Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

130/2022 Flekkudalur

Árið 2022, þriðjudaginn 20. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 130/2022, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Kjósarhrepps frá 25. október 2022 um að stofnaðar yrðu þrjár íbúðarhúsalóðir

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. nóvember 2022, er barst nefndinni sama dag kæra eigendur Flekkudals 4, Flekkudals sumarh., Dalsbakka, Vatnsbakka og Fálkahreiðurs, þá ákvörðun sveitarstjórnar Kjósarhrepps frá 25. október 2022 að stofnaðar verði úr jörðinni Flekkudal þrjár íbúðarhúsalóðir, 0,5 hektarar eða stærri, samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Málsatvik og rök: Umsókn eiganda jarðarinnar Flekkudals í Kjósarhreppi, um heimild til að stofna þrjár íbúðarhúsalóðir í landi jarðarinnar sem yrðu 0,5 hektarar að stærð hver, var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps 30. ágúst 2022. Í fundargerð var vísað til þess að samkvæmt aðalskipulagi Kjósarhrepps væri heimilt að stofna íbúðarhúsalóðir á landbúnaðarlandi án deiliskipulags. Samkvæmt aðalskipulagi mætti gera ráð fyrir átta íbúðarhúsalóðum á svæðinu að hámarki en í samræmi við umsóknina yrðu þær fjórar. Var umsóknin samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn staðfesti ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar á fundi 6. september s.á. Umsóknin var grenndarkynnt fyrir kærendum með bréfum, dags. 16. s.m., og var veittur fjögurra vikna frestur til að koma að athugasemdum sem kærendur gerðu með bréfi, dags. 14. október s.á. Málið var tekið fyrir að nýju í skipulags- og byggingarnefnd 20. október s.á. og var umsóknin samþykkt. Í fundargerð nefndarinnar kom fram að kærendur hefðu skilað inn athugasemdum við grenndarkynningu. Taldi nefndin athugasemdirnar ekki gefa ástæðu til synjunar á stofnun lóðanna en að áður en kæmi til umsóknar um byggingaráform skyldi liggja fyrir samþykkt deiliskipulag. Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi sveitarstjórnar 25. s.m.

Af hálfu kærenda er bent á að nauðsynlegt sé að réttaráhrif samþykktarinnar verði stöðvuð án tafar nema sveitarfélagið lýsi því yfir að lóðirnar verði ekki stofnaðar á meðan málið sé til meðferðar. Úrskurður um ólögmæti ákvörðunar um stofnun lóðanna sé marklaus ef búið verði að stofna nýjar fasteignir enda geti lóðirnar skipt um eigendur, veðsetning átt sér stað og skapast hagsmunir sem erfitt verði að vinda ofan af.

Sveitarfélagið bendir á að hin kærða ákvörðun feli ein og sér ekki í sér heimild til mannvirkjagerðar eða annarra framkvæmda á fyrirhuguðum lóðum. Áður en til þess komi verði landeigandi eða framkvæmdaraðili að óska eftir heimild sveitarstjórnar til að láta vinna gerð deiliskipulags. Í slíku deiliskipulagi fái kærendur og aðrir þeir sem hagsmuna hafi að gæta tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi ákvörðunar um stofnun lóða samkvæmt 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvörðunin felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, svo sem veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi ákvarðana um stofnun lóða.

 

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Þá verða möguleg eigendaskipti og veðsetning lóðanna ekki taldar slíkar óafturkræfar aðgerðir, með tilliti til hagsmuna kærenda, að það gefi tilefni til frestunar réttaráhrifa.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar.