Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2023 Lónsbraut

Árið 2023, fimmtudaginn 8. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 20. janúar 2023 um að leggja dagsektir á eiganda Lónsbrautar 66 og 70.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. apríl 2023, er barst nefndinni 15. s.m., kærir eigandi Lónsbrautar 66 og 70 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnar­fjarðar frá 20. janúar s.á. að leggja 20.000 kr. dagsektir á hvora eign. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá krefst kærandi endurgreiðslu kostnaðar vegna reksturs kæru­málsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 9. maí 2023.

Málavextir: Með bréfi, dags. 2. nóvember 2022, var öllum eigendum bátaskýla við Lónsbraut í Hafnarfirði sent samhljóða bréf frá umhverfis- og skipulagssviði Hafnarfjarðar. Í bréfinu kom fram að á bæjarlandi, umhverfis lóðirnar við Lónsbraut, hefði safnast mikið dót og voru eigendur þess beðnir að fjarlægja þá lausafjármuni sem þeim tilheyrðu. Frárennslislagnir væru ekki til staðar á svæðinu og lónið friðlýst og því væri ekki heimilt að vera með salerni, skolplagnir út í lónið eða rotþrær. Eigendum þeirra eigna sem væru með skolplagnir og/eða rotþró væri gert að fjarlægja þær hið fyrsta. Búseta væri með öllu óheimil á svæðinu. Þeir eigendur sem hafi byggt t.d. svalir, kjallara o.fl. sem ekki væri samkvæmt samþykktum teikningum var bent á að fjarlægja slíkar óleyfisframkvæmdir. Var skorað á eigendur að bregðast við og gera úrbætur hið fyrsta en eigi síðar en innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins, ella væri Hafnarfjarðar­kaupstað heimilt að láta vinna verkið á kostnað eiganda eða leggja á dagsektir í samræmi við 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Með bréfi, dags. 16. desember s.á., sem sent var á alla eigendur bátaskýla við Lónsbraut, var beiðni um úrbætur ítrekuð af hálfu umhverfis- og skipulagssviðs. Var gefinn tveggja vikna frestur til að bregðast við og gera úrbætur og upplýst að byggingarfulltrúi hygðist skoða skýlin að innan ásamt fulltrúa heilbrigðiseftirlits 4. janúar 2023 milli klukkan 11:00 og 12:00. Var því beint til eigenda að vera á staðnum á þeim tíma. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 18. janúar 2023 var samþykkt að leggja dagsektir, kr. 20.000, á eigendur bátaskýla við Lóns­braut sem ekki hefðu brugðist við frá og með 1. febrúar s.á. í samræmi við 56. gr. laga um mann­virki. Með bréfi, dags. 20. s.m., var eigendum bátaskýla við Lónsbraut tilkynnt um ákvörðun byggingarfulltrúa um að leggja á dagsektir frá og með 1. febrúar 2023.

Með tölvupósti, dags. 31. janúar 2023, hafði kærandi, sem var staddur erlendis, samband við byggingarfulltrúa og óskaði upplýsinga um hvort tekin hefði verið ákvörðun um beitingu dag­sekta og ef svo væri að fá bréfin sem honum hefðu verið send í tölvupósti. Fékk kærandi bréfin send með tölvupósti samdægurs. Með tölvupósti sama dag óskaði kærandi eftir þriggja mánaða fresti og ítarlegum rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Með tölvupósti 7. febrúar s.á. var álagning dag­sekt­anna rökstudd auk þess sem fram kom „þér hefur verið veittur frestur til 15. apríl nk. Ef ekki hefur verið brugðist við ábendingum fyrir þann tíma verða dagsektir 20. þúsund krónur lagðar á afturvirkt frá 1. febrúar sl. í samræmi við ákvörðun afgreiðslufundar skipulags- og byggingar­fulltrúa“.

