Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2004 Suðurgata

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2004, kæra íbúa að Suðurgötu 37, Hafnarfirði á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004 um að samþykkja breytingu á notkun hússins að Suðurgötu 35 úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 15. júlí 2004, kæra J og S, eigendur hússins að Suðurgötu 37, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004 að samþykkja breytta notkun hússins að Suðurgötu 35 úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.  Ákvörðunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 29. júní 2004.  Verður að skilja erindi kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsin að Suðurgötu 35 og 37 munu á sínum tíma hafa verið byggð sem tvö aðskilin hús en verið sambyggð á árinu 1938 yfir sund er var milli húsanna og voru húsin þá í eigu sama eiganda.  Ekki virðist hafa verið gengið frá breyttum lóðarmörkum milli húsanna af þessu tilefni.  Húsið að Suðurgötu 35 mun hafa verið nýtt sem geymsluhúsnæði og verslun um langt skeið en síðar verið starfrækt þar hárgreiðslustofa.  Frá árinu 1994 var húsnæðið nýtt til íbúðar.  Í fasteignaskrá var húsnæðið skráð sem vörugeymsla á árinu 1986 en á árinu 1994 var skráningunni breytt í íbúðarhúsnæði.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en í aðalskipulagi er svæðið merkt sem íbúðarsvæði.

Á árinu 2002 fóru kærendur fram á það við bæjaryfirvöld að húsið að Suðurgötu 35 yrði rifið en ella að umrædd hús yrðu aðskilin með sundi eins og hafi verið fyrir 1938.  Bentu þeir á að þeir væru að greiða lóðarleigu fyrir mun stærri lóð en þeir hefðu umráð yfir.  Var erindinu synjað en lagt til að að ofgreidd lóðarleiga yrði endurgreidd frá árinu 1993 og að lóðarmörkum fasteignanna yrði breytt og sú breyting grenndarkynnt.  Kærendur munu ekki hafa sæst á breytta lóðarskipan svo sem lagt var til.

Hinn 2. mars 2004 samþykki embætti byggingarfulltrúa umsókn frá eiganda hússins að Suðurgötu 35 um að breyta notkun hússins úr atvinnu- í íbúðarhúsnæði.  Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar felldi þá afgreiðslu úr gildi hinn 30. mars 2004 en samþykkti að senda erindið í grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fresti til að koma að athugasemdum lauk hinn 21. maí 2004 og bárust athugasemdir frá íbúum að Suðurgötu 37 og 37b.  Snérust þær um lóðarmörk, ónæði, skort á bílastæðum, ástand byggingar og leiksvæði á lóð.

Að lokinni grenndarkynningu tók skipulags- og byggingarráð málið til afgreiðslu hinn 22. júní og samþykkti fyrir sitt leyti breytta notkun hússins að Suðurgötu 35 með vísan til umsagnar skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins, þar sem á því var byggt að breytingin hefði ekki í för með sér hagsmunaröskun gangvart kærendum.  Var umhverfis- og tæknisviði bæjarins falið að afgreiða erindið til Skipulagsstofnunar og voru byggingarteikningar síðan samþykktar hinn 23. júlí 2004.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að er þeir eignuðust húsið að Suðurgötu 37 á árinu 1979 hafi húsið að Suðurgötu 35 verið nýtt undir lager og síðar undir hárgreiðslustofu.  Eftir að hún hætti rekstri hafi húsnæðið verið notað til íbúðar án heimildar og hafi kærendur gert athugasemdir af því tilefni við bæjaryfirvöld sem hafi ekkert aðhafst í málinu.  Benda kærendur á að stigagangur þeirra húss gangi inn í húsið að Suðurgötu 35, eftir að byggt var yfir sund milli húsanna á sínum tíma, en hvorki sé einangrun né milliveggur milli húsanna og brjóti sú tilhögun gegn ákvæðum byggingarreglugerðar um brunavarnir og hávaðamengun.

Húsið að Suðurgötu 37 hafi verið byggt á árinu 1907 og sé búið að leggja í mikinn kostnað við að gera húsið upp sem skráð hafi verið sem einbýli en ekki parhús.  Suðurgata 35 sé ferkantað steinhús sem passi engan veginn inn í umhverfið og standi húsið inn á lóð kærenda og á skorti nægjanleg bílastæði.  Munur sé á því hvort umrætt húsnæði sé aðeins notað til atvinnurekstrar á daginn eða til íbúðar allan sólarhringinn.

Kærendur hafi átt í viðræðum við bæjaryfirvöld um margra ára skeið vegna umdeilds húss og m.a. óskað eftir því að húsin yrðu skilin að eða húsið að Suðurgötu 35 yrði rifið en í engu hafi verið komið til móts við óskir kærenda og hagsmunir þeirra verið fyrir borð bornir.  Geti þeir ekki sætt sig við að húsið að Suðurgötu 35 verði nýtt til íbúðar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Bæjaryfirvöld benda á að umrædd hús hafi verið sambyggð er kærendur festu kaup á húsnæði sínu að Suðurgötu 37 á árinu 1979.  Aðeins sé gert ráð fyrir einni íbúð í húsinu að Suðurgötu 35 og muni bílastæðaþörf ekki aukast við þá breytingu.  Ekki verði séð að breytingin raski hagsmunum kærenda í ljósi þess að ekki sé tryggt að notkun hússins undir atvinnustarfsemi feli í sér minna ónæði eða röskun gagnvart kærendum en ef húsið væri notað til íbúðar.  Röksemdir kærenda um ástand hússins með tilliti til brunavarna og hávaðamengunar snerti ekki breytta notkun hússins heldur sé þar um tæknileg atriði að ræða.

Umrædd breyting hafi verið grenndarkynnt í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og samræmist breytingin gildandi aðalskipulagi.  Ekki séu rök til þess að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Vettvangsskoðun:  Nefndarmenn og starfsmenn úrskurðarnefndarinnar fóru á vettvang hinn 13. apríl 2005 og kynntu sér staðhætti.  Viðstaddur var annar kærenda en enginn var mættur af hálfu embættis byggingarfulltrúa, sem tilkynnt hafði verið um vettvangsskoðunina, en ekki tókst að hafa upp á núverandi eiganda hússins að Suðurgötu 35. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun heimilar að húsið að Suðurgötu 35, sem er sambyggt húsi kærenda, verði nýtt sem ein íbúð með þeim innréttingum og frágangi sem fram kemur á aðaluppdrætti sem samþykktur var hinn 23. júlí 2004.  Ákvörðunin breytir ekki lóðamörkum milli húsanna.

Heimiluð notkun er í samræmi við gildandi aðalskipulag Hafnarfjarðar en umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.  Ekki liggur fyrir í málinu hvort og þá hvaða notkun bæjaryfirvöld hafa áður heimilað varðandi umdeilt hús en fyrir liggur að það hefur verið nýtt með ýmsum hætti á liðnum áratugum.

Kærendur styðja málskot sitt þeim rökum að hin kærða ákvörðun gangi á hagsmuni þeirra.  Nýting umrædds húss muni valda meira ónæði en fyrir hafi verið, frágangur milli umræddra húsa sé ekki í samræmi við reglur um brunavarnir og hljóðvist, skortur sé á bílastæðum og gangi húsið að Suðurgötu 35 inn á lóð húss kærenda.

Almennt verður að telja að samskonar notkun húsnæðis á sama svæði sé til þess fallin að draga úr hagsmunaröskun og árekstrum milli einstakra fasteignaeigenda.  Ekki verður því fallist á að notkun hússins að Suðurgötu 35 til íbúðar gangi fremur á grenndarrétt kærenda en ef húsið yrði nýtt undir atvinnu- eða þjónustustarfsemi sem oft fylgir mikil umferð viðskiptavina og getur slík starfsemi staðið langt fram á kvöld og um helgar.  Þá standa kröfur núgildandi byggingarreglugerðar um bílastæði ekki í vegi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. gr. 12.8 í nefndri reglugerð, enda var umrætt hús reist á fyrstu áratugum síðustu aldar.

Samkvæmt samþykktum aðalteikningum hins kærða byggingarleyfis er gert ráð fyrir að veggur milli húss kærenda og Suðurgötu 35 sé með brunamótstöðu EI 90, sem uppfyllir kröfur byggingarreglugerðar þar að lútandi skv. gr. 103.3.  Ber byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með að kröfum að þessu leyti samkvæmt byggingarleyfinu og byggingarreglugerð sé fullnægt, sbr. 40. og 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að öllu þessu virtu verða ekki taldir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði og er kröfu kærenda þar að lútandi hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004, að samþykkja breytta notkun hússins að Suðurgötu 35, Hafnarfirði úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir

1/2004 Þingholtsstræti

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2004, kæra eigenda íbúða á 1, 2. og 3. hæð að Þingholtsstræti 7a og íbúa að Þingholtsstræti 8a í Reykjavík á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 að veita leyfi til að innrétta skemmtistað á 1. hæð atvinnuhússins að Þingholtsstræti 5.

Er í málinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. desember 2003, sem barst nefndinni 5. janúar 2004, kæra D og B, Blikanesi 2, Garðabæ, sem eigendur íbúðar á 3. hæð að Þingholtsstræti 7a og f.h. Sólbliks ehf., sem eiganda íbúða á 1. og 2. hæð í sama húsi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 að veita leyfi til að innrétta skemmtistað á 1. hæð atvinnuhússins Þingholtsstræti 5.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 4. desember 2003.

Framangreindir kærendur krefjast þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að hún verði ómerkt og að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd að taka umsóknina til afgreiðslu á nýjan leik.  Jafnframt kröfðust kærendur þess að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi yrðu stöðvaðar ef til þeirra kæmi.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað á grundvelli leyfisins og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun þeirra.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni barst henni, hinn 6. janúar 2004, kæra frá B, íbúa að Þingholtsstræti 8a í Reykjavík, þar sem kærð er sama ákvörðun og í máli þessu.  Er þar byggt á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og í fyrrnefndri kæru og eru hagsmunir kærenda í báðum málunum sambærilegir.  Ákvað úrskurðarnefndin því að sameina kærumálin í eitt mál og var síðargreint kærumál sameinað því máli sem fyrr barst úrskurðarnefndinni og er það nr. 1/2004.

Málavextir:  Húsið að Þingholtsstræti 5 er á deiliskipulögðum reit með staðgreininúmerinu 1.170.3.  Deiliskipulag reitsins öðlaðist gildi hinn 16. ágúst 2002.  Í húsinu hefur til skamms tíma verið rekinn skemmtistaður í kjallara og gistiþjónusta á efri hæðum. Húsið, sem er skilgreint sem atvinnuhúsnæði, er allt í eigu byggingarleyfishafa.

Í ágúst 2003 sótti byggingarleyfishafi um leyfi byggingaryfirvalda til að innrétta skemmtistað á 1. hæð hússins að Þingholtsstræti 5.  Erindið var tekið fyrir á fundi byggingarfulltrúa hinn 26. ágúst 2003 og var þá vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 19. september sama ár var erindið tekið fyrir og samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Þingholtsstræti 3, 7, 8 og 8a.  Kynningin átti sér stað frá 24. september til 24. október 2003.  Bréf voru send til átján aðila í nágrenninu og bárust átta athugasemdir. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 26. nóvember 2003 var erindið tekið til afgreiðslu og var þá bókað að fyrir nefndinni lægju athugasemdir og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember 2003.  Í umsögninni sagði m.a. að fyrirhuguð breyting á hagnýtingu 1. hæðar hússins félli bæði að ákvæðum aðalskipulags sem og gildandi deiliskipulags um landnotkun.  Þá var í umsögninni fjallað um tæknilegan frágang hússins, þannig að ekki yrði raskað grenndarhagsmunum umfram það sem búast mætti við á miðborgarsvæði að því er hljóðvist, lykt o.þ.h. varðaði.  Áfram sagði að ekki væri ástæða til að ætla að vandkvæði yrðu vegna lyktarmengunar, sorplosunar eða vegna bílastæða.  Að því er hljóðvist varðaði var lagt til að við lokaúttekt yrði staðfest með mælingum að húsnæðið uppfyllti kröfur byggingarreglugerðar og reglugerðar um hávaða.  Var vísað í því sambandi til nokkurra greinargerða sérfræðinga, sem um málið höfðu fjallað, þar sem fram komu tillögur að úrbótum á húsinu þannig að kröfur um hljóðvist yrðu uppfylltar.  Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar á erindinu var með eftirfarandi hætti:  „Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.  Áskilið samþykki heilbrigðiseftirlits og prófun á hljóðvist staðarins.“ 

Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var kynnt sömu aðilum og fengið höfðu umsóknina til umsagnar í grenndarkynningunni.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að í Þingholtsstræti 1 og 2 séu reknir veitingastaðir og í kjallara hússins nr. 5 við Þingholtsstræti sé þegar rekinn veitingastaður.  Síðan sá veitingastaður hafi verið opnaður hafi ástandið í hverfinu versnað til muna.  Mikill ágangur sé í port sem sé á milli húsanna nr. 5 og 7 við Þingholtsstræti en úr því sé inngangur í húsin nr. 7 og 7a.  Þetta hafi valdið íbúum húsanna miklu ónæði og óþægindum, hávaði og ágangur ölvaðra manna sé með ólíkindum og þurfi íbúar daglega að hreinsa upp alls kyns óþrifnað.    Kærendur telji mjög vanhugsað að heimila einn veitingastað til viðbótar í götunni sem sé þröng og nú þegar sé mikil umferð um hana.  Hávaði og annað ónæði vegna gesta veitingastaðanna sem fyrir séu á svæðinu sé nánast óbærilegt íbúum við götuna og í næsta nágrenni.  Í skipulagi sé gatan skilgreind sem miðbæjargata með blöndu af íbúðarbyggð, verslunarrekstri og skyldri starfsemi.  Kærendur telji, þrátt fyrir framangreinda heimild í skipulagi, að hin kærða ákvörðun sé í andstöðu við aðal- og deiliskipulag þar sem með henni verði á svæðinu of margir veitingastaðir í hlutfalli við fjölda íbúða.   

Kærendur benda á að skemmtistaður sá sem hér um ræði muni verða opinn nánast næturlangt um helgar og honum muni fylgja hávaði af ölvuðum einstaklingum með tilheyrandi óþrifnaði, glerbrotum o.fl.  Hávaði af umferð verði einnig mikill og telji kærendur ósennilegt að gatan anni bílaumferð sem fylgja muni starfseminni.  Engin sérstök bílastæði fylgi veitingastaðnum, hvorki fyrir starfsfólk né gesti, en bílastæðavandi á svæðinu sé ærinn fyrir.  Þá telji og kærendur að sorpaðstaða veitingastaðarins sé ekki viðunandi, muni það leiða muni til mikils sóðaskapar í götunni.    Þá draga kærendur í efa að hið kærða byggingarleyfi samrýmist þeirri starfsemi sem vera eigi í húsinu.    Að lokum áskilja kærendur sér rétt til bóta vegna eignarýrnunar sem þau gætu orðið fyrir, verði hin kærða samþykkt staðfest, þar sem þau telji mestar líkur á að eignir þeirra verði verðminni en ella. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar verði staðfest.  Málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar þeirrar sem kærð sé hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og stjórnsýslulaga.  Þegar umsögn um hljóðvist hússins hafi legið fyrir hafi byggingarfulltrúi vísað umsókninni til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Með vísan til þess að til hafi verið deiliskipulag af reitnum sem heimili starfsemi þá sem hin kærða samþykkt lúti að, auk þess sem starfsemin samræmist aðalskipulagi, hafi verið ákveðið á fundi skipulagsfulltrúa hinn 19. september 2003 að umsóknin yrði sérstaklega kynnt hagsmunaaðilum í nágrenni fasteignarinnar.  Kynningarbréf hafi verið send til átján hagsmunaaðila í nágrenninu og hafi borist átta athugasemdabréf.  Hafi athugasemdunum verið svarað með ítarlegri umsögn skipulagsfulltrúa og skipulags- og byggingarsviðs, dags. 24. nóvember 2003.  

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að umrætt húsnæði sé staðsett á miðborgarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Gatan sé skilgreind sem hliðarverslunarsvæði V-II.I, en ekki sem íbúðarsvæði milli Bankastrætis og Amtmannsstígs og sé samkvæmt skilgreiningu aðalskipulags hliðarverslunargata í miðborg þar sem fjölbreytileg notkun sé leyfð, þ.m.t. rekstur veitingastaða.  Um landnotkun á miðborgarsvæðinu sé fjallað sérstaklega í sérstakri greinargerð með Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, Greinargerð III, Þróunaráætlun miðborgar, Landnotkun.  Um ákvörðun þá sem hér um ræði gildi m.a.:  „Afgreiðslutími áfengis á svæðum V- I.I og V- II.I.  Borgaryfirvöld vilja, sem lið í því að viðhalda og efla fjölbreytt mannlíf í borginni, stuðla að samspili verslunarreksturs og veitingareksturs. Rétt þykir í því skyni að leyfa rýmri afgreiðslutíma áfengis á aðalverslunarsvæðum V- I.I og hliðarverslunarsvæðum V- II.I.“  Á svæði því sem hér um ræði, hliðarverslunarsvæði V- II.I, sé sérstaklega gert ráð fyrir rýmri opnunartíma veitingastaða.  Þingholtsstræti hafi ekki verið skilgreint sem sérstakt götusvæði þar sem takmarkanir gilda um fjölda veitingastaða eða aðra starfsemi.  Bent sé á að í deiliskipulagi reitsins, sem beri heitið „Deiliskipulag stgr. 1.170.3“, sé ekki frekari takmörkun á landnotkun svæðisins frá því sem aðalskipulag geri ráð fyrir.  Í greinargerð um núverandi ástand á reitnum komi fram að fjölbreytt starfsemi sé á götuhæðum sem sé í samræmi við markmið Þróunaráætlunar.  Á efri hæðum séu yfirleitt íbúðir.  Deiliskipulagið byggi m.a. á „Almennum deiliskipulagsskilmálum fyrir Miðborgarsvæði Reykjavíkur“, dags. í janúar 2002.  Umsóknin falli því bæði að ákvæðum aðal- og deiliskipulags.   Samkvæmt aðal- og deiliskipulagi svæðisins sé gert ráð fyrir að starfsemi af því tagi sem hér um ræði sé heimil ef uppfyllt séu skilyrði um frágang og notkun húsnæðisins sem miði að því að taka sérstaklega tillit til íbúa og jafnvel annarra hagsmunaaðila í nágrenninu.  Tryggja þurfi, þegar fjallað sé um byggingarleyfi á þessum stöðum, að allur tæknilegur frágangur húseignarinnar verði með þeim hætti að ekki sé hætta á röskun grenndarhagsmuna umfram það sem eðlilegt megi teljast á miðborgarsvæði, sérstaklega hvað varði atriði eins og hljóðvist vegna starfsemi innanhúss.  Til að tryggja ofangreind atriði sé í gildi eftirfarandi stefnumarkandi samþykkt um notkun í aðalskipulagi (Greinargerð III):  „Notkun utan skilgreindra götusvæða aðal- og hliðarverslunarsvæða.  Skilyrði fyrir að veitt verði leyfi fyrir notkun utan skilgreindra götusvæða aðal- og hliðarverslunarsvæða (s.s. bakhúsum og efri hæðum) eru eftirfarandi:  Notkunin hafi ekki truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum. Notkunin hafi ekki í för með sér óæskilega aukningu umferðar, aðgengi verði tryggt og bílastæðakröfum fullnægt.” 

