Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

37/2020 Leynisbrún

Árið 2020, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 37/2020, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Grindavíkurbæjar frá 23. mars 2020 á umsókn um byggingarleyfi vegna Leynisbrúnar 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. maí 2020, er barst nefndinni 13. s.m., kærir eigandi fasteignarinnar að Leynisbrún 6, Grindavík, „…ákvörðun skipulagsnefndar Grindavíkur frá 23. mars 2020 um að veita byggingarleyfi vegna byggingaráforma við Leynisbrún 4…“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Umsókn eiganda hússins nr. 4 við Leynisbrún um leyfi fyrir viðbyggingu við bílgeymslu fasteignarinnar var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Grindavíkurbæjar 3. febrúar 2020. Lagði skipulagsnefnd til að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum í nærliggjandi húsum. Erindið var grenndarkynnt frá 12. febrúar til 11. mars 2020. Bárust athugasemdir frá kæranda. Umsóknin var aftur tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 23. mars s.á. þar sem bókað var að grenndarkynning vegna byggingaráforma við Leynisbrún 4 hefði farið fram. Ein athugasemd hefði borist sem hefði verið tekin fyrir en ekki tekin til greina. Þá var bókað að skipulagsnefnd samþykki byggingaráformin og byggingarfulltrúi gæfi út byggingarleyfi þegar tilskyldum gögnum hefði verið skilað inn.

Kærandi heldur því m.a. fram að ákvörðun skipulagsnefndar bæjarins sé ófullnægjandi, hlutdræg og andstæð skipulagslögum nr. 123/2010 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Af hálfu bæjaryfirvalda er m.a. bent á að vísa eigi kærunni frá í heild sinni þar sem ekki sé um lokaákvörðun máls að ræða, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kveðið á um það að ákvarðanir skipulagsnefnda sveitarfélaga eða sveitarstjórna séu ekki lokaákvarðanir í málum hvað varði útgáfu byggingarleyfa á grundvelli grenndarkynningar samkvæmt 44. gr. skipulagslaga, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í kærumáli nr. 166/2016.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.

Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, en þá skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er tiltekið í lagagreininni að þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr sömu laga. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis í kjölfar grenndarkynningar er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki sem eru rakin hér að framan.

Í því máli sem hér um ræðir lét skipulagsnefnd fara fram grenndarkynningu, en úrskurðarnefndin hefur fengið staðfest frá bæjaryfirvöldum að byggingarfulltrúi hafi ekki haft aðkomu að málinu. Jafnframt að í kjölfar samþykktar skipulagsnefndar sendi umsækjandi teikningar og skráningu iðnmeistara til byggingarfulltrúa sem gefi út byggingarleyfi í kjölfarið, en þetta skref hafi þó ekki verið tekið í máli þessu vegna þess ágreinings sem væri uppi.

Hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar frá 23. mars 2020 er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur liður í málsmeðferð sem lýkur með ákvörðun byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi hefur hins vegar ekki veitt leyfi til hinna umdeildu framkvæmda eins og áskilið er í mannvirkjalögum. Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun í máli þessu verður ekki hjá því komist að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Þó þykir rétt að benda á að veiti byggingarfulltrúi leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku þá í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.