Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2022 Hlaðbrekka

Árið 2022, mánudaginn 13. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 35/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 22. mars 2022, um að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs á erindi um byggingarleyfi vegna Hlaðbrekku 17, Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. mars 2022, er barst nefndinni 23. apríl s.á., kæra eigendur Fögrubrekku 18 og 20 þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 22. mars s.á. að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs á erindi um byggingarleyfi vegna Hlaðbrekku 17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er farið fram á að byggingarleyfi verði fellt úr gildi ef það hafi verið gefið út áður en úrskurður nefndarinnar liggi fyrir í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 23. maí 2022.

Málsatvik og rök: Með erindi, dags. 2. febrúar 2021 óskuðu lóðarhafar Hlaðbrekku 17 eftir leyfi til viðbyggingar og breytinga á innra skipulagi húss sem stendur á lóðinni. Að lokinni grenndarkynningu umsóknarinnar var erindinu hafnað á fundi skipulagsráðs 5. júlí 2021 og staðfesti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi 15. s.m. Lóðarhafar fóru fram á endurupptöku málsins með bréfi dags. 10. nóvember s.á. og á fundi bæjarráðs 18. s.m. var samþykkt að vísa málinu til skipulagsráðs til nýrrar meðferðar. Á fundi skipulagsráðs 14. mars 2022 var erindi lóðarhafa samþykkt og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Bæjarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsráðs 22. s.m..

Kærendur benda á að við endurupptöku málsins hafi verið lögð fram gögn sem séu röng og tekið hafi verið tillit til röksemda sem ekki væru í samræmi við þau viðmið sem hafa skuli til hliðsjónar við slíkt mat. Alvarlegir misbrestir hafi verið á afgreiðslu málsins, nýtingarhlutfall lóðar sé mun meira en gefið hafi verið upp í umsókn auk þess sem hæð í framlagðri umsókn sé vel rúmum meter hærri en sú lína sem dregin sé milli aðliggjandi húsa og því í andstöðu við þau viðmið sem Kópavogsbær hafi sett. Umbeðnar breytingar á húsinu muni hafa áhrif á útsýni kærenda auk þess að breyta ásýnd götunnar þar sem gatan sé einsleit með húsum byggðum á svipuðum tíma með sambærilega hönnun.

Bæjaryfirvöld benda á að byggingarfulltrúi hafi enn ekki samþykkt byggingaráform fyrir greindri viðbyggingu. Samþykki skipulagsráðs og staðfesting bæjarstjórnar feli ekki í sér endanlega afgreiðslu á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn en það sé hlutverk byggingar­fulltrúa sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða þar sem endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin. Þá hafi orðið eigendaskipti á húsinu og ekki liggi fyrir hvort nýir eigendur ætli að halda málinu áfram í samræmi við þær teikningar sem hafi verið grenndarkynntar. Samþykkt skipulagsráðs hafi byggt á þeim forsendum að það væri í samræmi við rammahluta gildandi aðalskipulags og að grenndaráhrif væru óveruleg. Þá væri að finna fordæmi í næsta nágrenni hvað varðaði þakform og dvalarsvæði.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvalds­ákvarðana sem teknar eru á þeim lagagrundvelli.

Eins og að framan greinir snýst mál þetta um ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar að samþykkja fyrir sitt leyti viðbyggingu og breytingu á innra skipulagi hússins að Hlaðbrekku 17. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki er það hlutverk byggingarfulltrúa í viðkomandi sveitarfélagi að veita byggingarleyfi vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er slíku leyfi, eftir atvikum að undangenginni grenndarkynningu byggingarleyfis á ódeiliskipulögðu svæði og afgreiðslu skipulagsyfirvalda eins og á við í máli þessu. Byggingarfulltrúi hefur ekki samþykkt eða gefið út slíkt leyfi fyrir viðbyggingu eða breytingum á innra skipulagi hússins að Hlaðbrekku 17. Þrátt fyrir að ákvörðun bæjarstjórnar feli í sér afstöðu til beiðni um byggingarleyfi verður sú afstaða ekki talin binda enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda um að ræða lið í málsmeðferða byggingarleyfsumsóknar.

 Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talið að fyrir hendi sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem leitt hafi mál til lykta í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.