Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2020 Akrahverfi

 

Árið 2020, föstudaginn 25. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 87/2020, kæra á samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. september 2020 á tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Byggakri 22, Garðabæ, og eigendur, Byggakri 20, samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. september 2020 á tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 24. september 2020.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 10. september 2020 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur. Í bókun nefndarinnar kom fram að tillagan gerði ráð fyrir því að flatarmál neðri hæðar hússins, þ.e. kjallara, yrði stærri en 70% að flatarmáli aðalhæðar. Innréttað hafi verið herbergi í djúpum kjallara með gólfsíðum gluggum og svæði á lóð í sömu hæð. Áður hafi verið veitt leyfi fyrir kjallararýminu sem tæknirými án glugga. Hafi sú tillaga verið samþykkt sem frávik frá deiliskipulagi. Gluggar á umræddu rými breyti þeim forsendum. Mat nefndin tillöguna sem svo að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og vísaði henni til grenndarkynningar. Á fundi bæjarráðs 15. september 2020 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna umræddar deiliskipulagsbreytingar. Samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 17. s.m.

Kærendur benda á að ekki sé um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða og því verði að fara með framkomna breytingu eftir 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga en ekki undantekningarákvæði 2. mgr. 43. gr. Breytingin feli í sér stefnumarkandi ákvörðun fyrir Akrahverfi. Kærendur geti staðið frammi fyrir orðnum hlut ef ekki verði tekin afstaða til lögmætis málsmeðferðarinnar áður en grenndarkynningu deiliskipulagsbreytingarinnar verði lokið og hún eftir atvikum staðfest.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar frá 17. september 2020, um að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur, er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur liður í málsmeðferð deiliskipulagsbreytingar. Ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingu um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Verður henni þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá deiliskipulagsbreytingin og öll málsmeðferð hennar, þ. á m. hvort farið er með er með hana sem óverulega eða verulega breytingu á deiliskipulagi, lögmætisathugun nefndarinnar.

Þar sem ekki liggur fyrir lokaákvörðun í máli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.