Með byggingarleyfisumsóknum á því svæði sem hér um ræði beri að leggja fram greinargerð um hljóðvist og í máli því sem hér sé til umfjöllunar hafi legið fyrir greinargerðir um hljóðvist hússins frá TSO Tækniþjónustu, dags. 12. maí 2003, sbr. einnig bréf TSO, dags. 20. mars 2003, auk mælingaskýrslu Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, dags. 14. apríl 2003.  Hjá byggingarfulltrúa hafi einnig legið fyrir minnispunktar Akustikon hljóðtækniráðgjafar ehf., dags. 18. september og 16. nóvember 2003.  Í þessum gögnum komi fram að gera þurfi úrbætur á húsnæðinu til að uppfylla kröfur um hljóðvist í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar og reglugerðar um hávaða, bæði gagnvart umhverfinu og innan hússins sjálfs.   Bent sé á að við afhendingu sérteikninga og við lokaúttektir beri byggingarfulltrúa að ganga úr skugga um að framkvæmt verði í samræmi við þær greinargerðir um hljóðvist sem liggi fyrir í málinu.  Á fyrirliggjandi aðaluppdráttum sé fullyrt að ráðstafanir verði gerðar til að tryggja 65 dB hljóðeinangrun og að hljóðstig innanhúss fari ekki upp fyrir 85 dB.  Þetta séu allt skilyrði sem sett séu fyrir útgáfu veitingaleyfis.  Við lokaúttekt á umræddum breytingunum verði staðfest með mælingum að húsnæðið uppfylli kröfur umræddra reglugerða varðandi hljóðvist.  

Í byggingarleyfisumsókn komi fram að gert sé ráð fyrir að matur verði eldaður á staðnum.  Samkvæmt uppdráttum sé gert ráð fyrir að loftræsing frá staðnum tengist loftræsitúðu sem nái upp úr þaki.  Ekki sé því hætta á lyktarmengun vegna eldhússins.   Hvað sorplosun varði þá muni sorp frá skemmtistaðnum verða geymt í sameiginlegri sorpgeymslu innanhúss.  Ekki sé því um að ræða nein frávik frá vanabundinni sorpmeðhöndlun og því ætti það fyrirkomulag ekki að valda nágrönnum neinu frekari ónæði eða óþægindum.  Ef sýnt verði fram á að nauðsynlegt verði að tryggja frekar frágang sorps og sorplosun muni heilbrigðiseftirlit gera frekari kröfur.    Af hálfu Reykjavíkurborgar sé vísað til þess að fasteignin að Þingholtsstræti 5 sé skráð atvinnuhúsnæði og skapi því bílaumferð í samræmi við það.  Bílastæðakröfur til húsnæðisins hafi þar af leiðandi ekki breyst og umrædd notkunarbreyting muni væntanlega ekki skapa meiri umferð akandi eða gangandi á hefðbundnum skrifstofutíma en almennt verði að gera ráð fyrir í slíku húsnæði.   Ljóst þyki þó að hætta sé á ónæði frá gestum á kvöldin og um nætur um helgar.  Aðalumkvörtunarefni kærenda lúti frekar að almennum reglum um hegðun borgaranna á almannafæri en að skipulagslegum forsendum miðborgarinnar.  Í þessu samhengi megi vísa til ábyrgðar rekstraraðila samkvæmt lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg.  Í 23. gr. hennar komi fram að hver sá sem reki veitingastað skuli sjá um að allt fari þar vel fram og að starfsemin valdi hvorki nágrönnum né vegfarendum ónæði.  Brot á lögreglusamþykktinni geti varðað sviptingu nauðsynlegra leyfa vegna starfseminnar.   Skipulags- og byggingaryfirvöld þurfi þrátt fyrir þetta að hafa til hliðsjónar þau áhrif sem starfseminni fylgja utandyra en að sama skapi sé ómögulegt að meta hvort þau áhrif sem hin kærða samþykkt heimili leiði til þeirrar skerðingar á hagsmunum nágranna sem fullyrt sé af hálfu kærenda.  Í sama  húsi, auk nærliggjandi húsa, hafi verið reknir veitingastaðir og skemmtistaðir til fjölda ára.  Ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að það hefði verið brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga ef umsókn byggingarleyfishafa hefði sætt annarri meðferð og takmörkunum en umsóknir þeirra aðila sem nú þegar séu með rekstur á svæðinu.  Ekki sé hægt að rökstyðja synjun þar sem fyrirhuguð nýting sé í samræmi við skilmála svæðisins og hafi byggingarleyfishafi að öllu leyti uppfyllt þau skilyrði sem honum hafi verið sett fyrir veitingu leyfisins í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.   

Í ljósi alls framangreinds, sérstaklega hvað varði grenndarréttarleg sjónarmið og þeirrar staðreyndar að hið kærða leyfi sé í samræmi við skipulag svæðisins auk þess sem samþykki meðeiganda í húsinu liggi fyrir, verði að telja að Reykjavíkurborg hafi hvorki haft skipulags- né málefnalegar ástæður til að synja hinni umþrættu byggingarleyfisumsókn.  

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að hafnað verði kröfum kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis sem og kröfum um ómerkingu leyfisins og heimvísun.

Byggingarleyfishafi bendir á að umsókn hans hafi hlotið þá meðferð skipulags- og byggingaryfirvalda, sem áskilin sé í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og sem borgaryfirvöld hafi sett sér.  Sú grenndarkynning, sem kveðið sé á um í skipulags- og byggingarlögum og í reglum borgarinnar, feli í sér möguleika einstaklinga og lögpersóna til að koma á framfæri athugasemdum um skipulag og framkvæmdir í nágrenni sínu.  Þessir aðilar hafi aftur á móti ekki neitunarvald um skipulag eða framkvæmdir, þótt sú tillaga eða umsókn, sem til kynningar sé hverju sinni, sé þeim ekki að skapi.  Engar upplýsingar liggi fyrir um að málsmeðferð og afgreiðsla borgarinnar á umsókn hans hafi verið haldin annmörkum.

Byggingarleyfishafi vísar til þess að eignarréttur hans að Þingholtsstræti 5 sé meðal annars varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944 með síðari breytingum.  Í eignarréttinum felist afdráttarlaus réttur hans til að nýta sér eign sína með þeim hætti sem hann kjósi, að því marki sem nýtingaráformum hans séu ekki settar skorður í skýrum og ótvíræðum ákvæðum laga eða af tilliti til brýnna hagsmuna þriðja manns, svo sem nágranna.  Hagsmunir þriðja aðila þurfi í þeim tilvikum að vera skýrir og ótvíræðir og hafið yfir allan skynsamlegan vafa að hagsmunir hans séu brýnni en hagsmunir byggingarleyfishafa.  Þar sem takmarkanir af þessu tagi feli í sér skerðingu á stjórnarskrárvernduðum réttindum byggingarleyfishafa beri að túlka þær þröngt og virða allan vafa í þeim efnum honum í hag.

Byggingarleyfishafi telur að fyrirhuguð breyting á hagnýtingu 1. hæðar hússins að Þingholtsstræti 5 falli vel að stefnumörkun borgarinnar um skipulag og samsetningu atvinnustarfsemi á svæðinu, eins og hún birtist í aðalskipulagi borgarinnar og deiliskipulagi reits nr. 1.170.3.

Í kafla þeim, þar sem fjallað sé um landnotkun og nýtingarhlutfall í aðalskipulagi Reykjavíkur, segi m.a. svo um landnotkun á miðborgar/miðhverfissvæði borgarinnar:  „Hér er annars vegar um að ræða hina eiginlegu miðborg Reykjavíkur og hins vegar þær verslunarmiðstöðvar sem ætlað er að þjóna allri borginni.  Um er að ræða blandaða starfsemi, s.s. verslun, þjónustu, opinberar stofnanir, menningarstofnanir, gistiheimili, hótel, veitingastaði, bensínstöðvar og íbúðir.“

Sá hluti götunnar, sem húsið standi á, sé samkvæmt nýlegum breytingum á aðalskipulaginu ekki skilgreindur sem íbúðasvæði eða íbúðagata, heldur sem hliðarverslunarsvæði V- II.I.  Um sé að ræða svæði þar sem leyfð sé og verði fjölbreytileg notkun, þ. á m. rekstur skemmtistaða og veitingastaða.  Um svæðið gildi m.a. neðangreint ákvæði Þróunaráætlunar miðborgarinnar, sem teljist hluti aðalskipulags borgarinnar:  „Afgreiðslutími áfengis á svæðum V- I.I og V- II.I.  Borgaryfirvöld vilja, sem lið í því að viðhalda og efla fjölbreytt mannlíf í borginni, stuðla að samspili verslunarreksturs og veitingareksturs. Rétt þykir í því skyni að leyfa rýmri afgreiðslutíma áfengis á aðalverslunarsvæðum V-I.I og hliðarverslunarsvæðum V- II.I.“

Í skýringum með þessu ákvæði komi m.a. fram að svæðin séu nálægt miðborgarkjarnanum þar sem mest veitingastarfsemi sé í dag.  Þau séu einnig fjær íbúðabyggð en önnur verslunarsvæði.  Samhæfing afgreiðslutíma áfengis á svæðinu skapi tengsl við veitingastarfsemi miðborgarkjarnans og stuðli að því að stærri hluti næturlífsins sé á tilgreindu svæði.

Þá sé og í Þróunaráætlun miðborgarinnar kveðið á um notkun utan skilgreindra götusvæða aðal- og hliðarverslunarsvæða.  Fram komi að skilyrði fyrir því að veitt verði leyfi fyrir notkun utan hinna skilgreindra götusvæða séu þau að notkunin hafi ekki truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum, og jafnframt að notkunin hafi ekki í för með sér óæskilega aukningu umferðar, að aðgengi verði tryggt og bílastæðakröfum verði fullnægt.

Í deiliskipulagi reits nr. 1.170.3, þ.m.t. í greinargerð og skilmálum með deiliskipulaginu, sé landnotkun ekki skilgreind nákvæmar en fram komi í aðalskipulaginu.  Vert sé að vekja athygli á grein 4.3.3 í skilmálum deiliskipulagsins, þar sem fram komi eftirfarandi:  „Ljóst er að hávaði við íbúðir í miðborginni og jaðarsvæðum verður í einhverjum tilvikum meiri en æskilegt er á íbúðarsvæðum.  Við hönnun íbúðarhúsnæðis og breytingar á eldra húsnæði skal leitast við að halda óþægindum af völdum hávaða í lágmarki með þeim aðgerðum sem tækar eru.“

Byggingarleyfishafi telur, með vísan til framangreinds, að hin fyrirhugaða breyting sé í fullu samræmi við skilgreinda landnotkun samkvæmt aðalskipulaginu, enda séu uppfyllt skilyrði skipulagsins um hljóðvist, sorplosun, lyktarmengun o.fl.  Sú starfsemi, sem hann ráðgeri þar, falli að þeirri fjölbreyttu landnotkun, sem borgaryfirvöld telji æskilega og eftirsóknarverða á þessum hluta miðborgarsvæðisins. Sú breyting eða þau áhrif, sem starfsemin kunni að hafa á umhverfi sitt, séu ekki umfram það sem búast megi við á skilgreindum miðborgarsvæðum.

Hvað hljóðvist varði þá sé bent á að skilyrði byggingarleyfisins séu lokaúttekt byggingarfulltrúa, samþykki heilbrigðiseftirlits og prófun á hljóðvist staðarins.  Þannig sé tryggt að rekstur skemmtistaðarins hefjist ekki nema uppfylltar séu kröfur, bundnar í lögum og reglugerðum, um hljóðvistina.  Nágrannarnir geti ekki gert frekari kröfur að þessu leyti.

Að því er umgengni og hegðun á götum borgarinnar varði telji byggingarleyfishafi varhugavert að líta svo á að ónæði það, sem íbúar í húsum í Þingholtsstrætinu á reit 1.170.3 telji sig verða fyrir, muni aðallega eða eingöngu stafa frá þeirri starfsemi, sem rekin verði í Þingholtsstræti 5.  Húsið standi mjög nálægt Bankastræti og eðlilega gæti einhverra áhrifa gangandi fólks þaðan upp í hliðargöturnar.  Eigendur veitinga- og skemmtistaða geti almennt ekki borið ábyrgð á hegðun og framkomu viðskiptavina þeirra utanhúss.

Byggingarleyfishafi vísar til bréfs lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 19. október 2004, þar sem fram komi upplýsingar um lögregluútköll, er tengist starfsemi skemmtistaðar í kjallara hússins að Þingholtsstræti 5.  Af þessu tilefni sé m.a. vakin athygli á að ekki liggi fyrir vitneskja um að íbúar í nágrenninu eða aðrir hafi kvartað til lögreglu vegna ónæðis frá staðnum og þó það komi ekki skýrt fram í bréfinu megi teljast mjög líklegt að í mörgum eða flestum hinna skráðu tilvika hafi verið um að ræða útköll vegna atburða, er gerst hafi inni á skemmtistaðnum fremur en utanhúss.  Einnig sé bent á að vegna nálægðar skemmtistaðarins að Þingholtsstræti 5 við aðra skemmtistaði og Bankastrætið sé ekki ólíklegt að í einhverjum tilvikum megi tengja útköllin við gesti og gangandi annars staðar frá, fremur en við viðskiptavini staðarins.

Byggingarleyfishafi telji framangreint sýna glöggt að áhrifin af rekstri skemmtistaðarins að Þingholtsstræti 5 á umhverfið séu í raun ótrúlega lítil.  Hann telji jafnframt að áhrifin af rekstri skemmti- eða veitingastaðar á 1. hæð hússins muni verða vel innan þeirra marka, sem með sanngirni megi hafa á svæði, sem skilgreint sé sem hliðarverslunarsvæði og sem hafi í skipulagsáætlunum borgarinnar sérstaka tengingu við veitingastarfsemi í miðborgarkjarna hennar.

Byggingarleyfishafi hefur lagt fram gögn um það hvernig hann telur að draga megi úr neikvæðum áhrifum hinnar umdeildu starfsemi, m.a. með því að loka aðkomu að porti milli húsanna nr. 5 og 7 við Þingholtsstræti og kveðst hann hafa boðist til að bera kostað af nauðsynlegum umbúnaði til þess.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi en ekki þótti þörf á að boða til formlegrar vettvangsgöngu vegna máls þessa.

Niðurstaða:  Í meginatriðum er úrlausnarefni máls þessa tvíþætt.  Annars vegar eru til úrlausnar álitaefni er varða form og málsmeðferð, en hins vegar hvort hið umdeilda byggingarleyfi samræmist deiliskipulagi og þá jafnframt hvort fyrirhugaðri starfsemi fylgi ónæði eða önnur neikvæð grenndaráhrif umfram það sem kærendur þurfi að una.

Úrskurðarnefndin telur að ágalli hafi verið á meðferð málsins hvað varðar kynningu þess gagnvart hagsmunaaðilum.  Á því var byggt að hið umdeilda leyfi samræmdist gildandi deiliskipulagi, sem ekki væri þörf á að breyta.  Þrátt fyrir þetta var efnt til grenndarkynningar með vísan til 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem þó augljóslega átti ekki við í málinu.  Var þessi framsetning til þess fallin að villa um fyrir þeim sem kynningin tók til, enda varð ekki annað af henni ráðið en að annað hvort skorti deiliskipulag af svæðinu eða að þörf væri óverulegrar breytingar á deiliskipulagi.  Hvorugt var þó raunin og áttu borgaryfirvöld að haga kynningu málsins með öðrum hætti en gert var.  Hins vegar liggur ekki fyrir að þessi ranga framsetning hafi leitt til réttarspjalla og þykir því ekki rétt að láta þennan annmarka á meðferð málsins varða ógildingu.  Eru ekki aðrir ágallar sjáanlegir á meðferð borgaryfirvalda við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar er leiða eigi til ógildingar.

Kærendur hafa haldið því fram að hin kærða ákvörðun samræmdist ekki skipulagsskilmálum umrædds svæðis. 

Fyrir svæði það sem hér um ræðir var unnið deiliskipulag á árinu 2002.  Breyting var gerð á deiliskipulagi svæðisins sumarið 2004, en sú breyting hefur ekki þýðingu við úrlausn máls þessa.  Á deiliskipulagsuppdrætti að svæðinu er stutt greinargerð þar sem lýst er afmörkun skipulagssvæðisins, forsendum skipulagsins og mannvirkjum, sem fyrir eru á svæðinu. Jafnframt er þar getið þeirra meginþátta sem skipulagið byggir á, en í lok upptalningar þeirra segir svo:  „Að öðru leyti gilda „Almennir deiliskipulagsskilmálar fyrir Miðborgarsvæði Reykjavíkur“ dags. janúar 2002.“  Þrátt fyrir þá greinargerð sem er á uppdrættinum fylgir honum einnig greinargerð með yfirskriftinni „Miðborgarsvæði Reykjavíkur.  Greinargerð og skilmálar með deiliskipulagi reits 1.170.3 sem afmarkast af Bankastræti, Ingólfsstræti, Amtmannsstíg og Þingholtsstræti.“   Virðist þessi greinargerð unnin eftir forskrift að skipulagsskilmálum fyrir deiliskipulögð svæði innan miðborgarinnar og er í skilmálunum m.a. gerð grein fyrir því hvaða flokkar um húsvernd samkvæmt þemahefti með aðalskipulagi og þróunaráætlun miðborgar eigi ekki við á svæðinu.  Þá er um landnotkun stuðst við þá kafla úr nefndri þróunaráætlun sem settir eru fram í hefti sem tekið var upp í Aðalskipulag Reykjavíkur á árinu 2000.  Eru ákvarðanir um landnotkun þar m.a. settar fram með skilgreiningum og hólfunum sem fram koma á smáum og ógreinilegum uppdráttum í heftinu auk þess sem starfsemi er sums staðar takmörkuð af notkunarkvótum eða lengdum í götuhliðum, svo dæmi séu nefnd.  Hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurði fundið að sambærilegri framsetningu deiliskipulags en ekki þykir koma til álita að víkja skipulaginu til hliðar þar sem lögmæti þess er ekki til úrlausnar í málinu.  Verður deiliskipulagið því lagt til grundvallar við úrlausn um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis.

