erindis kæranda um aðgang að gögnum, en að öðru leyti var kærunni vísað frá.

Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar 28. september 2018 var tekin fyrir endurnýjuð umsókn leyfishafa. Samþykkti nefndin að grenndarkynna umsóknina og fól umhverfis- og skipulagssviði að kynna nágrönnum, sem hagsmuna hefðu að gæta, fyrirhugaða framkvæmd. Með bréfi, dags. 23. október s.á., var umsókn leyfishafa kynnt fyrir kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og var athugasemdafresturinn til 23. nóvember s.á. Kærandi óskaði eftir frekari gögnum, upplýsingum og svörum við tilteknum spurningum í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 29. október s.á., en því bréfi var ekki svarað af byggingarfulltrúa. Hinn 20. nóvember s.á. kom kærandi að athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar til sveitarstjórnar. Á fundi byggðaráðs 3. janúar 2019 voru lögð fram drög að bréfi vegna framkominna athugasemda kæranda og samþykkti ráðið að fela sveitarstjóra að senda bréfið með áorðnum breytingum. Staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu byggðaráðs á fundi sínum 10. s.m. Með bréfi sveitarstjóra til kæranda, dags. 7. s.m., var athugasemdum kæranda við grenndar­kynninguna svarað. Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. mars 2019 voru lagðar fram athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar og svör byggingarfulltrúa við þeim. Taldi nefndin svörin fullnægjandi og lagði til við sveitarstjórn að byggingarleyfi yrði gefið út fyrir Egilsgötu 6. Samþykkti sveitarstjórn á fundi sínum 14. s.m. að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið umrædda leyfi. Hinn 26. s.m. gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna fram­kvæmda við Egilsgötu 6. Byggingarfulltrúi gaf síðan út hið kærða byggingarleyfi 2. apríl s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að skv. gr. 2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé það m.a. verkefni skipulagsnefnda að annast grenndarkynningar vegna umsókna um byggingar- og framkvæmdaleyfi í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggi fyrir deili­skipulag. Í gr. 5.9.3. um hagsmunaaðila segi að skipulagsnefnd skuli leggja mat á hverjir geti talist hagsmunaaðilar. Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi ekki lagt neitt mat á það hverja hún hafi talið til hagsmunaaðila málsins. Í gögnum málsins komi hvergi fram hverjir hafi verið taldir aðilar máls eða hverjir hafi gert athugasemdir við umsóttar breytingar. Þá liggi fyrir að eigandi fjölbýlishússins að Egilsgötu 11, sem eigi bílastæðin sem sveitarstjóri hafi talið vera í eigu sveitarfélagsins í bréfi sínu til kæranda 7. janúar 2019 og sem notendur eigna Egilsgötu 6 hafi hagnýtt sér leyfislaust, hafi ekki verið á meðal þeirra sem fengið hefðu að taka þátt í grenndarkynningunni.

Á þeim tveimur fundum sem umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi haldið eftir að frestur til þess að gera athugasemdir við grenndarkynninguna hafi runnið út 23. nóvember 2018, og þar til byggðaráð Borgarbyggðar hafi tekið svör sveitarstjóra við athugasemdir kæranda til um­fjöllunar á fundi sínum 3. janúar 2019, hafi nefndin ekki fjallað um eða afgreitt athugasemdir kæranda við grenndarkynninguna. Í bókun nefndarinnar á fundi hennar 6. mars s.á. komi ekkert fram um hvaða athugasemdum hafi verið svarað af byggingarfulltrúa. Slíkt standist ekki stjórnsýslulög. Í bréfi lögfræðings sveitarfélagsins til Sýslumannsins á Vesturlandi sé staðfest að þrjár athugasemdir hafi borist byggingar­fulltrúanum vegna grenndarkynningarinnar og að hann hafi svarað þeim, en athugasemdum kæranda við grenndarkynninguna hafi verið svarað af sveitarstjóra þar sem kærandi hafi stílað athugasemdir sínar á sveitarstjórn Borgarbyggðar. Því hafi málsmeðferð athugasemda kæranda verið önnur en hinna athugasemdanna. Slíkt staðfesti að umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi hvorki tekið afstöðu til athugasemda kæranda né svara sveitarstjórans til hans. Einstakir þættir málsins hafi því aldrei verið teknir fyrir á fundum nefndarinnar líkt og henni hafi borið að gera skv. gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar segi að berist athugasemd á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um athugasemdir til sveitarstjórnar, sem síðan taki endanlega afstöðu til málsins.

Á fundi sveitarstjórnar 10. janúar 2019 hafi ákvörðun byggðaráðs frá 3. s.m., um að fela sveitarstjóra að senda svarbréf vegna athugasemda kæranda með áorðnum breytingum, verið staðfest, en sveitarstjóri hafi hins vegar sent nefnt svarbréf þremur dögum fyrr eða 7. s.m. Hvergi komi fram að umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi fengið svarbréfið til umfjöllunar eða samþykktar. Með vísan til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð sé niðurstaða bréfsins því marklaus og ólögleg þar sem samþykki sveitarstjórnar fyrir því hafi ekki legið fyrir þegar það hafi verið sent.

Bréf skipulagsfulltrúa frá 23. október 2018 þar sem fyrirhuguð framkvæmd hafi verið grenndarkynnt uppfylli ekki skilyrði laga enda sé ekki getið um til hverra nota íbúðirnar eigi að vera. Í gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð segi að í bréfi til hagsmunaaðila skuli m.a. koma fram hvert sé meginefni grenndarkynningar og eigi hönnunargögn, sbr. gr. 5.9.7., að fylgja þegar um leyfisumsókn sé að ræða. Verulega vanti upp á í þeim efnum. Í gr. 5.9.7. sé m.a. kveðið á um að upplýsingar um bílastæði og aðrar kröfur sem gerðar séu til framkvæmdarinnar þurfi að fylgja gögnum eftir því sem við eigi, sbr. einnig gr. 4.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá komi fram í gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar að í grenndarkynningu leyfisumsóknar skuli liggja fyrir rökstuðningur fyrir fjölda bílastæða og fyrirkomulag þeirra. Gögn meðfylgjandi grenndarkynningu uppfylli ekki framangreindar lagaskyldur. Í bréfi sveitarstjóra frá 7. janúar 2019 sé vísað til bílastæða í eigu sveitarfélagsins sem standi gegnt Egilsgötu 6, en samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi Egilsgötu 11 séu umrædd bílastæði innan lóðarmarka þeirrar lóðar. Fyrir liggi að sveitarfélagið hafi ákveðið að fjölga íbúðum um þrjár í húsinu og samhliða því ákveðið breytingar á bílastæðum inni á einkalóð annars án leyfis eiganda og án þess að gefa viðkomandi kost á að koma sjónarmiðum sínum að í grenndarkynningu vegna breytinganna.

Samkvæmt byggingarreglugerð verði lögmætt byggingarleyfi ekki gefið út á grundvelli umsóknar þar um nema að uppfylltum skilyrðum þeim sem ákveðin séu í reglu­gerðinni. Í athugasemdum kæranda við grenndarkynninguna hafi verið bent á fjölmörg atriði sem sýni að hönnunargögn, hönnun og skipulag íbúðanna fullnægi ekki skilyrðum nefndrar reglugerðar. Samkvæmt gr. 4.2.1. í reglugerðinni skuli mannvirki hönnuð á faglega full­nægjandi hátt í samræmi við viðurkenndar venjur, staðla og ákvæði laga og reglugerða um mannvirki og mannvirkjagerð. Í hönnunargögnum sé ekki gerð grein fyrir atriðum sem talin séu upp í gr. 4.3.1. og 4.3.2. og flestum þáttum sem krafa sé gerð um í gr. 4.3.3., 4.3.6., 4.3.9., 6.1.5. og 6.7.1. sömu reglugerðar. Umsókn um byggingarleyfi, og þar með grenndar­kynningargögnum, skuli meðal annarra gagna fylgja skráningartafla fyrir mannvirki og málsett teikning af þversniði húss. Hvort tveggja hafi vantað og hafi byggingarfulltrúi ekki svarað beiðni um þau gögn á kynningartíma, auk þess sem sveitarstjóri taki ekki á því efni í bréfi sínu 7. janúar 2019. Þá sé bent á að þinglýst hafi verið eignaskiptayfirlýsingu á lóðina að Egilsgötu 6 og sé hún því orðin að fjöleignarhúsi. Ekki sé gerð grein fyrir þeim þætti í grenndarkynningu. Hvergi sé í gögnunum fjallað um aðgengi að sorpílátum, staðsetningu eða um aðgengi að íbúð á annarri hæð, en íbúar hennar hafi tímabundið leyfi til að fara yfir lóð Egilsgötu 8. Grenndarkynning geti ekki farið fram með fullnægjandi hætti nema hönnunargögn séu full­nægjandi og í samræmi við lög.

