Á þriðja ársfjórðungi þessa árs bárust úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 53 kærur en á fyrri helming ársins bárust 50 kærur. Það sem af er árs hafa því borist 103 kærur, en á sama tíma hefur úrskurðarnefndin lokið 119 kærumálum.
Til meðferðar í upphafi síðasta ársfjórðungs eru 98 kærumál. Af þeim voru 15 mál kærð til úrskurðarnefndarinnar á árinu 2018 og eru í forgangi nefndarinnar. Gögn í fjórum þeirra mála bárust þó ekki fyrr en á árinu 2019 auk þess sem önnur fjögur eru í frestum vegna óska kæranda eða á meðan á meðferð mála stendur yfir á öðrum vettvangi.
Miðað við aukningu kærumála á nýliðnum ársfjórðungi lætur líkum að því að kærumál þessa árs verði heldur fleiri en meðaltal áranna 2012-2015, sbr. töflu hér að neðan.
Meðalmálsmeðferðartími lokinna mála á þriðja ársfjórðungi þessa árs er 228 dagar eða sjö mánuðir og 15 dagar, sem er töluvert styttri tími en á fyrri helming þessa árs. Meðalmálsmeðferðartími ársins lækkaði að sama skapi og er miðað við það sem af er liðið árs 272 dagar eða 8 mánuðir og 29 dagar. Hefur meðalmálsmeðferðartími ekki verið styttri frá árinu 2017. Má gera ráð fyrir að meðalmálsmeðferðartími þessa árs verði í það minnsta ekki meiri en 290 dagar.