Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

96/2020 Esjumelar

Árið 2021, fimmtudaginn 4. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. júlí 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6 við Bronssléttu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Kvíslartungu 92, eigandi, Laxatungu 185, eigandi, Leirvogstungu 92, eigandi, Laxatungu 10, eigandi, Vogatungu 53 og sveitarfélagið Mosfellsbær þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. júlí 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6 við Bronssléttu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. nóvember 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur 15. janúar 2020 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6 við Bronssléttu. Í breytingunni fólst m.a. heimild til að sameina nokkrar lóðir í lóðina Bronssléttu 6 og heimila þar starfsemi malbikunarstöðvar. Var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 43. gr., og samþykkti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 16. janúar 2020. Tillagan var í kjölfarið auglýst 30. s.m. og frestur gefinn til athugasemda til 12. mars s.á. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 1. júlí s.á. var breytingartillagan tekin fyrir ásamt athugasemdum sem bárust á kynningartíma hennar auk þess sem umsögn skipulagsfulltrúa frá 11. júní 2020 var lögð fram. Með vísan til 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga var tillagan samþykkt með áorðnum breytingum í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa. Á fundi borgarráðs 2. júlí s.á. var samþykkt skipulags- og samgönguráðs staðfest. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 11. september 2020.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að umrætt svæði á Esjumelum sé mjög nálægt sveitarfélagsmörkum Mosfellsbæjar og í næsta nágrenni við stóra íbúðarbyggð bæjarins, Leirvogstunguhverfi. Aðeins sé um kílómetri milli nýrrar malbikunarstöðvar og þéttrar byggðar. Fyrirhuguð malbikunarstöð hafi í för með sér neikvæð sjón- og umhverfisáhrif fyrir íbúana og muni m.a. skerða gæði útivistar, auk þess sem mengandi iðnaður kunni að hafa neikvæð áhrif á fasteignaverð íbúða á nærliggjandi svæðum. Hafa verði í huga að Reykjavíkurborg vinni nú markvisst að því að færa mengandi iðnað frá íbúðarbyggð í Reykjavík. Liður í því sé að færa slíkan mengandi iðnað á Esjumela án þess að tekið sé tillit til íbúa sem þar búi.

Kærendur sem eru íbúar og eigendur fasteigna í Leirvogstungu eigi lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála af því að fá niðurstöðu nefndarinnar um lögmæti deiliskipulagsbreytingarinnar. Jafnvel þótt hin kærða ákvörðun beinist ekki sérstaklega að kærendum þá varði hún hagsmuni þeirra og réttindi umfram aðra. Í athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi m.a. að hugtakið aðili máls beri að skýra „rúmt þannig að ekki sé einungis átt við þá sem eiga beina aðild að máli, svo sem umsækjendur um byggingarleyfi […], heldur geti einnig fallið undir það þeir sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta, svo sem nágrannar […].“ Við mat á beinum og lögvörðum hagsmunum kærenda verði því líta til þess að Esjumelar séu í næsta nágrenni við heimili þeirra. Þá séu ótalin þau sjónrænu áhrif sem fylgi malbikunarstöðvum og annarri mengandi iðnaðarstarfsemi rétt við íbúðarbyggð. Reykjavíkurborg hafi ekki kynnt breytinguna sérstaklega fyrir íbúum í Leirvogstungu og því hafi kærendum ekki verið gefinn kostur á að tjá hug sinn áður en ákveðið hafi verið að heimila mengandi iðnað skammt frá heimilum þeirra og náttúruperlum.