Byggingarfulltrúi hafi aldrei svarað fyrirspurnum kæranda um til hverra nota íbúðirnar fjórar ættu að vera og það hafi sveitarstjóri ekki heldur gert í bréfi sínu til hans. Bent sé á að hinn 29. september 2018 hafi byggingarfulltrúi gefið Sýslumanninum á Vesturlandi jákvæða umsögn um rekstur til ótilgreinds tíma fyrir gistiþjónustu í flokki II í þremur íbúðum á fyrstu hæð að Egilsgötu 6. Þá hafi sveitarstjóri hinn 30. s.m. gefið sama aðila jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu í sömu íbúðum. Hafi það verið gert þrátt fyrir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt úr gildi byggingarleyfi fjögurra íbúða að Egilsgötu 6 hinn 21. s.m. Í ljósi þess að sveitarfélagið hafi frá sumri 2013 veitt heimild til rekstrar gistiþjónustu í umræddum íbúðum sé bent á að skv. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sé íbúðargisting leiga á stakri íbúð til ferðamanna. Falli útleiga íbúðar ekki undir heimagistingu teljist íbúðin vera atvinnuhúsnæði og skuli vera samþykkt af byggingarfulltrúa sem slík. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eldvarnir skuli taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði, en með auknum ráðstöfunum samkvæmt reglum Mannvirkjastofnunar þar að lútandi. Þeim skilyrðum sé hvorki fullnægt í hönnunargögnum né í raun.

Samkvæmt gr. 4.3.1. í byggingarreglugerð skuli gera grein fyrir bílastæðum hreyfihamlaðra og samkvæmt gr. 6.2.4. skuli lágmarksfjöldi bílastæða fyrir fatlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, vera eitt stæði þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 1-10. Þeim skilyrðum sé hvorki fullnægt í hönnunargögnum né í raun. Þá skuli skv. gr. 6.1.3. í byggingarreglugerð hanna gististaði á grundvelli algildrar hönnunar. Sé vikið frá sjónarmiðum um algilda hönnun skuli ítarlega rökstutt í hönnunargögnum á hvaða grundvelli það sé gert. Hönnun íbúða að Egilsgötu 6 sé ekki unnin á grundvelli algildri hönnun og ekki sé gerð grein fyrir þeim þætti í greinargerð. Þá sé bent á að samkvæmt reglugerðinni skuli samanlagt ljósop glugga hvers íbúðarherbergis ekki vera minna en sem svari til 1/10 af gólffleti þess, þó aldrei minna en 1 m2. Samkvæmt mælingu af teikningu vanti verulega upp á að ljósop glugga þriggja íbúða á fyrstu hæð sé nægjanlegt. Hurðarop uppfylli heldur ekki kröfur um stærð samkvæmt reglugerð. Lofthæð rýma skuli vera að lágmarki 2,5 m samkvæmt reglugerðinni. Ekki sé hægt að sannreyna nákvæmlega af teikningu hvort lofthæð á fyrstu hæð sé fullnægjandi, því málsett þversnið mannvirkis hafi ekki fylgt gögnum málsins og ekki fengist þrátt fyrir beiðni þar um. Aftur á móti hafi mæling á staðnum leitt í ljós að lofthæð í íbúð 0103 uppfylli ekki kröfu reglugerðar um lofthæð og sé mun lægri að hluta samkvæmt því er fram komi í fasteignaauglýsingu fyrir íbúðirnar. Sá þáttur málsins þarfnist frekari rannsóknar, en til þess hafi ekki fengist gögn. Framangreindir ágallar hafi ekki gefið forsendur til loka­úttektar 26. mars 2018, jákvæðra umsagna byggingarfulltrúa og sveitarstjóra um rekstur gistiþjónustu eða útgáfu hins kærða byggingarleyfis. Slíkt leyfi eigi ekki að gefa út fyrr en hönnun standist kröfur byggingarreglugerðar.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ekkert þeirra atriða sem hafi komið fram í bréfi kæranda 29. október 2018 til byggingarfulltrúa hafi varðað hina umræddu grenndarkynningu. Kærandi hafi spurt byggingarfulltrúa hver skilgreining hans væri á orðinu stúdíóíbúð. Orðið sé að finna í íslenskri nútímamálsorðabók stofnunar Árna Magnússonar og sé vel þekkt orð með vel þekkta merkingu. Byggingarfulltrúa hafi því ekki verið skylt að útskýra það skriflega fyrir kæranda. Hvað varði athugasemdir kæranda þess efnis að umræddar stúdíóíbúðir uppfylli ekki margar ótilgreindar greinar byggingar­reglugerðar þá telji sveitarfélagið ljóst að svo óljósum málatilbúnaði sé ekki hægt að svara. Kærandi hafi sent sveitarstjórn Borgarbyggðar bréf, dags. 20. nóvember 2018, þar sem athugasemdir hafi verið gerðar við grenndarkynningu byggingarleyfisins. Kærandi hafi fengið svarbréf frá sveitarstjóra, dags. 7. janúar 2019, þar sem farið hafi verið í gegnum athugasemdir kæranda lið fyrir lið. Bent sé á að í svarbréfi Skipulagsstofnunar til kæranda, dags. 19. mars s.á., komi fram að það sé álit stofnunarinnar að svör sveitarstjóra vegna athugasemda kæranda við bílastæðamál séu fullnægjandi, að sveitarfélagið hafi fært málefna­leg rök fyrir þeirri afstöðu sinni að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi ekki verið brotin við meðferð málsins og að öllum atriðum í bréfi kæranda hafi verið svarað með fullnægjandi hætti. Sveitarfélagið telji því ljóst að ekki aðeins hafi kærandi fengið tilskilin svör við athugasemdum hans við grenndarkynninguna heldur hafi hann jafnframt fengið staðfestingu á því frá Skipulagsstofnun að svörin hafi verið í samræmi við skyldur sveitarfélagsins sem skipulagsyfirvalds og sem stjórnvalds samkvæmt stjórnsýslulögum. Því sé mótmælt að athugasemdabréf kæranda verði lagt til grundvallar sem gagn í þessu máli.

Kærandi geti ekki talist hafa lögvarða hagsmuni um hvort lóðarhafi Egilsgötu 11 hafi fengið senda grenndarkynningu. Óumdeilt sé að grenndarkynnt hafi verið fyrir kæranda og hafi hann því fengið fullt tækifæri til að gæta hagsmuna sinna. Kæranda varði ekkert um það hvort lóðarhafa Egilsgötu 11 hafi verið grenndarkynnt umsókn um byggingarleyfi vegna breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6.

Þrátt fyrir að bæði gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem og 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, geri ráð fyrir því að skipulagsnefnd sveitarfélagsins kynni nágrönnum leyfisumsókn þá sé það sveitarstjórn sem eigi síðasta orðið, þ.e. sveitarstjórn sé sá hluti stjórnsýslunnar sem taki málið til endanlegrar afgreiðslu. Þegar afgreiðsla sveitarstjórnar liggi fyrir skuli tilkynna þeim sem gert hafi athugasemdir niðurstöðu hennar. Svarbréf sveitarstjóra hafi verið unnið í samvinnu við starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs auk þess sem byggðaráð hafi samþykkt á fundi 3. janúar 2019 að sveitarstjóri sendi umrætt bréf. Sveitarstjórn hafi síðan tekið endanlega afstöðu í málinu á fundi sínum 14. mars s.á. með því að staðfesta þá afgreiðslu umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið kærða byggingarleyfi. Það liggi því fyrir að við endanlega afgreiðslu málsins hafi sveitar­stjórn bæði fengið umsagnir umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar um athugasemdir annarra hagsmunaaðila en kæranda, sem og svör sveitarstjóra við athugasemdum hans, þegar ákveðið hafi verið að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfið. Þrátt fyrir að meðferð málsins hafi verið hagað með þessum hætti hafi hún ekki komið niður á möguleika kæranda til að verja hagsmuna sína og koma að sjónarmiðum í málinu. Markmið málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar sé að tryggja réttaröryggi borgaranna í skiptum þeirra við stjórnvöld, en ekki sé nokkur leið að sjá að málsmeðferð sveitarfélagsins í þessu máli hafi haft neikvæða áhrif á réttaröryggi kæranda.

Sveitarfélagið fallist á að það hafi verið annmarki á afgreiðslu málsins að svarbréf sveitarstjórans frá 7. janúar 2019 skyldi sent kæranda áður en sveitarstjórn hafi samþykkt afgreiðslu byggðaráðs um að senda kæranda umrætt bréf. Annmarkinn sé þó ekki þess eðlis að hann eigi að varða ógildingu hins kærða byggingarleyfis. Vegna þessa atriðis sé á það bent að í byggðaráði sitji þrír fulltrúar og einn áheyrnarfulltrúi, allt sveitarstjórnarmenn. Þegar afgreiðsla byggða­ráðs hafi verið lögð fyrir sveitarstjórn til staðfestingar hafi kjörnir fulltrúar engar athugasemdir gert við hana. Því hefði það ekki haft áhrif á efnislega afstöðu sveitarfélagsins til athugasemda kæranda hefði verið beðið með að senda bréfið fram yfir fund sveitarstjórnar.

Kærandi hafi gert athugasemdir við framkvæmd grenndarkynningarinnar. Við yfirferð þeirra hafi sveitarstjóri komist að þeirri niðurstöðu að ekkert þeirra stæðist skoðun, m.a. að grenndarkynning hafi verið efnislega fullnægjandi, að afstöðumynd hafi ekki þurft að fylgja með þar sem um ræddi breytingu á innra skipulagi húss, að ekki hafi þurft að gera grein fyrir bílastæðamálum þar sem ákvæði núgildandi skipulagsreglugerðar geri ekki sömu kröfur og eldri skipulags­reglugerð, að sveitarfélaginu væri ekki skylt að útbúa kort yfir bílastæði og að þar sem ekki væri verið að sækja um breytta notkun væri sveitarfélaginu hvorki skylt né heimilt að senda út grenndarkynningu vegna slíks.

