Árið 2023, miðvikudaginn 13. september 2023, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 96/2023, kæra á drátt á afgreiðslu máls hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík vegna skúrs á lóð nr. 4 við Urðarstíg.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2023, er barst nefndinni 9. s.m., gerir eigandi Urðarstígs 6 og 6A, þá kröfu að skúr á lóð Urðarstígs 4 verði fjarlægður eða færður þrjá metra frá lóðarmörkum Urðarstígs 6–6A.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. ágúst 2023.
Málsatvik og rök: Á lóð Urðarstígs 4 stendur stakstæður skúr við lóðamörk þeirrar lóðar og lóðar Urðarstígs 6–6A, en á síðarnefndu lóðinni er að finna byggingarnar Urðarstíg 6 og 6A sem eru báðar í eigu kæranda. Með tölvubréfi, dags. 29. júní 2023, óskaði kærandi eftir því við byggingarfulltrúann í Reykjavík að skúrinn yrði fluttur þrjá metra frá lóðarmörkum Urðarstígs 6-6A. Ítrekaði kærandi erindið 3. júlí s.á. en því var ekki svarað af hálfu byggingarfulltrúa. Hinn 11. júlí 2023 samþykkti embættið umsókn eiganda Urðarstígs 4 fyrir viðbyggingu við suðurgafl húss þeirrar lóðar. Á framlögðum uppdrætti var gert grein fyrir umræddum skúr þar sem sagði að hann hefði verið reistur fyrir mörgum árum með samþykki nágranna.
Kærandi bendir á að skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli leita samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar fyrir smáhýsi sem séu minna en þrjá metra frá lóðamörkum. Kærandi hafi verið eigandi Urðarstígs 6 síðan 1995 og Urðarstígs 6A frá 2020 og hafi hvorki gefið munnlegt né skriflegt leyfi fyrir hinum umþrætta skúr. Skúrinn sé ekki að finna á deiliskipulagi svæðisins og hafi því ekki verið tekinn með í útreikningi á nýtingarhlutfalli lóðar Urðarstígs 4. Skúrinn sé 50 cm frá útveggi Urðarstígs 6A en þakrenna sé aðeins 13 cm frá útveggnum og auk þess innan lóðarmarka Urðarstígs 6–6A. Nálægðin geri viðhald ómögulegt og skapi sambrunahættu. Bent sé á að skúrar geymi oft hluti á borð við gaskúta, grill, leysiefni, hleðslubatterí og annað sem eldhætta stafi af.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að kæra málsins feli í sér kröfu um tilteknar aðgerðir af hálfu borgaryfirvalda. Er þess krafist að þeim kröfum verði vísað frá enda sé engri kæranlegri stjórnsýsluákvörðun til að dreifa.
Eigandi Urðarstígs 4 bendir á að skúrinn hafi verið reistur árið 2017, þ.e. áður en kærandi varð eigandi að Urðarstíg 6A. Nágrannar aðliggjandi lóða hafi veitt samþykki fyrir skúrnum og sé það tilgreint á aðaluppdrætti samþykktum af byggingarfulltrúa. Eldri skúr hafi áður staðið á lóðinni með sömu fjarlægð frá Urðarstíg 6A.
Niðurstaða: Hlutverk byggingarfulltrúa sveitarfélaga í lögum nr. 160/2020 um mannvirki er m.a. að annast eftirlit með mannvirkjagerð. Samkvæmt 55. og 56. gr. laganna hafa þeir, og eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, heimildir til að beita þvingunarúrræðum. Líkt og fram kemur í málsatvikalýsingu óskaði kærandi eftir því við byggingarfulltrúa að hann myndi beita slíkum úrræðum. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni óskaði nefndin eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg um hvort því erindið hafi verið svarað, en það mun ekki hafa verið gert. Liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun í málinu sem bindur enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með hliðsjón af því að erindi kæranda frá 29. júní 2023 hefur ekki enn fengið úrlausn hjá til þess bæru stjórnvaldi þykir að svo komnu máli þó ekki rétt að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni heldur líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu erindis kærenda, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Byggingarfulltrúi hefur ekki brugðist við erindi kæranda en það var lagt fram fyrir tæpum tveimur og hálfum mánuði. Verður að því virtu lagt fyrir byggingarfulltrúa að svara erindinu, án ástæðulauss dráttar. Ákvörðun hans um hvort beita beri þvingunarúrræðum eða ekki er síðan eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að svara, án ástæðulauss dráttar, erindi kæranda frá 29. júní 2023.