Í landnotkunarþætti Þróunaráætlunar miðborgar, sem tekinn hefur verið upp í aðalskipulagi og til er vísað í deiliskipulagsgögnum, segir um notkun utan skilgreindra götusvæða aðal- og hliðarverslunarsvæða að skilyrði fyrir veittri notkun séu að notkunin hafi ekki truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum og að ekki sé um óæskilega aukningu umferðar að ræða, aðgengi verði tryggt og bílastæðakröfum fullnægt.  Verður að leggja til grundvallar að þetta ákvæði eigi við í máli þessu og er á því byggt af hálfu borgaryfirvalda.

Úrskurðarnefndin telur að fyrirhuguð starfsemi, sem leyfð var með hinni kærðu ákvörðun, samrýmist ekki þessum skilmálum, enda verður ekki á það fallist að skipulags- og byggingaryfirvöld þurfi ekki að líta til þeirra áhrifa sem starfseminni muni fylgja utandyra.  Gert er ráð fyrir að starfsemin sé heimil langt fram eftir nóttu um helgar.  Mun óhjákvæmilega fylgja henni aukin umferð gangandi vegfarenda og ökutækja um kvöld og fram á nætur.  Er m.a. af hálfu Reykjavíkurborgar tekið undir það að hætta sé á ónæði frá gestum á kvöldin og um nætur um helgar. Mjó gangstétt er fyrir framan fyrirhugaðan skemmtistað og skammt þar frá skaga tröppur hússins nr. 7 út undir gangstéttarbrún, en þessar aðstæður hafa það í för með sér að erfitt getur verið að gæta fyllsta öryggis við anddyri staðarins.  Stutt er í íbúðir kærenda sunnan við og gegnt skemmtistaðnum og gefur auga leið að tilvist staðarins muni hafa truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir.

Við mat á því hvort hið umdeilda byggingarleyfi samræmist skipulagsskilmálum þykir ekki skipta máli þótt leyfi hafi verið veitt fyrir öðrum skemmtistöðum í nágrenninu, enda ekki til þess vitað að reynt hafi á lögmæti þeirra leyfisveitinga.  Verður ekki heldur fallist á að skylt hafi verið að veita hið umdeilda leyfi með tilliti til jafnræðisreglu þar sem hvorki hefur verið skorið úr um lögmæti tilvitnaðra leyfisveitinga né staðreynt að um sambærileg mál hafi verið að ræða, m.a. með tilliti til skipulagskilmála. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið fullnægir hið umdeilda byggingarleyfi ekki skilyrðum 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um að framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi af þeim sökum. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 um að veita leyfi til að innrétta skemmtistað á 1. hæð atvinnuhússins að Þingholtsstræti 5 í Reykjavík er felld úr gildi.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

     _______________________      ________________________
  Þorsteinn Þorsteinsson                         Ingibjörg Ingvadóttir

 

 

 

 

 

 

68/2004 Lækjargata

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2004, kæra stjórnar húsfélagsins Lækjargötu 4, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2004 um að veita leyfi til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. desember 2004, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, Lækjargötu 4, Reykjavík f.h. stjórnar húsfélagsins Lækjargötu 4, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2004 að veita leyfi til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu. 

Samþykkt byggingarfulltrúa var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 16. nóvember 2004. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi.

Úrskurðarnefndin hefur leitað eftir afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist munnleg andmæli byggingarleyfishafa og gögn frá Reykjavíkurborg um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 24. ágúst 2004 var lögð fram umsókn um leyfi til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu og var afgreiðslu erindisins frestað.  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 7. september 2004 var erindið tekið fyrir að nýju og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og/eða ákvörðunar um grenndarkynningu vegna fyrirhugaðrar notkunar á svölum þriðju hæðar fyrir veitingastarfsemi og nálægðar þeirra við íbúðarhúsnæði.  Skipulagsfulltrúi tók beiðnina fyrir á fundi hinn 10. september 2004 og samþykkti að kynna hana fyrir hagsmunaaðilum að Austurstræti 20 og 22, Lækjargötu 2 og 4 vegna fyrirhugaðrar notkunar á svölum fyrir veitingastarfsemi.  Kynningin fór fram dagana 16. – 30. september 2004 og settu 12 íbúðareigendur fram athugasemdir vegna þessa.  Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 1. október 2004 voru athugasemdirnar kynntar og á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 13. október 2004 var bókað að nefndin gerði ekki athugasemdir við að veitt yrði byggingarleyfi þegar teikningar hefðu verið lagfærðar.  Var málinu því vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.  Byggingarfulltrúi afgreiddi erindið hinn 9. nóvember 2004 með áskilnaði um lokaúttekt byggingarfulltrúa, samþykki heilbrigðiseftirlits og athugun á að hljóð frá veitingastöðunum ylli ekki ónæði að Lækjargötu 4 áður en húsnæðið yrði tekið í notkun. 

Hið kærða leyfi felur í sér heimild til að koma fyrir tveimur veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu.  Á þriðju hæð er gert ráð fyrir að hámarksfjöldi gesta verði 100 en á fjórðu hæð 120.  Snyrtingar verði sameiginlegar og eldhús, uppþvottur og aðstaða starfsmanna verði í kjallara.  Jafnframt verði gerður hringstigi af svölum á þriðju hæð niður á jörð og stigi frá fjórðu hæð niður á svalir á þriðju hæð.  Ennfremur verði lyftustokki breytt þannig að lyfta komist í kjallara, gólf í eldhúsi hækkað um 18 cm, handriði og gróðri komið fyrir á svölum þriðju hæðar o.fl. 

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að hið kærða byggingarleyfi sé í hróplegu ósamræmi við þær áætlanir sem uppi hafi verið þegar eigendur íbúða í fjölbýlishúsinu að Lækjargötu 4 hafi keypt íbúðir sínar.  Húsin liggi saman og því muni veitingarekstur í húsnæðinu að Lækjargötu 2A valda þeim fjárhagslegu tjóni vegna hávaða sem sé þegar ærinn. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2004 þess efnis að veita heimild til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu í Reykjavík. 

Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi lýtur það aðallega að framkvæmdum innanhúss s.s. frágangi innréttinga og gólfefna auk lítilsháttar framkvæmda á svölum hússins og uppsetningu brunastiga milli hæða.  Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þessar framkvæmdir ekki þess eðlis að framhald þeirra sé líklegt til að raska hagsmunum kærenda eða hafa áhrif á niðurstöðu máls þessa.  Af þessum sökum ber ekki nauðsyn til að verða við kröfu um stöðvun framkvæmda.  Með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda því hafnað.  Þrátt fyrir framangreint eru frekari framkvæmdir við bygginguna á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                  Ingibjörg Ingvadóttir

73/2003 Tjarnarbraut

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 23. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon, héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2003, kæra eiganda bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði, á afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 4. nóvember 2003 á erindi um breytingu á notkun greinds bakhúss úr iðnaðarhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2003, er barst nefndinni hinn 8. desember sama ár, kærir J, eigandi bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði, þá afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 4. nóvember 2003 að synja beiðni kæranda um að breyta notkun um 60 fermetra bakhúss á nefndri lóð úr iðnaðarhúsnæði í íbúð.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á fyrrgreindri afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar.

Málavextir:  Húsið að Tjarnarbraut 29 er þriggja íbúða hús og á lóðinni er tæplega 60 fermetra bakhús sem mun hafa verið byggt á árinu 1958 sem geymsluskúr. Lóðin er 401 fermetri að flatarmáli.  Bakhúsið er sérstakur eignarhluti samkvæmt fasteignamatsskrá og hefur verið nýtt sem prentsmiðja um áratuga skeið.

Kærandi, sem á íbúð í húsinu að Tjarnarbraut 29, mun hafa keypt umrætt bakhús árið 2000 er starfsemi, sem þar var fyrir, var hætt.  Hinn 13. maí 2003 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar fyrirspurn kæranda um hvort heimilað yrði að breyta notkun bakhússins úr iðnaðarhýsi í íbúð.  Erindinu fylgdi uppdráttur og samþykki meðeiganda að lóð.  Var erindinu vísað til bæjarskipulags þar sem um væri að ræða fyrirspurn um breytta notkun húsnæðisins.

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundum skipulags- og byggingarráðs hinn 20. maí og 3. júní 2003 og sú ákvörðun tekin að fela bæjarskipulagi að grenndarkynna erindið þegar byggingarleyfisumsókn lægi fyrir, með því fororði að húsnæðið uppfyllti skilyrði byggingarreglugerðar um íbúðir.

Erindi kæranda var síðan grenndarkynnt með bréfi, dags. 24. september 2003, í kjölfar framlagningar aðaluppdráttar vegna breyttrar notkunar og gerð anddyris við umrætt bakhús, dags. 6. september s.á., og bárust athugasemdir frá tveimur nágrönnum kæranda þar sem kynntri breytingu notkunar var mótmælt.

Erindið var loks tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 4. nóvember 2003 og það afgreitt með svofelldri bókun:  „Tekin fyrir að nýju fyrirspurn Jóhanns Tryggva Jónssonar dags. 13.05.03 um að breyta iðnaðarhúsnæði mhl. 02 í íbúð.  Erindið var í grenndarkynningu og athugasemdir bárust.  Á grundvelli athugasemda og fyrirliggjandi gagna frá 1957 um að leyfi hafi verið veitt fyrir geymsluskúr telur skipulags- og byggingarráð ekki rétt að heimila breytingu yfir í íbúðarhús og eðlilegra sé að nýta húsið sem geymslu eða bílskúr og synjar erindinu eins og það liggur fyrir.”

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að framkomnar athugasemdir um ónóg bílastæði, lóðarskort bakhússins og áhrif á götumynd, sem vísað sé til í hinni kærðu bókun, eigi ekki við rök að styðjast. 

Við endurbætur á Tjarnarbraut á árinu 2001 hafi gleymst að gera ráð fyrir stæðum fyrir íbúðarhúsið að Tjarnarbraut 29, sem sé þriggja íbúða hús.  Vegna athugasemda íbúa hússins hafi skipulagi götunnar verið breytt og komið fyrir þremur bílastæðum framan við húsið.  Fyrir sé aðkeyrsla að bakhúsi lóðarinnar sem yrði bílastæði fyrir bakhúsið ef breytt yrði í íbúð.  Bendir kærandi á að eignaskiptasamningur vegna fasteignarinnar að Tjarnarbraut 29 frá árinu 1985 beri með sér að bakhúsið eigi 14,65% hlut í heildarlóð að Tjarnarbraut 29.  Umrædd bygging sé bakhús og hafi umsótt breyting ekki áhrif á götumynd Tjarnarbrautar.

Loks lýsir kærandi sig ósáttan við þá forsendu fyrir afgreiðslu erindis hans, að leyfi fyrir umræddu húsi frá árinu 1957 hafi miðað við nýtingu þess sem geymsluskúrs.  Augljóst sé að um sé að ræða skráð iðnaðarhúsnæði sem hafi verið notað sem slíkt í áratugi.        

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Bæjaryfirvöld ítreka afstöðu sína til erindis kæranda sem fram kemur í hinni kærðu bókun.  Í fyrirliggjandi bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, er sent var kæranda í tilefni af bréfi hans, dags. 27. nóvember 2003, kemur fram það álit að umdeilt húsnæði, sem leyfi hafi verið veitt fyrir sem geymsluskúr á árinu 1957, henti ekki til íbúðar og aðeins verði fyrir hendi þrjú bílastæði fyrir þær fjórar íbúðir sem á lóðinni yrðu.  Nýting lóðarinnar fyrir fjórar íbúðir samræmist ekki heildarskipulagi götunnar en bent hafi verið á hentugri nýtingu húsnæðisins svo sem undir bílskúr.  

Niðurstaða:  Hin kærða bókun ber með sér afgreiðslu á fyrirspurn kæranda um afstöðu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði til breyttrar notkunar  á bakhúsi því er stendur á lóðinni að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verður stjórnvaldsákvörðun ekki skotið til æðra stjórnvalds nema hún feli í sér lokaákvörðun um mál.  Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega leyfisumsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur ekki, eðli máls samkvæmt, talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir.

Allar fyrirliggjandi bókanir um hið kærða erindi bera það ótvírætt með sér að þar sé verið að fjalla um fyrirspurn kæranda frá 13. maí 2003 og tilkynning bæjaryfirvalda til kæranda um afgreiðslu fyrirspurnarinnar hefur ekki að geyma upplýsingar um kæruheimild og kærufrest til æðra stjórnvalds, svo sem skylt væri skv. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, ef tilkynningin fæli í sér stjórnvaldsákvörðun.

Þótt ætla megi, með hliðsjón af fyrirliggjandi aðaluppdrætti frá september 2003, fyrirmælum skipulags- og byggingarráðs frá 3. júní s.á. um grenndarkynningu eftir framlagningu byggingarleyfisumsóknar og fyrirliggjandi minnispunktum bæjarskipulags, dags. 22. september 2003, að byggingarleyfisumsókn hafi komið fram, verður ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá með vísan til framangreindra raka.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________       _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir

31/2004 Hafnarbraut

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2004, kæra íbúa að Hólsgötu 2, Neskaupstað á ákvörðun umhverfismálanefndar Fjarðabyggðar frá 25. febrúar 2004 um útgáfu byggingarleyfis vegna breytingar á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. maí 2004, sem barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir B, Hólsgötu 2, Neskaupstað þá ákvörðun umhverfisnefndar Fjarðarbyggðar frá 25. febrúar 2004 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar hinn 4. mars 2004. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsið að Hafnarbraut 2, Neskaupstað var byggt árið 1950 af Kaupfélaginu Fram og nýtt sem verslunar- og þjónustuhúsnæði fyrir rekstur kaupfélagsins en einnig sem íbúðarhúsnæði þar sem að í hluta hússins var íbúð fjölskyldu kaupfélagsstjórans.  Á því svæði sem húsið stendur er ekki fyrir hendi deiliskipulag.  Í húsinu er starfrækt matvöruverslun og bakarí.

Hinn 5. júlí 2000 samþykkti umhverfisnefnd umsókn frá núverandi eiganda um að hluti hússins yrði nýttur sem gistiheimili en rekstri kaupfélagsins hafði þá verið hætt fyrir nokkru.  Hinn 15. desember 2003 samþykkti einnig nefndin beiðni eiganda þess efnis að breyta annarri, þriðju og fjórðu hæð hússins í íbúðir.  Vegna þessarar afgreiðslu komu fram athugasemdir frá nokkrum íbúum við Hólsgötu um að ekki hefði farið fram grenndarkynning vegna framkvæmdanna og á fundi umhverfisnefndar hinn 28. janúar 2004 voru framkvæmdir stöðvaðar og ákveðið að íbúum yrði kynnt breytingin. 

Í grenndarkynningarbréfi til þeirra er málið varðaði kom fram að breytingin fælist í því að byggt yrði stigahús við norðurvegg hússins sem og aðgangssvalir út frá stigahúsinu.  Settur yrði inngangur á vesturhlið hússins og byggðar svalir á suðurhlið þess.  Þá yrðu þakkvistir fjarlægðir, portveggir á norður- og suðurhlið hækkaðir í útveggjahæð og flatt þak sett á húsið.  Mænir hússins myndi ekki hækka.  Bílastæði yrðu að hluta til á lóð hússins en einnig á plani sunnan Hafnarbrautar. 

Grenndarkynningunni lauk hinn 24. febrúar 2004 og barst athugasemd frá kæranda.  Umhverfisnefnd tók athugasemdina til afgreiðslu á fundi sínum hinn 25. febrúar 2004 og hinn 8. mars 2004 var kæranda ritað bréf vegna afgreiðslu nefndarinnar og samþykktar bæjarstjórnar á henni. 

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að núverandi aðkoma hússins nr. 2 við Hafnarbraut sé með öllu óásættanleg með tilliti til slysahættu en mikil bílaumferð sé þar í kring vegnastarfsemi í húsinu.  Engin gangstétt sé fyrir framan húsið og þessi mikla bílaumferð hafi í för með sér mengun. 

Kærandi bendir á að ef fjölga eigi bílastæðum norðan Hafnarbrautar 2 um allt að helming þýði það samsvarandi mengun og umferð með enn aukinni slysahættu.  Aðstæður allar séu óheppilegar, gatan þröng og umferð mikil.  Þá bendir kærandi á að hugmyndir íbúa við Hólsgötu hafi verið þær að gera götuna að einstefnugötu. 

Kærandi gerir athugasemd við að framkvæmdir séu hafnar án þess að fullgildur byggingarmeistari sé ábyrgur fyrir framkvæmdunum sem og að burðarþoli hússins sé ábótavant. 

Sjónarmið Fjarðarbyggðar:  Af hálfu Fjarðarbyggðar er á það bent að eftir ítarlegar umræður í umhverfisnefnd hafi nefndin fallist á erindið með hliðsjón af 4. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Í upphafi hafi ekki þótt ástæða til að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina m.a. vegna þess að hæð hússins hafi ekki breyst og þegar hafi verið rekin gistiaðstaða í húsinu með aðgengi frá Hólagötu.  Þá hafi legið fyrir að brauðgerðarverslunin legðist af og einnig myndi listmunageymsla flytjast úr húsinu en aðgengi að þeim hafi einnig verið frá Hólsgötu.  Þá hafi legið fyrir lausn á bílastæðum vegna íbúðanna sem að miklu hluta verði sunnan Hafnarbrautar. 

Fjarðarbyggð bendir loks á að fullnægt sé kröfum um hönnuði, byggingarstjóra og meistara. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun umhverfisnefndar Fjarðarbyggðar þess efnis að veita heimild til breytinga á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað.  Fólu breytingarnar í sér að rými sem nýtt hafði verið sem verslunar- og þjónusturými var breytt í íbúðir.  Byggir kærandi annars vegar á því að málsmeðferð hafi verið ábótavant og hins vegar að með hinni kærðu ákvörðun aukist bílaumferð í grennd við húsið. 

Eins og að framan er rakið setti kærandi fram athugasemdir eftir að byggingarleyfisumsóknin hafði verið grenndarkynnt.  Voru athugasemdir hans teknar til afgreiðslu á fundi umhverfisnefndar hinn 25. febrúar 2004 og þeim svarað með bréfi byggingarfulltrúa til hans, dags. 8. mars sama ár. 

Í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga segir að telji einhver rétti sínum hallað með samþykki byggingarnefndar eða sveitarstjórnar sé honum heimilt, innan mánaðar frá því að honum er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar, að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar.  Var kærufrestur því liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 5. maí 2004.  Hins vegar skorti á að í framangreindu bréfi byggingarfulltrúa til kæranda væri getið um kæruheimild, kærustjórnvald eða kærufrest svo sem áskilið er í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þykir af þessum sökum afsakanlegt þótt kæran hafi borist að liðnum kærufresti og verður málið því tekið til efnisúrlausnar með stoð í 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Ekki verður fallist á að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt.  Svo sem rakið hefur verið hér að framan stendur hús það sem hér um ræðir á ódeiliskipulögðu svæði en byggingarleyfishafa var veitt hið kærða byggingarleyfi í kjölfar grenndarkynningar.  Kærandi setti fram athugasemdir sem bæjaryfirvöld svöruðu og telst sú málsmeðferð í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Af hálfu kæranda er einnig á því byggt að breytt notkun hússins nr. 2 við Hafnarbraut hafi í för með sér aukna bílaumferð.  Hvað þetta atriði varðar verður að líta til þess að samkvæmt Aðalskipulagi Neskaupstaðar 1979-1999, sem ekki hefur verið endurnýjað, stendur hús það sem um ræðir á miðbæjarsvæði þar sem margvísleg atvinnustarfsemi er heimiluð í bland við íbúðarbyggð.  Mega íbúar á slíkum svæðum jafnan búast við að starfsemi á svæðinu kunni að hafa í för með sér bílaumferð í þeim mæli sem um ræðir í máli þessu og verður því ákvörðun umhverfismálanefndar ekki hnekkt af þessum sökum.  Engar aðrar málsástæður hafa komið fram er leitt gætu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfum kæranda um ógildingu hennar því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfis fyrir breytingum á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað, samkvæmt ákvörðun umhverfismálanefndar Fjarðabyggðar frá 25. febrúar 2004, er hafnað. 

________________________________
Ásgeir Magnússon

_____________________________              _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir

59/2001 Stigahlíð

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2001, kæra tveggja íbúa við Stigahlíð í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. nóvember 2001 um að veita byggingarleyfi er fól m.a. í sér heimild til að reka atvinnustarfsemi í  einbýlishúsinu að Stigahlíð 93.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. desember 2001, sem barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f. h. G Stigahlíð 87 og S, Stigahlíð 89, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. nóvember 2001 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Stigahlíð 93, að því er varðar heimild fyrir atvinnustarfsemi í húsinu.  Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 15. nóvember 2001.  Kærendur gera þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi að því er varðar heimild fyrir breyttri notkun hússins.

Málavextir:  Fasteignin að Stigahlíð 93 í Reykjavík er einbýlishús sem stendur við botngötu þar sem eingöngu eru fyrir einbýlishúsabyggð.  Í gildi er deiliskipulagsuppdráttur fyrir svæðið frá árinu 1961 er ber yfirskriftina „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi.“  Uppdrátturinn sýnir legu gatna á skipulagsreitnum, lóðir og byggingarreiti, en honum fylgir ekki greinargerð.

Með bréfi, dags. 11. júlí 2001, tilkynnti byggingarleyfishafi nágrönnum sínum um framkvæmdir við fasteignina að Stigahlíð 93 og upplýsti m.a. um fyrirhugaða breytingu á notkun hússins.  Var það upplýst að fyrirhugað væri að reka þar teiknistofu auk þess sem fasteignin yrði nýtt til íbúðar.

Hinn 12. júlí 2001 barst embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík símbréf frá lögmanni kærenda þar sem m.a. var farið fram á stöðvun framkvæmda við breytingar á húsinu nr. 93 við Stigahlíð.  Voru gerðar athugasemdir við breytingar á lóð hússins er fólust í gerð bílastæða og fyrirhugaða nýtingu þess til atvinnustarfsemi.  Byggingarfulltrúi tilkynnti ákvörðun sína um stöðvun framkvæmda við fasteignina með bréfi, dags. 17. júlí 2001, og var sú ákvörðun byggð á 1. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997, þar sem ekki hafði verið sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum.

Sótt var um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni hinn 19. júlí 2001 er fólu í sér lítils háttar stækkun og útlitsbreytingar á húsi og framkvæmdum á lóð ásamt fjölgun bílastæða í þrjú.  Var umsóknin tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 24. júlí s.á. en afgreiðslu frestað og erindinu vísað til umsagnar Borgarskipulags vegna fyrirhugaðrar atvinnustarfsemi.  Í umsögn lögfræðings Borgarskipulags um málið, dags. 30. ágúst 2001, komu fram efasemdir um að umsótt breyting á notkun hússins að Stigahlíð 93 væri í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar og aðalskipulags um landnotkun á íbúðarsvæðum.  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 31. ágúst 2001 var tekið undir skoðun þá er fram kom í greindri umsögn.

Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. október 2001 og var svofelld bókun gerð af hálfu meirihluta nefndarinnar:

„Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum á húsinu sem samræmast skipulagsskilmálum. Óheimilt er að gera fleiri en tvö bílastæði á lóðinni. Húseigandi skal, áður en byggingarleyfi verður veitt skila inn uppdráttum þar sem hann afmarkar lóðina við götu með svipuðum hætti og gert hefur verið annars staðar í hverfinu.

Hvað varðar atvinnustarfsemi í húsinu er vitnað til bls. 27 í greinargerð Aðalskipulags Reykjavíkur en þar stendur: „Á íbúðasvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði*. Þar mega þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi, enda valdi hún nágrönnum ekki ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar. Þjónustulóðir og opin svæði sem eru 1500m² eða minni fá ljósgráan lit íbúðasvæða.“

„*Einbýlishús, fjölbýlishús, stakar íbúðir, íbúðir aldraðra, dvalarheimili fyrir aldraða, íbúðir stúdenta, sambýli fatlaðra, heimili fyrir börn og unglinga og annað útirými.“

Skipulags- og byggingarnefnd telur að umrædda auglýsingastofu beri að skilgreina sem vinnustofu sem kalli ekki til sín óeðlilega mikla umferð og samþykkir starfsemi hennar í húsinu.

Nefndin gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi þegar teikningar hafa verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og tillögu Reykjavíkurlista.

Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.“

Minnihluti nefndarinnar bókaði eftirfarandi um afstöðu sína til málsins:
        
„Með samþykkt sinni er meirihluti skipulags- og byggingarnefndar að heimila rekstur fyrirtækis/fyrirtækja í íbúðarhúsi sem stendur við þrönga húsagötu. Gert er ráð fyrir að 5 manns starfi þar og starfsemin mun því augljóslega valda töluverðri viðbótarumferð. Bílastæðamál eru óleyst. Afar hæpið verður að telja að umrædd starfsemi samrýmist þeim skipulagsskilmálum, sem um hverfið gilda. Við greiðum því atkvæði gegn þessari tillögu.“

Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu meirihluta skipulags- og byggingarnefndar á fundi sínum hinn 18. október 2001.  Byggingarleyfisumsóknin, þar sem gert var ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóð í stað þriggja í fyrri umsókn, var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. nóvember 2001.  Sú afgreiðsla var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. nóvember s.á. og staðfest í borgarstjórn hinn 15. nóvember 2001.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og  að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja ógildingarkröfu sína á því að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ábótavant.  Kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á því að koma að athugasemdum sínum áður en byggingaryfirvöld hafi tekið hina umdeildu ákvörðun.  Umsögn Borgarskipulags í málinu hafi ekki verið kynnt kærendum og hafi þeim ekki verið um hana kunnugt fyrr en þeim hafi verið tilkynnt um afgreiðslu byggingarleyfisins með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. nóvember 2001.  Í ljósi þess, að kærendur hefðu kært umdeildar framkvæmdir að Stigahlíð 93 til byggingarfulltrúa hinn 12. júlí 2001, verði að telja þessa málsmeðferð fela í sér brot á andmælarétti kærenda sem þeim sé tryggður í stjórnsýslulögum.

Í bréfi eigenda fasteignarinnar að Stigahlíð 93 til nágranna frá 11. júlí 2001 komi fram að fyrirhugað sé að nýta húsið til íbúðar auk atvinnurekstrar.  Hálfu ári eftir að byggingarleyfishafi hafi keypt umrædda fasteign, hafi enginn búið í húsinu eða verið skráður þar til heimilis, en húsið eingöngu nýtt undir atvinnustarfsemi og rekstraraðilinn einn skráður eigandi þess.  Ekki verði séð að byggingaryfirvöld hafi gengið úr skugga um hverjar væru raunverulegar fyrirætlanir um nýtingu hússins og megi ætla að afstaða byggingaryfirvalda til umræddrar byggingarleyfisumsóknar hefði orðið önnur ef fyrir hefði legið að húsið yrði eingöngu nýtt undir atvinnurekstur svo sem af öllum málsatvikum megi ráða.

Þá telja kærendur hina kærðu ákvörðun efnislega ranga og andstæða aðalskipulagi og skipulagsreglugerð.  Fram komi í fyrirliggjandi umsögn lögfræðings Borgarskipulags að í aðalskipulagi sé fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði á íbúðarsvæðum.  Þar megi þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi sem valdi ekki nágrönnum ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.  Grein 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 geri sömu kröfur til atvinnu- og þjónustustarfsemi í íbúðarbyggð sem einkum sé ætluð til að sinna þörfum íbúa hverfisins.  Þá segi í grein 4.2.2 að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð skuli valinn staður þannig að hvorki valdi hættu né óþægindum vegna umferðar eða annars ónæðis.

Bent sé á að húsið að Stigahlíð 93 standi innarlega í mjórri húsagötu efst við Stigahlíðina þar sem engin bílastæði séu við götu heldur aðeins inni á lóðum húsa og í götunni búi fjölskyldur með börn.  Umferð um götuna hafi hingað til einungis stafað frá íbúum hennar og gestkomandi.  Fyrir liggi að við umdeildan rekstur auglýsingastofu í húsinu að Stigahlíð 93 muni starfa a.m.k. fimm starfsmenn og sé sú starfsemi ekki þess eðlis að hún einskorðist við íbúa hverfisins.  Umferð um hverfið muni aukast vegna starfseminnar og verða meiri en ef húsnæðið væri notað til íbúðar og sé sú þegar raunin.  Starfsmenn aki daglega í og úr vinnu og auk þess megi búast við að þeir þurfi að aka til og frá vinnustað til að sinna erindum utan vinnustaðar.  Þá fylgi umferð þeim aðilum sem sæki þangað þjónustu.  Kærendur taki því undir umsögn Borgarskipulags frá 30. ágúst 2001 þar sem fram komi að umdeild starfsemi geti valdið nokkurri aukningu á umferð og skapað bílastæðavandamál á svæðinu.  Þar komi og fram að vegna aðstæðna á svæðinu, m.a. þar sem um hreina íbúðarbyggð sé að ræða í botngötu með engum almenningsbílastæðum, geti umdeild starfsemi orðið nokkuð íþyngjandi gagnvart nágrönnum.  Sé því varla heimilt með tilliti til ákvæða skipulagsreglugerðar, landnotkunar aðalskipulags og gildandi deiliskipulags að samþykkja umsótta starfsemi í húsinu.  Geri kærendur þessi ályktunarorð lögfræðings Borgarskipulags að sínum.

Telja kærendur að form og efnisannmarkar þeir sem raktir hafi verið eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar að því er varði heimild til atvinnustarfsemi í húsinu að Stigahlíð 93.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun standi óhögguð.

Vísað er til þess að á svæðinu sé í gildi deiliskipulag „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi“, sem samþykkt hafi verið í bæjarráði Reykjavíkur hinn 28. nóvember 1961.  Mat skipulags- og byggingaryfirvalda hafi því einungis lotið að því hvort umrædd umsókn væri í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins og hafi lyktir orðið þær að umdeild umsókn fæli ekki í sér frávik frá deiliskipulaginu og því engar forsendur til þess að grenndarkynna umsóknina skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Við meðferð umsóknarinnar hafi engu að síður legið fyrir  ítarleg greinargerð frá lögmanni kærenda með sjónarmiðum þeirra og hafi byggingarfulltrúi stöðvað framkvæmdir á lóðinni að Stigahlíð 93 að kröfu lögmanns þeirra.  Við meðferð málsins hafi framkomin sjónarmið nágranna verið höfð til hliðsjónar eins og sjá megi af fundargerð afgreiðslufundar skipulagsstjóra hinn 31. ágúst 2001 og bókunum meiri- og minnihluta  skipulags- og byggingarnefndar frá 3. október s.á.  Verði því ekki fallist á, eins og málsatvikum sé háttað, að andmælaréttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn.

Í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og ódagsettum skilmálum frá Borgarverkfræðingnum í Reykjavík, fyrir úthlutun einbýlishúsalóða við Stigahlíð sé ekki kveðið nánar á um landnotkun eða starfsemi á svæðinu.  Um landnotkun fari því eftir ákvæðum Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016. Í því skipulagi sé svæðið tilgreint sem íbúðasvæði sem skilgreint sé á eftirfarandi hátt:

„… á íbúðasvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Þar mega þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi enda valdi hún nágrönnum ekki ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.“

Framangreinda skilgreiningu aðalskipulags beri að skilja á þann hátt að meginreglan sé sú að á íbúðasvæðum skuli fyrst og fremst vera íbúðarhúsnæði.  Líta verði þó svo á að skipulagsyfirvöldum sé heimilt, innan ákveðinna marka, að leyfa tiltekna atvinnustarfsemi sem valdi nágrönnum ekki ónæði umfram það sem almennt megi búast við á tilteknu svæði.  Takmörkunin geti því aðeins verið grenndarréttarlegs eðlis og háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni.  Þar af leiðandi verði að meta hvert tilvik fyrir sig, meðal annars að teknu tilliti til skipulags hverfisins, fyrirkomulags húsa, væntanlegrar umferðar, fjölda starfsmanna, tegundar starfsemi auk margra annarra þátta.  Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 4.2.1, sé íbúðasvæði skilgreint á sambærilegan hátt og í aðalskipulagi.

Byggingarleyfishafi hafi lýst því yfir að búið verði í húsinu og sé það í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti að húsinu, en samkvæmt þeim sé gert ráð fyrir teiknistofu auk íbúðar.  Byggingarleyfishafi og kona hans starfi bæði sem grafískir hönnuðir og reki teiknistofu sína í fasteigninni að Stigahlíð 93.  Auk þeirra starfi á teiknistofunni þrír starfsmenn.  Það geti ekki verið á valdsviði skipulags- og byggingaryfirvalda að fullvissa sig um að einstaklingar hafi búsetu á einhverjum ákveðnum stöðum né kanna það sérstaklega hvar þeir hafi lögheimili.  Byggingarleyfi taki einungis afstöðu til þess til hverra nota húsnæði sé ætlað og hafi verið samþykkt að í húsinu yrði íbúð auk vinnustofu.

Telja verði að óveruleg umferð fylgi umdeildri starfsemi og eigi hún ekki að valda öðrum íbúum óþægindum umfram það sem við megi búast með tilliti til stærðar hússins sem sé tæplega 400 fermetrar og gæti auðveldlega hýst töluvert stærri fjölskyldu en sem nemur þeim þremur starfsmönnum sem starfi á umræddri teiknistofu auk eigenda.  Benda megi á að fyrri eigandi hússins hafi verið með skrifstofu í húsinu til langs tíma.  Ekki sé óeðlilegt að rekin sé umfangslítil starfsemi samhliða búsetu í stærri húsum innan íbúðarhverfa svo sem skrif- og vinnustofur hönnuða, verkfræðinga og endurskoðenda.  Litið hafi verið svo á að slík starfsemi sé heimil í íbúðarhverfum valdi hún ekki óeðlilegu ónæði fyrir nágranna.

Með tilliti til ákvæða skipulagsreglugerðar og landnotkunar aðalskipulags verði að telja að borgaryfirvöld hafi óskoraða heimild til að meta það hvort umrædd starfsemi í húsinu sé þess eðlis að hún hafi íþyngjandi áhrif gagnvart íbúum götunnar.

Í ljósi framangreinds, þar sem fyrir liggur mat meirihluta skipulags- og byggingarnefndar að umþrætt byggingarleyfi hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði gildandi skipulags og skipulagsreglugerðar um atvinnustarfsemi á íbúðarsvæðum sé ekki efni til að raska hinni kærðu ákvörðun.

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á því að koma á framfæri við úrskurðarnefndina athugasemdum og sjónarmiðum sínum vegna kærumáls þessa en greinargerð um það efni hefur ekki borist nefndinni.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér heimild til ýmis konar breytinga á húsi og lóð fasteignarinnar að Stigahlíð 93 í Reykjavík auk heimildar til breyttrar notkunar hússins, en í máli þessu er einungis deilt um það hvort heimild til nýtingar hluta hússins til atvinnustarfsemi hafi verið lögmæt.

Bæjarráð Reykjavíkur staðfesti hinn 28. nóvember 1961 skipulagsuppdrátt fyrir umræddan reit með yfirskriftinni „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi“.  Deiliskipulag þetta er í gildi skv. 11. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Þótt skipulagið sé ófullkomið að því leyti, að  greinargerð skortir um nánari útfærslu uppdráttarins, ber nafngift hans og fyrirkomulag lóða, byggingarreita og bílastæða á uppdrættinum það með sér að gert hafi verið ráð fyrir hreinni einbýlishúsabyggð á skipulagssvæðinu svo sem raunin hefur orðið við uppbyggingu þess.

Byggingarleyfi, m.a. fyrir breyttri notkun húss, skal vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag skv. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Komi fram umsókn er víkur frá gildandi deiliskipulagi verður byggingarleyfi ekki veitt í samræmi við umsókn nema að lokinni deiliskipulagsbreytingu samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga eða eftir atvikum skv. 2. mgr. ákvæðisins ef um óverulega breytingu frá deiliskipulagi er að ræða. 

Vafi um ákvæði deiliskipulags um landnotkun á íbúðarsvæðum eða skortur á ákvörðun í því efni veitir sveitarstjórnum ekki, án breytingar á deiliskipulagi, heimild til að veita byggingarleyfi á grundvelli áætlaðrar landnotkunar aðalskipulags og skilgreiningar landnotkunarflokka í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Samkvæmt 2. mgr. gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð skal í aðalskipulagi gera grein fyrir stærð og staðsetningu íbúðarsvæða en í 3. mgr. tilvitnaðs ákvæðis kemur fram að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir notkun einstakra bygginga og byggingarhluta á íbúðarsvæðum sem ekki eru ætlaðir til íbúðar.  Verða reglugerðarákvæði þessi ekki skýrð á annan veg en þann að heimild til nýtingar húsnæðis á skipulögðum íbúðarsvæðum til annars en íbúðar verði að eiga stoð í gildandi deiliskipulagi.  Sú túlkun er jafnframt í samræmi við þá meginreglu skipulags- og byggingarlaga, að  byggingarleyfi skuli vera í samræmi við deiliskipulagsáætlanir, en einungis er heimilt að veita byggingarleyfi á grundvelli aðalskipulags á þeim svæðum sem þegar eru byggð en hafa ekki verið deiliskipulögð, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna.

Hin umdeilda ákvörðun, að heimila atvinnustarfsemi í húsinu nr. 93 við Stigahlíð, á ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þykir því verða að fella hina kærða ákvörðun um breytta notkun umrædds húss úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun sú, að heimila atvinnustarfsemi í húsinu nr. 93 við Stigahlíð í Reykjavík, er fólst í byggingarleyfi sem samþykkt var af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 6. nóvember 2001, er felld úr gildi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
       Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

12/2002 Sóleyjargata

Með

Ár 2003, mánudaginn 3. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2002, kæra íbúa að Sóleyjargötu 23, Fjólugötu 21 og Fjólugötu 23, Reykjavík á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002 að heimila Kennarasambandi Íslands að breyta einbýlishúsinu að Sóleyjargötu 25 í orlofsíbúðir. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. maí 2002, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kæra B, Sóleyjargötu 23, K, Fjólugötu 21 og Ö, Fjólugötu 23, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002 að heimila Kennarasambandi Íslands að breyta einbýlishúsinu að Sóleyjargötu 25 í orlofsíbúðir.  Borgarstjórn staðfesti hina kærðu ákvörðun hinn 16. maí 2002.  Kærendur krefjast þess að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Húsið að Sóleyjargötu 25, Reykjavík er steinsteypt tveggja hæða hús auk kjallara, með fullri lofthæð, og bílgeymslu sem stendur í enda götureits, sem markast af Sóleyjargötu, Njarðargötu og Fjólugötu.  Aðgengi er að húsinu bæði frá Sóleyjargötu og Fjólugötu.  Bílastæði eru við Fjólugötu og þar er einnig aðkoma að bílgeymslu.  Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, sem við á í máli þessu, stendur húsið á íbúðarsvæði og hefur svæðið ekki verið deiliskipulagt.  Eigandi hússins, Orlofssjóður Kennarasambands Íslands, sótti síla árs 2001 um leyfi til breytinga á innra skipulagi hússins í þá veru að í stað einbýlishúss yrði veitt heimild til að gera sex orlofsrými í húsinu.  Auk þessa skyldi hluti bílgeymslu fjarlægður og nýr inngangur gerður að húsinu. 

Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa hinn 18. desember 2001, 8. janúar 2002 og hinn 29. sama mánaðar og frestað í öll skiptin en samþykkt að lokum hinn 19. febrúar 2002.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 26. febrúar 2002 var erindið tekið fyrir að nýju og þá samþykkt að vísa því til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á afgreiðslufundi Borgarskipulags hinn 1. mars sama ár var samþykkt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina fyrir hagsmunaaðilum og voru því framkvæmdir stöðvaðar af byggingarfulltrúa.  Athugasemdir bárust frá 21 íbúa við Fjólugötu og Sóleyjargötu.  Að grenndarkynningunni lokinni var byggingarleyfisumsóknin tekin til afgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd hinn 8. maí 2002 og samþykkt með því skilyrði að innheimt yrði bílastæðagjald vegna tveggja bílastæða.  Þá skyldi og þinglýsa kvöð um að eignarhald hússins yrði á einni hendi og að óheimilt yrði að hafa þar varanlega búsetu eða skrá þar fólk til lögheimilis nema sótt yrði um breytingu á húsnæðinu til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði.  Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarstjórn hinn 16. maí 2002. 

Kærendur voru ósáttir við þessi málalok og skutu ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að skipulagsyfirvöld hafi látið undir höfuð leggjast að kynna hagsmunaaðilum fyrirhugaðar framkvæmdir sem hafi staðið yfir í átta vikur án tilskilinna leyfa þegar áformaðar breytingar hafi loks verið grenndarkynntar og þá að kröfu nágranna.  Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar kærenda hafi framkvæmdir staðið yfir í tuttugu vikur án tilskilinna leyfa þegar borgarráð hafi loks samþykkt byggingarleyfið en þá hafi framkvæmdum að mestu verið lokið.  Þá halda kærendur því fram að ekki hafi verið nægjanlegt að grenndarkynna einvörðungu byggingarleyfisumsóknina heldur hafi breytingin verið þess eðlis að deiliskipuleggja hefði þurft svæðið.

Kærendur halda því einnig fram að brotið hafi verið gegn byggingarreglugerð varðandi fyrirkomulag og rýmisstærð orlofsrýmanna.  Hvergi í reglugerðinni sé minnst á „orlofsíbúð“ og því sé engin lagaheimild til fyrir því að gera minni kröfur til þess háttar íbúða en annarra sem búið sé í.  Þá hafi byggingarfulltrúi og Borgarskipulag brugðist hlutverki sínu með því að krefjast ekki leiðréttinga á hönnunargöllum á uppdráttum og á misræmi í umsókn um byggingarleyfi, þrátt fyrir ábendingar kærenda.

Kærendur benda á að breyting hússins að Sóleyjargötu 25 úr einbýlishúsi í fjölbýlishús með sex orlofsrýmum hafi neikvæð áhrif vegna aukinnar bílaumferðar og að möguleikar íbúa götunnar til að leggja bílum sínum þar muniminnka verulega.  Bílastæðin við vesturbrún Fjólugötu, á milli Bragagötu og Njarðargötu, séu fyrir löngu fullnýtt og því þurfi að fjölga bílastæðum verulega ef breytingin eigi að ná fram að ganga.  Þó svo að um sé að ræða „orlofsíbúðir“ þá verði að gera sömu kröfur um bílastæði og almennt tíðkist og sennilega sé ástæða til að gera ríkari bílastæðakröfur til þess háttar íbúða.  Kærendur halda því fram að nú þegar sé komin slæm reynsla á rekstur orlofsrýmanna því vísbendingar séu um að hverju rými fylgi a.m.k. einn bíll og oft sé þar mjög gestkvæmt síðdegis og að kvöldlagi.  Þá sé einnig þjónustuumferð áberandi og umferð vegna skjalageymslu Kennnarasambandsins sé nokkur.  Vegna skorts á bílastæðum sé bifreiðum lagt upp á gangstétt. 

Þá benda kærendur einnig á að með umdeildri byggingarleyfisumsókn hafi ekki fylgt bílastæðabókhald vegna breyttrar landnotkunar og aukinnar bílastæðaþarfar.

Kærendur halda því fram að borgarráð hafi misbeitt valdi sínu gegn hagsmunum íbúa við Fjólugötu og Sóleyjargötu með því að samþykkja að gefa Kennarasambandinu kost á því að kaupa sig frá aukinni bílastæðakröfu.  Næsta bílastæðahús sé í Ráðhúsinu og þangað sé um 8 til 10 mínútna gangur og því feli þessi ráðstöfun ekki í sér lausn á bílastæðavanda íbúa Fjólugötu og Sóleyjargötu. 

Kærendur krefjast þess að borgaryfirvöld sjái til þess að nægilegum fjölda bílastæða verði komið fyrir á lóðinni að Sóleyjargötu 25 en að öðrum kosti verði rekstur orlofsíbúðanna stöðvaður.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Í umsögn Skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 22. apríl 2002, um athugasemdir vegna grenndarkynningar byggingarleyfisumsóknar varðandi Sóleyjargötu 25 er tekið undir það með kærendum að hugtakið „orlofsíbúð“ sé ekki skilgreint í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Aftur á móti sé hugtakið „frístundahús“ skilgreint í 115. gr. reglugerðarinnar sem hús sem sé ætlað til tímabundinnar dvalar og þurfi þess háttar hús ekki að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar sem sett séu um íbúðarhús.  Í því tilfelli sem hér um ræði miði breytingar hússins að tímabundinni dvöl fyrir félagsmenn Kennarasambands Íslands en hvorki til varanlegrar né lengri dvalar.  Með vísan til þessa þurfi framkvæmdirnar ekki að uppfylla almenn ákvæði reglugerðarinnar um íbúðarhúsnæði.  Eigi að síður verði að horfa til 105. gr. byggingarreglugerðarinnar sem fjalli um hús til annara nota en íbúðar.  Meginregla hennar sé að við umfjöllun um slík hús skuli almennt miða við þær kröfur sem gerðar séu til íbúðarhúsa eftir því sem við geti átt að mati byggingarnefndar.  Skipulags- og byggingarnefnd borgarinnar hafi því haft heimild til að meta hvað teldist eðlilegt í þessu sambandi m.t.t. notkunar húsnæðisins.  Einnig verði, eftir því sem við geti átt, að líta til ákvæða byggingarreglugerðarinnar um hótel, dvalar- og heimavistir. 

Með tilliti til framangreinds, sbr. skilgreiningu hugtaksins frístundahús, heldur Reykjavíkurborg því fram að „orlofsíbúðir“ þurfi ekki að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar um íbúðarhús og eigi það einnig við um þær kröfur sem gerðar séu til fjölda bílastæða.  Reykjavíkurborg telur því að borgin geti metið hvaða bílastæðakröfur gera eigi til hússins.  Afar ólíklegt sé að fleiri en einn bíll fylgi hverri íbúðareiningu og reikna megi með því að hluti gestanna verði ekki á bíl. 

Rétt sé hjá kærendum að ekki hafi verið unnið svokallað bílastæðabókhald vegna umsóknarinnar.  Um slíkt sé hvorki gerð krafa í lögum né byggingarreglugerð og því ekki um formgalla að ræða á umsókn þótt slíkur útreikningur liggi ekki fyrir. 

Andsvör kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar:  Talsmanni kærenda var gefinn kostur á að koma að andsvörum vegna umsagnar Reykjavíkurborgar í málinu og bárust þau úrskurðarnefndinni með bréfi hinn 3. október 2003. 

Kærendur benda á að umsögn skipulags- og byggingarsviðs hafi ekki verið kynnt kærendum vorið 2002 og raunar ekki komið þeim fyrir sjónir fyrr en í september 2003.  Ljóst sé af innihaldi umsagnarinnar að kærendur hefðu getað farið aðrar leiðir og því halda kærendur því fram að grenndarkynningarferlinu hafi ekki lokið með fullnægjandi hætti af hálfu borgaryfirvalda og því sé útgáfa byggingarleyfisins í uppnámi.

Kærendur mótmæla því harðlega að íbúðir þær sem hér um ræðir að Sóleyjargötu 25 geti fallið undir hugtakið „frístundahús“ enda megi af 115. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 ráða að fyrst og fremst sé átt við sumarhús fjarri þéttbýli.  Þess háttar hús séu oft án nokkurrar tengingar við vegakerfið og því séu ekki gerðar sömu kröfur varðandi bílastæði og í þéttbýli.

Kærendur halda því fram að eftir þá sextán mánuði sem rekstur orlofsíbúðanna hafi staðið í húsinu sé ljóst að langflestir leigutakarnir komi til Reykjavíkur á eigin bifreiðum og því sé verulegur skortur á bílastæðum í kringum það.  Íbúar þurfi því oft að leita stæða fyrir bíla sína í nærliggjandi götum.  Vegna þessa halda kærendur því fram að þörf sé á 12 – 16 bílastæðum fyrir húsið.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Orlofssjóður Kennarasambands Íslands tekur undir málsrök Reykjavíkurborgar en bendir einnig á að þegar húsið hafi verið keypt hafi fjögur herbergi í kjallara hússins verið í útleigu og því hafi bílastæðaþörf hússins minnkað er Kennarasambandið hafi eignast húsið. 

Niðurstaða:  Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, sem við á í málinu, er heimilt að reka gistiaðstöðu á íbúðarsvæðum ef reksturinn veldur nágrönnum ekki ónæði m.a. vegna óeðlilega mikillar umferðar.  Hin kærða ákvörðun veitti heimild til þess að húsinu að Sóleyjargötu 25 í Reykjavík yrði breytt úr einbýlishúsi í orlofshús með sex orlofsrýmum ætluðum félagsmönnum Kennarasambands Íslands auk þess að fjarlægja hluta bílgeymslu og gera nýjan inngang að húsinu. 

Á svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag er það meginregla, samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að gera skuli deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í 3. mgr. ákvæðisins er gerð sú undantekning að sveitarstjórn getur heimilað framkvæmdir í þegar byggðum hverfum, sem ekki hafa verið deiliskipulögð að undangenginni grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laganna.  Hefur þetta ákvæði verið túlkað svo, til samræmis við 2. mgr. 26. gr. laganna, að aðeins megi heimila með þessum hætti óverulegar framkvæmdir eða breytingar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður hið umdeilda byggingarleyfi ekki talið hafa verulega breytingu í för með sér.  Var byggingaryfirvöldum því heimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu svo sem gert var og bar ekki nauðsyn til að gera deiliskipulag fyrir svæðið vegna veitingar leyfisins.

Í máli þessu liggur fyrir að framkvæmdir samkvæmt hinu upphaflega byggingarleyfi voru hafnar áður en grenndarkynning um erindið átti sér stað.  Aftur á móti voru þær stöðvaðar af borgaryfirvöldum þegar þau ákváðu að grenndarkynna erindi Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands og að grenndarkynningunni lokinni var endanleg ákvörðun um útgáfu leyfisins tekin.  Verður að telja að þrátt fyrir þennan annmarka á málsmeðferð borgaryfirvalda við veitingu leyfisins hafi sjónarmið kærenda legið fyrir þegar endanleg ákvörðun um útgáfu þess var tekin enda gerðu þeir athugasemdir við byggingarleyfisumsóknina.  Þá var þeim, í kjölfar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar, tilkynnt um afgreiðslu erindisins, eins og áskilið er samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Er því ekki unnt að fallast á það með kærendum að framkvæmd grenndarkynningarinnar hafi verið svo áfátt að leiða eigi til þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi. 

Hús það sem hér um ræðir er ætlað sem orlofshús fyrir félagsmenn Kennarasambands Íslands eins og áður er fram komið.  Skilyrði skipulags- og byggingarnefndar fyrir veitingu byggingarleyfisins var að þinglýst yrði kvöð um að eignarhald hússins skyldi vera á einni hendi og að óheimilt væri að hafa þar varanlega búsetu eða skrá þar lögheimili nema sótt yrði um breytingu á húsnæðinu til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði.  Kærendur halda því fram að óheimilt sé að víkja frá kröfum byggingarreglugerðar, t.d. varðandi stærð þessara orlofsrýma, og gera annars konar kröfur til þeirra en almennt séu gerðar samkvæmt reglugerðinni um íbúðir. 

Hvað þetta atriði varðar þá segir í 1. mgr. 105. gr. byggingarreglugerðar að þegar sótt sé um leyfi til að byggja hús til annara nota en íbúðar skuli miða við þær kröfur sem gerðar séu til íbúðarhúsa eftir því sem þær geti átt við að mati byggingarnefndar.  Það er álit úrskurðarnefndarinnar að skipulags- og byggingarnefnd hafi tekið eðlilegt tillit til krafna reglugerðarinnar um íbúðarhús varðandi orlofsýmin, enda liggur fyrir að húsnæðið verði eingöngu nýtt til tímabundinnar dvalar. 

Sóleyjargata nr. 25 er í gamalgrónu hverfi í jaðri miðborgarinnar þar sem hefðbundin íbúðarbyggð blandast ýmiskonar þjónustustarfsemi.  Er þar m.a. opinber stofnun, sendiráð, lögfræðiskrifstofa og arkitektastofur.  Fjólugata er einstefnugata, við hana er frágengin gangstétt og meðfram henni öðrum megin eru bílastæði.  Inni á lóð hússins að Sóleyjargötu 25 eru tvö bílastæði auk bílgeymslu fyrir einn bíl.  Meðfram lóð hússins er unnt að leggja einni til tveimur bifreiðum.  Svæði þetta byggðist á þeim tíma þegar bílaeign landsmanna var miklum mun minni en í dag og miðuðust bílastæðakröfur við þá staðreynd.  Því fer fjarri að allir íbúar svæðisins hafi aðgang að bílastæðum heima við hús sín eins og nú er áskilið í 3. mgr. 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar segir að á hverri lóð við íbúðarhús skuli vera bílastæði.  Undantekningu frá þessu er að finna í 10. mgr. sömu greinar en þar segir að heimilt sé að leysa lóðarhafa undan kvöð um bílastæði ef hann greiði bílastæðagjald samkvæmt 28. gr. reglugerðarinnar, en gjaldi þessu skal varið til uppbyggingar almenningsbílastæða í nágrenni viðkomandi lóðar. 

