Árið 2021, fimmtudaginn 18. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 103/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 6. maí 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Eskifjarðar.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi, Lambeyrarbraut 10, Eskifirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 6. maí 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Eskifjarðar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að tillagan, með öllum þeim athugasemdum sem bárust, verði lögð fyrir eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar til afgreiðslu.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 27. júlí 2021.
Málavextir: Hinn 13. janúar 2021 samþykkti eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar tillögu um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Eskifjarðar. Í tillögunni fólst að gatan Lambeyrarbraut var gerð að vistgötu og gert ráð fyrir byggingarlóð fyrir íbúðarhús á milli Lambeyrarbrautar 1 og 3. Var þeirri afgreiðslu vísað til bæjarstjórnar sem samþykkti á fundi sínum 21. janúar 2021 að auglýsa tillöguna til kynningar. Deiliskipulagstillagan var auglýst með athugasemdafresti frá 27. s.m. til og með 10. mars s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Í umsögn eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 19. mars 2021, var tekin afstaða til tveggja framkominna athugasemda, en ekki var fjallað um athugasemdir kæranda. Á fundi nefndarinnar 22. mars 2021 var deiliskipulagsbreytingin samþykkt og vísað til bæjarstjórnar sem samþykkti hana á fundi 25. s.m. og var hún send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar. Í bréfi sínu, dags. 6. maí 2021, gerði stofnunin ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um deiliskipulagsbreytinguna og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 4. júní 2021.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að ekki hafi verið farið efnislega yfir allar þær athugasemdir sem borist hafi vegna kynningar tillögu að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Í 36. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að gögn á rafrænu formi séu talin fullnægja áskilnaði um skrifleg gögn, enda séu þau aðgengileg móttakanda þannig að hann geti kynnt sér efni þeirra, varðveitt þau og framvísað þeim síðar.
Málsrök Fjarðabyggðar: Sveitarfélagið tekur fram að kærandi hafi verið beðinn um að senda athugasemdir sínar undirritaðar og ítrekað veitt honum frest til þess. Athugasemdir hans séu sama efnis og hluti þeirra athugasemda sem teknar hafi verið til formlegrar afgreiðslu við meðferð málsins. Verði því að leggja til grundvallar að allar athugasemdir hafi í raun fengið „formlega efnislega“ afgreiðslu, þótt erindi kæranda hafi ekki verið tekið til sérstakrar meðferðar. Í 35. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að stjórnvald ákveði hvort boðið verði upp á þann valkost að nota rafræna miðlun upplýsinga við meðferð máls. Sveitarfélagið hafi því ráðið formkröfum sem gerðar hafi verið til athugasemda. Kæranda hafi verið leiðbeint um hvernig mætti skila inn athugasemdunum. Sveitarfélagið hafi haft fulla heimild til að gera slíkar lágmarkskröfur til erinda sem mynda stjórnsýslumál. Kærandi hafi getað prentað athugasemdirnar út, skrifað undir þær, skannað inn eða tekið mynd af þeim og sent þannig eða skrifað undir með rafrænum skilríkjum í gegnum viðurkennda aðila. Án slíkra undirritana hafi ekki verið um fullnægjandi erindi að ræða og var kæranda gefinn kostur á að bæta úr því. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 51/2003, sem síðar varð 35. gr. stjórnsýslulaga, segi: „Ef stjórnvald hefur ekki tekið ákvörðun um að gefa kost á rafrænni meðferð máls, en berst engu síður erindi með rafrænum hætti, á það eftir sem áður kost á að halda meðferð málsins áfram með hefðbundnum leiðum. Við þessar aðstæður ræðst það af atvikum hvort erindi er yfirhöfuð tækt til meðferðar, t.d. ef erindi á að vera skriflegt eða undirritað.“
Viðbótarathugasemdir kæranda: Nánast engin hönnunarvinna hafi verið lögð fram um fyrirhugaðar breytingar á Lambeyrarbraut þótt framkvæmdir hafi fyrst verið kynntar í maí 2020 í tengslum við ofanflóðavarnir í nágrenni götunnar, en þá hafi íbúum hennar verið tilkynnt að Lambeyrarbraut yrði gerð að botngötu og síðar vistgötu. Ný byggingarlóð hafi fyrst verið kynnt íbúum götunnar með bréfi, dags. 10. nóvember 2020. Þá hafi kærandi svarað sveitarfélaginu og skýrt mál sitt og aðstæður þegar sveitarfélagið hafi ítrekað við hann að skila undirrituðum athugasemdum vegna deiliskipulagstillögunnar.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um málsmeðferð breytingar á deiliskipulagi Miðbæjar Eskifjarðar. Kærandi er búsettur við Lambeyrarbraut og er það svæðið sem umræddar breytingar ná til. Sendi hann athugasemdir með tölvupósti til sveitarfélagsins og lutu þær að því að deiliskipulagsbreytingin hefði ekki verið kynnt nægjanlega auk þess sem hann ítrekaði athugasemdir um fyrirhugaða byggingarlóð sem hann hafði áður komið á framfæri.
Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með auglýsingu í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, afgreitt í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd 22. mars 2021 og staðfest í bæjarstjórn Fjarðabyggðar 25. s.m. Í gögnum málsins eru athugasemdir frá eigendum Lambeyrarbrautar 2, 4, 8 og 10, en í umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir vegna deiliskipulagstillögunnar, dags. 19. mars 2021, var einungis svarað athugasemdum frá eigendum Lambeyrarbrautar 2 og 8. Var því ekki tekin afstaða til athugasemda frá kæranda sem hann sendi með tölvupósti 8. mars 2021. Skipulagsfulltrúi svaraði tölvupósti kæranda á eftirfarandi hátt: „Pósturinn er móttekinn, bið þig þó um að setja athugasemdina á pappír, undirrita og koma hingað. Jafngott er að fá þetta skannað og undirritað í tölvupóstinum.“ Kærandi kom þá á framfæri að hann væri erlendis og gæti því ekki orðið við beiðninni. Sveitarfélagið ítrekaði beiðni sína við kæranda í tvígang en hann gat ekki orðið við henni.
Um athugasemdir á auglýsingartíma er fjallað í 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga en þar segir: „Þegar frestur til athugasemda er liðinn skal sveitarstjórn taka tillöguna til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Ef engar athugasemdir eru gerðar við tillöguna er ekki skylt að taka hana aftur til umræðu í sveitarstjórn heldur skal senda hana Skipulagsstofnun. Hafi borist athugasemdir skal niðurstaða sveitarstjórnar auglýst.“ Hvergi er í lögunum fjallað um formkröfur sem gera skuli til athugasemda. Í gr. 5.6.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um auglýsingu deiliskipulagstillögu til kynningar og segir í 3. mgr. hennar að í auglýsingu deiliskipulagstillögu skuli m.a. koma fram að athugasemdir skuli vera skriflegar. Ekki er fjallað um að athugasemdir skuli vera undirritaðar.
Í samræmi við ákvæði 41. gr. skipulagslaga skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests. Jafnframt eiga þeir sem gera athugasemdir við auglýsta skipulagstillögu rétt á því að skipulagsyfirvöld taki málefnalega afstöðu til athugasemda, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Fela þessi ákvæði í sér andmælarétt þeirra sem telja sig eiga hagsmuna að gæta vegna fyrirhugaðra deiliskipulagsákvarðana en er jafnframt þáttur í rannsókn máls af sveitarfélagsins hálfu.
Athugasemdir kæranda við deiliskipulagstillöguna lutu annars vegar að því að hann gæti ekki fallist á fyrirhugaðar breytingar þar sem hann hefði ekki upplýsingar um hvaða áhrif þær myndu hafa á hans nánasta umhverfi, þ.e. við og innan hans lóðarmarka. Hins vegar lutu athugasemdirnar að fyrirhugaðri byggingarlóð og vísaði kærandi til athugasemda sem áður höfðu komið fram vegna hennar. Lutu þær m.a. að því að þegar væri þröngt um byggðina á svæðinu og ætti það við um umferð, bílastæði og gangbrautir, en fjölgun íbúða á svæðinu myndi aðeins auka á þann vanda. Með byggingu á reitnum myndi uppgróið svæði hverfa. Þá gæti reynst fordæmisgefandi að þarna væri verið að leyfa nýbyggingu á eða við hættusvæði.
Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum bar skipulagsyfirvöldum að taka athugasemdir kæranda sem borist höfðu á kynningartíma umræddrar skipulagstillögu til umfjöllunar, svara þeim og senda kæranda niðurstöðu málsins en svo var ekki gert.
Með vísan til framangreinds þykja þeir annmarkar vera á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 6. maí 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Eskifjarðar.