Árið 2023, miðvikudaginn 29. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 18/2023, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Sveitarfélagsins Árborgar á erindi vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Hulduhóls 14 og 16.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. janúar 2023, kærir eigandi Hulduhóls 16, Eyrarbakka, óhæfilegan drátt á afgreiðslu Sveitarfélagsins Árborgar á erindi vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Hulduhóls 14 og 16. Er þess krafist að byggingarfulltrúi sveitarfélagsins geri eiganda Hulduhóls 14 að fjarlægja vegginn.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 17. mars 2023.
Málavextir: Með tölvubréfi, dags. 19. maí 2022, kvartaði kærandi til byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar yfir því að settur hefði verið upp veggur á lóðamörkum Hulduhóls 14 og 16. Var þar farið fram á að eiganda Hulduhóls 14, sem reist hafði veginn, yrði gert að fjarlægja hann tafarlaust. Með bréfi byggingarfulltrúa dags. 20. maí s.á. var eiganda Hulduhóls 14 bent á að afla bæri samþykkis nágranna fyrir veggnum eða fjarlægja hann ella skv. gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Var kæranda tilkynnt þann sama dag um bréfið.
Kærandi sendi tölvubréf til byggingarfulltrúa, dags. 3. júní s.á., þar sem spurt var um stöðu málsins. Var því svarað dags. 20. s.m. þar sem fram kom að byggingarfulltrúi geti ekki beitt sér í svona nágrannaerjum, þar sem honum beri fara eftir byggingarreglugerð og þar komi ekki fram hvernig skuli beita sér í svona málum. Mælt sé með því að kærandi fái sér lögfræðing sem gæti tekið á málinu. Í kjölfarið sendi lögfræðingur kæranda byggingarfulltrúa tölvubréf, dags. 23. s.m., þar sem beðið var um upplýsingar um hvort bréf byggingarfulltrúa til eiganda Hulduhóls 14, dags. 20. maí 2022, hefði verið sent með ábyrgðarpósti. Kom þar einnig fram að kærandi muni ekki veita samþykki sitt fyrir skjólveggnum og var farið fram á að eiganda Hulduhóls 14 verði send ítrekun og lokaviðvörun lækki hann ekki vegginn til samræmis við byggingarreglugerð, en að öðrum kosti beittur dagsektum.
Kærandi sendi enn tölvubréf til byggingarfulltrúa, dags. 16. september s.á., þar sem farið var fram á upplýsingar um stöðu málsins, þ.e. hversu oft eiganda Hulduhóls 14 hefðu verið sendar viðvaranir og hvort dagsektir hefðu verið lagðar á. Kæranda barst svar þann sama dag þar sem fram kom að ekki hefði verið brugðist við bréfi byggingarfulltrúa og að hvorki netfang né símanúmer eiganda Hulduhóls 14 hefðu fundist til að fylgja málinu eftir. Leitað hefði verið ráða hjá lögfræðingi sveitarfélagsins varðandi næstu skref. Kærandi svaraði byggingarfulltrúa þann sama dag og upplýsti um símanúmer eiganda Hulduhóls 14. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 30. janúar 2022.
Í tölvubréfi, dags. 7. febrúar 2023, sendi byggingarfulltrúi bréf sitt frá 20. maí 2022 til eiganda Hulduhóls 14. Kom fram í tölvubréfinu að einfaldast væri fyrir nágranna að skrifa upp á leyfi vegna framkvæmda hvors annars, annars vegar vegna umdeilds veggjar og hins vegar staura fyrir rólu.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að nágranni kæranda hafi verið beðinn um að setja ekki upp vegg á lóðarmörkum þar sem ekki hefði fengist samþykki fyrir veggnum. Byggingarfulltrúi hafi tjáð kæranda að yrði veggurinn reistur yrði nágrannanum sent bréf þar sem farið yrði fram á samþykki kæranda fyrir veggnum en honum ella gert að taka vegginn niður. Síðan þá, þ.e. frá því í maí árið 2022, hafi ekkert gerst í málinu.
Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ekki hafi verið tekin kæranleg stjórnvaldsákvörðun í skilningi 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og því sé málið ekki tækt til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Bent sé á að málið hafi fengið eðlilegan fargang hjá byggingarfulltrúa að teknu tilliti til erfiðra aðstæðna í stjórnsýslu á deildinni vegna forfalla og manneklu. Það hafi ekki verið unnt að forgangsraða máli kæranda framar málum þar sem til umfjöllunar séu umfangsmeiri byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Byggingarfulltrúi hafi ekki hafnað því að beita sér frekar í málinu, heldur sé málið enn til skoðunar. Beiting þvingunarúrræða sé viðurhlutamikil ráðstöfun sem gæta beri hófs í að grípa til og ekki nema að fullrannsökuðu máli.
Því sé hafnað að byggingarfulltrúi hafi með aðgerðarleysi sínu komið því í kring að ósamþykktur skjólveggur standi á lóðarmörkum í óþökk kæranda. Byggingarfulltrúi beri á engan hátt ábyrgð á þeirri stöðu, heldur sé öll ábyrgð á þeirri framkvæmd hjá nágranna kæranda og byggingarfulltrúi hafi beitt sér í málinu í því skyni að stuðla að lausn þess.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítekar að ástæða kæru til úrskurðarnefndarinnar sé að ekki hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu. Ekkert hafi verið aðhafst frá því í maí 2022 og þar til kæra hafi verið lögð fram.
———-
Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um kærumál þetta.
Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort afgreiðsla á erindi kæranda frá 19. maí 2022 til byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar hafi dregist óhóflega. Skilja verður erindi kæranda sem svo að farið sé fram á beitingu þvingunarúrræða skv. lögum nr. 160/2010 um mannvirki.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin að jafnaði ekki nýja ákvörðun í máli og er því ekki á færi nefndarinnar að ákveða að byggingarfulltrúa beri að láta fjarlægja hinn umdeilda vegg. Einskorðast niðurstaða úrskurðarnefndarinnar því við athugun á því hvort óhæfilegur dráttur hafi orðið á erindi kæranda.
Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu 2. mgr. 26. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Í máli þessu er kærður óhæfilegur dráttur á því að beita eiganda Hulduhóls 14 þvingunarúrræðum vegna skjólveggjar á lóðamörkum Hulduhóls 14 og 16. Samkvæmt 59. gr. gr. laga nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en til þeirra teljast þvingunarúrræði vegna meintra brota á byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er kæru þessari því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.
Kærandi sendi erindi til byggingarfulltrúa 19. maí 2022 þar sem farið var fram á að eiganda Hulduhóls 14 yrði gert að fjarlægja hinn umdeilda vegg tafarlaust. Við þessu var brugðist með bréfi byggingarfulltrúa til eiganda Hulduhóls 14 degi síðar, 20. maí. Eftir það virðist sem lítil eða engin hreyfing hafi orðið á málinu fyrr en viku eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni, þ.e. 7. febrúar 2023. Þann dag sendi byggingarfulltrúi tölvupóst til eiganda Hulduhóls 14 með ábendingum um réttarstöðu og tillögu um úrlausn þess.
Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga ber þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast að skýra aðila máls frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Þrátt fyrir að mál þetta hafi nú verið tekið til meðferðar að nýju verður ekki hjá því litið að óhæfilegur dráttur virðist hafa orðið á meðferð þess, af ástæðum sem sveitarfélagið hefur reifað fyrir úrskurðarnefndinni. Verður ekki séð að nokkuð standi því í vegi að byggingarfulltrúi afgreiði erindi kæranda án ástæðulauss dráttar.
Úrskurðarorð:
Byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Árborgar skal taka fyrirliggjandi erindi kæranda um beitingu þvingunarúrræða til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.