Einnig hafi kærandi gert athugasemd við að hönnunargögn stæðust ekki skilyrði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012, en kærandi geti ekki með nokkru móti talist hafa lögvarða hagsmuni af því að grenndarkynnt hönnunargögn vegna innanhússbreytinga sýni að húsið sé hannað á grundvelli algildrar hönnunar, sýni fyrirhugað fyrirkomulag póstkassa og dyrasíma, sýni hæðarkóta á lóðamörkum, sýni hvort baðaðstaða sé þrepa- og þröskuldalaus og sýni skráningu rýmisnúmera á uppdrætti, svo dæmi séu tekin. Tilgangur þeirra ákvæða reglugerðarinnar sem kærandi vísi til sé að veita byggingarfulltrúum tiltekin lágmarksviðmið við þá matskenndu ákvörðun að veita byggingarleyfi. Uppfylli gögn ekki umræddar kröfur geti byggingar­fulltrúi vísað til þeirra við ákvörðun um að neita að gefa út byggingarleyfi. Tilgangur þeirra geti hins vegar ekki verið sá að gera öðrum aðilum, sem eigi enga hagsmuna tengda því að hönnunargögn séu fullnægjandi, kleift að vísa til þeirra við kæru til æðra stjórnvalds til rökstuðnings kæruatriðum sem virðist aðallega varða nábýlisrétt.

Þá séu athugasemdir varðandi bílastæðamál við Egilsgötu afar óraunhæfir hagsmunir fyrir kæranda í þessu máli með hliðsjón af því að efni grenndarkynningarinnar hafi varðað breytingu á innra skipulagi hússins að Egilsgötu 6. Í svarbréfi sveitarstjóra hafi með rökstuddum hætti verið vísað til þess að ákvæði eldri skipulagsreglugerðar eigi ekki við í málinu, að málsatvik vegna afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar Brákarbrautar 2 hafi ekki verið sambærileg og að umfjöllun á fundi byggðaráðs um drög að reglugerð  nr. 1277/2016  um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald hafi ekki neitt gildi við grenndarkynningu þá sem athugasemdir kæranda hafi varðað.

Að lokum hafi athugasemdir kæranda varðað atvinnurekstur í íbúðahverfum og þess verið krafist að rekstur gistiheimilis í húsinu yrði stöðvaður. Sveitarstjóri hafi svarað með þeim hætti að hin umþrætta grenndarkynning hafi ekki varðað starfsemi í húsinu. Áréttað sé að Skipulagsstofnun hafi vottað að svör sveitarstjóra við tilgreindum atriðum hafi ýmist verið fullnægjandi, að stofnunin hafi ekki lagalegar forsendur til að gera athugasemdir við svörin og að svörin hafi verið fullnægjandi með tilliti til þess rökstuðnings sem þar komi fram. Jafnframt vísist til þess að allir meintu hagsmunir kæranda hafi verið ólögvarðir, óverulegir og þess eðlis að þeir geti ekki talist grundvöllur fyrir ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Í svarbréfi sveitarstjóra til kæranda hafi athugasemdum hans varðandi efni grenndar­kynningar verið svarað. Um leið sé minnt á afstöðu Skipulagsstofnunar til svara sveitarstjóra varðandi bílastæðamál. Sveitarfélagið gangist við því að hafa ekki áttað sig á því að umrædd stæði væru innan lóðarmarka Egilsgötu 11. Mistökin helgist af því að sveitarfélagið hafi ávallt séð um umrædd stæði og borið af þeim kostnað. Þróun bílastæðamála við Egilsgötu hafi verið sú að stæðum við götuna hafi fjölgað umtalsvert frá gerð lóðarleigusamnings. Þá sé ítrekað að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni varðandi umrædd bílastæðamál.

Að því er varði þá málsástæðu kæranda að hönnunargögn séu ekki fullnægjandi vísist til fyrri umfjöllunar. Aukinheldur sé vísað til þess sem komi fram í bréfi sveitarstjóra að í gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð segi að við breytingu á mannvirki sem byggt hafi verið í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum um algilda hönnun. Í ljósi þess að húsið við Egilsgötu 6 sé frá 1936 sé ekki hægt að gera kröfu um að það uppfylli allar kröfur núgildandi byggingarreglugerðar um algilda hönnun. Þá sé vísað til bréfs Skipulagsstofnunar og þá helst þess sem fram komi í 4. tölul. bréfsins um að hönnunargögn þurfi ekki að vera fullunnin fyrir grenndarkynningu, sbr. lokamálslið gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð.

Í kæru sé því haldið fram að sveitarfélaginu hafi verið skylt að kynna til hvaða nota umræddar íbúðir í húsinu að Egilsgötu 6 ættu að vera. Í umsókn leyfishafa hafi verið sótt um leyfi fyrir breytingum innanhúss en ekki hafi komið fram að um breytta notkun væri að ræða. Þá vísi kærandi til umsagna sveitarfélagsins um umsóknir eigenda Egilsgötu 6 til Sýslu­mannsins á Vesturlandi um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Sé því m.a. haldið fram að með því að kynna ekki breytta notkun hússins sé sveitarfélagið með einhverjum hætti að neita því að um sé að ræða íbúðir sem reknar séu fyrir gistiþjónustu. Bent sé á að þetta atriði sé ekki hluti málsins þar sem grenndarkynningin hafi varðað umsókn um leyfi fyrir innanhússbreytingar og ekkert annað. Jafnframt sé bent á að málefni tengd rekstrarleyfum séu ekki kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. úrskurð nefndarinnar í kærumáli nr. 89/2016. Þá vísi kærandi til 12. gr. reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og haldi því fram að í ákvæðinu komi fram að íbúð sem ekki falli undir heimagistingu skuli vera atvinnuhúsnæði. Rétt sé að benda á að með breytingarreglugerð nr. 686/2018 hafi umrætt ákvæði verið fellt úr gildi frá og með 3. júlí 2018. Allar athugasemdir kæranda um að hönnunargögn hafi átt að meta með það í huga að um atvinnuhúsnæði væri að ræða falli þar með um sig sjálfar.

Hvað varði athugasemdir í kæru um að hönnun standist ekki kröfur um stærð ljósopa glugga, stærð hurðaopa og lofthæð rýma vísi sveitarfélagið til fyrrnefnds tilgangs viðmiða byggingarreglugerðar og skorts á lögvörðum hagsmunum kæranda. Jafnframt sé bent á að hið umrædda hús hafi verið byggt árið 1936, eða fyrir setningu fyrstu byggingarreglugerðar á Íslandi, og því sé endurskipulagningu þess sniðinn þröngur stakkur hvað varði algilda hönnun.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð krafa um að kæru verði vísað frá þar sem kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna „að gæta af úrlausn kæruefnis að hluta og um aðildarskort kæranda að ræða varðandi önnur atriði.“ Tínd séu til ýmis atriði sem séu útgáfu byggingarleyfis óviðkomandi en geti snúið m.a. að rekstrarleyfi leyfishafa, en það sé ekki til meðferðar í máli þessu. Þau atriði málsins sæti frávísun. Málsástæður kæranda um stærð ljósop sem hlutfall af gólffleti og lofthæð íbúða geti vart snert hagsmuni kæranda. Krafa hans um hnitsetta afstöðu­mynd og hæðarlínur geti vart talist nauðsynlegar til að hann geti gætt grenndarhagsmuna sinna þar sem ekki sé um að ræða breytingar á ytra byrði hússins eða umhverfi. Vísað sé til þess að tilgreind bílastæði séu innan lóðarmarka Egilsgötu 11. Ekki verði séð að kærandi hafi sérstaka lögvarða hagsmuni af þessari málsástæðu. Þá hafi hann ekki sýnt fram á að hann gæti hagsmuna eiganda Egilsgötu 11. Kærandi geti því ekki haldið fram kröfu sem sé einka­réttarlegs eðlis.

Hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út í kjölfar grenndarkynningar. Kærandi hafi haft alla möguleika til að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann og gerði. Stjórnvaldið hafi svarað athugasemdum hans ítarlega með bréfi sveitarstjóra frá 7. janúar 2019 og þar með uppfyllt skyldu sína í samskiptum við kæranda. Því sé ekki hægt að halda fram að réttur hafi verið á honum brotinn. Einnig vísist til þess að lokaúttekt hafi farið fram á fasteignum að Egilsgötu 6.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykki byggingarfulltrúans í Borgarbyggð fyrir byggingarleyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Kærandi er eigandi húss á aðliggjandi lóð og tengja steyptar tröppur húsin saman. Er ekki útilokað að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna hins kærða byggingarleyfis og hefur honum áður verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli fyrir nefndinni vegna sömu breytinga, svo sem rakið er í málavaxtalýsingu. Getur kærandi teflt fram hverjum þeim málsástæðum sem hann telur rétt að vekja athygli úrskurðarnefndarinnar á. Jafnframt hvílir á nefndinni sjálfstæð rannsóknarskylda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, vegna hverra þeirra atvika sem tengst geta lögmæti hinnar kærðu leyfisveitingar. Þótt lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar í þessu máli einskorðist við byggingarleyfið sem er til umfjöllunar getur kærandi jafnframt leitað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á grundvelli eftirlits- og yfirstjórnarhlutverks þess telji hann málsmeðferð sveitarfélagsins ábótavant að öðru leyti eða það ekki hafa sinnt skyldum sínum, s.s. vegna atvinnurekstrar í því húsi sem um ræðir.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem fram­kvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags­gerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Að loknum kynningarfresti og þegar sveitar­stjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um grenndarkynningu tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er mælt fyrir um frekari málsmeðferð grenndarkynningar og kemur þar m.a. fram í gr. 5.9.4. að berist athugasemdir á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um þær til sveitarstjórnar sem síðan taki endanlega afstöðu til málsins.