Lagaleg skylda hvíli á Reykjavíkurborg að haga skipulagsáætlunum sínum til samræmis við skipulagsáætlanir Mosfellsbæjar. Að sama skapi sé borginni skylt að kynna aðalskipulagsbreytingar fyrir Mosfellsbæ og því megi ætla að Mosfellsbær hafi eitthvað að segja um deiliskipulagsbreytingar sem sveitarfélagið telji ekki samræmast aðalskipulagi. Skipulagslöggjöfin geri beinlínis ráð fyrir að hagsmunir aðliggjandi sveitarfélaga fari saman við uppbyggingu á svæðum á sveitarfélagamörkum og leiði lögvarðir hagsmunir Mosfellsbæjar því af lögum. Sveitarfélagið hafi augljósra hagsmuna að gæta af uppbyggingu á iðnaðarsvæðum á Esjumelum, enda sé fyrirséð að slík landnotkun muni hafa verulega takmarkandi áhrif á athafnir þess og skipulagsáætlanir til frambúðar. Til dæmis kunni mengun og aukin umferð vörubíla og stórvirkra vinnuvéla frá slíku iðnaðarsvæði að takmarka möguleika sveitarfélagsins á uppbyggingu þeirra svæða sem standi næst Esjumelum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi deiliskipulagsbreytingarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hafi þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Ekki sé með neinu móti hægt að sjá að kærendur eigi hagsmuni tengda málinu, hvað þá að þeir hagsmunir geti talist verulegir.

Fasteignir kærenda séu í um 1,5 km fjarlægð frá hinni fyrirhuguðu starfsemi og verði ekki séð að mannvirki verði í augsýn frá fasteignum kærenda þótt ekki sé loku fyrir það skotið að einstakir byggingarhlutar muni mögulega sjást frá einhverjum af lóðum kærenda. Lóð malbikunarstöðvarinnar sé staðsett á bak við þau mannvirki sem þegar hafi risið á Esjumelum. Þótt mögulega sjáist í topp einhverra mannvirkja malbikunarstöðvarinnar frá fasteignum kærenda geti það ekki haft áhrif á hagsmuni þeirra. Réttur til óbreytts útsýnis um aldur og ævi sé auk þess ekki bundinn í lögum. Kærendur hafi ekki einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Einnig beri að vísa kæru Mosfellsbæjar frá nefndinni þar sem sveitarfélagið geti hvorki talist aðili að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né átt þá einstaklega lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem séu skilyrði kæruaðildar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka að samkvæmt athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri að skýra hugtakið aðili máls rúmt þannig að þeir sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta falli einnig undir það. Í athugasemdunum segi einnig að ómögulegt sé að gefa ítarlegar leiðbeiningar um það hvenær maður teljist aðili máls og hvenær ekki, heldur ráðist það af málsatvikum hverju sinni. Það ráðist m.a. af því hvaða svið stjórnsýslunnar sé um að ræða. Ljóst sé að skoða verði eðli framkvæmdarinnar, starfsemina sem henni fylgi og hugsanleg áhrif hennar á kærendur við mat á því hvort þeir geti talist hafa lögvarinna hagsmuna að gæta. Við það mat verði að líta til þess að kærendur búi ásamt fjölskyldum sínum í Leirvogstunguhverfi. Um sé að ræða tiltölulega nýtt og fjölskylduvænt hverfi þaðan sem m.a. sé stutt að sækja í ýmis konar útivist. Hagsmunir þeirra einskorðist því ekki við nákvæma staðsetningu fasteigna þeirra heldur sé óhjákvæmilegt að líta til svæðisins í heild, bæði varðandi sjónræna þætti og með tilliti til annarrar mengunar og afleiddra áhrifa.

Hafið sé yfir allan vafa að umrædd malbikunarstöð teljist til mengandi iðnaðar en um það vísist til þeirra krafna sem gerðar séu til starfsemi malbikunarstöðva. Slíkar kröfur séu ekki gerðar nema þegar mengunarhætta sé til staðar og því augljóst að malbikunarstöðvar flokkist undir mengandi starfsemi. Hér megi einnig vísa til þeirra gagna sem legið hafi til grundvallar þegar aðalskipulagi borgarinnar á Esjumelum hafi verið breytt varðandi iðnað og aðra landfreka starfsemi. Í umhverfisskýrslu sem unnin hafi verið fyrir Reykjavíkurborg í febrúar 2019 séu malbikunarstöðvar t.a.m. skilgreindar sem „meira mengandi starfsemi“, og sé þar jafnframt tiltekið að slík starfsemi falli undir skilgreiningu „iðnaðarsvæða“. Fram hafi komið í auglýsingu hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar að markmiðið væri að „tryggja aukið framboð lóða fyrir mengandi iðnað […]“. Áhrif malbikunarstöðvarinnar takmarkist því ekki við sjónræna þætti líkt og borgin reyni að halda fram í greinargerð sinni. Mengun kunni auðveldlega að berast um svæðið og því megi ætla að starfsemin hafi áhrif á lífsgæði kærenda. Þá sé fyrirséð að þungaflutningar muni aukast á svæðinu með tilheyrandi mengun og áhrifum á almenna umferð. Í öllu falli séu áhrifin óljós og því eðlilegt að kærendur hafi eitthvað um málið að segja, enda verði að túlka óvissu um mengun og áhrif hennar á íbúa kærendum í hag. Að auki hafi mengandi iðnaðarstarfsemi bein áhrif á verðmæti fasteigna kærenda og ímynd hverfisins.