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að ekki hafi verið gengið svo gegn grenndarhagsmunum kærenda að ógilda beri byggingarleyfið og því er ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar staðfest.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002, sem staðfest var af borgarstjórn hinn 16. sama mánaðar, að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Sóleyjargötu 25, Reykjavík, er staðfest.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

51/2002 Aragerði

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 2. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2002, kæra fyrrum eiganda húseignarinnar að Aragerði 16, Vogum á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 9. september 2002 um að hafna umsókn hans um leyfi til að starfrækja myndbandaleigu í bílgeymslu að Aragerði 16, Vogum.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. september 2002, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir H, f.h. B, þáverandi eiganda húseignarinnar að Aragerði 16, Vogum, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 9. september 2002 að synja henni um leyfi til rekstrar myndbandaleigu í bílgeymslu að Aragerði 16, Vogum.
 
Kærandi krefst þess að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar verði felld úr gildi. 

Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps hinn 10. september 2002. 

Málavextir:  Hinn 30. júlí 2002 lagði H, f.h. B, fram umsókn til byggingarfulltrúa Vatnsleysustrandarhrepps þess efnis að lögð yrði af hefðbundin notkun bílgeymslu húseignarinnar að Aragerði 16, en þess í stað yrði þar starfrækt myndbandaleiga.  Umsóknin var tekin til afgreiðslu á fundi skipulags- og byggingarnefndar hreppsins sama dag, sem bókaði að þar sem ekki lægi fyrir staðfest deiliskipulag hverfisins skyldi fara fram grenndarkynning í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga áður en umsóknin yrði afgreidd.  Umsóknin skyldi grenndarkynnt lóðarhöfum Aragerðis 7, 9, 11, 12, 13, 14, 15, 17, 18, 20, og 33.  Athugasemdir bárust frá íbúum og eigendum húseigna að Aragerði 11, Aragerði 14 og Aragerði 17.  Athugasemdirnar lutu að því að starfsemin myndi hafa í för með sér aukna umferð um götuna, skort á bílastæðum ásamt ónæði og slysahættu. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 9. september 2002 var umsókn kæranda tekin til afgreiðslu að nýju og féllu atkvæði í atkvæðagreiðslu þannig að einn nefndarmaður samþykkti umsóknina með því skilyrði að séð yrði fyrir nægilegum fjölda bílastæða í samræmi við gr. 64 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Tveir nefndarmenn höfnuðu umsókninni með vísan til þess að starfsemin samrýmdist ekki íbúðarbyggð, sbr. gr. 4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, m.a. vegna ónæðis af umferð sem fylgdi þjónustustarfsemi af þessu tagi og skorts á bílastæðum.  Fjórði nefndarmaðurinn hafnaði umsókninni með vísan til framkominna athugasemda eftir grenndarkynningu.

Framangreindri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps skaut kærandi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst ógildingar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar með vísan til þess að á sama fundi nefndarinnar og umsókn hans hafi verið synjað hafi nágranna hans í sömu götu verið heimilað að starfrækja rafverkstæði í bílgeymslu.  Rökin þar að baki hafi verið þau sömu og notuð hafi verið til að synja honum um heimild til rekstrar myndbandaleigunnar.  Kærandi heldur því fram að við húsið sé stórt og gott bílastæði og á nokkrum stöðum í þorpinu sé atvinnurekstur í heimahúsum, t.d. hafi verið starfrækt myndbandaleiga í bílgeymslu.  Kærandi heldur því fram að í litlum þorpum, þar sem stutt sé í allar áttir, sé algengt að íbúar gangi eða hjóli eftir myndbandi en aftur á móti þeir sem reki erindi sín á rafverkstæði eigi þess síður kost. 

Málsrök skipulags- og byggingarnefndar:  Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar álítur að rekstur myndbandaleigu valdi ónæði og mikilli umferð í gróinni íbúðargötu.  Myndbandaleigan þjóni nær eingöngu íbúum við viðkomandi götu og samrýmist því ekki gr. 4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, þar sem segi m.a. að atvinnustarfsemi sem leyfð sé í íbúðarhúsum skuli valinn staður þannig að hún valdi hvorki hættu né óþægindum vegna umferðar eða annars ónæðis.  Einnig hafi meirihluta nefndarinnar þótt ljóst að ekki væri séð fyrir nægilega mörgum bílastæðum, sbr. 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þá hafi einnig legið fyrir neikvæð afstaða þeirra er tjáðu sig í grenndarkynningunni og ekki hafi þótt unnt að líta framhjá þeim athugasemdum.

Hvað varði samþykki skipulags- og byggingarnefndar til starfrækslu rafverkstæðis í sömu götu og kærandi þá hafi það verið mat nefndarinnar að sú starfsemi samrýmdist íbúðarbyggð því hún valdi ekki þeim óþægindum sem myndabandaleiga geri þar sem eðli starfseminnar sé allt annað.  Starfsemin dragi ekki að sér utanaðkomandi umferð að neinu marki og valdi því ekki íbúum götunnar óþægindum. 

Hvað varði myndbandaleiguna, sem kærandi vísi til í kæru sinni, þá hafi aðstæður þar verið allar aðrar, húsið standi nokkuð út af fyrir sig, sé við fjölfarna umferðargötu og þjóni stærra svæði.  Þá hafi þar verið nægilega mörg bílastæði. 

Niðurstaða:  Við rannsókn úrskurðarnefndarinnar á lokastigi málsins kom í ljós að fasteign sú sem um ræðir hefur verið seld og lætur núverandi eigandi mál þetta ekki til sín taka.

Með vísan til þessa eru ekki lengur lögvarðir hagsmunir tengdir því að úrskurður gangi í málinu og verður af þeim sökum ekki frekar fjallað um framkomnar kröfur. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri kærunni frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála
sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Ingibjörg Ingvadóttir

69/2000 Ránargata

Með

Ár 2002, fimmtudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2000, kæra eigenda fasteignarinnar að Ránargötu 9, Seyðisfirði á ákvörðun umhverfismálaráðs Seyðisfjarðar að hafna beiðni um breytingu á skráðri notkun hluta fasteignarinnar að Ránargötu 9, Seyðisfirði úr gistiheimili í íbúðarhúsnæði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. nóvember 2000, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar kærir Björn Jóhannesson hdl., fyrir hönd Þ, eiganda fasteignarinnar að Ránargötu 9, Seyðisfirði, þá ákvörðun umhverfismálaráðs Seyðisfjarðar frá 3. ágúst 2000 að hafna beiðni kæranda um breytingu á skráðri notkun hluta fasteignarinnar úr gistiheimili í íbúðarhúsnæði.   Ákvörðunin var staðfest af bæjarráði Seyðisfjarðar hinn 6. september 2000.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Fasteignin að Ránargötu 9, Seyðisfirði, er á svæði sem ætlað er til iðnaðarstarfsemi samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Seyðisfjarðar 1977-1997 og hefur svæðið verið lýst snjóflóðahættusvæði.  Svæðið mun ekki hafa verið deiliskipulagt.  Kærandi hefur búið í fasteigninni um árabil en nýtt hluta hússins undir gistiheimilisrekstur.  Hluti eignarinnar, matshluti 01.01, hefur verið skráður sem íbúð en aðrir matshlutar hússins, sem merktir eru 01.02, 01.03 og 01.04, hafa verið nýttir undir farfuglaheimili og eru skráðir sem atvinnuhúsnæði.

Hinn 7. júní 2000 sendi kærandi erindi til umhverfismálaráðs Seyðisfjarðar þar sem farið var fram á að samþykkt yrði breyting á skráningu fasteignarinnar að Ránargötu 9, þannig að sá hluti fasteignarinnar sem ætlaður væri til atvinnustarfsemi yrði breytt í íbúðarhúsnæði.  Umhverfismálaráð tók erindið fyrir á fundi sínum hinn 26. júní 2000 og samþykkti að leita umsagnar Skipulagsstofnunar um erindi kæranda þar sem fasteignin væri á hættusvæði vegna ofanflóða og svæðið væri skilgreint sem iðnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi.  Skipulagsstofnun gaf umsögn sína í bréfi, dags. 14. júlí 2000, þar sem m.a. segir:

„Skv. gildandi Aðalskipulagi Seyðisfjarðar 1977-1997, sem staðfest var 30. mars 1978, er lóðin á iðnaðarsvæði.  Ekkert bráðabirgðahættumat er til af þessu svæði, en svæði það sem næst stendur og tekið var til mats á hafnarsvæðinu vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi er á hættusvæði C samkvæmt drögum að reglugerð sbr. bréf Veðurstofu dags. 28. apríl 2000.  Þar kemur fram að óheimilt sé að byggja ný íbúðarhús eða nýtt atvinnuhúsnæði þar sem unnið er að staðaldri.  Þar má hins vegar breyta íbúðar- og atvinnuhúsnæði þó þannig að heildaráhætta á viðkomandi svæði aukist ekki.

Miðað við erindi eiganda Ránargötu 9 til umhverfismálaráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar dags. 7. júní 2000 virðist ekki standa til að breyta notkun hússins heldur að bæta rekstrarforsendur þeirrar starfsemi sem í húsinu er.

Til þess að hægt sé að meta hvaða breytingar heimilt verði að gera á Ránargötu 9 þarf að liggja fyrir bráðabirgðahættumat Veðurstofu Íslands og hefur Skipulagsstofnun óskað eftir slíku mati.  Skipulagsstofnun vill jafnframt benda á að samkvæmt gildandi aðalskipulagi Seyðisfjarðar er ekki gert ráð fyrir íbúðum á umræddri lóð þannig að breyta þarf aðalskipulagi ef breyta á landnotkun á lóðinni.”

Bráðabirgðahættumat Veðurstofu Íslands barst Skipulagsstofnun í bréfi, dags. 18. júlí 2000, og kom þar fram að fasteignin væri á snjóflóðahættusvæði í hæsta áhættuflokki og samkvæmt reglugerð mætti hvorki reisa íbúðarhús né atvinnuhúsnæði á umræddri lóð.  Ekki er tekin afstaða til umsóttrar breytingar á nýtingu lóðarinnar en á það bent að breyting úr gistiheimili í íbúðarhúsnæði breytti ekki miklu um slysahættu.  Loks var lögð áhersla á að húsið að Ránargötu 9 yrði ekki notað til íbúðar eða atvinnustarfsemi að vetri til en engin vandkvæði væru á nýtingu hússins að sumarlagi.

Umhverfismálaráð Seyðisfjarðar tók erindi kæranda til afgreiðslu á fundi hinn 3. ágúst 2000 og hafnaði erindinu með vísan til fyrrgreindra bréfa Skipulagsstofnunar og Veðurstofu Íslands.  Kærandi undi ekki þeirri ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur málskot sitt til úrskurðarnefndarinnar hafa borist innan kærufrests.  Tilkynning um ákvörðun umhverfismálaráðs Seyðisfjarðar hafi borist kæranda hinn 8. ágúst 2000 en staðfesting bæjarráðs á hinni kærðu ávörðun frá 6. september 2000 hafi ekki verið tilkynnt kæranda né staðfesting bæjarstjórnar sem síðar muni hafa komið til.  Með vísan til 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 sé kærufrestur í málinu þrír mánuðir frá því að tilkynning barst um afgreiðslu umhverfismálaráðs.

Kærandi bendir á að ástæða umsóknar um breytta notkun hluta fasteignarinnar að Ránargötu 9 væri að gistiheimilisrekstur hafi mjög dregist saman m.a. vegna snjóflóðahættu á vetrum en kærandi búi í íbúðarhluta hússins.  Hafi kærandi því í hyggju að gera húsið allt að íbúð og breyta kyndingu hússins í rafmagnskyndingu sem aðeins væri niðurgreidd vegna íbúðarhúsnæðis.

Hin kærða ákvörðun sé eingöngu byggð á bréfi Skipulagsstofnunar og bráðabirgðahættumati Veðurstofu Íslands en að mati kæranda veiti hvorugt bréfið tilefni til hinnar umdeildu niðurstöðu.  Endanleg umsögn Skipulagsstofnunar liggi ekki fyrir í málinu þar sem umsögn af þeirra hálfu hafi ekki verið gefin eftir að bráðabirgðhættumat Veðurstofu lá fyrir.  Ráða megi að tvær ástæður búi að baki synjun bæjaryfirvalda, annars vegar fyrirliggjandi snjóflóðahætta og hins vegar að breyta þurfi skipulagi svæðisins.

Sökum snjóflóðahættu hafi kærandi margoft þurft að rýma fasteignina að vetri til og séu rekstrarforsendur gistiheimilisrekstrarins því brostnar við óbreyttar aðstæður.  Hafi því verið ákveðið að bregðast við þessu með því að sækja um að húseignin yrði öll skráð sem íbúðarhúsnæði en það hefði í för með sér lægri rekstrarkostnað.  Hluti eignarinnar er nú skráður sem íbúð og hafa engar athugasemdir verið gerðar við það.  Bendir kærandi á að í umsókn sinni til umhverfismálaráðs hafi hann lýst sig fúsan til að ganga svo frá málum að núgildandi takmarkanir á nýtingu eignarinnar stæðu áfram.  Hvorki Skipulagsstofnun né Veðurstofan leggist gegn umbeðinni nýtingu fasteignarinnar og ekki verði séð að í breyttri notkun felist aukin áhætta.  Hættusjónarmið standi því ekki í vegi fyrir breyttri notkun, enda ráð fyrir því gert að nauðsynlegar takmarkanir á nýtingu hússins gildi áfram.

Þá verði ekki séð að samþykkt umsóknar kæranda hafi afgerandi áhrif á aðalskipulag bæjarins í ljósi þess að nú þegar sé hluti fasteignar kæranda skráður sem íbúð og notaður sem slíkur.  Telja verði að um sé að ræða óverulega breytingu sem óréttmætt sé að standi í veginum fyrir rétti kæranda til nýtingar eignarinnar þegar horft sé til hagsmuna kæranda af breyttri notkun.

Málsrök umhverfismálaráðs Seyðisfjarðar:  Úrskurðarnefndinni hafa ekki borist athugasemdir bæjaryfirvalda vegna kærumálsins en í bókun umhverfismálaráðs við afgreiðslu erindis kæranda er vísað til bréfs Skipulagsstofnunar frá 14. júlí 2000 og bráðabirgðahættumats Veðurstofu Íslands, dags. 18. júlí 2000.  Af þeirri skírskotun verður ráðið að forsendur afgreiðslunnar séu þær að fasteign kæranda standi á snjóflóðahættusvæði og umbeðin nýting eignarinnar sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun umhverfismálaráðs Seyðisfjarðar fól í sér synjun á umsókn kæranda um leyfi fyrir breyttri notkun fasteignar sem veitt er samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt 38. gr. laganna fara byggingarnefndir með byggingarmál undir yfirstjórn sveitarstjórna en umhverfismálaráð Seyðisfjarðar sinnir hlutverki byggingarnefndar í því sveitarfélagi.  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. nefndra laga getur sá, sem telur rétti sínum hallað með ákvörðun byggingarnefndar eða sveitarstjórnar, skotið málinu til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá því að honum var kunnugt um ákvörðunina.  Kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar umhverfismálaráðs er því einn mánuður. 

Tilkynning til kæranda um afgreiðslu á hinni kærðu ákvörðun ber með sér að honum var ekki leiðbeint um kæruheimild eða kærufrest og var tilkynningin því ekki í samræmi við 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Úrskurðarnefndin telur því rétt með hliðsjón af nefndum annmörkum að taka málið til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Fasteign kæranda er á svæði sem ætlað er til iðnaðar samkvæmt gildandi aðalskipulagi og hefur svæðið verið lýst hættusvæði vegna ofanflóða í hæsta áhættuflokki.  Fasteignin hefur verið notuð um árabil til íbúðar og gistiheimilisrekstrar og er hún skráð sem slík hjá Fasteignamati ríkisins.

Í gr. 4.18 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er fjallað um svæði undir náttúruvá.  Samkvæmt 2. mgr. gr. 4.18.1 fer landnotkun svæða, þar sem hætta er talin á ofanflóðum, eftir lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og reglugerð um nýtingu hættusvæða, og í 4. mgr. gr. 4.18.2 er tekið fram að fullt tillit skuli tekið til hættumats við alla skipulagsgerð.  Sami áskilnaður er í 4. mgr. 4. gr. laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. 

Í 2. gr. reglugerðar nr. 163/1998 um meðferð skipulagstillagna og veitingu byggingarleyfa í sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu er kveðið á um að leita skuli álits Skipulagsstofnunar ef veitt er byggingarleyfi samkvæmt deiliskipulagi á svæðum þar sem hætta er á ofanflóðum eða áður en byggingarleyfi er veitt á hættusvæðum þar sem ekki liggur fyrir skipulag né staðfest hættumat.  Skipulagsstofnun skal samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar senda slík erindi til Veðurstofu Íslands sem gerir bráðbirgðahættumat fyrir viðkomandi svæði, skilgreinir þær ráðstafanir sem gera þarf og setur viðeigandi skilyrði fyrir samþykkt erindisins.  Þá er í 4. gr. gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun taki erindið til afgreiðslu og tilkynni um álit sitt innan tveggja vikna frá því að stofnuninni barst bráðabirgðahættumat frá Veðurstofu Íslands og innan sex vikna frá því að stofnuninni barst erindið upphaflega.