Fyrir liggur að á kynningartíma hinnar umþrættu leyfisumsóknar óskaði kærandi eftir svörum frá byggingarfulltrúa um tiltekin atriði grenndarkynningarinnar en því bréfi var ekki svarað. Þá sendi kærandi inn athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar á og var þeim athugasemdum svarað með bréfi sveitarstjóra 7. janúar 2019. Gaf umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd því ekki umsögn um athugasemdir kæranda líkt og henni bar að gera á grundvelli gr. 5.9.4. í skipulags­reglugerð, en til þess er að líta að skipulagsnefndir búa að jafnaði yfir sérfræðiþekkingu á skipulagsmálum. Samkvæmt framansögðu var málsmeðferð og undirbúningur ákvörðunar um hið kærða byggingarleyfis annmörkum háð. Við mat á því hvort það varði ógildingu ber m.a. að horfa til þess að það er sveitarstjórn sem hefur vald til fullnaðarafgreiðslu grenndarkynningar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Kærandi kom á framfæri athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar og var þeim athugasemdum svarað með fyrr­nefndu bréfi sveitarstjóra, en það svarbréf var staðfest af bæði byggðaráði og sveitarstjórn. Í bréfi sveitarstjóra er athugasemdum kæranda svarað vandlega í ítarlegu máli með vísan til viðeigandi laga- og reglugerðarákvæða. Þá var í svari byggingarfulltrúa vegna athugasemda sem bárust vegna grenndarkynningar, sem umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd staðfesti á fundi sínum 6. mars 2019, fjallað um ýmis þau atriði sem kærandi vísaði til í athugasemdum sínum. Verður því ekki séð að skort hafi á aðkomu umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar vegna athugasemda kæranda með þeim hætti að leitt hefði til annarrar niðurstöðu en raun bar vitni. Þá verður ekki fallist á með kæranda að sá annmarki hafi verið á grenndarkynningunni að ekki hafi komið fram hvert meginefni kynningarinnar var, sbr. gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð, enda kom þar fram að um leyfi til breytinga innanhúss væri að ræða og fylgdu með teikningar vegna fram­kvæmdanna.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að breyta mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., og skal hann skv. 11. gr. sömu laga fara yfir byggingarleyfisumsókn og ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Í áðurgildandi byggingar­reglugerð nr. 441/1998 kemur fram í gr. 12.8 að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildistöku reglugerðarinnar skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál. Í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 er ekki að finna sambærilegt ákvæði en í einstökum ákvæðum hennar er tekin afstaða til þess hvort þargreindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í gr. 9.2.5. kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skuli þess gætt að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni og að breytingin skerði ekki brunavarnir annarra þátta mannvirkisins. Tekið er fram í gr. 12.1.2. að ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar um öryggi við notkun eigi við um breytingu á þegar byggðu mannvirki og um breytta notkun þess. Þá er í gr. 6.1.5. fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við breytingu á mannvirki sem byggt sé í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Þá hljóðar 3. mgr. ákvæðisins svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“

Af framangreindum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en leyfisveitandi geti heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar, en sá hluti fjallar um aðkomu, umferðarleiðir og innri rými mannvirkja.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að breyta íbúðarhúsi, sem reist var árið 1936, í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð, en fasteignin verður við þá breytingu fjöleignarhús og er hún nú skráð sem slíkt hús í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Við nefnda breytingu gilda ákvæði byggingarreglugerðar. Af samþykktum uppdráttum verður ráðið að þónokkur skilyrði 6. hluta byggingarreglugerðar eru ekki uppfyllt. Má þar t.a.m. nefna að í gr. 6.7.1. er kveðið á um að íbúð í fjölbýlishúsi skuli fylgja geymsla fyrir barnavagna og hjól, sameiginleg eða í séreign og skv. gr. 6.2.4. skal vera eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða þegar íbúðir í fjölbýlishúsi eru á bilinu 1-10. Hvorki liggur fyrir að greinargerð í samræmi við gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð hafi fylgt umsókn um umrætt byggingarleyfi né að leyfisveitandi hafi fallist á slíkt frávik með form­legum hætti í samræmi við nefnt ákvæði. Þá voru samþykktir uppdrættir ekki málsettir og er því óvíst hvort önnur tiltekin ákvæði reglugerðarinnar hafi verið uppfyllt, t.d. gr. 6.7.2. um lofthæð og ljósop glugga. Verður það að teljast annmarki á hinu umdeilda byggingarleyfi. Að framangreindu virtu uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnað 11. gr. mannvirkjalaga um að byggingarleyfi sé í samræmi við byggingarreglugerð. Af þeim sökum verður ekki komist hjá því að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

134/2017 og 8/2019 Þrastargata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 134/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna lóðanna Þrastargötu 1 og 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. nóvember 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húss að Þrastargötu 7, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 að samþykkja breytingu á deili­skipulagi Fálkagötureits vegna lóðanna Þrastargötu 1 og 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. janúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. s.m. um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á lóðinni nr. 5 við Þrastargötu. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að sami aðili stendur að báðum kærumálunum, og að hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar, verður síðara kærumálið, sem er nr. 8/2019, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. janúar 2018 og 11. febrúar 2019.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Fálkagötureits sem samþykkt var á árinu 2008 og tekur m.a. til lóðanna Þrastargötu 1 og 5. Meðal markmiða skipulagsins samkvæmt greinargerð þess er að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum á forsendum þeirrar byggðar sem þar er fyrir. Þá segir í skilmálum um byggðamynstur að hafa beri í huga mælikvarða þeirrar byggðar sem fyrir sé á svæðinu. Samkvæmt grein 1.A í skilmálum deiliskipulagsins er heimilt að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsa.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. ágúst 2016 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á lóðinni nr. 5 við Þrastargötu, en leyfið fól í sér að flatarmál bygginga á lóðinni fór úr 67,2 m2 í 86,1 m2, eða aukningu um 28%. Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem felldi leyfið úr gildi með úrskurði uppkveðnum 8. desember 2016 í máli nr. 126/2016. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að almennir skilmálar deiliskipulagsins, um heimild til að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna, gæti ekki tekið til þeirrar stækkunar hússins sem um ræddi í málinu.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. mars 2017 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits. Í breytingunni fólst heimild til að byggja við húsið að Þrastargötu 5, að lóðin Þrastargata 1 verði aftur hluti sameiginlegrar lóðar Þrastargötu 1-11, Smyrilsvegar 29 og 31, skilgreining kvaða um gangstíga og aðkomu neyðarbíla og árétting á skilmálum um fjölda bílastæða. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna og fól jafnframt skipulagsfulltrúa að upplýsa íbúa í nágrenninu sérstaklega um auglýsinguna. Var tillögunni vísað til borgarráðs, sem samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 6. apríl s.á. Tillagan var auglýst til kynningar frá 10. apríl til 22. maí s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kæranda. Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 30. ágúst s.á. ásamt ódagsettu bréfi eiganda fasteignarinnar að Þrastargötu 5, mótteknu af Reykjavíkurborg 22. ágúst s.á., og umsögn skipulagsfulltrúa frá 28. s.m. um framkomnar athugasemdir. Samþykkti umhverfis- og skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna með breytingum þeim sem settar voru fram í umsögn skipulagsfulltrúa og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 7. september s.á. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. október 2017.

Hinn 30. október 2018 sótti eigandi Þrastargötu 5 um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á grundvelli hins breytta deiliskipulags. Byggingar­fulltrúinn í Reykjavík samþykkti byggingaráform fyrir viðbyggingunni hinn 22. janúar 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að í gr. 1.A í skilmálum deiliskipulags Fálkagötureits sé gerð grein fyrir almennum byggingarmöguleikum á lóðum, en þar segi m.a. að heimilt sé að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna. Í skilmálunum séu framangreindir almennir byggingarmöguleikar heimfærðir á einstakar lóðir og þar komi fram að lóðarhlutinn að Þrastargötu 5 sé fullbyggður. Þrastargata 5 sé hluti sameiginlegar lóðar Þrastargötu 3, 3b, 4, 5, 7, 7b, 8, 9, 10 og 11 og Smyrilsvegar 29 og 31. Byggðamynstur Þrastargötu njóti verndar samkvæmt deiliskipulagi. Húsið við Þrastargötu 5 teljist samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands 58,9 m2 með 8,3 m2 geymslu. Í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits komi fram varðandi uppbyggingu á reitnum að breytingar þurfi að taka „mið af mælikvarða byggðar og hlutföllum húsa. Sýna þurfi sérstaka aðgát við hönnun breytinga og viðbygginga.“ Við gerð deiliskipulagsins hafi farið fram mat á því hvar uppbygging væri heimil og ekki til þess fallin að raska hinu verndaða byggðamynstri. Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda að heimila ekki uppbyggingu að Þrastargötu 5 í deiliskipulagi, sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 56/2008.

Í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits segi um fjölda bílastæða: „Gert er ráð fyrir 1 bílastæði fyrir hverja nýja íbúð undir 80 m2 en 2 stæði fyrir íbúðir stærri en 80 m2 í samræmi við byggingarreglugerð.“ Samkvæmt lágmarkskröfum deiliskipulagsins þurfi því að vera samtals 27 bílastæði á hinu deiliskipulagða svæði. Á mæliblaði fyrir hina sameiginlegu lóð sé að finna kvöð fyrir 39 bílastæði. Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sé sérstaklega tekið fram að breyttar kröfur samkvæmt stefnu skipulagsins séu ekki afturvirkar fyrir samþykkt deiliskipulag.

