Árið 2023, föstudaginn 2. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 35/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 7. desember 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Suðurgötu 44, Hafnarfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 2. mars 2023 kæra eigendur Suðurgötu 45, Hafnarfirði og A, Fífuvöllum 9, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar-kaupstaðar frá 7. desember 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Suðurgötu 44. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 22. mars 2023. Jafnframt liggja fyrir gögn úr fyrra máli kærenda vegna sömu ákvörðunar í máli nr. 148/2022, sbr. úrskurð í því máli frá 27. janúar 2023.
Málavextir: Lóðin Suðurgata 44 hefur frá árinu 2020 verið í eigu Nónsmára ehf. Á lóðinni er skóla- og íþróttahús sem byggt var árið 1937. Var húsið seinna m.a. notað sem skrifstofur St. Jósepsspítala en hefur staðið autt undanfarin ár. Stendur húsið gegnt Lífsgæðasetri St. Jó, áður St. Jósepsspítala. Í varðveislumati Minjastofnunar Íslands, dags. 12. ágúst 2015, kemur m.a. fram að húsið hafi varðveislugildi sem mikilvæg opinber bygging í bæjarmynd Hafnarfjarðar. Mælti Minjastofnun með að gert yrði við húsið og var tekið fram að stofnunin gæti ekki samþykkt niðurrif þess.
Núgildandi deiliskipulag fyrir Suðurgötu-Hamarsbraut er frá árinu 2011. Var í því m.a. mælt fyrir um heimild til „að rífa hluta (leikfimisal) byggingarinnar við Suðurgötu 44.“ Frá gildistöku þess hafa verið gerðar tvær breytingar á skilmálum deiliskipulagsins um Suðurgötu 44. Annars vegar árið 2018 þegar m.a. heimild til niðurrifs var afnumin og hins vegar í kjölfar umsóknar lóðarhafa, dags. 25. apríl 2022. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Suðurgötu 44 var auglýst til kynningar samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar tillöguna hinn 7. desember 2022. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 14. febrúar 2023 og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu. Er þar gert ráð fyrir að núverandi hús á lóðinni verði rifið og í stað þess byggð þrjú hús á tveimur til þremur hæðum með 15 íbúðum, þar af tvö einbýlishús.
Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að á Suðurgötu sé viðkvæmt samspil þjónustu og íbúðabyggðar. Gatan sé þröng með fáum bílastæðum. Á daginn sé oft mikil umferð tengd starfsemi spítalans og því nauðsynlegt að hafa bílastæði vegna hennar. Einnig hafi verið gott fyrir íbúa að hafa aðgengi að þessum bílastæðum á kvöldin og um helgar. Kærendur viti ekki til þess að gert hafi verið mat á umferð og bílastæðaþörf í Suðurgötu og við Lífsgæðasetur St. Jósepsspítala þar sem m.a. Alzheimersamtökin og Parkinsonsamtökin hafi nú aðsetur. Það hús sem nú standi að Suðurgötu 44 hafi verið selt til verktaka fyrir nokkru og hafi þá verið í gildi deiliskipulag frá árinu 2018 sem gerði ráð fyrir að núverandi byggingar yrðu gerðar upp, en bílastæði á lóðinni héldu sér að mestu óbreytt. Hafi verktakinn keypt lóðirnar á þeim forsendum.
Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda eru gerðar athugasemdir við ófullnægjandi umboð til handa einum kæranda frá öðrum kærendum í málinu. Meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið samkvæmt lögum og reglum. Athugasemdir sem borist hafi vegna auglýstrar deiliskipulagstillögu hafi verið keimlíkar og eigi svör bæjarins því við um allar athugasemdirnar þrátt fyrir að ekki hafi verið nefnd nöfn allra þeirra sem sent hafi inn athugasemdir.
Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja ljóst að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi ekki fjallað um allar athugasemdir og hafi veigamiklum athugasemdum ekki verið svarað, m.a. um viðkvæmt samspil þjónustu St. Jó og íbúðabyggðar. Augljóst sé að umferð um götuna muni aukast mikið með tilkomu 15 nýrra íbúða og útilokað að eitt bílastæði á íbúð í bílakjallara dugi íbúum þeirra.
Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.
Einn kærenda sem búsettur er í Vallahverfi Hafnarfjarðar byggir kæruaðild sína í máli þessu á því að hann sé íbúi í Hafnarfirði og eigi fjölskyldu á Suðurgötu gegnt því svæði sem hin kærða ákvörðun lúti að. Sá kærandi býr í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Suðurgötu 44. Við blasir að hann eigi ekki grenndarhagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun eða aðra lögvarða hagsmuni umfram aðra sem veitt geta honum kæruaðild í máli þessu. Verður kröfu hans í málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. Aðrir kærendur hafa veitt honum umboð sitt, dags. 28. desember 2022, til að kæra fyrir sína hönd umdeilda skipulagsbreytingu.
Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Samþykktar voru breytingar á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 árið 2018. Var landnotkun hluta svæðis við Suðurgötu breytt úr S20 í ÍB6 og tók breytingin m.a. til umræddrar lóðar. Um Suðurgötu 44 er eftirfarandi tekið fram: „Gert er ráð fyrir að núverandi hús, við Suðurgötu 44, fái nýtt hlutverk en yfirbragð að mestu látið halda sér.“ Þá var lögð áhersla á að ný hús myndu falla inn í núverandi byggð og mynda heilsteypta götumynd. Líkt og greinir að framan var deiliskipulagi svæðisins breytt sama ár og tók breytingin til Suðurgötu 40–44. Um Suðurgötu 44 kom m.a. fram að húsið fengi breytt hlutverk og yrði íbúðarhús með 12–15 misstórum íbúðum og yrði núverandi leikfimishús endurnýtt undir íbúðir og niðurrifsheimild afnumin.
Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir að hús á lóðinni Suðurgötu 44 verði rifið. Gildandi aðalskipulag gerir hins vegar ráð fyrir því að húsið fái nýtt hlutverk og að yfirbragð þess verði að mestu látið halda sér. Getur deiliskipulagsbreytingin að þessu leyti ekki talist rúmast innan heimilda aðalskipulagsins og fer hún í bága við stefnu þess. Verður af þeim sökum að fella hana úr gildi með hliðsjón af áðurgreindri 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.
Úrskurðarorð:
Máli kæranda að Fífuvöllum 9, Hafnarfirði er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 7. desember 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Suðurgötu 44, Hafnarfirði.