Á þriðja ársfjórðungi bárust úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 43 kærumál sem er 42% aukning frá sama tíma í fyrra en 35 málum var lokið (2020:30). Á tímabilinu voru kveðnir upp 38 úrskurðir (2020:25) og voru 76% þeirra lokaúrskurðir. Á ársfjórðungnum voru 9,7 stöðugildi hjá nefndinni en á sama tíma í fyrra voru þau 8,7.
Í lok þriðja ársfjórðungs voru hjá nefndinni 76 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau 44 talsins.
Á öðrum ársfjórðungi bárust nefndinni 66 kærur sem var 100% aukning frá árinu áður. Kærur voru nokkuð færri á þriðja ársfjórðungi eins og áður er nefnt, en heildarfjöldi það sem af er ári er þó 150. Það er því ljóst að það stefnir í metár í mótteknum kærum. Auk þess eru viðamikil mál áberandi í ár. Þannig hafa nítján mál varðandi fiskeldi borist það sem af er árinu en voru aðeins sjö allt árið í fyrra. Mál varðandi Suðurnesjalínu 2 voru einnig mjög viðamikil. Við þessu hefur verið brugðist með ráðningum lögfræðinga í tímabundin störf og eru stöðugildi við nefndina nú 10,5.
Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er jafnan allt að þremur mánuðum, eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum, og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 14 málum af þeim 76 sem eru óafgreidd og eru því 62 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau komin mismunandi langt í vinnslu.
Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 2,3 mánuðir sl. sex mánuði (2,3 mánuðir á sex mánaða tímabilinu sem lauk 30. júní 2021). Öllum málum var lokið innan sex mánaða á ársfjórðungnum og aðeins þrjú mál tóku lengri tíma en fimm mánuði í meðferð.
Aldur elsta óafgreidda málsins er nú rúmlega fimm mánuðir miðað við hvenær gögn bárust nefndinni og er það í augnablikinu í fresti. Átján mál eru 3 – 5 mánaða gömul og hefur hlutfallslega mikið fjölgað í þessum hópi vegna fjölgunar kæra. Önnur kærumál eru innan við þriggja mánaða gömul miðað við gagnaskil viðkomandi stjórnvalda.
Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.