Bent sé að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi í máli nr. 133/2019 talið að kærendur hefðu lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um að samþykkja deiliskipulag sem heimilaði byggingu svínabús í ríflega kílómetra fjarlægð frá íbúðarhúsum kærenda. Sagði þar m.a. að í ljósi eðlis þeirrar starfsemi sem hið kærða deiliskipulag hafi gert ráð fyrir sé ekki unnt að útiloka að hún geti snert hagsmuni kærenda, t.a.m. vegna lyktarmengunar. Sömu sjónarmið eigi við í því máli sem hér sé til umfjöllunar. Sú mengun og önnur áhrif sem stafi frá malbikunarstöðinni sé vafalaust meira heilsuspillandi heldur en lyktarmengun sem stafi frá svínabúum.

Líta verði til þess að Mosfellsbær hafi óumdeilanlega aðildarstöðu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Tillaga að deiliskipulaginu hafi t.a.m. verið send bænum til umsagnar í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 um að aðliggjandi sveitarfélögum beri að samræma skipulagsáætlanir sínar. Að auki feli skipulagslög sveitarfélögum það hlutverk að fara með hagsmuni íbúanna eins og atvikum sé háttað í þessu máli. Af þeirri ástæðu hljóti sveitarfélagið einnig að hafa einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta. Þannig leiði hinir lögvörðu hagsmunir bæjarins í málinu beinlínis af lögum. Þá verði að horfa til þess að fulltrúar borgarinnar hafi fundað með fulltrúum Mosfellsbæjar og gefið bænum kost á að leggja inn frekari og ítarlegri athugasemdir síðar í ferlinu. Verði bærinn ekki talinn eiga lögvarða hagsmuni myndi það ganga gegn meginreglunni um að sá sem eigi aðild að máli á lægra stjórnsýslustigi eigi jafnframt aðild á æðra stjórnsýslustigi.

Mosfellsbær sé einnig eigandi að landsvæði á sveitarfélagamörkum og sé sveitarfélaginu því unnt að gæta hagsmuna sinna með sambærilegum hætti og einkaréttarlegur aðili. Allar íbúðarhúsalóðir í Leirvogstunguhverfi séu leigulóðir í eigu sveitarfélagsins. Þessar landareignir séu í um 6-700 m fjarlægð frá deiliskipulagssvæðinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi. Felur breytingin m.a. í sér að sameina nokkrar lóðir í lóðina Bronssléttu 6 og heimila þar starfsemi malbikunarstöðvar, en málsrök kærenda snúa einvörðungu að þeirri breytingu skipulagsins.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Við mat á því hvort kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Almennt ber því að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Verður því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta.