Deiliskipulagsbreytingin taki í fyrsta lagi til þess að sérstökum skilmálum fyrir Þrastargötu 5 sé breytt á þann veg að heimilað sé að reisa viðbyggingu á lóðinni í samræmi við samþykkt byggingaráform, sem felld hafi verið úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 126/2016. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni sé rakið að Þrastargata 5 sé 67,2 m2 að stærð, en verði eftir breytinguna 86,1 m2. Ekki sé fjallað um að svo mikil stækkun á húsinu muni hafa áhrif á skerðingu bílastæða og stærð hinnar sameiginlegu lóðar. Í öðru lagi feli deiliskipulagsbreytingin í sér að lóðin að Þrastargötu 1 sé sameinuð fyrrnefndri sameiginlegu lóð en ekki sé fjallað um áhrif sameiningarinnar á fjölda bílastæða á reitnum.

Að því er varði byggingaráformin að Þrastargötu 5 telji kærandi í fyrsta lagi að viðbygging sem heimilað sé að reisa að Þrastargötu 5 hafi áhrif á hagsmuni hans. Hún muni hafa áhrif frá húsi og garði til austurs frá Þrastargötu 7. Samhliða deiliskipulagsbreytingunni hafi ekki verið kannað skuggavarp og áhrif þess, eins og venja sé í eldri þéttari byggðum. Sá annmarki feli í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessi annmarki sé sérlega alvarlegur þar sem byggðamynstur Þrastargötu sé verndað.

Í öðru lagi sé annmarki á málsetningu á viðbyggingu við Þrastargötu 5, sem heimilað sé að reisa samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni segi að eigandi Þrastargötu 5 hafi óskað eftir heimild til að stækka húsið til austurs ásamt því að fjarlægja skúr og reisa lægri viðbyggingu í hans stað. Sú lýsing sé ekki rétt þar sem gögn málsins sýni að viðbyggingin sé ekki lægri en þrír metrar. Þá sé viðbygging til suðausturs ekki málsett á hæðina en sá hluti breytingarinnar muni hafa hvað mest áhrif á hagsmuni kæranda. Breidd þess hluta viðbyggingar sé málsett 3,35 m en núverandi breidd á skúr samkvæmt samþykktum aðaluppdrætti frá 9. maí 1984 sé 2,76 m. Því sé um breikkun að ræða þótt fullyrt sé í umsögn skipulagsfulltrúa að viðbygging eigi að vera í samræmi við núverandi skúr. Óvíst sé hvort vísað sé til hins ólöglega skúrs og hann notaður sem viðmið. Verði að telja það verulega ómálefnalegt ef miðað sé við hinn ólöglega skúr sem sé hærri en leyfileg hámarkshæð skúra samkvæmt byggingarreglugerð og deiliskipulagi. Skúrar séu ekki byggingarleyfisskyldir ef þeir séu undir 2,5 m og minni en 15 m2 samkvæmt byggingarreglugerð. Viðmið hljóti einvörðungu að eiga við um löglega skúra. Lagfærður deiliskipulagsuppdráttur sýni ekki málsetningu einnar hæðar viðbyggingar þar sem nú standi hinn ólöglegi skúr. Verði að telja það verulegan annmarka.

Í þriðja lagi séu byggingaráformin í andstöðu við almenna skilmála deiliskipulags Fálkagötu­reits, en skilmálarnir séu bindandi, sbr. 21. tl. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Viðbyggingin sem heimiluð sé samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni feli í sér a.m.k. 28% aukningu á byggingarmagni á lóðarhlutanum. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi staðfest að aukning byggingarmagns um 28% gæti aldrei talist „lítil“ og rúmist því ekki innan greinar 1.A í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits. Óhjákvæmilega hefði þurft að breyta þeim samhliða breytingum á sértækum skilmálum fyrir lóðarhlutann að Þrastargötu 5.

Með deiliskipulagsbreytingunni sé einvörðungu verið að heimila að byggja viðbyggingu í samræmi við almenna skilmála deiliskipulagsins. Þó svo að stærð viðbyggingar sé tilgreind í deiliskipulagsbreytingunni breyti það því ekki að hún geti ekki talist „lítil“. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni sé talað um að aukning um 30% sé ekki mikil á þeim forsendum að húsið að Þrastargötu 5 sé lítið. Það geti ekki átt við þegar talað sé um hlutfallslega aukningu. Horfa verði sjálfstætt á hvern lóðarhluta og hlutfallslega aukningu á byggingarmagni á honum, enda hafi breytingar sem þessar áhrif á byggðamynstur. Mælikvarði á hvort viðbygging geti talist „lítil“ taki eðli málsins samkvæmt mið af því húsi sem verið sé að byggja við.

Við meðferð tillögu að deiliskipulagsbreytingunni hafi verið fjallað um þá aukningu á byggingarmagni sem hafi verið heimiluð á húsi kæranda að Þrastargötu 7 samkvæmt gildandi deiliskipulagi Fálkagötureits. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins hafi verið heimilað að „endurbyggja húsið“ að Þrastargötu 7 í hæð aðlægra húsa. Þá hafi legið fyrir skilgreindur byggingarreitur fyrir nýtt hús samkvæmt deiliskipulagsuppdrættinum þegar kærandi eignaðist húsið. Þegar núverandi eigandi Þrastargötu 5 hafi eignast hús sitt eftir gildistöku deiliskipulagsins frá 2008 hafi honum mátt vera ljóst að ekki væru til staðar heimildir til stækkunar að Þrastargötu 5.

Við gerð deiliskipulags Fálkagötureits á árinu 2008 hafi farið fram mat á því hvaða byggingaráform væru til þess fallin að taka „mið af mælikvarða byggðar og hlutföllum húsa“. Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda að heimila ekki uppbyggingu að Þrastargötu 5 í deili­skipulaginu. Heimiluð byggingaráform samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni falli því ekki að markmiðum deiliskipulagsins og skipulagsáherslum.

Í fjórða lagi hafi við meðferð deiliskipulagstillögunnar hvorki verið leitað eftir áliti Minjastofnunar né Borgarsögusafni þrátt fyrir að byggðamynstur við Þrastargötu sé verndað. Málsmeðferðin sé því andstæð rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði talið að ekki hafi verið skylt að leita eftir slíku áliti fyrr en uppdrættir liggi fyrir sé bent á að form og hlutföll viðbyggingar séu ákveðin í deiliskipulagsbreytingunni og málsett að hluta. Engin rök standi til þess að bíða með að leita eftir slíku áliti þegar deiliskipulagsbreytingin sé gagngert samþykkt til að heimila tiltekin byggingaráform.

Að því er varði sameiningu Þrastargötu 1 við hina sameiginlegu lóð byggi kærandi á því að til þess hefði þurft samþykki allra lóðarhafa hinnar sameiginlegu lóðar, en sameiningin hafi áhrif á sameiginlega ákvarðanatöku innan sameignarinnar. Bent sé á að Reykjavíkurborg hafi átt lóðina að Þrastargötu 1 á undan núverandi eiganda. Þvert á það sem fram komi í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni þá muni fækkun bílastæða hafa áhrif á hagsmuni kæranda þar sem sameiningin feli í sér skerðingu á þeim bílastæðum sem fyrir séu á lóðinni og gert sé ráð fyrir á uppdrætti, en eins og áður greini sé þar kveðið á um fjölda bílastæða umfram þann fjölda sem tryggður sé í gildandi deiliskipulagi. Þá muni sameiningin í öllu falli hafa í för með sér skerðingu á stærð hinnar sameiginlegu lóðar eins og hún komi fram í lóðarleigusamningi og á mæliblaði með honum, þ.e. að hluti lóðarinnar fari undir bílastæði fyrir lóðarhafa að Þrastargötu 1. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni sé ekki fjallað um þá skerðingu á bílastæðum sem stækkun Þrastargötu 5 muni hafa í för með sér. Afla þurfi samþykkis allra lóðarhafa hinnar sameiginlegu lóðar fyrir stækkuninni. Aðalskipulag horfi til framtíðar og geti ekki haft afturvirk áhrif á lágmarksrétt sem tryggður sé samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Það sé annmarki á málinu að hagur heildarinnar hafi ekki verið hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem svo mikil aukning á nýtingarhlutfalli hafi áhrif á verndað byggðamynstur og kunni að skapa fordæmi. Þá sé málsmeðferð Reykjavíkurborgar gagnrýnd. Bréf eiganda Þrastargötu 5 hafi verið tekið inn í skipulagsferlið þrátt fyrir að hafa borist að athugasemdafresti liðnum. Þar komi fram alvarlegar og rangar ávirðingar í garð kæranda. Verði að telja ómálefnalegt að hafa litið til þess við meðferð tillögunnar.

Eftirfarandi athugasemdir séu gerðir við samþykkta aðaluppdrætti. Í grein 1.A í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits komi fram að heimilt sé að byggja kvisti á helmingi þakflatar og skuli fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1,0 m. Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum sé fjarlægðarviðmið ekki virt og sé því um sjálfstæðan annmarka að ræða, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 100/2017.