Umsókn kæranda var meðhöndluð eftir greindum ákvæðum reglugerðar nr. 163/1998 en fallist er á það með kæranda að umsögn Skipulagsstofnunar sé ábótavant að því leyti að hún er gefin áður en stofnuninni barst bráðabirgðahættumat Veðurstofu.  Sú málsmeðferð fer í bága við 4. gr. reglugerðarinnar en líta verður þó svo á að þessi annmarki hafi ekki þá þýðingu um niðurstöðu máls þessa að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Reglugerð nr. 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða, flokkun og nýtingu hættusvæða og gerð bráðabirgðahættumats, tók gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. júlí 2000 eftir að umsögn Skipulagsstofnunar og bráðabirgðahættumat Veðurstofu Íslands lágu fyrir en áður en umhverfismálaráð og sveitarstjórn afgreiddu umsókn kæranda.  Í 3. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar kemur fram að á hættusvæðum C, sem hér á við samkvæmt bráðabirgðahættumati Veðurstofu Íslands, megi breyta íbúðar- og atvinnuhúsnæði þó þannig að heildaráhætta á viðkomandi svæði aukist ekki, t.d. með fjölgun íbúða eða fjölgun starfsmanna.  Í fyrirliggjandi bráðabirgðahættumati Veðurstofu Íslands vegna umsóknar kæranda kemur fram það álit að ekki breyti miklu um slysahættu hvort fasteign kæranda sé skilgreind sem íbúðar- eða atvinnuhúsnæði í ljósi þess að þar sé rekið gistiheimili en áhersla á það lögð að húsið verði ekki notað að vetrarlagi.  Af framansögðu verður ráðið að áhættusjónarmið standi ekki í veginum fyrir samþykkt umsóknar kæranda.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er ekki tekin efnisleg afstaða til umsóknar kæranda en bent á að ef breyta eigi landnotkun lóðarinnar þurfi að breyta aðalskipulagi svæðisins.  Samkvæmt 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 verða leyfi fyrir breytingum á notkun húsa að vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir.  Fasteign kæranda stendur á svæði ætluðu til iðnaðarnota samkvæmt gildandi aðalskipulagi og bæjaryfirvöldum því ekki heimilt, að óbreyttu skipulagi, að fallast á umsókn kæranda um breytta notkun hluta fasteignarinnar að Ránargötu 9 í íbúðarhúsnæði.  Með vísan til þess verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum þess fjölda mála sem kærður hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar umhverfismálaráðs Seyðisfjarðar frá 3. ágúst 2000 að synja um leyfi til að breyta notkun hluta fasteignarinnar að Ránargötu 9, Seyðisfirði, úr gistiheimili  í íbúðarhúsnæði er hafnað.

_________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir

2/2002 Laugavegur 3

Með

Ár 2002, mánudaginn 21. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingaverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2002, kæra nágranna á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. nóvember 2001 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri starfsemi og breyttu innra fyrirkomulagi á 1. hæð og í kjallara að Laugavegi 3 í Reykjavík og á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 20. mars 2002 um að hafna kröfu um afturköllun byggingarleyfisins.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. janúar 2002, gerir H, Laugavegi 5, Reykjavík grein fyrir því að skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur hafi synjað erindi hennar frá 10. desember 2001 um niðurfellingu byggingarleyfis fyrir veitingastað að Laugavegi 3 í Reykjavík.  Krefst hún þess að „…..úrskurðarnefndin taki málið upp sem fyrst og felli þegar í stað niður byggingarleyfi fyrir krána að Laugavegi 3.“ 

Við eftirgrennslan hjá byggingaryfirvöldum fengust þær upplýsingar að til meðferðar væri erindi Félagsíbúða iðnnema um afturköllun umrædds byggingarleyfis og lægi því ekki fyrir endanleg niðurstaða í málinu.

Með bréfi, dags. 24. apríl 2002, kærir Helga Björk Laxdal hdl., f.h. Félagsíbúða iðnnema útgáfu áðurnefnds byggingarleyfis frá 13. nóvember 2001 og synjun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 20. mars 2002 á erindi kæranda um afturköllun leyfisins.  Er þess krafist að ákvarðanir þessar verði felldar úr gildi.  Verður krafa þessa kæranda um ógildingu byggingarleyfisins tekin til meðferðar þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með vísan til aðdraganda málsins og með stoð í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærumál Félagsíbúða iðnnema hefur verið sameinað kærumáli því sem áður hafði borist frá H, enda er kæruefnið hið sama í báðum málunum og fara hagsmunir kærenda saman.

Málavextir:  Á lóðunum nr. 3 og 5 við Laugaveg í Reykjavík eru sambyggð steinhús á lóðamörkum og skilur þau einfaldur steinsteyptur brunagafl.  Á lóðinni nr. 5 er einnig timburhús, byggt að steinhúsinu að austanverðu.  Að Laugavegi 3 var um langt skeið rekið bankaútibú á 1. hæð en skrifstofur munu vera á efri hæðum hússins.  Í steinhúsinu að Laugavegi 5 eru þrjár íbúðir í eigu Félagsíbúða iðnnema.  Íbúð er einnig í timburhúsinu á lóðinni.  Umrædd hús standa á svæði sem deiliskipulagt var á árinu 1962 og var skipulag svæðisins samþykkt af Skipulagsnefnd ríkisins hinn 5. mars 1963 og staðfest af félagsmálaráðherra hinn 6. sama mánaðar.  Samkvæmt skipulaginu eru byggingar á reitnum fyrirhugaðar undir verslanir og skrifstofur.  Skipulag þetta hefur að mestu staðið óhaggað frá fyrstu gerð ef frá er talin breyting sem á því var gerð snemma á árinu 1990 vegna byggingar bílageymsluhúss við Traðarkotssund. 

Hinn 9. október 2001 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík fyrirspurn um það hvort veitt yrði leyfi til að innrétta veitingastað á 1. hæð í fyrrverandi húsnæði Búnaðarbankans að Laugavegi 3.  Með bréfi til Borgarskipulags, dags. 12. október 2001, óskaði byggingarfulltrúinn eftir umsögn Borgarskipulags Reykjavíkur um málið.  Borgarskipulag svaraði erindinu með umsögn, dags. sama dag, þar sem tekið var jákvætt í erindið.  Í ljósi umsagnarinnar afgreiddi byggingarfulltrúi fyrirspurnina „Jákvætt. Að uppfylltum skilyrðum.“ á fundi sínum þann 16. október 2001. Byggingarleyfisumsókn um breytta notkun húsnæðisins barst skömmu síðar.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 13. nóvember 2001 samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og staðfesti borgarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum þann 6. desember 2001.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 18. desember 2001 var lagt inn nýtt erindi vegna sama húsnæðis þar sem sótt var um leyfi til að fella niður hurð á kjallaragangi ásamt fleiri minniháttar breytingum frá þeim uppdráttum sem samþykktir höfðu verið hinn 13. nóvember 2001.  Samþykkti byggingarfulltrúi breytingar þær sem um var sótt og var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarstjórnar þann 17. janúar 2002.

Með bréfi, dags. 10. desember 2001, óskaði kærandi, H, eigandi íbúðar að Laugavegi nr. 5, eftir því við skipulags- og byggingarnefnd að nefndin endurskoðaði ákvörðun byggingarfulltrúa frá 13. nóvember 2001 um samþykkt byggingarleyfisins.  Var erindi hennar lagt fyrir skipulags- og byggingarnefnd þann 17. desember 2001.  Nefndin synjaði erindinu með vísan til umsagnar byggingarfulltrúa og Borgarskipulags, en einn nefndarmanna óskaði bókunar um að hann teldi eðlilegt að grenndarkynna breytingar eins og hér væri um að ræða fyrir hagsmunaaðilum í nágrenninu.  Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 3. janúar 2002 en kærandanum virðist fyrst hafa verið tilkynnt um ákvörðun nefndarinnar með bréfi dags. 2. janúar 2002.  Er það þessi málsmeðferð, ásamt fyrri afgreiðslu byggingarfulltrúa, sem Halla Bergþóra Pálmadóttir kærir til úrskurðarnefndarinnar. 

Með bréfi til skipulags- og byggingarnefndar, dags. 10. janúar 2002, krafðist Helga Björk Laxdal hdl. þess, f.h. Félagsíbúða iðnnema sem eigenda íbúða að Laugavegi nr. 5 að felld yrði úr gildi framangreind ákvörðun byggingarfulltrúa frá 13. nóvember 2001, um að veita leyfi til að innrétta veitingastað á 1. hæð hússins að Laugavegi 3.  Var erindinu vísað til umsagnar forstöðumanns lögfræði- og stjórnsýslusviðs skipulags- og byggignarsviðs á fundi nefndarinnar 16. janúar 2002. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 30. janúar 2002 var ákveðið að veita byggingarleyfishafa tækifæri til þess að tjá sig um fram komið erindi.  Bárust nefndinni sjónarmið hans nokkrum dögum síðar.  Málið var eftir þetta til meðferðar hjá byggingaryfirvöldum og var m.a. að frumkvæði þeirra haldinn fundur hinn 18. febrúar 2002 með hagsmunaaðilum, þar sem leitað var lausnar á ágreiningi aðila.

Viðræður þessar leiddu ekki til niðurstöðu og lauk skipulags- og byggingarnefnd umfjöllun sinni um málið á fundi hinn 20. mars 2002 með því að hafna erindi Félagsíbúða iðnnema um afturköllun hins umdeilda byggingarleyfis.  Var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 4. apríl 2002. 

Að fenginni þessari niðurstöðu vísaði lögmaður Félagsíbúða iðnnema málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 24. apríl 2002, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  H vísar einkum til röksemda sem fram koma í bréfi hennar  til skipulags- og byggingarnefndar, dags. 10. desember 2001.  Telur hún að hin umdeilda starfsemi að Laugavegi 3 samræmist ekki þróunaráætlun miðborgar, sem staðfest hafi verið af umhverfisráðherra 6. júlí 2000 og sé hluti aðalskipulags Reykjavíkur.  Þá hafi málsmeðferð verið áfátt og hafi borgaryfirvöldum m.a. verið skylt að láta fara fram grenndarkynningu áður en umsókn um breytta notkun húsnæðisins að Laugavegi 3 yrði tekin til afgreiðslu.  Telur Halla að gróflega hafi verið brotið gegn rétti hennar og að sitthvað í framgangi málsins virðist ekki samræmast lögum, hvað þá þróunaráætlun miðborgarinnar.

Af hálfu Félagsíbúða iðnnema er því haldið fram að við afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík, Borgarskipulags Reykjavíkur og skipulags- og byggingarnefndar auk borgarstjórnar Reykjavíkur hafi réttur þeirra til að kynna sér málið og mótmæla útgáfu byggingarleyfis, verið þverbrotinn.  Ekki hafi verið gætt ákvæðis 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði hafi grenndarkynning átt að fara fram áður en umsókn um hið umdeilda byggingarleyfi kom til afgreiðslu byggingaryfirvalda.  Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli aðalskipulags, enda fullnægi fyrirliggjandi deiliskipulag svæðisins ekki kröfum laga nr. 73/1997.

Væri skipulagsuppdráttur svæðisins frá 1963 hins vegar talinn fullgilt deiliskipulag um reitinn hefði þurft að gera lögformlegar breytingar á skipulaginu til þess að unnt væri að heimila þá breyttu landnotkun sem hin kærða ákvörðun fól í sér.  Hefði þá að lágmarki þurft að grenndarkynna áform um minni háttar breytingu á deiliskipulaginu áður en til álita gat komið að veita hið umdeilda byggingarleyfi, enda verði ekki fallist á að starfsemi krár falli undir skilgreiningu skipulagsins, sem kveði á um að á svæðinu sé gert ráð fyrir verslunum og skrifstofum. 

Hafa verði í huga að grenndarkynning miði öðrum þræði að því að tryggja réttaröryggi í samræmi við markmið 1. gr. skipulags- og byggingarlaga auk þess að tryggja rétt nágranna til að neyta andmælaréttar skv. 13. gr. stjórnsýslulaga.  Hafi verið sérstaklega ríkar ástæður til þess að kynna nágrönnum fyrirhugðar breytingar á notkun húsnæðisins að Laugavegi 3 þegar haft sé í huga hversu mikla röskun breytingin hafi haft í för með sér á högum og hagsmunum kærenda.

Augljóst verði einnig að telja að auðvelt hefði verið að kanna þau áhrif sem breytt starfsemi í húsnæðinu að Laugavegi 3 hefði á nágrenni sitt ef grenndarkynning hefði farið fram og hefði þá verið hægt að koma í veg fyrir tjón kæranda.  Því sé sérstaklega mótmælt að heimil landnotkun á svæðinu ráðist af ákvæðum aðalskipulags, en það geti aldrei rutt til hliðar ákvæðum skipulagsuppdráttanna.  Auk þess hefði borið að líta til ólögfestra reglna grenndarréttarins við ákvörðun í málinu.

Af hálfu Félagsíbúða iðnnema er því mótmælt að hið umdeilda byggingarleyfi eigi sér stoð í þróunaráætlun miðborgarinnar, enda geti ákvæði hennar ekki vikið til hliðar ófrávíkjanlegum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.  Auk þess sé túlkun byggingaryfirvalda á áætluninni í ýmsum efnum röng.  Þá hafi ekki verið gætt ákvæða laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þar sem ekki hafi verið aflað samþykkis meðeigenda að Laugavegi 3 fyrir breytingu á notkun 1. hæðar og kjallara en samþykki þeirra sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir leyfisveitingunni.

Að lokum þyki sérstök ástæða að benda á að um sé að ræða gífurlegt tjón fyrir Félagsíbúðir iðnnema eins og ráða megi af framlögðum gögnum frá lögreglu, uppsagnarbréfum leigjenda og niðurstöðum hljóðmælinga.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að umdeilt byggingarleyfi, sem samþykkt hafi verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík þann 13. nóvember 2001 og staðfest í borgarstjórn 6. desember 2001, breytt á fundi byggingarfulltrúa þann 18. desember 2001 og staðfest á fundi borgarstjórnar þann 17. janúar 2002, verði staðfest ásamt afgreiðslum skipulags- og byggingarnefndar um synjun á afturköllun byggingarleyfisins frá 17. desember 2001 og 20. mars 2002, sem staðfestar hafi verið í borgarstjórn Reykjavíkur þann 3. janúar og 4. apríl 2002.
 
Af hálfu Reykjavíkurborgar er í fyrsta lagi vitnað til fyrirliggjandi umsagna Borgarskipulags og byggingarfulltrúa frá 14. desember 2001 og skipulags- og byggingarsviðs frá 11. mars 2002.

Mótmælt er þeirri málsástæðu kærenda að deiliskipulag umrædds svæðis hafi ekki gildi m.t.t. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda fullnægi það í öllum meginatriðum þeim kröfum sem gerðar séu til deiliskipulags.  Að auki hafi það hlotið staðfestingu ráðherra og sé úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála af þeim sökum ekki bær til þess að skera úr um gildi þess.

Ekki sé fjallað með ítarlegum hætti um landnotkun í umræddu skipulagi.  Aðeins segi þar að byggingar á reitnum séu fyrirhugaðar undir verslanir og skrifstofur.  Orðalag þetta verði varla skýrt eða skilið á þann hátt að önnur starfsemi en sú sem felist í þrengstu merkingu orðalagsins sé óheimil á reitnum, eðlilegra sé að líta svo á að um sé að ræða stefnuyfirlýsingu um að æskileg notkun nýrra bygginga verði fyrir atvinnustarfsemi sem eðlilegt sé að starfrækja á miðbæjarsvæðum.  Auk þess verði að skýra ákvæði um landnotkun í svo gömlu skipulagi með hliðsjón af þeim reglum sem gilt hafi um skipulagsuppdrætti á þeim tíma þegar það hafi verið sett.  Á þeim tíma er umrætt skipulag hafi verið sett hafi gilt í þessu efni lög nr. 55/1921 um skipulag kauptúna og sjávarþorpa með síðari breytingum, en í þeim lögum hafi ekki verið fjallað með eins ítarlegum hætti um landnotkun og nú sé.  Síðar hafi komið til nákvæmari ákvæði um landnotkun, m.a. í reglugerð um gerð skipulagsáætlana nr. 217/1966.  Þar hafi verið kveðið á um miðbæjarhverfi á skipulagsskyldum stöðum með yfir 300 íbúa, þar sem fyrst og fremst skyldu vera verslunar- og skrifstofuhús ásamt byggingum til almannaþarfa og ýmis konar þjónustumiðstöðvar fyrir almenning.  Af þessu megi ráða að ekki hafi á þessum tíma verið fjallað um landnotkun á jafn ítarlegan hátt og nú sé gert og sé fráleitt að draga þá ályktun af orðalagi skipulagsins að á reitnum mættu einungis vera verslanir og skrifstofur í þrengstu merkingu þeirra orða.  Fremur verði að ætla að með verslunarhúsnæði hafi verið átt við hvers konar húsnæði undir verslun með sérvöru, matvöruverslanir og ýmis konar þjónustu, svo sem banka, veitingastaði, bakarí o.fl.  Falli þessi skýring að skilgreiningu hugtaksins verslun í orðabókum og samkvæmt almennri málvenju.  Þessi skilningur birtist og í skráningum Fasteignamats ríkisins þar sem verslunar- og skrifstofuhús séu skráð í einum flokki og í þann flokk falli veitingastaðir.  Einnig sé vísað til hugtakanotkunar í greinargerð með breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, sem gerð hafi verið í tengslum við Þróunaráætlun miðborgar, sem staðfest hafi verið í júlí 2000, en þar sé talað um verslunarhús sem húsnæði fyrir margháttaða verslunar- og þjónustustarfsemi, þar á meðal veitingastaði.  Sama skilning megi ráða af Aðalskipulagi Reykjavíkur frá 1962-1983.  Ef skilja ætti aðalskipulagið á annan hátt en að veitingastaðir féllu undir hugtakið verslun hefði hvergi verið gert ráð fyrir veitingastarfsemi í borginni, sem auðvitað væri fráleitt.

Væri hins vegar talið að orðalag umrædds skipulags fæli í sér þrengingu á landnotkun telur Reykjavíkurborg að sú þrenging ætti þá einungis við um nýbyggingar,  sem skipulagið hafi gert ráð fyrir, en ekki til þeirra húsa sem fyrir hafi verið á reitnum.  Leiði þetta af orðalagi skipulagsskilmálanna.  Um leyfilega notkun í hinum eldri húsum fari hins vegar eftir ákvæðum í aðalskipulagi. Þar sem húsið nr. 3. við Laugaveg hafi staðið fyrir á reitnum þegar skipulagið hafi verið sett, geti hugsanleg takmörkun á landnotkun ekki tekið til þess. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er áréttað að ekki verði byggt á væntingarsjónarmiðum kærenda í máli þessu, þ.e. að þeir hafi mátt skilja umrætt orðalag deiliskipulagsins svo þröngt sem þeir vilji nú skýra orðalag þess.  Í gögnum málsins komi fram að hvorugum kærendanna hafi verið kunnugt um tilvist umrædds deiliskipulags fyrr en Reykjavíkurborg hafi vakið athygli þeirra á tilvist þess. Væntingar kærenda hafa því byggt á ákvæðum aðalskipulags, sem hafi leyft notkunina eins og nánar verður greint frá síðar.