Sveitarfélagið Mosfellsbær vísar m.a. til þess að lögvarðir hagsmunir þess leiði af skipulagslögum nr. 123/2010 þar sem löggjöfin geri ráð fyrir að hagsmunir aðliggjandi sveitarfélaga fari saman við uppbyggingu á svæðum á sveitarfélagamörkum. Sú landnotkun sem heimiluð er með hinu kærða deiliskipulagi hafi verulega takmarkandi áhrif á athafnir sveitarfélagsins og skipulagsáætlanir til frambúðar. Þá verði að líta til þess að sveitarfélagið hafi óumdeilanlega haft aðildarstöðu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga annast sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulags og ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Taki deiliskipulagstillaga til svæðis sem liggur að mörkum aðliggjandi sveitarfélags skal tillagan kynnt sveitarstjórn þess sveitarfélags skv. 41. gr. skipulagslaga. Að öðru leyti gera lögin ekki ráð fyrir aðkomu nágrannasveitarfélaga við deiliskipulagsgerð annars sveitarfélags en samráð nágrannasveitarfélaga um sameiginleg hagsmunamál á vettvangi skipulagsmála fer fram við gerð svæðis- og aðalskipulags. Verður því ekki fallist á að sérstök kæruaðild Mosfellsbæjar sem sveitarfélags verði leidd af skipulagslögum.

Um lögvarða hagsmuni kærenda sem eigenda fasteigna í nágrenni umrædds deiliskipulagssvæðis er vísað til þess að aðeins sé um kílómetri milli nýrrar malbikunarstöðvar og íbúðarbyggðarinnar Leirvogstunguhverfis. Fyrirhuguð malbikunarstöð muni hafa í för með sér neikvæð sjónræn- og umhverfisáhrif fyrir íbúana og skerða gæði útivistar, auk þess sem mengandi iðnaður kunni að hafa neikvæð áhrif á fasteignaverð íbúða á nærliggjandi svæðum. Hefur sveitarfélagið Mosfellsbær jafnframt bent á það eigi landareignir í um 6-700 m fjarlægð frá deiliskipulagssvæðinu og sé sveitarfélaginu því unnt að gæta hagsmuna sinna með sambærilegum hætti og einkaréttarlegur aðili.

Við mat á því hvort kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður að líta til þess að fasteignir kærenda í Leirvogstunguhverfi eru í u.þ.b. 1,3-1,9 km fjarlægð frá fyrirhugaðri malbikunarstöð og landareignir Mosfellsbæjar eru í tæplega kílómetra fjarlægð þar sem þær eru næst stöðinni. Liggur Vesturlandsvegur á milli deiliskipulagssvæðisins annars vegar og Leirvogstunguhverfis og hluta landareigna sveitarfélagsins hins vegar. Aðrar þær landareignir sveitarfélagsins sem gætu skapað þeim einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni liggja í næsta nágrenni vegarins. Ekki verður séð að grenndarhagsmunir kærenda muni skerðast að nokkru marki hvað varðar landnotkun eða útsýni enda þótt þeir eygi t.d. reyk frá reykháfi fyrirhugaðrar stöðvar. Sama á við um mögulegan hávaða frá verksmiðjunni þegar tekið er tillit til staðhátta. Í umhverfismati skipulagsins er greint frá því að starfsemi malbikunarstöðvarinnar geti mögulega haft neikvæð áhrif á aðliggjandi svæði vegna loftmengunar en með síubúnaði frá útblæstri og með rykbindingu sé hægt að halda því í lágmarki. Áhrif breytingarinnar séu því metin óveruleg/neikvæð. Hvað hljóðmengun varði sé nokkur hvinur frá tækjum og einnig áhrif frá umferð stórra vinnuvéla og þungaflutningabifreiða en vegna staðsetningar og fjarlægðar frá byggð séu þau áhrif talin óveruleg.