Með tölvupósti 17. mars 2023 hafði lögmaður kæranda samband við sveitarfélagið vegna málsins. Benti hann á að kærandi hefði óskað eftir fresti til að kæra málið og farið fram á ítar­legan rökstuðning fyrir afgreiðslu byggingarfulltrúa. Kærandi hafi talið sig hafa fengið frest til 15. apríl s.á. til að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála enda hefði hann verið staddur erlendis til 28. mars s.á. Með tölvupósti 20. mars s.á. ítrekaði lögmaður kæranda þann skilning umbjóðanda síns að hann hefði talið sig hafa fengið frest til 15. apríl til að kæra málið til úrskurðarnefndarinnar en ekki til úrbóta. Óskaði hann eftir því að bærinn kæmi til móts við kæranda þar sem upplýsingar hafi misfarist varðandi kæru­frest. Var lögmanni kæranda svarað með tölvupósti 21. s.m. þar sem fram kom „[v]ið sam­þykkjum að þú kærir þetta, við erum samt ekki sammála þinni túlkun“.

 Málsrök kæranda: Bent er á að ákvörðun dagsekta byggist á almennum athugasemdum til eigenda bátaskýla við Hvaleyrarlón í Hafnarfirði. Enginn rökstuðningur hafi fylgt ákvörðunar­bréfi til hvers og eins eiganda. Óheimilt sé að leggja á íþyngjandi dagsektir með þessum hætti þrátt fyrir að boðið sé upp á rökstuðning í bréfinu síðar. Allir eigendur húsa við Lónsbraut hafi fengið sama bréfið. Byggingarfulltrúi hafi ekki skoðað hús kæranda og því hafi engin rannsókn farið fram á hvernig umhorfs sé í þeim. Þannig hafi rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið brotin þar sem málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst.

Kærandi hafi enn fremur ekki haft tækifæri til að nýta andmælarétt sinn skv. 13. gr. stjórn­sýslu­laga þar sem hann hafi verið staddur í Tælandi þegar bréf bæjarins hafi verið send honum 2. nóvember og 16. desember 2022. Hann hafi fyrst frétt af málinu 31. janúar 2023, án þess þó að hafa séð bréfið eða afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Í samskiptum lögmanns kæranda við Hafnarfjarðarbæ hafi verið óskað eftir að bærinn myndi draga ákvörðun um dagsektir til baka en því hafi verið hafnað en samþykkt að kærandi héldi kærufresti til 15. apríl vegna aðstæðna hans þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Dagsektirnar hafi verið lagðar handahófskennt á eigendur bátaskýlanna án þess að sundurgreina hvað hver og einn eiganda hefði til saka unnið. Enginn eigandi hafi í raun vitað hvað að honum hafi snúið í ítrekunarbréfi bæjarins frá 16. desember 2022.

 Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að kvartanir hafi borist byggingar­fulltrúa vegna ýmissa framkvæmda í og við bátaskýlin við Lónsbraut sem ekki hafi verið gefin leyfi fyrir, svo sem vegna frágangs á lóð, rusli utan lóða, fráveitu, svala og búsetu. Byggingar­fulltrúa hafi borist upplýsingar um að auglýst hefði verið til leigu bátaskýli kæranda sem íverustaður með salerni, sturtu og fullbúnu eldhúsi. Í gildandi skilmálum svæðisins komi fram að búseta sé óheimil og að útbyggingar, svalir eða verandir séu ekki heimilar. Bátaskýlin séu ætluð til geymslu og viðhalds á bátum. Óheimilt sé að losa skólp í Hvaleyrarlón sem sé friðað.

Öllum skráðum eigendum bátaskýlanna við Lónsbraut hafi verið sent bréf, dags. 2. nóvember 2022, þar sem skorað hafi verið á þá að bregðast við og gera úrbætur þar sem það ætti við. Þeim sem ekki hafi sinnt beiðninni hafi verið send ítrekun 16. desember s.á. auk þess sem byggingar­fulltrúi hafi boðað komu sína til skoðunar ásamt fulltrúa heilbrigðiseftirlits. Eigandi Lóns­brautar 66 og 70 hafi ekki brugðist við þessum bréfum.

Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 18. janúar 2023 hafi óleyfisframkvæmdir við Lónsbraut verið teknar til afgreiðslu og samþykkt að leggja á dagsektir, kr. 20.000, frá og með 1. febrúar 2023 á þá eigendur bátaskýla við Lónsbraut sem ekki hefðu brugðist við í sam­ræmi við heimild 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Eigandi Lónsbrautar 66 og 70 hafi haft samband 31. janúar s.á. og óskað eftir þriggja mánaða fresti og ítarlegum rökstuðningi. Erindinu hafi verið svarað 7. febrúar s.á. þar sem gerð hafi verið grein fyrir ákvörðuninni ásamt því að honum hafi verið veittur frestur til 15. apríl til að bregðast við. Dagsektir hafi ekki verið lagðar á eiganda Lónsbrautar 66 og 70 þar sem fresturinn hafi nýlega runnið út og vonast hafi verið eftir því að bætt yrði úr ágöllum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að kærandi hafi litið svo á að kærufrestur hafi verið framlengdur af hálfu bæjarins til 15. apríl 2023 vegna aðstæðna hans. Þar sem kærandi hafi verið búsettur í Tælandi hafi kæruréttur hans átt að falla undir 27. sbr. 26. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 þannig að um þriggja mánaða kærufrest frá 20. janúar 2023 hafi verið að ræða. Að öðrum kosti eigi kærufrestur hans að falla undir 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr þar sem kærandi hafi ekki komið til landsins fyrr en 28. mars s.á. Um verulega íþyngjandi dagsektir sé að ræða eða kr. 40.000 á dag frá 1. febrúar 2023. Samkvæmt upplýsingum kæranda hafi dagsektir verið felldar niður hjá öllum öðrum eig­endum fasteigna við Lónsbraut.

 

Afgreiðsla byggingarfulltrúa hinn 20. janúar 2023 til eigenda fasteigna við Lónsbraut, sbr. bréf hans til sömu aðila, dags. 2. nóvember og 16. desember 2022, hafi verið marklaus þar sem hún hafi varðað alla eigendur við Lónsbraut en hverjum og einum eiganda hafi verið hótað dag­sektum án þess að tilgreina í hverju úrbætur hvers og eins eigi að felast. Slík afgreiðsla íþyngj­andi ákvörðunar um dagsektir standist ekki stjórnsýslulög. Bærinn hefði þurft að senda hverjum og einum aðila sérstakt bréf þar sem tiltekin væru þau atriði sem að viðkomandi aðila snéru. Dag­sektir kæranda séu orðnar um það bil kr. 4.200.000 miðað við að þær telji frá 1. febrúar 2023 auk þess sem kærandi þurfi að greiða lögfræðikostnað. Gerður sé áskilnaður um að bærinn greiði þann kostnað sem af málinu hafi hlotist.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun. Þá hefur úrskurðarnefndin ekki heimild að lögum til að úrskurða um greiðslu kostnaðar við málarekstur fyrir nefndinni. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um endurgreiðslu kostnaðar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Hafi aðili farið fram á rökstuðning skv. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið til­kynntur honum sbr. 3. mgr. 27. gr. sömu laga. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til með­ferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Rökstuðningur vegna hinnar kærðu ákvörðunar barst kæranda 7. febrúar 2023 og byrjaði þá kærufrestur að líða. Kæra í máli þessu barst 15. apríl s.á. og er því utan hins lögbundna eins mánaðar frests nefndrar 2. mgr. 4. gr laga nr. 130/2011.

Svo sem greinir í málavöxtum fékk kærandi veður af ákvörðun byggingarfulltrúa að leggja dagsektir á eigendur bátaskýla við Lónsbraut og hafði í kjölfarið samband við byggingar­fulltrúa með tölvupósti 31. janúar 2023. Fékk kærandi í kjölfarið send í tölvupósti bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. nóvember og 16. desember 2022, og ákvörðun byggingar­­fulltrúa um dagsektir frá 20. janúar 2023. Með tölvupósti sama dag óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa auk þess sem hann óskaði eftir þriggja mánaða fresti. Kærandi tiltók ekki hvers konar frest hann óskaði eftir en með tölvupósti bæjar­yfirvalda frá 7. febrúar s.á. var honum sendur rökstuðningur auk þess sem veittur var frestur til 15. apríl 2023. Í tölvupóstinum sagði: „þér hefur verið veittur frestur til 15. apríl nk. Ef ekki hefur verið brugðist við ábendingum fyrir þann tíma verða dagsektir 20. þúsund krónur lagðar á afturvirkt frá 1. febrúar sl. í samræmi við ákvörðun afgreiðslufundar skipulags- og byggingar­fulltrúa“. Samkvæmt tölvupósti lögmanns kæranda til bæjaryfirvalda 17. mars 2023 taldi kærandi sig hafa fengið frest til 15. apríl s.á. til að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðar­nefndarinnar. Samkvæmt 6. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga er æðra stjórnvaldi, áður en kæru­frestur rennur út, heimilt í sérstökum tilvikum að lengja kærufrest. Einskorðast þessi heimild við æðra stjórnvald og hafði Hafnarfjarðarkaupstaður þannig ekki heimild til að veita kæranda lengri frest en kveðið er á um í lögum til að kæra ákvörðun byggingar­fulltrúa til úrskurðarnefndarinnar.

Kærandi var sannanlega upplýstur um ákvörðun byggingarfulltrúa og þann kærufrest sem lög kveða á um. Þá verður tölvupóstur bæjaryfirvalda til kæranda frá 7. febrúar 2023 ekki skilinn á annan hátt en að sá frestur sem honum hafi verið veittur hafi verið til þess að bregðast við ábendingum umhverfis- og skipulagssviðs án þess að ákvörðun byggingarfulltrúa um dagsektir tæki gildi. Þá verður einnig að horfa til þess að kærandi tiltók ekki hvaða frest hann var að óska eftir. Þar sem öðrum stjórnvöldum en kærustjórnvaldi er ekki heimilt að lengja kærufrest er ekki hægt að ætla að bæjaryfirvöld hafi verið að veita slíkan frest. Var kæranda veittur frestur á þann hátt sem stjórnvaldinu var heimilt, þ.e. að fresta innheimtu dagsekta. Verður ekki fallist á þá málsástæðu að vegna búsetu kæranda erlendis verði að veita honum rýmri kærufrest eða að af því leiði að afsakanlegt sé skv. 1. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni.

Í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tiltekið að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum, en sé einn aðili yrði mál frekar tekið til meðferðar. Ástæður kærufresta eru m.a. þær að hæfilegri festu verði viðhaldið í stjórnsýsluframkvæmd. Almennt hefur verið talið að því styttri sem lög­bundinn kærufrestur er því meira svigrúm hafi stjórnvald, sem falið er að leysa úr máli á kæru­stigi, til að taka kæru til efnismeðferðar að liðnum kærufresti. Við mat á því hvort veiga­miklar ástæður séu fyrir hendi ber því að líta til þeirra sjónarmiða, en einnig til málsatvika allra og eðlis málsins hverju sinni, t.a.m. þess hvort málið geti talist fordæmisgefandi. Verður að taka til skoðunar hversu veigamiklir hagsmunir kæranda af úrlausn málsins eru og í ljósi þeirra ríku réttar­öryggissjónarmiða sem búa að baki lagaákvæðum sem tryggja eiga aðila stjórnsýslumáls rétt til að leita endurskoðunar á stjórnvaldsákvörðun verður að líta til þess hvort verulegir form- eða efnisannmarkar séu á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um beitingu dagsekta vegna bátaskýla kæranda við Lónsbraut 66 og 70 í Hafnarfirði. Báta­skýlin standa ásamt öðrum bátaskýlum í fjöruborði Hvaleyrarlóns.

Í 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að ef byggingarleyfisskyld framkvæmd skv. 9. gr. sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, ekki sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mann­virkis, það byggt á annan hátt en leyfi stendur til, mannvirkið eða notkun þess brjóti í bága við skipulag, mannvirki sé tekið í notkun án þess að öryggisúttekt hafi farið fram eða ef mann­virki sé tekið til annarra nota en heimilt er samkvæmt útgefnu byggingarleyfi geti byggingar­fulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir eða notkun tafarlaust og fyrirskipað lokun mann­virkisins. Sama gildi ef ekki sé að öðru leyti fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Í 56. gr. laganna er byggingarfulltrúa veitt heimild til að beita dagsektum til að knýja fram úrbætur, m.a. ef hús eða mannvirki og notkun þess er ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti byggingar­leyfis eða brjóti í bága við skipulag.

Ákvörðun um beitingu dagsekta er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem samkvæmt fyrr­greindum ákvæðum laga um mannvirki er háð mati stjórnvalds. Við mat á því hvort beita eigi dag­sektum þarf sem endranær að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins svo sem um and­mæla­rétt, rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið. Við mat á því hvort beita eigi þvingunaraðgerðum, svo sem dagsektum, geta komið til álita ýmis sjónarmið svo sem hversu íþyngjandi aðgerða er krafist af þeim sem úrræðin beinast að, hvort og með hvaða hætti þeir tengjast meintum lögbrotum, hversu mikilvæga almannahagsmuni er verið að tryggja og hversu langur tími er liðinn frá atburði þar til ætlunin er að grípa til aðgerða af hálfu stjórn­valda.

Forsenda þess að málsaðili geti notið andmælaréttar sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga er sú að hann hafi vitneskju um það að mál hans sé til meðferðar og er stjórnvaldi þannig skylt sbr. 14. gr. stjórn­sýslulaga að vekja athygli aðila á því. Gera verður þá kröfu að tilkynning stjórnvalds sé nægi­lega skýr til að aðili máls geti gert sér grein fyrir hvað það er sem málið varðar og til hvaða að­gerða hann geti gripið. Bréfin sem kærandi fékk frá bæjaryfirvöldum, dags. 2. nóvember og 16. desember 2022, voru send öllum eigendum bátaskýla við Lónsbraut. Ekki var tilgreint hvað það var í málinu sem varðaði kæranda sérstaklega og gat hann því ekki gert sér grein fyrir því til hvaða úrbóta væri ætlast að hann gripi til. Verður að telja að bréfin hafi verið svo óskýr að efni til að þessu leyti að ekki er hægt að fallast á að kæranda hafi verið veittur raunhæfur kostur á að tjá sig um efni málsins í því skyni að gæta hagsmuna sinna. Málsmeðferð bæjar­yfirvalda var að þessu leyti ekki í samræmi við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga.

Það er óskráð grundvallarregla í stjórnsýslurétti að stjórnvaldsákvörðun verði efnislega að vera bæði ákveðin og skýr, svo að aðili máls geti bæði skilið hana og metið réttarstöðu sína. Í ákvörðun byggingarfulltrúa um beitingu dagsekta kemur fram að þeir eigendur bátaskýla við Lóns­braut sem ekki hafi brugðist við verði beittir dagsektum. Var leiðbeint um að heimilt væri að óska eftir ítarlegri rökstuðningi fyrir ákvörðuninni, sem og kærandi gerði. Var sá rök­stuðningur sem honum barst með tölvupósti 7. febrúar 2023 svohljóðandi: „Þú óskar rök­stuðnings fyrir ákvörðuninni um álagningu dagsekta í tölvupósti þann 31. janúar sl. Rök­stuðningurinn er að ekki hefur verið brugðist við þeim ábendingum sem send[ar] voru á eigendur bátaskýla þann 2. nóvember og ítrekað þann 16. desember auk þess sem byggingar­fulltrúi ásamt fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins boðaði komu sína á staðinn þann 4. jan. Skorað var á eigendur að bregðast við og gera úrbætur hið fyrsta vegna þeirra óleyfisframkvæmda sem gerðar hafa verið. Veittar voru 4 vikur til að bregðast við og bent var á að Hafnarfjarðar­kaupstaður gæti látið vinna verkið á kostað eiganda eða lagt á dagsektir í samræmi við 56. gr. laga 160/2010 og grein 2.9.2 byggingarreglugerðar. Hjálagt er afrit umræddra bréfa.“ Verður ekki talið að sá rökstuðningur sem kæranda barst hafi skýrt hvaða ábendingar áttu við hann sérstak­lega og þá hvaða kröfum um úrbætur var beint að honum sérstaklega. Verður ekki talið að hin kærða ákvörðun hafi verið nægilega skýr svo kærandi hefði átt kost á að meta réttarstöðu sína og bregðast við.

Í máli þessu er einungis einn aðili, kærandi, sem hefur borið undir úrskurðarnefndina álitamál um álagningu dagsekta af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar. Svo sem áður er rakið liggur fyrir að máls­meðferð bæjaryfirvalda var haldin verulegum annmörkum að formi til.

Að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin, réttaröryggissjónarmiða sem liggja að baki kæruheimildum sem og í ljósi þess að um verulega íþyngjandi ákvörðun er að ræða, þykja veigamiklar ástæður mæla með því að kærumál þetta verði tekið til efnismeðferðar og verður svo gert. Af sömu sökum verður ákvörðun byggingarfulltrúa um beitingu dagsekta felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 20. janúar 2023 um að leggja dag­sektir á eiganda Lónsbrautar 66 og 70.