Eigandi Þrastargötu 9 hafi sent fyrirspurn um stækkun viðbyggingar á sínu húsi til vesturs um 1,8 m. Í svari Reykjavíkurborgar segi að við þá aðgerð raskist fínleg hlutföll núverandi húss. Ekki sé hægt að fallast á erindið en hafi eigandi Þrastargötu 9 áhuga á hóflegri stækkun skuli hann leita eftir umsögn Borgarsögusafns Reykjavíkur. Með hliðsjón af svari Reykjavíkurborgar geti hin kærðu byggingaráform ekki talist vera í samræmi við framangreint, enda um að ræða stærri viðbyggingu en fyrirspurn eiganda Þrastargötu 9 hafi lotið að, sbr. einnig 11. gr. stjórnsýslulaga.

Af aðaluppdráttum verði ráðið að hæð á viðbyggingu sem snúi að Þrastargötu sé ekki málsett. Eingöngu sé málsett hæð viðbyggingar frá gólfplötu hennar. Því sé ekki rétt fram sett sú hæð sem verði á viðbyggingu við Þrastargötu 5. Ætla megi að 600 til 800 mm bætist við hæð útveggjar þegar mælt sé frá Þrastargötu. Engir hæðarkótar séu á teikningum sem geri grein fyrir þessari hæð.

Hin samþykkta viðbygging sé í andstöðu við fyrirmæli um brunavarnir í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ekki sé að sjá að uppfyllt séu fyrirmæli gr. 6.7.6. um að í þakherbergjum og kvistherbergjum íbúða megi meðalhæð vera minnst 2,20 m, enda sé lofthæðin minnst 2,50 m í að minnsta kosti þriðjungi herbergis. Þá komi fram í gr. 6.7.14. að veggsvalir bygginga skuli vera a.m.k. 4,0 m2 að stærð og ekki mjórri en 1,60 m. Á aðaluppdráttum sé dýpt svala hins vegar einvörðungu sýnd 1,0 m. Fram komi á aðaluppdráttum að um björgunarsvalir sé að ræða, en í gr. 9.5.5. segi: „Björgunarop í byggingum eru auðopnanlegir gluggar eða hlerar sem nota má við flótta úr eldsvoða til öruggs svæðis og til að gera vart við sig. Gluggar skulu vera hliðarhengdir, rennigluggar eða á láréttum snúningsás og þá skal vera hægt að opna án lykils eða annarra verkfæra. Breidd björgunaropsins skal vera minnst 0,60 m og hæðin minnst 0,60 m […].“ Ljóst sé að gluggar viðbyggingarinnar séu topphengdir auk þess sem þeir séu ekki málsettir til að uppfylla kröfur um lágmarksstærð þeirra. Þá komi fram í gr. 9.7.5. að bil milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra. Bent sé á að fjarlægð á milli Þrastargötu 3 og 5 sé ekki málsett á afstöðumynd eða grunnmynd. Það liggi ekki fyrir útreikningar á geislun á milli bygginganna en Reykjavíkurborg hafi gert kröfu um slíkt í öðrum sambærilegum málum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að breyting á deiliskipulaginu hafi verið gerð til að taka af öll tvímæli um að heimild væri fyrir viðbyggingu við Þrastargötu 5 í deiliskipulagsskilmálum. Líta beri til þess að Þrastargata 5 sé með minnstu húsum við botnlangann, eða 67,2 m2 samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en um sé að ræða rúmlega 18 m2 viðbyggingu. Þær byggingarheimildir sem tilteknar séu á lóðum við Fálkagötu 2, 4, 7, 10, 20, 25, 26 og 30 og Suðurgötu 100 heimili miklu meira byggingarmagn en þær almennu heimildir sem gildi á reitnum um litlar viðbyggingar. Viðbygging sé í takti við markmið deiliskipulagsins um hæfilega uppbyggingu og endurnýjun á reitnum. Viðbyggingin sé bæði í samræmi við byggingarstíl hússins og sé óveruleg. Hún sé því innan allra heimilda sem deiliskipulagið kveði á um. Einnig taki hin nýja viðbygging mið af því byggðamynstri sem fyrir sé og njóti verndar í gildandi deiliskipulagi, sem felist í því að hönnunin taki tillit til einkenna nærliggjandi byggðar hvað varði efnisval, þakgerð og mælikvarða. Að því er varði stækkun hússins við Þrastargötu 5 vegna viðbyggingarinnar þurfi að líta til þess að það sé með minnstu húsum við botnlangann. Því sé ekki rétt að miða við 30% stækkun þegar um sé að ræða 17,9 m2 viðbyggingu á mjög litlu húsi.

Þegar gerður hafi verið samningur árið 1984 við eigendur húsanna að Þrastargötu 3, 3b, 5, 5a, 7, 7a, 9 og 9a hafi Þrastargata 1 ekki verið talin með þar sem þar hafi ekkert hús staðið. Því hafi hún verið talin sem sérstök lóð. Árið 1989 hafi verið gefinn út lóðauppdráttur og þar séu lóðamörkin óskýr, en sjá megi að Þrastargata 1 sé talin með í hinni sameiginlegu lóð. Árið 2005 hafi lóðunum verið breytt og Þrastargata 1 tekin út úr hinni sameiginlegu lóð. Með samþykktum skipulagsnefndar 4. janúar 1993 og borgarráðs 5. s.m. hafi útivistarsvæði að Þrastargötu 1 verið samþykkt. Með samþykktum skipulags- og umferðarnefndar 27. október 1997 og borgarráðs 28. s.m. hafi lóð Suðurgötu 100 verið stækkuð. Það sjáist á þeim uppdráttum að Þrastargata 1 hafi verið innan sameinaðrar lóðar til ársins 1993. Því sé eðlilegt að Þrastargata 1 verði aftur hluti sameinaðrar lóðar. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um skipulagsforsendur innan sveitarfélagsins, m.a. um stærðir lóða og fjölda þeirra. Þá sé óheimilt að skipta jörðum, löndum, lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til, sbr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og ekki sé heimilt að sameina lóðirnar án breytingar á deiliskipulagi.

Núverandi deiliskipulagsskilmálar um bílastæði gildi áfram. Þar sé gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja nýja íbúð undir 80 m2, en tvö stæði fyrir íbúðir stærri en 80 m2. Á hinni sameiginlegu lóð séu nú 36 bílastæði, en eins og kærandi bendi á þurfi einungis 27 bílastæði til að uppfylla bílastæðabókhaldið fyrir lóðina. Fjöldi bílastæða á lóðinni sé talsvert meiri en gert sé ráð fyrir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og því sé nægilegt svigrúm til að sameina aftur lóðina að Þrastargötu 1 við hina sameiginlegu lóð án þess að ganga á þær heimildir sem fyrir séu. Ekki sé verið að fjölga bílastæðum fyrir Þrastargötu 5 og einungis eitt stæði muni fylgja Þrastargötu 1.

Samkvæmt 30. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 sé eigendum húsa og mannvirkja sem byggð hafi verið á árinu 1925 eða fyrr skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands ef þeir hyggðust breyta þeim, flytja þau eða rífa. Ekki sé hægt að bera saman framkvæmdir kæranda að Þrastargötu 7 og þær framkvæmdir sem heimilaðar séu með byggingarleyfinu að Þrastargötu 5. Kærandi hafi þurft að leita eftir áliti Minjastofnunar á sínum tíma þegar hann hafi óskað eftir því að rífa hús sem byggt hafi verið árið 1925, þar sem hús nr. 7 standi nú, og byggja nýtt staðsteypt hús í staðinn. Hér sé verið að tala um litla viðbyggingu, sem sé í samræmi við byggðamynstur og hlutfall hússins, á hús sem sé byggt árið 1944 og sé því ekki umsagnarskylt, eins og kærandi haldi fram. Reykjavíkurborg vísi því á bug að rannsóknarregla og jafnræðisregla hafi verið brotin með nokkru móti.

Hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við það deiliskipulag sem gildi fyrir Þrastargötu 5, og gætt hafi verið að málsmeðferðarreglum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Í breytingu á deiliskipulagi fyrir Þrastargötu 5 hafi verið settur inn uppdráttur sem sé ítarleg teikning miðað við að um deiliskipulag sé að ræða. Á grunn- og útlitsmynd komi fram að bæði brunasvalir og svalahurð verði á viðbyggingunni. Skýrt sé tekið fram hvernig Þrastargata 5 skuli líta út eftir breytinguna. Þessi uppdráttur sé skilgreindur sem sérskilmálar fyrir Þrastargötu 5 og því eigi ekki almennir skilmálar deiliskipulags Fálkagötureits við húsið. Þá sé ekki hægt að byggja á því að svar Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Þrastargötu 9 eigi við um Þrastargötu 5, enda um tvö gjörólík hús að ræða. Á upp­drættinum séu allar hæðarmerkingar settar inn. Yfirleitt séu ekki settar inn mælingar á útlitsmynd hússins heldur í sniðmynd og teljist það nægjanlegt. Á deiliskipulagsuppdrættinum og teikningunum komi fram að viðbyggingin verði 5,48 m að hæð.

Að því er varði ákvæði byggingarreglugerðar um lofthæð og birtuskilyrði íbúðahúsa þá sé ekki verið að bæta við herbergi heldur að stækka þau sem fyrir séu. Þegar breyting eigi sér stað á eldri húsum, sem byggð hafi verið samkvæmt eldri byggingarreglugerðum, sé ekki hægt að krefjast þess að stærð herbergja uppfylli þær kröfur sem gerðar séu í dag. Um sé að ræða smágert einbýlishús og viðbyggingin sé hönnuð með tilliti til stærðar og lögunar eldra húss.