Starfsemi sú sem fjallað er um í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er mengandi og háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar, en starfsemin fellur ekki undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Um varnir gegn loftmengun er fjallað í ýmsum reglugerðum. Markmið reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði er m.a. að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum loftmengunar á heilsu manna og umhverfið. Í því skyni mælir 5. gr. reglugerðarinnar fyrir um að í ákvæðum starfsleyfa fyrir mengandi atvinnurekstur skuli viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun og að beita skuli til þess bestu fáanlegu tækni. Í reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit er í 52. gr. fjallað um loftgæði. Samkvæmt henni skulu ábyrgðaraðilar starfsleyfisskylds atvinnurekstrar, sbr. m.a. IX. viðauka sem tilgreinir malbikunarstöðvar, sem hefur í för með sér losun mengandi efna í andrúmsloft, gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með umhverfisstjórnun og hreinsibúnaði, til að draga úr slíkri losun eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð um loftgæði og reglugerð nr. 920/2016 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu, styrk ósons við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings. Meðal markmiða síðargreindrar reglugerðar er að setja viðmiðunar- og viðvörunarmörk fyrir nefnd efni sem miða að því að fyrirbyggja eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og umhverfið í heild, sbr. b. lið 1. gr. Gildir reglugerðin m.a. um atvinnurekstur hér á landi, sbr. 2. mgr. 2. gr. Þá er jafnan í starfsleyfum vegna starfsemi malbikunarstöðva kveðið á um varnir gegn mengun ytra umhverfis, s.s. losunarmörk fyrir útblástur og þann hreinsibúnað sem skal vera til staðar, auk þess sem rekstraraðila ber að nota bestu aðgengilegu tækni við mengunarvarnir, sbr. reglugerð nr. 935/2018 um BAT (bestu aðgengilegu tækni) o.fl. á sviði atvinnurekstrar sem haft getur í för með sér mengun. Verður að gera ráð fyrir að hliðstæð skilyrði verði sett þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er og þannig verði dregið úr þeirri loftmengun sem óhjákvæmilega fylgir starfseminni. Þótt ekki sé hægt að útiloka að loftmengun aukist með fyrirhugaðri starfsemi og hafi e.t.v. einhver áhrif á hagsmuni kærenda verður að líta til þess að samkvæmt gögnum frá Veðurstofu Íslands er vindafar deiliskipulagssvæðisins hagstætt gagnvart Leirvogstunguhverfi. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af þeirri fjarlægð sem fyrrgreindar eignir eru í frá fyrirhugaðri starfsemi verður ekki talið að möguleg áhrif vegna loftmengunar séu með þeim hætti að varðað geti hagsmuni kærenda svo verulega að þeir eigi þá einstaklingsbundnu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra sem skapi þeim kæruaðild. Loks lúta málsrök kærenda um skert gæði útivistar og áhrif á náttúruperlur fyrst og fremst að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna en ekki einstaklega.

Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir hin umdeilda starfsemi sem heimiluð er með kærðri deiliskipulagsbreytingu ekki þess eðlis að það snerti grenndarhagsmuni kærenda eða aðra einstaklega lögvarða hagsmuni þeirra með þeim hætti að þeir geti talist eiga kæruaðild í máli þessu. Þar sem skilyrðum kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 telst ekki fullnægt verður kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

Sérálit Aðalheiðar Jóhannsdóttur prófessors: Ég er ósammála þeirri niðurstöðu meirihlutans að vísa málinu frá og tel að taka eigi málið til efnismeðferðar með eftirfarandi rökum.

Við mat á því hvort kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður að líta til þess að malbikunarstarfsemi er mengandi iðnaður og sem slíkur háður starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Fasteignir kærenda í Leirvogstunguhverfi eru í u.þ.b. 1,3-1,9 km fjarlægð frá fyrirhugaðri malbikunarstöð og landareignir Mosfellsbæjar eru í tæplega kílómetra fjarlægð þar sem þær eru næst stöðinni. Í starfsleyfum vegna starfsemi malbikunarstöðva er jafnan kveðið á um varnir gegn mengun ytra umhverfis, s.s. losunarmörk fyrir útblástur og þann hreinsibúnað sem skal vera til staðar, auk þess sem rekstraraðila ber að nota bestu aðgengilegu tækni (BAT) við mengunarvarnir. Þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir að hliðstæð skilyrði verði sett þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er á skipulagssvæðinu verður þó ekki hjá því litið að loftgæði munu að öllum líkindum minnka í nágrenni stöðvarinnar. Kemur enda fram í umhverfismati skipulagsins að starfsemin geti mögulega haft neikvæð áhrif á aðliggjandi svæði vegna loftmengunar. Að því virtu er ekki hægt að útiloka að kærendur verði fyrir áhrifum af loftmengun og öðru ónæði frá starfseminni umfram aðra og með vísan til þeirra sjónarmiða sem reifuð eru fremst í niðurstöðu meirihlutans um aðild að kærumálum er það mat mitt að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem krafist er skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.