Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2021 Efsti Dalur

Árið 2021, miðvikudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 4. febrúar 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Efsta-Dals 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. mars 2021, er barst nefndinni 5. s.m., kærir A, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 4. febrúar s.á. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi jarðarinnar Efsta-Dals 2 í Laugardal, sem fól í sér stofnun lóðar þar sem vélaskemma stendur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 14. apríl 2021.

Málavextir: Með kaupsamningi, dags. 19. apríl 1991, seldi þáverandi eigandi jarðarinnar Efsta-Dals 2 hluta jarðarinnar til sonar síns.­ Ber hinn seldi jarðarpartur heitið Efsti-Dalur 2, land­númer 167631, fnr. 2205918. Að fyrri eiganda látnum var bú hans tekið til opinberra skipta og samkvæmt fyrirliggjandi skiptayfirlýsingu lauk skiptum í dánarbúinu 17. janúar 2019. Þar kemur fram að í hlut sonarins sem áður hafði keypt fyrrnefndan jarðarpart hafi m.a. komið véla- og verkfæra­geymsla.­

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 11. desember 2020 var samþykkt að grenndarkynna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi Efsta-Dals umsókn um stofnun lóðar samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var um að ræða lóð undir fyrrnefnda véla- og verkfæra­geymslu sem fyrir var á svæðinu. Tillagan var grenndarkynnt fyrir eigendum aðliggjandi jarða, þ. á m. kæranda með bréfi, dags. 17. desember 2020. Athugasemd barst frá kæranda á kynningartíma tillögunnar um að umrædd véla- og verkærageymsla tilheyrði jörðinni Efsta-Dal 3, sem væri í eigu dánarbús föður kæranda. Sveitarfélagið svaraði þeirri athugasemd kæranda með tölvupósti 25. janúar 2021, þar sem skírskotað var til þess að samkvæmt skipta­yfirlýsingu hefði eignarhald þriggja fasteigna, þ. á m. véla- og verkfærageymslunnar, færst á hendur eiganda Efsta-Dals 2 við skipti dánarbúsins. ­­Á fundi sveitarstjórnar 4. febrúar 2021 var hin kærða deili­skipulagsbreyting samþykkt og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. mars s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að véla- og verkfærageymslan sem um ræði sé án sérstakra lóðaréttinda og kveðið hafi verið á um það í kaupsamningi frá 1991 um hluta jarðarinnar Efsta-Dals 2 að seljandi, faðir kæranda, hefði umferðarrétt um hlaðið í kringum skemmuna enda hún í hans eigu. Samkvæmt skiptayfirlýsingu sé kaupandi fyrrnefnds jarðar­parts Efsta-Dals 2 á árinu 1991 nú eigandi véla­skemmunnar, en hann, kærandi og tvö systkini þeirra séu hins vegar sameigendur jarðarinnar Efsta-Dals 3. Jörðin Efsti-Dalur 3 og véla­skemman séu skráð með landnúmerið 199008 og séu hluti af einni og sömu fasteign. Kærandi sé á meðal eigenda fasteignarinnar og telji ekki unnt að gera breytingar á deiliskipulagi gegn vilja hans.

Málsrök Bláskógarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð athugasemd við lýsingu kæranda á málavöxtum og telur sveitarfélagið málatilbúnað hans á misskilningi byggðan. Skemman standi í reynd innan Efsta-Dals 2 en hafi tilheyrt Efsta-Dal 3 þar til eigandi Efsta-Dals 2 hafi keypt hana við dánarbússkipti foreldra þeirra í samræmi við kaupréttarákvæði áður­nefnds kaupsamnings. Vegna kaupanna hafi þurft að stofna lóð vegna skemmunnar og því orðið að breyta deiliskipulagi. Skipulagsskilmálar fyrir svæðið hafi haldist óbreyttir og breytingin hafi ekki áhrif á núgildandi skipulag að öðru leyti en því að stofnuð sé lóð fyrir vélaskemmu sem standi á landi Efsta-Dals 2, landnúmer 167631, en fyrir deiliskipulagsbreytinguna hafi skemman verið skráð á Efsta-Dal 3, landnúmer 199008, fnr. 2274314.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar sem fól í sér stofnun lóðar þar sem fyrrgreind véla- og verkfæraskemma stendur, en af fyrirliggjandi uppdráttum og landeignaskrá Þjóðskrár af svæðinu má ráða að skemman standi innan marka jarðarinnar Efsta-Dals 2. Byggir kærandi málatilbúnað sinn á því að nefnd skemma tilheyri jörðinni Efsta-Dal 3 og sé skráð sem slík í fasteignaskrá, en sú jörð sé eign dánarbús sem kærandi eigi aðild að sem eitt barna arfláta. Ekki hafi verið aflað samþykkis kæranda sem eins erfingja dánar­búsins fyrir stofnun umræddrar lóðar við samþykkt hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklings­bundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kæru­málinu. Verður því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kæranda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta.

Eins og fram er komið fól hin kærða deiliskipulagsbreyting einungis í sér stofnun lóðar innan marka jarðarinnar Efsta-Dals 2. Mun lóðin hafa verið stofnuð að beiðni eiganda jarðarinnar. Hefur sú breyting engin grenndaráhrif gagnvart mögulegum eignum kæranda sem til hans féllu við skipti dánarbús þess sem fyrr var getið. Þá getur skipulag eða breyting á skipulagi ekki falið í sér ráðstöfun á eða afstöðu til beinna eða óbeinna eignarréttinda.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki séð að hin kærða ákvörðun geti raskað lög­­vörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.