Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

28/2023 Efnistaka í Hrossadal

Árið 2023, mánudaginn 3. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 28/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. janúar 2023 um að synja umsókn um að skilgreint verði nýtt efnistöku- og efnislosunarsvæði í Hrossadal í aðalskipulagi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. febrúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Miðdalur ehf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. janúar 2023 að synja umsókn um að skilgreint verði nýtt efnistöku- og efnislosunarsvæði í landi Hrossadals í aðalskipulagi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 28. mars og 3. apríl 2023.

Málavextir: Kærandi sótti um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar vegna efnistöku í landi Hrossadals sem er í eigu kæranda. Hinn 3. október 2018 tók bæjarstjórn Mosfellsbæjar þá ákvörðun að ráðast í endurskoðun Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2011–2030. Á fundi skipulagsnefndar 1. febrúar 2019 var erindi kæranda vísað til endurskoðunar aðalskipulags.

Samkvæmt gögnum málsins ítrekaði kærandi erindi sitt með tölvupóstum til bæjaryfirvalda á árunum 2020 og 2021 og fékk þau svör að málið væri í farvegi og hann yrði upplýstur um stöðu málsins. Á fundi skipulagsnefndar 14. desember 2022 var umsókn kæranda tekin fyrir og synjað með rökstuðningi. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðsluna á fundi 18. janúar 2023. Er kærandi spurðist fyrir um stöðu málsins upplýsti skipulagsfulltrúi hann um framangreinda afgreiðslu með tölvupósti 27. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að á þeim tíma sem málið hafi verið til meðferðar hafi ítrekað verið leitað upplýsinga um stöðu málsins en aldrei hafi fengist önnur svör en að málið væri í vinnslu. Kærandi hafi þó oft boðið fram aðstoð sína við upplýsingaöflun. Sveitarfélagið hafi brotið gegn andmæla- og upplýsingarétti kæranda, sbr. 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem kærandi hafi ekki verið upplýstur um aðkomu tiltekins ráðgjafa um umhverfismál við vinnslu aðalskipulagsins og gagna sem stafað hafi frá honum en þau hafi haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar. Ekki hafi verið leitað til kæranda um sjónarmið sem horft hafi verið til við töku hinnar kærðu ákvörðunar og hvort hægt væri að mæta þeim með mótvægisaðgerðum og skilyrðum. Því sé einnig um brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að ræða. Mikilvægt sé að öll sjónarmið sem máli skipti séu könnuð til hlítar, m.a. með upplýsingaöflun frá málsaðila, en verulega vanti upp á það í málinu.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að bæjarstjórn hafi samþykkt 3. október 2018 að hefja endurskoðun aðalskipulags, sbr. gr. 4.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, og hafi hún hafist formlega hjá sveitarfélaginu haustið 2020. Þá hafi erindi og tillaga kæranda verið til formlegrar meðferðar og umfjöllunar. Endurskoðun aðalskipulagsins standi enn yfir og því líti sveitarfélagið svo á að málið sé enn til meðferðar hjá sveitarfélaginu. Því liggi ekki fyrir endanleg ákvörðun í máli þessu. Hin kærða ákvörðun sé aðeins einn hluti ferlis við gerð og undirbúning nýs aðalskipulags, kynningu og samráðs skv. 30. gr. skipulagslaga. Aðsendum tillögum og óskum hafi ýmist verið synjað eða samþykkt um innleiðingu breytinga í frumdrög aðalskipulags, sem síðar verði kynnt í samræmi við 2. mgr. sömu lagagreinar. Bæjaryfirvöld hafi því ekki tekið endanlega ákvörðun um efni aðalskipulagsins eða staðfest tillögurnar, enda sé um vinnudrög að ræða. Engin endanleg stjórnsýsluleg ákvörðun hafi verið tekin um nýtt aðalskipulag í samræmi við 32. gr. skipulagslaga. Hagaðilum muni gefast tækifæri til athugasemda við stefnumörkun skipulagsins þegar eftir því verði leitað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi mótmælir rökum sveitarfélagsins um að vísa eigi málinu frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggi formleg ákvörðun skipulagsnefndar og bæjarstjórnar um að synja erindi kæranda um að færa fyrirhugaða námu í aðalskipulag, en það sé forsenda þess að unnt sé að sækja um nýtingarleyfi. Langur tími sé liðinn frá því að kærandi hafi leitað til sveitarfélagsins og því sé nauðsynlegt að fá efnislegan úrskurð í málinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar á erindum kæranda um breytta landnotkun á landareign hans í Mosfellsbæ. Kærandi sótti um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar og hefur mál hans verið til meðferðar hjá sveitarfélaginu allt frá árinu 2016, en um haustið það sama ár ákvað bæjarstjórn að hefja endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins.

Ákvarðanir og stefna um landnotkun eru almennt teknar með aðalskipulagi en sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð og afgreiðslu þess samkvæmt 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga kemur fram að aðalskipulag er háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Þær ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga.

Í erindi kæranda um breytta landnotkun felst beiðni um breytingu Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2011–2030. Endurskoðun þess skipulags stendur nú yfir og var erindi kæranda sett í þann farveg hjá sveitarfélaginu, svo sem rakið hefur verið fyrir nefndinni. Málsmeðferð vegna endurskoðunarinnar mun ljúka með staðfestingu Skipulagsstofnunar og eftir atvikum ráðherra. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að fjalla um greint álitaefni.

Af því sem að framan er rakið er ljóst að ekki er fyrir hendi nein sú ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndin. Verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.