Í máli því sem hér sé til umfjöllunar hafi framangreint þó ekki grundvallarþýðingu. Frá staðfestingu umrædds skipulags hafa verið gerðar nokkrar aðalskipulagsáætlanir af Reykjavík.  Í þeim öllum hafi umræddur reitur verið innan svæðis sem haft hafi landnotkunina miðbæjarsvæði og síðar miðborg og miðhverfi.  Á þeim svæðum hafi almennt verið leyfð mun rýmri notkun en þrengsta túlkun framangreindra hugtaka í umræddu deiliskipulagi gerir ráð fyrir þ.m.t. veitingastaðir og íbúðir.

Reykjavíkurborg telji að þrátt fyrir að margumrætt orðalag skipulagsins yrði skilið svo þröngt sem kærendur hafi haldið fram þá hafi landnotkun reitsins verið rýmkuð ekki seinna en með staðfestingu Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 á þann veg sem greini í aðalskipulaginu.  Í því er í fyrsta skipti ótvírætt pósitíft ákvæði um að rekstur veitingastaða á svæðinu sé heimill.  Á grundvelli þess hafi því ekki einungis verið heimilt heldur skylt að veita byggingarleyfi fyrir umræddum veitingastað að Laugavegi nr. 3 að uppfylltum öðrum skilyrðum.  Þannig hafi Reykjavíkurborg túlkað skipulagið í framkvæmd enda hefði ella ekki verið veitt byggingarleyfi fyrir íbúðum kærenda né starfsemi banka á reitnum leyfð en þeir hafi um tíma verið tveir. 

Reykjavíkurborg byggi framangreinda niðurstöðu í fyrsta lagi á hinni viðurkenndu lögskýringarreglu „Lex superior“ um að æðri réttarreglur gangi framar lægra settum. Ljóst sé að aðalskipulag sé æðra deiliskipulagi skv. skipulags- og byggingarlögum. Aðalskipulagsáætlun sé grunnur deiliskipulagsáætlana sem gerðar séu á grundvelli þess og verði að vera í samræmi við það.  Í því sambandi verði að hafa í huga að bæði í eldri skipulagslögum og núgildandi skipulags- og byggingarlögum sé gengið út frá þeirri meginreglu að landnotkun sé ákveðin í aðalskipulagi enda sé það helsti tilgangur þeirrar gerðar skipulagsáætlana.  Stangist aðalskipulags- og deiliskipulagsáætlun á hvað þetta varði ráði því ákvæði aðalskipulagsáætlunarinnar.  Því verði að skýra ákvæði deiliskipulagsáætlunarinnar í samræmi við það.  Í öðru lagi byggi Reykjavíkurborg niðurstöðu sína á lögskýringarreglunni „Lex posterior“ um að yngri reglur gangi framar eldri en deiliskipulagið sé mun eldra en gildandi aðalskipulag.  Þá leiði samræmis- og jafnræðissjónarmið einnig til þessarar niðurstöðu.  Sömu sjónarmið hljóti að gilda um skýringu á þessum stjórnvaldsreglum (þ.e. ákvæðum aðalskipulags annars vegar og deiliskipulags hins vegar) og lögð séu til grundvallar við skýringu á ákvæðum eldri reglugerða þegar sett hafa verið ný lög en ný reglugerð ekki öðlast gildi eða ekki verið sett.  Í slíkum tilvikum sé eldri reglugerð almennt talin hafa gildi nema um þau atriði sem hún samræmist ekki ákvæðum hinna nýju laga. Sama regla hljóti að gilda um ákvæði deiliskipulags sem stangast á við ákvæði nýrri aðalskipulagsáætlunar.  
 
Með breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 sem gerð hafi verið í tengslum við Þróunaráætlun miðborgar og staðfest í júlí árið 2000, hafi verið settar nákvæmari reglur um landnotkun í miðborginni.  Umsókn byggingarleyfishafa hafi verið innan þess ramma sem þar hafi verið settur og því heimilt að veita byggingarleyfi fyrir umræddum veitingastað.

Samantekið sé það niðurstaða Reykjavíkurborgar að þar sem í gildi sé deiliskipulag fyrir reitinn hafi borgaryfirvöldum hvorki verið rétt né heimilt að grenndarkynna umrædda umsókn sem byggingarleyfisframkvæmd á ódeiliskipulögðu svæði skv. 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þar sem umsótt landnotkun að Laugavegi 3 hafi samræmst gildandi skipulagsuppdrætti, sem staðfestur hafi verið árið 1963, hafi heldur hvorki verið skylt né heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á honum.  Verði að telja að slík grenndarkynning hefði verð markleysa og að borgaryfirvöldum hefði ekki verið heimilt að taka tillit til athugasemda sem hugsanlega hefðu komið fram í henni nema kannski athugasemda sem lotið hefðu að byggingartæknilegum atriðum.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er því hafnað að andmælaréttur hafi verið brotinn á kærendum.  Sérreglur séu í skipulags- og byggingarlögum um andmælarétt hagsmunaaðila en ekki sé í þeim reglum gert ráð fyrir því að hagsmunaaðilar eigi andmælarétt þegar um sé að ræða framkvæmdir sem samræmist skipulagi eins og hér sé raunin.  Þá sé einnig hafnað þeim málsástæðum kærenda sem vísi til ólögfestra reglna grenndarréttarins.  Umræddar eignir séu á miðborgarsvæði og verði íbúar á slíkum svæðum að umbera starfsemi sem leyfð sé og tíðkuð á slíkum svæðum.  Hins vegar sé ljóst að hljóðstig í íbúðum kæranda hafi verið yfir viðmiðunarmörkum vegna þeirrar starfsemi sem rekin sé á grundvelli hins umdeilda byggingarleyfis.  Þessum annmörkum beri að gefa byggingarleyfishafanum kost á að bæta úr með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hafi raunar þegar verið lagt fyrir hann að bæta úr þessum annmörkum.

Reykjavíkurborg telur það ekki hafa þýðingu í málinu hvort starfsemin að Laugavegi 3 hafi verið talin falla í notkunarflokk A3 eða A4 þar sem það hefði einu gilt um niðurstöðuna um byggingarleyfið.  Í vinnureglum um afgreiðslu umsókna um breytta notkun á skilgreindum götusvæðum komi fram að þegar um breytta notkun sé að ræða beri byggingarfulltrúa að senda umsókn til Borgarskipulags, sem taki ákvörðun um grenndarkynningu. Ástæða þessarar reglu sé sú að stærstur hluti miðborgarinnar sé ódeiliskipulagður.  Í þorra slíkra tilvika þurfi því að skoða hvort grenndarkynningar sé þörf.  Í því tilviki sem hér um ræði sé hins vegar í gildi deiliskipulag af því svæði sem byggingarleyfisumsóknina varðaði. Hafi notkunarbreytingin verið talin samræmast því m.t.t. ákvæða aðalskipulags og hafi því að ekki verið talið að grenndarkynna þyrfti umsóknina.

Athugasemd Félagsíbúða iðnnema um að ekki hafi verið aflað samþykkis annarra eigenda að Laugavegi 3 telur Reykjavíkurborg ekki hafa þýðingu í máli þessu enda hafi þeir ekki gert athugasemd við byggingarleyfið né séu þeir aðilar að kærumálinu.

Fallast megi á að Félagsíbúðir iðnnema hafi orðið fyrir einhverju tjóni vegna málsins. Það sé þó ekki ógildingarástæða fyrir hinni kærðu ákvörðun. Í því sambandi sé rétt að fram komi að Reykjavíkurborg hafi haft allt húsnæði þeirra að Laugavegi nr. 5 á leigu frá því í maí 2002 og þar með takmarkað tjón eigandans að nokkru leyti.

Reykjavíkurborg ítrekar þá kröfu sína að hið kærða byggingarleyfi standi óraskað enda samræmist það gildandi deiliskipulagi og staðfestu aðalskipulagi eins og gerð hafi verið ítarlega grein fyrir. Í ljósi þess sé fráleitt að formreglur skipulags- og byggingarlaga um grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknarinnar hafi verið brotnar enda geri lögin ekki ráð fyrir því að grenndarkynna beri byggingarleyfisumsóknir sem samræmist gildandi skipulagi.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af  hálfu byggingarleyfishafa eru gerðar sömu kröfur í málinu og af hálfu Reykjavíkurborgar.  Hann telur málið nægilega vel upplýst til þess að taka megi það til úrlausnar.  Tekið sé undir öll þau sjónarmið sem fram komi í greinargerð Reykjavíkurborgar í málinu.  Að auki sé sérstaklega bent á að byggingarleyfið sé ívilnandi stjórnvaldsákvörðun og hafi það þýðingu við mat á því hvort fallast beri á kröfur kærenda um ógildingu þess.  Ógilding leyfisins myndi hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir leyfishafann og sé sérstaklega varað við því að fara þá leið enda séu önnur og vægari úrræði tiltæk, svo sem að bæta hljóðeinangrun en að því sé unnið.  Að mati byggingarleyfishafa séu því, með vísan til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ekki forsendur til þess að fella úr gildi eða afturkalla byggingarleyfið.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð nánari grein fyrir röksemdum aðila í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 43. gr.  skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er óheimilt að breyta húsi eða notkun húss nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Byggingarnefndir fara með afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi, eða byggingarfulltrúi, hafi samþykkt verið sett um þá tilhögun með lögformlegum hætti.

Með samþykkt nr. 661/2000, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. september 2000, var byggingarfulltrúanum í Reykjavík falin fullnaðarafgreiðsla fjölmargra erinda, þar á meðal afgreiðsla umsókna um byggingarleyfi til breytinga á húsum eða notkun húsa.  Í 5. gr. nefndrar samþykktar segir að um afgreiðslur byggingarfulltrúa gildi, eftir því sem við eigi, ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum.   Samkvæmt vinnureglum byggingaryfirvalda í Reykjavík um afgreiðslu umsókna um breytta notkun húsnæðis á skilgreindum götusvæðum (skv. þróunaráætlun miðborgar) ber byggingarfulltrúa að senda umsókn til Borgarskipulags, sem tekur ákvörðun um grenndarkynningu.  Sýnist þessari vinnureglu vera ætlað að tryggja að gætt sé ákvæðis 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 við meðferð umsókna um breytingar á notkun húsnæðis.

Í samræmi við framangreint leitaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík afstöðu Borgarskipulags til fyrirspurnar um byggingarleyfi það sem um er deilt í máli þessu.  Í umsögn Borgarskipulags, dags. 12. október 2001, kemur ekki fram að í gildi sé deiliskipulag á svæði því sem hér um ræðir.  Er þess í stað vitnað til ákvæða í aðalskipulagi og þróunaráætlun miðborgar og breytingin talin jákvæð „….í anda megin markmiða þróunaráætlunar miðborgarinnar“.  Engin afstaða er tekin til þess hvort grenndarkynna beri erindi umsækjanda.

Á grundvelli þessarar niðurstöðu veitti byggingarfulltrúinn umbeðið byggingarleyfi á afgreiðslufundi hinn 13. nóvember 2001.

Kærandinn, H, óskaði þess með bréfi, dags. 10. desember 2001, að skipulags- og byggingarnefnd tæki ákvörðun byggingarfulltrúa um veitingu leyfisins til endurskoðunar og léti þegar í stað fara fram grenndarkynningu þar sem um breytta notkun væri að ræða. 

Í umsögn byggingarfulltrúa og Borgarskipulags um erindi þetta, dags. 14. desember 2001, kemur m.a. fram að umrætt húsnæði sé á miðborgarsvæði þar sem heimilt sé að reka veitingastaði, sé verslunarhúsnæði ekki undir tilteknu lágmarki.  Samkvæmt því megi eigendur húsnæðis á svæðinu búast við slíkri starfsemi.  Hafi það því verið mat Borgarskipulags að ekki þyrfti að grenndarkynna umsóknina.  Segir síðar í umsögninni að við samþykkt byggingarfulltrúa á erindi umsækjanda hafi verið til staðar þær lögformlegu forsendur sem krafist sé samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sbr. einnig megin markmið þróunaráætlunar miðborgar og aðalskipulag Reykjavíkur.  Hvergi er hins vegar að því vikið í umsögninni að í gildi sé deiliskipulag fyrir umrætt svæði. 

Með vísan til þessarar umsagnar hafnaði skipulags- og byggingarnefnd framangreindu erindi frá 10. desember 2001 um endurskoðun á ákvörðun byggingarfulltrúa um veitingu hins umdeilda byggingarleyfis. 

Löngu síðar og í tilefni af ítarlegu erindi Félagsíbúða iðnnema til skipulags- og byggingarnefndar, dags. 10. janúar 2002, tóku byggingaryfirvöld að vísa til þess að í gildi væri deiliskipulag fyrir umrætt svæði og að hið umdeilda byggingarleyfi hefði átt stoð í þessu skipulagi eins og það hefði verið túlkað af hálfu Reykjavíkurborgar.  Hefði byggingaryfirvöldum því hvorki verið rétt né heimilt að grenndarkynna umsókn byggingarleyfishafa sem umsókn um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði.  Var Félagsíbúðum iðnnema sendur deiliskipulagsuppdráttur svæðisins með bréfi hinn 1. febrúar 2002.

Úrskurðarnefndin telur að verulegir ágallar hafi verið á þeirri málsmeðferð sem að framan er lýst.  Ef ætlan borgaryfirvalda var sú að byggingarleyfið ætti sér stoð í aðalskipulagi og ákvæðum um landnotkun í þróunaráætlun miðborgarinnar var fjallað um leyfið á grundvelli aðalskipulags og bar þá samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 að viðhafa grenndarkynningu í málinu.  Ekki nægði að vísa til þróunaráætlunar miðborgar, enda er hún hluti aðalskipulagsins og ætlað að vera forsögn að deiliskipulagi einstakra reita innan miðborgarinnar eins og fram kemur í kafla Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 um miðborg.  Tilvísun til deiliskipulags síðar breytir ekki því að forsendur hinnar kærðu ákvörðunar og rökstuðningur henni tengdur stóðust ekki og var málatilbúnaður byggingaryfirvalda til þess fallinn að torvelda kærendum að gæta réttar síns í málinu.  Þá skorti á að grenndaráhrif fyrirhugaðrar breytingar væru rannsökuð á fullnægjandi hátt áður en umdeilt leyfi var veitt.  Virðist m.a. ekki hafa verið gengið úr skugga um gerð veggjar þess sem skilur að húsin nr. 3 og 5 við Laugaveg en af málsgögnum verður ráðið að aðalhönnuður breytingarinnar hafi talið vegginn tvöfaldan með loftbili eða einangrun á milli en að síðar hafi komið í ljós að um einfaldan óeinangraðan steinvegg sé að ræða.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að fullnægjandi rannsókn hefði leitt í ljós að fyrirhuguð framkvæmd hefði í för með sér hljóðstig yfir viðmiðunarmörkum byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og reglugerðar um hávaða nr. 933/1999 í íbúðum kærenda að Laugavegi 5, svo sem raunin varð.

Jafnvel þótt fallist væri á síðbúin rök byggingaryfirvalda um að hið umdeilda byggingarleyfi hafi verið veitt á grundvelli staðfests deiliskipulags er það niðurstaða nefndarinnar að breyta hefði þurft gildandi skipulagsskilmálum svæðisins áður en unnt hefði verið að veita umrætt leyfi.  Hefði að lágmarki þurft að fara með málið eins og um minni háttar breytingu á deiliskipulagi væri að ræða.  Hefði því einnig í því falli þurft að koma til grenndarkynningar, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997.  Fellst úrskurðarnefndin ekki á þá túlkun borgaryfirvalda að skilmálar skipulagsins taki aðeins til bygginga sem síðar áttu að rísa enda er ekki vísað til fyrirhugaðra bygginga í skilmálunum heldur segir þar að byggingar á reitnum séu fyrirhugaðar undir verslanir og skrifstofur.  Nefndin fellst ekki heldur á þá víðu orðskýringu að undir verslanir og skrifstofur falli rekstur veitinga- eða öldurhúsa.  Þá þykir það ekki hafa þýðingu þótt byggingaryfirvöld hafi ekki virt skipulagsskilmála svæðisins og leyft þar íbúðir eða aðra notkun í andstöðu við skilmálana, en sú staðreynd hefði hins vegar getað orðið tilefni til endurskoðunar deiliskipulagsins, sbr. 2. málslið 11. tl. ákvæða til bráðabirgða með lögum nr. 73/1997.

Hafnað er þeirri túlkun borgaryfirvalda að ákvæði aðalskipulags gangi framar ákvæðum deiliskipulags um landnotkun.  Er sá skilningur í mótsögn við ákvæði 2. og 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um deiliskipulag, þar sem ótvírætt kemur fram að deiliskipulag sé nánari útfærsla á ákvæðum aðalskipulags og að ákveða megi þrengri landnotkun einstakra reita, lóða húsa eða húshluta í deiliskipulagi, að því tilskildu að notkunin sé innan landnotkunarramma aðalskipulags fyrir viðkomandi svæði.  Hefur rýmkun landnotkunar í aðalskipulagi ekki áhrif á þegar skilgreinda landnotkun deiliskipulagðra svæða nema þegar svo háttar til að í deiliskipulagi er vísað til ákvæða aðalskipulags um landnotkun.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun hafi verið haldin verulegum annmörkum.  Hún hafi í upphafi ekki verið reist á lögmætum grundvelli og málsrannsókn hafi verið áfátt.  Þá hafi ákvörðunin ekki getað átt sér stoð í deiliskipulagi svæðisins að óbreyttu.  Að auki hafi hún haft í för með sér óviðunandi röskun á högum kærenda.  Þykja þessir ágallar svo verulegir að fella beri hið umdeilda byggingarleyfi úr gildi.

Miðað við þá niðurstöðu sem að framan greinir verður ekki fjallað sérstaklega um aðrar kröfur kærenda er lúta að meðferð borgaryfirvalda á erindum um endurskoðun eða afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega.  Stafar það af miklum önnum úrskurðarnefndarinnar og töfum við gagnaöflun en verulega dróst að nefndinni bærust gögn og málsrök borgaryfirvalda í málinu.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. nóvember 2001 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri starfsemi og breyttu innra fyrirkomulagi á 1. hæð og í kjallara að Laugavegi 3 í Reykjavík, með síðari breytingu, er felld úr gildi.

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir