Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2023 Gljúfrasel

Árið 2023, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2023, kæra á ákvörðun eftirlitsdeildar umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 25. janúar 2023 um álagningu dagsekta vegna skúrs á lóðinni Gljúfraseli 10, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2023, er barst nefndinni 5. s.m., kærir eigandi Gljúfrasels 10, Reykjavík, ákvörðun eftirlitsdeildar umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 25. janúar 2023 um álagningu dagsekta á hann vegna skúrs á lóðinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. mars 2023.

Málavextir: Þann 27. október 2022 barst Reykjavíkurborg kvörtun frá nágranna íbúa að Gljúfraseli 10 varðandi skúr sem stæði á lóð hússins. Þann 11. nóvember 2022 sendi eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar kæranda fyrirspurn vegna smáhýsis á lóð nr. 10 við Gljúfrasel. Kom þar fram að vettvangsskoðun hafi leitt í ljós að smáhýsi á lóðinni væri minna en 3 m frá aðliggjandi lóð og því þurfi samþykki eigenda aðliggjandi lóðar fyrir smáhýsinu, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt hafi ekki verið sýnt fram á að smáhýsið valdi ekki brunahættu, sbr. gr. 9.7.6. sömu reglugerðar. Kæranda var gert að leggja fram skriflegar skýringar vegna málsins innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins. Var jafnframt bent á að yrði tilmælum ekki sinnt gæti komið til beitingar þvingunarúrræða. Kæranda var aftur sent bréf dags. 6. desember s.á., sem birt var kæranda 12. s.m., og var þar efni fyrra bréfs ítrekað og kæranda veittur 30 daga frestur til að fjarlægja skúrinn.

Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi eftirlitsdeildar og byggingarfulltrúa 19. janúar 2023, þar sem fram kom að ekki hefðu borist viðbrögð kæranda við bréfunum. Ekki lægi fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar og sambrunahætta væri til staðar . Á fundinum var bókað að leggja ætti á dagsektir að fjárhæð kr. 50.000 og gefa kæranda 15 daga frest til að fjarlægja skúrinn.

Viðbrögð við bréfum Reykjavíkurborgar bárust með bréfi dags. 24. janúar 2023. Í svarbréfi sem skrifað virðist fyrir hönd manns sem dvelur í skúrnum kom fram að skúrinn væri til bráðabirgða og að hann yrði fjarlægður um leið og félagslegt húsnæði fengist fyrir manninn. Með bréfi, dags. 25. s.m., sem birt var kæranda 1. febrúar s.á., kom fram að veittur væri 14 daga lokafrestur frá dagsetningu bréfsins til að verða við kröfu byggingarfulltrúa, en ella yrðu dagsektir að fjárhæð kr. 50.000 lagðar á kæranda.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að um sé að ræða skúr í smíðum. Skúrinn sé til bráðabirgða og til standi að flytja hann. Á nærliggjandi lóðum séu bæði viðbygging og stórt hjólhýsi með sólpalli sem nýtt séu til búsetu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Til vara sé þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Þau sjónarmið að skúrinn sé í smíðum hafi ekki komið fram áður og eigi sér ekki stoð í gögnum málsins. Kærandi sé væntanlega að vísa til gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um stöðuleyfi, sem segi að frístundahús í smíðum sé undanþegið byggingarleyfi. Engin umsókn um stöðuleyfi hafi borist. Af gögnum málsins megi ráða að umræddur skúr sé nýttur til búsetu. Skúrinn sé yfir 15 m2 að flatarmáli og standi nær aðliggjandi lóð en 3 m, án þess að samþykki hafi fengist fyrir því. Skúrinn geti því ekki talist smáhýsi sem undanþegið sé byggingarleyfi, sbr. gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar. Byggingarfulltrúa beri að framfylgja ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar. Það sé mat Reykjavíkurborgar að rétt sé að krefja kæranda um að fjarlægja skúrinn og að þörf sé á álagningu dagsekta til að knýja á um það.

Niðurstaða: Í máli þessu er kært „bréf frá eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar“, dags. 25. janúar 2023, um álagningu dagsekta. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig 2. mgr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, er það byggingarfulltrúa að leggja á dagsektir. Verður litið svo á að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúa frá 19. s.m., en þann dag var bókað á afgreiðslufundi að leggja skyldi dagsektir á kæranda að fjárhæð kr. 50.000 að liðnum 15 daga fresti til úrbóta.

Af hálfu borgaryfirvalda hefur verið farið fram á frávísun málsins þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun. Þrátt fyrir að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið skilyrt við að ekki yrði orðið við tilmælum hans innan 15 daga er um að ræða ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda þarf ekki aðra ákvörðun byggingarfulltrúa til að hefja álagningu dagsekta. Kæruheimild vegna ákvarðana byggingarfulltrúa er að finna í 59. gr. laga nr. 160/2010. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Mannvirki er skilgreint í 13. tölul. 3. gr. laganna sem hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar.

Í máli þessu er um að ræða skúr sem samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa er tengdur við frárennslislagnir á lóðinni. Af gögnum málsins má ætla að um tímabundna byggingu sé að ræða sem ætluð sé til svefns og daglegrar dvalar manns sem leitar annars búsetuúrræðis. Ekki eru til nákvæmar upplýsingar um hvenær búseta hófst í skúrnum en hann má þó sjá á loftmynd Borgarvefsjár sem tekin var 20. júlí 2022. Verður því ekki talið óvarlegt að ætla að skúrinn hafi verið ætlaður til svefns eða daglegrar dvalar í fjóra mánuði eða lengur. Var skúrinn því háður leyfi frá byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um minniháttar mannvirkjagerð sem er undanþegin byggingarheimild og -leyfi. Í f-lið ákvæðisins eru talin upp smáhýsi sem eru að hámarki 15 m2 og mesta hæð þaks sé 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs. Sé smáhýsið minna en 3,0 m frá aðliggjandi lóð þurfi samþykki eigenda þeirrar lóðar. Slík smáhýsi séu ekki ætluð til gistingar eða búsetu. Umræddur skúr er bæði stærri en 15 m2 og nær lóðamörkum en 3,0 m. Fyrir byggingu hans var ekki aflað samþykkis nágranna. Er skúrinn því ekki undanþeginn byggingarheimild og -leyfi.

Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, eða láta af ólögmætu athæfi. Samkvæmt öllu framangreindu var byggingarfulltrúa heimilt að leggja á dagsektir vegna hinnar ólögmætu framkvæmdar og þykja dagsektir hans ekki úr hófi.

Samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurborgar frá 21. mars 2023 höfðu dagsektir þá ekki enn verið lagðar á kæranda. Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir rétt, eins og atvikum máls er háttað, að dagsektir sem kunna að verða lagðar á frá þeirri dagsetningu til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2023, þar sem bókað var á afgreiðslufundi að leggja ætti á dagsektir kr. 50.000 að liðnum 15 daga fresti til úrbóta.