Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

28/2021 Dunhagi

Árið 2021, þriðjudaginn 30. mars fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2021 um að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóðinni Dunhaga 18-20.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 9. mars 2021 kærir eigandi, Tómasarhaga 32, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2021 að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóðinni Dunhaga 18-20. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. mars 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 15. október 2020 var staðfest samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. s.m. um nýtt deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Auglýsing um deiliskipulagið birtist í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. janúar 2021 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um byggingaráform á lóðinni Dunhaga 18-20.

Með bréfi, dags. 17. janúar 2021, kærðu eigendur Tómasarhaga 32, þ. á m. kærandi þessa máls, framangreinda ákvörðun borgarráðs um samþykki deiliskipulags til úrskurðarnefndarinnar og gerðu kröfu um að framkvæmdir sem væru hafnar á grundvelli byggingarleyfis sem samþykkt hefði verið 12. janúar s.á. yrðu stöðvaðar eða réttaráhrifum deiliskipulagsins frestað. Er það mál nr. 8/2021.

Kærandi vísar til málatilbúnaðar síns í kærumáli nr. 8/2021 og tekur fram að hann telji deiliskipulag svæðisins ógilt. Geti þær röksemdir og sjónarmið sem færð séu fram í greindu máli ekki leitt til annars en að kröfugerð kæranda verði tekin til greina.

Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samþykkt byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag Dunhaga-Hjarðarhaga-Tómasarhaga, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 15. október 2020.

Af hálfu leyfishafa kemur fram að allar þær framkvæmdir sem framkvæmdaraðili hafi ráðist í að Dunhaga 18-20 falli undir minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar séu byggingarleyfi, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Um sé að ræða niðurrif léttra inniveggja, auk þess sem verið sé að fjarlægja húsgögn, húsbúnað og gólfefni, málsetningar teknar að núverandi glugga- og hurðargötum o.s.frv.

Niðurstaða: Með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 27. janúar 2021 í máli nr. 8/2021 synjaði úrskurðarnefndin kröfu um frestun réttaráhrifa deiliskipulags fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Kom fram í úrskurðinum að rétt væri þó að benda á að byggingaráform hefðu verið samþykkt á grundvelli hins kærða deiliskipulags. Kæra málsins tók þó ekki til nefndra byggingaráforma en í úrskurðinum kom jafnframt fram að kysu kærendur að koma að kæru vegna þeirra gætu þeir gert kröfu að nýju um stöðvun framkvæmda. Kærufrestur vegna byggingaráforma, líkt og annarra ákvarðana, væri einn mánuður frá því að kærendum varð kunnugt eða mátti verða kunnugt um þau, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var kæranda ljóst, þegar hann kom að kæru vegna deiliskipulags 17. janúar 2021, hvert væri efni þeirra umsókna sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 12. s.m. Samþykkt byggingarleyfisumsóknar er stjórnvaldsákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr., sbr. og 11. gr., mannvirkjalaga nr. 160/2010, svo sem einnig kemur fram í bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar uppkveðnum 27. janúar 2021 í kærumáli nr. 8/2021, sem kærandi er aðili að. Gat kærandi í kjölfar þess aflað sér samþykktra aðaluppdrátta til að kynna sér nánar efni hinna kærðu ákvarðana.

Kæra málsins tiltekur að kært sé byggingarleyfi útgefið 8. mars 2021. Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta umsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. mannvirkjalaga eru uppfyllt, s.s. um frekari hönnunargögn og greiðslu gjalda. Útgáfa byggingarleyfanna ein og sér felur hins vegar ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun, enda hefur efnisinnihald leyfanna þá þegar verið samþykkt af byggingarfulltrúa í samræmi við 11. gr. laganna. Í greindum bráðabirgðaúrskurði var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest vegna samþykktar nefndra byggingaráforma. Var úrskurðurinn sendur samdægurs umboðsmanni kærenda, sem jafnframt var einn þeirra, og úrskurðurinn birtur á heimasíðu nefndarinnar 28. janúar 2021. Verður með hliðsjón af öllu framangreindu að leggja til grundvallar að kæranda hafi í síðasta lagi 27. janúar 2021 mátt vera kunnugt um, í skilningi nefndrar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að unnt væri að kæra samþykki byggingarleyfisumsóknar til úrskurðarnefndarinnar. Þegar kæra þessa máls barst 9. mars s.á., tæplega 6 vikum eftir að framangreindur bráðabirgðaúrskurður var kveðinn upp, var kærufrestur því liðinn fyrir um einni og hálfri viku.

Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skal og á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu.

Með hliðsjón af þeirri vitneskju kæranda sem áður hefur verið vísað til, sem og þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin, verður hið kærða byggingarleyfi ekki tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga, heldur verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli ákvæðisins þar um.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.