Búið sé að fella úr gildi gr. 6.7.14. í byggingarreglugerðinni, sem kveðið hafi á um lágmarks­stærð svala. Í gr. 6.7.6. í reglugerðinni sé fjallað um svalir og svalaskýli, en þar segi: „Svalir skulu vera öruggar og henta til fyrirhugaðra nota.“ Fyrirhugaðar svalir séu svokallaðar björgunarsvalir og svalahurð sé með sérstöku brunaheldu gleri. Þá séu gluggar á efri hæð ekki skilgreindir sem björgunarop. Þess vegna hafi svalir og svalahurð verið settar og skilgreindar sem björgunarleið af efri hæðinni. Að því er varði fjarlægð milli Þrastargötu 5 og 3 þá séu tæpir 5 m á milli húsanna og það teljist nægjanlegt þar sem Þrastargata 3 sé steinsteypt hús með brunagafli og Þrastargata 5 með brunamótstöðu EI60. Forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi yfirfarið teikningarnar áður en þær hafi verið samþykktar og ekki gert athugasemd varðandi fjarlægð á milli húsanna, enda talið hana uppfylla kröfur skv. töflu 9.09 í byggingarreglugerðinni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hin fyrirhugaða viðbygging sé inndregin og því muni kærandi ekki sjá neitt af viðbyggingunni frá lóð sinni. Fyrir liggi að eigendur húsa sem standi næst austurgafli Þrastargötu 5 hafi allir gefið skriflegt samþykki fyrir framkvæmdunum, en ólíkt húsi kæranda muni viðbyggingin sjást frá þeim húsum.

Hin fyrirhugaða viðbygging sé í samræmi við verndun byggðamynsturs og falli vel inn í götumyndina. Umrætt hús sé lágreist og lítið, viðbyggingin sé inndregin á öllum hliðum og í samræmi við byggingarstíl húsanna við Þrastargötu. Það sé leyfishafa nauðsynlegt að fara í breytingarnar. Með hliðsjón af lögum nr. 75/2000 um brunavarnir þá séu engir bruna- eða neyðarútgangar af efri hæð hússins og það samrýmist ekki lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Á efri hæð hússins sé aðeins einn þröngur útgangur og þar sofi börn. Það sé því beinlínis hættulegt ástand sem leyfishafi búi við. Þá eigi leyfishafi tvö fötluð börn í hjólastólum sem þurfi að hafa afdrep á neðri hæð hússins þegar þau dvelji þar. Það náist einungis með því að fara í þær framkvæmdir sem um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Fálkagötureits, sem felur m.a. í sér heimild til að byggja við húsið að Þrastargötu 5 og að lóðin Þrastargata 1 verði aftur hluti sameiginlegrar lóðar Þrastargötu 1-11 og Smyrilsvegar 29 og 31. Þá eru í breytingunni áréttaðir skilmálar um fjölda bílastæða. Einnig er deilt um lögmæti samþykktar byggingarleyfis fyrir nefndri viðbyggingu að Þrastargötu 5.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna. Skipulagsyfirvöld eru ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu, enda felur breyting á deiliskipulagi eðli máls samkvæmt í sér breytingu á deiliskipulagi sem fyrir er. Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. um að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið nefnds ákvæðis.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna Þrastargötu 1 og 5 var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Að loknum athugasemda­fresti tóku skipulagsyfirvöld sveitarfélagsins við bréfi með athugasemdum frá eiganda Þrastar­götu 5, en þar sem stjórnvöldum ber að sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, getur slíkt ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Deiliskipulagstillagan var svo afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði, þar sem framkomnum athugasemdum kæranda var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Vegna athugasemdanna voru gerðar þrjár breytingar á tillögunni, en þær breytingar voru þó ekki svo veigamiklar að auglýsa þyrfti breytta tillögu að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Að lokum var breytingin samþykkt í borgarráði lögum samkvæmt. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga, en ekki liggja fyrir lagafyrirmæli sem knýja á um að afla þurfi álits Minjastofnunar eða Borgarsögusafns vegna viðbyggingarinnar að Þrastargötu 5.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur m.a. í sér heimild til að fjarlægja skúr og byggja í staðinn viðbyggingu til austurs og suðausturs, innan byggingarreits, við einbýlishúsið að Þrastargötu 5. Hús kæranda að Þrastargötu 7 liggur norðvestanmegin við Þrastargötu 5. Á uppdráttum deiliskipulagsins er ekki málsett hæð viðbyggingar til suðausturs, sem er sá hluti hennar sem mun hafa mest grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda. Þrátt fyrir það er ljóst að hæð viðbyggingarinnar verður mjög svipuð og hæð þess skúrs sem samþykktur var árið 1984. Er því ekki að sjá að heimilaðar breytingar raski grenndarhagsmunum kæranda að nokkru marki, svo sem vegna skerðingar á útsýni, skuggavarps, aukinnar umferðar eða vegna annars ónæðis. Verður með hliðsjón af því ekki talið að breytingin sé slík að réttur kæranda hafi verið fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Sem fyrr segir felst í skipulagsvaldi sveitarstjórna m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga, en í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðarmynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Ekki er áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis lóðarhafa vegna sameiningar lóða, líkt og kærandi heldur fram, enda verður eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Sem endranær verða þó að liggja málefnalegar forsendur að baki slíkum ákvörðunum. Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar er ástæða þess að lóðin að Þrastargötu 1 var sameinuð fyrrnefndri sameiginlegu lóð sú að upphaflega var lóðin hluti af hinni sameiginlegu lóð en var síðar breytt í sérlóð undir útivistarsvæði. Þar sem nú sé aftur komið hús á lóðina sé eðlilegt að lóðin verði aftur hluti af hinni sameiginlegu lóð. Búa því efnisleg rök að baki þeirri ákvörðun að sameina umræddar lóðir.

Samkvæmt 3. gr. deiliskipulagsskilmála Fálkagötureits er gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir íbúðir undir 80 m2 en tveimur stæðum fyrir íbúðir stærri en 80 m2 í samræmi við byggingar­reglugerð. Með deiliskipulagsbreytingunni eykst krafa um fjölda bílastæða fyrir hina sameiginlegu lóð úr 27 bílastæðum í 30. Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar kemur fram að bílastæði á lóðinni séu 36 en á lóðaruppdrætti sem fylgir lóðarleigusamningi eru á sama svæði merkt inn 39 bílastæði. Uppfyllir deiliskipulagsbreytingin því kröfu deiliskipulags Fálkagötureits um fjölda bílastæða.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Af framlögðum gögnum verður ekki annað ráðið en að samþykktir aðaluppdrættir hins kærða byggingarleyfis séu í samræmi við ákvæði nefndra laga og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, þ. á m. ákvæði um brunavarnir í 9. hluta reglugerðarinnar.

Í áðurgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 kemur fram í gr. 12.8 að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildis­töku reglugerðarinnar skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál. Í núgildandi byggingarreglugerð er ekki að finna sambærilegt ákvæði en í einstökum ákvæðum hennar er tekin afstaða til þess hvort þargreindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í gr. 9.2.5. kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skuli þess gætt að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni og að breytingin skerði ekki brunavarnir annarra þátta mannvirkisins. Tekið er fram í gr. 12.1.2. að ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar um öryggi við notkun eigi við um breytingu á þegar byggðu mannvirki og um breytta notkun þess. Þá er í gr. 6.1.5. fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við breytingu á mannvirki sem byggt sé í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt er byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Þá hljóðar 3. mgr. ákvæðisins svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“

Af framangreindum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en auk þess geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar, sem hefur m.a. að geyma reglur um lofthæð íbúðarrýma, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að byggt verði við íbúðarhús sem reist var á árinu 1944 og breytt var árið 1984. Um heimilaða nýbyggingu við húsið gilda ákvæði reglugerðar nr. 112/2012. Fram kemur í 2. mgr. gr. 6.7.2. í reglugerðinni að í þakherbergjum og kvist­herbergjum íbúða megi meðalhæð minnst vera 2,20 m, enda sé lofthæðin minnst 2,50 m í að minnsta kosti þriðjungi herbergis. Samkvæmt samþykktum uppdráttum er umrædd viðbygging 18,9 m2 að stærð og lofthæð á 2. hæð nær ekki 2,50 m í þriðjungi herbergis. Hvorki liggur fyrir að greinargerð hafi fylgt umsókn um umrætt byggingarleyfi vegna frávika frá kröfum um lofthæð þakherbergja né að leyfisveitandi hafi fallist á slíkt frávik með formlegum hætti í samræmi við fyrrgreinda gr. 6.1.5. í byggingar­reglugerð. Að framangreindu virtu uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnað 11. gr. mannvirkjalaga um að byggingarleyfi sé í samræmi við byggingarreglugerð. Verður hið kærða byggingarleyfi því fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna lóðanna Þrastargötu 1 og 5.

 

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á lóð nr. 5 við Þrastargötu er felld úr gildi.

112/2008 Eyrarstígur

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 112/2008, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. desember 2008, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kæra H og G, eigendur hússins að Eyrarstíg 2, Reyðarfirði, samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 20. nóvember 2008.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Þar sem fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu bílgeymslu eru ekki hafnar og málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir:  Kærumál þetta á sér nokkra forsögu.  Hinn 18. maí 2006 barst embætti byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar umsókn frá eiganda hússins nr. 4 við Eyrarstíg á Reyðarfirði, m.a. um byggingu bílgeymslu á lóðinni.  Var samkvæmt umsókninni gert ráð fyrir að bílgeymslan yrði staðsett austan við húsið, um einn metra frá mörkum lóðarinnar  nr. 2 við Eyrarstíg, en á henni er bílgeymsla sem stendur fast að þeim.  Ákvað byggingarfulltrúi að grenndarkynna beiðnina þar sem ekki væri til deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Á fundi umhverfismálaráðs hinn 12. júlí 2006 var umsóknin tekin fyrir ásamt athugasemdum kærenda og var afgreiðslu málsins frestað.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi ráðsins hinn 26. júlí s.á. og var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin hefur skoðað málið vandlega og veitir byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Uppfylla þarf skilyrði um brunavarnir vegna fjarlægðar á milli húsa.  Nefndin telur að framkvæmdin skerði útsýni að mjög litlu leyti.  Þar sem bílgeymsla á lóð nr. 2 er byggð mjög nálægt lóðarmörkum lítur ráðið svo á að um gagnkvæman rétt til byggingar bílgeymslu sé að ræða við lóðarmörk.“ 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum hinn 8. mars 2007 felldi byggingarleyfið úr gildi með vísan til þágildandi ákvæða 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar var á fundi umhverfismálaráðs hinn 25. júlí 2007 eftirfarandi fært til bókar:  „1. Samþykktir byggingarfulltrúa … Eyrarstígur 4, … sækir um leyfi til að byggja bílskúr við austurhlið hússins.  Liður 1 samþykktur.“  Var fundargerð umhverfismálaráðs samþykkt á fundi bæjarráðs hinn 31. júlí 2007.  Samþykkt þessi var einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum hinn 2. apríl 2008 felldi hana úr gildi sökum þess að undirbúningi hennar væri áfátt. 

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 27. ágúst 2008 var enn á ný lögð fram umsókn um leyfi til að byggja bílskúr á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg og var samþykkt að grenndarkynna erindið, m.a. gagnvart kærendum.  Komu þau á framfæri athugasemdum sínum vegna þessa með bréfi, dags. 22. október 2008.  Að lokinni grenndarkynningu var á fundi nefndarinnar hinn 12. nóvember 2008 m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Ein athugasemd hefur borist, þar sem lagst er gegn veitingu byggingarleyfis.  Nefndin telur ekki nógu sterk rök gegn veitingu byggingarleyfis og felur byggingarfulltrúa að ganga frá byggingarleyfinu.“  Var samþykkt þessi staðfest í bæjarstjórn hinn 20. nóvember 2008. 

Hafa kærendur kært framangreinda samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að byggingarfulltrúi hafi brugðist skyldum sínum þar sem hann hafi ekki farið að lögum varðandi upplýsingaskyldu gagnvart kærendum.  Þeim hafi ekki verið gert kunnugt um að hið kærða leyfi hafi verið samþykkt nema við lestur fundargerða á netinu.   

Átelja beri byggingarfulltrúa og umhverfis- og skipulagsnefnd fyrir endurtekna útgáfu á leyfi til byggingar bílskúrs á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg, þ.e. fyrir sama bílskúrinn á sama stað, og sé spurning hversu oft slíkt sé hægt og hvort það standist lög. 

Því sé haldið fram að hinn umdeildi bílskúr sé bæði of stór og of hár samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar.  Bílskúrinn fari fyrir glugga á húsi kærenda og valdi aukinni brunahættu.  Í byggingarreglugerð sé talað um að Brunamálastofnun gefi út leiðbeiningar varðandi framangreint en kærendum sé tjáð að þær reglur séu enn í smíðum. 

Af gefnu tilefni sé bent á að aldrei hafi verið bílastæði á milli húsanna nr. 2 og 4 við Eyrarstíg heldur fyrir framan húsin.  Þá sé því mótmælt að um gagnkvæman rétt til byggingar bílskúrs sé að ræða.   

Málsrök Fjarðabyggðar:  Af hálfu Fjarðabyggðar er bent á að hið kærða byggingarleyfi hafi verið samþykkt að undangenginni grenndarkynningu og hafi aðeins ein athugasemd borist, þ.e. frá kærendum. 

Tvívegis áður hafi umhverfis- og skipulagsnefnd heimilað byggingu bílskúrs á lóðinni nr. 4 og í þetta skiptið hafi þótt rétt að veita leyfið og láta reyna á ný ákvæði byggingarreglugerðar varðandi brunafjarlægðir.

Byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út og sé ástæðan fyrir því sú að ekki hafi verið talið rétt að gefa út byggingarleyfi áður en kærendum hafi verið gert viðvart um hina kærðu ákvörðun, leiðbeint um kæruleiðir og kærufrest.

Smávægileg frávik frá byggingarreglugerð séu heimiluð er varði stærð hins umdeilda bílskúrs, eða 3,6 m².  Þá sé og frávik er varði hæð hans, en reynt sé að koma í veg fyrir hæðarmismun með því að hafa kóta bílskúrs lægri en íbúðarhúss.  Eins sé miðað við að samræma vegghæðir bílskúrs að Eyrarstíg 4 og bílskúrs kærenda að Eyrarstíg 2, þannig að útlit hverfisins verði heilsteypt.

Staðsetning bílskúrsins sé heimiluð aftast í lóðinni þannig að sem minnst af byggingunni skyggi á íbúðarhús kærenda, en fari þess í stað fyrir bílskúr þeirra og fyrir framan glugga geymslu og þvottahúss.  Bent sé á að tré séu nú fyrir framan þann glugga. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að þau hafi lagt þann skilning í úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 2. apríl 2008 að tvennt hafi verið að við undirbúning og gerð ákvörðunar umhverfis- og skipulagsnefndar.  Annars vegar að beiðni þeirra hafi ekki verið grenndarkynnt og hins vegar hafi efnisleg rök skort fyrir heimild til þess að byggja stærri og hærri bílskúr en að jafnaði skuli gert.  Því mætti ætla að hönnun og staðsetning bílskúrsins sé nú með þeim hætti að skilyrðum laga og reglna sé hlýtt, að öðru leyti en hvað hæð og stærð varði.
 
Grenndarkynning hafi farið fram og hafi verið send nágrönnum sem eigi aðliggjandi lóðir og einnig þeim sem ekki eigi aðliggjandi lóðir en hafi sýn heim að Eyrarstíg 4.  Athugasemdir hafi einungis borist frá íbúum að Eyrarstíg 2.
 
Unnar hafi verið teikningar sem sýni staðsetningu og hæðarsetningu bílskúrs er fylgt hafi grenndarkynningunni.  Þær teikningar liggi til grundvallar þeim rökum að veitt verði heimild til byggingar bílskúrs á lóðinni.  Í umsókn til byggingarfulltrúa, dags. 13. ágúst 2008, hafi m.a. eftirfarandi komið fram:  „Í byggingareglugerð eru takmarkandi ákvæði um vegghæð bílskúra.  Með því að hafa gólfkvóta bílskúrs eins lágt yfir hæstu jarðvegshæð og kostur er, verður niðurstaðan eftirfarandi með vegghæð 2,80 metrar.  Mænishæð bílskúrs verður 79 cm undir mænishæð á Eyrarstíg 4, jafnframt er mænishæð bílskúrs u.þ.b. 40 cm lægri en frambrún þaks á Eyrarstíg 2.  Eins og sjá má á sniðmynd verður vegghæð ekki meiri en vegghæð aðlægs framhorns bílskúrs á Eyrarstíg 2.  Í byggingarreglugerð eru takamarkandi ákvæði um flatarmál bílskúra.  Nokkur atriði við hönnun bílskúrsins sem styðja hönnunarstærð umfram ákvæði reglugerðar um jafnaðarstærð.  Fatarmál bílskúrsins sem hannaður hefur verið á lóð að Eyrarstíg 4 er 39,6 fermetrar. Flatarmál einangrunar sem verður utanfrá er 3,16 fermetrar og er munurinn að okkar mati óverulegur.  Staðsetning bílskúrsins innan lóðar, með stafn á lóðarmörkum Brekkugötu 8 og 1 meter frá lóðarmörkum Eyrarstígs 2 á langhlið.  Brunaþolshönnun bílskúrsins er þannig háttað að heimilt er skv. reglugerðinni að byggja innan eins meters frá lóðarmörkum.“ 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir 39,5 m² bílgeymslu að Eyrarstíg 4, Reyðarfirði.  Á svæði því er um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag.  

Í gr. 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 segir að bílageymsla fyrir einn bíl skuli að jafnaði ekki vera stærri en 36 m² brúttó.  Þá kemur fram í lokamálslið sömu greinar að byggingarnefnd geti aðeins heimilað stærri og hærri  bílgeymslur þar sem slíkt valdi ekki verulegri röskun á umhverfi og aðstæður leyfi að öðru leyti. 

Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 88/2007 var talið að á skorti að sýnt hefði verið fram á að fyrrgreindum skilyrðum væri fullnægt og að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar væri því áfátt.  Þrátt fyrir að bílskúr sá sem hið umdeilda leyfi lýtur að sé nokkuð lægri en bílskúr samkvæmt fyrri byggingarleyfisumsóknum sýnist mega ráða af fyrirliggjandi gögnum að hann muni hafa grenndaráhrif gagnvart kærendum.  Þykir því enn á skorta að sýnt hafi verið fram á réttmæti þess að víkja frá fyrrgreindu ákvæði byggingarreglugerðar.  Var rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun því áfátt, sbr. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hún af þeim sökum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

 

 

____________________________________
                                                        Ásgeir Magnússon                                                      

 

______________________________                      _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                 Aðalheiður Jóhannsdóttir